Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Jóhannes Pálmason heiðraður

Á aðalfundi Hallgrímssafnaðar, sunnudaginn 5. september síðastliðinn, var Jóhannes Pálmason heiðraður sérstaklega. Jóhannes hefur þjónað sóknarnefnd Hallgrímskirkju lengur en allir aðrir nefndarmenn frá því sóknin var stofnuð fyrir liðlega áttatíu árum. Jóhannes var formaður sóknarnefndar í þrjá áratugi. Hann hefur nú látið af störfum sem formaður og framkvæmdanefndarmaður. Við formennsku tók Einar Karl Haraldsson. Vegna óska starfsfólks og sóknarnefndarfólks verður Jóhannes þó áfram sem varamaður í sóknarnefnd næstu tvö ár. Í ávarpi mínu á aðalfundinum sagði ég meðal annars: „Jóhannes hefur verið öflugur leiðtogi sóknarnefndar og haft afskipti af öllum helstu stórmálum Hallgrímskirkju. Hann var lykilmaður sögu Hallgrímskirkju í áratugi, m.a. við stjórnvölinn þegar Klaisorgelið var keypt og unnið var að stórviðgerð á turni kirkjunnar, lóð kirkjunnar mótuð og Hallgrímstorg gert og haldið áfram með frágang kirkjuhússins. Jóhannes kom rekstri, fjármálum og skipulagi í stjórnýslu kirkjunnar í gott horf sem og skjalamálum og skjalageysmlu. Hann beitti sér fyrir að sóknarnefnd fundaði reglulega og skipulega. Hann opnaði sóknarnefnd og tryggði að varamenn væru kallaðir til funda og öxluðu ábyrgð sem fullveðja sóknarnefndarmenn en ekki aðeins menn til vara. Jóhannes hefur alla tíð verið öflugur samstarfsmaður prestanna og starfsfólksins, hlustað vel á skoðanir samstarfsfólks og beitt sér fyrir að fé væri til eiginlegra kirkjustarfa en færi ekki allt í steinsteypu, tæki og viðgerðir. Hann hefur reynt hugmyndir, spurt opinna spurninga þegar álitaefni komu upp og þorði líka að segja nei þegar illa áraði. Jóhannes er hugsjónamaður og hefur alla tíð þorað að hugsa stórt, heimilaði stórvirki og studdi ötullega kirkjustarfið og þmt listastarfið. Starf í sóknarnefnd er ólaunað sjálboðastarf. Í Hallgrímskirkju er formennska krefjandi og afar tímafrek vegna umfangs þjónustu kirkjunnar. Það var Hallgrímssöfnuði og Hallgrímskirkju mikil gæfa að Jóhannes Pálmason leiddi starf sóknarnefndar í þrjá áratugi á miklum uppbyggingartíma. Lof sé honum og þökk sé Jóhönnu Árnadóttur konu hans fyrir stuðning og störf í þágu kirkjunnar. Í starfi Jóhannesar Pálmasonar hefur verið gjöful guðsþjónusta.“

Og persónulega vil ég bæta við að Jóhannes Pálmason hefur verið í öllum okkar samskiptum einstaklega gjafmildur, öðlingur, hreinskiptin, skemmtilegur, hvetjandi og hugumstór. Nafnið Jóhannes merkir að Guð er góður, náðugur. Og Jóhannes hefur í störfum og lífi verið öflugur guðsmaður. Lykilmaður í sögu Hallgrímskirkju. Takk Jóhannes. 

Fegurst í heimi

Er Hallgrímskirkja falleg kirkja? Hvað sýnist þér? Þegar þú horfir í kringum þig, inn í kór, upp í hvelfingarnar, hver er þá niðurstaðan? Er kirkjan fögur? Hvað finnst þér um staðsetningu kirkjunnar í borgarlandslaginu? Hvernig líkar þér þegar þú kemur frá Keflavík og sérð Hallgrímskirkjuturninn og kirkjuskipið nánast sigla ofar borginni? Í vikunni keyrði ég um Kjalarnesið og mér þykir alltaf heillandi þegar Hallgrímskirkjuturn ber nákvæmlega við Keili. Þá verður samstilling formanna og kraftanna.

