Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Ástin í Passíusálmunum

Ástarþörf er frumþrá allra manna og hjá mörgum blossar ástarþörfin upp þegar að kreppir og allar hvunndagsvenjur brotna og augn- og sálarskýlur eru dregnar burt. Í fyrra þegar farsóttarfárið byrjaði gekk ég meðfram bókahyllunum mínum og dró út nokkur rit sem tengdust farsóttum. Sú fyrsta sem ég dró út var Decamerone sem heitir Tídægra á íslenskunni. Það er pestarbók, sem segir frá fólki í nágrenni Flórens í kólerufaraldri. Þau fara að segja hverju öðru sögur, sumar ansi safaríkar og margar um ástina. Já ástin sprettur fram á tímum kólerunnar – og það er nafnið á annarri bók, eftir meistara Gabriel Garcia Marques. Svo var La Peste – Plágan, bók Albert Camus. Ég man að ég las hana á sínum tíma af áfergju unglingsáranna. Tilfinningar og viðbrögð fólks í hinni lokuðu borg Oran í Alsír höfðu djúp áhrif á mig. Yfirvöldin voru í afneitun og áttu erfitt með að viðurkenna vandann, svipað og við höfum orðið vitni að í ýmsum ríkjum erlendis. En söguhetja bókarinnar, læknirinn Bernhard Reiux mætti verkefnum af skyldurækni og sinnti hinum sjúku. Erindi bókar Camus er að miðla að öllum mönnum væri sameiginlegt að þrá ást. Margir nytu hennar en allir þráðu hana. Hvað skiptir okkur mestu máli hvort sem það ríkir plága eða ekki? Það er fólk, tengsl, kærleikur. Ástarþörfin hríslast í okkur og magnast á tíma plágunnar.

Mig langar til að minna á tvær nýjar íslenskar ástarsögur sem urðu til á tíma hörmunganna. Báðar tjá að ástin blómstrar þvert á erfiðar aðstæður. Ólafur Jóhann Ólafsson skrifaði og gaf út bókina Snerting á liðnu ári. Söguhetjan Kristófer lokaði veitingastað sínum í Reykjavík þegar farsóttin byrjaði. Hann fékk í miðjum faraldri vinarbeiðni á facebook og þá var eins og allt ævipuðið gufi upp. Faraldurinn opnaði sálargáttirnar og þessi gamli maður lagði af stað í langferð, – í miðju veirufárinu – um tómar flughafnir og austur til Japan til að vitja sjálfs sín og ástarinnar sem hvarf frá honum en tilfinningin hvarf aldrei. Kreppur kalla fram djúpást lífsins. Þetta er einhver dásamlegasta ástarsaga sem ég hef lesið. Pestin hindrar ekki ástina heldur magnar.

Og af því allt skelfur og hristist þessa dagana er full ástæða minna á hina mögnuðu sögu Sigríðar Hagalín Björnsdóttur Eldarnir: Ástin og aðrar hamfarir. Aðalpersóna sögunnar er Anna Arnardóttir, forstöðumaður Jarðvísindastofnunar þjóðarinnar og helsti eldfjallasérfræðingurinn. (Hún er hliðræn, skálduð, útgáfa Kristínar jónsdóttur sem er í öllum fréttum þessa dagana). Versta útgáfa af nátturuhamförum dynja yfir. En það verða flekahreyfingar, sálarskjálftar í Önnu líka og hún verður ástfangin. Sagan er rosaleg. Þar er það ekki kyrrlát ást í pestinni heldur hamfaraást í sálardjúpum og náttúru. Og kannski er það svo að ástin hittir fólk með meiri þunga en jarðskjálftar hversu stórir og öflugir sem þeir eru. Allir þarfnast ástarinnar. En stundum leiðir hún til dauða af því samhengið er ekki virt og hamfarirnar eru of rosalegar. Ég vona að ég spilli ekki um of fyrir ykkur sem eiga eftir að lesa bókina.

„All you need is love“ sungu Bítlarnir og það er söngur kristninnar líka.

Ástarsagan

Og þá að ástinni í Passíusálmunum. Fyrsta spurning er: Af hverju urðu Passíusálmarnir vinsælir á Íslandi? Af hverju varð safn af sálmum metsölubók og metlestrarbók Íslands í mörg hundruð ár? Er eitthvað í Passíusálmum sem er mikilvægt og sígilt? Hvernig var saga höfundarins? Við vitum að Hallgrímur var mikils metinn og jafnvel elskaður af formæðrum og forfeðrum okkar. Af hverju? Margt kom til, skáldskapurinn vissulega, en líka maðurinn og ævi hans. Hann var hæfileikastrákur, sem fór þó í hundana. Hann týndist þó ekki alveg bölvandi og ragnandi í Glückstad, heldur reis upp og nýtti alla hæfileika sína. 

En það var ekki bara bókmenntaperlan Passíusálmar, sem varð til að kynslóðir Íslendinga elskuðu hann, heldur margþátta ástarsaga Guðríðar Símonardóttur og Hallgríms. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu sem var rænt, herleidd, flekkuð en varðveitti í sér undur og ást. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var svo settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Og ástin blómstraði. 

Þau áttu erfiða daga, en brotnuðu ekki heldur elskuðu. Og líf þeirra bar ávexti. Þau horfðu á börn sín og hugsuðu um hvernig hægt væri að veita þeim gott líf. Þau leituðu og fundu en misstu líka mikið. Þessi mikla ástarsaga varð eiginlega jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma um hvernig dýrlingar verða til, hvernig þeir elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskuðu andlegt heilbrigði þrátt fyrir hræðileg veikindi og sýndu andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Stór og heillandi ástarsaga. Klassík.

Ástarsaga Guðríðar og Hallgríms er gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma. Í þeim er sögð tilfinningasaga Guðs. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar en ekki reiðum guði. Guð, sem kemur en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð sem líknar og er vinur en ekki óvinur og Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna eins og vegabréf fyrir himinhlið.

Íslensk menning hefur breyst. Ný viðmið hafa orðið til. Einstaklingarnir eru berskjaldaðri en áður var. Stofnanir hafa riðlast og virðing þeirra hefur minnkað eða veiklast. Fólk leitar ekki lengur að stofnun heldur reynslu sem nærir og svarar kærleiksþörf fólks. Á bak við Passíusálma er merkileg ástarsaga um Hallgrím og Guðríði. En á bak við þau og okkur öll er ástarsaga Guðs.

Passíusálmar – merking og gildi

Guðsorðabækur voru aðalútgáfuefni íslenskra forleggjara fram yfir aldamótin 1900. Útgáfa þessara rita var svo mikil að spaugararnir töldu að ef bókunum væri raðað saman væri hægt að byggja brú frá jörðinni og alla leið til tungslins og svo til baka. Bækurnar sem voru gefnar út voru hugvekjubækur og kristileg ræðusöfn til styrktar trúariðkun á heimilum og til nota í kirkjum og heimahúsum. En af öllum bókum sem gefnar voru út eftir siðbótartímann eru tvær bækur eru í sérflokki þeirra sem lesnar voru. Það voru Passíusálmar Hallgríms Péturssonar og Vídalínspostilla. Þær voru elskaðar og dáðar. Passíusálmarnir voru fyrst útgefnir 1666 og Vídalínspostilla var gefin út 1718-20. Síðan voru þær báðar gefnar út í mörgum upplögum.

Hver var höfundurinn?

