Guðrún Nielsen + minningarorð

Glæsilegur eldhugi er horfinn inn í himininn. Minningar um Guðrúnu Nielsen hafa lifnað síðustu daga og það er heillandi að lesa fjölda greina um hana sem veraldarvefurinn geymir ágætlega og miðlar greiðlega. Bros konu á eftirlaunum blasir við á forsíðu tímaritsins Ung í anda, sögurnar um leikfimi í Ármanni laða, frásögur frá uppeldinu syðra og nyrðra, vinnuæfin hennar opinberast sem og þjónusta við þúsundir skólabarna. Og við starfslok hófst nýr tími í lífi hennar, virkni- og sigurför í þágu aldraðra og íþróttaiðkunar þeirra. Guðrún kom öldruðum á stjá og er einn af merkustu íþróttafrömuðum þjóðarinnar síðustu áratugi. Svo er hún farin inn á íþróttasvæði himinsins. Við getum ímyndað okkur hana taka nokkur charlestonspor eða ganga rösklega inn á eitthvert ofuríþróttasvæði, standa svo framan við hóp brosandi, geislandi vera sem hreyfa sig með þokka. Guðrún liðkaði, lífgaði og efldi – og við megum skynja himininn sem allt hið besta sem við höfum þekkt í þessum heimi og lífi.

Bernskan

Guðrún lifði langa æfi og naut inntaksríks og gjöfuls lífs. Þegar hún lést var hún 92 ára gömul og hún lifði lífinu lifandi allt til loka. Guðrún var sumarbarn, fædd­ist í Reykjavík þann 29. júlí 1923. Hún kom í heiminn þegar Ísland var hluti dansks konungsríkis, en varð borgari í sjálfstæðu íslensku ríki. Hún var hálf-dönsk því faðir hennar var danskur, frá Svendborg á Fjóni, en mamman úr Garðinum á Reykjanesi. Foreldrarnir voru Jörgen C. C. Niel­sen, bak­ara­meist­ari, og kona hans Guðrún Ó. Ólafs­dótt­ir Niel­sen. Börnin þeirra voru fimm og Systa – eins og hún var kölluð – var næstelst. Eftirlifandi eru Ólafur og Helga, en Soffía og Valdemar eru látin. Á bernskuheimilinu bjuggu einnig tvær uppeldissystur sem foreldrar Guðrúnar tóku að sér. Þær hétu Nanna og Helga og eru báðar látnar. Mannlífið var ríkulegt og fjörlegt. Mamman rak heimilið og pabbinn bakaði. Þau voru samhent, dugmikil og stefnuföst. Þau festu sér hús á Bergstaðastræti og voru einbeitt í að skapa fjölskyldunni góðan ramma og lífsviðurværi.

Bergstaðastaðstræti var á þessum árum hluti litríks hverfis Reykjavíkur, sem var eiginlega úthverfi nærri byggðarmörkum. Mikill fjöldi var í húsunum, börnin voru mörg, fyrirtæki voru rekin í herbergjum og kjöllurum og byggðin þandist út á þessum árum. Guðrún var sein til gangs en þegar hún var búin að ná sér af beinkröm frumbernskunnar var hún kvik, snögg og fljót – út lífið. Dugnaðurinn og persónueinkennin komu strax fram og Guðrún sagði sjálf kitlandi lykilsögu um sjálfa sig og stefnuna. Í anda sjálfsþurftarbúskapar tíðarinnar voru kartöflugarðar víða í Þingholtunum og hlaðnir steingarðar umhverfis til að varna aðgangi búfjár. Guðrún sá strax í görðunum ljómandi kennslutæki. Hún safnaði nágrannabörnunum saman í hóp, stillti þeim upp og notaði kartöflugarð sem sundlaugarígildi og steingarð sem bakka og svo kenndi hún öllum hópnum sundtökin og hvernig ætti að stinga sér af bakka út í laug! Hún sagði skemmtilega frá þessum bernskuæfingum kennaraefnisins við að koma öllum á stjá og til fjörlegra lífs. Og svo bætti hún við og kímdi. „Ég hef verið óþolandi.“ Guðrún lærði að þekkja styrkleika sína og getu og hafði líka húmor fyrir aðstæðum. Hún hafði í sér getu leiðtogans – eldhugans.

