Greinasafn fyrir flokkinn: Mataruppskriftir

Fleiri mataruppskriftir er að finna á sigurdurarni.annall.is

Lakkríslax með sesam

Við Elín, skemmtilega konan mín, fórum á stefnumót við laxá. Við mokveiddum – 19 laxar á einum og hálfum degi. Elínu finnst betra að veiða vel. Og alltaf er tilefni til að fagna og þegar landburður er kominn í kokkhúsið er ráð að bjóða fólkinu sínu til veislu.

Öll börnin mín voru á landinu og bænum. Þau komu í mat, tengdasonur líka. Þau eru matgæðingar og gaman að gefa þeim eitthvað sem þau hafa ekki bragðað áður. Lakkrís – þ.e. anís – og sesam og fleira gott voru í uppskrift kvöldsins.

Laxaflak bein- og roðflett og skorið í hæfileg stykki.

Blanda saman ólívuolíu, tamarisósu og agave (hlutföllin 3 msk, 1 msk, 1 tsk – í þessari röð). Laxastykkin sett í blönduna og gjarnan látin standa í 1 klukkustund. Látið síðan drjúpa af fiskinum – en ekki þerra.

Strá anísfræjum og sesamfræjum yfir og einnig salti – helst Maldon – og pipar að vild.

Lagt á rist í vel heitan ofn í 8 mínútur eða á grill í 4 mín – eða þar til fiskurinn er steiktur. (Líka hægt að setja í eldfast fat).

Meðlæti salat, steiktar kartöflur eða hrísgrjón eða bulgur. Nú svo er hægt að nota poleraða Vallanesbyggið – það er dásamlegt. 

Köld jógúrt sósa með ferskum kryddjurtum, smá sítrónu, salti og pipar. Grísk jógurt hentar ágætlega. Sinnepssletta (t.d. hunangsdijon) má gjarnan líka fara í sósuna.

Þessi uppskrift hentar ágætlega fyrir alla aldurshópa og reynslan sýnir að börn og unglingar borða hana fúslega. Ég hef eldað þennan rétt fyrir tugi í fermingarfræðslu og foreldra fermingarungmenna. Sló í gegn ;).

Borðbæn: Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.

Andabringur í upphæðum

Þegar ég var kominn í kirkjunni á annan páskadag og skíra kom ég heim tilbúinn til heimagleðinnar. Þegar ég var búinn að tala við mitt fólk fór ég að undirbúa kvöldmatinn, vinna sósuna og krydda andakjöt sem var búið að bíða tvo daga í kælinum. Þessi uppskrift var veidd af blogginu og er orðin jólamatur á nokkrum heimilum. Svo þegar ég smeygi þessu á vefinn er lyktin í húsinu svo dásamleg að nágrannarnir eru komnir með löng nef úti og spyrja hvað sé verið að elda!

Andabringa snöggsteikt

Miðað er við að uppskriftin sé fyrir fjóra. 800 gr andabringur. Ristið krossa (!) skinn/fitumegin og nuddið salti, pipar og möluðum einiberjum í skurðina. Steikið bringurnar á þurri pönnu með fituhliðina niður og steikið þar til skorpan harðnar. Snúið síðan við steikið stutt, en þó þannig að hinni hliðinni sé lokað. Steikið síðan í ofni 12-15 mínútur þar til kjarninn er liðlega 60°C.

Sósan

Hér er skemmtileg sósa, sem passar afar vel. Ekki vera hrædd við hráefnið!

3 dl anda- eða kalkúnasoð

2 dl rauðvín (hægt að nota púrt)

1 msk balsamikedik

safi úr 2 appelsínum

safi úr 2 límónuávöxtum

safi úr 1 sítrónu

2 dl kókosmjólk eða eftir smekk

½ msk engifer

sulta – skv smekk – ég nota gjarnan ribs eða sólberjasultu til að sæta sósuna og jafna.

Sjóðið allt niður um þriðjung og þykkið svo eftir smekk. Í sósuna má síðan setja í lokin 1 msk af köldu smjöri til að fá gljáa.

