Guðrún Birna Þorsteinsdóttir – Dúna


DúnaDúna var heimakona í Neskirkju. Hún bjó í Vesturbænum frá því kirkjan var byggð og rataði í kirkjuna sína. Hún sótti kirkju, messur, bænastundir og fræðslustarf og studdi starf safnaðarins. Hún las upp fyrir eldri borgara og gerðist bílstjóri fyrir þau sem átt óhægt með að ganga til og frá kirkju. Dúna kom alltaf í Neskirkju með bros á vör og birtu í augum, með elskusemi, hlýju og glæsileika. Þegar Dúna kom varð allt heldur skemmtilegra og betra og þegar hún fór skildi hún eftir ofurlitla Cartier-ilmvatnslykt, notalegheit og þakklæti í huga okkar sem störfuðum í kirkjunni. Við þökkum fyrir alla þjónustu Dúnu, vinsemd hennar og elskusemi.

Upphaf

Guðrún (Anna) Birna Þorsteinsdóttir fæddist á Þingeyri 14. september árið 1936. Foreldrar hennar voru hjónin Guðmunda Sigríður Guðmundsdóttir og Þorsteinn Jónsson, sem kallaður var Eyfirðingur. Þorsteinn fæddist árið 1883 en kona hans tæplega þretán árum síðar. Hún var Vestfirðingur en hann Eyfirðingur eins og viðurnefnið ber með sér.

Þorsteinn var skipstjóri og útgerðarmaður og vegna starfa hans bjó fjölskylda Dúnu fyrstu árin á Þingeyri en flutti svo til Reykjavíkur. Þar bjó Dúna síðan. Hún hóf skólagöngu í Miðbæjarskólanum og fór svo í hinn nýja Melaskóla. Síðan lá leiðin í Gagnfræðaskóla Verknáms. Þar naut hún góðrar menntunar og eignaðist góðar vinkonur og þær átttu skap saman – og ákafinn í náminu var svo mikill að þær jafnvel lokuðust einu sinni inni í Austurbæjarskóla og kalla þurfti út mannskap til að ná þeim út. Vináttu þessara kvenna naut Dúna til æfiloka. Eftir verknámið fór Dúna í eitt ár til náms í Bristol í Englandi og enn síðar í húsmæðraskóla í Holbæk í Danmörk. Hún lærði ekki aðeins hagnýt fræði og tungumál heldur var opin félagslega og tengdist fólki greiðlega. Vináttuböndin sem hún batt á þessum árum dugðu til lífsloka.

Þegar Dúna koma heim til Íslands eftir nám erlendis vann hún ýmis skrifstofustörf í Reykjavík. Hún vann um tíma á lögfræðistofu Einars Ásmundssonar og svo vann hún einnig á Hótel Borg. Hún var flugfreyja hjá Loftleiðum á sjötta áratugnum og var síðan móttökuritari á Domus Medica. Þá lagði Dúna sig eftir snyrtifræði og vann um tíma í snyrtivörudeild í apóteki.

Gunnar, Sigrún Magnea og fjölskyldan

Dúna og Gunnar - hjónavígslumyndGamli Garður var Dúnu og lögfræðinemanum, Gunnari I. Hafsteinssyni góður staður. Þar hittust þau fyrst á balli. Þau hrifust hvort af öðru og tóku upp samband. Þau gengu í hjónaband í Háskólakapellunni þann 25. júní árið 1960. Neskirkjupresturinn og rithöfundurinn Jón Thorarensen gaf þau saman. Þau hófu búskap á Seltjarnarnesi. Gunnar hélt áfram námi í lögfræðinni og eins og tíðkaðist á þeim árum hættu giftar konur að fljúga um heiminn þegar þær sögðu já við mannsefni sínu í kirkjunni. Dúna fékk þá vinnu í Reykjavík.

Þau Dúna og Gunnar keyptu sér íbúð á Víðimel skömmu eftir að hann lauk lögfræðinni árið 1963 og fluttu sig svo um set yfir á Meistaravelli til að geta verið í nágrenni við móður Dúnu sem þar bjó. Á Hagamel bjuggu þau Gunnar svo í nokkur ár og byggðu sér síðan einbýlishús í Skerjafirði þar sem þau hafa búið í 18 ár. Gunnar hefur starfað sem lögfræðingur og útgerðarmaður.

Þau Dúna og Gunnar eignuðust eina dóttur Sigrúnu Magneu. Hún er jólabarn, fæddist 25. desember 1973. Sigrún Magnea er leikskólakennari að mennt. Eiginmaður hennar er Benedikt Sævar Magnússon, byggingatæknifræðingur. Þau eiga fjórar dætur. Elst er Bergljót Soffía sem fæddist 27. maí 1998 og næst Inga Birna. Hún er vorstúlka, fæddist 10. apríl árið 2002. Freyja Dís fæddist árið 2005. Hún er líka fædd að vorlagi eða 8. apríl. Það eru því stutt á milli afmæla þeirra systra, bara einn dagur. Yngst systranna er Lóa Mjöll. Hún er fjögurra ára, fæddist 29. marz árið 2011.

Dúna hafði mikla gleði af ungviðinu i fjölskyldunni, talaði oft um dótturdætur sínar, kenndi þeim að biðja og var til staðar fyrir þær þegar hún hafði heilsu til. Hún miðlaði okkur prestum og starfsfólki kirkjunnar fréttum af þeim og afrekum þeirra. Og það var gaman að hlusta á hana segja sögur af þessum ungu konum sem hún batt miklar vonir við og syrgði að geta ekki fylgt eftir.