Norðrið rómantíska

Þegar tilboð barst að norðan um að Jörgen bakaði fyrir Akureyringa og Eyfirðinga ákváðu foreldrar Guðrúnar flytjast norður. Þar bakaði Jörgen í nokkur ár, fjölskyldunni leið vel, Guðrún hóf skólagöngu nyrðra sem hún minntist alla æfi með þakklæti og virðingu. Kennararnir voru hæfir og urðu sem lifandi fyrirmyndir um vegsemd og möguleika skólastarfs og kennslu. Guðrún sá Akureyri síðan í rómantísku ljósi og minntist þessara ára með þakklæti og tók með sér suður og fléttaði í eigið líf ungmennafélagskraftinn sem aldrei hvarf henni síðan.

Bergstaðastrætið að nýju og mótun

Og svo fóru þau öll suður aftur eftir ævintýrið norðan heiða – í húsið sitt við Bergstaðastræti. Þar var fjörlegt og skepnur, fuglar og svín, voru í garði. Það er meira að segja til bernskumynd af henni milli grísanna. Jörgen hélt áfram að baka brauð og kökur, Guðrún eldri stýrði heimilinu af skörungsskap og Guðrún yngri fór í Miðbæjarskólann og svo í gagnfræðaskóla. Hún lét til sín taka í barnahópnum, líktist föður sínum, varð dugmikil hannyrðakona, lærði að sníða, sauma, telja út og aga fegurðarskyn sitt svo að hún hafði alla tíð sterkar skoðanir á hvers konar fagurfræðilegum efnum. Og hún lærði að tengja anda og tilfinningar við hið snertanlega og kjólarnir hennar og hlutir urðu að sýnilegum og opnandi minningarlyklum. Þegar hún dró fram kjól eða einhvern mun komu sögurnar óhikað og minningarnar urðu ljóslifandi fyrir þeim sem nutu og heyrðu. Kennarar vita að pedagógísk hjálparmeðul eru góð og Guðrún notaði hluti til að minnast og opna eigin sögu og tjá eigin lífsreynslu.

Ármann, íþróttir, menntun – störf

Unglingsárin voru Guðrúnu gleðitími og gjöful. Hún var ekki aðeins virk í skóla og hverfi heldur heillaðist af fimleikum. Hún stundaði stíft æfingar í Ármanni og fór á fjöll á vegum þess félagsskapar um helgar. Hún tók þátt í að reisa Ármannsskálann, eignaðist fjölmarga félaga í störfum og við æfingar. Svo varð fimleikaiðkun ekki aðeins til að efla hreysti hennar líkamlega heldur varð félagsskapurinn að þroskavettvangi. Hún kynntist betur eigindum sínum og lærði m.a. að skilja eftir feimni. Og fimleikaiðkunin opnaði henni útlönd einnig og eftir að heimsstyrjöldinni lauk fór hún margar fimiferðir um Norðurlönd. Þar opnaðist henni heimur sem síðan var hennar heimaveröld og hún nýtti til starfs – og raunar alla æfi.

