Óli Valur Hansson – minningarorð

Óli Valur Hansson
Óli Valur Hansson

Allt er vænt sem vel er grænt. Það er áhrifaríkt að horfa á opnu sálmskrárinnar og sjá liti og form gróðursins, sem myndar baksvið sálma og textanna sem sungnir eru við útför Óla Vals Hanssonar. Að lifa vel var verkefni hans og að efla lífið var vinna hans. Hann var þjónn lífsins og nú er hann farinn inn í gróðurreit himinsins og getur skemmt sér við það sem honum þótti gaman að gera – skoða lauf og handleika fræ. Hann getur skoðað himneska runna og plöntur. Hvert er hið latneska heiti lífstrésins? Latnínunafnasnillingurinn Óli Valur er nú í þeim fræðaranni.

skógarbotnÉg er vínviðurinn og þér eruð greinarnar, sagði Jesús Kristur. Óli Valur lærði snemma speki lífgjafarans frá Nasaret og skildi þann boðskap. Í lífinu gekk hann svo erinda þess fagnaðarerindis sem er grænt og vænt. Hann var trúr í öllu, smáu sem stóru. Þökk sé honum og lof.

Ætt og uppruni

Óli Valur Hansson fæddist í Reykjavík. Hann var sonur hjónanna Magdalenu Margrétar Eiríksdóttur, húsmóður (1884 – 1937), og Hans Wíum Bjarnasonar múrara og fjárbónda, (1888-1961). Hún var fædd á Álftanesi en hann var Skaftfellingur, frá Hruna á Brunasandi. Systkinahópur Magdalenu og Hans voru fjögur. Elst var Eydís. Hún fæddist árið 1917, náði háum aldri og lést árið 2008. Nils Einar, fæddist 1919 en lést ungur eða árið 1927. Óli Valur kom svo í heiminn í október árið 1922 og var því barn að aldri þegar bróðir hans lést. Guðrún Gyða fæddist árið 1925 og lést 2005. Margrét, móðir Óla Vals og þeirra systkina, féll frá árið 1937 svo áföllin í fjölskyldunni voru mikil. Hvaða afleiðingar höfðu missir bróður og móður á drenginn á Baldursgötunni? Þeirri spurningu verður ekki svarað en aðeins leitt að líkum að sálir voru markaðar.

Skóli, menntun og störf

Óli Valur sótti nám í hinn nýja og glæsilega Austurbæjarskóla. Hann lék sér á Skólavörðuholtinu, skemmti sér og söng í KFUM og hafði það falleg hljóð að hann tróð upp og söng einsöng í Gamla bíó. Hans, faðir hans, var bóndi að mótun og hélt sauðfé í bakgarðinum og sleit sig ekki frá búskapnum og bjó um tíma – á efri árum – í fjárhúsi sínu þegar hann hafði ekki lengur skyldum að gegna gagnvart börnum sínum. Það er lífsnatni í þessu fólki.

Óli Valur laut að blómum og jurtum og hneigðist til ræktunar og fékk snemma vinnu í samræmi við áhugann. Skömmu fyrir seinni heimstyrjöld, með stuðningi föður síns og fyrir hvatningu ræktunarmanna, fór Óli Valur – þá sautján ára – til náms í Danmörk. Hann hafði meiri áhuga á grænu víddinni en gráu hernaðarvíddinni. Þrátt fyrir stríð og fár í Evrópu náði Óli Valur að fara víða og markmið hans var að læra sem mest. Hann vann í Danmörk við garðyrkju og svo var hann ráðinn til starfa um tíma í stöð í Berlín. Hann sá nasíska forkólfa en hafði enga löngun til að ganga í SS-sveitirnar og þegar hann fór til Danmerkur aftur tengdist hann andspyrnuhreyfingu Dana.

Óli Valur stundaði nám í Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn og lauk prófi árið 1946. Þá fór hann heim til Íslands og tók að sér verkstjórn í þrjú ár á garðyrkjustöð Stefáns Árnasonar á Syðri-Reykjum í Biskupstungum sem var brautryðjendastöð. Árið 1949 varð Óli Valur kennari við Garðyrkjuskóla ríkisins og var þar átta ár eða til ársins 1957. Þá varð hann garðyrkjuráðunautur hjá Búnaðarfélagi Íslands og var að til ársins 1985. Hann hafði eins og margir aðrir starfsmenn bændasamtakanna fyrst skrifstofu í búnaðarfélagshúsinu við Tjörnina og síðar í Bændahöllinni við Hagatorg.

