Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

Sigríður Steinunn Lúðvígsdóttir – minningarorð

Sigga Steina valdi alltaf lífið og elskaði skilyrðislaust. Mér þótti hrífandi að hlusta á ástvini hennar lýsa hve fast hún hélt í allt sem gladdi og blessaði.

Sögurnar sem þau sögðu um hana voru í mínum eyrum páskasögur – að lífið lifir – sögur um að lífið er sterkari en dauðinn. Sigríður Steinunn var lífs megin og fer inn í líf himinsins.

 

Páskar

Biblíutextarnir, sem lesnir eru í kirkjum heimsins á páskum, segja frá sorgbitnum konum. Þær höfðu ekki aðeins misst vin í blóma lífsins, heldur líka málstað. Konurnar á leið til grafar á páskamorgni voru á leið að lokaðri gröf. Á þeirri sorgargöngu voru þær fulltrúar alls mannkyns. Við missum, veikjumst, óttumst og lendum í ógöngum. Í lífi allra manna verða áföll – við erum öll föstudagsfólk.

Að baki löngum föstudegi er sunnudagur og páskar. Þegar harmþrungnar konurnar komu í garðinn var steinninn frá og gröfin tóm. Konurnar urðu fyrir reynslu, sem síðan hefur verið sögð og íhuguð. Þá lenti föstudagsfólkið í sunnudagsfréttunum. Gröfin sleppti feng sínum og lífið lifir. Páskaboðskapinn breytir veröldinni. Hún er ekki lengur lokað kerfi tilveru til dauða. Ekkert er svo slæmt, engin áföll eru svo stór, að Guð geti ekki, megni ekki að koma þar að með hjálp sína og gleði. Við megum vera sunnudagsfólk, páskafólk, lifa í því ljósi og deyja til þess bjarta og góða lífs. Sigga Steina fer inn í ljósið.

Upphaf og ætt

Sigríður Steinnunn fæddist 18. ágúst árið 1933. Hún átti sama afmælisdag og Reykjavíkurborg og þótti ljómandi gott að flaggað var í Reykjavík á þeim degi, henni til heiðurs – en borginni einnig.

Foreldrar hennar voru hjónin Sigríður Hallgrímsdóttir (1899-1992) og Lúðvíg Guðmundsson (1897-1966). Sigga Steina var yngsta barn þeirra. Eldri voru Hallgrímur sem fæddist árið 1927. Ingveldur Gröndal fæddist árið 1929 og Guðmundur Áki fæddist árið 1931. Ingveldur og Guðmundur lifa systkini sín.

Lúðvíg var fjölmenntaður maður, lærði m.a. náttúrufræði, læknisfræði, heimspeki og guðfræði og var vel að sér í þýsku og þýskum bókmenntum og menningu. Hann var einn af kröftugstu skólamönnum þjóðarinnar um miðbik tuttugustu aldar. Hann starfaði við kennslu og skólastjórn – á Ísafirði, við Hvítárbakkaskóla í Borgarfirði og síðast í Reykjavík.

Móðir Sigríðar Steinunnar hafði lært tónlist í Danmörk og var hinum dugmikla Lúðvíg, manni sínum, jafnoki. Þau bjuggu á Ísafirði þegar Sigríður Steinunn fæddist. Hallgrímur, elsta barn þeirra, veiktist alvarlega í æsku og foreldrarnir leituðu honum lækninga erlendis. Það varð til þess að börnunum var komið um tíma fyrir hjá ættingjum. Sigga Steina fór til Soffíu, móðursystur í Borgarnesi. Hún var aðeins fjögurra ára þegar hún fór af heimili sínu fyrir vestan og fólkið hennar í Borgarnesi var henni gott. Henni þótti afar vænt um það alla tíð síðan.

Í Reykjavík

Þegar Sigríður kom aftur heim til Íslands með Hallgrím sameinaðist fjölskyldan að nýju og þá í Reykjavík. Það var þeim öllum mikill fagnaðartími. Árið 1939 stofnaði Lúðvíg Handíða- og myndlistaskólann sem síðar var nafnbreyttur í samræmi við breyttar áherslur og varð Myndlista- og handíðaskólinn. Þau bjuggu á ýmsum stöðum í Reykjavík en frá árinu 1942 var skólinn til húsa á Grundarstíg 2a. Á efstu hæð hússins bjó stórfjölskylda skólastjórans, naut aðstöðunnar en varð líka að sinna kröfum skólans utan hefðbundins vinnutíma.

Tíminn á Grundarstígnum var “gloríus” sagði afkomandi Siggu Steinu. Mannlífið í húsinu var mjög fjölbreytilegt og fjölskyldan öll sprelllifandi og lífsglöð. Margt skemmtilegt fólk sótti skólann og andríkið og menningarlífið liðaðist um allt húsið. Þekking og viska læddist inn í börnin ekki síður en gesti. Rætt var um samfélagsmál, tilraunir voru gerðar í listum og menntum og skólastjórahjónin vöktu yfir velferð barna sinna en einnig fjölda annarra, nemenda og ástvina.

Systkinin notuðu skólahúsið til leikja og menningariðju. Margt var brallað og gleðin fann sér farveg. Meira að segja beinagrindin sem notuð var fyrir teiknikennsluna kom að gagni í leikjum barnanna.

Sigríður Steinunn naut borgarlífsins. Hún sótti skóla fyrst í Miðbæjarskólanum og fór svo eins og systkini hennar í Menntaskólann í Reykjavík. Hún eignaðist góðan og tryggan félagahóp í Miðbæjarskólanum og síðan annan í MR. Tengslin við þessa hópa ræktaði Sigríður Steinunn alla tíð og vinirnir voru henni afar mikilvægir. Jafnvel sárlasin fór hún til funda við vinahópana. Lífið á menntaskólaárunum var henni mikill gleðitími. Og eins og margra menntskælinga er háttur stundaði hún kaffihúsin, ekki til að eyða þar stórfé heldur til að tala, gleðjast og þroskast.

Sigríður-Steinunn-Lúðvígsdóttir_ungSigríður Steinunn lauk stúdentsprófi árið 1953. Hún var flugfreyja hjá Flugfélagi Íslands á árunum 1952-54. Sigga Steina var vön því að fólk kom til föður hennar til að fá fyrirgreiðslu með nám erlendis og því var henni næsta eðlilegt að fara utan líka. Hún tók stefnuna á Vín og Lúðvíg hafði mikil og góð sambönd í hinum þýskumælandi heimi. Sigríður Steinunn stundaði svo þýsku- og bókmenntanám í Vín 1954-55. Og þar sem Sigga Steina var vön lista-sellunum og spírunum á Íslandi var henni ekkert sjálfsagðara en að umgangast listamenn heimsins í Vín. Og þó stóra herbergið hennar Sigríðar í Vín hafi verið kalt var listalífið fjölbreytlegt og háskólalífið hvetjandi. Vínarárið var hlýr tími í minningum Siggu Steinu.

Einar, börn og afkomendur

Og svo kom Einar Árnason, lögfræðingur, sem vann lengstum hjá Vinnuveitendasambandinu. Þau höfðu kynnst heima og Einar kom til Vínar, bað hennar og þau Sigga Steina féllu í faðma og gengu í hjónaband. Og sumarið 1955 fóru þau Einar og Sigríður Steinunn í mikla brúðkaupsreisu um Evrópu, m.a. til Ítalíu. Þau kunnu ekki ítölsku en í ljós kom að skólalatínan kom að góðum notum. Piazza á Ítalíu er latnesk, þar lifa fornar tungur og sagan er þykk.

Um tíma bjuggu þau Sigga Steina og Einar í London þar sem hann stundaði framhaldsnám og þar fæddist Berljót Sigríður vorið 1956. Þrenningin flutti heim í maímánuði það ár. Árið 1959 fæddist Páll Lúðvík og fjölskyldan leigði í Eskihlíð og við Ægisíðu. Þau festu svo kaup á íbúð í Grænuhlíð og þar fæddist Svanbjörg Hróðný árið 1964. Í Grænuhlíðinni bjó fjölskyldan árum saman.

Vinir barna Siggu Steinu minnast þess að heimili hennar var opið heimili og alltaf tókst henni að töfra fram nægan mat handa hálfu Hlíðahverfinu. Allir voru velkomnir. Við alla talaði hún með hlýju. Svo virtist Sigga Steina alltaf eiga nógan mat. Gjöful og elskuleg í samskiptum og smitaði frá sér mannvirðingu. Ekki einkennilegt að Sigga Steina var ekki aðeins mikils metin af vinum og jafnöldrum heldur urðu vinir barna hennar vinir hennar einnig.

Þau Einar og Sigríður Steinunn skildu árið 1972 og hann lést árið 1992.

Bergljót eignaðist tvíburana Hákon og Steinunni Soffíu árið 1983 með Tore Skjenstad, fyrri manni sínum. Eiginmaður Bergljótar er Magnús Guðmundsson. Bergljót er arkitekt.

Páll er matvælafræðingur og bókasafnsfræðingur.

