Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Landsbjörg, mannbjörg – heimsbjörg

Bandaríski listamaður­inn Joey Syta var í heimsókn á Seyðisfirði síðastliðið vor. Hann fór í gönguferð en villtist. Hann klifraði upp hlíðar og fór yfir fjöll. Villuráfið endaði í Loðmundarfirði sem er norðan við Seyðisfjörð. Þar hrapaði hann og rotaðist. Þegar hann vaknaði til meðvitundar gerði hann sér grein fyrir að hann væri það illa meiddur að hann væri ófær um að ganga til baka. Síminn hans náði engu sambandi svo hann gat ekki hringt. Hann varð því að bíða og vonaði að farið yrði að leita að honum. Það sem átti að verða hressandi gönguferð í íslenskri undraveröld varð að fimm daga útlegð – vosbúð í marskulda – í íslenskum eyðifirði. Joey Syta nærðist á því sem hann sleit upp úr jörðu og fjöru og reyndi fáklæddur að halda á sér hita í kuldanum. Vinir hans héldu að hann væri í Seyðisfirði og leituðu hans þar. En björgunarsveitarmenn stækkuðu svo leitarsvæðið. Að morgni – eftir marga daga – heyrði Joey hljóð björgunarsveitarbáts og honum tókst að ná athygli bátsverja. Hann náði að stökkva af kletti út í bátinn og var svo komið til byggða og manna. Hann sem var týndur var fundinn – Joey Syta lifði af.[i]  Mannbjörg.

Hvenær erum við týnd?

Að týnast og finnast er meginþema í sögum og lífi heimsins og eitt af djúpsæknustu þemum Biblíunnar. Það er stefið sem ég tala um í dag – og engin tilviljun að Jesús sagði ekki bara eina heldur þrjár sögur um merkingu þess. Í Lúkasarguðspjalli eru sögur um týnda sauðinn, um týnda peninginn og svo líka um týnda soninn. Þær eru ekki bara krúttlegar sögur sem enda vel heldur fremur djúpsögur um merkingu lífs og heims. Þær eru ekki Munchausen-sögur um að við getum dregið okkur sjálf upp á hárinu. Þetta eru ekki sjálfshjálparsögur heldur sögur um að breyta um lífsskoðun. Sögurnar eru snúningssögur. Þær breyta sjónarhólum þeirra sem skilja þær. Þær breyta mannsýn, heimssýn og líka himinsýn. Þær úthverfa mannmiðlægni og tjá að menn séu ekki miðja heimsins heldur Guð. Sögurnar miðla að það séu ekki menn heldur Guð sem bjargi lífi og veöld. Og þessi Guð bíður ekki eftir að hinn týndi komi sjálfur heldur fer að leita, þolinmóður, þolgóður, þrautgóður og leitar og finnur. Þegar hinn týndi finnst eru engar skammir fyrir óvitaháttinn, fyrir að ana út í vitleysu – nei, heldur dásamlegur fögnuður og gleði.

Joey Syta var týndur og gat ekki bjargað sér sjálfur. Hann fannst og var fagnað. Við lendum öll í því í lífinu að villast, t.d. detta úr sambandi, týnast í verkefnum, fjármálum, vinnu eða skóla. Sum okkar villumst í óblíðri náttúru, önnur í geðbrenglun eða ástarlífinu, í fjölskylduharmleikjum, vinnu eða vímu. Við getum líka slitnað úr samandi við elskhuga lífsins – Guð. Þá missum við trúna. Veröldin klikkast og kerfi veraldar hrynja.

Hvenær erum við týnd? Og á bak við hana er önnur og ágeng spurning: Tökum við eftir því þegar við erum týnd? Þegar best lætur röknum við úr rotinu eins og Joey Syta – sambandslaus og bjargarlaus – en tilbúin að nema lífshljóðin – björgunarmerkin. Svo dró Jói saman lífsreynsluna og lærdóminn þegar Mogginn tók viðtal við hann: „Ef þú vilt ekki deyja, þá verðurðu að læra að lifa.“ Það er skarplega athugað. Hvernig lærir einstaklingur og heimur að lifa?

Fundinn – Guð sem leitar – Guð sem finnur

Áherslan í sögunum í fimmtánda kafla Lúkasarguðspjalls er ekki  ógn og skelfingu þess að týnast heldur fremur á gleði björgunarinnar. Ekki um drungann heldur von. Ekki um dauða heldur líf. Merkingarsnúningur þessara sagna er stóra bomban – að það eru ekki menn sem finna Guð – heldur Guð sem finnur og fagnar. Í því er úthverfing sagnanna fólgin. Það er hirðirinn sem skilur eftir 99 kindur og leitar einar. Það er konan sem sópar gólfið í leit að einum smápeningi. Hún finnur og gleðst. Og það er faðirinn sem stendur við veginn og horfir í fjarska og sér svínastíusoninn koma. Líkingarnar byrja í hinu mannlega en beina síðan sjónum að hinu dýpsta og mikilvægasta. 

Hvað finnst þér um það að snúa mannmiðlægni okkar og veröld á hvolf og gera veröldina guðmiðlæga í staðinn? Leyndarmál ástarríkis Guðs er að við erum metin og elskuð óháð göllum okkar. Gildi okkar er ekki háð okkur heldur erum við metin óháð sjálfsmynd og eigin mati. Það er Guð sem fer af stað og spyr ekki hvort við eða veröldin séu þess virði að eyða orkunni. Það er Guð sem ber okkur heim. Það er Guð sem fagnar okkur. Það er Guð sem leitar að hinu týnda og finnur en ekki að menn sem leita Guðs og finna. Guð hefur frumkvæði að leita okkar en ekki öfugt.[ii] Heimsbjörg.

Leit Guðs á okkar tímum

 Margir hafa misst tengsl við trú og týnst í einhverjum Loðmundarfirði lífsins. En Guð er ekki reiður – Guð biður ekki um skýrslu, að fólk hringi eða ýti á neyðarhnappinn. Guð fer af stað og finnur okkur. Mannbjörg. 

