Þorsteinn Magnússon + minningarorð

 

1968, Þorsteinn Magnússon
1968, Þorsteinn Magnússon

„Þorsteinn kemur í dag“ var oft sagt í Neskirkju því Þorsteinn nýtti sér aðstöðu í safnaðarheimilinu fyrir ferðafundi. Svo kom Þorsteinn síðdegis, kom snemma til að tryggja að borðum væri hentuglega raðað, tækin væru í lagi til að þjóna ferðarundirbúningi sem best. Svo þegar Þorsteinn var viss um að allt væri tilbúið rölti hann fram á Torg. Hann horfði glettnislega á okkur, tók kveðju vel og var sem einn af starfsmönnum á mannlífstorgi Neskirkju. Og stundum röbbuðum við um hvert hann stefndi sínu fólki. Svo komu ferðafélagarnir, hann fagnaði þeim og allur hópurinn fór til sinna starfa. Stundum kíkti ég inn í stofuna til að fylgjast með þegar ævintýraferðirnar voru undirbúnar. Ég dáðist að hve skipulagður Þorsteinn var, hve allt var grandskoðað og hve natinn hann var við að byggja upp eftirvæntingu, tilfinningu og þekkingu. Þorsteinn vann þakklátt starf og ferðafrömuðurinn sinnti mikilvægri þjónustu.

Ferð í tíma

Við menn erum ferðalangar í tíma og heimi. Kynslóðir koma og kynslóðir fara, allar sömu æfigöng, segir í sálmi Matthíasar. Við eigum okkar upphaf, meðgjöf sem eru gáfur okkar og gjafir himins. Svo spilum við úr svo sem okkur er unnt – í samskiptum við fjölskyldu okkar og samstarfsfólk. Vegur í tíma og svo eru lyktir – hlið æfivegarins. Hvaða leið förum við og hvert stefnum við? Við getum sem hægast talið að lífið sé ekkert annað en efnaferlar og spilverk hins efnislega. En við getum líka leyft hinum djúpu spurningum að vitja okkar. Hvert er inntak lífs og merking lífs einstaklinga? Jesús Kristur minnti á að við erum á vegi lífs. Hann sagði líka að hann væri vegurinn, sannleikurinn og lífið. Öll göngum við til enda lífs, öll endum við í hliði himins. Þar erum við ein en líka í mikilli hópferð mannkyns – og ég held alls lífs. Nú fylgjum við Þorsteini Magnússyni í hinstu ferð hans. Hinn mikli ferðarfrömuður var tilbúinn.

Æfi og upphaf

Hvernig byrjaði ferðin hans Þorsteins? Hann var Reykvíkingur og fæddist 17. október árið 1933. Faðir hans var Magnús Þórðarson, Reykvíkingur og aldamótamaður. Móðir Þorsteins var Helga Gísladóttir, sem ólst upp á Akri við Bræðraborgarstíg. Hún var fjórum árum eldri en faðir hans og lifði til ársins 1980. Systkinin voru fimm. Elstur var Hörður, síðan kom Margrét og svo Þóra Guðríður. Þorsteinn var fjórði í röðinni og Bjarni Þorkell yngstur. Öll eldri systkinin eru látin en Bjarni Þorkell lifir þau.

Þorsteinn var ekki bara Reykvíkingur heldur líka Vesturbæingur. Hann var barn að aldri þegar fjölskyldan settist að í húsi við Víðimel og við þá götu bjó hann mestan hluta æfinnar. Þar var var grunnstöð heimsferðagarspins. Þorsteinn fór, eins og krakkarnir í hverfinu í Miðbæjarskólann en þegar Melaskóli var tekinn í notkun sótti Þorsteinn skóla þangað. Stríðsárin voru umbreytingartími og Þorsteinn sá allar umbyltingarnar í hverfi og borg. Miklir herkampar urðu til á Högum og Melum og herinn setti mark á líf fólks. Systkinin fóru í sveit á sumrin austur í Hrygg í Flóa til móðursystur Þorsteins.

Eftir fullnaðarpróf og fermingu – eins og hann orðaði það sjálfur – fór Þorsteinn í Verzlunarskólann sem hafði mikil og mótandi áhrif á hann. Hann varð stöðugt dugmeiri námsmaður og blómstraði í Verzló og var þakklátur fyrir skóla, nám og veru þar. Það eina sem hann gat alls ekki lært var að læra að reykja undir tröppunum! Hann tók þátt í félagslífi skólans og var treyst til verka og uppátækja. Hann stofnaði m.a. tækniklúbb í skólanum og svo grínaðist Þorsteinn með að hann hafi m.a.s. verið dómari í fegurðarsamkeppni! Til þess verða menn að hafa gott auga og sans.

Magnús Þórðarson, faðir Þorsteins, sigldi á England öll stríðsárin og komst lífs af. Fjölskyldunni hafði því vel til hnífs og skeiðar á þessum árum. Magnús hélt svo áfram á sjónum en fórst árið 1951. Hann tók út á jólum þetta ár. Fráfallið breytti algerlega kjörum fjölskyldunnar en móðir og börn áttu í sér festu, andlegan styrk og samstöðu og studdu hvert annað til náms og lífs. Þorsteinn stóð sína fjölskylduvakt og studdi fólkið sitt ríkulega.