Jón Þorsteinsson íþróttafrömuður var glöggur á fólk og sá í Guðrúnu Nielsen konu framtíðar. Hann orðfærði við hana hvort hún gæti hugsað sér að læra til íþróttakennara. Spurningin varð sáðkorn í sálu Guðrúnar og hún fór austur á Laugarvatn, í Íþróttakennaraskóla Íslands. Hún var útskrifuð sem íþróttakennari vorið 1945 og sótti síðar nám­skeið í Dan­mörku, Finn­landi og Svíþjóð. Hún fékk strax vinnu í grein sinni og starfaði sem íþrótta­kenn­ari við Laug­ar­nesskóla frá árinu 1945. Hún kenndi einnig við Íþrótta­skóla Jóns Þor­steins­son­ar og Sam­vinnu­skól­ann. Þá kenndi hún leik­fimi og dans hjá Ármanni og þjálfaði aðalalega stúlknaflokka. Hún stýrði sýn­ing­ar­flokk­um kvenna í fim­leik­um sem sýndu m.a. á Háloga­landi og Mela­velli, í Þjóðleik­hús­inu og við Arn­ar­hól á 17. júní. Auk þess fór hún með fim­leika­flokka í sýn­ing­ar­ferðir til Nor­egs, Hol­lands, Finn­lands og Dan­merk­ur. Guðrún varð heiðursfélagi í Ármanni. Guðrún hóf að kenna við Lauga­lækj­ar­skóla 1961 og kenndi síðar við Fjöl­brauta­skól­ann í Ármúla. Hún kenndi öll­um ald­urshópum íþrótt­ir, sund, dans og fim­leika.

Sjálboðastarfið – í þágu aldraðra

Þegar Guðrún hafði lokið skólakennslu, þau hjón höfðu fullklárað uppeldi barna og húsið í Lerkihlíð, og hún hafði orðið betri tíma hófst nýr kafli í lífi Guðrúnar Nielsen, sjálboðatíminn. Við starfslok sem skólakennari kynnti hún sér nýjar stefnur í íþróttum fyrir aldraða í Danmörku og vann svo að stofnun Félags áhugamanna um íþróttir aldraða, árið 1985, og var í fararbroddi í þeim málaflokki í aldarfjórðung. Þetta var hugsjóna- og sjálboða-starf. Hún varð brautryðjandi í nýrri hreyfingarbyltingu þjóðarinnar. Hún naut siðferðilegs stuðnings íþróttayfirvalda og síðar ofurlítinn fjárhagslegan stuðning stjórnvalda til að efna til átaks meðal Íslendinga sem voru komin til fullorðinsára. Á þriðja áratug var Guðrún einbeitt að koma fólki á stjá – aldrei of seint – sagði hún. Guðrún var sjálf fyrirmynd öðrum við hreyfingu, glæsileg og ungleg, sýndi og bar vitni um að máli skipti að iðka hreyfa sig og iðka íþróttir við hæfi. Og tímaritagreinarnar, viðtölin í fjölmiðlum, og dagblöðin tjá vel hve Guðrún geislaði í starfi og hafði áhrif á þúsundir – og varð til að bæta heilsu þjóðarinnar. Hvatningarstörf hennar við þessa þörfu byltingu fóru ekki fram hjá neinum sem létu sig lýðheilsu varða og Guðrún var vegna þessa sæmd riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu árið 2002. Það er vel og maklegt.

Hjúskapur og ástvinir

Svo var það ástalífið. 17. Júní var ekki bara sýningardagur Guðrúnar á stóra sviðinu. Hún dansaði sjálf og var svo heppinn að rata í fangið á Gunnari Guðröðarsyni (f. 1920, d. 2013), samkennara sínum í Laugarnesskóla, miklu prúðmenni og gáfumanni. Engum sögum fer af dansæfingum þeirra á kennarastofunni en dansinn þeirra á þjóðhátíðardeginum dró dilk á eftir sér. Þau dönsuðu sig inn í hjúskapinn. Þau voru bæði fullveðja, þroskuð, hæfileikarík og mótuð. Þau hófu hjúskap og héldu vel hjúskapartaktinn, stundum hratt og stundum hægt – allt til enda. Þau voru góð hjón. Gunnar lést fyrir tæpum þremur árum.

Þau Guðrún eignuðust tvö börn. Karl fæddist árið 1952. Hann er jarðeðlis­fræðingur og starfar hjá Íslenskum Orkurannsóknum. Bergrún Helga fæddist svo árið 1959. Hún er hjúkrunarfræðingur og starfar hjá Marel. Hennar maður er Gunnar Pálsson, verkfræðingur. Dætur þeirra eru Halla (f, 1991) og Vaka (f. 1988). Sambýlismaður Vöku er Guðmundur Vestmann (f. 1987) og þau eiga dótturina Kríu (f. 2012).

