Greinasafn fyrir merki: skírn Jesú

Biblían er blaut og Jórdan rennur um heiminn

Þegar ég var nemandi í guðfræðideild á árunum 1974-79 var kennslustofa deildarinnar á annarri hæð aðalbyggingar Háskólans og er reyndar enn. Stofudyrnar eru merktar með V, latneska tölvustafnum 5, fimmta kennslustofan í háskólabyggingunni. Við inngang fimmtu stofu var kennarapúlt en hinum megin í stofunni var virðulegt borð sem lærifeðurnir sátu gjarnan við. Guðfræðibækur voru í hyllum við tvo veggi og milli bókaskápanna var fyrir miðju stofunnar stór Borgundarhólmsklukka sem taldi sekúndur og mínútur. Klukkan var öllum sýnileg og stýrði því upphafi og lokum kennslustunda. Yfir henni, bókahyllum og mannlífi stofunnar var fjöldi landslagsmynda sem Magnús Jónsson hafði málað. Hann var guðfræðikennari og kunnur stjórnmálamaður, en líka drátthagur og lipur málari.

Magnús og Ásmundur Guðmundsson, sem einnig kenndi við guðfræðideildina, fóru saman til Palestínu í maí árið 1939 og voru um sumarið að kanna Biblíuslóðir. Þóttu þetta slík tíðindi að félagarnir færu til Palestínu að fréttir um fyrirhugaða ferð þeirra rataði í dagblöðin, Alþýðublaðið og Morgunblaðið. Þeir gáfu svo síðar út greinargóða bók um ferð sína og Magnús gerði myndirnar. Mörgum myndanna var síðan komið fyrir í stofu guðfræðideildar og hafa verið þar síðan. Allir prestar þjóðarinnar hafa horft á þessar myndir. Ég notaði þær sem augnhvílu þegar ég hlustaði á fyrirlestra fræðaranna. Gulir og grænir litir þessara ferðamynda Magnúsar lifa síðan í minningu minni. Mér þótti alltaf guli litur þeirra áhrifaríkastur. Liturinn kallaði fram þorsta í mér og læddu í vitundina tilfinningu fyrir þurrki, þurrum sandi og eyðimörk, þorsta fólks og fénaðar Biblíunnar.

Áin Jórdan flæddi um þetta landsvæði og kom við sögu margra viðburða. En hún varð meira en aðalá og rann ekki aðeins niður heldur líka upp í heim hugmynda og menningar handan tíma. Í Jórdan var Jesús skírður og þar hóf hann starf sitt. Magnús Jónsson skrifaði í Jórsalaferðarbókinni að honum hafi þótt einna merkilegast í allri ferðinni að koma til árinnar Jórdan. Þar hafi verið „einhver yndisleiki yfir öllu.“ Og hann talar sérstaklega um að liturinn á ánni hafi verið sérkennilegur, gulur. Um skírnarstað Jesú segir Magnús: „En bezt man ég ána sjálfa, ljósgulan álinn í þessari dæmalausu umgerð.“[1] Það er skiljanlegt að honum hafi þótt mikið til um. Enginn sem les kristin fræði, les Biblíuna og hefur listræna taug kemst hjá því að Jórdan laði fram tilfinningar og verði svo að táknfljóti, upphöfnum ál, djúpál eilífðar. En Jórdan ímyndunar og menningar er allt annað en Jórdan nútímans. Jórdan er ekki lengur gul og heillandi augnhvíla heldur græn og seigfljótandi drulla. Yndisleikinn er uppgufaður, horfinn.

Vatnið í Bibíunni – vatn veraldar

Þó Biblíusvæðið sé þurrrt er mikið talað um vatn í Biblíunni. Biblían er rennandi blaut. Og það er ástæða til. Vatnið slökkti ekki aðeins þorsta fólks og tryggði þeim lífsmöguleika. Vatn var líka tákn um hið góða líf, lífsgæði og lífsmöguleika. Jórdan var aðaláin rann ekki aðeins um dal og til Dauðahafsins heldur rann hún um menningu heimsins. Hún hefur ekki aðeins verið samhengi mikilla viðburða heldur orðið dulúðugt menningarflæði sem hefur alið og nært listaverk í mörgum greinum og vakið ýmsar hugsanir fólks á öllum tímum.