Aðeins um skáldið. Hallgrímur Pétursson fæddist árið 1614 í Gröf á Höfðaströnd í Skagafirði. Ekkert er vitað um fæðingardaginn en hins vegar er vitað að hann lést 27. október 1674. Líf hans var ævintýralegra en flestra Íslendinga. Hann missti ungur móður sína og fluttist til Hóla með föður sínum og fjölskyldu. Í skjóli biskups naut hann menntunar og fékk innsýn og útsýn í menningu og menntir. Hann þótti bráðger og hæfileikaríkur. Ýmsar litríkar sögur af honum og að hann var ljóðrænn orðhákur sem lét orðahrísið yfir þorpsbúana á Hólum. Í Hallgrími bjó útþrá og vilji til stórvirkja. Hvort sem hann hefur strokið eða farið með leyfi var hann þegar á unglingsárum kominn til norður Þýskalands og vann þar við járnsmíðar. Síðan fór hann, að undirlagi Brynjólfs biskups Sveinssonar til latínuskólanáms í Kaupmannahöfn. Þegar komið var að námslokum var Hallgrímur Pétursson settur í kennsluverkefni sem mótaði líf hans upp frá því. Hópur Íslendinga hafði verið leystur úr ánauð, sem höfðu verið fluttir frá Íslandi í Tyrkjaráninu og alla leið til Norður Afríku. Hópurinn var sendur til Kaupmannahafnar. Þótti við hæfi að uppfræða fólkið eftir veruna ytra. Hallgrímur var fenginn til að kenna þeim. Hann varð ástfanginn af konu í hópnum, Guðríði Símonardóttur. Áður en henni var rænt hafði hún verið gift kona og búið í Vestmannaeyjum. Ástarsaga Hallgríms og Guðríðar hófst. Guðríður varð þunguð af ást, kristinfræði og barni þeirra Hallgríms. Eiginmaður Guðríðar lést skömmu fyrr og þau Hallgrímur fluttu til Íslands og settust að á Suðurnesjum þar sem Hallgrímur hafði ofan af fyrir fjölskyldu sinni með verkamannavinnu. Hann fékk svo prestsembætti á Hvalsnesi árið 1644 og þjónaði söfnuðinum til 1651. Prestshjónin voru ekki borin á höndum eða nutu aðeins náðugra daga. Ástarsagan var ekki bara brími því þau Guðríður misstu börn og m.a. Steinunni, þriggja og hálfs árs árið 1649. Í rismiklu ljóði Hannesar Péturssonar Á Hvalsnesi fjallar hann um sorg skáldsins sem er meiri en hafið. Legsteinn Steinunnar sem Hallgrímur klappaði er til í Hvalsnesi.

Hallgrímur, Guðríður og þeirra fólk fluttu árið 1651 í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, en sumarbúðaparadísinn Vatnaskógur er í landi Saurbæjar. Þau bjuggu við Hvalfjörðin allt til dauðadags og þar urðu Passíusálmarnir líklega til og alla vega voru þeir fullmótaðir þar.

Hvað eru Passíusálmar?

Passíusálmarnir eru safn fimmtíu sálma sem lýsa píslarferli Jesú Krists. Aðalpersónunni er lýst með tvennu og mjög ólíku móti. Annars vegar er dregin upp mynd af Jesú Kristi sem himinkonungi í heimi þegna sinna. Hins vegar er hann í hlutverki mensks fulltrúa mannkyns, sem lætur yfir sig ganga illsku þessa heims í átakanlegum útgáfum.

Þessar andhverfur hátignar og þjáningar fléttar Hallgrímur Pétursson saman í eitt. Jesús Kristur Passíusálmanna er líðandi konungur. Þar með er sprengd annars vegar konungsímyndin og hins vegar sú mannhugsun, að menn séu ofurseldir vonleysi, þjáningu og dauða. Mál himins og heims eru eitt, fléttuð saman. Lausn alls vanda heimsins á rætur í þeirri ást Guðs, sem lætur sér ekki standa á sama um kjör og velferð manna og heims. Konungur himins kemur af því að hann lætur sér annt um heiminn og gengur síðan krossferilinn allt til enda. Þar sem hann er fulltrúi manna leiðir hann mannkyn til Guðs. Jesús gengur inn í allan vanda manna en stenst. Í því verður hann fyrirmynd, sem menn geta séð sig í. Öllum, sem eru niðurþrykktir og brotnir, verður Jesús sem ímynd vonar og hvatningar til að gefast ekki upp í baráttu lífsins. Hann verður daglegur styrkur á vegi trúarinnar.

Íhugunarkveðskapur

Sálmarnir voru hugsaðir sem föstusálmar, til lesturs og íhugunar á föstunni fyrir páska. Í norður-evrópskri trúarhefð frá dögum Marteins Lúthers var lögð áhersla á sístæða endurnýjun innri manns. Og sú iðja var kallað daglegt afturhvarf. Í því felst að menn geri reikningsskil við Guð, náungann og sjálfa sig á hverjum degi. Lífið er ferli og sífellt þarf að skoða hvað má bæta eða batna og hvernig megi lifa í sátt við Guð og menn. Sálmunum var ætlað að efla íhugun og verða fólki til endurnýjun trúar og hvetja til betra lífs.

Hinn skipulagði höfundur

Hallgrímur Pétursson, höfundur Passíusálmanna, vildi að þau sem læsu sálmanna næðu að fylgja söguþræði og draga lærdóm af píslarsögu Jesú. Sálmarnir hvetja lesendur til að fylgja Jesú eftir. Í upphafi hvers sálms er staða mála kynnt með því að tilfæra vers eða kenningu Bilíunnar sem tengjast baráttu Jesú. Passíusálmar hefjast við lok síðustu máltíðar Jesú og lýkur við grafarsetningu hans. Það sem guðspjöllin segja um píslarsöguna er tekið til skoðunar. Ekkert á þeim ferli fer fram hjá vökulum augum íhugunar, hvorki stærstu atburðir eða smáatriði. Allt skyldi skoðað. Í eftirfylgdinni er sálinni bent á hvað fyrir ber, rætt er við hana um ýmsar víddir og merkingu guðspjallstextanna. Biblíutextarnir stýra flæði hvers sálms, en eintsök stef eru endurtekin og margskoðuð frá mörgum sjónarhornum.

Tilgangur

Passíusálmum er að efla og styrkja íhugun og leiða til skilnings og tileinkunar. Hvernig sálmarnir eru skipulagðir þjónar íhugun og innri eflingu. Aðferð Hallgríms er aðferð liðsstjóra þeirra sem vilja eflast í þroska trúarinnar. Hver sálmur er sem eining íhugunar. Dreginn er heim lærdómur og speki, sem píslargangan vekur. Skoðunin á ferli Jesú er ætlað að að styrkja einstaklinga, næra sál hins kristna. Skoðun og íhugun leiðir lesandan vítt og djúpt og þegar best lætur – til bænar. Jesús fer á undan og ég á eftir.

Þetta sameiginlega ferðalag verður til að staða mín sem mannveru frammi fyrir eigin sjálfi, öðru fólki og Guði skýrist. Eigindir, staða og brestir opinberast. Ég er sem á flæðiskeri. Að mér er sótt og synd mín er stór. Leiðin er aðeins ein, að fylgja líðandi konungi mínum allt til enda. Þrautaleið hans er ekki átakalaus sigurganga, heldur þjáningarfull ganga til lausnar. Í hverjum sálmi er niðurstöðu náð. Lofgjörð er hið rétta viðbragð trúar gagnvart baráttu hins líðandi en þó sigrandi höfðingja, sem veitir hlutdeild í sigri sínum.

Guð í Passíusálmunum

Passíusálmarnir eru trúarrit sem sver sig til liðins tíma og lúthersks rétttrúnaðar. Þeir eru orktir í anda klassískrar guðfræði og víkja í engu frá meginstefnu klassískra játninga kirkjunnar. Guði er lýst sem föður, skapara, dómara og hjálpara. En Hallgrímur Pétursson eins og Immanúel Kant síðar var trúr lútherskri hefð í því að virða takmörk skynseminnar. Vit manna væri takmarkað. Eðli Guðs og leyndardóma getur takmörkuð skynsemi ekki skoðað (21:1). Passíusálmarnir kenna því enga frumspeki. Myndin af Guði, föður er tvíþætt í sálmunum. Annars vegar er Guð ástmögurinn mikli, sem ber velferð heims og manna fyrir brjósti (44:4, 44:6, 3, 20). Sú ástarafstaða knýr einnig reiði, sem bregst við heimi sem fer villur vega (26:2, 12:22 o.áfr.). Guði er ekki lýst sem fjarlægum hátignarguði, heldur í stöðugum tengslum við heim. Á þann hátt einan þekkja menn Guð. Um himin og Guðseðli verður ekkert sagt sem ekki verður reynt í sambandi við Guð. Guð verður aðeins þekktur í tengslum.

Jesús í Passíusálmum

Jesú Kristi er í Passíusálmum er hvorki lýst sem hernaðarhöfðingja né dulrænum frelsara úr hæðum. Honum er lýst sem stjörnuprinsi sem afsalar sér stöðu sinni og verður líðandi fulltrúi mannkyns. Í sálmunum er því lítið rætt um hátignareigindir Jesú, s.s. alviturleika og almætti. Hallgrímur var ekki með hugann við guðfræðilegar útfærslur. Hann einfaldlega aðhylltist hefðbundnar kenningar um Guð og þar með um Jesú. Hann hafði trú á yfirskilvitlegri visku Jesú (1:24, 42:3) en verkefni sálmanna var ekki að skilgreina eða túlka merkingu hennar, heldur sýna ástgjöf hans. Passíusálmarnir eru saman settir út frá hugmyndinni „fyrir mig.“ Sá eða sú er elskar Jesú mun ekki aðeins verða vitni að ópersónulegu kraftaverki heldur eignast hlut í því.

