Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Trúin úrelt?

Ágætt tímarit, Grapevine, er gefið út hér á landi og fjallar um íslensk málefni fyrir enskumælandi fólk. Nýlega var því haldið fram í þessu riti að vegna nútímaviðmiða hefði trúin hopað. Ein rökin eru að meðlimafjöldi þjóðkirkjunnar hafi minnkað.  Á þrjátíu árum hefur fjöldinn lækkað um tuttugu prósent. En þrátt fyrir breytingar í kirkjuefnum er trúin ekki að hverfa. Kristnum mönnum fjölgar í heiminum og trúin lifir þvert á trú þeirra sem halda að trúin sé að hverfa. 

Hvað er trú?

Sumir telja í einfeldni sinni að trúnni fylgi óhjákvæmilega forvísindalegar hugmyndir um líf, vísindi og veröldina. Því sé trúin dæmd til að gufa upp í ljóma nýrrar þekkingar. Það er Grapevinetúlkunin. Það er rangt, trú er ekki hugmyndir, hvorki gamaldags eða nýjar hugmyndir, heldur mun róttækara fyrirbæri. Aðrir telja að trú sé það að samþykkja bókstafsútgáfu helgirita. Trúað fólk sé þröngsýnislið. En slík túlkun á trú getur átt við um ofbeldishópa af ISIS-taginu en ekki eiginlega trú. Síðan eru þau sem telja að trú sé einhvers konar rétttrúnaður af sannfæringartaginu.

En trúað fólk sér sig ekki í þessum nálgunum. Þetta eru afbakanir, smættanir sem byrja á röngum stað og ná aldrei aðalatriðinu. Svona einfaldanir byrja allar með því að einblína á fólk og hið smáa, hvernig menn bindi sig á einhvern klafa heimatilbúinnar speki.

En trú er allt annað og mun róttækara fyrirbæri. Trú er ekki yfirborðslegar skoðanir og alls ekki forvísindaleg lífssýn. Trú er dýpri og stærri. Trú er ekki fasteign eða staða sem menn ávinna sér með því að vera meðlimir í kirkjudeild eða stofnun. Trú finnur sér vissulega farveg, en lifir þó breytingar verði í þjóðfélagi og menningu. Trú er ekki háð kirkjustofnunum en kirkjur eru hins vegar háðar trú. Trú er aldrei til án Guðs. Trú lifir ekki án þess að tengjast Guði. Trú er undur sem Guð kallar fram.

Trú er það djúptækasta sem til er, lífsfestan sjálf. Það er eðlilegt að fólk hafni gamaldags trú. Trúarkenningar breytast því samfélag, skilningur fólks og viðmið hafa breyst. Þar með hættir Guði ekki að vera til. Guð er fólki nánari en maki, foreldrar eða börn. Guð er nánari en vitund okkar. Guð er hinsta og dýpsta viðmið hvers manns.

Ekki á útleið heldur innleið

Er þá trúin ekki á útleið? Nei, þó þjóðfélag og stofnanir breytist hverfur trúin ekki – aðeins hugmyndir fólks. Trú getur blómstrað þótt kirkjufélag tapi öllum meðlimum sínum og hverfi. Heilbrigð gagnrýni og aukin þekking grisjar burt veiklaðar eða úreltar hugmyndir um heim, fólk og líka kenningar. En trúin hverfur ekki þótt í ljós hafi komið að sköpunarsagan sé ekki náttúrufræði heldur ljóð sem tjáir tilgang og samhengi lífsins. Trú hvetur til hugmyndagrisjunar. Þar sem trú er hinsta viðmið fólks beinist hún gegn yfirborðsnálgun. Trú þolir ágætlega að fólk segir skilið við manngerða trú. Trú hvetur til ævarandi siðbótar.

Lífsfestan sjálf

Tenging við Guð leiðir til lífssýnar og kallar á túlkun trúarreynslu. Öll þau sem hafa verið upplýst af trú fara að sjá veröldina sem mikinn veraldarvef sem er ofinn og magnaður af Guði. Veröldin er samsett af efni og anda. Geimi og grösum er gefin skipan og lögmál sem trúin kennir við Guð. Hver maður er undur sem Guð gefur. Og einu gildir hvort viðkomandi þakkar Guði tilveru sína eða þykist vera aðeins af sjálfum sér og skýrir tilveru sína af efnisrökunum einum. Í öllu lífi glitrar fegurð, máttur og mikilleiki. Við veljum sjálf hvort við sjáum í undri veraldar aðeins tilviljun eða nemum hið mesta og stærsta – undur Guðs.

Hvað er hinsta viðmið þitt, lífsfesta þín? Þar er trú þín og þar talar Guð við þig.

Íhugun – janúar 2017.