Fljótið helga

Jórdan er nefnt eða kemur við sögu í meira en áttatíu skipti í Gamla testamenntinu. Jórdan flæðir inn í heim Ritningarinnar þegar í fyrstu Mósebók. Jórdan markaði mörk heimsins, rétt eins og veggurinn í the Game of Thrones. Ekki svo að skilja að líf væri ekki hinum megin heldur fremur að lífið væri þar ótryggt og öðru vísi. Að fara yfir Jórdan var að fara úr einni veröld í aðra. Þar voru skilin og fljótið hafði því nánast yfirjarðneska stöðu.Að fara yfir Jórdan var að heimurinn yrði ekki samur, rétt eins og Júlíus Sesar fór yfir Rubiconfljót. Ekki yrði aftur snúið. Þetta sérstaka hlutverk Jórdanárinnar hefur varðveist í sögu samtímans. Miðja árinnar er enn landamæri Ísraels og Jóraníu (og Jórdaníu og Vesturbakkans ef talað er pólitískt).

Að fara yfir Jórdan var oft gjörningur sem hafði víðtæka og táknræna merkingu. Þegar Jósúa fór yfir Jórdan með örkina breyttist saga hebrea og þjóðarinnar. Þegar Davíð konungur fór yfir Jórdan fór hann sem sem sigurvegari, eins greint er frá í Jósúabók og 2. Samúelsbók (Jós. 3.15-17, 4.1; 2 Samúelsbók 19.14-19). Eftir að Jakob glímdi við engilinn sem gaf honum nafnið Ísrael fór hann yfir hliðará Jórdanar (1 Mós. 32.22-28). Elía klauf vötn Jórdanar og hlutverk hans og stafur fór til arftakans Elísa sem einnig hafði vald vatnaskila og lækninga (2. Konungabók 2.6-9, 5.10-14). Í Dómarabókinni segir frá því er Gídeon og hópur með honum fór yfir Jórdan (Dóm. 7.24, og 8.4). Og síðar fóru Makkabeabræður yfir ána einnig (1. Makk. 5.24).

Þessar yfirferðir – að fara yfir Jórdan – eru minni í Biblíunni. Fræðimaðurinn Jeremy Hutton kallaði þessa yfirumferð „handan-Jórdan-stef“ eða “trans-Jordanian motiv.”[2] Til forna var Jórdan stórá og því erfitt var að fara yfir ána. Engir nema þeir sem áttu brýnt erindi lögðu í slíkan leiðangur. En þó það væri kannski ekki beinlínis lífshættulegt að fara yfir ána fóru menn sjaldnast að ástæðulausu. Vegna þess hve mikið fyrirtæki var fara yfir ána varð það minni í menningu þjóða og ættbálka við Jórdan að Jórdanför gegndi táknhlutverki.

 Jórdanskírnin sem gjörningur

Vegna tákngildis árinnar að marka nýjan veruleika og nýjan tíma fór Jóhannes skírari að Jórdan til að koma boðskap sínum til skila með sem skýrustum hætti, boða mönnum að koma, hreinsast og ganga inn í nýja tíð. Nýtt líf var í boði. Að Jesús Kristur kom til Jóhannesar frænda síns og fór út í ána til að skírast hlutverki sínu var einnig tákngjörningur.

Skírn Jesú var gjörningur Jóhannesar skírara og skírnarþegans. Gjörningurinn fékk miðlæga stöðu í íhugun kristinna manna um allar aldir, bæði í vestri og austri. Skírn Jesú Krists var á fyrstu öldum kristninnar mun mikilvægari en fæðing hans. Guðsbirtingin hófst við og í Jórdan fremur en í Betlehemsviðburðinum. Skírn Jesú var haldin sem hátíð guðsbirtingar, þeofaníu, sem er á þrettándanum. Enn er víða haldið upp á þessa hátíð og gjarnan með því að stökkva í vatn. Margir hafa séð fólk í rétttrúnaðarkirkjunni stinga sér í fljót í byrjun janúar, hvort sem þau eru ísköld eða hlý. Fljótahoppin eru skírnarminni.