Þessa anda- og sósu-uppskrift fékk ég úr Matreiðslumeistara MasterCard, sem út kom fyrir jólin 2004, en breytti uppskrifinni að eigin smekk!

Meðlæti – rótargrænmeti

1,5 kg rótarávextir, t.d. steinseljurætur 5 stk skornar langsum

rauðbeður 2 stk

sæt kartafla

litlar kartöflur, skornar í tvennt

gulrætur langskornar

hvítlaukur, heill og grófrifinn

 

Lögur á rótargrænmeti

4 msk ólífuolía

½ msk balsamikedik

½ tsk þurrkað rósmarín

maldonsalt

svartur pipar grófmalaður

Bakað í ofni í 40-60 mínútur.

Bæn: Þökkum Drottni, því að hann er góður, – því miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Marbella kjúklingur

IMG_15501,5 – 2 kg. kjúklingarbitar (nokkrar bringur og leggir)

6 hvítlauksrif

1,5 msk oreganó

0,5 msk salvía

1 msk rósmarín

¼ bolli rauðvínsedik

¼ bolli góð ólívuolía

¼ bolli capers

½ bolli grænar góðar ólífur

½ bolli steinlausar sveskjur, smáskornar

3 lárviðarlauf

1/5 bolli agave síróp

3 rauðlaukar í báta

½ bolli rauðvín

salt

pipar

steinselja fínt söxuð.

IMG_1552

Krydd, olía, edik, olífuolía, sveskjur, capers, vín, ólífur, salt og pipar og lárviðarlauf í bland saman. Hellið yfir kjúklingabita og látið marinerast einhverja klukkutíma og best yfir nótt! En ef tíminn er naumur og marinering enginn verður rétturinn samt góður!

Hitið ofn í 180°. Raðið kjúklingabitunum í eldfast mót og síðan marineringunni aftur yfir. Bakið í eina klukkustund. Dreifa steinselju yfir réttinn þegar hann er tilbúinn.

Borið fram með salati og góðu brauði. Það er líka hægt að nota sætar kartöflur með eða hrísgrjón.

Bæn

Þökkum Drottni – því hann er góður – því miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Marbella-kjúklingur er kunnur og margar útgáfur til af honum. Mæli með þessum tveimur. Ragnar Freyr er t.d. alltaf góð fyrirmynd:

http://www.simplyrecipes.com/recipes/chicken_marbella/

http://blog.pressan.is/ragnarfreyr/2012/06/21/dundur-marbella-kjuklingur-ad-haetti-mommu-med-hrisgrjonum-og-salati-revisited/

 

Kjötbollur

Kjötbollur eiga að vera góðar! Á bolludegi gerði ég þessar kúnstugu kjötbollur, sem ættaðar eru frá fundvísum og uppátækjasömum kokki sem er Lilja Gísladóttir. Bollurnar vöktu gleði sem eru laun kokksins. Þær eru afar einfaldar í gerðinni og fljótunnar. Góð sósa er mikilvæg og tvær útgáfur nefndar hér að neðan. Ljómandi að hafa með gott salat og hrísgrjón. Matseld tekur um 45 mínútur.

Liljukjötbollur:

  • 1 kg. gott nautahakk
  • Ritzkexpakki !
  • Toro púrrulaukssúpa

Ritzkexið er sett í matvinnsluvél og malað. Allt hráefnið hrært vel saman og síðan mótaðar litlar kúlur. Þær eru síðan steiktar á pönnu þar til þær eru brúnaðar. Settar síðan í ofnfast fat og steiktar á 180°C í um það bil hálftíma.

kjötbollur_2

 

Chili-ribs sósu er líka hægt að nota og er afar einföld í gerðinni

  • 300 ml. Heinz chili sósa.
  • 400 ml. ribssulta / eða 200 ribssulta + 200 sólberjasulta.

Þessum blandað saman og sósan smökkuð til og hlutföllum hagrætt þar til jafnvægi er náð.

Salat með og hrísgrjón með. Verði ykkur að góðu.

Bæn

Þökkum Drottni því að hann er góður því miskunn hans varir að eilífu. Amen.