Eiginmaður Svanbjargar er Kristinn Örn Jóhannesson og þau eiga þrjár dætur, Ólöfu Sigríði (2003) og tvíburana Bergljótu Júlíönu og Laufeyju Steinunni (2005). Svanbjörg er fjölmiðlafræðingur og leiðsögumaður.

Atvinna og frelsi

Þegar börnin voru komin í skóla fór Sigríður Steinunn að vinna utan heimilis að nýju. Hún vann um tíma í Háaleitisapóteki, fannst vinnan skemmtileg og velti vöngum yfir að skella sér í nám í greininni. En hún færði sig svo yfir í bankaheiminn. Um tíma vann hún í Útvegsbankanum og síðan hjá Íslandsbanka og gegndi ýmsum störfum innan bankans. Sigga Steina fór á eftirlaun þegar hún var 66 ára gömul og eftir það fór allt á verri veg í bankaheiminum en hún bar enga ábyrð á þeim málum.

Sigga Steina nýtti aukið frelsi vel. Hún ferðaðist innan lands sem utan, sótti sýningar og tók þátt í viðburðum samfélagsins. Hún var með fastamiða í leihúsinu, sótti námskeið og fylgdist afar vel með listalífinu. Í því naut hún menntunar og mótunar á bernskuheimili sínu og alla tíð hafði Sigríður Steinunn vakandi áhuga á því sem efst var á baugi í menningu þjóðarinnar. Svo hafði hún mikla gleði af fólkinu sínu, gladdist og skemmti sér með börnum sínum, barnabörnum, ásvinum og vinum. Og þjónaði sínu fólki með natni.

Kveðjur

Ég hef verið beðinn að bera þessum söfnuði kveðju Bergljótar Sveinsdóttur sem er utan lands. Sömuleiðis biðja fyrir kveðju: Þorvaldur H. Gröndal, Lára Sveinsdóttir og Þórunn Þ. Gröndal sem eru einnig erlendis og koma því ekki til þessarar athafnar. Systurnar Katrín Lilja Ólafsdóttir sem er búsett í London og Inga Lára Ólafsdóttir, sem eignaðist dreng í fyrradag, senda kveðjur og þakka frænku þeirra fyrir samfylgdina.

Litríkar minningarnar

Hvaða minningar áttu um Siggu Steinu? Manstu hve glæsileg hún var? Ég mun ávallt muna augnatillit hennar og íhugul en glettnisleg augun.

Manstu eftir Sigríði Steinunni á fjöllum, á hálendinu?

Manstu eftir lífsgleði hennar – að hún var gleðigjafi? Að hún var fólki svo elskuleg og glöð að allir hrifust og löðuðust að henni.

Manstu hve natin hún var, skilningsrík og umburðarlynd?

Manstu eftir henni í jafnréttisbaráttu og hve viljug hún var að beita sér í þágu réttláts þjóðfélags? Jafnvel lífshættulega veik fór hún á fjöldafund til að standa með mikilvægum málstað og samfélagslegri sanngirni.

Manstu eftir seiglu Sigríðar Steinunnar? Að hún hélt áfram og lét ekki bugast?

Manstu göngukonuna sem var á ferð um bæinn, setti svip á bæinn sjálf og naut ferðanna um borgina?

Manstu eftir konunni með espressókaffið í litlum bolla og kökubita á kaffihúsum borgarinnar?

Manstu eftir ömunni sem hlustaði í andakt á barnabörnin spila á tónleikum í barnamúsíkskólum og skólalúðrahljómsveitartónleikum?

Manstu eftir henni hoppandi og hrópandi „áfram Valur, áfram Valur“ á fótboltaleikjum ömmustelpna sinna?

Manstu kímni Sigríðar Steinunnar? Hve laginn og jákvæð hún var og gat sett saman hnyttnar setningar sem rímuðu fullkomlega við aðstæður, vilja hennar en særðu þó engan?

Manstu eftir sumarbústaðafrúnni í Hvammi á Grímsstöðum? Hve vel henni leið og hve hún blómstraði á yndisreit hennar í sveitinni?

Nú er hún farin. Þú færð ekki fleiri símtöl frá Siggu Steinu. Hún gefur þér ekki gott að borða eða kaffi í litlum bolla á fallegu heimili. Hún heldur ekki út í gönguferð dagsins. Hún fer ekki á fleiri sýningar í leikhúsinu. Hún er farin inn í ljósheim Guðs, sem elskar takmarkalaust og skilyrðislaust.

Guð geymi Sigríði Steinunni Lúðvígsdóttur. Guð geymi þig.

Amen.

Minningarorð 9. apríl, 2015. Erfidrykkja í safnaðarheimili Neskirkju. Bálför og jarðsett síðar í Fossvogskirkjugarði.

Óskar S. Gíslason – minningarorð

Óskar Gíslason2Óskar hafði áhuga á lífinu, studdi lífið sem honum var falið og stuðlaði að lífi. Hann hafði ekki aðeins áhuga á lífi fólks heldur líka lífinu í náttúrunni. Hann bar virðingu fyrir lífsundrinu og gerði það sem hann gat til að það líf sem að honum sneri mætti njóta næringar og verndar.

Útungun og líf

Óskar var líklega sautján ára gamall þegar hann var ábyrgur fyrir útungunarvél á Sólheimum í Grímsnesi. Í vélinni var fjöldi frjóvgaðra eggja sem lágu í ylnum. Lífið var í gerðinni og Óskar fylgdist vel með að hitinn væri jafn. En Óskar þurfti í skreppa til Reykjavíkur og þá bað hann fólk á Sólheimum að passa eggjaflokkinn og útungunarvélina. Svo fór hann, sinnti sínum erindum og kom svo austur aftur og vænti þess að smálífin í eggjunum væru heil innan skurnar. En Óskari til sorgar og skapraunar hafði eitthvað misfarist í vöktuninni. Eggin höfðu kólnað og lífið hafði fjarað út. Þá lauk bernsku Óskars og fullorðinslíf hans hófst. Hann ákvað að flytja frá Sólheimum. Hann fór suður, fór að vinna og leit hans hófst að samhengi, fólkinu hans og lífsláninu. Útungunarvélin og lítil egg voru sem táknmynd um lífssókn Óskars Svan Gíslasonar.

Upphaf og lífsstiklur

Það var heillandi að hlusta á sögur ástvina og sonarins Snorra. Ævi Óskars var aldrei nein sigling í logni. Upphaf hans var flókið, fyrstu árin reyndu á, hann bjó við fjölbreytilegar uppeldisaðstæður, missti tengslin við foreldra ungur og einnig flest systkini sín. En hann hafði döngun í sér og mátt af sjálfum sér að leita fólkið sitt uppi síðar. Svo tengdi hann þau saman, raðaði saman púslum fjöskyldu og eigin sjálfs og lifði merkilegu lífi og er kvaddur af mörgum sem þakka honum fyrir samskipti og stórfjölskyldu.

Það er brot af boðskap himinsins um að það sem var rofið og brotið skuli verða heilt. Óskar var lærisveinn Jesú Krists í því að leiða saman hin aðskildu, gera sitt til að hjálpa fólki að finna samhengi sitt og sátt.

Óskar fæddist að hausti, 22. september árið 1927. Móðir hans var Bjargey Hólmfríður Eyjólfsdóttir (1891-1990) og Gísli Jóhannes Jónsson (1891- 1984)

Systkini Óskars sammæðra eru: Dagný Hansen, Guðrún Soffía Hansen, Sigríður Tómasdóttir, Ásdís Ásgeirsdóttir, Ásgeir Ásgeirsson og Elín Svanhildur Hólmfríður Jónsdóttir. Systkini Óskars samfeðra eru Kristjana Sigrún Gísladóttir, Steinunn Gísladóttir og Guðmundur Steinsson Gíslason. Þetta er stór hópur – tíu systkin.

Óskar var hjá móður sinni til þriggja ára aldurs. Það var fyrsti hluti bernskuskeiðs Óskars – fyrsti af þremur. Fjölskylda Óskars hafði splundrast, börnin dreifðust og í þessum fjölskylduraunum var Óskar svo lánssamur að fá vist á barnaheimili í Skerjafirði sem var kallað því fallega nafni Vorblómið. Þar réð ríkjum Þuríður Sigurðardóttir sem Óskar tengdist vel og kallaði ömmu sína. Vorblómið varð honum góður uppeldisstaður og þar var hann í skjóli, naut nándar, elsku og kennslu. Þegar hann hafði dvalið ein sjö ár sem ungi og blómstrað í þessu vorhreiðri í Skerjafirðinum urðu skil. Þuríður veiktist og dó síðan frá öllum barnahópnum. Enn á ný urðu skil í lífi Óskars. Hann fór ásamt hópi barna austur í Sólheima og þar tók Sesselja Sigmundsdóttir við þeim.