Hið brotna jafnvægi og rásleysi

Þegar í fysta sálmi er talað til sálar: „Þurfamaður ert þú mín sál.“ Allt mennskt er brothætt og forgengilegt. Líkingarnar sem notaðar eru tjá þann veruleika okkar manna. Og pílagrímaganga manna varðar meðalhóf sem er siðfræði sálmanna. Við eigum hvorki að fara of skammt eða of langt. Illska og þjáning leiðast af markaleysinu. Báðum megin við reit manna og athafna þeirra er hengiflug, sem menn falla í og leiða aðra í ef þeirra er ekki gætt í hugsun, orðum og æði. Aðalmálið í lífi hvers manns að lúta engu valdi nema Guðs. Aðalmálið er að endurnýja eða treysta ástarbandið við Guð.

Manngildið

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Frá því í árdaga mannkyns hefur fólk spurt þeirrar spurningar. Aristóteles glímdi við hana, sjáendur Gamla testamentisins einnig. Jesús Kristur vann með þá spurningu með ýmsu móti og við komust ekki undan því að svara henni eða bregðast við henni með einu eða öðru móti, jafnvel þó við reynum okkar besta til að forðast hana.

Niðurstaðan er hin sama fyrir fólk allra alda og alls staðar í veröldinni. Lífið er mikils virði vegna þess að fólk elskar, fólk upplifir ástina, upplifir að lífið er í ástvinunum. Fáir munu við æfilok halda fram að það hafi verið eignirnar, peningarnir og efnisgæðin sem skiptu mestu máli. Og ég hef ekki hitt neinn sem heldur fram að aðeins átaklaust líf sé gott. Því oftar sem ég horfi í augun á fólki segja lífssögurnar því sannfærðari verð ég að þær eru ástarsögur – en vissulega í ótal tilbrigðum. Augun leiftra þegar fólk hugsar til baka og minnist samskiptanna, tilfinninganna, fæðinganna og ævintýranna. En áföll og píslarganga er hluti ævigöngunnar. Margir ástvinir bregðast, truflast og týnast. Það er sorglegt. Og sorg er hinn langi skuggi ástarinnar. Öll lifum við mótlæti, en lífið er þó stórkostlegt og gjöfult vegna þess, að við fáum að elska og vera elskuð.

Guðsástin

Í tilfinningum og ástarsögum manna og líka Passíusálmum getum við greint mikilvæga þætti mannfólksins. En við getum líka farið dýpra og séð í þeim ljósbrot af ástargeislum Guðs. Við megum gjarnan sjá í öllum elskutjáningum manna brot af því, að Guð teygir sig til manna, að Guð réttir hjálparhönd og Guð elskar. Og trúmennirnir túlka Guð sem hið eiginlega upphaf veru, veraldar og reynslu manna. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með.

Vissulega geta menn elskað þótt þeir trúi ekki á Guð, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku speglun himinelskunnar, sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum umföðmuð elsku himinsins. Við erum elskuð.

Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa er mikilvæg og áleitin. En við megum gjarnan stækka þessa spurningu og setja Guð í okkar stað. Ekki aðeins almennt heldur setja inn þarfir, tilfinningar og verðandi Guðs. Það er merkilegt að spyrja okkur sjálf hvað gerir okkar eigið líf þess vert að lifa því en það er rosalegri spurning að spyrja: Hvað gerir líf Guðs þess virði að lifa því? Þetta er magnþrungið að velta vöngum yfir að Guð verði fyrir áhrifum, finni til og breytist jafnvel. Ef við reynum að ímynda okkur mannlegar víddir í Guði náum við jafnvel að tengja betur við sögu okkar manna, sjálf okkur og furður lífs okkar. Kristnir menn hafa í tvö þúsund ár gruflað í af hverju Guð hafi orðið maður. Af hverju sá Guð ástæðu til að stíga inn í ruglingslegan heim tíma og efnis? Af hverju kemur hið stóra inn í smáheiminn? Af hverju steðjar máttarvald alheimsins inn í kima þessarar vetrarbrautar?

Ég tek mark á heimspekigreiningu upplýsingartímans og tel hvorki né trúi að við menn getum skilgreint eðli Guðs. Við höfum ekki nema brotkennda skynjun og túlkunargetu varðandi hvað Guð er. Þetta þýðir, að við getum og megnum ekki að smíða frumspekikenningar um Guð. Hins vegar er ekkert, sem bannar okkur að reyna að tjá afstöðu, innri skilning og trúarskoðun. Sú tjáning er eins og bæn eða ástarjátning. Þannig orkti Hallgrímur um ástina í veröldinni. Líf er flókið en ástin er hrein.

Af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára veraldarinnar, sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju nemur það, sem er allt – hitt sem er nánast ekkert? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínum flotta dansi á balli í eilífðinni. Af hverju tekur Guð eftir þér í þínum aðstæðum, heyrir í þér, ber þig á örmum sér, finnur til með veikum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína, og vitjar þín, kemur til þín þar sem þú er kominn í strand, í öngstræti og á enda? Það er vegna þess, að Guð elskar. Ástin lokar aldrei heldur opnar út, hrífst, leitar tengsla, viðfangs, faðmlags. Guð er vanur að elska í fjölbreytni samfélags guðdómsins. Guð leitar út í ástalífi sínu, er aldrei innilokaður og sjálfhverfur, heldur ríkur og fangvíður. Þannig er Guð ástarinnar og sagan af Guði er fyrst og síðast ástarsaga. Og þannig ástarverk eru Passíusálmarnir.

SÁÞ. Fræðslusamvera í Hallgrímskirkju 2. mars 2021 í röð erinda og viðtala um ást í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar. Hjóðvarp – þ.e. upptaka þessa erindis sem og viðtöl í röð samtala um ást í passíusálmum er að baki þessari smellu. 

Meðfylgjandi mynd tók ég af málverki í stórverslun í San Francisco í janúar 2018. 

 

 

Lifandi vatn

Hér að neðan er styttur fyrirlestur minn um vatn, vatnssókn kvenna í heiminum og samversku konuna sem Jesús talaði við. Lesturinn birtist einnig sem grein í 51. hefti Ritraðar Guðfræðistofnunar og hægt er að nálgast greinina að baki þessari smellu

Lifandi vatn

Vatn er þungi kvenna veraldar. Konur og stúlkubörn sækja vatn í 80% tilvika á hinum fátækari svæðum heims þar sem brunnar eru ekki nærri híbýlum fólks.[1] Yfir tveir milljarðar manna hafa ekki aðgang að vatnsveitu í húsum sínum og njóta þar með ekki góðrar hreinlætisaðstöðu. Um aldir og um allan heim hefur verið hlutverk kvenna að afla vatns. Því fjær sem vatnsból hafa verið frá heimilunum, þeim mun lengri tími hefur farið í vatnsburðinn. Tímafrek vatnssókn hefur verið á kostnað skólagöngu. Góðir brunnar eru vinir kvenna og forsenda þess að þær geti menntast. En þegar vatnið þrýtur eru þær oftast teknar úr skóla til að bera vatn. Vatnssókn er erfið, oft heilsuspillandi og afar tímafrek. Á hverjum degi nota konur heims um tvö hundruð milljón klukkutíma til að bera vatn heim fyrir sig og sína. Þann tíma vildu flestar þeirra fremur nýta með börnum, á heimilum, til gleðimála og menntunar.[2] Vatns­streita heimsins bitnar á konum. Vatnsbætur eru í þágu kvenna og lífsgæða fólks.

Konan og vatnssamtalið

Biblíukonur sóttu vatn. Sagan um samversku konuna við Jakobsbrunn sem Jesús Kristur talaði við er ein af ástsælustu sögum Biblíunnar. Sagt er frá fundinum og samtali þeirra í fjórða kafla Jóhannesarguðspjalls. Jesús var á ferð og var þyrstur. Hann ávarpaði konuna og bað um vatn. Af hverju náði hann ekki í það sjálfur? Samtalið varð kostulegt. Guðspjallshöfundurinn hafði greinilega gaman af að segja söguna og rita, því að hún er á mörgum plönum, þvers og kruss og upp og niður. Konan og Jesús töluðu í kross. Einföld beiðni þyrsts manns varð mikið drama, sem endaði með því að konan rauk öskrandi inn í nærliggjandi þorp. Í sögunni um Jesú og konuna flæðir yfir allar brúnir. Það er ofgnóttin í frásögunni sem er áhrifarík. Í sögunni er merkingarplús.