Jesús talar ekki um refsingar heldur um gleði. Hirðirinn fagnar. Konan kallar nágranna sína til sín svo þeir geti glaðst með henni. Ólánssonurinn sá að sér og kom heim og þá var ekki tími til að skamma strákinn heldur til að gleðjast og efna til veislu. Í þessum Jesúsögum er tjáð að Guð birtist ekki í mynd veisluspillis. Guð er þvert á móti sá máttur sem leysir úr vanda, leitar lausna, sér hið týnda sem Guð elskar alltaf og þorir svo að halda hátíð þegar það sem var týnt finnst. Guðstrú kristninnar er ekki kerfi eða siðalögmál heldur fögnuður. Guð leitar, finnur og fagnar. Og þótt menn bæði mengi og sprengi heiminn tekst okkur ekki að týnast Guði sem sleppir ekki. Fagnaðarerindi.

Samfélög brotna, hópar og þjóðir deila og við lifum skautun, grimmd og ofbeldi meðal manna. Samkennd rofnar, sundrung læðist um samfélög sem riðlast. Vonleysi magnast og lömunarsýki tilgangsleysis geisar. Á þessum tímum er hollt að horfa í dýptir og spyrja hverjir bjarga heiminum, lífríkinu, mannfólkinu – eru það menn?

Jói Sæti var strand. Hann hafði villst og slasast. Hann beið og vonaði – lærði að lifa. Ef björgunarsveitin hefði ekki leitað hefði hann farist. Þannig er það í stóru málum okkar og veraldarinnar. Það eru ekki menn sem bjarga týndri og villtri veröld heldur Guð. Guð er ekki bara uppruni okkar – Guð er besti vinur – mannbjörg, landsbjörg og heimsbjörg.

Amen.

Hallgrímskirkja, 3. sunnudagur eftir þrenningarhátíð, 6. Júlí, 2025.

Textar dagsins: Míka 7.18-19; Ef. 2.4-10; Lúk 15.1-10.

And for those of you who do not understand Icelandic:

I spoke about the biblical, social, political, and general theme of being lost and found. I mentioned an American man who went missing last March in an uninhabited area of eastern Iceland. No one knew where he was — but eventually, the national search and rescue team found him, and his life was saved.

The biblical stories emphasize that we are responsible for our lives, yet we are not able to save ourselves. In the parables of the lost and found, Jesus turns human-centered narratives inside out. The focus shifts: it is God who is the center of help. God is always on the alert — ready to rescue, without shaming those who did everything wrong.

No — God searches, finds, and then celebrates. The Christian pattern is clear: what was lost leads to joy. The earthly story becomes, at its core, a story of hope — a movement toward goodness and joy — because this world is a beautiful, grace-filled creation of God.

[i] Frásögn af ferð Joey Syta, hvað hann gerði og hvernig hann fannst er í Morgunblaðsgrein að baki þessari smellu.

[ii] Jón Gnarr skrifaði eitt sinn í blaðagrein að hann hafi leitað að Guði en ekki fundið. Hann dró þá ályktun að Guð væri ekki til. Ég fjallaði um skrif hans og benti á viðsnúninginn, að það væri Guð sem leitaði manna og líka að Jóni Gnarr. Grein mín um túlkun Jóns Gnarr var á visir.is og er að baki þessari smellu.

Myndina tók ég í ferð vinafjölskyldna í Austur-Skaftafellssýslu. Fjallsárlón. 

Kardínálar framtíðar og páfar lífsins

Ég var í Róm síðastliðna páska. Við, kona mín og synir okkar, komum til borgarinnar á miðvikudegi í kyrruviku. Þegar við vitjuðum helgistaða og mustera vorum við svo snortin að sögusvimi sótti að okkur.[i] Borgin hreif okkur en lögregluþyrlur og vælandi bílalestir trufluðu því varaforseti Bandaríkjanna kom. Ókyrra heimsstjórnmálanna truflaði kyrru helgidaganna.

Annar sona minna hafði verið svo forsjáll að panta miða í athöfn í Péturskirkjunni á föstudeginum langa og líka í páskamessuna á torginu. Frans páfi sótti fársjúkur þessar athafnir. Magnþrota blessaði hann okkur á Péturstorginu á páskadag og svo dó hann inn í páskafönguðinn efra. Enn á ný söfnuðust tugir þúsunda til kvöldsamveru en nú til að blessa himinför páfans. Maríubænir og Faðirvorið voru flutt aftur og aftur og það var sefandi að biðja sömu bænina oft, eins og að hjala í móðurfaðmi. Bænir orða hið ósegjanlega og eru farvegur allra tilfinninga. Útför páfans var gerð á laugardeginum eftir páska og enn á ný kom fólk úr öllum heimshornum til að kveðja. Leiðtogar heimsins komu. Að mér sótti spurningin: Hverjir þeirra eru raunverulegir forystumenn og hverjir ekki?

Íhugað við skil

Við lát páfa og val nýs er hollt að hugsa aftur en líka fram. Frans var breytingapáfi og reyndi að uppfæra kirkjustofnunina og áherslur kenningakerfisins. Hann beindi sjónum að friðarmálum, manngildi og réttlæti – hann var hugsjónamaður. En hvernig leiðtoga fær kaþólska kirkjan þegar kardínálarnir í sistínsku kapellunni koma sér saman um nýjan arftaka á stóli Péturs í Róm? Og frumspurningarnar eru: Hvað er að vera leiðtogi? Togar hann eða leiðir hann? Hvernig er góður stjórnandi? Hvað gerir góður hirðir?

Hirðir sem skilar

Af hverju tala um páfa og hirða í dag? Jú, textar þessa kirkjudags varða stefnu, stjórn, verk, afstöðu og gildi. Þeir íhuga afstöðu manna og þar með hvernig við beitum okkur í lífinu, hverjum við treystum og fylgjum. Lexía dagsins er um spillta stjórnmálastétt og hrun ríkis. Guð talar – í 34. kafla Ezekíelbókarinnar – inn í hræðilegar aðstæður. Guð lofar að leysa, bæta, lækna og lífga. Þetta er messíasartexti. Líkingin af hirði er notuð, augljós og skiljanleg öllum smalandi landbúnaðarsamfélögum. Hlutverk hirðis var og er að tryggja farsæld. Ef honum lánast er hann góður. Þessa hirðislíkingu notaði Jesús: „Ég er góði hirðirinn,“ sagði hann og gaf hirðismyndinni menningarlega, pólitíska og trúarlega dýpt. Góður hirðir gætir velferðar allra, leitar og finnur hið týnda, gefur líf og gnægð. Hann fórnar jafnvel lífinu fyrir hópinn sinn. Skiptir áhersla Jesú Krists okkur máli? Pétur postuli ræðir um hinn góða stjórnanda í pistlinum.