Þar með hófst þriðja bernskuskeið Óskars – annað sjö ára skeið. Á Sólheimum var meiri fjöldi en í Vorblóminu og Óskar lærði að spjara sig, fara eigin ferðir, bjarga sér sjálfur og móta stefnu sína. Hann lærði að unga út – og svo þegar ungarnir dóu í kassanum vissi Óskar að nú var komið nóg. Bernskunni væri lokið, lífið og velferðin væri á hans eigin ábyrgð. Hann tók sína stefnu. Sagan hans Óskars er eins og í þjóðsögu eða Grimmsævintýri. Óskar tók hann sitt og fór út í heiminn til að freista gæfunnar.

Atvinnusaga Óskars

Fullorðinsárin tóku við og það er merkilegt útungunarskeið í lífi Óskars. Óskar fór suður og síðan fljótlega á sjó. Sjómennskan varð meginatvinna hans síðan. Hann var á fiskibátum og einnig á varðskipum. Svo var Óskar á frökturum hjá Eimskip. Hann var á Selfossi og Dettifossi, sigldi um heiminn og skoðaði veröldina og lærði sín fræði með opnum augum og vökulum huga. Svo tók við þjónusta hjá Víkurskipum.

Óskari þótti sjómennskan góð og gaman á sjó. Og hann var – með vini sínum – jafnvel til í ferja skútuna Franz Terco frá Íslandi til Grænlands fyrir erlendan auðmann. Það varð reyndar mikil ævintýraferð í ágúst 1959 og alls ekki sjálfgefið að allt gengi áfallalaust. En á áfangastað komst fley og heilir farmenn. Óskar taldi sig gæfumann og kunni að þakka. Aðeins einu sinni varð hann fyrir alvarlegu slysi á sjó og féll ofan í tóma lest. Þá slasaðist hann talsvert en leit svo á að hann hafi verið heppinn, því bakið slapp!

Þegar Óskar kom svo í land varð hann vaktmaður og húsvörður í Morgunblaðshúsinu við Aðalstræti og lauk vinnuferli sínum þar. En hann hafði síðan tíma fyrir fjölskyldu og vini.

Útungunarmeistari stórfjölskyldunnar

Þegar útungunarmeistarinn á Sólheimum fór suður sautján ára hafði hann misst af foreldrum og systkinum. Hann sótti ekki aðeins sjóinn heldur hóf aðra sókn einnig. Hann hafði ákveðið að leita að fólkinu sínu í mannhafinu, systkinum sem dreifst höfðu í ýmsar áttir. Og Óskar var fundvís og smátt og smátt fann hann allan hópinn. Jafnvel systurina, sem hafði farið ung til Noregs, sá hann einu sinni á götu, þekkti svip hennar og gaf sig fram. Og Óskar lét sér ekki nægja finna fólkið sitt heldur tengdi hann þau líka. Og það var eins og Óskari væri lagið að unga út nýju og nýju systkini inn í fjölskylduhópinn á hverju ári!

Það var heillandi að sitja og hlusta á kraftaverkasöguna um hvernig fjölskylda verður til úr ótengdum einstaklingum. Fólk sem ekki þekktist – en voru þó alsystkini eða hálfsystkini – voru leidd saman, tengd og ræktuð með hægð og lægni. Óskar hafði vakandi áhuga á fólki sínu, velferð þess, hugsunum og aðstæðum. Hann heimsótti þetta fólk, hélt þeim við efnið en án nokkurs eftirgangs.

Afkomendur

Óskar kynntist Guðlaugu Vigfúsdóttur og þau bjuggu saman í nær áratug. Þau eignuðust soninn Snorra. Áður hafði Guðlaug eignast Sonju Ósk Jónsdóttur. Þau Óskar og Guðlaug skildu.

Snorri á tvö börn. Með Mariu Luisu Uribe eignaðist hann Christian Snorra sem er hagfræðinemi í Svíþjóð. Guðlaug Alexandra er yngra barn Snorra. Móðir hennar er Blanca Estella Cruz G. Óskarson. Guðlaug Alexandra var síðasta mannveran sem Óskar sá í þessum heimi. Hann hafði sótt hana í Ísaksskóla og fór með hana heim og svo lauk lífi hans. En þessi unga sonardóttir hans gerði sér grein fyrir að eitthvað hafði komið fyrir afa hennar. Þrátt fyrir ungan aldur kunni hún númerið 112, fór í símann og tilkynnti lögreglunni um afa sinn. Dugnaður hennar er aðdáunarverður. En hún hefur misst mikið í nærfærnum afa. Guð geymi hana, bróður hennar, föður, alla ástvini og vini.

Eigindir

Hvernig manstu Óskar? Hvernig var hann og hvað getur þú lært af honum?

Manstu hve hve vinfastur hann var? Hve áhugasamur og ræktarsamur hann var við ástvini og aðra vini sína? Manstu að hann hringdi og talaði stutt og án óþarfra málalenginga? Svo kom hann gjarnan. Manstu hve félagslyndur hann var?

Manstu vinnusemi hans? Manstu lífsást hans? Hve Óskar var ötull ræktunarmaður, plantaði ungtrjám í mold og efndi til skógræktar til framtíðar? Hann hafði áhuga á lífinu í mannheimum og náttúru.

Manstu skákáhuga Óskars?

Manstu hve umtalsfrómur Óskar var, hvað hann talaði vel um allt og alla, hvernig góðmennskan skein úr augum og orðin báru vitni góðum ásetningi hans?

Manstu hve fróður hann var og hve vel hann nýtti sér þekkinguna til að móta eigin lífsvisku?

Hvort þótti Óskari betra að gefa eða þiggja? Óskari hentaði að vera veitull í lífinu.

Manstu eftir orðfæri Óskars? Manstu hve vanvirkur hann var og gætti orða sinna? Og hann ragnaði ekki eða bölvaði – hann var svo trúaður var skýring ástvinanna.

Manstu snyrtimennið Óskar og getuna til eldamennsku? Fékkstu einhvern tíma soðningu hjá honum?

Inn í eilífðina

En nú eru orðin skil. Óskar hafði trú á lífinu, þjónaði fólkinu sínu og nú fer hann inn í líf himinsins. Í bernsku var honum stefnt inn í flókin heim. Hann tapaði tengslum við fólkið sitt, fann það aftur, tengdi saman og ræktaði síðan eins vel og hann gat.

Nú er Óskari stefnt inn í þá veröld þar sem engin tengsl tapast, allt er bundið festum kærleikans og gleðinnar.

Hver var Jesús Kristur? Hann kom inn í heim til að tengja saman brotna stórfjölskyldu manna, færa fólk saman, sætta, næra kærleika og búa til frið í splundruðum heimi. Jesús Kristur var útungunarmeistari himinsins. Óskar var hans maður og nú kallar lausnarinn mikli á útungunarmeistaran á Sólheimum til starfa í Sólheimum himinsins. Þar kólna engar vélar og ekkert líf fer forgörðum.

Leyfðu Óskari að fara. Leyfðu minningunni um hann að lifa. Hann mun lifa glaður og tengdur í eilífð himsins.

Guð geymi þig og Guð geymi Óskar S. Gíslason um alla eilífð.

Amen.

Minningarorð við útför í Grafarvogskirkju föstudaginn 6. mars, kl. 15. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði. Erfidrykkja í Grafarvogskirkju.

Birgitta Dam Lísudóttir – minningarorð

M2.2Hvað er mannlífið og hvernig vöxum við og þroskumst? Lífið kviknar í móðurkviði, fóstrið vex, líffærin verða til og svo í fyllingu tímans fæðist barn í þessa veröld, fæðist frá öryggi móðurlífs og inn í fjölbreytileika veraldarinnar. Síðan tekur við undrið að fullorðnast, vinna úr gjöfum Skaparans og ákvarða hvernig á að nota þær. Verkefni allra er að gegna kalli til visku og elsku. Við erum ábyrg gagnvart sjálfum okkur, öðrum og Guði.

FullSizeRender

Birgitta málaði einu sinni mynd sem var nokkurs konar sjálfsportett en þó meira en það því hún málaði einnig samhengi eigin lífs. Á myndinni er hún sjálf í miðju, horfir niður eins og djúpt hugsi eða jafnvel döpur? Hún stendur á grænni grund og að baki hennar eru krossar – tákn um dauðsföll, missi. Öll missum við ástvini. Suma vegna þess að tengslin bresta af einhverjum ástæðum og aðrir deyja frá okkur. Birgitta varð fyrir mörgum áföllum í lífinu og sá á bak sínu fólki inn í guðshaf eilífðar – upplifði djúpan sársauka og leið margt.

Í mynd Birgittu eru rauðir litir áberandi og hún leitaði ástar alla tíð og var eins og allir – þurfandi fyrir kærleika. Á roðafleti myndarinnar sjáum við tákn, slöngu sem varar við því sem sækir að og ógnar. Þarna er flaska og bikar. Og þarna eru líka blóm. Áleitin mynd, sjálfsmynd hæfileikarírkar konu sem reyndi margt og upplifði fjölbreytilegt líf.