Kona utan hrings?

Hvað merkir þessi frásaga um konuna og Jesú við brunninn? Kirkjufeðurnir töldu að konan hefði verið vafasöm kvenpersóna. Ástalíf hennar hefði verið ansi skrautlegt því að hún hafði átt marga menn. Strax þegar safaríkar sögur eru sagðar fer ímyndun tilheyrenda af stað. Var konan daðurdrós á karlaveiðum? Hún sótti ekki vatn á sama tíma og hinar konurnar sem notuðu kælu morguns eða kvölds til vatnsburðarins. Af hverju? Varð hún að fara á öðrum tímum en hinar siðsömu? Vildu þær ekki leyfa henni að vera í kvennahópnum? Fékk hún ekki að fara með þeim? Eða var skömm hennar svo mikil að sjálf vildi hún ekki vera í samfloti með öllum hinum? Var hún úrhrak samfélagsins? Var henni hafnað af því hún var brotleg kynferðislega og hafði lent utan við ramma þess vegna? Það eru þessi stef eða þættir sem höfundar og prédikarar aldanna hafa einkum staldrað við, útmálað og skrifað um með mörgum orðum og litríkum hætti.

Samkvæmt forsendum hins gyðinglega samfélags var konan talin útlensk. Hún var samversk. Hún átti ekki aðild að hinum viðurkennda hópi innvígðra og réttborinna Gyð­inga. Hún var því sniðgengin af öllum rétttrúuðum og rétthugsandi — nema af Jesú. Hann hlýddi ekki alltaf reglunum og oft, jafnvel óþægilega oft, gerði hann ýmislegt sem var öðruvísi en fólk átti von á og óskrifaðar reglur sögðu að væri rétt hegðun. Hann vann með fordóma í orðum og hegðun. Svo var þessi kona búin að eiga fimm eigin­menn og var með sjötta karlinum. Það er flóð í ástarsögum konunnar, nánast efni í heila sápuþáttaröð. Biblíulesendur aldanna hafa undrast og furðað sig á ístöðu­leysi hennar og reynt að finna hliðstæður í dramatískum konum eigin samtíðar. Þessi undar­lega kona var teiknuð upp sem „öðruvísi“ og óútreiknanleg, femme fatale. Sam­kvæmt föstum samfélagsviðmiðum var hún neðar í goggunarröðinni, að minnsta kosti í vatnsburðar­röðinni, en hinar konurnar. Það var ekki gæfuleg staða sem hún var í þegar hún kom að brunninum og hitti Jesú sem þekkti allar samfélagsreglur brunnasóknar og vatns­mála þjóðar sinnar og nágranna líka. Hann vissi að kona sem kæmi á þessum tíma að brunninum væri utan við heiminn. Hún væri vondum málum.

Hún saurug en hann hreinn

Beiðni Jesú Krists var einföld: „Gefðu mér að drekka.“ Svo fóru þau að skiptast á orðum og setningum sem ekki tengdust. Þau töluðu þvers og kruss. Þegar Jesús bauð konunni lifandi vatn brást hún við með tæknilegri ábendingu. Hann hefði ekkert til að ausa með. Brunnurinn væri djúpur. Hvaðan fengi hann þetta lifandi vatn? Konan skildi ekki orð og merkingu Jesú, allt þar til þetta með lifandi vatnið skvettist inn í vitund hennar. Hvað átti maðurinn við? Gat verið að þetta væri hann? Hann vissi svo margt. Gæti verið að loksins, loksins væri eitthvað að gerast?

Konan vissi auðvitað að brunnurinn var kenndur við Jakob, sem var erkihetja hebreskrar sögu og hálfguðlegur forfaðir íbúanna í Palestínu. Brunnurinn hafði því mikilvægu táknrænu hlutverki að gegna. Í konunni kviknaði neisti, spratt fram hugsun, spurning, kenning, grunur. Gæti verið að þetta væri framtíðarleiðtoginn sem beðið væri eftir? Messías? En hvað um mig?

Um aldir var þessi biblíutexti túlkaður sem tvennutexti, saga með andstæðum. Jesús var túlkaður sem lausnari. Hann bauð vatn lífsins, hafði öll svör á hreinu, vissi allt um konuna og las hana eins og opna bók. Hann gat allt og olli uppnámi hjá henni, sem var öðruvísi en hinar konurnar, fór á skrítnum tíma að brunninum, á versta tíma og í mesta hita dagsins. Sem sé, þarna voru, samkvæmt túlkun aldanna, hinn mikli og hin aumkunarverðasta. Hann gat fært konunni vatn lífsins en hún honum aðeins skítugt brunnvatn. Þau voru á sitt hvorum enda gilda- og virðingarstigans. Hann á toppnum og hún á botninum. Konan var eins og tæki til að sýna hvað Jesús væri klár. Hún var sorinn en hann sonur Guðs. Er þetta það sem textinn segir okkur? Eða er kannski eitthvað meira í þessum texta en tjáning á að karlar eru toppmenn og konur á botninum? Er eitthvað sem við sjáum ekki og getum kannski ekki séð vegna þess að gleraugu okkar, fordómar, brengla?

Skilningur á textum breytist — túlkun

Klassískir textar hafa löngum verið túlkaðir í samræmi við viðurkenndar skýringar­reglur. Þannig hefur það verið með flesta bókmenntatexta, heimspekitexta og að sjálf­sögðu einnig biblíutexta. Á tímum ólæsis var Biblían ekki á allra færi. Því voru sögur Biblíunnar oft myndgerðar. Fólk hafði í guðshúsunum aðgang að myndum af biblíu­atburðum, biblia pauperum. Í öllum hefðum skapast menning og kenningakerfi sem stýra hvernig eigi að tjá hið mikilvæga, megi túlka og þar með skilja. Túlkunar­lyklarnir stýra og flokka. Biblíutúlkun var með slíku móti og mótaði hvernig ætti að skilja og miðla. Svo komu reglulega fram öflugir greinendur sem bentu á veilur og hvað væri betri skilningur og hvað væri rangt. Marteinn Lúther var einn slíkra rýn­enda Biblíunnar. Hann hafði lagt á sig að læra klassísk mál, las texta Biblíunnar á frummálum og gat því borið saman upprunatextann, þýðingar og túlkanir. Í tilviki Lúthers og fjölda annarra kom í ljós að stöðugt þyrfti að rýna í textana því að forsendur síðari tíma voru gjarnan til hindrunar og leyfðu ekki Biblíu­textunum að hljóma eða skiljast í samræmi við eigin forsendur. Síðari tíma forsendur eru oftast grisjandi fordómar og skilningurinn sem fæst er rangur miðað við forsendur biblíutextanna.

Biblíurannsóknir, eins og aðrar rannsóknir fornra texta, breyttust á tuttugustu öld. Fræðimenn nýttu fornleifarannsóknir, bætta þekkingu á menningu, náttúru, trúar­brögðum og pólitík Rómaveldis og þjóðanna sem þeir drottnuðu yfir. Þar með breyttust hugmyndir þeirra um merkingu margra biblíutexta og stundum opnuðust þeir. Með textatúlkun síðustu ára hefur m.a. verið hægt að greina hvernig fólk hefur lesið og skilið textana með mismunandi móti á mismunandi tímum. Viðbrögð almennra lesara og viðbrögð þeirrahafa fengið gildi í nútímatextafræði. Hlutverk biblíufræðanna er ekki aðeins það að kreista fram einhverjar staðreyndir og óumbreytanleg algildi eða stórasannleika úr ritum eða af blöðum Biblíunnar. Sandra M. Schneiders skrifaði með þessa þróun í huga: „… frá átjándu öld til miðrar tuttugustu aldar var nálgun og túlkun sögu og texta fyrst og fremst hlut-túlkun (e. object-centered). Lesendur texta voru sjaldnast spurðir. Og ef viðtakendur biblíutextans komu í ljós urðu ritskýrendurnir tortryggnir.“[3] Þá var eins og þeir yrðu hræddir við að biblíufrásögurnar yrðu ekki eins trúverðugar og vera ætti, ekki eins hlutlægar og keppt væri að. Hvernig getur vitni sagt satt? Er tilveran minna trúverðug í frásögn vitnis? Hvað er satt, hvernig og frá hvaða sjónarhóli?

