Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

Stóristyrkur

Í vorbirtunni 1941 settu stúdentar upp húfur sínar. Annar landsdúxanna var kona. Dúxar eru dýrmæti og hæsta einkunn skipti máli því dúxar fengu stórastyrk. Það var peningasjóður til að kosta nám erlendis. Svo var sagt frá í fréttum ríkisútvarpsins að menntamálaráð hefði ákveðið að styrkja ekki aðeins fjóra eins og verið hafði heldur tíu stúdenta. En engin kona var þó í hópi styrkþega! Stúdentinn með hæstu einkunn í landinu, kvendúxinn í MR, var ekki meðal þeirra. Og hver skyldi ástæðan hafa verið? Rökin voru að kona sem færi utan til náms myndi væntanlega falla í fang erlends eiginmanns, ekki rata til baka til Íslands, týnast. Að fjárfesta í kvendúx væri því vond fjárfesting!

Valborg Sigurðardóttir lærði að ágætiseinkunn er engin vörn gegn spilltu valdi. Að ná frábærum námsárangri er afleiðing góðrar ástundunar en svo eru fordómar og óréttlæti allt annað. En hún gaf sig ekki og hvikaði ekki í réttlætissókn sinni. Hún hafði sigur, fékk stórastyrk ári síðar og fór vestur um haf, lærði sálarfræði í Minnesota og síðan uppeldisfræði í Massachusetts. Þar var hún metin að verðleikum fyrir að vera dúx og lúx. Hún lærði í kvennaháskólanum Smith College sem slípaði dýrmæti og agaði námsforka til þroska. Skólinn útskrifaði ekki aðeins Nancy Reagan og Barböru Bush, heldur líka Betty Friedan, Gloriu Steinem og Valborgu! Þar óttaðist enginn að menntun kvenna gerði þær villugjarnar. Í deiglu skólans mótuðust ýmsir málsvarar mannréttinda og þar með femínisma eftirstríðsáranna, sem höfðu vítæk áhrif til góðs.

Dúxinn umbreyttist í menntakonu. Stríðinu lauk, karlaherirnir streymdu heim af vígstöðvunum en meistaraneminn sem var að skrifa lokaritgerð sína var ekki með hugann við þá. Henni var ekki villugjarnt. Valborg var beðin um að stýra skóla sem gæti fagmenntað starfsfólk til starfa á stofnunum fyrir forskólabörn. Hún fór heim og faðmaði síðar Ármann Snævarr og eignaðist fimm börn. Valborg breytti íslensku menntakerfi og viðmiðum í uppeldi barna. Hún mótaði nýjan skóla, í nýju lýðveldi og á nýjum tíma. Hún skrifaði uppeldisstefnu fyrir leikskólastigið og bækur um uppeldi. Svo kenndi hún og útskrifaði um 900 fóstrur og síðar leikskólakennara á ferli sínum sem skólastjóri. Á níræðisaldri skrifaði hún og gaf út bókina: Íslensk menntakona verður til. Valborgarsaga er heillandi lykilsaga og varðar hæfni, gildi, réttlæti og vald. Og af henni getum við margt lært um afstöðu til fólks, stjórnsýslu og við erum smiðir gæfunnar.

Valborg lést 25. nóvember 2012. Síðustu lífsvikurnar las hún í Saltara Biblíunnar. Þar segir í 46. Davíðssálmi: „Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum. Því óttumst vér eigi…“ Merkingin er að mannfólkið og veröldin nýtur verndar, blessunar, styrks og hælis. Valborg naut stórastyrks, varð stóristyrkur og nýtur nú þess sem er stóristyrkur lífsins. Þar eru engin svik, ekki fordómar eða áföll. Þar ríkir friður Guðs.

Kletturinn Alcatraz

 

Hvenær erum við innan hrings mennskunnar og hvenær utan hans? Hvenær erum við tengd öðrum og hvenær ekki? Hvernig líður manni, sem er greindur frá mannfélagi, kippt út úr menningunni og færður nauðugur út í eyju, sem enginn má heimsækja nema með sérstöku leyfi og undir ströngu eftirliti? Hvernig líður manni, sem fjölskylda hans segir skilið við vegna glæpa og er síðan einagraður með siðlausum morðingjum? 