Jórdan sem staður og samhengi

Skírn Jesú í Jórdan er einn af fáum viðburðum sem öll guðspjöllin fjalla um. Svo er áin nefnd í nokkur skipti til að staðsetja viðburði í starfi Jesú. Bakkar Jórdanar urðu vettvangur ræðu hans eða verka (t.d. Matt 19.1, Mark 10.1; Jóh. 10.40). Jesús var meðvitaður um að skírn hans væri ekki iðrunarskírn. Skírnarósk hans markaði stefnu. Skírnarathöfnin opinberaði upphaf starfsferils hans. Jesúskírnin er ekki með sama inntaki og skírn kristinna manna. Jesús skírðist ekki til lífsins eins og börn og fólk kristninnar. Hann skírðist ekki til endurnýjunar, ekki til að losna úr viðjum sorans eins og menn. Skírn Jesú var og er uppspretta í eyðimörk, árstraumur, sem mótar umhverfi og er forsenda gróðurs, sem kenndur er við himininn. Skírn Jesú var síðar túlkuð svo að í henni hefði Jesús endurhelgað heiminn. Samkvæmt skilningi miðaldakristninnar hreinsuðust t.d. vötn heimsins við þennan lykilatburð og tengdust Guði aftur. Skírn Jesú var talin hafa áhrif á allan heiminn, líka blautsvæðin og lífríki heimsins. Jórdan rann frá þessum lykilatburði Jesú og heimsins ekki aðeins í Dauðahafið heldur fór að hafa áhrif á allan heiminn óháð tíma og rými. Kristnir menn fóru að kenna að í Jórdanskírninni hefði Jesús helgað allt vatn og strauma heimsins. Jórdan rann um allan heiminn og helgaði vötnin. Auður djúpúðga vildi því verða greftruð í flæðarmáli því þar væri helgur staður. Skírn Jesú helgaði – líka Íslandsstrendur. Vatnið getum við notað í sakramentunum í kirkjunum. Í bikarnum er vatnið helgað fólki til blessunar. Í víninu er helgað vatn. Í skírninni eru mannfólk hreinsað og helgað Guði. Boðskapur sakramentanna er að allt er blessað af Guði og lífið má blómstra.

Jórdan framar Betlehem

Skírn Jesú var álitin mikilvægari en fæðing hans. Það merkir að Jórdan var mikilvægari en Betlehem. Kirkjufaðirinn Origenes lagði áherslu á að áin sjálf hefði líka gildi fyrir kristna. Að baða sig í Jórdan væri hið sama og innlifast algerlega Jesú Kristi. Jórdan varð pílagrímamarkmið. Þegar helgisiðir kristinna safnaða þróuðust á fjórðu til sjöttu öld var athygli fólks ekki bundin því hvað skírnin þýddi eða hvort einhverjar eðlisbreytingar yrðu á fólki. Áhuginn og íhugun beindist að helgun vatnsins og hreinsun skírnarþega. Á þrettándanum, minningardeginum um skírn Jesú, var vatn blessað í kirkjum um víða veröld. Helgað vatn var síðan borið inn á heimilin í nágrenni kirknanna og ætlað til lífsbóta og lækningar sjúklingum. Í þessum helgisiðum sem enn eru iðkaðir um víða veröld flæðir Jórdan enn um heimin.[3] Helgisiðirnir eru ekki bara um hreinleika sálarinnar heldur vísa vitund, kirkju og veröld að því hvort vatnið sé hreint. Þrettándinn má því gjarnan vera einnig náttúruhátíð – hátíð vatnsins. Guð og náttúra eru tengd.

Hvar var Jesús skírður?

