Ávarp Einars Karls Haraldssonar í Hallgrímskirkju 26. mars 2023

Kæri söfnuður, góðir gestir!

Á fjölmennri samkomu hér í Hallgrímskirkju spurði sessunautur minn: Hver er það sem er að læðast þarna bak við orgelið og upp í kórinn? Er hann með myndavél, spurði ég? Já, þá er þetta sóknarpresturinn að leita nýrra sjónarhorna og fanga ljósbrot í skuggaspili kirkjunnar. Þannig er doktor Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur okkar um níu ára skeið. Endalaust að undrast og dásama þetta mikilfenglega guðshús, Hallgrímskirkju.

Kæri Sigurður Árni, í Hallgrímssöfnuði  verður þín minnst sem fræðara, heimspekings og ástarguðfræðings í prédikunarstólnum. Þú hefur boðið alla velkomna að borði drottins og opnað dyr. Alltaf spyrjandi áleitinna spurninga og opinn fyrir nýjum svörum. Og ekki síst verður þér þakkað að hafa auðgað myndmál Hallgrímskirkju, bæði í orði og með ljósmyndum af birtu, formi og starfi hér í kirkjunni.

Á boðunardegi Maríu hefur séra Sigurður Árni oft verið í stuði eins og hér í dag.

Hann fræðir: Afhverju er fáni Evrópusambandsins blár með geislabaug stjarna? Jú, auðvitað, sem fæstir í kirkjunni vissu raunar, vegna þess að hann er afkvæmi Maríumynda aldanna og blái liturinn kemur úr Maríu-möttlinum.                                               

Hann setur hlutina í heimspekilegt og guðfræðilegt samhengi: Okkur er nauðsyn að fá Maríu ofan af stalli sem ofurhetju handan mannlífs og heims, við þurfum á henni að halda í hringiðu lífsins, með okkur í lífi og sorgum. Semsagt: María til manna.                   

Og svo kemur ástarþemað hjá honum: „María, drottins móðir kær, merkir Guðs kristni sanna“, eins og Hallgrímur segir í Passíusálmunum. „Og sonurinn, Jesús Kristur , lítur til hennar með augum elskunnar.“

Svona getur þetta gengið í prédikunum séra Sigurðar Árna sem margar eru eftirminnilegar. Nú hyggst hann gefa úrval prédikana sinna út á næstunni og hefur sóknarnefnd Hallgrímskirkju í þakkarskyni ákveðið að stuðla að því með sérstökum útgáfustyrk.  

Sigurður Árni er í senn heimsmaður, heimamaður og sveitamaður! Hann kom til okkar fullmótaður af akri kristninnar á Íslandi. Hann hafði efir embættispróf í guðfræði frá Háskóla Íslands  verið sveitaprestur og borgarprestur, rektor Skálholtsskóla og fræðslustjóri á Þingvöllum, verkefnisstjóri á Biskupsstofu og stundakennari við Háskóla Íslands. Aukin heldur er hann heimsmaður með útsýn til annarra landa eftir kristnifræðinám í Noregi og doktorspróf í guðfræði og hugmyndasögu frá Vanderbiltháskóla í Tennessee í Bandaríkjunum.  Raunar var hann heimamaður í Hallgrímskirkju áður en hann var kjörinn hér sóknarprestur, bæði sem kórsöngvari um skeið og afleysingaprestur árið 2003. Hann er líka sveitamaður í sér með djúpar rætur í svarfdælskum sverði og í ræktunarstarfi móður sinnar kringum Litla bæ á Grímstaðaholtinu. Þeirri hlið á sóknarprestinum höfum við einnig fengið að kynnast.

Á Skólavörðuholtinu hefur Sigurður Árni átt góða daga, enda lýsir hann þeim sem samfelldri veislu í miklu og alþjóðlegu fjölmenni. Draumar hans um að fá bestu kokka þjóðarinnar til að elda með sér á kirkjuhátíðum hafa ekki að öllu leyti ræst þótt við höfum fengið að smakka á biblíumat sóknarprestsins sem hann er þekktur fyrir. Nýtt og fullkomið eldhús er á óskalistanum hér í Hallgrímskirkju og þá mun sá draumur væntanlega rætast. Hann hefur líka verið áhugasamur um að Hallgrímskirkja og veraldarvefurinn spili betur saman og helgihaldinu verði fjölmiðlað. Starfi í þeim anda verður haldið áfram. Listaverk í turni verður einnig að veruleika einn góðan veðurdag. Spor Sigurðar Árna marka veginn framávið.

En maður kemur í manns stað. Mér er mikil ánægja að tilkynna það hér að okkur hefur borist formleg tilkynning um það að séra Irma Sjöfn Óskarssdóttir hefur verið ráðin sóknarprestur við Hallgrímskirkju frá og með 1. apríl næstkomandi. Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, hefur í því efni farið að ósk sóknarnefndar. Jafnframt hefur Helga Soffía Konráðsdóttir, prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, tilkynnt okkur að doktor Jón Ásgeir Sigurvinsson héraðsprestur, muni gegna starfi prests við Hallgrímskirkju næstu þrjá mánuði og er það góð ráðstöfun að okkar mati. Þá er þess að geta að hafin er fyrir tilstilli biskupsstofu og á vegum prófasts þarfagreining vegna fyrirhugaðrar auglýsingar á prestsstarfi við Hallgrímskirkju. Ég vil koma á framfæri þökkum til biskups og prófasts fyrir skjóta og skilvirka afgreiðslu á erindum Hallgrímskirkju vegna þeirra mannabreytinga sem hér eru á döfinni.    

En i dag er kveðjudagur til heiðurs fráfarandi sóknarpresti. Hér á eftir er öllum boðið í snittur og kaffi í Suðursal þar sem séra Irma Sjöfn Óskarsdóttir stjórnar dagskránni og Steinar Logi Helgason kórstjóri söngnum. Séra Sigurður Árni hefur gefið það út að hann ætli sér að læra meira og læra margt nýtt, fara lengra og breyta mörgu. Það er lofsvert viðhorf og við óskum honum heilsu og þreks til þess að láta draumana rætast. En fyrst er það útgáfa Sigurðarpostillu sem ég nefndi áðan. Um leið og sóknarnefnd þakkar þér samstarf og leiðsögn bið ég þig að koma hér, doktor Sigurður Árni, og taka við útgáfustyrk þér til handa frá Hallgrímssöfnuði.

Einar Karl Haraldsson, formaður sóknarnefndar Hallgrímskirkju. Myndina tók Hrefna Harðardóttir.