Stefán Karlsson – handritafræðingur

Stefán var í París. Hvað gerir maður í þeirri borg? Jú, aðalskoðunarefni hans var ekki turn, Frúarkirkja eða latínuhverfi heldur skinnhandrit! Hjarta Stefáns tók kipp, hann sá kunnuglega hönd. Atburðarásin varð eins og í byrjun einhverrar DaVincískrar spennusögu. Leitin að höfundinum var hafin, tímasetning væri kannski möguleg og dökk bók á safni í París myndi kannski eignast ritara, frændgarð og ríkulega framtíð. Stefán hringdi heim í samstarfsmann sinn, nú skyldi farið í skrifborðið hans, miðskúffuna hægra megin. Kíkja þyfti í kompu, þessa með brúnu teygjunni! Þar væru dæmi, sem hann hafði skrifað upp, lyklar, sem gætu rofið innsigli tímans, tengt fortíð og framtíð, birt þræði milli Parísar nútímans og miðalda Íslands. Stefán var að opna rit, birta og nefna höfund.

Biblia og rit

Í síðustu bók Biblíunnar, þeirri litríku Opinberunarbók Jóhannesar segir: “Í hægri hendi hans, er í hásætinu sat, sá ég bók, skrifaða innan og utan, innsiglaða sjö innsiglum. Og ég sá sterkan engil, sem kallaði hárri röddu: ,,Hver er maklegur að ljúka upp bókinni og leysa innsigli hennar?” (Op. Jóh. 5.1-2)

Rit kristinna manna er bókasafn. Biblia er grískt orð í ft. og þýðir einfaldlega bækur. Í því bókasafni er síðan rætt um alls konar bækur og mikilvægi þess að rita niður það, sem máli skiptir. Þar er talað um lífsins bók og bók sannleika. Esekíel spámaður át meira að segja bók, Jesús Kristur las upp úr bók til að tjá fólki hver hann væri og til hvers hann lifði. Jóhannes guðspjallamaður var svo heillaður af orðkyngi, að hann byrjaði guðspjall sitt með íhugun um orð, reyndar Orðið, sem veruleika lífsins. Við upphaf veraldar voru engin ónytjuorð, heldur máttarorð. Hebrear álitu Guð vera skáld lífsins. Guð sagði og það varð sem sagt var, poesis heimsins, gjörningur sköpunar. Við enda Ritningarinnar er bóknálgun til íhugunar. Í forsæti himins er innsiglað rit, sem á að opna. Kallið hljómar hárri röddu: “Hver er maklegur að ljúka upp bókinni?” Hverju þjónar slík upplúkning? Eru orð, blaðsíða og bók til einhvers? Hvað verður opinbert?

Uppruni og ættmenni

Stefán Karlsson fæddist á Belgsá í Fnjóskadal 2. desember árið 1928 og lést í Kaupmannahöfn 2. maí síðastliðinn, 77 ára að aldri. Foreldrar hans voru Jónasína Soffía Sigurðardóttir og Karl Kristjánsson, bændur á Belgsá. Þegar Stefán var aðeins fimm mánaða gamall fórst Karl í snjóflóði. Móðirin brá búi og flutti til systkina sinna og móður á Akureyri. Í fjölskylduhúsi við Oddeyrargötu bjuggu þau síðan saman eins og stórfjölskylda í sveit. Reyndar sváfu þau ekki í baðstofu, en karlarnir sváfu samt saman í herbergi og konurnar í öðru. Jónasína og sonur hennar fengu þó skonsu fyrir sig. Stefán var eina barnið á heimilinu og naut ríkulegrar athygli og elsku margra. Hann lærði strax í bernsku að best gekk þegar konurnar, stúlkurnar, voru vinir hans. Alla tíð var hann elskulegur og því elskaður.

Móðurbróðir hans giftist ekki fyrr en á miðjum aldri og Stefán átti því tvo karlhauka í horni þrátt fyrir föðurmissinn. Félagslífið heima var ríkulegt, vinafólk fjölskyldurnnar kom í heimsókn. Flest voru einhleyp svo Stefán hafði lítil kynni af hvernig hjónalíf væri iðkað. En sögur og fortíð helltust yfir hann. Auðvitað varð Stefán kotroskinn í þessum sérstæða hóp fullorðinna. Hann fékk að vera barnið, en skyn hans var teygt inn í fortíðina. Kannski er í þessu að leita skýring á, hvers vegna Stefán varð tvenna æsku og alda, síungur en þó forn.