Veraldarvandinn blasir við

Hvaða leiðtoga þarf kirkja, kirkjudeildir, heimur, þjóðir – já mannkyn og líf á jörðu? Getuleysi, rofið traust, hernaðarkapphlaup, deyjandi og sveltandi fólk – fullkomlega að óþörfu – er vitnisburður um að vondir hirðar bregðast hjörð sinni og hlutverki. Bandaríkjamenn safna vistum og hamstra vopn þessa daga til að undirbúa átök og borgarastyrjöld. Heimur okkar er plagaður af loftslagsvá, flóttamannakreppum, vaxandi misskiptingu, aukinni andfélagslegri umræðu og klofningi, falsfréttum, lýðskrumi og gildagliðnun. Lýðræði á undir högg að sækja. Einræðisöfl sækja að. The Guardian miðlaði í vikunni þeim hrollvekjandi tíðindum að aðeins 15% ríkja heims séu raunveruleg lýðræðisríki. 85% eru einræðisríki eða verulega spillt.

Trausta brúarsmiði

Því þurfum við að huga að hirðunum, við þurfum nýja tegund leiðtoga – fólk sem byggir brýr, leitar lausna í stað sundrungar og sýnir hugrekki í verki en ekki aðeins í orði. Engin þörf er á fullkomnum leiðtogum heldur einlægu og traustu fólki. Stjórar geta verið alls konar en staðan í stjórnmálum, öryggismálum, trúmálum, efnahagsmálum og menningarmálum teiknar upp prófíl leiðtoga sem þörf er á. Mín nálgun og þarfgreining á stjóraþörf heimsins er þessi.

  1. Í fyrsta lagi. Traust er súrefni lýðræðis og forsenda réttláts friðar og farsældar. Leiðtogar verða að þora og axla ábyrgð á ákvörðunum sínum og misnota ekki vald. Þjónandi leiðtogar eru betri en drottnandi stjórar. Við þörfnumst heiðarlegra og ábyrgra leiðtoga traustsins en ekki óreiðunnar.
  2. Í öðru lagi þörfnumst við forystufólks sem hefur þroskað með sér samkennd og umhyggju fyrir fólki en ekki bara valdi. Samkennd merkir að skynja og taka til sín líðan annarra. En það er ekki nóg að skynja og skilja heldur þarf að taka ákvarðanir sem bæta kjör og verja réttlæti, jafnvel þó það veki hörð viðbrögð og sé óvinsælt. Þroskuð samkennd og meðlíðan er samfara þroskuðu siðviti. Mannvirðing er systir samkenndar.
  3. Í þriðja lagi: Við þörfnumst leiðtoga með framtíðarstefnu. Við verðum að bregðast við loftslagsvanda, tækniþróun, ójöfnuði og stríðum. Því þarfnast þjóðir og hópar leiðtoga sem hugsa ekki bara til næstu kosninga heldur til næstu kynslóða. Framtíðarsýn krefst stefnumótunar sem sameinar umhverfisvernd, sjálfbærni og efnahagslegan stöðugleika. Góður stjóri er ekki upptekinn af eigin dýrð heldur farsæld fólks og lífs til framtíðar.  (Sigurður Gísli Pálmason benti mér eftir messu hnyttilega og réttilega á muninn á að vera „togandi“ leiðtogi eða leiðandi stjórnandi. Sem sé, góður leiðtogi togar ekki aðeins heldur leiðir fólk áfram.)
  4. Og svo er í fjórða lagi nístandi þörf fyrir brúarsmiði. Í skautuðum heimi þar sem pólitísk sundrung og öfgar aukast er þörf víðsýnna leiðtoga sem efla virðingu, hlustun og samvinnu. Brúarsmiðirnir vinna þvert á flokkslínur og tengja ólíka samfélagshópa. Loftslagsbreytingar, faraldrar, stríð, fjármálakreppur og trúarátök eru mál sem þvera landamæri þjóða og varða stóran hluta jarðarkúlunnar og lífs á jörðu. Leiðtogar framtíðar verða að virða fjölþjóðleg tengsl og geta tekið þátt í samstarfi. Stjórar heimsins verða að hafa þroskað með sér handanþjóðavit og samstarfsgetu þvert á mæri, hópa og hagsmunaátök.

Ólíkar skoðanir og góði hirðirinn

Í þessum söfnuði í kirkjunni í dag er fólk með mismunandi skoðanir á pólitískum álitaefnum, tollamálum, kirkjumálum og öryggismálum. En við getum væntanlega verið sammála um að við þörfnumst leiðtoga sem eru brúarsmiðir en ekki veggjasmiðir, fólk skilnings og vits en ekki dólgar. Og þá erum við komin að góða hirðinum, Jesú Kristi, heimfærslunni, okkur sjálfum og afstöðu okkar.

Nú eru gleðidagar – dagar upprisu og lífs – eftir kyrruviku og langan föstudag. Friður og velsæld heimsins er ekki háð fjölda dróna, skriðdreka og flugvéla heldur siðviti og gildum. Stórveldi hafa riðlast þrátt fyrir hernaðarmátt en engin vopn geta drepið gildi, trú og von. Það er hægt að deyða fólk en ekki líflegar hugsjónir og trú. Raunverulegir leiðtogar byggja á gildum og góðum hugsjónum sem eiga sér dýpri rætur en hagsmunir einstaklinga eða forréttindahópa. Friður heimsins og réttlæti verður aðeins þegar manngildi er virt, réttur þjóða til lífs virtur og gagnrýnin og heil trú fær að móta pólitík. Jesús segir: „Ég er góði hirðirinn.“