Lifandi fólk, hagsmunir og afstaða

Biblíufræðin hafa safnað þekkingu og skilningi á fjölmörgum menningarkimum Biblíunnar. Á síðari áratugum hafa biblíufræðingar þorað að skoða betur upplifun og túlkun fólksins sem kom við sögu í ritum Biblíunnar, hópum þeirra og hvernig menningarforsendur stýrðu upplifun þeirra og nálgun. Hvaða hagsmunum var þjónað í þessum textum og við ritun þeirra? Hvaða hópar tókust á? Hvaða hug­myndir urðu ofan á og hverjar voru bældar eða strokaðar út? Biblíulestur fræði­manna breyttist. Ekki var lengur reynt að kreista út kjarnann sem væri hið guðlega aðalatriði og gilt fyrir allar aldir, alla menn og alltaf. Nálgunin varð opnari þegar textar Biblíunnar voru skoðaðir sem marglaga, textar sem segja margar sögur, túlka alls konar tilfinningar einstaklinga, fordóma, visku, tengsl, hagsmuni, vonir og hópa sem koma við sögu. Fortíð kemur við sögu hvers texta, sem og samtíð. Framtíðin kyssir þá líka. Í stað einhæfrar túlkunar hafa nútímabiblíufræði opnað fyrir marg­ræðni og ýmsa túlkunar­möguleika. Í Biblíunni eru margar uppsprettur, uppsprettur margra alda. Í henni er sí­rennsli merkingar og líka ástarkossar eilífðar. Einstakir hópar, kirkju­deild­ir og fræði­menn hafa haft skoðanir á því að ákveðin kvísl flóðsins væri hin eina nytsamlega og heilnæma og því hafnað öðrum. Það sem ekki var valið vék í skugg­ann eða hvarf. Biblían hefur líka verið notuð sem vopn í baráttu og því verið túlkuð til að berja á þeim sem hafa farið aðrar leiðir en valdhafar — andlegir eða veraldlegir — hafa boðað og skipað.

Biblían er stór og frá henni flæða margar merkingarkvíslar en þær geta þó tengst á mismunandi tímum og í samræmi við þarfir tímanna. Á einum tíma tók Lúther eftir að Guð Biblíunnar er Guð elsku og gleði. Á öðrum tíma uppgötvuðu vitrir menn í kirkjum Suður-Ameríku að í Biblíunni er mikið talað um réttlæti. Síðar fóru æ fleiri, t.d. kvennaguðfræðingar, að heyra raddir kvenna í þessu mikla safni. Sagan um konuna við Jakobsbrunn hefur verið opnuð og ritskýringarforsendurnar hafa breyst. Konan hafði rödd og Jesús Kristur hlustaði og talaði við hana.

Á tali við konuna við brunninn

Sagan um samtal konunnar og Jesú um vatnið er dæmi um marglaga og margvíðan texta, sem nálgast má með ólíku og margbreytilegu móti. Flestir ritskýrendur aldanna hafa túlkað konuna sem kynlífsveru fremur en manneskju. Hvernig samfélagið skil­greindi ástalíf, stöðu og samskipti kynjanna stýrði nálguninni. Tvíhyggja réð oftast túlkun og Jesús Kristur var fyrst og fremst teiknaður upp sem andlegur snillingur — en konan var túlkuð sem jarðbundin holdgerving lostans. Andstæður túlkunarinnar, tvenndirnar, voru:

andi — fýsnir

lifandi vatn — brunnvatn

karl — kona

yfirstétt — undirstétt

hinn réttborni — útlendingurinn

við — þið

Hvað gerist ef þessir lyklar eru teknir út og geymdir? Hvað gerist ef sagan er skoðuð með nýjum hætti og án þessara túlkunarforsendna og fordóma? Hvað ef konunni er gefinn séns? Getur verið að við heyrum kannski líka í Jesú með nýjum hætti? Verður hann nær okkur en handan við tvö þúsund ára hljóðtjöld fordóma?

Hið eftirtektarverða er að konan reyndi Jesú. Hún lagði próf fyrir hann. Hún hlýddi honum yfir, þorði að spyrja hann lykilspurninga og gaf ekki færi á klisjum og gervi­lausn­um. Hún þorði að hlusta, hrífast og bregðast við. Hún greindi að mál og við­fangs­efni með greind hins skarpa hugar, raðaði síðan saman öllum brotunum og komst að viturlegri niðurstöðu. Hún dró ályktanir út frá forsendum og rökum. Hún þorði að treysta lífsreynslu sinni og gáfum. Hún þorði að hugsa og komst að niður­stöðu um það sem hún sá, heyrði og upplifði. Niðurstaðan var sú að hún skildi Jesú eftir við brunninn og hljóp inn í bæ til að segja fréttir. Hún var kannski ekki í þeirri stöðu í samfélaginu að mega hafa miklar skoðanir eða tjá þær opinberlega. En þegar hún komst að niðurstöðu um stærstu mál lífs síns og samfélags þá var ekki neitt hik. Konan gat ekki þagað um stórmál. Hún hljóp inn í bæ og varð boðberi Jesú og lærisveinn, kona sem þorði jafnvel að fara gegn öllum fordómum, valdaaðilum og hæðni samfélagsins. Þegar hún sagði fáheyrð tíðindi var hlustað.

Tilfærsla — ný staða

Ef sagan um konuna við brunninn er skoðuð með þessum hætti verður boðskapur­inn dramatískur. Útlend kona af lægstu stétt, úrhrak úrhrakanna, naut boðskapar um lífið í heiminum. Hún, sem allir töldu óverðuga, var verðug að heyra, skilja, trúa og síðan bera fram boðskapinn. Hún, en ekki einhver karl, varð postuli Samverja. Læri­sveinn Jesú kom úr hópi kvennanna, hinna lægstu meðal lágra. Konan sem þorði. Hún mótmælti ekki aðeins Jesú, heldur benti honum á staðreyndir brunnmálanna. Hún þorði líka að segja tortryggnu fólki ótrúlega sögu. Hún talaði þar sem hún vildi, brást við, hugsaði og notaði skýra dómgreind.

Sagan um samversku konuna lýsir konu í ómögulegum aðstæðum sem varð að nýrri mannveru, færðist úr því að vera týnd og fávís yfir í að finna og fara síðan áfram með unna sögu, skýra merkingu og boðskap. Þetta var tilfærsla konunnar úr heimi fordóma, fortíðar og lágkúru til konu með hlutverk himins í heimi. Hún er í sögunni rétt við úr lægð og túlkuð sem skilningsríkari og vitrari en flestir aðrir í návist Jesú. Hún var ekki bara þögguð og falin heldur lyft upp sem guðhetju.

Engin gunga!

Áhugavert er að skoða samhengi sögunnar í guðspjallinu. Í kaflanum á undan var sagt frá öðrum fundi Jesú. Yfirstéttarmaður kom til meistarans til að ræða við hann. Hann hét Nikódemus og var innvígður og innmúraður Gyðingur og vildi ræða trú­málin. Hann naut sömu athygli Jesú, nándar og djúpsamtals og konan við Jakobs­brunn. Hann hafði svipuð tækifæri og hún til að greina og tengja. En hann þorði ekki. Hann var gunga sem hætti ekki stöðu sinni og orðspori. Hann fór og hvarf og kom ekki fram að nýju í Jesúsögunni fyrr en hann lagði til gröf fyrir hinn kros­sfesta. Hann var maður grafar og dauða. Afstaða gungunnar Nikódemusar skapar andstöðu við kjark og þor konunnar. Milli hans og hennar er innrím andstæðu. Lærisveinar Jesú voru stundum flónslegir, skildu ekki speki eða meiningu Jesú Krists. Í samanburð­inum við þá var samverska konan fljót að greina hismi frá kjarna. Hún átti ekki í vandræðum með að skilja. Hún var klók og skörp. Þau Jesús töluðu ekki lengi í kross. Það var bara í byrjun. Þau tengdu fljótt og skildu hvort annað.