Í spádómsbók Jesaja stendur:

„Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu
að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?
Og þó að þær gætu gleymt
þá gleymi ég þér samt ekki.
Ég hef rist þig í lófa mér….“

Þessi texti er um Guð. Gleymir Guð? Stundum finnst okkur að Guð sé fjarri og efasemdir um tilveru Guðs hríslast um huga þegar margt og jafnvel flest er mótdrægt. Jesaja spámaður þekkti þessar hugsanir og tekur dæmi af hinu ótrúlega. Getur móðir gleymt barni sínu? Hann taldi það ólíklegt en þó hugsanlegt, en Guð væri enn minnugri en allar mæður veraldar. Guð er hin besta móðir, gleymir aldrei – Guð yfirgefur aldrei. Guð er alltaf nærri. Það er verkefni okkar í lífinu að læra merkingu þess að Guð er lífið sjálft, við erum Guðs, guðslífið er í okkur. Allt það besta sem bjó í Birgittu var merki um Guð.

Birgitta sem horfir niður á lífsportrettinu, lifði fjölskrúðugu lífi, eignaðist börn, sá á eftir ástvinum – hún er líka barn Guðs sem Guð gleymir ekki og gleymdi ekki. Hún er rist í lófa Guðs, eins og þú lifir í minni og vernd Guðs.

Ætt og upphaf

Birgitta fæddist þann 19. september 1944 á Höfn í Skeggjastaðahreppi, Bakkafirði. Foreldrar hennar voru Lúðvík Sigurjónsson og Sigrid Lísa Sigurjónsson. Birgitta var lýðveldisbarn, kom í heiminn þegar lýðveldið var nýfætt. Lísa og Lúðvík höfðu eignast tvíbura árið 1940, en þeir voru andvana fæddir. Sagan lifir í fjölskyldunni að Lúðvík hafi borið kistur þeirra undir sitt hvorri hendi til kirkju. Það er átakanleg og grípandi mynd.

En í stað dauðans kom lífið í bæinn. Vestarr fæddist þeim hjónum þremur árum síðar – í ágúst 1943.

Og Birgitta var yngst systkinanna. Nú lifir Vestarr einn af þessum barnahópi.

Foreldrar hennar, Lúðvík og Lísa, kynntust í Færeyjum. Lísa, sem var færeysk, hafði lært sauma í Kaupmannahöfn og komst heim fyrir upphaf stríðs og vann síðan við iðn sína í Færeyjum. Lúðvík varð hrifinn af Lísu og vildi eiga hana þó hún væri fimmtán árum yngri en hann. Það gekk eftir. Þau fluttu svo til Íslands, gengu í hjónaband og eignuðust börn sín.

Lúðvík var verslunarstjóri í Gunnlaugsverslun á Bakkafirði og síðar kaupfélagsstjóri. Hjónaband Lísu og Lúðvíks bilaði þegar Birgitta var ung og Lísa flutti til Færeyja með börn þegar seinni heimstyrjöldinni lauk. Þar voru þau síðan til 1962 er þau sneru að nýju til Íslands til að Vestarr og Lísa gætu notið menntunar. Á Íslandi voru líka á þessum tíma meiri atvinnumöguleikar en í Færeyjum.

Birgitta hóf skólagöngu í Færeyjum, gekk vel og fékk góðar einkunnir. Þegar hún fór til Íslands hafði hún lokið tveimur árum í Verslunarskólanum í Þórshöfn. Á Íslandi vann Birgitta sem sjúkraliði á Vífilstöðum. Árið 1963 fór hún svo til Kaupmannahafnar og fór að vinna á hjúkrunarheimili fyrir eldri borgara í Kaupmannahöfn.

Hjúskapur og börn og ástvinir

Í Höfn hitti hún Ole Martinussen og þau Birgitta gengu í hjónaband. Þau Ole eignuðust tvö börn. Lísa fæddist árið 1964 og Hans Christian fæddist árið 1968. Þau Ole og Birgitta skildu.

Lísa, sem ber nafn ömmu sinnar, er búsett í Danmörk. Hún er hjúkrunarfræðingur að mennt og starfar við fag sitt. Maður hennar er Carsten Jensen. Börn þeirra eru Andreas, Mette og Sandra.

Hans Cristian Martinussen er kvæntur Línu Martinussen. Þau eru bæði tannfræðingar og vinna í grein sinni. Dætur þeirra eru Hannah og Carolina.

Birgitta sneri til Íslands snemma á áttunda áratugnum en veiktist af berklum sem neyddu hana inn á spítala og höfðu hamlandi áhrif á hana. Hún átti í heilsufarsbaráttu æ síðan.

Heimkomin til Íslands kynntist Birgitta Tryggva Ólafssyni og þau eignuðust soninn Davíð sem fæddist árið 1975. Þau Birgitta og Tryggvi bjuggu saman í fjögur ár.

Davíð rekur eigið fyrirtæki. Eiginkona Davíðs er Una Dögg Evudóttir. Þau eiga þrjú börn, Adam Elí, Ilmi Dís og Sóleyju Klöru.

Þegar Tryggvi hvart úr lífi hennar kynntist Birgitta Ernest Washington. Þau Birgitta eignuðust soninn Örn Jákup Dam Washington, sem fæddist árið 1980. Þau Birgitta fóru vestur um haf og bjuggu í Bandaríkjunum um tíma en komu svo til baka til Íslands þegar Örn var nokkurra mánaða gamall. Þá settust þau Birgitta og karlarnir hennar að á Meistaravöllum og bjuggu þar síðan. Örn lést eins og ykkur er öllum kunnugt um árið 2005, allri fjölskyldu og ástvinum harmdauði.

Margt gekk á í heimilishaldinu og að lokum fór Ernest til Bandaríkjanna að nýju og Birgitta varð eftir á heimilinu með drengina og lífsverkefnin. Um tíma vann hún á Grund en raunar bjó hún við heilsubrest lengstum og átti óhægt með vinnu.

Síðustu árin barðist Birgitta við vaxandi heilsubrest. Margir léttu undir með henni og Vestarr og fjölskyldan þakkar Sturlaugi Pálssyni aðstoðina síðustu tvö ár.

Minningarnar

Hvernig manstu Birgittu?

Manstu hárið og háralitinn? Manstu útlit hennar? Hverjir voru styrkleikar hennar? Hvað lærðir þú af henni? Hvað var það sem hún ekki gerði og hefur orðið þér til þroska?

Manstu listfengi hennar og teiknigetu? Og manstu hvernig hún náði athygli þinni eða annarra? Manstu fötin hennar og hringana?

Hún hafði gaman af að dansa og dansaði m.a.s. ballett í æsku.

Svo söng hún í skólakór í Færeyjum og hafði gaman af tónlist – og hafði breiðan smekk.

Manstu hve hún vildi sjá það besta í öðrum, í fólki? Hún vildi svo gjarnan eiga góð tengsl við fólkið sitt og tjá elsku í garð barnabarna sinna.

Himininn

Hvernig hugsar þú um himinn og himnaríkið? Við menn erum misstór börn, sem liggjum á bakinu, störum upp í himininn, horfum á skýin og stjörnurnar, skiljum og tjáum með okkar viti hvað verður. En hugsun og orð um aðra veröld eru ekki og verða aldrei sannanleg lýsing, heldur hliðstæðuskýring. Við tölum aðeins um himininn og eilífð með hjálp myndmáls.

Kannski getur líkingin af fóstri í móðurkviði orðið til skilningsauka. Hvað hugsaðir þú þegar þú varst í þeim belg? Gastu ímyndað þér veröldina þegar þú varst þar inni? Vissulega heyrðir þú hljóð, fannst til með móður þinni, fékkst innskot af adrenalíni í æðar þínar, þegar hún var hrædd eða spennt, fannst fyrir vellíðan hennar, slakaðir á í kyrrð mömmunnar. Þú fannst fyrir veröldinni utan bumbunnar en skildir hana ekki. Vissir ekkert um liti hennar, fannst ekki fyrir vindinum, sást ekki fuglana, ásjónur þeirra sem elskuðu þig, vorsólina, Færeyjar, Bakkafjörð eða Kaupmannahöfn, vissir ekkert um útlit herbergjanna eða vistarveranna, sem fjölskylda þín bjó í.

Þó að þú hafir haft heldur litlar og fátæklegar hugmyndir um lífið var við þér tekið þegar þú fæddist. Þó þú getir ekki ímyndað þér hvernig eilífa lífið verður getur það orðið mun stórkostlegra en þú getur hugsað þér.

Við eigum aðeins vísbendingar meðan við erum í móðurkviði náttúrunnar, en við megum alveg hugsa um Birgittu og allt fólkið hennar baðað birtu þegar við hugsum um himininn, sem hún gistir. Þetta hús, sem er umgjörð kveðjustundar hennar, er byggt vegna þess að trú hefur lifað í þessu landi, að lífið sé sterkara en dauðinn, að föstudagurinn langi sé ekki helsta táknmyndin um veröldina, heldur séu páskar betri ímynd fyrir líf og von fólks.

