+ Helga Einarsdóttir + minningarorð

Helga EinarsdóttirMörg börn heimsins hafa legið á bakinu og horft upp í himininn, undrast stjörnumergðina og rekið upp undrunaróp þegar loftsteinn strikar næturhimininn. Svo þegar bætt er við tölum eða vitund um stærð vetrarbrautar og geimsins verður jarðarkúlan lítil og mannveran sem liggur á bakinu og leyfir sér að synda á yfirborði afgrunnsins verður sem smásteinn í fjöru. Matthías Johannessen líkti í einu ljóða sinna manneskjunni við sandkornið á ströndinni og bætti við að kæleikur Guðs væri sem hafið. Við erum óteljandi börn lífsins á strönd tímans, mannabörn, sem leikum og lifum í flæðarmáli. Og það er undursamlegt að vona og trúa að við séum ekki leiksoppar rænulauss öldugangs og án tilgangs, heldur umvafin lífi, í kærleiksfangi. Annað skáld, mun eldra – höfundur 8. Davíðssálms Biblíunnar, vísar til hinnar sammannlegu reynslu að horfa upp í himininn og undrast og vinna með smæð mennskunnar. Hann segir:

Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað, hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess? Þú lést hann verða litlu minni en Guð, með sæmd og heiðri krýndir þú hann.

Hvað er maðurinn, hvað ert þú? Öll erum við dýrmæti. Hin kristna nálgun er að hver einasta mannvera sé undursamleg og stórkostleg. Jesús Kristur hvetur alla menn til að meta líf sitt og einnig að umgangast aðra sem djásn og vini Guðs. Og þannig megum við íhuga hið merkilega líf Helgu Einarsdóttur. Hún lifði líka þannig að líf fólks varð betra af því hún veitti til þeirra lífi og varð öðrum lífvaki. Guð minnist hennar, Guð varðveitir hana. Og þakkarandvarp sálmaskáldsins fyrir þúsundum ára var og má endurhljóma meðan börn íhuga dýptir og hæðir, stjörnur lifa og tungl og sólir lýsa: „Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!“

Æfistiklur

Æfi Helgu var margþætt og merkileg. Bernska hennar var stórfelld og íhugunarefni. Hún eignaðist góðan maka og megnið af starfsæfi hans bjuggu þau á landsbyggðinni. Svo varð til þriðja skeiðið þegar þau hjón komu í bæinn og Helga hóf nýjan feril og blómstraði í félagslífi borgarinnar.

Helga Einarsdóttir fæddist 6. desember árið 1922 á Ketilstöðum í Vallahreppi, S-Múlasýslu. Foreldrar hennar voru Margrét J. Jónsdóttir og Einar G. Markússon. Þau voru aldamótafólk – hann fæddist árið 1896 en hún aldamótaárið. Þau Margrét og Einar eignuðust tvö börn en skildu. Hjúskaparslitin urðu til að Helga dýrkeypt fór á mis við samskipti við föður sinn á bernsku- og unglings-árum eða til fullorðinsára þegar hún kynntist honum og þá einnig albróður sínum.

Foreldrar Helgu, Einar og Margrét, gengu í hjónaband að nýju. Albróðir Helgu var Jón Sigfús Einarsson og var liðlega tveimur árum eldri en systir hans. Hann er látinn. Hálfbræður Helgu eru Þráinn S. Þórarinsson og Óðinn G. Þórarinsson. Fóstursystir er Edda Stefáns Þórarinsdóttir. Hálfbræðurnir og fóstursystir lifa Helgu.

Þegar foreldrar Helgu skildu árið 1924 flutti Margrét með börnin suður til foreldra sinna í Reykjavík. Helga varð Reykjavíkurdama og þar naut hún hefðbundinnar skólagöngu þess tíma. Móðir hennar fór austur aftur en Helga varð eftir hjá ömmu sinni og afa.