Trú og ljós

Myndmálið í sögunni um konuna við brunninn er merkilegt. Hún kom um hádegisbil, sem var ekki brunntími kvenna í þorpinu. Þessi hádegisferð segir líklega minna um stund og tíma en um innri getu og trú. Konan kom til að taka við ljósi lífs. Ferðir hennar voru ekki bara hefðbundnar. Hún hafði getu til að fara og sækja í lífsgæði sem aðrir áttuðu sig ekki á, höfðu ekki döngun í sér til að nýta og njóta. Konan hafði getuna til að taka við lífsvatninu en ekki bara gamla, fúla brunnvatninu.[4] Konan ræddi opinskátt við Jesú, hlustaði, bar fram andmæli og benti á staðreyndir. Hún heyrði rök, greindi víddirnar, komst sjálf að merkilegri niðurstöðu og tjáði hana öllum sem vildu heyra. Það varð síðan til þess að allt þorpið hitti Jesú. Samverska konan varð eins og samtímaútgáfa af Móse sem barði í steininn og fram spratt vatn til að gefa hinum þyrstu að drekka. Hún var sem Jóhannes skírari sínu fólki, spámaður, lærisveinn og postuli!

Þegar fordómum er sleppt og ekki reynt að strípa samversku konuna getur saga og texti opnast. Þá kemur í ljós að það er flóð í þessum biblíutexta.[5] Grunur vaknar um að kannski hafi konan alls ekki verið úrhrak. Kannski var hún klár og vissi hvað hún söng og sagði? Kannski var hún jafnvel skarpari en hinir lærisveinarnir, betri guð­fræð­ingur og kunnáttusamari manneskja en flestir, með himin í hjarta? Kannski var hún frjálsari, opnari, styrkari og meiri leiðtogi en aðrir? Er kannski næring í þessu flóði textans sem konan býður okkur? Lifandi vatn hennar og lifandi vatn Jesú?

Vatnið í Jóhannesarguðspjalli

Vatn kemur víða við sögu og er stef í guðspjalli Jóhannesar. Tengja má þessa brunn­sögu og samtalssögu við frásögnina um þorstann í krossfestingunni. Í dauðastríðinu þyrsti Jesú og bað um vatn. Öllu var snúið við og teygt í krossfestingarfrásögunni. Hið mikilvæga og mesta, lifandi vatn, Andi, þarfnaðist hins lága og ónóga, brunnvatns, sem er andhverfa þess sem guðspjallið annars kennir. Frá krossþorstanum er fólki beint til sögunnar um lífsvatnið. Báðar kvíslarnar eða flaumarnir renna saman. Hið andlega þarfnast hins efnislega. Og öfugt líka: Hið efnislega þarfnast hins andlega í lífi fólks í heiminum. Manneskjur lifa ekki af vatninu einu, heldur þarfnast svo margs að auki. En allt það sem er að auki lifir ekki án vatns. Vatn heldur lífi í lífverum. Öll speki heimsins hverfur ef vatnið hverfur. Skilningsljósin slokkna þegar skrúfað er fyrir vatnið. Svo dramatísk eru vatnsmál veraldar.

Vatn og þungi kvenna

Samverska konan fór að brunninum um miðjan dag. Margar konur eru í samtíð okkar á ferð við brunna og lindir á öllum tímum dagsins af því þær hafa ekkert val. Þær eru kven­kyns og í menningu þeirra er það að sækja vatn skilgreint sem kvennaverk. Vand­inn er félagslegur, menningarlegur og kerfislegur. Hafði samverska konan val? Gat hún sagt við sjálfa sig að hún nennti ekki að fara og færi bara seinna? Nei, hún varð að sækja vatn því að annars væri lífi ógnað. Var þessi kona stödd þarna við brunninn til að leita að körlum? Var það ástæðan fyrir tímasetningu vatnssóknar­innar? Nei, það er ólíklegasta skýringin. Að vera ein á ferð á óeðlilegum tíma stofnaði aleinni konu í hættu. Reynsla kvenna af slíkum ferðum var — og er — skelfileg. Á konur sem eru fjarri öðrum er ráðist. Villidýr merkurinnar leita uppi konur einar á ferð en líka villidýr mannheima sem leita uppi þær konur sem eru utanveltu, standa höllum fæti og njóta ekki stuðnings annarra. Á einsömul stúlkubörn er ráðist, unglingsstúlkur og konur sem eru einar á ferð. Þeim hefur verið — og er —  misþyrmt og nauðgað. Í samtímanum höfum við lært að kenna ekki þolendum um ofbeldisverk. Þegar konur ná í vatn hefur það sjaldnast verið til að tæla aðra. En það hefur oft verið ráðist á slíkar konur. Það er ekki þeirra sök. Konur eru í hættu í vatnsleit og í vatnsferðum. Sagan um Jesú og konuna við Jakobsbrunn er mögnuð saga, sem varðar vatnssókn, vit og trú. Lifandi vatn og gott brunnvatn er kröftugur kokteill.

 

[1] „Facts and Figures“, UN Water, ódagsett, sótt 21. september 2020 af https://www.unwater.org/water-facts/gender/.

[2] „UNICEF: Collecting Water Is Often a Colossal Waste of Time for Women and Girls“, UNICEF, 29. ágúst 2016, sótt 21. september 2020 af https://www.unicef.org/media/media_92690.html. Sjá einnig „The Water Crisis“, Water.org, ódagsett, sótt 21. september 2020 af https://water.org/our-impact/water-crisis/.

[3] Sandra M. Schneiders, „The Gospels and the Reader,“ The Cambridge Companion to the Gospels, ritstj. Stephen C. Barton, New York: Cambridge University Press, 2006, bls. 97.

[4] Jerome Neyrev, The Gospel of John: The New Cambridge Bible Commentary, New York: The Cambridge University Press, 2007, bls. 87–88.

[5] Sandra M. Schneiders, Written That You May Believe: Encountering Jesus in the Fourth Gospel, New York: Herder and Herder, 1999, bls. 143–144.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Bertel Thorvaldsen

Hádegisbænir voru í Hallgrímskirkju kl. 12 á Þorláksmessu 2020. Þrátt fyrir að stutt væri til jóla og annir í öllum húsum kom hópur fólks í kirkju. Fjöldinn var þó innan viðmiða sóttvarnalænis og ráðherra. Meðal viðstaddra var Ólafur Egilsson, fyrrum sendiherra. Eftir bænir kom hann til mín brosandi og rétti mér pakka. „Mig langar til að færa þér bók á afmælisdegi þínum“ sagði hann. „Áttu afmæli?“ hljómaði þá frá nokkrum sem stóðu nærri. Ég sá svo að þetta var nýja bókin um Bertel Thorvaldsen. Ég bað Ólaf að skrifa fremst í bókina. Svo áttaði ég mig á að bókin var endurútgáfa og hafði fyrst komið út í lok seinni heimsstyrjaldar. Höfundurinn var Helgi Konráðsson sem ég vissi að hafði verið prestur í Skagafirði því ég hafði þjónað fólkinu hans. Ég vissi líka að ég hafði séð frumútgáfu bókarinnar og mundi að kjölurinn var blár og vandað hafði verið til útgáfunnar.  

Svo fór ég heim með þessa nýju, fallegu bók. Hún beið mín í góðu yfirlæti með hinum jólabókunum. Seinni partinn í janúar fékk ég næði til að lesa og stundum upphátt fyrir konuna mína. Ég heillaðist af kyrrlátri, hófstilltri alúð og aðdáun höfundar á söguhetjunni Bertel Thorvaldsen. Bókin er vel skrifuð og farið í sauma á flestum álitaefnum. Spurningum er svarað um sögu og persónu Thorvaldsens, um íslenskan bakgrunn, ættboga, bernsku, nám, mótun hans sem listamanns og hvernig fátækur verkamannssonur gat brotist til náms og orðið einn helsti listjöfur og menningarstjarna Evrópu 19. aldar. Ég furðaði mig líka á að skagfirskur prestur á fyrri hluta 20. aldar – í miklum önnum prestsstarfs og kennslu – skuli hafa lagst yfir Thorvaldsensfræðin, farið í saumana á álitaefnum og ferðast um heiminn til að skoða staði og staðhætti á slóðum Thorvaldsens, skrifað og komið út þessu mikla ritverki í miðri heimstyrjöld. Ég dáist að afreki Helga og lof sé honum.