Íslenskur ættarhringur og ástin sem lifir

Kona sem ég þekki var á leið í leigubíl frá Friðriksbergi í Kaupmannahöfn út á Kastrupflugvöll. Bílstjórinn spurði hvert hún væri að fara. „Ég er að fara til Íslands“ svarði hún. Þá sagði leigubílstjórinn og lagði tilfinningu í: „Ég á Íslendingum allt að þakka, hamingju mína.“ Svo sagði hann konunni á leið til Íslands sögu sína. Hann hafði komið til Danmerkur sem erlendur innflytjandi og kynnst innlendri stúlku sem var af “góðum” dönskum ættum. Þau urðu ástfangin en foreldrar hinnar dönsku konu höfðu ekki trú á sambandinu og gerðu unga fólkinu erfitt fyrir. Að lokum flýðu þau og tóku með sér tjald því þau höfðu ekki í nein hús að venda. Þau ákváðu að fara í rólegheitum yfir mál og möguleika. Þau reistu tjald sitt á tjaldstæðinu í Kolding. Þar voru þau þegar íslensk hjón gáfu sig að þeim og töluðu við þau. Unga parið treysti þeim og sagði þeim frá vanda sínum. Íslendingarnir hlustuðu og skildu kreppuna og að þau voru á flótta. Allt sem þau áttu var ást og von um að fá að lifa sem par. Á þriðja degi kom íslenska konan til að kveðja. Hún sagði þeim að hún hefði trú á þeim og ást þeirra og hún ætlaði að gefa þeim ættargrip sem væri heillagripur fjölskyldu hennar. Það væri hringur sem amma hennar á Íslandi hefði hefði átt. Svo dró hún þennan vonarbaug á hönd hinnar dönsku konu sem var djúpt snortin af þessari blessun og trú. Leigubílstjórinn sagði að þessi gjörningur og stuðningur hefði styrkt þau í trú á að ást þeirra gæti lifað þrátt fyrir mótlætið. Og þau væru nú búin að búa saman í tuttugu ár og eignast þrjú börn.

Þetta er ein af sögum heimsins, saga um ást, von og trú. Þetta er góð saga og minnir á samband Hallgríms Péturssonar og Guðríðar Símonardóttur, saga um erfiðleika en líka lífsundur. Kristnin er átrúnaður hins jákvæða og að lokaðar dyr má opna. Sá Guð sem Jesús Kristur opinberaði er Guð hins góða og lausnar. Ástin tengir og trúin eflir. Koldingsagan minnir okkur á að loka ekki á “hina” og þau sem eru “óæskileg” heldur opna. Öll erum við jafngild og öll elskar Guð. Ömmuhringurinn frá Íslandi er enn á fingri hinnar dönsku konu.

Veistu hver þau voru, þetta gjafmilda íslenska par? Ef eitthvert ykkar veit um hvaða Íslendingar voru í Kolding og gáfu ungu ástföngnu fólki trú og von væri gaman að fá upplýsingar eða ábendingu.

Myndin (sem ég tók á safni í Þýskalandi) er af hring Katharinu von Bora, konu Marteins Lúthers. Þau eru eitt af mörgum pörum sem bundust ástarböndum þvert á vilja ráðandi aðila og kerfa.

Jólin hans Hallgríms í Þýskalandi

Fyrir jólin kom út í Þýskalandi bókin Norræn jól (Skandinavische Weinachten) hjá Oetinger forlaginu í Hamborg. Þar er meðal annars að finna þýðingu Florence Groizier á Jólunum hans Hallgríms eftir Steinunni Jóhannesdóttur með myndum Önnu Cynthiu Leplar. Í bókinni er auk þess birt Jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum með myndum Erlu Siguðardóttur og sagan Jólin í Hælavík eftir Jakobínu Sigurðardóttur, myndskreytt af Imke Sönnischen.

Norræn jól er vegleg bók, um 220 síður í stóru broti og ríkulega myndskreytt. Þar eru mikilvægustu norrænu jólasögurnar sagðar af höfundum eins og Astrid Lindgren, Selmu Lagerlöf, H. C. Andersen, Ellen Reumert, Jo Tenfjord, Tor Åge Bringsværd, Tove Jansson, Zacharias Topelius og fleiri, ásamt myndum Elsu Beskow, Katrin Enkelking, Sven Nordqvist, Carola Sturm og fleiri listamanna. Einnig er greint frá ýmsu sem tengist jólahaldi og aðventu á Norðurlöndunum. Íslenskir jólasveinar, Grýla, Leppalúði og skötuilmur á Þorláksmessu koma við þá sögu.

Bók Steinunnar Jóhannesdóttur opnar sýn að jólum á tíð Hallgríms Péturssonar. Í Hallgrímskirkju var bæði í desember 2015 og 2016 tekið á móti barnahópum og þeim kynnt jólahald á tíð hins unga Hallgríms sem Steinunn segir svo frábærlega vel. Saga hennar hefur verið nú verið valin í úrvalssafn norræns jólaefnis. Það er magnað og fagnaðarefni.