Alcatraz-eyja er í San Francisco-flóa, einangruð en er þó fyrir allra augum. Eyjan blasir við af öllu flóasvæðinu. Hún sést vel frá austurlandinu, t.d. Berkeley. Þegar gengið er um hafnarsvæðið í San Francisco sést hún vel, enda aðeins um tveggja kílómetra fjarlægð frá landi. Og þegar maður röltir yfir Golden Gate-brúna – eða ekur yfir – horfir maður niður á hana. Fyrrum var eyjan fuglaparadís. Vegna einangrunar var svo farið að nota klettinn til að hýsa fanga. Á fjórða áratug tuttugustu aldar var byggt rammgert öryggisfangelsi til að hýsa hættulegustu fanga Bandaríkjanna. Reglan í bandarískum fangelsum var einföld: „Hegðaðu þér vel annars verðurðu sendur á Alcatraz.“ Þar var endastöðin, sem ekki var hægt að flýja (hugsanlega hafa þó þrír sloppið). Á sjöunda áratugnum ákvað Robert Kennedy að leggja fangelsið af.

Ég heimsótti Klettinn með þremur sonum mínum og konu minni. Við höfðum séð hasarkvikmyndir, sem áttu að gerast þar eða lesið um fjöldamorðingjana sem þar voru vistaðir. Við fórum frá bryggju 33 San Francisco-megin. Og það var eins og að fara um borð í flóabátinn Baldur. Það gustaði á leiðinni yfir sundið og hrollurinn leitaði í kroppinn. Þungur straumur var og er í sundinu og hann var ein af ástæðunum fyrir að setja fangelsi í eyjuna. Það var og er yfirmannleg þrekraun að synda til lands vegna strauma.

Við gengum upp í eyjuna. Mannvirkin voru stór en skemmd vegna viðhaldsleysis. Við heyrðum leiðsögumenn segja sögu þrenginga, sem var allt öðru vísi en saga lífseyja eins og Flateyjar, Hríseyjar eða Vestmannaeyja. Á Alcatraz var líf fólks í bið. Kletturinn var ekki fyrir mannlíf, heldur til að vernda mannlíf fyrir ólánsmönnum, sem voru færðir út úr lífinu af tillitssemi við hina. Þarna voru þeir úti, með byssur á sér, undir eftirliti og fjarri lífinu.

Þjóðgarðastofnun Bandaríkjanna stýrir heimsóknum í eyjuna og gerir vel. Eins og aðrir gestir fengum við heyrnartól fyrir leiðsögn og stýrðum sjálf hversu hratt eða hægt við fórum. Sögurnar um fanga og tilfinningar þeirra voru sterkastar. Við komumst að því að á hátíðadögum barst ómur frá skemmtunum frá landi. En þegar veröldin hló varð harmur fanganna þungur. Þegar glaumurinn í landi barst út og í eyrun skar í hjarta og einsemdin varð stingsár.

Einn fanginn sagði frá því, að fjölskyldan hafði algerlega snúið baki við honum. Hann hafði komið óorði á fókið sitt. Honum var útskúfað, hann var náðarlaust úrhrak. Hann var morðingi í versta fangelsi Bandaríkjanna. Hann var utan hrings mennskunnar. Öll tengsl við hann voru rofin, engin bréf bárust, engin símtöl heldur og engin kom. Náðarlaus maður vænti einskis en beið aðeins endisins. Honum brá því þegar honum var tilkynnt, að hann hefði fengið heimsókn og ætti að fara að glerinu. Þar var komin systir hans. Yfirgefinn maður og ósýnilegur sem enginn yrti á nema sem fanga til frambúðar. En allt í einu var honum kippt inn í hringinn. Systir kom út úr dimmu fjölskylduútskúfunnar, fór yfir sund, upp á klett, virti lánalausan bróður viðlits, sá hann og yrti á hann. Að einhver skyldi vitja hins útskúfaða var honum djúp upplifun og breytti lífi hans. Maðurinn var uppreistur í kröm sinni. Hans var vitjað. Náðin var ekki ekki horfin.

Hvnær ertu í sambandi og hvenær ertu einmana? Hvenær ertu innan hrings og hvenær utan? Við höfum þörf fyrir tengsl, að vera séð, heyrð og virt. Mennska okkar varðar tengsl við fólk. Við þörfnust frelsis, inn á við, meðal fólks og upp á við – andlega.

