Hvað á ég að gera?

Himinsýn - mynd Þorsteins Jósepssonar
Himinsýn – mynd Þorsteins Jósepssonar

Prestur og leigubílstjóri dóu og stóðu í röðinni við Gullna hliðið. Klerkur sá að engillinn, sem tók á móti leigubílstjóranum afhenti honum gullstaf, fallega skikkju og veislumat. Leigubílstjórinn varð hissa og hélt fagnandi inn í himininn. Hann hafði fremur átt von á vandræðum við hliðið en ekki að hann yrði verðlaunaður. Presturinn gekk fram en fékk ekki sömu höfðingjamóttökur. Honum voru fenginn tréstafur, einfaldur kyrtill og brauð og vatn. Presturinn fyrtist við og spurði pirraður: „Heyrðu mig nú engill. Hvernig stendur á þessu og hvers á ég að gjalda? Ég hef alla ævi stritað í kirkjunni – en hann, þarna á undan mér, hefur ekkert gert annað en aka bíl og er frægur fyrir ofsaakstur.“ Engillinn svaraði honum. „Við spyrjum nú um árangurinn í lífi fólks. Þú hefur verið í kirkjunni, það er rétt. En ef þú hugsar til baka verður þú að viðurkenna að fólkið dottaði oftast þegar þú fluttir stólræðurnar. Það var ekki mikið sem sat eftir en þegar þessi maður sat við stýrið og keyrði sinn leigubíl, upphófst trúaratferli hjá hverjum einasta farþega. Í ökuferðunum báðu farþegarnir bænir – já og án afláts!“

Svarið er athylgisvert og klerkur hugsar sitt. Hefur engillinn í sögunni rétt fyrir sér? Er dómurinn á himnum árangurstengdur? Er spurt um hvað við höfum gert – afrekað í lífinu – þegar komið er að uppgjöri lífsins?

Guðspjallið

Maður kom hlaupandi til Jesú. Hann var ekki úr hópnum sem fylgdi Jesú jafnan en var tilbúinn til að læra af honum. Nú kom hann til meistarans til að fá ráð. Beiðnin var einlæg: Hvað á ég að gera til að komast inn í himininn – til að öðlast eilíft líf? Hvað á ég að gera?

Jesús þekkti spurningarnar og fór í rólegheitum yfir námsefnið, rétt eins og hann væri með fermingarbörn í tíma. „Hver er góður? Jú Guð. Þú kannt boðorðin, þetta með bannið við manndrápum, framhjáhaldi, að stela ekki, að svindla ekki á öðrum og virða foreldra þína.“ Og maðurinn skilkdi og kunni allt og sagði eins og satt var. „Ég hef gætt alls þessa.“ Jesús horfði á manninn með elskusemi og samúð og vissi að hann passaði sig í öllu sem hann gerði. Og svo bætti Jesús Kristur við og þar kom Salómonsdómurinn: „Eins er þér vant – bara eitt sem vantar upp á: Farðu og losaðu þig við eigur þínar, húseignirnar, peningana, hlutina, allt og gefðu andvirðið fátækum – komdu svo. Þá muntu eignast meira en allar jarðnesku eigurnar.“ Hljóp maðurinn burt til að gera það sem Jesús bauð honum? Nei, hann sneri örvæntingarfullur frá. Skýringin í guðspjallinu er að hann hafi átt miklar eignir.

Hvernig get ég komist inn?

Hvað á ég að gera? Hvernig get ég komist inn? Við skiljum alveg engilinn í Gullnahliðssögunni. Við árangurstengjum.

Ef stjórn og forstjóri í fyrirtæki skila ekki hagnaði eða klúðra málum er farið að velta vöngum yfir að skipta út og síðan er fólk rekið þegar illa gengur. Eins og hjá Volkswagen í síðustu viku. Þar voru óheilindi opinberuð sem koma til með að kosta fyrirtækið svo mikla fjármuni að það verður beiglað og fer jafnvel á hausinn. Stjórnendur stýrðu Volkswagen út af.

Við viljum alls ekki að lífeyrissjóðurinn sem við greiðum í sé rekinn með halla, heldur að ávöxtun þeirra sé góð og haldi til elliára. Við viljum – þegar við leggjum á okkur mikið erfiði í einhverju – að við getum notið árangurs. Og við getum alveg samþykkt að þegar sjóðir veita styrki til verkefna að þá sé þegar við upphaf gefin markmið sem unnið er að og síðan metið hvernig hafi tekist til. Allt nútímasamfélag okkar á Vesturlöndum snýst æ meira um hvernig peningalegar forsendur eru gefnar og afleiðingar og árangur mælist.