Við erum ábyrg

Frans páfi er látinn og ég vona að kaþólikkar velji mann lífsins, stjóra sem virðir fólk og byggir brýr. En val á stjórnendum og forystuliði heimsins byrjar í okkur sjálfum – okkur öllum. Okkur kemur velferð fólks við, hvort sem það býr nærri okkur eða fjarri. Við erum fjáls að því að velja, aga, hugsa, tala og kjósa. Alla daga og allar stundir sköpum við heim og mótum með vali okkar, kaupum og lífsháttum. Við erum því kölluð til að vera stjórar og kardínálar eigin lífs. Öxlum ábyrgð sjálf og virðum hið róttæka frelsi hið innra sem okkur var gefin sem fæingargjöf af Guði. Verum sjálf góðir hirðar og beitum okkur í vali stjóra samfélags, félaga og ríkis og menningar. Við erum í sömu stöðu og kardínálarnir í sistínsku kapellunni, eigum að prufa og skoða fólkið sem við veljum en líka skoða stjórana og ekki hika við að steypa þeim sem hugsa bara um eigin nafla, eigin hag og völd. Stjórar með skerta meðlíðan, samúð og hugrekki eru óhæfir. Við þurfum góða stjóra en dýpst og innst þurfum við góðan hirði sem virðir djúpþrá okkar og tengir okkur við elsku Guðs og líf heimsins.

Páfar lífsins

Hver er þinn hirðir? Er það pólitískur leiðtogi þinn eða hetja þín í einhverri menningarbúblunni? Eða er það alvöru hirðir sem er tilbúinn að fórna öllu – og meira að segja lífinu – fyrir þig? Hver viltu að sé þinn stjóri? Þitt er frelsið til að velja og boðskapur Jesú Krists er að hann vill vera hirðir þinn. Hann elskar þig og velur þig til að vera ástvinur hans. Við erum öll kardínálarnir sem veljum framtíð heimsins en Guð velur okkur sem ástvini og páfa lífsins.

Neskirkja, 2. sunudag eftir páska, 4. maí 2025.

Lexía: Esk 34.11-16, 31
„Því að svo segir Drottinn Guð: Nú ætla ég sjálfur að leita sauða minna og líta eftir þeim. Eins og hirðir lítur eftir hjörð sinni þegar hún er á dreif í kringum hann mun ég fylgjast með mínu fé. Ég mun bjarga sauðum mínum frá öllum þeim stöðum sem þeir dreifðust til á hinum dimma og drungalega degi. Ég mun leiða þá burt frá þjóðunum, safna þeim saman úr löndunum og leiða þá heim til síns eigin lands. Ég mun halda þeim í haga á fjöllum Ísraels, í daladrögum og á hverju byggðu bóli í landinu. Ég mun sjálfur halda þeim til beitar í góðu haglendi, beitiland þeirra verður á háfjöllum Ísraels. Þar munu þeir leggjast og ganga í frjósömu haglendi á fjöllum Ísraels. Ég mun sjálfur halda fé mínu til beitar og sjá því fyrir hvíldarstað, segir Drottinn Guð. Ég mun leita þess sem villist og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og styrkja hið veikburða. Ég mun gæta hins feita og þróttmikla og halda því í haga eins og rétt er. … Þið eruð hjörð mín sem ég held í haga. Ég er Guð ykkar, segir Drottinn Guð.“

Pistill: 1Pét 2.21-25
Því að Kristur leið einnig fyrir ykkur og lét ykkur eftir fyrirmynd til þess að þið skylduð feta í fótspor hans. „Hann drýgði ekki synd og svik voru ekki fundin í munni hans.“ Hann svaraði ekki með illmælum er honum var illmælt og hótaði eigi er hann leið, heldur fól það honum á vald sem dæmir réttvíslega. Hann bar sjálfur syndir okkar á líkama sínum upp á tréð, til þess að við skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þið læknuð. Þið voruð sem villuráfandi sauðir en nú hafið þið snúið ykkur til hans sem er hirðir og biskup sálna ykkar.

Guðspjall: Jóh 10.11-16
Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Sá sem er leigður og hvorki er hirðir né á sauðina, hann flýr og yfirgefur sauðina þegar hann sér úlfinn koma og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim. Enda gætir hann sauðanna aðeins fyrir borgun og er ekkert annt um þá. Ég er góði hirðirinn og þekki mína og mínir þekkja mig eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. Ég á líka aðra sauði sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.

[i] Ingólfur Árnason, leikstjóri og leiðsögumaður í Róm, kenndi okkur þetta skemmtilega og lýsandi orð sögusvimi. https://romarrolt.com/v2/#

Meðfylgjandi mynd tók ég á Péturstorginu í Róm á föstudeginum langa, 18. apríl, 2025. 

Nýtt líf

Liðið ár var viðburðaríkt í lífi fjölskyldu minnar. Á skurðstofu fæðingardeildar Landspítalans var kona mín skorin upp. Læknir seildist inn í kvið hennar og dró út lítinn dreng og síðan annan mínútu síðar. Þeir hrinu báðir og gleðióp hljómuðu frá hjúkrunarfólkinu í stofunni. Svo var komið með annan guttann til að leggja í fang móðurinnar en þá kom að hinu óvænta. Vegna handadofa treysti mamman sér ekki til taka við stráknum og bað um að hann yrði settur í fangið á pabbanum óviðbúna. Það var mikil reynsla að fá nýburann í fangið svo óvænt. Tárin streymdu. Smádrengurinn kallaði fram elsku. Í bland við hraðrannsókn á hvort sköpulagið væri eðlilegt flugu lífsóskirnar: „Guð minn góður gefi þér líf, allt sem þú þarft til að lifa.“ Í fanginu var lítill kroppur með alla þrá heimsins og lífsvon í augum. Ekkert rífur betur í vanann og hvetur til dáða en barn sem á allt undir elskunni í foreldrum og frændgarði, á aðeins lífið og hamingju í vændum ef ég og við bregðumst vel við. Skyldi í svona reynslu vera eitthvað guðlegt?