Ferðamenn sem hafa áhuga á sögustöðum Nýja testamenntisins vilja gjarnan sjá skírnarstað Jesú. Á síðari árum er farið er með þá til Yardenit sem er við útfall Jórdanar úr Galíleuvatni. En það er væntanlega ekki skírnarstaður Jesú. Hvernig stendur á að fólki er ekki sýndur líklegasti staðurinn? Ástæðan er einfaldlega að sá staður lítur ekki nægilega vel út. Ásýnd Jórdanar þar er ósæmileg og alls ekki í samræmi við dásemdartilfinningu Magnúsar Jónssonar, dósents. Samkvæmt hefðinni er talið að Jesús hafi verið skírður í Jórdan rétt norðan við þáverandi strönd Dauðahafsins og austan við Jeríkó. Sá staður nefnist í nútímanum Qasr el Yahud. Þangað fóru pílagrímar aldanna. Þar voru klaustur og gistihús til að þjóna ferðafólkinu sem vildi vitja hins heilaga staðar. Talið var að Jesús hafi ekki verið skírður vestan megin heldur fremur austan megin í ánni og þar voru ýmis þjónustuhús reist fyrir aðvífandi ferðamenn. En þegar múslimar réðu ríkjum austan megin ár var erfiðara að fara yfir ána og pílagrímarnir vitjuðu þá Jesústðarins vestan megin.

Eftir sex daga stríðið árið 1967 náðu Ísraelar völdum í Qasr el Yahud. Fornleifagröftur og hernaðarlegir hagsmunir torvelduðu svo heimsóknir ferðamanna og ferðafrömuðir lögðu til árið 1981 að Yardenit yrði “hinn” skírnarstaður Jesú sem vitja mætti. Yardenit varð svo hinn opinberi skírnarstaður Jesú í Ísrael. Þangað komu þrjú til fimm hundruð þúsund á ári. Búið er að leggja mikla fjármuni í að gera Yardenit ferðamannavænan svo ekki þurfi að sýna alvörustaðinn. Þessi tilfærsla á skírnarstað Jesú vekur áleitnar spurningar um hvort lúkkið sé mikilvægara en sannleikurinn? Er skírn Jesú mikilvægur og alvöru heimsviðburður eða bara góð saga sem hægt er að teygja og toga og hentar best góðri senu?

Jórdan sem táknfljót og þar með menningarveruleiki

Jórdan rennur ekki aðeins um Jórdandal og hverfur svo í hafi dauðans. Eftir fall Jesúsalem árið 70 eftir Krist voru Gyðingar reknir burt frá Palestínu dreifðust þeir um Evrópu, Asíu og veröldina. Í dreifingunni, díasporunni, héldu þeir áfram að íhuga merkingu árinnar og mikilvægra staða hebreskrar sögu. Kristnir menn fengu síðan Nýja testamentið í hendur og Jórdan fór að renna um hugi þeirra og búa til merkingu og næra líf hinnar kristnu menningar. Jórdan var kristnuð í kristninni. Jórdan var ekki lengur staður heldur fór að blandast vötnum heimsins. Og af því kristnir menn mátu mikils allt sem tengdist guðssyninum var allt talið hljóta blessun af honum. Þar sem Jesús skírðist í Jórdan spratt fram vitundin um að Jesús hefði ekki aðeins notið blessunar heldur hefði hann í þessum himneska gjörningi sjálfur blessað vatnið sem laugaði hann. Og af því menn hafa alla tíð getað samtengt allt líf og skilið að allt er samhangandi lífsnet vaknaði vitundin um að blessað vatn Jórdanar hefði líka haft góð áhrif, að Jesús hefði helgað öll vötn veraldar í skírn sinni. Jórdan rann ekki aðeins niður í Dauðhafið heldur upp til lífs fólks og menningar síðan. Jórdan er ekki aðeins mikilvæg vatnsuppspretta í Palestínu heldur líka menningarstraumur, uppspretta merkingar fyrir veröldina. Jórdan varð eiginlega grunnvatn í kristinni menningu heimsins. Og þar er ekkert dauðahaf við enda heldur lífshaf blessunar.

Vatnið og nýting Jórdanar

Nokkur atriði varðandi Jórdanána, vatnsmagn og vatnasvið. Jórdan er yfir 250 km löng og því talsvert lengri en Þjórsá. Vatnasviðið er risastórt eða nær þrisvar sinnum stærra en vatnasvið Þjórsár. Úrkoma á þessu stóra svæði er mismikil og ójöfn yfir árið. Ár og lækir þorna í sumarhitum og áin verður lítið meira en spræna.[4] En í vetrarflóðum vex mjög í ánni og heildarrenslið í febrúarmánuði getur náð því að vera 40% af heildarrennsli alls ársins. Jórdan rennur frá norðri og til suðurs, frá fjöllunum sem eru í Ísrael, Líbanon, Sýrlandi og Jórdaníu og suður í gengum Galíleuvatn, sem heitir Kinneret á hebresku, og síðan niður dalinn og kyssir síðan Dauðahafið.