Það er áleitið íhugunarefni að í frumbernsku tapaði Helga sambandi við föður sinn og sá hann ekki fyrr en sautján ára. Eldri bróðir hennar fór líka og móðir hennar einnig. Hvað gerist í sálarlífi barns við slíkar aðstæður? Hvaða áhrif höfðu þessar fjarvistir á hana og hvaða áhrif hafði það á persónumótun hennar? Getur verið að mannelska Helgu sé æfiviðbragð við æskureynslu? Getur verið að Helga hafi tamið sér að grennslast fyrir um líðan og reynslu fólks af því hún hafði sjálf upplifað mikið og skildi vel tilfinningar annarra? Var Helga svona einbeitt fjölskyldukona af því hún hafði séð ástvini fara langt í burtu? Við þekkjum ekki öll svörin en gjöful var hún og helg í gjafmilidi sinni og lífsfestu alla tíð.

Hjúskapur og fjölskylda

Svo var það ástin og ástvinirnir. Helga fór sautján ára til sumardvalar hjá föður sínum eystra og í framhaldi af þeirri dvöl var hún á Fáskrúðsfirði. Þar fann hún mannsefni sitt. Í miðju stríðinu fór Helga á ball og þar var líka Oddur Sigurbergsson frá Eyri í Fáskrúðsfirði. Hann var frábær dansari og þau féllust í faðma og dönsuðu eftir það lífsdansinn saman. Hún var tvítug þegar þau gengu í hjónaband þann 27. mars árið 1943. Og Helga var í fjólubláum kjól! Síðan áttu þau Oddur langt, gott og farsælt líf saman með ýmsum taktskiptum.

Oddur þjónaði Samvinnuhreyfingunni dyggilega og starfaði lengstum við stjórn kaupfélaga. Lengi bjuggu þau hjón á Suðurlandi, á Hvolsvelli, í Vík í Mýrdal og síðan á Selfossi. Í Vík og á Selfossi var Oddur mikils metinn kaupfélagsstjóri. Helga sá um heimilisreksturinn. Gestkvæmt var á heimilinuog þau hjón höfðingjar heim að sækja. Mörgum þótti ævintýralegt að njóta gestrisni Helgu, matreiðslan var rómuð og kitlað var við augu þegar borð voru dekkuð og matur fram borinn. Helga naut sín vel sem gestgjafi.

Helga hafði alla tíð gleði af samskiptum við fólk og var afar félagslega hæf. Þegar þau Oddur fluttu til Reykjavíkur árið 1983 opnuðust Helgu nýjar samfélagsvíddir og hún lagði mannúðar- og líknarfélögum lið. Hún gekk til liðs við Kvenfélagið Hringinn og starfaði m.a. um árabil í basarnefnd félagsins. Hún var einnig félagi í Kvennadeild Rauða Krossins og vann m.a. í verslun deildarinnar á Landspítala. Þá var hún virk í Félagi aðstandenda alzheimersjúklinga. Síðustu árin bjuggu þau Oddur á Þorragötu 5 í Reykjavík. Oddur lést árið 2001.

Helga og Oddur eignuðust dótturina Margréti. Hún kom í heiminn í september árið 1945 og starfaði m.a. sem dagskrárstjóri hjá Ríkisútvarpinu. Maður hennar er Hörður Filippusson, lífefnafræðingur og prófessor. Dætur þeirra eru Helga Brá Árnadóttir og Þórunn Dögg Harðardóttir. Í frumbernsku bjuggu þær um tíma hjá afa og ömmu á Selfossi og tengslin urðu djúp og öllum til blessunar. Áttu systurnar sitt annað heimili hjá afa og ömmu alla tíð. Fyrir umönnun dætranna á þeirra fyrstu árum þakkar Margrét af heilum hug.

481627_517755191577375_1951666811_n

Helga Brá er verkefnisstjóri við Háskóla Íslands. Eginmaður hennar er Jón Gunnar Þorsteinson. Þau eiga dæturnar Margréti Láru og Þórunni Helenu. Eldri börn Jóns Gunnars eru Þorsteinn Gunnar og Valgerður.

Þórunn Dögg Harðardóttir starfar sem ráðgjafi hjá Athygli-Ráðstefnum. Maður hennar er Jón Erling Ragnarsson. Dætur þeirra eru Una Brá, Andrea Rós og Telma Ösp. Það var æfiverkefni Helgu að hlúa að fólkinu sínu og efla.