Vegna starfa síns ferðaðist Óli Valur um allt land, lagði á ráðin um ræktun, teiknaði fyrir bændur garða, skýrði út möguleika og kosti, efldi garðyrkjufólk, ráðlagði einstaklingum, hélt fyrirlestra fyrir almenning og m.a. í útvarpi, skrifaði greinar í blöð og tímarit – og hélt fram hinu græna fagnaðarerindi. Og þegar Óli Valur var búinn að koma í heimsókn í sveitir landsins var hugur í fólki og karlarnir voru jafnan sendir í kaupstað til að kaupa girðingarefni fyrir garða við bænadabýlin. Sagt var að vorið kæmi í sveitirnar þegar Óli Valur kom. Lummur voru bakaðar og veislur voru haldnar til heiðurs þessum forgöngumanni um íslenskrar garðyrkju. Einn bóndinn orkti svo um komu hans:

Kær er sá sem koma skal,

konurnar þekkja róminn.

Allar elska hann Óla Val

eins og fögur blómin.“

Óli Valur var mikill fræðari. Mér – eins og þúsundum annarra Íslendinga – eru útvarpserindi Óla Vals minnistæð. Óli Valur hélt fyrir almenning fjölda fyrirlestra um garðyrkju. Þá var hann ritstjóri búnaðablaðsins Freys um nokkurt skeið auk þess að ritstýra bókum um matjurtir og garðyrkju. Vert er að minna á að færslur um Óla Val í ritaskrá Gegnis eru 26!

Óli Valur lét víða til sína taka í græna heiminum en í öðrum veröldum einnig. Hann var t.d. öflugur frímerkjasafnari, var félagi í Félagi frímerkjasafnara og formaður þess um tíma.

Óli Valur hafði mikil, víðtæk og langvinn áhrif varðandi garðyrkju á Íslandi. Nokkrum dögum eftir andlát hans kom ég í garðyrkjubýlið Friðheima í Biskupstungum. Þar er á stóru fræðsluspjaldi minnt á að Óli Valur hafi ekki aðeins þjónað einstaklingum heldur hafi í starfi sínu hvattt garðyrkjubændur til dáða og lagt grunn að nútímagarðyrkju. Í Friðheima koma nú þúsundir íslenskra og erlendra ferðamanna, dást að ræktun og möguleikum garðyrkju á Íslandi. Og allir sem koma í þessa gróðurvin eru þar með einnig fræddir um að Óli Valur Hansson var aðalmaður í þróun garðyrkju á tuttugustu öld.

Mér hefur verið falið að bera þessum söfnuði kveðju frá Sambandi garðyrkjubænda. Garðyrkjubændur minnast hans með virðingu og þökk fyrir störf hans í þágu íslenskrar garðyrkju.

Meðfram störfum hjá Búnaðarfélagi Íslands starfaði Óli Valur um árabil hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins að tilraunum með matjurtir og berjarunna.  Þá vann hann hjá Blómamiðstöðinni og síðar Grænum Markaði frá 1985 til aldamóta. Hann þjónaði aukinni fjölbreytni íslensks gróðurs með því að fara í fræsöfnunarferðir, m.a. til Alaska og Kamtsjaka í Síberíu. Þær ferðir skiluðu miklu.

Óli Valur var mikill tungumálamaður, talaði dönsku svo lýtalaust að Danir heyrðu ekki á mæli hans að hann væri ekki landi þeirra. Óli Valur las þýsku, ensku og hollensku og svo var hann einnig mikill íslenskumaður og hafði ást á íslenskri tungu. Vert er að minna á að hann er höfundur nafna fjölda íslenskra skrautjurta og barðist gegn því að tekin væru upp hrá erlend plöntunöfn. Það eru því ekki aðeins garðyrkjumenn sem geta þakkað Óla Val heldur þjónaði hann íslenskri menningu með margvíslegum hætti.