Fjöllin í norðri eru há en svo rennur áin langt niður fyrir yfirborð sjávar. Galíeleuvatn er um tvö hundruð metra undir sjávarmáli en Dauðahafið sem er endastöð Jórdanar er á fimmta hundra metra undir sjávarmáli. Galíleuvatn er tvöfalt stærra en Þingvallavatn eða um 160 ferkílómetrar en hefur farið minnkandi vegna ofnotkunar. Fyrir tveimur áratugum var dælt úr vatninu 400 milljónum rúmmetra árlega en á árinu 2018 var dælt úr því tíu prósentum fyrra magns eða tæplega 40 milljónum rúmmetra. Ísraelsríki hefur þegar byggt fimm eimingarstöðvar við Miðjarðarhaf sem sjá Ísraelum fyrir um 80% neyslu- og ræktunar-vatns. Fleiri stöðvar munu bætast við á næstu árum. Vatnsyfirborð Galíleuvatns hefur lækkað svo mikið að stefnt hefur verið að því að dæla í það hreinsuðum sjó í framtíðinni til að hækka yfirborðið. Árið 2022 er áætlað að magnið verði 22 milljónum rúmmetra.[5] Vatnsskortur er svo mikill og íþyngjandi í Ísrael að einn ráðherra landsins beitti sér fyrir nokkrum árum fyrir vatnsbænum við Grátmúrinn. Pólitískir gagnrýnendur hans brugðust við bænakallinu með því að leggja til að ráðherran beitti sér líka fyrir aðgerðum í umhverfismálum auk bænahaldsins.[6]

Íbúar í nágrenni árinnar, í Jórdaníu, í Sýrlandi og Ísrael hafa veitt vatni úr ánni og af vatnasvæði hennar nærri hundrað milljón rúmmetra á ári. Þess vegna er Jórdan aðeins lækjarspræna þegar hún rennur í Dauðahafið sem hefur minnkað mjög síðustu ár. Síðustu árin hefur yfirborð Dauðahafsins lækkað um nærri einn meter á ári sem hefur þar með mikil áhrif á allt umhverfi, ofan jarðar og neðan. Grunnvatnsyfirborð hefur lækkað, jarðvegur hefur fallið víða og hættulegar jarðvegsskvompur myndast. Dauðahafið hefur minnkað að flatarmáli meira en 1%. Vatnið hefur aldrei í sögu mannkynsins staðið eins lágt og nú.[7] Lengi hefur verið rætt um og jafnvel deilt um hvernig bregðast megi við lækkandi yfirborði Dauðahafsins. Ísraelar hafa m.a. rætt um að veita vatni frá Miðjarðarhafi til Dauðahafsins, en vegna kostnaðar hefur ekki orðið af og verður væntanlega ekki. En Jórdanir stefna hins vegar að því að veita sjó frá Rauðahafinu og til Dauðahafsins. Vegna þess að fallhæðin er mikil frá yfirborði sjávar og niður að Dauðhafinu er miðað við að hægt verði að framleiða rafmagn til að sjá um dælingu og eima hluta vatnsins til nota fyrir íbúa á svæðinu. Með dælingunni megi snúa við þróun Dauðahafsins sem hefur verið að minnka allt frá nítjándu öld.[8]

Jórdandalur var á öldum áður gróðursæll og búsvæði flakkandi hirða og smábænda. Jórdan flæddi reglulega og hægt var að nýta vatn í landbúnaði aldanna. Í tímans rás var viður í hlíðunum höggvin óhóflega til hitunar og fyrir kokkhúsið. Stórviðir voru notaðir til smíða. Væntanlega hafa Jesús og Jósef handfjatlað spýtur úr dalnum. Þegar búið var að fella skóginn og lítið var eftir af rótum trjánna fór jarðvegurinn af stað og hlíðarnar sem áður mátti nota til ræktunar urðu lélegt ræktunarland. Fyrirhyggjuleysi og óábyrg nýting eyðilagði jafnvægi lífríksins og landgæði dalsins – öllum til tjóns. Hvað heilsufar árinnar varðar er Jórdan í nútímanum ónýt á. Hún er aðeins spræna miðað við stórá fyrri tíðar. En vatnið í efri hluta árinnar er þó annar mikilvægasti vatnsgjafi Ísraels.