Hvernig bók er Bertel Thorvaldsen – ævisaga? Hún rekur bakgrunn og segir sögu Thorvaldsens frá upphafi og til enda. Þetta er engin jarðteinasaga um dýrling sem höfundur dáir án vitundar um breiskleika. Helgi mótar ásýnd Thorvaldsens af alúð listamannsins, nánast meitlar hann í orðastein, segir frá kostum og göllum söguhetjunnar, málar persónueinkennin skýrt, forðast ekki skuggana heldur metur og rýnir eins vel og hann getur og skýrir forsendur sínar. Þetta er ævisaga en það er fræðaleitandi prestur sem greinir. Þetta er þó ekki súper-útfararræða. En Helgi naut þess við skrifin að hafa oft jarðað og skrifað minningarorð um látið fólk. Hann þekkti hvernig hægt væri að gefa í skyn í stað þess að fella ógrundaða dóma um álitamál. Fræðimenn um líkræður presta geta því séð í þessari bók þroskuð og fræðilega vel unnin minningarorð. Bókin er þó ekki skrifuð sem kristileg bók. Forsendurnar eru fremur menningarlegar og þjóðernislegar en kirkjulegar. Bókin er skrifuð á árunum fyrir stofnun lýðveldisins. Hún þjónar m.a. því hlutverki að tengja Thorvaldsen við menningu Íslands, sýna að Ísland gæti lagt til manns sem færi á toppinn í menningu heimsins, sem var mikilvægt þegar fólk var að æfa sig í sjálfstæði þjóðarinnar. Helgi naut þess að vera mótaður prestur sem kunni til fræða og verka og gat að auki lagt menningu Skagfirðinga lið sem og mótun þjóðernisvitundar í aðdraganda lýðveldisstofnunar. Að bókin var af útgefendum skilin sem framlag til sjálfstæðibaráttunnar sést á umslagi eða bókarhlíf 1944-útgáfunnar. Þar segir: Bertel Thorvaldsen mestur listamaður Norðurlanda. Listgáfa hans var af íslenzkum rótum runnin.

Bók Helga um Bertel Thorvaldsen opnaði mér ýmsa heima. Þó ég hafi kynnt mér hugmyndasögu tímans eftir upplýsingu þekkti ég ekki nema fáa í heimi höggmyndalistar Evrópu þess tíma. Mér þótti merkilegt að fylgjast með hvernig listamenn urðu til um og eftir aldamótin 1800, hvernig þeir þjónuðu fólki, hreyfingum og þjóðum á miklum pólitískum, menningarlegum og hernaðarlegum umbrotatímum. Thorvaldsen vann fyrir fólk þvert á ýmsar átakalínur. Á sóttvarnatíma þegar við fórum ekki í utanlandsferðir var skemmtilegt að kynnast ferðaháttum fyrri tíðar og fara allar langferðirnar um Evrópu með Thorvaldsen á sjó og á landi. Þetta voru raunverulegar langferðir og sumar voru margra mánaða ferðir. Fjölskyldumálum Thorvaldsens er lýst, kvennamálum og tengslum. Presturinn greinir varkárni höfundarins, prestsins, við skrifin og skort á dýpri skýringum. Af hverju voru tengsl Thorvaldsens eins og þau voru? Menningarlífið í Róm er skemmtilega uppteiknað og skapandi spennan milli kristni og grískrar hefðar, fagurfræði og speki. Svo kemur goðafræði Norðurlanda við sögu og nafnið Þór – enda maðurinn Thor-valdsen. Þróun hugmynda Thorvaldsens er lýst og hve trú skipti hann æ meira máli eftir því sem hann kynntist fleiri konum og aldur færðist yfir og hann fékk fleiri verkefni fyrir kirkjur. Tilurð og samhengi myndverkanna í Frúarkirkjunni er skýrð. Færni handverksmannsins Thorvaldsens er vel lýst enda maðurinn upprunalega oddhagur smíðasveinn. Við lestur bókarinnar uppgötvaði ég hvernig breytingar urðu á nálgun, hugsun og aðferðum myndhöggvara á tíma Thorvaldsens sem skýrði fyrir mér hvað gerðist síðar og af hverju maður eins og Einar Jónsson spratt fram á Íslandi. Menningarsaga Kaupmannahafnar, þ.e. tímabilsins frá 1770 til 1850, er sögð og Thorvaldsen gegnir þar merkilegu hlutverki. Skírnarfontar Dómkirkjunnar og Akureyrarkirkju koma við sögu og hvernig Miklabæjarkirkja tengist og á tilkall eða pant í fonti Dómkirkjunnar.

Ég sat svo við og las og las. Hin agaða ást Helga Konráðssonar á viðfangsefni sínu heillaði, getan til að skrifa, ótrúlega litríkt viðfangsefni, mikil fræðsla og hve bókin var allt öðru vísi en ég hélt að hún væri. Hún hélt mér við efnið. Ólafur Egilsson og fleiri eiga þakkir skildar fyrir að koma þessari bók út að nýju. Bjarni Harðarson, útgefandi, fyrir metnaðinn, Skagfirðingum og fleirum fyrir að styrkja útgáfu þessa rits um Skagfirðing og skrifaðri af Skagfirðingi. Myndirnar sem bættust við þessa útgáfu eru til bóta og skýringar. Formáli Guðna Th Johannessonar er líflegur og eftirmáli Stefano Grandesso, listfræðings, hinn merkasti og opnar listasöguna fyrir okkur lesendum.

Þegar ég var kominn af stað að lesa sótti æ sterkar að mér að ég þekkti ekki bara kjöl bókarinnar. Ég vissi að ég hafði ekki lesið bókina en þóttist eiga hana. Svo ég fór í bókahvelfinguna í kjallara húss okkar. Og mikið rétt þarna var komin fyrri útgáfan og Lilja Sólveig Kristjánsdóttir og Siguringi Hjörleifsson höfðu átt bókina og frá þeim kom hún til mín. Svo lentu bækurnar saman á stofuborðið, glæsileg stríðsútgáfan frá 1944 og svo þessi fallega bók næstu kynslóðar. Þær kystust, góðar báðar. Takk Ólafur Egilsson. Ég mæli svo sannarlega með æfisögu Helga Konráðssonar um Bertel Gottskálsson Thorvaldsen, Skagfirðing. Vinir mínir geta fengið aðra hvora bókina að láni. 

Umfjöllun Hreins S. Hákonarsonar um bókina er hægt að nálgast að baki þessari smellu

Myndina af Kristsstyttu Thorvaldsens í Frúarkirkjunni tók ég í október 2017.

 

 

 

 

Guði að kenna?

Fjöldi fólks hvarf í svelg skriðunnar í Gjerdrum. Og Norðmenn spyrja. Af hverju? Við Íslendingar spyrjum gagnvart snjóflóðum og aurskriðum vetrarins: Af hverju? Næsta spurning er oft: Höfum við gert eitthvað af okkur? Heimsbyggðin spyr í nærri ársgömlu heimsfári: Af hverju? Voru gerð einhver mistök? 

Stórar spurningar kalla á stór svör. Sum varða mistök manna og rangar ákvarðanir. En svo vakna líka trúarspurningar. Í leikriti Shakespeare um Lér konung er spurt hvort mennirnir séu eins og flugur, sem guðirnir leiki sér að því að deyða. Er Guð valdur að dauðaskriðum? Er Guð að leika sér að því lauma veirum á milli lífkerfa á votmörkuðum í Kína og inn í mannheima til að gera tilraunir með fólk eða kannski bara skemmta sér? Er Guð eins og skapillur risi, harðbrjósta ofurvera sem ekki virðir reglur. Er það sá Guð sem við þekkjum og trúum á? Nei, svo sannarlega ekki.

Af hverju leyfir Guð að þetta komi fyrir? Fólk spyr, þegar áföllin dynja yfir, sjúkdómar æða, slys verða og ástvinir deyja. Glíma við sorg og merkingu þjáningarinnar er sístæð. Á öllum öldum hafa menn reynt að skilja hið óskiljanlega, botna í sorginni og leita trúarlegra raka. Í Biblíunni eru margar Guðsglímurnar vegna þjáningar, t.d. sagt frá hinum guðhrædda Job sem ekki skildi af hverju Guð leyfði að hann þjáðist án tilefnis. Trúarhefðirnar reyna að svara hinum stóru spurningum um illsku og þjáningu.