Allt sem hindrar

Hvað á ég að gera? Segðu mér það Jesús. Hvað á ég að gera til að komast inn í himininn? Ég skal fara að öllum fyrirmælunum. Og Jesús horfði á hinn unga, heiðarlega og ríka mann og benti á eina veika blett hans: „Losaðu þig við allt sem þú átt. Losaðu þig við eigurnar – allt.“

En af hverju sagði Jesús þetta? Var hann á móti eignasöfnun? Var hann á móti peningafólki? Var hann á móti því að fólk færi vel með? Nei, svo sannarlega ekki – nema að það yrði til að hindra fólk í Guðstrúnni, hindra fólk á leið hamingjunnar. Svo einfalt er það. Ef það er eitthvað, sem hindrar þig í að vera Guðs, lifa Guði, fylgja Jesú, er það eitthvað sem þú þarft að losa þig við.

Verkmennið

Hvað á ég að gera? spurði hann. Jesús svarar: Þú átt ekki að gera – heldur vera. Það er boðskapur dagsins.

Á þetta við um okkur og aðstæður okkar? Athafnakapp á liðinni öld varð til að fræðimenn fóru að tala um nútímamanninn sem homo faber – verkmenni. Erum við of önnum kafin? Er þjóðfélag okkar fremur vinnustaður en samfélag? Við hömumst í vinnu til að skapa okkur og fjölskyldum okkar góðar aðstæður. En svo komumst við að því á einhverjum dimmum haustdegi lífsins að hamingjan er gufuð upp, heilsan farin og lífið brenglað. Við hömumst í vinnu til að komast áfram og svo uppgötvum við að vinnan er leiðinleg og vinnugleðin þverr. Við gefum maka okkar hluti þar til við uppgötvum að hann eða hún vill bara ást, tíma og samfundi.

Vera eða gera

Við hömumst við að gera en gleymum oft að vera. Að vera er aðalmál lífsins. Hamingjan er ekki í hasarnum heldur að vera. Og að vera er að lifa í samræmi við það besta í sjálfum sér, bregðast við erli daganna með jákvæðni, opna vitundina gagnvart lærdómi í öllu því sem lífið færir okkur, hinu þægilega en líka hinu erfiða (per ardua ad astra er forn viska). Að vera er að sækja í visku og frið sem hinir fornu Hebrear kölluðu jafnvægi kraftanna.

Að vera er verkefni allra manna og á sér þar með trúarlega vídd. Jesús minnir á að köllun mannsins er að fylgja honum, trúa honum. Viljum við það? Viljum við vera – vera Guðs? Eða viljum við kannski fremur hafa veröldina eins og kjörbúð og veljum bara og stingum því í körfu okkar sem okkur hugnast best? Að vera í Jesúskilningi er það að velja Guð og taka afleiðingum þess.

Gera eða að vera. Þetta er viðfangsefni allra alda og þar með allra trúmanna. Þetta var það sem siðbót Lúthers snerist um. Lúther, eins og allir hinir siðbótarmennirnir, hafnaði algerlega þeirri slæmu kenningu að maðurinn þyrfti að gera þetta og gera hitt til að þóknast Guði og tryggja himnaförina. Það var Jesús Kristur sjálfur sem gerði allt sem þurfti. Það þurfti ekki að gera neitt í lífinu eða dauðanum – ekkert annað en að vera Guðs. Það er valið mikla. Það er val ástarinnar, það er lífsins val. Það er val Guðs. En skiptir þá engu hvað við gerum. Jú svo sannarlega. Öllu máli skiptir að hafa röðina rétta og hún er þessi: Hið fyrsta er að vera Guðs og hið annað er svo að gera vel. Að gera gott blíðkar ekki Guð heldur er það algerlega nauðsynlegur þáttur lifandi Guðstrúar. Guð árangurstengir ekki heldur elskutengir. En af því Guð elskutengir árangurstengir trúmaðurinn.

Hvort viltu vera eða gera?

Prédikun í Hallgrímskirkju 4. október, 2015, 18. sd. eftir þrenningarhátíð.