Hagsmunir og stjórna flæðinu

Vatn hefur um árþúsundir tengst hebreskri menningarvitund og á síðari áratugum gyðinglegri þjóðernisvitund og þjóðernisumræðu. Vatnið var forsenda landbúnaðar og uppbyggingar nýs ríkis Ísraela. Gyðingar, sem fluttust til Palestínu og komu úr grænni veröld Evrópu og töldu að litur velsældar væri grænn. Þeir gátu ekki sætt sig við neitt annað en að breyta þurru og gulu landi Palestínu í græna veröld sem hæfði fyrirheitnalandinu. Vatn varð tákn hins nýja ríkis Ísraels og þó bláminn í fána Ísraela sé ekki litur hafsins er líklegt að fyrri aldar Ísraelar hafi náð litnum með því að nota sjávarlífverur til litunar.

Ísraelar nútímans hafa verið frumkvöðlar í vökvun. Dropavökvun, hugvitssamlegt vökvunarkerfi sem nú er notað í ræktun um allan heim og í íslenskum gróðurhúsum, fundu Ísraelar upp og þróuðu til að minnka uppgufun. Vegna viðvarandi vatnsskorts hafa þeir endurunnið vatn í stórum stíl til að nýta við ræktun. Þjóðirnar við botn Miðjarðarhafs búa við vatnsskort og hafa því orðið að velja og hafna hvaða tegundir eru ræktaðar á svæðinu. Í stað þess að rækta vatnsþyrstar plöntur flytja þær fremur inn korn og vatnsfrekar afurðir (sbr. virtual water[9]). Í stað þess að að nota eitt hundrað þúsund tonn af takmörkuðum vatnsbirgðum svæðisins hafa klókir ráðamenn tekið ákvörðun um að flytja fremur inn eitt tonn af hveiti. Hver lítri vatns skiptir máli.[10] En vatnsleysi Jórdanárinnar opinberar vatnsnotkun og vatnsskortinn í landinu.

Góðir vatnsgrannar

Þjóðirnar við ána Jórdan keppa um það takmarkaða vatn sem hægt er að afla og vilja sem mest. Kvótaskiptingar takmarkaðrar auðlindar eru alltaf erfiðar og vekja deilur. Ein af stóru ástæðum sex daga stríðsins árið 1967 var deila um vatn í Jórdan. Íbúar ríkjanna fyrir botni Miðjarðarhafs vita af biturri reynslu og skilja að átök eru síðri til lausnar vanda en samvinna. Þeir hafa stofnað samtök, þvert á landamæri, sem beita sér fyrir sameiginlegum lausnum.

Jarðarvinir í Miðausturlöndum, sem nefnast FoEME, hafa höfuðstöðvar í Betleheim, Amman og Tel Aviv. Time-tímaritið taldi að þetta væru umhverfishetjur heimsins árið 2008. Þegar friðarsamningar milli Palestínumanna og Ísraela var undirritaður 1994 (og Simon Perez kom til Íslands ári fyrr og þmt til Þingvalla til að kynna íslenskum ráðamönnum samninginn) var sérstaklega rætt um vatn og hvernig það yrði best nýtt. Vatn var og er lífsmál fólks og velferð þjóða þessa svæðis. Vonir voru bundnar við að nágrannaþjóðirnar myndu sameinast um vatnsnotkun og þar með velferð Jórdanar. En opinber samvinnan hefur verið lítil vegna þess að tekist hefur verið á um önnur mál, t.d. stöðu Jersúsalem, vesturbakkans, sjálfstjórn Palestínu og landamæri. Þau hafa verið stóru málin, sístæð deilumál, en vatnsverndin liðið fyrir. Þorsti nútímasamfélags Ísraela er mikill. Galíleuvatn hefur um áratugi verið notað sem uppistöðulón vegna raforkuframleiðslu og áveitu. Ekki aðeins hefur yfirborðsvatnið verið nýtt heldur var snemma farið að bora víða eftir vatni og mjög hefur verið gengið á grunnvatnsvatnsbirgðir svæðisins og staða þeira er slæm.[11] Það eru hörmungarfréttir fyrir fólkið sem býr á þessu vatnsskerta svæði að grunnvatn sé svo skert einnig. Loftslagsbreytingar munu gera líf fólks á þessum slóðum mun erfiðara fyrir.