Kross undir og ofan á

Í gamalli þjóðsögu segir frá álfkonum á ferð. Þær laumuðu sér í bæ og komu að vöggu þar sem hvítvoðungur var. Þær ætluðu að stela barninu og fara með það í eigin heima. Önnur álfkonan varaði við og sagði: „Ekki má, ekki má. Kross er undir og ofan á. Tvævetlingur situr hjá og segir frá.“ Þær hættu við barnsránið. Nýja árið er sem hvítvoðungur sem þarf að krossa til að enginn steli og trylli heldur nái þroska og verði það sem verða má. Í texta nýársdags segir frá því að Jesús fékk nafn og að hann var umskorinn eins og allir gyðingadrengir á áttunda degi frá fæðingu. Drengir hafa í þúsundir ára velt vöngum yfir hversu þjáningarfull umskurn væri. Tveir strákar voru eitt sinn að ræða saman. Annar spurði umskorinn gyðingastrák hvort honum hefði ekki fundist vont að láta skera af typpinu. Jú, hann hélt það nú. „Það var svo sárt að ég gat ekki gengið í heilt ár á eftir!“

Viðburður ársins

Hvað var það merkilegasta sem þú reyndir á liðnu ári? Þú hefur orðið fyrir reynslu af fólki, atburðum, náttúru og hlutum. Kannski hefur þú heimsótt stað eða fólk sem hafði áhrif á þig. Varðstu fyrir einhverju óvæntu sem vakti nýjar kenndir eða reif ofan af gömlum sárum? Ef þú varðst fyrir missi var rifið í sál þína. Er eitthvað á árinu sem hefur snortið þig í djúpum persónu þinnar, náð að strjúka strengina hið innra, magna lífssönginn og leyft þér þetta sem kallað er svo fallega að upplifa, lifa upp? Við áramótum megum við gjarnan gera upp reynslu liðins árs til að við verðum fær að opna og mæta viðburðum og tækifærum. Leyfum okkur að fæðast til opins tíma.

Nýtt ár

Við lærum að skrifa nýtt ártal. Við æfum okkur í staðreyndinni að árið er liðið í tímasafnið, í aldanna skaut og kemur aldrei til baka. Það er vottur af hryllingi í þeim boðskap áramótasálmsins. Aldrei til baka, algerlega farið og ekki hægt að bæta með beinum hætti það sem mistókst og fór aflaga. Beygur fer um huga og jafnvel líka sorg vegna þeirra sem voru slitin frá okkur og vegna hins sem við gátum ekki eða gerðum ekki. Stundum erum við óviðbúin nýjungum og viljum ekki opna huga okkar en nýtt ár er sem vonarbarn sem skellt er í fang okkar. Það er ómótað og á sín spyrjandi barnsaugu. Hvað viltu gera með mig? Hvað viltu verða á árinu? Við erum flest seigt íhald. Við höldum fast í hefðir og viljum ógjarnan verða öðruvísi og alls ekki missa heilsu, vinnu, forréttindi, hárið eða lífsmynstrið. Bara kíló og sorgir mega hverfa. Svo kemur hið nýja ár möguleikanna.

Guðspjallstexti nýársdags

Dagurinn í dag heitir á kirkjumálinu áttidagur jóla. Vika er liðin frá aðfangadegi og dagurinn fellur saman við áramót. Guðspjallstexti nýársdags er stuttur og framhald á jólasögunni. Nýburinn í Betlehem var umskorinn í samræmi við hefðina. Blóð rann við upphafssögu hans og rímar við blóðfórn við lífslok. Endir er í upphafinu og öfugt, sem táknskynugir nema. Svo var hann nefndur Jesús sem þýðir að Guð frelsar. Hann bar þegar í nafninu skilgreiningu hlutverks síns. Kristsnafnið er síðari viðbót og tekur til vonarspádóma um hinn smurða konung sem muni frelsa. Gyðingar tengdu saman umskurn og nafngjöf. Það var ungbarnaritúal. Umskurnin var ekki síst iðkuð til að marka ungsveinana sem börn þjóðarinnar. Gyðingur gekk inn í sögu sem hafði tilgang og fjölbreytilegar skyldur. Nafnið skilgreinir síðan hlutverkið frekar. Jesús var umskorinn á áttunda degi. Vafalaust hefur hann ekki gengið mikið næsta árið, þetta var jú sárt!

Nafngjöfin

Í forngermönskum samfélögum voru nöfn talin skilgreinandi og fylgdi t.d. rándýrsnöfnum trú á að nafnberar yrðu öflugir. Svipað gilti meðal Gyðinga. Nafn var bæði lýsandi og leiðbeinandi um eigindir einstaklinga og hlutverk. Í Nýja testamentinu ber Jesús hina grísku umritun á hebreska nafninu Jósúa eða Jeshúa. Margir höfðu hlotið þetta vonarnafn áður en Jesús fékk það. Hann einn uppfyllti erindið. Hlutverk hans var að ganga erinda frelsis, færa kúguðum rétt, hinum stríðandi frið og bandingjum lausn. Hver er hemill í þínu lífi? Hver er hamur þinn?

Val nafna í samtíð okkar er með ýmsu móti. Sumir foreldrar hafa gaman af nafnamúsík og vilja að nöfnin hljómi glæsilega. Aðrir skírskota til ættar og sögu og stundum eru nöfn gefin vegna þess að fólk vill heiðra einhvern. Nú á tímum vitjar látið fólk sjaldan nafs eins og algengt var á fyrri öldum. Fjölbreytni í nafngjöfum á Íslandi vex með fleiri innflytjendum. Þó að mannanafnavefir á netinu séu brunnar fróðleiks um merkingu heita og erlendir nafnavefir séu aðgengilegir virðast íslenskir foreldrar hugsa meira um „lúkk“ og hljóm en merkingu, semantík og samhengi. Flestum þykir vænt um nafnið sitt. Nafnið skilgreinir að einhverju leyti mat á sjálfi og mótar, hvort sem menn heita Sigurjón Bláfeld, Logi Eldon eða eitthvað annað. Nöfn geta líka verið svo þungbær að eigandinn rís ekki undir þeim. Um allar aldir hafa menn vitað að nöfn skilgreina og hafa áhrif á líf einstaklinganna.

