Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Nýr tími Bandaríkja Norður Ameríku

Ljós mun lýsa –

ef við þorum að horfa

ef við þorum að spegla það

Tímaskil urðu í heiminum 20. janúar. Tímabili lyganna lauk og nú er runninn upp tími til að segja satt um menn og málefni. Tímabil sundrungar, aðgreiningar og sérhyggju er að baki og mikilvægt að gott fólk taki til hendi og sameinist um að leggja góðu lið. Hvað tekur við er óljóst. 

Innsetningarathöfnin við þinghúsið var einföld en heillandi. Kona er varaforseti Bandaríkjanna í fyrsta sinn. Glerþakið var tjakkað upp. Lady Gaga söng þjóðsönginn með stæl. Ekki skemmdi kjóllinn hennar og friðardúfan sem minnti á dúfu Picasso. Amy Klobucher smitaði gleði yfir að eldurinn væri slökktur og nýr tími fæddur. Vettlingar og föðurland Bernie Sanders vermdu og skemmtu. Ræða Jo Bidens sannfærði að stjórnsýslan verður skilvís en ekki lemstruð af bræðisköstum síðustu ára.

Þetta var ekki bara byrjun heldur líka útfararathöfn. Af öllu sem sagt var og gert á þessari innsetningarhátíð var ljóðið sem Amanda Gorman samdi og flutti um opnun. Hún nefndi vanda og verkefni, litaði og færði til, lokaði og opnaði. Það er frjálst fólk sem yrkir og gengur svo vasklega inn í nýjan tíma. Ljóð Gorman sem er að baki þessari smellu. Fíkjutré Biblíunnar hafa skotið nýjum rótum.

Ljós mun lýsa –

ef við þorum að horfa

ef við þorum að spegla það

Myndina tók ég  um kl. 16 þegar innsetningarathöfnin í Washington var að hefjast. 

Vitringar, kóngar eða vitleysingar?

Helgisöguna um vitringana sem komu til Maríu, Jósefs og Jesú á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega. Svona sögur á ekki að kreista því þá brotnar allt, líka skilningurinn. Þetta er ekki saga um gull, reykelsi eða myrru og ekki heldur um bull, ergelsi og pirru. Í þessu hljóðvarpi tala ég um vitringahelgisöguna.

Nýr tími

Tímaskil geta orðið ágeng og vakið miklar tilfinningar. Mér er minnistætt þegar einn drengja minna var sjö ára og yfirkominn af tímaöng. Hann fylltist af depurð yfir glötuðum tíma. Hann sá svo óskaplega eftir gamla árinu sem kæmi aldrei til baka. Hann var lostinn harmi yfir að gleðitíminn væri farinn og aldrei væri hægt að lifa hann aftur. Við foreldrarnir tókum drenginn í fangið og töluðum um víddir og takt tímans og möguleika lífsins. Þá var líka gott að tala um hvað afar og ömmur, við foreldrar og allir hinir ástvinirnir hugsum og gerum gagnvart tortímanda tímans. Eftir gamlárskvöld kemur nýr dagur og nýir möguleikar. Tíminn er ekki búinn heldur opinn. Til að tákna það breiðum við á nýársdegi hvítan dúk á borð nýársdags. Blóm dagsins væru hvít til að tákna að dagurinn væri upphaf nýs og óspjallaðs tíma. Meira segja litur kirkjunnar á þessum degi væri hvítur til að minna okkur á að framtíðinn væri opinn faðmur. Hvítt gegn myrkvaðri glatkistu fortíðar til að minna okkur á að hið liðna er farið. En tíminn er opinn.

Nýr tími merkir að við erum frjáls. Hvað um tíma nýs árs í vinnu, í einkalífi og í samskiptum? Er eitthvað sem bindur hug og líf? Þarf að losa festur, opna tabú og segja satt? Hver er djúplöngunin? Hvað viljum við gera við tímann, hvernig næra sjálf og stæla líkama? Kostur hvers tíma og hvers dags er að vera farþegi eða við stýrið í eigin lífi.

Skáldið bað: „Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.“ Það er verkefnið. Viturt hjarta – fyrir líf og dauða, fyrir gleðistundir, hörmungartíma og hamingjuvegi. Guð hefur úthlutað gáfum og gæðum til að vinna verkin og vit til að greina úrræðin. Guð hefur skapað tímann og okkur mannfólkið svo listilega að okkur er það mögulegt. Framundan er nýr tími, ómengaður og hreinn tími. Tímaöng varðar fortíð en fögnuður hæfir framtíð. Gleðilegt nýtt ár 2021.

Myndina tók SÁÞ eftir helgihald í Hallgrímskirkju á nýársdegi. Myndin er af bílrúðu við Hnitbjörg, safn Einars Jónssonar. Textinn er Gleðilegt nýtt ár 2021.

Ég elska þig

Fæðingarfrásaga Jesú Krists er helgisaga sem er lesin um alla heimsbyggðina á jólum. Sagan er upphafin, litrík og ævintýraleg, saga um hirða, engla og ungt par á ferð og í miklum vandræðum. Hvernig á að skilja eða túlka þessa sögu? Á hún erindi við nútímafólk? Það er engin ástæða til að taka skynsemi, gagnrýna hugsun og sjálf úr sambandi þótt við njótum jólanna og verðum jafnvel meyr. Jólaboðskapurinn er ekki um meyjarfæðingu, vitringa, englaskara eða að Jesús fæddist í Betlehem. Allt þetta kemur við sögu en þau mál eru meira rammi en meginmál. Erindi jólanna er ekki heldur um hvort Jesús Kristur fæddist árið 1 eða árið 0 eða fjórum árum eða sex fyrir tímatal okkar sem er vissulega kennt við Kristsburð. En hver er þá nálgunin? Helgisögur eru rammi um inntak. Helgisögur eigum við ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega og til okkar.