Afleiðingar

Hvaða afleiðingar hefur vatnsumfjöllun, siðferðilega, trúarlega og pólitískt? Þarf Jórdan að renna upp í baráttu hugsjónafólks, til löggjafarsamkoma ríkja heimsins, í samviskufélög eins og trúfélög til að hún geti á ný farið að renna niður? Já.

  1. Hvað trúmenn varðar: Af því veröldin er Guðs sköpun, blessuð af Jesú, eiga kristnir menn að verja vatn veraldar, vernda og hreinsa. Lífið þarfnast þess. Jesús var skírður – ekki aðeins til að gefa mönnum líf, heldur gefa allri veröld líf, vatninu líka.
  2. Hvað löggjöf ríkja og mannkyns varðar: Huga verður að eignarhaldi vatns. Hver á t.d. Jórdan? Eru það ríkin sem eiga landmæri að ánni eða eru á vatnasviði árinnar? Eða er Jórdan og vatn heimsins handan eignarréttar. Ráðamenn vilja alltaf ráða vatni – og ekki síst á dauðþyrstum svæðum. En vatn má aldrei verða þáttur eignarréttar. Vatn er frumgildi, lífsgildi sem ætti að helga í löggjöf þjóða heimsins. Nýrrar hugsunar jarðarbarna er þörf varðandi vatnið.

Ég legg til að Þjóðkirkja íslands og íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir nýjum vatnssáttmála heimsins. Þjóðkirkjan má gjarnan beita sér fyrir að kristnar kirkjur og aðrir trúmenn heimsins verndi vatn. Vatn þarf að skilgreina sem frumgildi, að vatn sé eign lífsins en ekki einstaklinga, fyrirtækja eða þjóða. Íslenska ríkið ætti að beita sér fyrir að vatn verði skilgreint í löggjöf ríkja og alþjóðasamfélagsins sem eigingildi.

Framsaga á þriðjudagsfundi í Hallgrímskirkju um Lifandi vatn. 22. september 2020. kl. 12,05-12,45. Þessi mynd er teikning Magnúsar Jónssonar í Jórsalaferðarbók þeirra Ásmundar Guðmundssonar. 

[1] Magnús Jónsson og Ásmundur Guðmundsson, Jórsalaferð, ferðaminningar frá landinu helga. Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar, 115-116.

[2] https://canes.wisc.edu/2017/06/12/the-transjordanian-palimpsest-the-overwritten-texts-of-personal-exile-and-transformation-in-deuteronomistic-history/

[3] Jórdanskírn Jesú er hefur ýmsar víddir í listasögunni sjá Robin Jensen.

[4] Um vatnasvið Jórdan og nýtingu vatns í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs sjá http://www.fao.org/nr/water/aquastat/basins/jordan/jordan-CP_eng.pdf

[5] Um heildarþörf Ísraels á vatni og almenn vatnsmál, hreinsunarstöðvarnar á sjó og fl. sjá the Guardian https://www.theguardian.com/world/2018/jun/12/israel-to-top-up-sea-of-galiliee-after-years-of-drought  

[6] https://www.theguardian.com/world/2017/dec/29/israel-drought-minister-rallies-thousands-to-pray-for-relief

[7] https://www.theguardian.com/environment/2017/mar/29/dead-sea-evidence-unprecedented-drought-future-warning-climate-change

[8] https://www.theguardian.com/environment/2017/mar/29/dead-sea-evidence-unprecedented-drought-future-warning-climate-change Um Dauðahafið og vatnþurrðina.