Birgitta fór sína ferð. Nú er hún farin lengra. Hún þjáist ekki lengur og fyrir það getum við þakkað. Við megum trúa, að hún hafi fæðst inn til ljóssins, inn í veruleika elskunnar, inn í stóran faðm, sem við köllum Guð. Þar má hún búa um alla eilífð, njóta lífsins, vera með Erni og öllum hinum ástvinunum – hlægja og syngja.

Amen.

Minningarorð við útför í Kapelluni, Fossvogi, 18. febrúar 2015.

Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

Ingi Kristinsson – minningarorð

Ingi Kristinsson1Ingi skólastjóri var nálægur nemendum Melaskóla. Þegar við komum í skólann var Ingi alltaf mættur, glæsilegur, hlýlegur, opineygur og vinsamlegur. Svo þegar við hlupum út í frímínútur var Ingi líka á skólalóðinni, viðtalsfrómur, leikjahvetjandi, vökull vörður hinna smáu og þeim sem var strítt og skildi að þau sem flugust á. Svo þegar við fórum heim var Ingi líka nálægur og fylgdist með og kvaddi. Hann ávann sér virðingu okkar af verðleikum sínum en ekki stöðu.

Ingi kenndi flestum, sem voru í Melaskóla, eitthvað mikilvægt. Hann kenndi mér merkingu gullnu reglu Biblíunnar. Þegar ég var 11 ára gekk hark- og púkk-æði yfir grunnskólana og fé lagt undir. Mörg mættum við með fimmeyringa í vasanum til að geta tekið þátt í því æsilega fjárhættuspili – að hitta í holu eða á línu! Ég varð brátt svo slyngur kastari að ég græddi flesta daga. Þegar ég fór heim úr skólanum voru vasar mínir oftast svo fullir af fimmeyringum að ég fékk marbletti á lærin af þunganum. Ingi sá til okkar fjárhættuspilaranna og kom út á skólalóðina. Hann sagði félögunum að fara – en sagðist vilja tala við mig einan.

Ég bar virðingu fyrir Inga og óttaðist hann ekki. Ég sá að hann hvorki kímdi né brosti, sem honum var þó tamt. Við töluðum saman lengi, aldrei hækkaði hann róminn, aldrei missti hann stjórn á skapi sínu, heldur minnti mig á að ég hefði náð miklu fé af skólafélögum mínum. Hvað þætti mér um það? Mér þótti þetta samtal stefna í vonda átt. Svo spurði Ingi mig hvernig mér litist á ef aðrir næðu af mér mínum peningum! Mér þótti það ill tilhugsun og skildi hvað hann meinti með opnum og kröftugum spurningum. Á þeim grunni byrjaði Ingi Kristinsson síðan að reisa mér hús siðfræðinnar, útlistaði að athöfn hefur afleiðingar, fjárplógur getur leitt til mikilla vandræða, en mikilvægast væri þó að gæta mannvirðingar og jafnvel takmarka eigið frelsi vegna tillitssemi við aðra. Ingi, sem var vel upplýstur um bakgrunn nemenda sinna, vissi að foreldrum mínum væri annt um að sonur þeirra misnotaði ekki fólk og gerði aðra að eigin féþúfu.

Svo lauk Ingi máli sínu með því að spyrja mig hvort ég þekkti gullnu regluna? Nei, ég var ekki viss – en hafði þó grun um að það væri eitthvað Jesúlegt siðvit. Og þá var Ingi farinn að kíma og hafði yfir það sem ég hafði reyndar heyrt áður að það sem við vildum að aðrir gerðu okkur – það ættum við að gera þeim. Fimmeyringar heimsins, já allt gull veraldarinnar fölnaði í samanburði við ríkidæmi siðvitsins fræddi skólastjórinn mig um. Í lok samtalsins tók Ingi af mér loforð: Ég hét honum að ég skyldi hætta að hafa fé af nemendum Melaskóla. Ég stóð við það, ég hætti harki og púkki algerlega og hef reyndar síðan haldið mér við þá stefnu að hafa ekki fé af nokkrum manni. Enn stend ég í þakkarskuld við Inga fyrir að hafa kennt mér hagnýta Jesúspekina fyrir líf og samskipti. Þessi heimur væri betri ef skólum og stjórnum veraldar væri stýrt af mönnum eins og Inga Kristinssyni.

Þessi einkatími minn í siðfræði hjá Inga fléttar margt saman sem einkenndi þennan eðlisvæna dreng og öfluga skólamann. Hann axlaði ábyrgð, vann sín stórvirki með festu en hægð, fór ekki hraðar en viðmælandinn þoldi, beitti hagnýtum rökum og flestum – kannski öllum – kom hann til nokkurs þroska. Í honum bjó djúp mannvirðing sem varðaði alla og gilti fyrir alla. Hann var þjónandi forystumaður. Fjallræðuspekin var iðkuð í Melaskóla því skólastjórinn var þroskaður: „Það sem þér viljið að aðrir geri yður – það skuluð þér og þeim gera“ (Matt. 7, 12). Þessi glæsilegi maður – sem mér þótti sá fallegasti í Vesturbænum – var góður fulltrúi alls hins besta í kristni og vestrænni mannúðarhefð.

Ætt og upphaf

Ingi Kristinsson var Þingeyingur, fæddist á Hjalla í Grýtubakkahreppi og sleit barnsskónum undir Kaldbak, sem honum þótti vænt um. Brynhildur Áskelsdóttir, móðir hans, var úr Fnjóskadal en Kristinn Jónsson, pabbinn frá Hjalla, var kennari og skólastjóri og þau hjónin stunduðu einnig búskap. Ingi var eldra barn þeirra og fæddist fimmtudaginn, 29. ágúst árið 1929. Laufey, alsystir hans, fæddist árið 1933 og lifir bróður sinn.

Brynhildur, móðir Inga, lést frá börnum, eiginmanni og ástvinum í júlílok árið 1938. Ingi var þá átta ára. Hvernig er fyrir ungan dreng að missa móður sína (sérkennileg spekin í upphafi Brekkukotsannáls nær ekki að skýra vel áhrifin)? Hvaða áhrif hafði hið þunga slag á drenginn? Getur verið að hann hafi orðið dulari vegna áfallsins, axlað meiri ábyrgð – alla tíð – vegna þess að hann var elstur og að auki móðurlaus? Átti hin djúprætta mannvirðing – sem bjó í Inga – sér upphaf í bernskureynslu hans sjálfs? Varð hann svo öflugur skólamaður – og gætti allra nemenda sem honum voru fólgnir og umfram alla skyldu – vegna þess að hann hafði sjálfur orðið fyrir sálarhöggi og skildi því að börn finna til? Sum hinna böldnu eiga sér lífsreynslu, sem þarf að greina og virða til að hægt sé liðsinna þeim til vaxtar. Ég undraðist alltaf virðingu Inga fyrir okkur smáfólkinu og furðaði mig á að hann var alltaf til staðar og fylgdist svo vel með okkur. En kannski er móðurmissir hans hlutaskýring á skólastjórnarháttum, Inga – auk kærleiksríks uppeldis í faðmi viskuleitandi, þingeysks ættboga.

Ingi og Laufey uxu upp meðal föðurfólksins á Hjalla og Greinivík. Föðurbræður og amma urðu móðurlausum Inga mikilvæg . Svo hlotnaðist þeim stjúpa því Kristinn gekk að eiga nýja konu, Steingerði Kristjánsdóttur. Börn þeirra og hálfssystkin Inga eru Jón, sem fæddist 17. júní 1942 og fékk því lýðveldið í afmælisgjöf þegar hann varð tveggja ára. Síðan fæddist Gunnar í ágúst 1948.

Allt sumarbörn.

Heimatökin vor hæg með nám og Ingi var góður námsmaður. Þegar hann hafði lokið grunnnámi tók hann stefnuna inn í Menntaskólann á Akureyri. Hann sagði síðar sjálfur frá að þeir faðir hans hefðu farið af stað með mjólkurbílnum inn eftir. En bíllinn fór út af veginum á leiðinni og feðgarnir gengu um 20 km. leið til Akureyrar – og í miklum snjó. Það þurfti að hafa fyrir að komst til skóla á þessum tíma.

Menntaskólaárin urðu Inga til margþættrar hamingju. Hann aflaði sér góðrar menntunar og kynntist góðum félögum sem urðu vinir hans. Hann lærði að axla félagslega ábyrgð og svo fann ástin hann og þau Hildur urðu par.

Ingi var söngvin og söng með bekkjarbræðrum í kvartett – og hann söng síðan alla ævi. Í Melaskóla stýrði Ingi gjarnan söng eða hvatti til skólasöngs. Ingi ávann sér tiltrú skósystkina og var kosinn til skólaforystu. Ingi var inspector scholae síðasta veturinn í menntaskóla og var vel metinn forystumaður.

Ingi lauk stúdentsprófi árið 1951 og Þórarinn Björnsson sagði þegar hann afhenti honum prófskírteinið að Ingi væri „eðlishreinn drengur.” Umsögn skólameistara merkti að hann væri hreinlyndur maður.