Þorsteinn varð stúdent frá Verzlunarskólanum árið 1955 og lauk viðskiptafræði frá HÍ árið 1963. Meðfram námi kom hann víða við sögu í vinnu og náði mikilli yfirsýn og aflaði sér dýrmætrar reynslu sem gagnaðist honum með margvíslegum hætti. Hann vann í heildverslun Magnúsar Kjarans, hjá Skrifstofuvélum og hjá Iðnmálastofnun. Svo fór hann að kenna í Verzló og síðar við HÍ. Hann starfaði einnig hjá Stjórnunarfélagi Íslands, Bréfaskóla SÍS og Tækniskólanum. Þá kenndi hann við Bankamannaskólann og var skólastjóri hans í áratug.

Margir kölluðu eftir sérfræðiþekkingu hans, m.a. Seðlabankinn, Tryggingastofnun og Þjónustumiðstöð bókasafna. Þá var hann prófdómari og eftirsóttur fyrirlesari. Og þar sem Þorsteinn var dugmikill og skilvís verkmaður var sóst eftir störfum hans í ýmsum félögum og var m.a. í stjórnum Hagfræðingafélagsins, Félags verslunarkennara, Giktafélags Íslands og Grikklandsvinafélagsins. Þá stundaði Þorsteinn ritstörf og gaf út bækur á kennslusviðum sínum. Öll þessi störf og verk bera vitni elju og áhuga hans.

Maríumenn og ferðirnar

Svo var hann ferðamaður og ferðagarpur. Þorsteinn hafði brennandi áhuga á löndum og lýðum og sóttist eftir að vera með fólki sem horfði í kringum sig til að skoða heim og mannlíf. Meðal þeirra voru Maríumenn, ferðahópur ungra karla, sem líklega fékk nafn úr kvæði eftir Sigurð Þórarinsson, sem hin eldri þekkja og hafa sungið hástöfum í rútuferðum og tjaldútilegum. Maríumenn voru einu sinni á ferð í Mosfellssveit og komu þar að sumarbústað Sambands Íslenskra Samvinnufélaga. Þeir vissu ekki að þar voru fyrir ungar dömur sem höfðu fengið bústaðinn lánaðan. Hlutverkunum var snúið við. Þeir báðu Maríurnar ekki að koma inn heldur leyfðu þær þessum kurteisu sveinum að vera. Í bústaðnum á Reykjum var Þórdís Þorgeirsdóttir. Hún sá festuna í ferðagarpinum og að hann væri traustsins verður. Hann horfði á hana og hún á hann – og svo skoðuðu þau göngulagið, ferðataktinn og allt gekk upp. Þau gengu í hjónaband hér í Neskirkju þann 23. október 1961.

20100526-222838Þau voru ekki eins en þau urðu eitt og áttu í hinu sálufélaga. Þorsteinn var ekki allra, en treysti konu sinni fullkomlega og saman hafa þau átt ferðafélaga til lífs. Þeirra ástar- og hjúskaparsaga var góð. Og það var ekki sjálfgefið að Þorsteinn gæti farið frá heimili og börnum í allar utanlandsferðirnar sem hann stýrði. Líklega voru þær á annað hundrað og samtals nokkur ár að lengd. En Þórdís stóð með sínum manni í öllum verkum hans og áhugamálum. Og hún styrkti hann, studdi hann og í henni átti hann stoð – líka í veikindunum – og til hinstu stundar. Lof sé henni.

Svo komu börnin, Þórrún Sigríður, Þórný Ásta og Þórður Geir.

20160406-210116Þórrún Sigríður fæddist í febrúar 1962. Hún er kennari og maður hennar er Reynir Sigurðsson. Börn þeirra eru Þórdís, Helga María, og Reynir Tómas.

Þórný Ásta kom í heiminn í september 1966 og hún á soninn Sólmund Erni.

Þórður Geir fæddist í maí 1969. Hann er rannsóknarlögreglumaður og kona hans er Ana Martha Helena. Þau eiga Klöru Maríu Helenu og í fyrra hjónabandi átti Þórður með Björgu Loftsdóttur soninn Þorstein Mána. Allt þetta fólk átti sér miðstöð á Víðimel 65. Þar gerðu þau Þorsteinn og Þórdís afar smekklegt og fallegt heimili. Og Þorsteinn átti grunntraust í konu sinni og festu í heimili sínu. Og afkomendurnir nutu ríkulega.

Þorsteinn var barngóður, miðlaði fúslega fróðleik sínum til síns fólks, hafði áhuga á viðfangi og verkum barna og afkomenda sinna, fylgdist eins vel með og hann gat, var þeim skjól og gladdist þegar hann gat gert þeim gagn og greiða. Og hann gekk jafnvel úr rúmi til að tryggja afabarni gott skjól.