Einhæfni í guðstúlkun

Var Guð í heimsfaraldri og flóðum? Spurningin varðar Guðsímyndina og þær myndir, sem við notum til að túlka Guð. Ef Guð er í okkar huga sem einræðisherra er ekki einkennilegt að spurningin um Guð í flóðinu vakni. Slík mynd af Guði túlkar gjarnan bókstaflega hugtök um almætti og alvitund Guðs og önnur álíka. Síðan eru einnig oftúlkaðar líkingar af Guði sem heimssmið, konungi, herforingja, heimsarkitekt, tyftara, dómara og stríðsherra. Ef allt er tekið saman og menn varpa síðan yfir á Guð bókstafsskilningi á þessum hlutverkum í heimi manna verður til ímynd af guði sem allt skipuleggur fyrirfram. Guð sem hefur í höndum sér allt til góðs og ills í heimi, guð sem skipuleggur fæðingu og dauða hvers manns. Sem sé, þá vakna allar hinar djúptæku og skelfilegu spurningar um af hverju guð leyfi flóð og heimsfár. Gagnvart slíkum guði er eðlilegt að menn spyrji: Af hverju guð? Og gagnvart þeim guði er eðlilegt að menn segi: “Fyrst þú ert svona vil ég ekki lengur trúa á þig. Þú ert vondur!”

Hin kristna sýn

Jesús breytti öllum forsendum, skipti út bæði stýrikerfi trúarinnar og öllum forritum. Hann breytti hinum gyðinglega boðskap um sértækan guð þjóðar eða kynþáttar sem útvaldi sumt fólk en hafnaði öðrum, valdi fólk til lífs og aðra til slátrunar. Sá Guð, sem Jesús opinberaði í orði og verki var persóna elskunnar, sem var tilbúinn að fórna öllu í þágu ástarinnar. Sá Guð fylgdist með höfuðhári og hamförum en ávallt í ljósi elskunnar. Það er slíkur Jesús sem ég sé í Biblíunni og starfi kristninnar um allan heim og á öllum öldum.

Því fer fjarri að allir sem kenna sig við Krist séu mér sammála. Í kristninni má greina margar túlkunarhefðir. Þær trúarútgáfur eru ekki allar jafnfagrar.[i] Í þeim verstu hefur Guð verið túlkaður sem orsök og samhengi erfiðleika, sjúkdóma, hamfara og dauða. Slíkur guð sprettur fram í hugum þröngt hugsandi manna.

Frelsið

En ef Guð elskar hvað gerir þá Guð? Í kvikmyndinni Bruce Almighty fær söguhetjan innsýn í vanda þess að vera Guð og fær jafnvel að leika hlutverk Guðs. Í ljós kemur að Guð hefur gefið mönnum frelsi til að ákveða og leggur á það þunga áherslu að alls ekki megi skerða það frelsi. Kvikmyndin tjáir ágætlega að við menn eru frelsisverur.

Við þennan boðskap vil ég bæta að náttúran er með sömu einkennum. Vissulega lýtur hún leikreglum náttúrulögmála og þróunarferla. En þar ríkir líka frelsi og samspil. Við skulum ekki vanmeta þann þátt eins og fram kemur skýrt í svo sértækum viðburðum eins og heimsfaraldri eða skriðuföllum. Í mannheimi hefur fólk frelsi til að ákveða stefnu og gerðir. Vitaskuld erum við bundin af skorðum erfða og aðstæðna en frelsið er ótrúlega mikið samt. Í ljósi þessa getum við nálgast allan hrylling heimsins.

Guð beitir ekki inngripsvaldi. Guð sleppir ekki veirum lausum að geðþótta, hristir ekki jarðskorpufleka heinsins, ýtir ekki af stað skriðum í fjöllum eða þrýstir á kvikleir til að kalla fram hrun íbúðabyggða. Ég þekki engan ábyrgan guðfræðing eða trúmann sem heldur slíku fram. Slík guðsmynd er aðeins í hugum brenglaðra sem aflaga guðsmynd að eigin þörfum og þrám, hvað sem það kostar.

Kærleiksmáttur

Hvað þá? Hver er hlutur Guðs? Guð er sá andlegi kraftur sem á öllum augnablikum beitir kærleiksáhrifum sínum, varpar upp möguleikum, í efnaferlum náttúrunnar, í huga einstaklinga, í góðum samhug hópa og þjóða – já mannkynsins alls. En á öllum þrepum og stigum getur efni, náttúruferlar, einstaklingar, hópar og þjóðir brugðist við með réttu eða röngu móti eða blöndu af hvoru tveggja í einhverjum hlutföllum. Hlutverk manna og þar með talið stjórnvalda er að sinna kalli til öryggis. Til okkar er kallað sem einstaklinga, samtaka, þjóða og mannheims að rétta hjálparhendur þegar þarf og styðja í úrvinnslu hörmunganna.

Hinn hvetjandi Guðsnánd

Menn hafa notað hugtakið almætti til að tjá mátt Guðs. En Guð er ekki eins og mennskur alræðisforstjóri eða einræðisherra veraldar. Í Guði sjá kristnir menn dýpri og mennskari veruleika nándar. Guð tekur þátt í baráttu fólks, grætur með þeim sem syrgja og hlær með hinum fagnandi. Því varð þessi makalausa sendiför Guðssonarins inn þennan heim til að samsamast öllu lífi manna, leysa úr viðjum og bjarga.

Guð skelfist og stendur með með óttaslegnu fólki í skriðubyggðum Ísands. Guð stjórnar ekki atburðarásinni, en Guð líður ferlið með sköpun sinni. Guð er ekki ofvirkur heldur samvirkur. Guð er ekki eins og kúgandi móðir eða harður pabbi sem neyðir börn sín. Guð ofstjórnar ekki heldur meðstýrir. Guð tekur ekki af sköpun sinni frelsi heldur bendir á ábyrgð. Guð hefur ekki yfirgefið sköpun sína, heldur styður með kærleikskrafti sínum.

Faraldur og umhverfisvá eru ekki refsingar af himnum, ekki hefndaræði guðlegrar reiði. Breytingar í náttúrunni og hamfarir má skýra með rökum fræða og almennrar dómgreindar. En áföll kallar á næmni og hvetur til öflugs viðnáms gegn siðferðisbrotum. Guð er að starfi en ekki sem íhlutandi Guð, heldur sem nálæg systir eða bróðir sem stendur við hlið manna, hvetur til starfa, styður þegar við föllum, hvíslar að okkur huggunarorð þegar við höfum misst og yfirgefur okkur aldrei, þótt við bregðumst. Guð er nærri.

[i] Ég bendi á rit Pjeturs Pjeturssonar, biskups á Íslandi á 19. öld, sem dæmi um skelfilega trúarhugsun. „Guð og þjáningin í Pjeturspostillu : „En lof sé þér líka, líknsami faðir! fyrir sóttir og sjúkdóma“ Kirkjuritið 67 (3): 2001.

Nýr tími Bandaríkja Norður Ameríku

Ljós mun lýsa –

ef við þorum að horfa

ef við þorum að spegla það

Tímaskil urðu í heiminum 20. janúar. Tímabili lyganna lauk og nú er runninn upp tími til að segja satt um menn og málefni. Tímabil sundrungar, aðgreiningar og sérhyggju er að baki og mikilvægt að gott fólk taki til hendi og sameinist um að leggja góðu lið. Hvað tekur við er óljóst. 

Innsetningarathöfnin við þinghúsið var einföld en heillandi. Kona er varaforseti Bandaríkjanna í fyrsta sinn. Glerþakið var tjakkað upp. Lady Gaga söng þjóðsönginn með stæl. Ekki skemmdi kjóllinn hennar og friðardúfan sem minnti á dúfu Picasso. Amy Klobucher smitaði gleði yfir að eldurinn væri slökktur og nýr tími fæddur. Vettlingar og föðurland Bernie Sanders vermdu og skemmtu. Ræða Jo Bidens sannfærði að stjórnsýslan verður skilvís en ekki lemstruð af bræðisköstum síðustu ára.

Þetta var ekki bara byrjun heldur líka útfararathöfn. Af öllu sem sagt var og gert á þessari innsetningarhátíð var ljóðið sem Amanda Gorman samdi og flutti um opnun. Hún nefndi vanda og verkefni, litaði og færði til, lokaði og opnaði. Það er frjálst fólk sem yrkir og gengur svo vasklega inn í nýjan tíma. Ljóð Gorman sem er að baki þessari smellu. Fíkjutré Biblíunnar hafa skotið nýjum rótum.

Ljós mun lýsa –

ef við þorum að horfa

ef við þorum að spegla það

Myndina tók ég  um kl. 16 þegar innsetningarathöfnin í Washington var að hefjast.