Ingi fór um suður haustið 1951 og hóf nám í Kennaraskólanum og lauk kennaraprófi árið 1952. Sama ár hóf hann síðan kennslu í Melaskóla í Reykjavík, ávann sér strax virðingu starfsfélaga og nemenda og þótti afburðakennari. Hann ræktaði samband við “gamla” nemendur sína og það var hrífandi að heyra og sjá umsagnir þeirra að honum látnum – um “besta kennara og skólastjóra” sem þeir gætu hugsað sér.

Þegar Arngrímur Kristjánsson, fyrsti skólastjóri Melaskóla, lauk störfum árið 1959 – eftir átján ára starf – var farið að svipast um eftir þeim sem gæti tekið við og leitt skólann inn í nýtt skeið. Það þótti ekki auðvelt að stýra þessum margsetna risaskóla. Hinn þrítugi Ingi var talinn best fallinn til að takast á hendur verkefnið. Nokkrum þótti Ingi of ungur – en efasemdaraddir þögnuðu fljótt. Hann varð farsæll skólamaður, fremstur meðal jafningja, gekk sjálfur í verkin, hagsýnn, óhræddur en þó gætinn, mannasættir, hlýr og þótti eflandi og réttsýnn.

Ingi var sagður hafa verið fjárglöggur unglingur og þroskaði eðlisgáfuna og varð mannglöggur! Sem skólastjóri lagði hann upp úr að kynnast öllum nemendum skólans. Hann fylgdist með þeim, þekkti nöfn þeirra – sem er ótrúlegt afrek – og lagði sig eftir að nýta alla vaxtarsprota sem hann sá. Í þrjátíu og fimm ár stýrði Ingi Melaskóla og hætti svo 65 ára. Þá fannst okkur, sem bjuggum í hverfinu sem og starfsfélögum, hann enn vera bráðungur. En það var gott að sjá þennan skólahöfðingja fara um í hverfinu árin sem hann átti ólifuð – alltaf bjartan til augna og með friði.

Einar Magnússon, fyrrum skólastjóri Hagaskóla, þakkar fyrir samvinnu og vináttu. Það er þakkarvert hversu gott samstarf hefur alla tíð verið milli skólanna í hverfinu. Fyrir hönd okkar vesturbæinga vil ég þakka Inga Kristinssyni farsæla skólastjórn, alúð hans og mannúð í störfum og tengslum. Við minnumst ljúfs stjórnanda sem laðaði fremur fram með vinsemd en valdbeitingu. Minning okkar flestra um hann er sveipuð virðingu og þökk.

Ingi var öflugur félagsmálamaður. Hann sat í stjórn íslenskra barnakennara í tvo áratugi, var varaformaður þess í átta ár og formaður í fjögur, frá 1972 til 1976. Ingi sinnti ýmsum öðrum trúnaðarstörfum m.a. fyrir BSRB, Hjálparsjóð æskufólks, Námsgagnastofnun og Blindrabókasafnið. Oft fór hann á fundi þegar skólastjórastörfum lauk og Brynhildi, dóttur hans, þótti nóg um og sagði einhvern tíma: „Ég nenni ekki að pabbi fari á fund!“

Hjúskapur

Ingi var hamingjumaður í einkalífi. Húsvíkingurinn Kristbjörg Hildur Þórisdóttir sá Inga í MA, hreifst af honum og vildi gjarnan kynnast honum betur – og það gekk eftir. Kóngur og drotting urðu hjón og gengu æviveginn saman og hafa sem næst alla hjúskapartíð sína – yfir sextíu ár – búið í vesturbænum og lengst á Tómasarhaga.

Hildur er kennari. Börn þeirra Inga eru: Þórir, Kristinn og Brynhildur.

Þórir fæddist 3. ágúst árið 1954. Hann er verkfræðingur. Kona hans er Þorbjörg Karlsdóttir. Þau eiga þrjú börn, Ragnar, Hildi og Inga.

Kristinn, yngri sonur þeirra Inga og Hildar, fæddist 24. september árið 1958. Hann er einnig verkfræðingur. Kona hans er Bergdís Hrund Jónsdóttir og þau eiga dæturnar Sigríði Þóru og Þórdísi. Fyrir átti Kristinn dótturina Addý Guðjóns með Mörtu G. Hallgrímsdóttur.

Brynhildur var þriðja barn Inga og Hildar. Hún fæddist á aðventunni árið 1967, kom í heiminn 7. desember. Hún var lífeindafræðingur. Brynhildur lést árið 2011, aðeins fjörutíu og þriggja ára. Maður hennar var Þorkell Lillie Magnússon og þau áttu börnin Margréti Stefaníu, Guðrúnu og Friðrik Ómar.

Afkomendur Inga og Hildar eru tuttugu og eitt, þrjú börn, níu barnabörn og níu barnabarnabörn. Ingi þjónaði fólkinu sínu af elskuríkri elju, tók á móti barnabörnunum með gleði, las með þeim, reiknaði, gaf þeim ís og fékk viðurnefndið afa-pava-rafa skafís – kenndi þeim á skíði og var óhræddur að setja þau af stað í brekkunum. Svo dreif hann fólkið sitt á fjöll og ef eitthvert barnanna var þungt til sporsins sagði hann spennandi Ólasögur og þá var jafnvel hægt að laða unga snót um týrólsk fjöll því sögurnar voru spennandi.

Þegar Hildur var í námsvist í Noregi heilan vetur vafðist ekki fyrir Inga að halda heimili fyrir börnin og kona hans gat sinnt námi sínu óhrædd um holdafar, heilsu þeirra og velferð.

Ingi náði að umgangast börn sín og barnabörn með hlýju í skólanum án þess þó að láta þau njóta einhverrar forréttindastöðu. En þegar hann eignaðist barnabörn leyfði hann sér að blikka sitt fólk án þess að aðrir sæju, brosti asæll og tjáði gleði sína óhikað en með hógværð.

Ingi var alltaf til reiðu til að styðja afkomendur sína. Hann studdi þau í námi og jafnvel vini þeirra einnig. Hann varð þeim aðstoðarkennari, innrætti þeim heilsurækt og gildi hreyfingar, hló með þeim og söng, sagði sögur og þau glöddust yfir uppátækjum hans. Öll áttu þau athvarf hjá Inga afa og Hildi ömmu.

Eigindir

Minningarnar um Inga Kristinsson þyrlast upp á tímamótum. Mannstu ljúflyndi hans og vinsemd? Hve laginn skólamaður hann var? Mannstu hve elskulega hann horði á þig þegar þú áttir orðastað við hann?

Mannstu eftir harðdulegum verkmanninum, sem kunni múrverk, var góður smiður, vandvirkur málari en hafði minni þekkingu á rafmagni og hvaða hlutverki þéttir þjónaði? Manstu hve vandvirkur handverksmaður hann var og hve miklar kröfur hann gerði til sjálfs sín og hve góður kennari hann var öllum þeim sem hann aðstoðaði við húsbyggingar og hreiðurgerð? Mörg ykkar eigið ljúfar minningar um hjálpsaman föður og afa sem ekki dró af sér.

Vissir þú að Ingi og Hildur flugu í mörg ár til Lúxemburg til að njóta evrópsks sumars, óku í austur og gjarnan til Fiss í Austurríki og gengu svo um Alpana?

Manstu hve vel Ingi greindi milli vinnu og heimilis og bar ekki skólavandann með sér heim? Manstu hve vel hann vaktaði Melaskóla meðan hann stjórnaði þeirri menntastofnun? Manstu eftir hve glæsilegur hann var, fallegur höfðingi? Manstu sönginn hans – og skólasönginn?

Manstu garpinn á fjöllum – skíðamanninn, göngumanninn? Og Ingi, sem allan sinn fullorðinstíma bjó á KR-svæðinu var svo mikill fjallamaður að hann var jafnvel til í að hjálpa Fram við að reka skíðaskála í Eldborgargilinu. Svona eru eðal-KRingar.

Manstu geðprýðismanninn og öðlinginn – traustið sem hann þroskaði með sér og smitaði til annarra? Manstu hve ábyrgur hann var í öllum tengslum og störfum? Manstu hinn grandvara, trygga og trúa Inga, ljúflyndan, ærðulausan og samviskusaman?

Inn í himininn

Nú eru orði skil. Ingi hefur verið hrifinn úr faðmi Hildar og ástvina. Nú er Ingi farinn inn í eilífðina. Við horfum á eftir gæfumanni og öðlingi, sem skilur eftir litríkar minningar. Við sem nutum hans þökkum og blessum hann hið innra. Skóla- og samstarfs-fólk þakkar samfylgdina. Vestubæingar lofa þjónustu hans. Þið ástvinir haldið kefli hans á lofti.

Ingi mun aldrei snúa snú-snúbandinu framar en snilld hans lifir í minningunni og þolinmæði við ungviðið. Hann blandar aldrei aftur swiss-miss út í ís til að búa til afa-ís. Ólasögur mun hann ekki segja framar á fjöllum. Engir fleiri aukatímar í siðfræði og gullnu reglunni. Ingi mun aldrei framar grípa til söngbókarinnar í vasanum til að stjórna söng og það verða engir bílasöngvar framar með hans þátttöku. Söngbókin hans var það síðasta sem fór í kistuna hans og fallega tenórröddin hans er þögnuð. En söngvarnir hans lifa, hann kenndi fólkinu sínu að syngja og þegar í frumbernsku.