Skólar og vinna

Stefán sótti skólana á Akureyri, var afburða námsmaður, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1948 og hóf síðan nám í Kaupmannahöfn. Meðfram námi stundaði hann kennslu í viðbót við mælingavinnu á hálendinu og önnur störf. Stefán var stundakennari við sinn gamla menntaskóla einn vetur. Annan vetur kenndi hann í Samvinuskólanum. Hann var starfsmaður Stofnunar Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn, fyrst lausráðinn árið 1957, frá 1962 sérfræðingur og bjó og starfaði í Höfn til 1970. Hann lauk magistersnámi frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1961.

Stefáni leið vel í Kaupmannahöfn. Aðstæður til starfa voru góðar, menningarlífið var örvandi, stúdentapólitík varð æ meira spennandi, Jón Helgason og kollegar í fræðunum góðir. Stefán lagði sín þugnu lóð á vogarskálar í slagnum um handritin og var afar þarfur. Hann hefði eflaust getað hreiðrað um sig ytra, en Ísland átti sína króka og stafkróka. Stefán varð sérfræðingur og fræðimaður við Handritastofnun Íslands, sem síðar varð Stofnun Árna Magnússonar, árið 1970 og hélt þeirri stöðu til 1994 þegar hann tók við af Jónasi Kristjánssyni, sem forstöðumaður stofnunarinnar og prófessor við heimspekideild. Þeirri stöðu gegndi Stefán til ársins 1998 er hann hætti fyrir aldurs sakir. En grúskinu hélt hann áfram með dugnaði til lokadags.

Fræðimaðurinn

Stefán var víðfeðmur, þolinmóður og nákvæmur fræðimaður. Hann las hendur afar vel, var skarpskygn, sá smáatriði og sérkenni höfunda og varð eins og Indiana Jones í grafhýsi höfundarlausra handrita. Stefán náði oft að gefa slitrum og ritum nýtt líf, stundum nýtt samhengi, upplýsa skrifara og tímasetja með vissu. Það er dálítið guðlegt hlutverk. Þegar skoðaðar eru aldursgreiningar norrænna handrita, sem gerðar hafa verið síðustu áratugina kemur í ljós að nafn Stefáns Karlssonar kemur oft við sögu. Hann var meistari.

Stefán skrifaði mikið alla tíð um málsögu, íslensk handrit og texta. Hann gaf út mikilægt safn fornbréfa, fornskjala, frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar, eða til 1450. Hann var m.a. sérfræðingur í biskupasögum og vann á síðari árum að sögum hins sæla Guðmundar góða Arasonar.

Hin ábúðarmikla ritaskrá Stefáns Karlssonar verður ekki þulin hér. En fyrir hönd íslenskrar kristni skal Stefáni að leiðarlokum þökkuð elja hans við að greina og skýra hina kristnu hefð. Ritgerðir hans um málfar trúar og Biblíu eru merkar og ýmsar smáritgerðir hans ekki aðeins faglega góðar, heldur líka líflegar og kætandi. Mörgum hefur Stefán hjálpað og m.a. orðið okkur klerkum til skilnings. Það er ekki lengra en tveir mánuðir síðan að ég var að vinna að prédikun um skírn og vildi tengja við verndun vatns. Mig rámaði í miðaldatengingu á Jesúskírn og vatnshelgun veraldar en mundi ekki hvar ég hefði lesið. Margrét Eggertsdóttir upplýsti svo, að Stefán hefði auðvitað líka skrifað um þetta efni.[i] Svo rataði vísdómur Stefáns í prédikun á sunndegi í föstuinngangi.

Stefáni var ekki sama um gildi og því skrifaði hann um merkileg mál, sem tengjast lífinu. Hann hefur framselt í hendur okkar verkfæri, sem varða ekki aðeins heim fræða heldur líka hvernig við eigum að axla ábyrgð, líka gagnvart náttúru.

Stefán var gerður að heiðursdoktor bæði við Háskóla Íslands og  Kaupmannahafnarháskóla. Mat hann þann sóma mikils. Margir aðrir vildu heiðra hann og sæma orðum og medalíum, en Stefán endursendi orðurnar en með elskulegum skýringabréfum. Yfirdrepsskapur var honum fjarri og prjál sömuleiðis.

Hjúskapur og afkomendur

Stefán kvæntist Helgu Ólafsdóttur árið 1958. Í Helgu eignaðist hann vin og félaga. Hún tengdi hann við tímann og uppfærði m.a. stúdentinn í honum. Þrátt fyrir að hann væri fertugur varð hann sem tvítugur í stúdentavorinu upp úr ‘68. Þau Helga voru samstiga í að leyfa rauðsokkunum að dansa fyrstu sporin í kjallaranum á Ásvallagötunni. Sokkarnir tipluðu upp stigana, enda bæði jafnréttissinnar.