[9] https://www.foodandwaterwatch.org/insight/virtual-water

[10] http://www.environmentandsociety.org/arcadia/john-anthony-allans-virtual-water-natural-resources-management-wake-neoliberalism

 

[11] Samkvæmt skýrslu NASA og University of California at Irvine kemur í ljós

Jórdan og Jesús

Jórdanáin gegnir ríkulegu táknhlutverki í Biblíunni. Jórdan er nefnd eða kemur við sögu í meira en áttatíu skipti í Gamla testamenntinu. Hún er nefnd þegar í fyrstu bók Biblíunnar og gegnir stöðu fljótsins á heimsenda. Jórdan er á mörkum heimsins. Að fara yfir hana var að fara úr einni veröld í aðra. Þar voru skil heima. Fljótið hafði því nánast yfirjarðneska stöðu. Það var táknrænn gjörningur þegar Jósua fór yfir Jórdan með örkina. Þá breyttist allt. Og þegar Davíð konungur fór yfir Jórdan var það sem sigurvegari. Eftir að Jakob glímdi við engilinn fór hann yfir hliðará Jórdanar. Elía klauf vötn Jórdanar og hlutverk hans og stafur fór yfir á arftakann Elísa, sem einnig hafði vald vatnaskila og lækninga eins og fyrirrennarinn. Á fyrri tíð, áður en farið var að dæla upp úr árfarveginum megninu af árvatninu, var Jórdan stórá. Þá var erfitt að þvera ána. Engir nema þau, sem áttu brýnt erindi, fóru yfir ána. En þó það væri kannski ekki beinlínis lífshætta fór enginn að gamni sínu.

Frá fornöld hefur Jórdan verið meira en fljót. Áin varð táknveruleiki. Fólk hefur vitjað hennar af djúpum tilfinninga- og menningarástæðum. Það var ástæða fyrir að Jóhannes skírari fór til árinnar og Jesús Kristur einnig. Jórdan var ekki aðeins stórá fortíðar heldur varð hún og er enn stórá táknmálsins. Þegar Gyðingar voru reknir út um veröldina eftir fall Jesúsalem árið 70 eKr. dreifðust þeir um heiminn og þar héldu þeir áfram að íhuga merkingu árinnar. Kristnir menn fengu síðan Nýja testamentið í hendur og Jórdan fór að renna um hugi þeirra og efla menningartákn. Jesúskírnin tengdist Jórdan og nærðist af vökvun árinnar. Og Jórdan fór síðan að blandast öllum vötnum heimsins af því Jesús skírðist ekki aðeins heldur blessaði veraldarvötnin í skírn sinni. Jórdan rennur síðan ekki aðeins niður í Dauðhafið heldur upp til lífs fólks. Til miðaldamanna, og síðan áfram til Bach og Jónasar Tómassonar, sem sömdu tónlist dagsins og Björns Steinars Sólbergssonar, sem leikur verk þessara meistara svo fagurlega.

Þegar Jesús vildi skírast var hann sér fullkomlega meðvitaður um, að skírn hans væri ekki með sama móti og iðrunarskírn þeirra sem flykktust til Jóhannesar við Jórdan. Skírnaróskin markar upphaf starfsferils hans. En Jesúskírnin er ekki hin sama og okkar. Jesús skírðist ekki heldur til lífsins eins og við, ekki til að endurnýjast eins og við, ekki að losna úr viðjum sora heimsins. Skírn Jesú var upphaf starfsferils hans. Skírn Jesú var og er uppspretta og síðan árstraumur, sem mótar umhverfi og er forsenda gróðurs, sem kenndur er við himininn. Skírn Jesú hefur áhrif á allan heiminn, ekki bara eyðimörk, heldur líka blautsvæðin. Skírn Jesú var stórviðburður sem allt var miðað við á fyrstu öldum og mun mikilvægari en fæðingarfrásögnin. Jórdan var mikilvægari en Betlehem.

Á miðöldum áleit fólk Jórdanskírn Jesú vera helgun allra vatna heimsins. Jesús helgaði allt sem er. Vatnið notum við svo í hinu kirkjulega samhengi skírnarinnar til að helga lífið. Í bikarnum er vatnið helgað mönnum til blessunar. Í því er helgað vatn, sem nærir líf fólks. Af því veröldin er Guðs sköpun, blessuð af Jesú eiga kristnir menn að verja vatn veraldar, vernda og hreinsa. Lífið þarfnast þess. Jesús var skírður – ekki aðeins til að gefa mönnum líf heldur gefa allri veröld líf, vatninu líka.