Eigindir

Helga var gifturík, hæfileikarík og sterk. Hvernig minnist þú hennar? Manstu hlýja og glaðværa nærveru hennar? Manstu brosið og nærfærna hlustun og hve auðvelt hún átti með að tala við fólk á öllum aldri og gerði sér ekki mannamun? Hún átti ekki aðeins vinkonur á sínum aldri. Kynslóðabil gufuðu upp í Helgutengslunum. Hún var eins kunnáttusöm og afburðadiplómat í samkvæmum, fór á milli gesta, lagði skemmtilegheit til samkomuhaldsins og hlý orð til þeirra sem hún hitti. Hún hafði áhuga á líðan og tilfinningum, atburðum og viðburðum, áföngum og áformum fólks. Og hún studdi og samgladdist. Ungt fólk átti í Helgu jafn örugga vinkonu og þau eldri. Helga hlustaði vel, dæmdi ekki og var því elskuð af mörgum sem þótti gott að njóta styrks hennar.

Manstu hve vel Helga studdi allt sitt fólk? Og hún umvafði ekki bara bónda sinn, dóttur, tengdason og ömmudætur heldur langömmubörnin sömuleiðis, mat þau mikils, hvatti til dáða, bjó þeim athvarf og var alltaf reiðubúin að gera þeim greiða og allt það gagn sem hún mátti. Helga var fjölskyldukona og gjafmild ættmóðir sem uppskar elsku síns fólks vegna þess að hún elskaði af örlæti.

Manstu listina í Helgu? Hún var ljóðelsk og músíkölsk. Hún var laghent hannyrðakona og saumaði föt á fólkið sitt. Hún hafði sitt litakort á hreinu og var vandvirk með ásýnd og fyrirkomulag á heimili og hannyrðum. Og alla tíð var Helga flott í tauinu og Oddur einnig, glæsilegt par. Helga var flínkur kokkur og hikaði ekki við að leyfa gúrmetískum straumum að ná inn í kokkhúsið sem ástvinir hennar og gestir nutu.

Manstu hve Helga lyfti sér yfir aldur og árafjölda – hve síung hún var? Hún var eiginlega góður fulltrúi núvitundar, hlustaði og mat mál hvers tíma. Í Helgu bjó hlátur, kátína og lífsgáski sem smitaði vel til allra þeirra sem umgengust hana. Og allt til enda varðveitti Helga íhygli og skerpu. Er það ekki hrífandi að þegar stutt var eftir ævinnar velti hún vöngum yfir hvað væri sameiginlegt í þögnum tónlistar Arvo Pärt og litum í myndlist Georgs Guðna? Það er sláandi fyrir okkur sem höfum metið báða listamenn. Þessi saga er lykilsaga um Helgu. Dauðinn nálgaðist en hún varðveitti lífsgetuna til að hugsa estetíska djúpþanka. Er ég horfi á himininn, hlusta á tónlistina, nem litina, hvað er þá lífið, fegurðin og manneskjan? Þökk sé Helgu Einarsdóttur fyrir gjafmildi hennar. Í lífi hennar ríkti fegurð og örlæti sem ástvinir, já við öll, getum þakkað, því hún þorði að vera. Það er að virða kall Guðs til að lifa vel.

Og nú er hún horfin inn í himininn.

Dótturdætur og heimagangar hjá afa og ömmu urðu vitni að því að þau leiddust í svefni. Hendur Helgu og Odds féllu saman í kyrrð næturinnar. Og nú er langa nóttin komin – en afturelding einnig. Tími þeirra í heimi er liðinn en eilífðin er opin. Mynd af samfelldum höndum er einhver yndislegasta himinmynd sem hægt er að draga upp fyrir hugskotstjónum okkar sem kveðjum í dag. Að hendur ástvina falli saman og við fáum að leiðast í eilífðinni er vonarefni okkar allra.

Guð geymi Helgu, Odd og allan ættboga þeirra – og gefi þeim frið.

Og Guð geymi þig og blessi.

Amen.

Minningarorð við útför í Dómkirkjunni 27. apríl, 2016. Kl. 13.

Bálför. Kistan borin út eftir athöfn en jarðsett síðar í Gufuneskirkjugarði. Erfidrykkja á Hótel Borg eftir athöfn.