Stef, ímyndir og minni helgisögunnar þjóna ávallt þeim skilaboðum sem miðla á. Við getum skrælt burt það sem ekki hefur lengur skiljanlega skírskotun til að taka eftir hinu guðlega. Kraftaverk voru á fyrri öldum tákn um guðsnánd en eru ekki sjálfkrafa lengur. Vitringar þjónuðu ákveðnu hlutverki til að tjá mikilvægi. Svo var þjóðmenning og þjóðarhefð að baki í Biblíunni sem var eins og stýrikerfi. Það stjórnaði hvaða atriði urðu að vera í sögunni til að merkjakerfið skildist og hvernig ætti að segja frá til að samhengið væri ljóst. Þetta var túlkunarhefðin sem stýrði þá rétt eins og við lifum og stjórnumst af íslensku samhengi og vestrænni menningararfleifð nú.

Jólaboðskapur helgisögunnar er um að Guð elskar. Guð tjáir þá ást með róttæku móti, ekki aðeins með orðum eða í skilaboðum eða samfélagsmiðlum heldur kemur í eigin persónu. Er þetta ekki að skræla jólaboðskapinn um of? Nei, helgisaga jólanna varðar ekki að við trúum hinu ótrúlega, sögum um vitringa, himindansandi engla og glimmersögu úr fjárhúsi, heldur að við virðum vonir okkar og djúpþrá. Hvaða hugmyndir sem við höfum um Guð og trú þráum við samt öll hið mennska í boðskap jólanna. Tákn jóla vísa til speki og gilda sem eru veröldinni lífsnauðsyn. Þegar við leyfum okkur að vera sem ljóssækin börn eða horfum með hrifningu í augu ástvina erum við á hamingjuleiðinni. Sömuleiðis þegar við vitjum drauma okkar sem við höfum lært að kæfa. Jólin eru tími gjafa en stærsta gjöfin sem við getum öðlast og opnað er lífsundrið. Tilveran er ekki leiksoppur myrkra afla og tilvera til endanlegs dauða heldur þvert á móti. Nóttin er rofin barnsgráti sem tjáir erindi jólanna: „Ég elska þig. Mig langar til að vera þinn og langar til að þú sért mín og minn.“

Gleðileg jól má líka segja með orðunum: Ég elska þig.

Grein í Morgunblaðinu 19. desember 2020. Mynd SÁÞ af engli að störfum í helgileik Melaskóla í Neskirkju í desember 2012.

 

Biblía í jólamatinn

Sæla jólanna kviknar í endurtekningunni. Eða hvað? Skiptir öllu máli að jólin byrji með líku móti og liðin ár, að jólamaturinn sé eins og við fengum í fyrra? Á allt að vera eins? Hverju breyta sóttvarnareglur COVID-jólanna? Eru þessi jól bara áfall eða kannski tækifæri til að skapa eitthvað nýtt og gera tilraunir?

Þetta árið eru kirkjuferðir bannaðar. Hvað er þá hægt að gera heima í stað jólastemningar í kirkjunni? Jól bernsku minnar voru dásamleg. Þegar allir voru komnir að veisluborðinu tók faðir minn Biblíu eða blátt Gideon-Nýja testamenti, fletti upp á öðrum kaflanum í Lúkasarguðspjalli og las svo jólaguðspjallið. Það er upphafin saga um par í ómögulegum aðstæðum, fæðingu barns í gripahúsi og um engla og vitringa. Mér finnst enn vera steikarilmur af þessum texta. Pabbalesturinn opnaði veislu himins og jarðar. Jólin byrjuðu og svo fórum við fjölskylda mín í kirkju um miðnættið.

Þegar ég stofnaði eigið heimili las ég guðspjallið fyrir mitt fólk eins og pabbi. Þegar börnin mín urðu stautfær fengu þau svo það verkefni að lesa. Þar sem engar verða kirkjuferðirnar þessi jólin legg ég til að fólk leggi Biblíu eða Nýja testamenti á jólaborðið. Þegar allir eru sestir getur einhver úr hópnum lesið versin í Lúkasarguðspjalli 2.1-14. „En það bar til um þessar mundir …. og velþóknun yfir mönnunum.“ Ef engin er Biblían á heimilinu er hægt að fletta upp á biblian.is. Þar er líka hljóðskrá, sem sé hægt að fá lesið fyrir sig. Síminn dugar ágætlega til svona upplestrar.

Helgihald Íslendinga tengist kirkjum en trúaruppeldi og mótun lífsafstöðu hefur farið fram á heimilum um aldir. Á COVID-jólum getum við gert eins og fólkið okkar hefur gert í margar kynslóðir, lesið jólaguðspjallið sjálf. Breyting á jólataktinum er ekki kreppa heldur tækifæri. Lesum sjálf jólaguðspjallið heima þessi jól og gerum það að hefð.