Hjónaband

HjónÓli Valur og Emmy Daa Hansson (f. 31.8.1928 d. 11.11 1989) gengu í hjónaband 11. febrúar 1950. Þið sjáið hjónavígslumyndina aftan á sálmaskránni og glöggt má sjá hve glæsileg þau voru. Þau Emmy kynntust í Danmörku árið 1945 þegar hann var enn við nám ytra. Skömmu eftir að þau kynntust fór Óli Valur til Íslands. Hún beið eftir honum og sat í festum í langan tíma. Að lokum fór hún á eftir kærastanum til að skoða landið og aðstæður og þau gengu svo í hjónaband. En einfalt var hvorki fyrir hana né aðrar erlendar konur að hverfa frá stórfjöskyldunni ytra og aðlagast algerlega nýrri menningu, tungu og verekfnum.

Þau Emmy og Óli Valur gerðu með sér samkomulag, hann dró að og hún sá um heimili – og bæði stóðu við sinn hluta og hjúskapur þeirra var hamingjuríkur og farsæll. Þeim fæddust tveir synir. Rolf Erik fæddist í apríl árið 1956. Hann er tannlæknir. Kona hans er Herdís Sveinsdóttir og er prófessor í hjúkrunarfræði. Óttar er elsti sonur þeirra og kona hans er Sunna Símonardóttur og þau eiga tvær dætur. Nína Margrét er gift Björgvini Halldór Björnssyni og þau eiga einn son. Jakob er næstyngstur og sambýliskona er Margrét Ólöf Halldórsdóttir. Þau biðja fyrir kveðju til ykkar, en þau eru í Danmörk og komast ekki til þessarar athafnar. Jökull er yngsti sonur Rolfs og Herdísar.

Yngri sonur Óla Vals og Emmyar er Ómar Björn. Hann er júlídrengur og fæddist árið 1959. Ómar er tannsmiður að mennt og einnig flugmaður og stundar viðskipti. Kona hans er Guðríður Anna Kristjánsdóttir lögfræðingur og tannlæknir. Þau eiga synina Óla Val og Björn Dúa.

Emmy lést frá fyrir aldur fram árið 1989. Óli Valur naut í sorg sinni sona sinna og fjölskyldu, var ungu kynslóðinni elskulegu afi, hafði lífsfró af vinnu sinni og naut að greina blöð og safna fræi af fallegum plöntum. Svo kynntist hann Áslaugu Valdemarsdóttur á níunda áratugnum og þau urðu nánir vinir þó þau rugluðu aldrei reitum. Í meira en tvo áratugi var Áslaug Óla Val elskuleg vinkona. Hann varð ömmubörnum hennar sem afi og hún amma afabörnum hans. Elskusemi hennar í garð Óla Vals er þökkuð.

Minningarnar

Hvernig var Óli Valur? Hvað þótti þér eftirminnilegt í fari hans, skemmtilegt eða mikilvægt?

Manstu ljúflyndi hans? Ég man have gaman var að koma í Búnaðarfélagið og hitta hann, kátan og með bros í augum. Það var eftirminnilegt hve hann tók öllum gestum vel – stórum sem smáum. Og samskiptanetið hans varð því mikið og stórt.

Varstu einhvern tíma vitni að því hve Óla Vali var fagnað þegar hann fór um sveitir landsins í fræðsluferðir? Manstu eftir erindum hans og greinum, bókum og ritum? Áttu kannski plöntu í garðinum þínum sem kom vegna frumkvöðlastarfs hans?

Manstu hve flott Óli Valur var klæddur og hve mikið snyrtimenni hann var.

Manstu hve ljúfur hann var í samskiptum, óáreitin og umburðarlyndur gagnvart ævintýrum annarra og þmt. afkomenda sinna? Svo var hann hógvær og vildi aldrei neitt láta fyrir sér fara.

Manstu hve minnugur Óli Valur var, hvað hann gat romsað upp jurtaheitum á latínu. Svo þekkti hann fólk á flestum bæjum á Íslandi.

Og manstu have gjafmildur hann var og að hann sagði hug sinn með blómum. Fordæmi hans eru fræ til spírunar í lífi þínu.

Óli Valur Hansson skilaði miklu dagsverki. Veröldin er betri, ríkulegri og gróðursælari vegna þess að hans naut við. Óli Valur færði fólki vorið. Nú er hann orðinn vormaður í eilífð Guðs og skemmtir sér yfir ríkidæmi lífsins. Hann er í lífríki Guðs.

Guð geymi hann og Guð geymi þig.

Amen.

Minningarorð í útför í Fossvogskirkju miðvikudaginn 23. september, 2015. Bálför.