Gæska og guðshlátur

Litlu karlarnir mínir voru strax nefndir eftir fæðingu en eru skírðir á nýársdegi. Nöfnin þeirra eru Jón Kristján og Ísak. Jónsnafnið er ekki aðeins eitt algengasta nafn Íslendinga síðustu aldir heldur er einnig notað víða á Vesturlöndum en í ýmsum útgáfum. Það birtist í Jean, John o. fl. og merkir að Guð er góður. Kristján er sömuleiðis til í ótal myndum og vísar til kristinnar mennsku. Ísak er úr eldra testamentinu. Frægastur Ísaka er sonur Söru og Abrahams. Nafnið vísar til húmoristans Guðs og merkir hlátur Guðs. Himinhúmorinn á sér afleggjara í kátínu okkar, aldraðra foreldranna, yfir undrinu. Nöfn drengjanna eru úr hinni kristnu hefð. Jesúnafnið gefur kross sem er undir og ofan á. Þessi íklæðing hins trúarlega kemur meðal annars fram í táknatferli prestsins sem í skírn krossar á enni og brjóst. Það gerðu foreldrar við börn sín er þau voru þvegin og það var einnig gert við mig ungan. Í signingunni er tengt við merkingu Jesúnafnsins. Eilífa lífið byrjar ekki í dauða heldur í skírn. Við erum börn heimsins og heimsborgarar en í skírninni verðum við fullveðja börn eilífðar. Við gefum ungviðinu allt það besta sem við getum og eigum. Trúmenn bera börnin að skírnarlaug til að líf þeirra verði helgað því besta. Nöfnin þeirra og veruleiki er þá í Jesú nafni.

Fangið fullt af lífi

Stundum hættir okkur við að smætta trú og Guð og horfa með augum fordóma eða með gleraugum þröngsýnna trúmanna. Miðja kristninnar er Guð en ekki sögulegar birtingar trúarinnar. Nafn þess sem best túlkar guð kristninnar er Jesús og merking og nafn hans er frelsi, boð um að fjötrar falla og þú, menning, þjóðir og veruleikinn fæði frið, réttlæti og lausn. Þetta er boðskapur sem við þurfum að heyra við áramót. Hvað hamlar í hinu íslenska samfélagi? Hvað getur orðið til bóta í alþjóðasamfélaginu? Hvað hemur þig? Hvernig getur þú losnað úr viðjum og lifað vel og í hamingju? Allt lífið er spurn og ávallt berst svar sem er guðlegt. Allt lífið er barátta sem eilífðin faðmar. Allur vandi heimsins er umlukinn þessu himneska: að Guð frelsar. Þannig gefur Guð nafn. Þannig nefnir Guð heiminn með von og huggun.

Þegar barn var lagt í fang mitt öðlaðist ég ekki aðeins lífsreynslu heldur fylgdi líka með vitund um stöðu okkar manna. Við erum í elskufangi í öllum lífsaðstæðum. Allt mennskt endurómar hið guðlega. Í skírn færum við börn í fang Guðs. Ef við getum upplifað mikla hamingju þegar nýburi er í fangi hlýtur Guð að samgleðjast okkur. Við áramót megum við kasta fortíðarham og öllu sem letur okkur. Við getum gert þá lúxustilraun að prufa hvort treysta megi möguleikunum sem opnast: sem sé, að við séum hvítvoðungar í stórum elskufaðmi. Þar eru engir ránsálfar sem ógna lífinu. Þar er ekkert sárt og þar þurfum við ekki að bíða í heilt ár til að ganga eða hlaupa. Þar megum við sprikla og læra að tala og sjá tilveruna í róttæku ljósi hins góða og gjöfula. Þar búa nú Ísak og Jón Kristján. Þar mátt þú líka hjala og vera í Jesú nafni. Kross undir og ofan á.

Nýársdagur 2006. Slm 90.1–4; Gal 3.23–29; Lúk 2.21.

Eru eignir einkamál

Hversu miklar eignir áttu? Má spyrja þig svona spurningar? Tilgangurinn er ekki að fá tölur eða upplýsingar um fasteignir heldur biðja þig að íhuga afstöðu þína til eigna þinna og stöðu þinnar. Hver er lífsleikni þín og hvaða afstöðu opinberar peningahyggja þín?

Við megum gjarnan spyrja okkur líka hvort það sé einkamál fólks hversu ríkt það er? Skatturinn telur að svo sé ekki og þú eigir að gefa allt upp, það sem þú átt innanlands en líka í skattaskjólunum – allt þitt. Og hvað gerir þú við þetta fé? Ef þú átt hundrað milljónir er það ekki bara einkamál þitt hvernig þú notar þær? Eða getur verið að einhver siðleg krafa sé á þeim sem eiga?

Til hvers eru eignir? Getur verið að við höfum skyldu að gegna gagnvart einhverjum öðrum en sjálfum okkur varðandi peninga okkar og fjármuni? Það er hagnýtt að draga í þessu sambandi fram andstæðuna og slagorð frá liðinni öld: Löglegt en siðlaust. Það er löglegt að hugsa bara um sjálfan sig í notkun fjár en það er hins vegar siðlaust að hugsa bara um sjálfan sig og gleyma öllum hinum. Börnin, framtíðarkynslóðir, eiga kröfu á hendur okkur um góða meðferð eigna, já hvernig við lifum. Löglegt og siðlegt er andi kristninnar.

Fjármálasnillingurinn Jesús

Guðspjall dagsins er um eignir og og notkun þeirra. Og það hét á gömlu tungumáli Biblíunnar, ráðsmennska. Jesús segir sögu, eina af 38 dæmi- eða líkingasögum sem miðlað er í Nýja testamentinu. Og merkilegt er að Jesús talaði enga lífsfjarlæga himnesku heldur notaði hann ræðutíma sinn og fræðslustundir til að vekja fólk til vitundar um hagnýt mál og að það skipti máli hvernig við lifum, hugsum, tölum og störfum. Mörgum, sem lesa í Biblíunni, kemur á óvart hversu oft Jesús talar um peninga. Helmingur smásagna hans varðar notkun á fjármunum! Jesús hugsaði um peninga, talaði um þá og var merkilegur fjármálaspekulant. Hann vakti athygli á hagfræði og hefði verið flottur í tímum viðskipta- og hagfræðideilda heimsins.  