IMG_0212 fix (2)

Minningarnar

Hvrernig manstu Dúnu? Hvað kemur upp í hugann? Hún vakti athygli allra þeirra sem sáu hana. Svo smekkleg var hún og glæsileg. Húsmæðranám var hagnýtt en Dúna hafði allt í sér til að kunna að meta efni, snið, rými, liti, útlit og skipulag. Hún var smekkvís og vissi vel hvað við átti í hvert sinn. Hún var öðrum fremri að tengja saman liti.

Hvernig er heimili Dúnu? Þar eru engin stílbrot. Hús og heimili þeirra Gunnars í Skerjafirði er eitthvert það smekklegasta sem ég hef komið á. Dúna lagði alúð í að búa manni sínum og fjölskyldunni fagurt heimili. Fagurkerinn í henni naut sín til fulls við að koma myndum fyrir og sjá til að stólar og sófar væru rétt staðsett í rýminu. Hún hafði gleði af fallegum hlutum og í gegnum tíðina eignaðist hún fallega muni sem hún kom fyrir með næmum smekk. Jafnvel starfaparkettið á gólfinu er lagt með listfengi og ljóst að ekki hefur verið kastað hendi til nokkurs í húsi þeirra Dúnu. Og þegar hún hafði búið heimili sitt fagurlega sá hún til að fegurðin héldist og allt væri í röð og reglu innan stokks sem utan. Og þau Gunnar opnuðu hús sitt fyrir glöðu fólki og mannfundum.

Manstu have vel hún fylgdist með öllu í samfélaginu? Hún las dagblöðin svo vel að hún hafði gott yfirlit allra helstu mála og var þar með upplýst um hvað væri á döfinni. Hún las alls konar bækur. Það var því hægt að bera víða niður í samtölum við Dúnu.

Dúna hætti ekki að ferðast þó hún hætti að fljúga. Hún hafði gaman af að skoða heiminn. Þegar Gunnar hafði ekki tóm til að fara með henni fór hún með vinkonum sínum og fór einnig í skipulagðar hópferðir. Guðrún Karlsdóttir fór með Dúnu í miklar ferðir til Suður Afríku og Asíulanda. Vinir og vinkonur eru stoð í lífinu og Dúna átti í vinkonum sínum dýrmæta gleðigjafa. Og það er ástæða til að þakka vináttu þeirra sem var Dúnu mikilvæg í lífinu.

Manstu lífsafstöðu hennar? Hve þakklát hún var fyrir lífið og vildi miðla þakklæti, þeirri mikilvægu lífsafstöðu til afkomenda sinna og samferðafólks?

Manstu hve þolinmóðlega Dúna bar veikindi sín? Í áratugi átti hún við vanheilsu að stríða. Hún hafði ekki langt mál um baráttu sína. Þegar ég spurði um líðan hennar féllu nokkur vel valin orð, hún brosti svo ofurlítið og vék svo talinu að öðru.

Manstu viðkvæmni hennar? Það fór ekki fram hjá neinum sem þekktu Dúnu að hún var næm.

Manstu eftir áhuga hennar? Á þér, á því sem væri til gleði, á viðburðum í samfélaginu, á öllu því sem gæti létt lund, glatt og orðið til eflingar. Mér þótti vænt um að sjá hve natin Dúna var við öll þau sem hún gæti stutt og hjálpað. Ég heyrði af því að hún hefði verið sjálfboðaliði Rauða krossins um tíma. Hún var alltaf boðin og búin að lesa eða sinna einhverju sjálfboðastarfi í Neskirkju. Og það var hrífandi að sjá hve vökul hún var ef einhver þurfti aðstoð við að komast til og frá kirkju. Hún ók fólki vestur á Grandaveg eða upp í Þingholt. Allt gerði hún með þokka.

Manstu hve natin Dúna var við móður sína aldraða og hvernig hún sýndi hjartalag sitt í samskiptum við hana? Þessi afstaða til hinna öldruðu speglaðist vel í eldriborgarastarfinu í Neskirkju.

Inn í himin Guðs

Nú er hún farin. Við leiðarlok er vert að þakka Gunnari fyrir óbilandi stuðning hans við Guðrúnu í veikindum hennar og Sigrúnu Magneu og fjölskydu hennar hve vel þau héldu um hana til loka.

Dúna er farin inn í himininn. Hún kemur ekki lengur þurrkuðum blómum fyrir í vösum í stofunni sinni. Hún biður ekki lengur kvöldbænir með ömmubörnum og fer ekki framar með „Leiddu mína litlu hendi….” Augu hennar lifna ekki lengur af kátínu og skemmtilegheitum. Hún er farin af fallega heimilinu sínu og Gunnar er einn eftir. Dóttir, tengdasonur,  ömmudætur og ástvinir sjá á bak henni. Hún kveður nú líka Neskirkju endanlega og í síðasta sinn. Hún er horfin ykkur, öllum þeim sem unnu henni. Hvert fór hún? Dúna átti í hjarta trú á Guð.

Guðrún Birna Þorsteinsdóttir er farin með friði inn í veröld Guðs.

Guð geymi hana og Guð geymi þig.

Minningarorð í útför Guðrúnar Birnu Þorsteinsdóttur í Neskirkju 11. nóvember 2015. Bálför. Jarðsett í fjölskyldugrafreit í Fossvogskirkjugarði. Erfidrykkja í Neskirkju. Kistulagt í kapellunni í Fossvogi 9. nóvember.