… og allar deilur hætta

Einu sinni sat lærimeistari með nemahóp hjá sér og spurði: „Á hvaða augnabliki endar nóttin og dagurinn byrjar?“ Einn neminn svaraði: „Það er þegar nógu bjart er til að hægt sé að greina milli hunds og kindar.“ Annar sagði: „Það er þegar nógu bjart er til að greina milli ólífutrés og fíkjutrés.“

Meistarinn sagði: „Þetta eru góð svör en þó ekki þau réttu. Svarið er: Þegar ókunnur maður kemur og við höldum að hann sé bróðir okkar og allar deilur hætta, þá er nákvæmlega stundin þegar nóttin endar og dagur byrjar.“

Shimon Perez, einn af áhugaverðustu stjórnmálamönnum Ísraelsríkis frá upphafi sagði þessa sögu á leiðtogafundi í Davos. Sagan er úr gyðinglegri spekihefð og er reyndar til í ýmsum útgáfum, merkileg saga margsögð meðal fólks af þjóð sem hefur verið ofsótt og drepið fyrir það eitt að vera af gyðinglegum kynþætti. Viskusaga úr ófsóknarhefð, saga um líf gegn dauða, viska gegn heimsku. Hvernig á að bregðast við vonskunni og illsku?

Nótt lýkur og dagur hefst þegar við sjáum ókunnan mann verða að systur eða bróður og deilur hætta. Það er hægt að nota allar stundir sólarhringsins til að gera fólk að óvinum. Glæpamenn reyna að magna ófrið milli fólks, milli menningarhópa, milli vestrænna þjóða sem kristni hefur mótað og þjóða sem Islam hefur mótað og milli trúarhópa. Þegar tekst að gera komumenn að óvinum dimmir í heimi. En þá fyrst dagar þegar fólk sér hvert í öðru manneskjur en ekki hugsanlega óvini.

Aðventan er hafin og við undirbúum komu jólanna. Og þau eru friðarhátíð. Eðli trúarinnar varðar friðarræktun. Það er óhugsandi kristnum trúmönnum að réttlæta manndráp og stríð með skírskotun til kristinnar trúar, trúar á elskuríkan Guð.

Nýtum aðventu til að skoða fólk með jákvæðum hætti. Við erum kölluð til ljóss, til bjartsýnnar trúar og friðariðju gegn öllu myrkri. Við getum með afstöðu okkar, orðum og gerðum lagt til réttsýni í rökkri dagrenningar.

 

Hvernig sér Guð þig og fólk? Hvað viltu sjá, rökkur eða ljós, myrkaverur eða ljóssins börn? Ljósið kemur. Hvenær endar nóttin  – og hvenær dagar?

Þekktu þig

Yfir dyrunum véfréttinnar í Delfí í Grikklandi stóðu orðin: Gnoþi seauton – þekktu sjálfan þig – þekktu sjálfa þig. Líklega var þessi setning slagorð til að vekja athygli á og tryggja viðgang véfréttarinnar. Saga þessa helgistaðar er merkleg og vakið marga til íhugunar um eðli og inntak trúar.

Breska Nóbelskáldið, William Golding skrifaði merkilega bók – the double tongue – um völvuna Pithyu frá því hún var ung stúlka á höfðingjasetri í Grikklandi og hvernig hún var valin til starfa við véfrétt Appolos. Golding lýsir vel hvernig boðskap þurfti að búa út svo hann hugnaðist valdamönnum. Allt varð að skilja pólitísku hyggjuviti og færa í trúarlegan búning og viðeigandi orðfæri. Völvan unga varð að horfast í augu við að heimurinn er harður, að hugsjónir, trú og heilindi eru lúxus, sem aðeins glópar geta leyft sér. Um tíma varð hún að láta undan, í baráttu við eigin samvisku og forstjóra véfréttarinnar.

En dagar Delfí voru taldir, guðleg návist var horfin, boðskapurinn enginn og völvan tók sig upp með ævilaun sín og eign og fór til Aþenu. Þar fékk hún færustu listamenn til vinnu og lét gera altari. Hún hafði enga löngun til að heiðra Delfíguðinn. Hann var henni dáinn – en veruleiki Guðs ekki. Hún lét reisa altari og lét rita á það setninguna: Ókunnum Guði.

Samkvæmt Nýja testamenntinu tók Páll postuli sér stöðu við þetta altari Delfívölvunnar og hóf predikun sína um þann Guð sem kemur til manna í sannleika. Hinn ritsnjalli Golding spann sögu sína um guðsdýrkunina í Delfí, sem brást, að sögu kristninnar sem átrúnað kærleikans, en svo er kristnin í stöðugri baráttu við að vera trú köllun sinni og lifa í anda Guðs. Saga Goldings opnast í mikilleik sínum á nýjan hátt, þegar lesandinn gerir sér grein fyrir hinu stóra samhengi. Völvan, sem vildi ekki eða gat lengur þjónað trúarkerfinu í Delfí, lagði kristnum dómi til altari og sögu um leit mannanna að því sem er satt. Saga hennar er brot okkar eigin sögu. Von hennar var fyrirboði, hún var boðberi um framtíð sem kom. Jesús kom í heiminn, hinn óþekkti Guð varð maður. Á aðventu er hollt að spyrja hverjum þitt altari er helgað og til hvers þú lifir. Þekktu sjálfan þig –sjálfa þig – er verkefni fyrir aðventu og raunar lífið allt.