Stefán og Helga eignuðust dótturina Steinunni. Leiðir þeirra Helgu greindust í sundur og þau skildu eftir tveggja áratuga hjónaband. Stefán var Steinu sinni natinn faðir. Hann hefur líklega verið óvenjulegur karl af sinni kynslóð því hann vaknaði til dótur sinnar á nóttunni til að gefa henni þegar hún var á pelaaldri. Auðvitað las hann fyrir hana, burstaði tennur í smáskrikjandi stúlku og eldaði fyrir hana þegar hún var á skólaaldri.

Stefáni var umhugað um hag dóttur sinnar, sóttist eftir að vera með henni, fagnaði tengdasonunum, Tryggva Þórhallssyni og síðar Arthuri Morthens. Hann tók á móti dótturdætrum sínum opnum örmum og huga, þeim Helgu, Önnu og Höllu, hýsti þær, þegar þess þurfti með, kenndi þeim þegar þær vildu, fór með þær í álfaferðir í land sitt og skóg í Fnjóskadal, skemmti sér við sögur þeirra og kætti þær með gríni og gleðiefnum.

Afaelska Stefáns var þó ekki markalaus. Þegar innrásin í Írak hófst bjuggu stelpurnar hjá honum. Hann keypti fyrir þær það,  sem þær vildu. Þegar bomburnar sprungu í Bagdad var Stefáni nóg boðið og hætti að kaupa kók fyrir þær. Það voru skilaboð, sem hann sendi Bush, en kannski ekki síður þeim. Það skiptir máli hvað maður er og hvernig í veröldinni. Stelpurnar urðu bara þaðan í frá að sætta sig við Egils-appelsínulímonaði.

Nú er brosið hans afa stirnað og fræðasjór þeirra er farinn. Þær sjá á bak afa sem var margt; ungæðingslegur vitringur, íhaldsamur byltingamaður, jólasveinn á jólum, skógarmaður á sumrum, heimsborgari í Höfn og alltaf sjarmör.

Veitull höfðingi

Vegna skapfestu og persónueiginda var Stefán gjarnan kjörinn til stjórnunartarfa í þeim félögum, sem hann sinnti, á Akureyri, í Kaupmannahöfn, í fræðafélögum og líka á vettvangi menningarmála og stjórnmála.

Stefán var mannblendinn og veitull höfðingi. Réttlætiskenndin í brjósti hans var rík og hann hafði góða vitund um ábyrgð sína sem borgara. Hann tók fús þátt í umræðum um þjóðmál. Sósíalistinn mótmælti með elskulegum hætti, þegar honum þótti mikilvægan málstað að verja eða brjóta yrði réttlætinu leið.

Þrátt fyrir annir veik hann sér aldrei undan ef einhver þarfnaðist hans, ef fræðaráða væri þörf, ef einhver var óviss um lestur, ef spurt var um hvar heimilda væri helst að leita eða hvaða þræði væri vert að rekja. Ef Stefáni þótti einhver fara villur vega í fræðum skaut hann vísifingri og löngutöng undir gagnauga, renndi augum upp og andmælti hógværðarlega: “Ég er ekki viss um að þetta sé alveg rétt.” Svo nuddaði hann dósirnar sínar, kom með betri skýringu og var að lokum komin inn úr dósunum.

Ef erlenda gesti skorti húsaskjól eða skapa þurfti huggulegan fagnað var gestgjafinn Stefán tilbúinn. Mörgum bauð Stefán heim um dagana, margir komu í tjaldið hans í Þórðarstaðaskógi og fengu bjór úr læk. Mörgum kenndi hann fræðin bæði í Kaupmannahöfn og síðan á Íslandi, var natinn og gjafmildur kennari.

Stefán hleypti fjöri í samkomur, ef ekki vildi betur þá lagði Stefán til að dansaður yrði færeyskur hringdans, sem hann stjórnaði svo sjálfur. Stefán var elskaður velgerðarmaður og mentor margra, sem voru honum samstiga fræðum og félögum. Því staldrar fólk við í dag, um víða veröld, til að þakka og votta Stefáni virðingu sína. 

