Gunnlaugur Kristjánsson – minningarorð

Gunnlaugur Kristjánsson
Gunnlaugur Kristjánsson

„Það væri þröngsýni að halda því fram, að í óravíddum himingeimsins séu ekki fögur veiðivötn og full af fiski. … Ég vona, að ég finni þennan elskulega mann aftur í löndum eilífðarinnar og þá helzt með stöng í hönd.” Þessa merkilegu himinsýn skráði veiðijöfurinn Björn J. Blöndal og á vel við þegar við kveðjum Gunnlaug Kristjánsson. Gulli kunni að veiða, veiddi með ákafa og gleði, eldaði bráðina, kryddaði með smjöri og góðum sögum og svo – eins og hendi sé veifað er hann farinn inn í himininn. Farinn hvert og á hvaða árbakka? Hvernig getur þú hugsað um hið ósegjanlega – Gulla í eilífðinni? Kemur ekkert veiðisumar eftir dimman og myrkan vetur? Óhugsandi. Okkur sem elskum vatn, líf í straumnum og fögnum geislum í gárum þykir eðlilegt að vænta þess að lífsins vatn sé veiðistöð, að við fáum að standa við strauminn og kasta á sporðamettaða strengi. Á þeim árbakka himinfljóts má Gulli vera. Skaparinn hefur gaman af lífi og ljósi. Lausanarinn hvatti fólk til að hyggja að dásemdum vallar og vatns og Andinn hefur húmor í bland við elsku.

Uppruni og ævistiklur

Gunnlaugur Kristjánsson fæddist á Akureyri 14. janúar árið 1956. Foreldrar hans voru hjónin Kristján Bjarnason (27. 8. 1911, – 5. 2. 1992) og Mekkín Guðnadóttir (4. 5. 1920) bændur í Sigtúnum í Eyjafirði. Gunnlaugur var yngstur systkinanna. Eldri eru Bjarni Benedikt, sem fæddist árið 1944, Gunnar Árni kom svo í heiminn árið 1947 og Jón Guðni 1949. Sigrún fæddist árið 1954 og svo var Gulli síðastur í röðinni. Mekkín lifir og býr á Akureyri en Kristján lést árið 1992. Gunnlaugur, hinn yngsti, er nú látinn en systkinin lifa.

Bernskuheimilið var sveitaheimili og búskapurinn blandaður – um hundrað fjár í húsi og í fjósi voru milli tuttugu og þrjátíu gripir. Gulli lærði snemma að gera gagn. Hann var tápmikill, harðduglegur og vinnusamur. Hann var velkominn í heiminn og naut mikillar elsku í uppeldi. Gulli hóf skólagöngu í heimabyggð var snarpur og glöggur og fór fram fyrir jafnaldra í námi. Hann hleypti snemma heimdraganum og fór í héraðsskólann í Reykholti í Borgarfirði. Þar var hann í tvö ár. Svo lá leiðin norður aftur og hann fór beint í fjórða bekk Menntaskólans á Akureyri. Lífið í MA var ævintýralegt og Gulli eignaðist vini og líka aðdáendur í skólanum. Hann var hrókur fagnaðar, uppátækjasamur, skemmtilegur og hrífandi. Hann var þá veislusækinn leiðtogi og æ síðan. Gulli lauk stúdentsprófi árið 1976. Svo skráði hann sig í Tækniskólann og lauk prófi í byggingatæknifræði árið 1981.

Fólkið hans Gulla

Gunnlaugur Kristjánsson eignaðist soninn Loga með skólasystur sinni Huld Ingimarsdóttur árið 1975. Þau hófu hjúskap og gengu í hjónaband árið 1984. Leiðir þeirra skildu árið 1998. Logi er kvæntur Elísabetu Guðjónsdóttur og á með henni tvo syni, Daða og Sölva, sem er á fyrsta ári. Gunnlaugur eignaðist Halldór, yngri soninn, með Rósu Emilíu Óladóttur árið 1981. Hann eignaðist fjögur börn. Þau eru Ágúst Freyr, Elín Helga, Sölvi Thor og Emilía Ósk. Halldór lést árið 2012.