Fyrst bjuggu þau Guðrún í Bólstaðarhlíð en svo fengu þau lóð í Lerkihlíð og byggðu þar fallegt parhús sitt og áttu heima þar til lífsloka beggja.

Minningarnar

Hvernig manstu Guðrúnu? Hvað kemur upp í huga þinn? Manstu svipbrigði hennar og bros? Ef þú varst einn af þúsundum nemenda hennar manstu hve öflugur kennari hún var. Manstu kvikar hreyfingarnar? Manstu hve dugmikil og snar í snúningum hún var? Stakk hún þig einhvern tíma af á göngu? Það var ekki sjálfgefið að halda í hana og gildir einu hvort hún var þrítug eða áttræð. Undraðistu einhvern tíma hraða hennar? Hún var létt á sér og naut að hreyfa sig. Manstu stefnufestu hennar og geðstyrk? Manstu hve ákveðin hún var í flestum málum og marksækinn og fylgdi vel á eftir? Manstu viljann og einbeittnina?

Hvað gerði Guðrún fyrir þig sem þú getur nýtt og veitt áfram í eigin lífi og starfi? Manstu hve reglusöm hún var í öllum málum? Manstu iðjusemina og hve hún setti markið alltaf hátt? Og hefur þú einhvern tíma smurt júgursmyslum eða vaselín á auma öxl eins og Guðrún benti öllum að gera ef eymslin hömluðu? Manstu hve sókn Guðrúnar í líf og gáska var einbeitt og skýr – allt til hinstu stundar? Og manstu hve heitt hún elskaði fólkið sitt og beitti allri orku sinni í þeirra þágu? En svo átti hún líka orku og tíma aflögu fyrir íslensku þjóðina. Og manstu að hún tjáði, kenndi og sýndi langar og þokkafullar hreyfingar, sameinaði íþróttir og fegurð?

Skil og eilífð

Og nú eru orðin skil. Hún borðar ekki lengur á heimsmælikvarða eða dansar við Gunnar sinn. Hún syngur ekki fleiri gleðisöngva með Senjórítunum. Hún kennir engum framar að rísa upp úr stól eða flögrar um. Hún kallar ekki þúsundir saman til íþróttadags eða fer fimleikaferðir í veröldinni. Hún fer ekki framar í minningageymslurnar og nær í fallegan kjól sem hún saumaði og segir kitlandi ævintýrasögur um vel saumaða spjörina og tengdar minningar. Hún týnir engan arfa í garðinum sínum framar og nú er nýgræðingurinn farinn að stinga upp kollunum en hús- og garð-ráðandinn farinn. Guðrún stýrir ekki framar teygjum eða hóp að dansa “kónga” á göngubrú yfir fjölförnasta akveg landsins. Hún fer ekki lengur til Kanarí eða í leikfimi. Nú er það stærsta sviðið – himininn. Og þegar við hugsum um Guð og eilífð þarf að stækka alla hugsun og skýra hugtök. Trúmaðurinn opnar vitund og tíma og getur séð Guðrúnu Nielsen í stórum hópi þakklátra vina, sem hreyfa sig með þokka og löngum hreyfingum. Rún hennar er leyst, Guðrún er í mynd Guðs, þokkinn alger, gleðin óspillt, engin markmið of háleit eða fjarlæg og lofsöngurinn samstilltur í fimleik eilífðar.

Guð geymi Guðrúnu og varðveiti hana í fegurð og ljósi himins.

Amen.

Við skil eru nokkur sem hafa beðið fyrir samúðarkveðjur til þessa safnaðar: Svava Egilsdóttir og Þorgerður Gísladóttir. Systkini Guðrúnar þakka samfyld, skemmtilegu samverustundirnar, kærleika og tryggð. Bergrún og Karl þakka Helgu Nielsen og Garðari, eiginmanni hennar, ómetanlega umhyggju þeirra í garð móður þeirra.

Bálför. Erfidrykkja í safnaðarheimili Háteigskirkju.

Minningarorð í við útför sem gerð var frá Háteigskirkju 21. mars, 2016.