Ekkert prestsverk er skemmtilegra en að skíra og kitlandi gaman í himnesku veðri og nánast í fjörunni. Sigurþór Smári Sigríðarson Corno var blessaður í garðinum við Garðabæinn við Ægisíðu sunnudaginn 20. ágúst.
Ég hef oft gengið að heiman í hempunni til athafna og stundum frá kirkjunni líka. Hlaupararnir, vinir mínir á stígnum, kölluðu til mín og spurðu hvort mér væri ekki heitt í prestaúlpunni! Ísak sonur minn sem gekk með mér að heiman og út að Görðunum kímdi og hvíslaði að mér að allir yrðu svo formlegir við að mæta klerki á gangi og byðu góðan daginn. Þennan dag ákvað ég að embætta upp á danska stílinn – í hempunni. Það væri í stíl við sögu Garðanna og Grímsstaðaholtsins.
Garðagarðurinn varð helgidómur, gleðin skein úr augum. Önnur amman bauð alla velkomna og stýrði umferð því svo margir komu til athafnar að helst líktist útihátíð. Guðmóðirin spilaði fagurlega á fiðlu og hélt á drengnum undir skírn. Bachhljómarnir fléttuðust að lágværum ölduklið. Fjörulyktin blandaðist gróðurilmi jarðar. Annar afinn las texta og hinn hélt ræðu, ekki fjallræðu heldur fjöruræðu. Amma hellti vatni í gullbryddaða skál sem guðfaðirinn hélt á. Allir sungu. Foreldrarnir geisluðu og Sigurþór Smári svaf værðarlega allt þar til klerkurinn lyfti honum – allir klöppuðu.
Mikið er af hvönn milli Garðanna og Lambhóls og ég náði í hvannafræ og setti í vatnið þegar vatnið var helgað. Talaði um mikilvægi náttúruverndar og minnti á að hvönnin væri ekki aðeins lækningajurt heldur héti því táknræna nafni angelica archangelica. Okkar verk væri að bregðast við kalli um að vernda náttúru og mannfólk – til að skírnardrengurinn fengi að njóta heilbrigði, náttúran og við öll.
Sigurþór Smári er heppinn með foreldra, Sigríði Regínu og Davíð. Það er vermandi að fylgjast með þeim þjóna syni sínum. Nú er bæði búið að skýra frá nafni hans og hann er skírður líka. Hann er drengur tíma og eilífðar. Svo fer ég upp í Neskirkju eftir helgi til að fá drenginn skráðan í kirkjubók enda var ég búinn að afla heimildar sóknarprests. Uppgjafaprestur vinnur jú engin prestsverk í leyfisleysi. Guð og menn blessi sólardrenginn Sigurþór Smára. Megi tuttugu gráðu blíðudagar verða margir í lífi hans og hans fólks.

Við vorum heppin. Íbúðin var í hjarta gömlu Palma, rétt hjá Chopin-torginu og við Nikulásarkirkjuna við Mercat-torg. Í þessum borgarhluta er engin bílaumferð. Göturnar eru þröngar og skýla vel gegn brennandi sólarhitanum í ágúst. Borgin er svo miklu ríkulegri en mig óraði fyrir. Sagan er þykk og fjölbreytileg enda Palma siglingaborg frá því í fornöld og stjórnsýslumiðstöð stórrar eyjar með tengsl við nærliggjandi stórveldi. Márarnir byggðu glæsilegar byggingar á miðöldum og þegar þeir misstu völdin var byggt áfram í stórveldisstíl. Þessar byggingar eru áhugverðar og skemmtilegt og lærdómsríkt að skoða. Baðstrendur eru nálægar og fljótlegt að ganga eða hjóla frá bænum á ljómandi strendur með góðri þjónustu. Sigling með fallegri og klettóttri strönd flóans er meðmælanleg. Við fórum eins slíka ferð á katamaran og nutum veislu um borð og syntum í sjónum.
Palma var svo miklu ríkulegri en mig hafði órað fyrir. Þjónustan við okkur aðkomufólkið var slök og óáreitin, byggði á gömlum merg. Veitingahúsin eru mörg, alls konar, ekki aðeins í miðborginni heldur á Granda – hafnarsvæði – þeirra Palmabúa líka. Eldamennskan mjög góð og víða heillandi. Palma hefur flest sem ferðafólk við Miðjarðarhaf óskar eftir. Listalífið er fjölbreytilegt og hvergi í heiminum hef ég séð eins mikið af góðum listagalleríum á litlu svæði og í Palma – og hef ég farið víða. Áhugaverðar sérverslanir eru ótrúlega margar og staðfesta þykka og söguríka menningu. Palma er snyrtileg, vel skipulögð hafnar-, ferðamanna- og menningar-borg. Hún er litrík, glaðvær, slök, vellíðandi, glæsileg og elskuleg. Palma er ekki bara borg hins góða veðurs heldur borg gæða á svo mörgum sviðum. Alicante er fín, Valencia og Kanarí líka en Palma er betri. Við vorum öll sammála um að Palma var mun ríkulegri en við áttum von á. Okkur leið vel í hjarta Palma – gömlu borginni – og við viljum gjarnan koma aftur og dvelja þá í sama hjarta Palma – gönguhlutanum fremur en á hótelasvæðinu. Palma er í algerum plús. Takk Púma og takk Palma .









