Gildi Íslendinga og boðorðin

Hvernig er ellefta boðorðið? Dr. Þórir Kr. Þórðarson kenndi gamla testamenntisfræði í HÍ og spurði nemendur sína þessarar spurningar. Nemendurnir könnuðust ekki við neitt slíkt í Biblíunni svo Þórir svaraði sjálfur: „Þið skuluð ekki vera leiðinleg!“ Og svarið og afstaðan er túlkun á boðorðunum, í fullkomnu samræmi við áherslu þeirra á að lífið eigi að vera gott og skemmtilegt. Trúarhefð Gyðinga og síðan kristninnar er um gleðifréttir, fagnaðarerindi.

Eru boðorðin í Biblíunni gleðimál? Eru þau hagnýt fyrir lífið eða neikvæð bönn? Hafa fornir vegvísar Biblíunnar gildi fyrir allt fólk og á öllum tímum? Þetta eru spurningar sem við prestar Hallgrímskirkju tökum alvarlega. Við munum í prédikunum ræða um gildin í  samfélagi okkar og gildi boðorðanna í messum næstu vikurnar. 27. janúar verður fyrsta boðorðið íhugað og það síðasta í messunni 7. apríl. Verið velkomin í Hallgrímskirkju. Hvernig eru þín boðorð?

Irma Sjöfn Óskarsdóttir og Sigurður Árni Þórðarson, prestar Hallgrímskirkju