Greinasafn fyrir merki: sál

Þunglyndi, sorg og Davíð konungur

Ég var beðinn um að skrifa greinarstubb um sorg og fór að skoða nokkra biblíutexta. Löngum hefur mönnum verið ljóst mikilvægi þess að geina á milli þunglyndis og sorgar. Ekki aðeins í hinum klassíska gríska og rómverska heimi heldur líka hebresk/gyðinglega. 

Ástæður þunglyndis og sorgar eru yfirleitt ólíkar og úrvinnslan líka. En auðvitað geta þunglyndi og sorg ofta fléttast saman. Davíð konungur var tilfinningavera og hægt er að sjá í sögu hans tvær víddir tilfinningaúrvinnslu. Ég mun ekki ræða sögu Davíðs eða tilfinningaúrvinnslu í Biblíunni í greininni í vinnslu en mér þótti áhugavert að sjá að Biblían er svona kostarík. 

Í Davíðssálmi 38 er þunglyndi lýst:

Ekkert er heilbrigt í líkama mínum
vegna reiði þinnar,
ekkert heilt í beinum mínum
sakir syndar minnar.
Misgjörðir mínar hafa vaxið mér yfir höfuð,
þær eru byrði sem ég fæ ekki borið.
Ódaun leggur af sárum mínum,
það grefur í þeim sakir heimsku minnar.
Ég er beygður og mjög bugaður,
eigra um harmandi daginn langan.
Brunasviði er í lendum mér 
og ekkert er heilbrigt í líkama mínum.
Ég er lémagna og sundurkraminn,
styn í hjartans angist.

Ljóðið hefur oft verið eignað Davíð konungi. Hver höfundur er skiptir ekki máli fyrir túlkunina en Davíðssálmarnir tjáir allar tilfinningar manna. Þunglyndi hefur verið kunnugt og þungbært öllum kynslóðum mankyns. En sorg og sorgarferli er annað en depurð. Þegar Sál konungur og Jónatan vinur Davíðs dóu syrgði hann þá ákaflega og samdi sorgarljóð en ekki þunglyndisljóð. Í 2. Samúelsbók segir svo í fyrsta kafla:

Hetjurnar eru fallnar
mitt í orrustunni,
Jónatan veginn á hæðunum.
Ég harma þig,
Jónatan, bróðir minn.
Þú varst mér mjög kær.

Síðan er unnið úr áfallinu, brugðist við dausföllunum og stefnt fram á veginn. Áfallið var raunverulegt, tilfinningauppnámið mikið, tár féllu og vinna varð úr sorginni. Þunglyndi þarf að vinna með til að ná jafnvægi í lífinu. En sorgarhús verða oft fæðingardeildir visku. 

Veit einhver vina minna hvort greint er á milli sorgar og þunglyndis í forn-íslenskum bókmenntum?

Myndina tók ég af pálma við Jaffastræti í Jerúsalem. 

Gríma, sál og systir

IMG_0688Að baki vestrænum heitum fræðigreinarinnar sálfræði er nafn grísku gyðjunnar Psyche. C. S. Lewis skrifaði ekki aðeins ævintýrabækur um Narníu heldur um bókmenntir og trúarefni og m.a. um systurnar Psyche og Órúal. Psyche var sögð traust í lífsraunum og fögur. Hún fangaði hjarta elskuguðsins Erosar. Saga Psyche er fyrirmyndar- eða kennslu-saga um þroskaleit sálar. Órúal var ólík systurinni ástríku. Hún hafði veika sjálfsmynd og fyrirvarð sig fyrir útlit sitt. Hún faldi andlitið á bak við grímu, sótti í völd og sölsaði undir sig konungsríki föður síns. Landsmenn Órúal sáu grímuna og ímynduðu sér að hún væri fögur. En engum kom til hugar að gríman væri vörn hryggðarmyndar.

Veldi Órúal féll, hún var svipt stöðu, klæðum og grímu og að lokum leidd berstrípuð fyrir guðlegan dómstól. Þegar varnir voru fjarlægðar kom keipakrakki í ljós. Hún vældi yfir að veröldin væri ekki eins og hún vildi. Sagan er um grímulausa sjálfshverfingu og þar með frekju. Sagan segir síðan hvernig Órúal gekk í sig, náði þroska og gerði sér grein fyrir að til að ávinna allt varð hún að missa. Til að þroskast varð hún að fleygja hækjum lífsins. Til að vitkast varð hún að viðurkenna sjálfa sig og útlitið líka.

Sagan um fólk bæði í fornöld og nútíma. Líf margra er æðisgengin leit að grímum og ímyndum. Er það kannski versta fíkn mannsins að dýrka eigin ásýnd, eigin ímynd og eigin draum? Þegar svo er komið er ímyndin orðin að sannleika og raunveran orðin að lygi.

Ásjónur eru okkur mönnum mikilvægar. Eðlilegur barnsþroski er jafnvel tengdur andlitum. Fólk í öllum sögum, líka í Biblíunni, er fólk sem leitar myndar sinnar. Kristnir menn hafa af eigin reynslu sagt að besti sálarspegillinn sé Jesús Kristur. Þar sé mynd Guðs í mannsmynd. Því stórkostlegri ímyndum sem við komum okkur upp því lengra erum við frá raunmynd okkar. Því betur sem við leyfum grímum að falla af okkur því betur og nær komum við sjálfum okkur, mynd Guðs.

Verkefni föstutímans er að spegla sálina. Tilgangurinn er að undirbúa innri mann fyrir atburði kyrruviku og páska. „Spegill, spegill herm þú mér.“ Allt sem segir okkur satt um okkur sjálf verður okkur sannleiksspegill, Passíusálmar, píslarsagan, goðsögur, barnaspeki, kvikmyndir eða bókmenntir. Verkefni föstu er: Fella grímu og spegla sál.

Pistill í Fréttablaðinu 4. mars, 2013