Kletturinn og öll fangelsi heimsins eru tákn um menn á nöfinni. Hvað er maðurinn og hver er mennskan. Ertu séð ertu virt? Sér þig einhver, metur þig og jafnvel elskar?

„Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna,
tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?
Þú gerðir hann litlu minni en Guð,
krýndir hann hátign og heiðri … “

Við erum á rófi einsemdarinnar. Við erum sandkorn á strönd eyjar í tíma. En þó við séum einmana, óséð og enginn mannvera hlusti – erum við samt dýrmæti, sem Guð man eftir, virðir og metur. Aldrei utan Guðshringsins.

Klókir fuglar

Vinur minn sagði mér frá því að hann hefði séð máv fljúga með skel í kjaftinum og sleppa svo yfir fjörugrjótinu. Skelinn féll og brotnaði. Og það var það sem fuglinn vildi. Mér þótti þetta merkileg saga um klókindi svangs fugls sem ekki réð við að opna skel sem fiskurinn lokaði. Svo vorum við synir mínir á leið við vesturenda flugbrautarinnar Skerjafjarðarmegin. Þá sáum máv koma fljúgandi frá sjó með eitthvað í kjaftinum og stefna að flugbrautinni. Ég sagði mínum mönnum að fylgjast með fuglinum. Við sáum hann hækka sig þegar komið var yfir malbikið og svo sleppti hann. Já, mikið rétt það var skel sem maskaðist á flugbrautinni. Mávurinn flaug niður, settist að snæðingi og hóf sig svo til flugs heldur mettari. Þeir eru klókari mávarnir en ég hafði ímyndað mér í einfeldninni. Hefur þú orðið vitni að klókum mávi við skeljabrot?

Hve hratt er hægt að brjóta boðorðin?

Hefur einhver brotið öll boðorðin náast á sömu mínútunum? Flestir segja nei, það sé ekki mögulegt. Ísrael, þjóð Móse, gleymdi bæði Guði og mannasiðum við fjallsrætur Sínaí og dansaði í kringum gullkálfinn og þá molnuðu orðin tíu. Móses mölvaði báðar steintöflur boðorðanna og braut þar með öll boðorðin! En það eru ekki margir svo margbrotnir sem Móses. Öllum verður þó einhvern tíma hált á freistingasvellinu.

Á vefnum er til skondin stuttmynd, sem  fjallar um mann, sem tókst að brjóta öll boðorðin frá því að hann vaknaði og áður en hann var fullklæddur.  Maðurinn varð meira að segja öðrum manni að bana fyrir algera slysni, vegna þess að hann var á röngum stað. Eitt brot leiðir af öðru.  Þetta kostulalega myndband er að baki smellunni

Gildi Íslendinga og boðorðin

Hvernig er ellefta boðorðið? Dr. Þórir Kr. Þórðarson kenndi gamla testamenntisfræði í HÍ og spurði nemendur sína þessarar spurningar. Nemendurnir könnuðust ekki við neitt slíkt í Biblíunni svo Þórir svaraði sjálfur: „Þið skuluð ekki vera leiðinleg!“ Og svarið og afstaðan er túlkun á boðorðunum, í fullkomnu samræmi við áherslu þeirra á að lífið eigi að vera gott og skemmtilegt. Trúarhefð Gyðinga og síðan kristninnar er um gleðifréttir, fagnaðarerindi.

Eru boðorðin í Biblíunni gleðimál? Eru þau hagnýt fyrir lífið eða neikvæð bönn? Hafa fornir vegvísar Biblíunnar gildi fyrir allt fólk og á öllum tímum? Þetta eru spurningar sem við prestar Hallgrímskirkju tökum alvarlega. Við munum í prédikunum ræða um gildin í  samfélagi okkar og gildi boðorðanna í messum næstu vikurnar. 27. janúar verður fyrsta boðorðið íhugað og það síðasta í messunni 7. apríl. Verið velkomin í Hallgrímskirkju. Hvernig eru þín boðorð?

Irma Sjöfn Óskarsdóttir og Sigurður Árni Þórðarson, prestar Hallgrímskirkju