Ungur afadrengur fékk söngkennslu í langri ökuferð og hann skynjaði merkinguna vel því þegar hann stökk út úr afa-og ömmubílnum í Herðubreiðarlindum söng hann hástöfum Inga og Hildi til gleði: Frjálst er í fjallasal… og söngur barnsins barst um hásal hálendisins, inn í vitund samferðafólksins – og upp í himininn. Nú er Ingi Kristinsson frjás í fjallasal eilífðar, ekkert bindur hann lengur, engin gleymska eða hömlun. Hann á góða heimvon, hittir móður, dóttur, föður og frændgarð. Leyfið honum að fara en leyfið söng hans, siðfræði, metnaði, kímni og gæsku hans að lifa.

Guð geymi hann ávallt, opni honum öll fjallendi undraheims himins – til gangs og svigs. Guð geymi minningu hans og Guð blessi ástvini, íslenska skóla og menningu – og Guð geymi þig.

Amen.

Bálför – jarðsett síðar í Kópavogskirkjugarði.

Minningarorð við útför Inga Kristinssonar í Neskirkju, 2. febrúar, 2015.

Ævistiklur:

Ingi Kristinsson fæddist 29. 8. 1929 á Hjalla í Grýtubakkahreppi í S- Þingeyjarsýslu. Hann lést laugardaginn 24. janúar 2015. Foreldrar hans voru Brynhildur Áskelsdóttir húsmóðir f. 13.1 1906 að Austari-Krókum í Fnjóskadal, S-Þingeyjarsýslu, d. 30.7 1938 og Kristinn Jónsson bóndi, kennari og skólastjóri, f. 14.10 1894 á Hjalla í Grýtubakkahreppi, d. 21.9 1975. Systkini Inga eru Laufey f. 25.7 1933 og hálfbræður samfeðra Jón f. 17.6 1942 og Gunnar f. 28.8 1948.

Eiginkona Inga var Kristbjörg Hildur Þórisdóttir kennari og talmeinafræðingur. Hún fæddist á Húsavík 31.1 1933. Foreldrar hennar voru Arnfríður Karlsdóttir húsmóðir f. 26.6 1905, d.7.6 1976 og Þórir Friðgeirsson gjaldkeri og bókavörður, f. 14.9 1901 d. 26.9 1996.

Börn þeirra eru 1) Þórir verkfræðingur f. 3.8 1954 kvæntur Þorbjörgu Karlsdóttur. Þeirra börn eru a) Ragnar f. 17.2 1977 kvæntur Birnu Björnssdóttur og eiga þau tvö börn b) Hildur f. 28.12 1978 gift Bjarka Valtýssyni og eiga þau þrjú börn c) Ingi f. 30.10 1990 í sambandi með Hörpu Ellertsdóttur. 2) Kristinn verkfræðingur f. 24.9 1958 kvæntur Bergdísi Hrund Jónsdóttur. Þeirra börn eru a) Sigríður Þóra f. 17.7 1986 í sambúð með Steingrími Arasyni og eiga þau eitt barn b) Þórdís f. 4.2 1991 í sambúð með Ívari Sveinssyni. Fyrir átti Kristinn Addý Guðjóns f. 1.4 1978 með Mörtu G Hallgrímsdóttur. Addý er gift Helga Sigurðssyni og eiga þau þrjú börn. 3) Brynhildur lífeindafræðingur f. 7.12 1967 d. 24.6 2011, gift Þorkeli Lillie Magnússyni. Þeirra börn eru a) Margrét Stefanía f. 6.8 1995 b) Guðrún f. 5.11 1998 c) Friðrik Ómar f. 15.10 2003.

Ingi ólst upp á Hjalla og á Grenivík við Eyjafjörðinn austanverðan. Hann stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri og lauk þaðan stúdentsprófi 1951. Að loknu stúdentsprófi flutti Ingi suður til Reykjavíkur, gekk í Kennaraskólann og lauk kennaraprófi 1952. Í Reykjavík bjuggu Ingi og Hildur í Vesturbænum, lengst af á Tómasarhaga. Haustið 1952 hóf Ingi kennslu við Melaskólann í Reykjavík og varð skólastjóri árið 1959. Hann var skólastjóri Melaskóla í 35 ár eða þar til hann lét af störfum 1994. Ingi sat í stjórn íslenskra barnakennara 1956-1976, var varaformaður þess 1964-1972 og formaður frá 1972-1976. Ingi sinnti ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir m.a. BSRB, Hjálparsjóð æskufólks, Námsgagnastofnun og Blindrabókasafnið. Eftir að skólastjóraferlinum lauk tók hann í nokkra vetur að sér skálavörslu í skíðaskála Fram í Bláfjöllum auk þess sem hann gætti barnabarna áður en þau fengu leikskólapláss.

Anna Rögnvaldsdóttir – alltaf lífsins megin

AnnaAnna var fjölhæf og vel tengd. Í henni bjó geta til að kanna hið fjölbreytilega og nýta það til góðs og fyrir lífið. Hún vann ekki aðeins við að fræða um staðreyndir, heldur miðlaði hún mörgu, litríku og skemmtilegu. Hún kenndi börnum en líka þeim eldir og raunar alls konar fólki. Hún lét sér ekki nægja efnisheim heldur var opin fyrir víddum undurs, engla, andlegrar tilveru, söngs og eilífðar.

Anna lét ekki þröngsýni annarra spilla eigin útsýn. Hún hafði gaman af því sem lífið bauð henni, naut þess að skoða hið smáa sem og hið stóra, það sem var nærri og hins einnig sem var í fjarskanum. Næmni, styrkur, tilfinning fyrir hinu heila sem og hinu brostna ófust saman í kærleiksríka persónugerð Önnu, sem var veitul, gjafmild, umhyggjusöm og kærleiksrík. Hún var næm og ræktaði með sér tilfinningu fyrir öllu því sem var aumt og sá þau, sem þörfnuðust aðstoðar og stuðnings.

Anna Rögnvaldsdóttir var alltaf lífsins megin.

Upphaf og æfi

Uppeldisumhverfi Önnu var ævintýralegt, alla vega þótti okkur það sem ólumst upp á Grímsstaðaholtinu á sjötta og sjöunda áratugnum. Á bernskuárum Önnu var Holtið jafnvel litríkari og fjölbreytilegri veröld en nú er. Þar bjó fólk úr flestum stéttum og menningarkimum samfélagsins, fólk með fjölbreytilegan bakgrunn og fólk sem sinnti mjög ólíkum störfum.

Allir stjórnmálaflokkar áttu sér fulltrúa í samtali og átökum. Á Holtinu varð til fyrsta sellan á Íslandi og í hverfinu bjuggu háskólakennararnir. Setuliðið hafði mikil áhrif á mannlífið á stríðsárunum og þegar Anna fór að skokka um svæðið voru þar margar herbyggingar enn. Í hverfinu var ekki bara ein tegund kristni og Neskirkja. Rétt hjá heimili Önnu á Fálkagötunni var trúboðsstöð rekin af hjólandi kristniboða, sem var með biblíuvers á spjaldi á hjólinu. Stutt var í fjöruna, stutt á Reykjavíkurflugvöll, í Tívolí í Vatnsmýrinni og stutt niður í miðbæ. Landleiðir voru með rútuverkstæði sín þar sem nú eru Stúdentagarðarnir. Og miðaldir áttu sér afleggjara í húsbyggingum hverfisins. Stutt frá heimili hennar var torfbær við Suðurgötu. Hann var ekki rifinn fyrr en Anna var komin vel á legg. Mikill fjöldi barna var í flestum húsum við Tómasarhaga, Hjarðarhaga og í húsunum við göturnar sem kenndar voru við fugla; Fálkagötu, Þrastargötu, Smyrilsveg og Arnargötu. Grimsby var nærri heimili hennar. Fjöldi smáfyrirtækja voru í hverfinu.

Inn í þennan litríka og oftast skemmtilega heim fæddist Anna Rögnvaldsdóttir þann 1. nóvember, árið 1953. Foreldrar hennar voru Rögnvaldur Ragnar Gunnlaugsson kaupmaður (1920-1998) og kona hans Hulda Ósk Ágústsdóttir, f. 1931. Ragnar lést fyrir sextán árum, en Hulda lifir dóttur sína og býr enn á bernskuheimili Önnu.

Anna var elst í hópi þriggja alsystkina. Fjórum árum yngri er Ragna, sem fæddist árið 1957. Og Gunnlaugur fæddist svo árið 1961. Áður en þau Ragnar og Hulda hófu hjúskap átti hann af fyrra hjónabandi dæturnar Sigríði Steinu, Sigríði Báru og Þórdísi.

Afi, amma og Maja móðursystir í Lækjargötu tóku þátt í uppeldinu.

