Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

Pistlayfirlit er aðgengilegt á trú.is. Þá er talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is

Fimm spurningar Fréttablaðsins

Fréttablaðið sendi fimm spurningar til okkar biskupsefna. Þær eru:

  1. Hvert verður þitt fyrsta verk til breytinga verðir þú kjörinn biskup?
  2. Hvernig hefði kirkjan átt að bregðast við í máli kvennanna sem ásökuðu Ólaf Skúlason biskup um kynferðisbrot árið 1996?
  3. Hefur þú og/eða myndir þú gefa saman samkynhneigð pör? Vinsamlegast rökstyddu svar þitt.
  4. Telur þú að allir félagar í þjóðkirkjunni eigi að hafa kosningarétt í biskupskosningum?
  5. Finnst þér afstaða kirkjunnar til mála hafa byggst um of á bókstafstrú?

Svörin er hægt lesa í Fréttablaðinu. Þau eru líka birt á vefnum Við kjósum okkur biskup – spurningar og svör þar sem er að finna svör okkar við fjölda annarra spurninga.

Ég bið ykkur að veita athygli þessum svörum því í þeim birtist mikilvægur munur á afstöðu okkar sr. Agnesar og því, sem við viljum leggja áherslu á í kirkjustarfinu.

Djúp og breið

Alger munur er á fyrri umferð í biskupsvali og hinni seinni. Almenn kynning á biskupsefnum fór fram áður en kosið var í fyrri umferð. Fyrra valið var eins konar forval. Fjöldi biskupsefna og eðli forvals varð til, að kynningar náðu þó ekki ákjósanlegri dýpt. Nú er seinni umferð að hefjast, en þó er enginn almennur fundur til kynningar.

Í fyrri umferð var nálgun kjörmanna almenn og ljóst að ekki yrði kosið til úrslita í þeirri umferð. Í seinni umferð velja kjörmenn milli tveggja. Kjörmenn hefðu því þurft gott samtal með ítarlegum svörum og á dýptina. Í ljósi þess hef ég lagt mig eftir að svara spurningum kjörmanna og fréttamanna. Kjörmenn vanda val sitt og biskupsefni virðir þær þarfir.

Fyrri umferðin var á breiddina en seinni umferðin ætti að vera á dýptina. “Djúp og breið” syngjum við í kirkjunni. Í kirkjukosningum þarf líka að vera dýpt og breidd.

Opinn fundur um biskupskjör

Stuðningsfólk mitt býður í kvöld, 29. mars, til opins fundar um biskupskjör og kosti kirkjunnar. Fundurinn verður í safnaðarheimili Neskirkju og hefst kl. 20. Örræður flytja Inga Rún Ólafsdóttir, Hreinn Hákonarson, Sigurvin Jónsson og Jóna Hrönn Bolladóttir. Fyrirspurninir og umræður. Lífsstíll þjóðkirkjunnar þarf að vera stíll hins opna og frjálsa samfélags. Allir eru velkomnir til fundarins, fjölmiðlar einnig því þetta verður opinn fundur.

Vonast til að sjá þig. Sigurður Árni

Pétri Kr. Hafstein þakkað

Pétur Kr. Hafstein lætur skyndilega af störfum, vegna heilsubrests, sem kirkjuþingsmaður og forseti kirkjuþings. Hann hefur reynst kirkjunni frábær leiðtogi, réttsýnn, hollráður og framsýnn. Hann hefur beitt sér fyrir markvissri eflingu kirkjuþings, sem æðsta stjórnvalds þjóðkirkjunnar.

Eitt af helstu baráttumálum Péturs er að auka áhrif og virkni leikmanna í starfi og stjórnun þjóðkirkjunnar. Í því verki hefur hann verið stefnufastur og skýrmæltur. Í biskupskjöri þessa árs njótum við stefnu hans og meirihluti kjörmanna er leikmenn.

Ég vil þakka Pétri Kr. Hafstein einurð hans og sýn um, að þjóðkirkjan megi ekki standa í stað heldur eigi stöðugt að breyta starfsháttum og skipulagi til að fólki, kirkju og þjóð verði þjónað sem best í framtíð.

Tími tækifæranna

Fimmtudaginn 29. mars, kl. 20 verður efnt til opins fundar í safnaðarheimili Neskirkju um biskupskjör og kirkjumál.

Stuttar framsögur flytja:

  • Hreinn Hákonarson, fangaprestur
  • Inga Rún Ólafsdóttir, sóknarnefndarformaður og kirkjuþingskona
  • Sigurvin Jónsson, æskulýðsprestur
  • Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur

Til fundarins boðar stuðningsfólk dr. Sigurðar Árna Þórðarsonar í biskupskjöri.

Fundurinn er öllum opinn, kjörmönnum, sóknarnefndarfólki og öllu áhugafólki um kirkjumál.