Elín Sigrún Jónsdóttir sér á færi uppskriftir sem henni hugnast. Oft kemur hún með þær áhugaverðu til mín og segir með kátínu í augum: „Ég gæti hugsað mér þessa.“ Og svo blikkar hún kokkhúskarlinn.
Þannig kom þessi uppskrift til mín. Hún er upprunalega frá því góða veitingahúsi Rok á Skólavörðuholti og var birt í Morgunblaðinu. Ég útbjó þetta ágæti fyrir afmæli konu minnar 2017. Vinkonurnar sögðu nokkrum sinnum: „Get ég fengið uppskriftina?“ Þá kætist kokkurinn.
Grafinn lax
F4
1 laxaflak, beinhreinsað og roðflett
100 gr. sykur
100 gr gróft salt (ekki Maldon)
2 msk þurrkað dill
1 stk appelsína
1 stk límóna
1 stk sítróna
geitostur
Ecospíra
ferskt dill
kapers
Sykri, salti og dilli blandað saman í botn á eldföstu móti. Laxinn settur yfir og afganginum af blöndunni yfir laxinn og látinn þekja fiskinn. Plasta fatið og láta standa í kæli í sólarhring. Flakið skolað vel úr köldu vatni og þerrað síðan. Börkur af appelsínu, sítrónu og límónu (helst lífrænum) rifinn niður með rifjárni og flakið þakið með. Standa í klukkustund. Laxinn síðann skorinn sneiðar og síðan borinn fram.
Gott viðbit og skraut er sítrónumajones, brauð, geitostur, Ecospíra, ferskt dill, kapers og fínlega skornar súrsaðar agúrkur.
Sítrónumajónes
2 stk eggjarauða
1 tsk dijonsinnep
3-400 ml grænmetisolía (Wesson í þetta sinn)
börkur af einni sítrónu og safi úr helmingi hennar
½ tsk salt
Majonesgerðin heppnaðist í þriðju atrennu og var m.a.s. búinn að setja þeytara framan á borvélina mína áður allt small. Rauk út í Elkó og keypti töfrasprota með þeytara. En trixið er að byrja að þeyta eggjarauðurnar. Ég setti reyndar sinnepið (sem var þetta með hunanginu) í með rauðunum. Þegar þeytingurinn var orðinn þéttur hellti ég grænmetisolíunni í mjórri bunu út í til að þeytingurin ekki skildist. Í lokin setti ég börkinn og smakkaði til með safa og salti. Sjá, majonesið hvarf eins og dögg fyrir sólu í samkvæminu.
Steikt brauð
Brauð og kó á Frakkastígnum nærri Hallgrímskirkju opnar oftast kl. 7,30 og ég fór snemma til að kaupa súkkulaðikrúsant handa afmælisdísinni minni og heimiliskörlunum. Í leiðinni keypti ég gróft súrdeigsbrauð. Það hentar vel í steikingu. Ég skar það niður í liðlega eins cm-þykkar sneiðar. Steikti þær svo á pönnu – báðar hliðar – með góðri ólífuolíu. Setti svo á pappír til að leyfa olíunni að setjast og muldi pipar yfir. Skar svo sneiðarnar í helminga til að þær hentuðu fíngerðu hráefninu.
Ecospírur eru undursamlegar sem krydd- og skrautgjafi.
Réttur frá Rok – í eigin útfærslu – sem hentar veislufólki.
Guð laun.