Seinni kona Gulla er Helga Sigrún Harðardóttur. Þau gengu í hjónaband árið 2005. Gulli gekk Írisi, dóttur Helgu Sigrúnar, í föðurstað og börnum hennar í afastað. Sambýlismaður Írisar er Ómar Freyr Sigurbjörnsson. Börn þeirra eru Helga Vala, Dagur og Lóa Björk.

Mér var falið að bera ykkur fjölskyldu Gulla, vinum og þessum söfnuði kveðjur. Skólafélagar í Reykholtsskóla og MA biðja fyrir samúðarkveðjur sínar til fjölskyldu og ættingja Gulla. Þá biðja Lísa og Kiddi fyrir kveðjur, en þau eru erlendis og geta ekki verið við þessa útför. Þórný Linda Haraldsdóttir biður fyrir kveðjur og sömuleiðis Jakob Sævar Stefánsson.

Vinnan

Gunnlaugur Kristjánsson var dugmikill vinnuþjarkur. Ósérhlífni, áræðni, framsýni og óbilandi áhugi á skipulagsmálum, arkitektúr og byggingatækni gerði Gulla að eftirsóknarverðum stjórnanda í byggingabransanum. Hann starfaði hjá Ármannsfelli hf. og Aseta á árunum 1982 – 1987. Hann kom sér alls staðar vel í starfi, axlaði ábyrgð, var virtur fyrir getu og var treyst til stórræða. Gulli var tæknilegur framkvæmdstjóri hjá Álftarósi ehf. á árunum 1987 – 1999. Þá hóf hann störf sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs Íslenskra aðalverktaka og gegndi því starfi til ársins 2007. Þá tók hann við stjórnartaumunum í Björgun og hefur m.a. stýrt námavinnslu félagsins úr sjó og vinnslu byggingarefnis auk hafnadýpkunum. Björgun hefur m.a. gegnt því Heraklesarverkefni að dýpka Landeyjahöfnina. Síðustu árin var Gunnlaugur einnig forstjóri eignarhaldsfélagsins Hornsteins, BM Vallár og Sementsverksmiðjunnar.

Gulli kom með einum eða öðrum hætti að skipulagsþróun byggingarreita og uppbyggingu ýmissa stórbygginga s.s. Kjarnanum í Mosfellsbæ og Sundlauginni í Árbæ auk fjölmargra íbúðarhúsa. Hæst ber Hörpuna en sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs ÍAV dró Gulli vagninn í Portus Group og stýrði hópi fagaðila sem í sameiningu unnu samkeppni um hönnun Hörpunnar, þess mikla djásns höfuðborgarinnar. Gunnlaugur hönnunarstýrði Hörpuframkvæmdunum til ársins 2007. Við eigum honum þökk að gjalda og hann var sjálfur stoltur af framlagi sínu við verðlaunahönnun Hörpunnar.

Gulli var skarpgreindur og sem farsæll leiðtogi lánaðist honum oftast að fá samstarfsaðila til samfylgdar – fólk með ólíkar hugmyndir og náði oftast skapandi sátt þó fyrirfram þætti mörgum óhugsandi. Ómögulegt var ekki til í orðabók Gulla. Hann fann yfirleitt leið til að láta mál ganga og hluti virka með áræðni, mikilli vinnu og framsýni.

Gulli var liðtækur bridgespilari á árum áður og mikill keppnismaður á þeim vettvangi. Tefldi hann gjarnan á tæpasta vað sem makker hans hafði getu til að meta og nýta.

Gulli var ástríðukokkur. Hann keypti alltaf besta hráefnið og gat í skyndi slegið upp veislu. Hann gantaðist með að hafa farið í veiði með gömlu vinunum í Laxárdal í Þingeyjarsýslu og í stað þess að skrifað væri um afrek þeirra í tímaritið Veiðimanninn var skrifað um þau í tímaritið Gestgjafann. Hann hafði gaman af að elda með skemmtilegu fólki, veiddi það besta úr matargerðarlist heimsins, skildi að smjör hefur aldrei skemmt mat heldur bætt og skellti svo ótrúlegum nöfnum á réttina sína. Ég sá t.d. afar áhugaverða uppskrift hans í tímaritinu Vikunni undir hinu ógvænlega heiti: Lamb Al-Quaida – fyrir 4!