Í guðspjalli þessa sunnudags segir Jesús frá peningamanni, sem var nappaður að því að fara illa með og fyrirtækið sem hann stýrði var í vondum málum. Honum var sagt upp en mátti vinna uppsagnartímann. Ráðsmaðurinn gat því ákveðið með hvaða móti hann skildi við fyrirtækið. Hann gafst ekki upp heldur sýndi snilldartakta, sem ekki voru þó í þágu húsbóndans heldur hans sjálfs. Hann kallaði í alla, sem skulduðu eitthvað og afskrifaði skuldirnar að nokkru. Og hver var tilgangurinn. Jú, karlinn gerði sér grein fyrir að staða hans yrði skelfileg þegar vinnutími yrði búinn. Hann yrði atvinnulaus og allir vanvirtu hann og sneru við honum baki. Hann var því fljótur að hugsa og ákvað að nota þennan uppsagnartíma í eigin þágu, láta eigandann blæða en hann sjálfur myndi græða. Tilgangurinn með skuldaafskriftunum var að ávinna sjálfum sér vináttu skuldaranna. Þegar hann væri orðinn atvinnulaus ætti hann greiða inni hjá þeim, hönk upp í bakið á skuldaraliðinu. Ameríkanar hafa löngum notað málsháttinn: „Scratch my back and I´ll scratch yours.“ Merkingin er einföld: „Gerðu mér greiða og ég endurgeld greiðann.“ Og það var og er inngreypt í fólk að þetta sé eðlilegt lögmál í samskiptum. Ég varð einu sinni vitni að því að maður vildi innheimta greiða sem hann hafði gert öðrum en beiðni hans var hafnað. Hann var furðu lostinn yfir að geta ekki sjálkrafa kallað á endurgjaldið eins og það væri í einhverju bandi sem hægt væri að kippa í.

Trúmennska og heiðarleiki

Jesús minir fólk á með sögu dagsins að gæta raunveruleikans og horfa á fólk með raunsæi. Orð Jesú, boðskapur hans er: Fyrir alla muni verið ekki kjánar, bláeyg börn, heilagir sakleysingjar. Verið vakandi gagnvart fólki! Og eigum við að hlusta á þessa Jesúspeki. Já, margir, jafnvel flestir eru aðeins með hugann við eigin hag, eigin dýrð, eigin fjármuni og velferð og láta sig litlu skipta um aðra. Flestir eru sjálfhverfir. Jesús talar því enga himnesku um eitthvað sem er ótengt lífinu. Trú á að vera raunhæf, með báða fætur á jörð og í veruleika mannlífsins. Ljóssins börn eiga að vera raunsæ á sjálf sig, annað fólk og hve lífið er margslungið. 

Jesús segir merkilega örsögu, sem fólk veit ekki hvort er ýkjusaga, brandari eða spekisaga. Fólk veit ekki hvort á að bregðast við henni með því  að hlægja eða taka hana alvarlega. En af því hún er tvíræð er hún áleitin og umhugsunarverð. Skilaboð Jesú virðast vera: Fylgist vel með hinum undirförulu. Verið það sem þau eru ekki, gerið ekki það sem þau gera. Í stað þess að láta peninga fylla huga og líf notið þá í annarra þágu. Þá verður til fjársjóður á himnum. Fylgist með Donald Trump, með Erdogan, með viðskiptamógúlunum, með stjórnmálamönnunum, hinum ríku, yfirvöldum, stjórnendum, embættismönnum – öllum sem hafa möguleika til að hagnýta sér aðstæður. Er allt gott og farsælt, sem þau gera. Misnota einhver vald sitt? Kunna þau að klóra breiðu bökin?

Markmið eða tæki

Kristnin hefur kennt allt frá tíma Jesú að fólk á að ekki að vera þrælar eigna sinna og aðstöðu heldur nota í þágu lífsins, í þágu allra, ekki síst þeirra sem eru þurfandi. Sannur yfirmaður lætur stjórnast af lífsafstöðu og góðu siðferði. Um allar aldir hefur það verið skýr og einfaldur Jesúleg lífsviska að tengja völd og gott siðferði. Hvort sem höfðingarnir vildu eða ekki. Það var og á að vera yfirmönnum og undirmönnum kristileg skylda að vera kunnáttusöm í lífsleikni og siðferði.

Er siðfræðin vanvirt sem uppistaða þroskaðrar lífsleikni? Við getum efast um að einhver siðferðisvídd sé fólgin í orðunum fjármagnseigandi, fjárfestir og forstjóri. Flestir skilja þó að farsæl stjórn fólks og fjár verður aldrei án gilda. Siðlaus stjórn drepur og veldur aðeins óbærilegri þjáningu. Stórfyrirtæki og stjórnvöld í Evrópu, Ameríku og um víða veröld setja sér því orðið siðareglur vegna þess að siðsemi – í viðskipum, stjórnun hvers konar -borgar sig þegar til lengri tíma er litið. Siðlaus fyrirtæki tapa alltaf á viðskipum. Stjórnvöld, hreyfingar og fyrirtæki sem ætla að lifa lengur en nokkur ár verða og ættu að setja skýrar reglur um viðmið, ferla og mörk.

Jesús dregur fram hve viðskipti eru lituð af sjálfselsku og að embættismenn geta verið uppteknir af eigin völdum, stöðu og fé og brugðist þar með störfum sínum og hlutverkum. Freisting valdamanna er að gerast egódólgar. Prettavitið getur orðið gríðarlegt, en þjónustan léleg og réttlæti fótum troðið. Guðfræði er til að hjálpa fólki við að gegnumlýsa kerfi og atferli og greina stefnu til góðs. Og trú er iðkandi lífsafstaða sem leyfir skarpskygni og siðvit varðandi hlutverk fólks í heimi og framtíð. Að trúa merkir ekki að tapa sér í einhverri himneskri glópsku, heldur að trúmaðurinn læri að horfa á heiminn með augum Guðs og vera samverkamaður og Guðs í veröldinni.

Hlutverk okkar er að vera sólarmegin og rækta með okkur líf og gæði. Við erum öll ráðsmenn í lífi okkar, stjórn, peningamálum, kirkju, samfélagi og náttúru.

9. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Textaröð A

Loksins?