20160423-181453Fararstjórinn

Og svo voru það allar ferðirnar. Þorsteinn bar í sér forvitni um lífið. Hann fór um veröldina til að skoða, skilgreina og fræðast um líf, menningu, stjórnunarhætti, músík, stríð, uppbyggingu, niðurrif, allt þetta sem gerir sögu manna svo dapurlega en líka hrífandi. Fræðarinn, kennarinn, sem allir báru virðingu fyrir, naut sín líka í ferðum heimsins. Þorsteinn hóf fararstjórn sína um miðjan sjöunda áratuginn. Svo varð til ferðafélagið Garðabakki, sem var eiginlega flétta úr Garðabæ og Eyrarbakka – með stefnu á útlönd. Það er merkilegt að skoða bókahyllurnar á skrifstofu Þorsteins. Þar er risa-ferðabókasafn. Hann undirbjó ferðirnar vel, las allt sem hann náði í, varð afburðafróður um lönd, landshagi, sögu og samtíð. Og sérfræðingur á mörgum sviðum og m.a. á margslunginni sögu Rómverja og síðari alda Evrópusögu. Þorsteini lánaðist að flétta fræði sín og hugðarefni saman og gat sem hægast – hvar sem hann fór – tengt mannlíf við verslun, sem varð honum hjálp við að setja upp vef þeirrar menningar sem hann sótti heim og fræddi íslenska ferðalanga um. Í ferðum var Þorsteinn allt í senn fararstjóri, leiðsögumaður, kennari en líka nemandi. Hann hafði í sér vaxtargetuna.  Löndin sem Þorsteinn sótti heim um dagana voru fleiri en löndin sem hann hafði ekki komið til. Og það er gríðarlega stór hópur fólks sem hefur notið leiðsagnar hans, þjónustu, umhyggju og fræðslu. Með Þorsteini er horfinn einn öflugasti ferðafrömuður Íslendinga á síðustu áratugum.

20091030_999_51Nú er Þorsteinn farinn hinstu ferð inn í himininn. Hvernig manstu hann? Manstu fróðleiksgetu hans og kennsluhæfni? Manstu Þorstein með hljóðnemann í rútu? Vissir þú að þegar hann var á ferð með hópa erlendis fór hann oft á fætur fyrir dagrenningu til að skoða gönguleiðir og velja þær sem best hentuðu hóp og aðstæður? Og svo í dagslok settist hann yfir bækurnar til að undirbúa næsta dag.

Hvaða minningar spretta fram í huga þér um Þorstein? Hann var umtalsfrómur, talaði vel um aðra, orðvar, bar virðingu fyrir fólki og skoðunum þess. Þorsteinn var æðrulaus, jafnlyndur, geðgóður, skapstilltur, umburðarlyndur og stefnufastur. Manstu einlægni hans og heillyndi?

Hann mat tónlist og svo var hann matgæðingur. Manstu hljóðláta glettnina? Manstu hve góða nærveru hann hafði? Honum þótti miður að fólk bölvaði og ragnaði. Hann vildi fremur efla fólk með tali en hafa illt fyrir því.

Hvað hreif þig mest í fari hans? Manstu hve fróðleiksfús hann var? Manstu kvikmyndaáhugamanninn Þorstein? Manstu leiðtogahæfni hans ogótrúlega þekkingu hans, hvort sem var á verslunarháttum Íslendinga til forna eða á nýrri tíð, stríðssögu Evrópu eða Kaupmannahafnarsögu?

20100703_999_41Og nú er þessi pílagrímur menningarinnar farinn. Hann ræðir ekki lengur verslunarhætti í fornöld, mál véfréttar í Delfí, fer ekki framar á tónleika með Kristni Sigmundssyni eða gælir við barnabörnin sín. Nú er það eilífðin. Hann er farinn á undan ykkur – og gott ef ekki til að skipuleggja eilífðarreisur. Við þekkjum ekki eilífðarlandið – en Þorsteinn hvarf inn í páskaljóma lífsins og upprisunnar. Páskar eru stóra ferðasagan um að Guð opnar lendur lífsins í eilífðinni. Dauðinn dó og lífið lifir. Góð ferðaskrifstofa það sem býður slíkar ferðir. Þorsteinn Magnússon er í þeim félagsskap – Garðabakka eilífðar Guðs.

Guð geymi hann og Guð geymi þig.

Amen.

Ingibjörg Sigurjónsdóttir, í Colorado í Bandaríkjunum biður fyrir kveðjur til þessa safnaðar. Vegna bálfarar verður ekki jarðsett í dag heldur getið þið gengið fram í lok athafnar og signt yfir kistuna hans Þorsteins. Skipulagið verður að þið gangið fram kirkjuna með veggjum og þegar þið komið að kistunni kveðjið þið og gangið síðan fram og út miðgang kirkjunnar. Erfidrykkja verður í safnaðarheimilinu strax að lokinni athöfn og jarðsetning duftkers verður síðar og jarðsett í Sóllandi.

Minningarorð í útför Þorsteins Magnússonar, sem gerð var frá Neskirkju, 8. apríl, 2016, kl. 13.