Matargerð Gulla var eins og tákn um líf hans. Gulli var veislusækinn dugmaður sem veitti samferðafólki sínu vel, bjó þeim það besta sem hann átti. Hann vildi öllum vel, þjónaði eins og hann gat og Gullagleðin hreif.

Helga Sigrún og Gulli

Gunnlaugur Kristjánsson - á hjónavígsludaginn.
Gunnlaugur Kristjánsson – á hjónavígsludaginn.

Helga Sigrún og Gulli hittust á nýársballi árið 2004 þar sem Helga Sigrún var veislustjóri. Gulli kom með útsjónarsemi úrinu sínu svo fyrir að Helga Sigrún fór óvart með það heim. Daginn eftir fékk hún sms skilaboð frá honum. Í þeim stóð: „Hæ, ég heiti Gulli. Geturðu nokkuð sagt mér hvað klukkan er?“ Þá vissi Helga Sigrún hvað klukkan sló og hve skarpur hann var. Hálfu ári síðar höfðu þau keypt saman íbúð, innréttað hana og flutt inn. Ári síðar gengu þau í hjónaband. Þau áttu síðan tíu undraár saman. Hann dáðist að konu sinni og umvafði hana, fór með henni um heiminn og naut sín í vinnu og einkalífi.

Gulli fékk heilsufarsaðvörun á síðasta ári og síðan þungt högg á þessu. Gulli greindist með krabbamein í febrúar 2015: „Föstudagurinn þrettándi, það hlaut að vera!“ lét hann hafa eftir sér. Svo tók við slagur við dauðann og sókn í líf. Hann komst í stutta veiðiferð í Norðurá sem varaði í nokkra tíma og brosti alla leið í bæinn, vindbarinn, lúinn, lerkaður og með mikla verki. Helga Sigrún vaktaði hann og studdi og Logi hlúði að föður sínum. Gulli sat gjarnan hljóður úti, hugsaði sitt og naut birtu í auga og vinds á kinn. Geðprýði og yfirvegun hans snart þau sem áttu við hann samskipti á þessu tímabili en símtöl, heimsóknir og kveðjur frá vinum og vandamönnum voru honum styrkur í baráttunni. Hann mat mjög hve systkini hans og vinir stóðu þétt með honum í veikindunum og var þakklátur fyrir stuðninginn.

Minningar og lífið

Nú eru skil. Hvers minnistu þegar þú hugsar um Gulla? Manstu ósérhlífni, glaðværð, kraftinn, húmorinn, greindina? Manstu umhyggju hans og vilja til að efla alla? Manstu áhugann á framkvæmdum og hinn skapandi huga hans? Manstu hve frjór hann var og marksækinn? Manstu getuna til að greina að aðalatriði og aukaatriði? Og hugsaðu alltaf um Gulla héðan í frá þegar þú ekur fram hjá Hörpunni eða ferð á tónleika. Þá nýtur þú hans, hugsjóna og verka.

Og nú er hann farinn. Hann er ekki á Sigtúnum heldur Guðstúnum. Hann ekur ekki lengur hratt og multitaskar á meðan. Hann vegsamar ekki lengur íslenskan landbúnað með því að löðra smjöri á pönnu og steikja ofursteik. Hann ávann sér tuttugupundaramerkið en þeir verða ekki fleiri silfurhreistraðir á bakkanum hjá honum heldur einhverjir ofurfiskar skv. húmor himsins eins og sést á baksíðu sálmarskrárinnar. Á himnum brotna engar stangir. Það er hörmulegt að Gulli skuli vera dáinn og farinn en það er heimsins hjálparráð að Guð opnar veröld himinsins og þú, ég og Gulli megum öll njóta. Guð dassar heilmiklum húmor yfir okkur, elskar og bjargar. Heimurinn er eins og Harpan – stórkostleg hönnun en himininn fullkominn. Gulla var ríkulega gefið í lífinu og er elskaður í eilífðinni.

Guð geymi Gunnlaug Kristjánsson og Guð geymi þig.

Minningarorð í útför Gunnlaugs í Hallgrímskirkju föstudaginn 11. september kl. 13. Jarðsett í Kópavogskirkjugarði. Erfidrykkja í Hörpunni.