Eftir seinni heimstyrjöld voru haldin stríðsréttarhöld í Nürnberg. Vitni var leitt fram. Hann hafði flúið fangabúðir nasista með gasklefunum, farið huldu höfði og leitað afdreps í gyðingakirkjugarði í Wilna í Póllandi. Saga mannsins var rosaleg. Hann varð vitni að fæðingu barns í grafhýsi. Ung kona, sem einnig fór huldu höfði, hafði ekki í önnur hús að venda en þessa friðarhöfn dauðans. Þar ól hún barn sitt í þessari undarlegu fæðingardeild. Starfsmaður kirkjugarðsins, áttræður grafari, var eina tiltæka ljósmóðirin. Þegar barnið hafði rekið upp fyrstu grátrokuna muldraði hinn aldraði Gyðingur og trúmaður: „Mikli Guð hefur þú loksins sent okkur Messías? Hvar ætti Messías að fæðast ef ekki í gröf?” Þremur dögum síðar sá vitnið í Nürnberg barnið og móður þess á nýjan leik. Hungruð og örvæntingarfull móðirin gat ekki mylkt barni sínu. Eina fæða barnsins voru tárin, sem hrutu af hvörmum hennar. Mikli Guð hefur þú loksins sent okkur Messías? Hvar ætti Messías að fæðast ef ekki í gröf?

Sagan frá Wilna rífur í. Okkur hættir til að gleyma að við erum óendanlega mikils virði. Ástæðan er sumpart sú, að við skiljum ekki tilveru okkar dramatískt. Grafarinn í Wilna var nauðbeygður til að stara opineygður á nakta veröld, heim hinna mestu átaka lífs og dauða. Hann tók á móti barni í myrkri. Hann túlkaði tilveruna róttækt, annað hvort sem myrkur eða ljós, annað hvort líf eða dauða.

Merking píslarsögunnar

Skírdagur. Að skíra merkir að hreinsa. Í kirkjunni voru ölturu þvegin og þrifin á þessum degi. Allt á þetta rætur í að Jesús þvoði fætur lærisveinanna og undirbjó þá til máltíðar. Enn í dag verða þessir kyrruvikudagar tilefni kristnum lýð, að íhuga merkingu píslarsögunnar. Hvaða máli skiptir okkur dauði og þjáning Jesú? Hefur okkur yfirsést að við og Jesús erum samferðamenn? Hefur okkur lærst að skilja hvaða gildi það hefur að fylgja honum á göngunni? Hvernig getur krossfesting manns orðið öðrum að gagni? Hvernig getur þjáning eins manns skipt aðra sköpun, hvernig geta afbrot verið bætt með aftöku? Hvernig getur sátt við Guð grundvallast á hinu mesta ranglæti? Er þjáning og pína Krists frábrugðin písl annarra? Var Jesús maður eða var hann meira en maður? Var hann Guð-maður, var hann Guð? Hvað þýðir það, að hann hafi verið Guð? Þetta eru þær spurningar sem leita á og hafa verið viðfangsefni kristinna manna frá öndverðu. Allar hreyfingar í guðfræðinni fyrr og síðar hafa verið tilraunir til að svara þeim. En skilningur er skertur. Skiljum við til fullnustu ást okkar til barna, maka eða náttúru? Hvernig er hægt að skilja grimmd nauðgarans og valdslosta kúgarans? Illskiljanleg öfl eru að verki í lífi manna.

Guðsaugun

Mestu máli skiptir að hverfa frá eigin sjónarhóli. Við megum læra að horfa með augum Guðs, sjá sálf okkur og veröldina frá sjónarhæð himinsins. Á föstunni og í kyrruviku göngum við á vit sögu Jesú. Með því að fylgja Jesú eftir með íhugun förum við smátt og smátt að sjá heiminn með Guðsaugum. Förum að sjá að saga Jesú er saga Guðs um okkur og heiminn. Þá förum við að skynja að Guð segir sögu um sig og afstöðu sína gagnvart okkur öllum.

Með Jesú

Að nálgast Guð er ekki að skilja heldur ummyndast. Að fylgja Kristi er ekki að skilja þjáningu hans heldur fara með honum. Jesús hefur gengið um öldudal mannlegrar þjáningar og þjáist áfram meðan einhver hinna minnstu systra eða bræðra líður. Líf Jesú einnkenndist ekki af uppgjöf. Allur ferill hans markaðist af vilja til lífs og umsköpunar. Það líf sem Jesús hvatti til var ekki eitthvað hulið einkamál eða blíð og átakalaus barnatrú og vilji til að sætta sig við allt misrétti. Sú hvatning og sá kraftur, sem Jesús miðlaði var kvaðning til baráttu gegn öllu því sem heftir gott og gleðiríkt líf. Að fylgja Jesú getur ekki þýtt aðgerðarleysi né uppgjöf. Þvert á móti er Jesúfylgdin virk og starfarík afstaða, sem einkennist af þori og kjarki til að horfast í augu við lífið eins og það er og vilja og afli til að breyta þeim aðstæðum sem brjóta í bág við vilja Guðs. Kristnir menn kalla þetta fagnaðarerindi og það eru gleðifréttir um frelsi hinna fátæku, lausn hinna þjáðu og kúguðu, lækningu hinna sjúku, frelsun hinna pyntuðu og styrking hinum hrelldu. Þessi boðskapur á að vera okkur öllum hvatning til að svipta hulunni af blekkingarvefum sem umvefja okkur á vinnustað, út í hinum stóra heimi stjórnmála, syrjalda, arðráns og kúgunar. En einnig í heimilislífinu og inn í sjálfum okkur. Það er okkur kannski erfiðast að viðurkenna og opinbera sjálfsblekkingu okkar.

Guð fer fyrir

„Mikli Guð hefur þú loksins sent okkur Messías?“ Lítið barn fæddist í Wilna. Þremur dögum síðar hafði það ekki fengið neina mjólk úr móðurbrjóstum. Vonir öldungsins kulnuðu enn einu sinni. Skírdagspísl og dauði á föstudeginum fyrir páska. Hefur þú loks sent okkur lausnara og leiðtoga? Barnið dó, en Kristur reis.

Líf manna er stöðug barátta milli nætur og dags, vonar og vonbrigða. Lífið á engan ódýran endi. Úr grafhvelfingu sprettur fram það nýja líf, sem binda má von við. Sú saga varð ekki aðeins einu sinni heldur er hún táknræn saga um sögu okkar.

Skírdagshugleiðing í Neskirkju 2005.