Lífsbókin

“Í hægri hendi hans …sá ég bók, skrifaða innan og utan, innsiglaða… ,,Hver er maklegur að ljúka upp bókinni og leysa innsigli hennar?” Hvað er lífið? Hvað fer leynt, hvað er opinbert? Stefán sótti inn í hin innsigluðu vé til að efla þekkingu. Hann sótti í lífsgleðina og sótti lífsmátt. Hann sótti í mannfélag og vildi réttlæti. Hann var hreinskiptin en jafnframt á dýptina og varð aldrei algerlega séður. Hann var skemmtilegur og kúnstugur, en svo var þó eitthvað meira. Stefán var fjölhæfur hæfileikamaður, sem ræktaði sinn reit, sitt fólk, sjálfan sig, embætti og frændgarð.

Hverju skiluðu rannsóknarferðirnar og bækurnar Stefáni? Visku og innsýn. Hann var vökumaður fræða, þjóðar, réttlætis, menningarlegrar reisnar og einstaklinga. Nú hefur hann lokið að fletta blöðum í sínum handritum og bókum. Nú hefur lífsbók hans verið flett í hinsta sinn og lokað. Hver er maklegur að opna? Er lífi Stefáns með öllu lokið eða er það við nýtt undursamlegt upphaf, – nýtt afrit, lýst og skreytt framar öllu því sem þetta líf getur leyft okkur að skygnast inn í? Getur verið að nú megi hann fá að njóta dýpri skilnings vegna þess að sá, sem var hið mikla orð, samhengi bókanna til forna, hafi verðugur opnað hið stórkostlega bókasafn himinsins, þar sem allar víddir eru tengdar, allar bækur samþættast, þar sem allir höfundar finnast, párið raðast upp í himneskt kerfi, þar sem réttlæti og bræðralag ríkir og líka á rauðum sokkkum, þar sem enginn hefur af neinum neitt og allir gefa öðrum til gleði? Í því er undur trúarinnar, að efasemdamaðurinn má vona hið góða.

Nýtt líf

Fyrir skömmu hringdi sölukona tímaritafyrirtækis í Stefán og vildi selja honum áskrift að einhverju áhugaverðu tímariti. Nei, hann hafði ekki áhuga á Gestgjafanum þótt hann væri gestrisinn kokkur. Nei, glanstímaritin vöktu enn síður áhuga hans. Svona til að ljúka samtalinu sagði Stefán stúlkunni góðlátlega, að hann væri nú þannig innréttaður, að hann læsi helst ekkert sem væri yngra en frá árinu 1500! Hann hélt, að þá væri málið afgreitt. En stúlkan sá við honum og sagði hjartanlega: “Ja, hérna, er ekki kominn tími til að þú gerist áskrifandi að Nýju lífi”? Þetta þótti Stefáni fyndið og hló þegar hann sagði söguna.

Lífsbók Stefáns er nú blað í lífsbók veraldar. Verður bókin ávallt lokuð? Svarið við hinni miklu engilsspurningu um hver megnar að opna er svarað með boðskap páska, að Guð kemur sjálfur, rýfur innsigli allra heftinga og kúgunar, er sjálfur orðið sem hrífur, færir til betri vegar, er sjálfur stephanos, sigursveigur lífsins, nýtt líf.

Snillingur, sem með stafkrók tengir saman skinnbók í París, rit í Höfn og Reykjavík getur skilið þörf fyrir höfund að baki náttúrubókinni, höfund að baki réttlætissókn mannabarna, hlýju að baki elskudrama biblíusafnsins.

Pár veraldarinnar, lífsins, er stórkostlegt. Kristnir menn trúa, að höfundurinn heiti Guð og hafi komið fram, birst, í honum, sem skrifaði í sand og gekk síðar fram úr grjótinu. Þá var innsiglið rofið og bókin opnuð. Við sjáum sem í skuggsjá, en í hinu nýja lífi er allt ljóst, höfundurinn gengst við verkinu og opnar faðminn.

Góður Guð blessi minningu öflugs rannsóknarmanns, ljósmóður höfunda, liðsmanns lífsins – og gefi dóttur, barnabörnum, afkomendum og ástvinum líkn í sorg – og okkur öllum mátt til að sækjast eftir sveig sem er til lífs. Amen.

Bálför. Jarðsett í Illugastaðakirkjugarði í Fnjóskadal. Erfidrykkja í safnaðarheimili Neskirkju.

Minningarorð flutt 4. maí 2006. 

[i] Stefán Karlsson, “Greftrun Auðar djúpúðgu” sem birtist í afmælisriti til Kristjáns Eldjárns Minjar og mennti , 1976, 481-88.