Hulda og Ragnar ráku merkilega verslun á horni Fálkagötu og Suðurgötu og allir í hverfinu vissu hvar Ragnarsbúð var. Nærri voru Stebbabúð, Árnabúð og bakarí við Fálkagötuna og svo var KRON við Dunhaga auk sérvöruverslana. Samkeppnin í verslungeiranum var því hörð í hverfinu og allir vissu að vöruúrvalið var gott í Ragnarsbúð. Og svo var líka þekkt að Ragnar gerði sér ekki mannamun. Prófessorarnir nutu sömu fyrirgreiðslu og alúðar og hin sem stóðu höll í lífsbaráttunni. Í Ragnarsbúð var iðkuð mannvirðing og Anna fékk í arf jákvæða mannsýn og var mannúðleg í samskiptum við fólk.

Anna varð fljótt öflugur foringi og varð systkinum sínum ekki aðeins elskuleg stóra systir heldur eins og lítil mamma. Hún sótti skóla í Melaskóla sem var þá sem nú – öflug menntastofnun. Svo lá leiðin í Hagaskóla og þar á eftir í Kennaraskólann. Anna var félagslega hæf og eignaðist því vini – ekki bara í húsunum í kring heldur líka í skólunum. Svo stækkaði kunningjahópurinn eftir því sem hún eltist.

Anna lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1973 og kenndi við ýmsa grunn- og framhaldsskóla þaðan í frá og til ársins 1996. Eftir að hún lauk kennararprófi hleypti hún heimdraganum og hóf kennslu í Keflavík. Þar var hún í nokkur ár og flutti svo í bæinn og kenndi við Fellaskóla og fleiri skóla.

Önnu hentaði ekki að staðna eða vera í einni rás í lífinu. Hún vildi gjarnan bæta við sig, auka menntun sína og prófa nýtt. Um tíma bjó Anna í Tulsa, Oklahoma í Bandaríkjunum með manni sínu og stundaði nám í háskóla í þeirri borg á meðan bóndi hennar lærði til flugvirkja. Og á árunum1996-98 stundaði Anna nám í listmeðferð í háskólanum í Hartfordshire í Englandi. Eftir að hún útskrifaðist starfaði hún ýmist við almenna kennslu eða listmeðferð fram til ársins 2013 þegar hún lét af störfum vegna veikinda.

Þórarinn, Ragnar og staðirnir

Svo var það Þórarins þáttur Sigurgeirssonar. Þórarinn sá Önnu í fyrsta sinn þegar hún kom á heimili hans á Sólvallagötunni og átti erindi við systur hans. Þórarinn sá hana í sjónhendingu en gerði sér þó grein fyrir að þar fór “flott stelpa” – eins og hann orðaði það. Þórarinn var síðar verkstjóri í Saltvík á Kjalarnesi. Anna kom þangað í heimsókn til að hitta systur sína, Rögnu, sem var í vinnuhópnum hans Þórarins.

Hópur af ferðaglöðu, ungu fólki ákvað að fara saman í Evrópureisu og á árinu 1976, fóru sex af stað til Kaupmannahafnar. Í þeim hópi voru Anna og Þórarinn. Þau fóru utan sem einstaklingar en komu heim sem par. Og þegar hópurinn hafði ekið á Volkswagen rúgbrauði frá Kaupmannahöfn, yfir Þýskaland, farið um Austurríki, Ítalíu, Frakkland og England voru þau Anna og Þórarinn farin að sjá hvort annað mjög vel. Þegar þau voru komin heim til Íslands flutti Þórarinn með tannburstann sinn og sitthvað fleira inn til Önnu. Síðan þá var hann kletturinn hennar, sól og ljósgjafi. Og Anna var Þórarni öflugur stuðningur og í henni átti hann alltaf tryggan bandamann sem hvatti hann til mennta, dáða og starfa.

Um tíma bjuggu þau Anna og Þórarinn á Sólvallagötu, voru sjö ár í Breiðholti og fluttu svo í Selás árið 1987 og bjuggu þar síðan.

Sonur þeirra Önnu og Þórarins er Ragnar. Hann fæddist árið 1980 og er flugvirki eins og faðirinn. Ragnari var Anna hin besta móðir, kennari og vinur.

Kveðjur

Ég hef verið beðin að flytja þessum söfnuði kveðjur þeirra sem ekki geta verið við athöfnina. Helga og Helgi á Akureyri þakka fyrir vináttu Önnu og biðja fyrir samúðarkveðjur til ættingja og vina. Þá þakka Guðrún, Árni og Hjörtur frá Köldukinn fyrir allar góðu samverustundirnar þegar Anna var í sveit hjá þeim.

Og vert er – á þessum tímamótum – að þakka öllum þeim sem hafa verið Önnu stuðningur fyrr og síðar, s.s. starfsfólki á Líknardeildinni. Auk eiginmanns og sonar hafa systkini Önnu, Ragna og Gunnlaugur, stutt hana og þjónað umfram alla skyldu. Lof sé þeim og þökk.

Minningarnar um Önnu

Hvernig manstu Önnu? Hvað kemur upp í huga? Manst útlit hennar, glæsileika?

Manstu sálargáfur hennar og eigindir? Manstu hve næm hún var, líka viðkvæm? Hún var tengd sínum innri manni og tók mark á víddum sálar og anda. Hún var jafnvel berdreymin og tók mark á draumförum og átti í engum vandræðum með að kafa í táknmál og tilfinningatengingar.

Manstu skopskyn Önnu, að hún gat haft skemmtilega orð á hinu óskemmtilega – og jafnvel gert hið alvarlega og ógnvænlega ofurlítið léttbærara með því að varpa óvæntu ljósi á málin?

Anna var kona orðsins, las mikið – hafði breiðan bókmenntasmekk. Og svo átti hún líka til að skrifa vísur á blað sem hún setti í kompu sína og skúffur. Manstu hve orðheppin hún gat verið?

Manstu hve þjónustufús hún var ávallt og vildi öllum hjálpa? Manstu hjartalag hennar og umhyggju og að hún var reiðubúin að leggja hart að sér til að létt öðrum lífið. Og manstu hve öflug elsta systir hún var og vildi tryggja velferð sinna?

Og svo veislukonan: Getur þú dregið fram í huga veislurnar í hennar húsi og matargnóttina? Anna skipulagði sínar veislur og vandaði til skreytinga og matar.

Og svo kunni hún að dansa. Vissir þú að hún var virkur þátttakandi í Þjóðdansafélaginu á sínum tíma?

Manstu hve listræn Anna var, drátthög, handlagin og kunnáttusöm á mörgum sviðum sjónlista? Hún var sífellt að bæta kunnáttu sína og þjálfaði sig á nýjum sviðum. Því var hún sífellt að eflast sem skapandi listakona og listmeðferðarmenntunin var ekki aðeins í þágu þeirra sem hún þjónaði heldur einnig henni sjálfri – gaf henni dýpt og túlkun sem styrkti hana á eigin þroskaferli.

Og manstu söngvarann Önnu? Kórsöngurnn varð henni fyrr og síðar gleðigjafi. Hún lærði að syngja í Tónlistarskóla Kópavogs, gekk til liðs við Óperusmiðjuna, söng í Kvennakór Reykjavíkur og svo Vox Feminae. Nú syngja vinkonur hennar yfir henni látinni. Þökk sé vinkonum hennar og Guð styrki þær.

Skilin og ferðin inn í eilífðina

Anna hóf lífsferð sína á Grímsstaðaholtinu og lauk henni við Kópavoginn. Skömmu áður en hún dró andann í síðasta sinn syntu tveir hvítir svanir á voginum fyrir framan gluggann hennar. Svanirnir urðu þeim friðartákn, sem voru nærri. Hulda, móðir Önnu hringdi, og bað um að kysst yrði á enni dóttur hennar. Og svo hvarf Anna frá Þórarni og öllum ástvinunum inn í himininn.

Anna málar ekki meira. Hún passar ekki lengur upp á strákana sína eða dekrar við systurdætur sínar. Hún fær ekki að njóta hússins sem verður smíðað næsta sumar norður í Svarfaðardal. Hún eignast engar hænur þar eða hunda og heldur enga ketti heldur. Hún túlkar enga drauma eða skreytir veisluborð. Nú er hún farin.

Og leyfðu henni að fara inn í himininn. Hún trúði á Guð, hún var viss um að lífið væri ekki búið þegar hinu tímanlega lyki. Hún er farin inn í þá veröld, þar sem litirnir eru stórkostlegir, þar sem þokki formsins færa að njóta sín og þar sem ástvinir hennar syngja í risastórum kór eilífðar. Og þar verður söngur því kristnir menn trúa að líf og upprisa Jesú Krists hafi opnað himinveröldina og boðskapur hans sé merkingarbær – að lífið lifir og því beri að syngja. Anna má lifa því lífi og syngja eilífarsöngva.

Guð geymi Önnu og Guð geymi þig.

Amen

Útför frá Fossvogskirkju, föstudaginn, 19. desember, 2014. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.