Hvað er falleg kirkja? Fegurð má vissulega skilgreina með margvíslegu móti og frá öðrum sjónarhólum en hinum fagurfræðilegu – estetísku. Er Hallgrímskirkja falleg? Kirkjuhúsið kitlar augu margra. Ljósflæðið hrífur og formfegurðin líka. Mörgum þykir kirkjan vera bæði fjarskafögur og innanfögur. Arkitektaskólar eru farnir að senda fólk til Íslands til að skoða kirkjuna og byggingarlist Guðjóns Samúelssonar. Mörgum í sókninni þykir vænt um kirkjuna og eiga dýrmætar minningar héðan um stóratburði lífsins, skírnir, fermingar, giftingar og útfarir og minnast annarra hátíða og viðburða. Sum þeirra tala líka um hvað það hafi verið gaman að klifra í stillönsunum. Fjöldi Íslendinga, utan sóknar, sækir þjónustu til þessarar kirkju.

38

Meðal ferðafólksins er kirkjan vinsæl og aðdráttarafl. Fjölmiðlar heimsins og matsaðilar hafa lyft henni í hæðir topplistanna. Árið 2015 valdi t.d. hið heimsþekkta Architectural Digest Magazine Hallgrímskirkju eina af tuttugu fegurstu trúarbyggingum heims. Ári síðar útnefndi the Guardian kirkjuna sem eina af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum í heimi. Ferðavefurinn Big Seven Tra­vel birt­ir ár­lega lista yfir fimm­tíu fal­leg­ustu bygg­ing­ar heims. Listi þessa árs, 2021, hef­ur nú verið birt­ur og Hall­gríms­kirkja er í 38. sæti á list­an­um. 127 þúsund ferðamenn tóku þátt í að raða á list­ann.Ekkert annað hús á Norðurlöndunum komst inn á hann. Sem sé Hallgrímskirkja er skv. þessum lista fegursta hús Norðurlanda. Mörgum þykir óperuhúsið í Sydney fagurt en Hallgrímskirkja er fyrir ofan það á listanum.

Hvað er falleg kirkja?

Fyrir nokkrum árum kom ég í Frúarkirkjuna í Kaupmannahöfn. Thorvaldsensskúlptúrar kirkjunnar eru hrífandi og gerð byggingarinnar er laðandi. Ég var á kirkjufundi í Kaupmannahöfn. Við stóðum saman uppi á svölum tveir samverkamenn í fjölþjóðlegum kirknasamtökum og ræddum um kirkjuna. Ég spurði vin minn, finnskan biskup: „Finnst þér þetta falleg kirkja?“ Hann horfði á mig hugsi, blikkaði augum meðan íhugaði spurninguna og svaraði svo brosandi og ákveðið: „Þetta er hús Guðs. Þetta er kirkja. Þar með er hún falleg.“ Ég spurði frá sjónarhóli fagurfræði og bygingarlistar og um smekk mannsins. En sá finnski svaraði guðfræðilega. Viðmiðið hans var trúarlegt. Það sem þjónar Guði er fallegt. Og slík er afstaða hins kristna. Það sem þjónar Guði, þjónar lífi, eflir gæði í lífi fólks. Og frá sjónarhóli Guðs er fallegt skilgreint róttækt. Við þurfum að temja okkur þennan trúarsnúning til að skerpa smekk, augu, skynjun, tengsl og túlkun. Hver er smekkur Guðs?

Hlutverkin og aðalmálin

Hallgrímskirkja er margt og gegnir mörgum hlutverkum. Hún er pílagrímastaður. Vegna þess að hún er orðin fræg um allan heim koma hingað ferðamenn. Hún er leiksvið ljóss og skugga og gott ómhús tónlistar. Í þessu hliði himins hefur fólk svo náð að tengja við uppsprettur lífsins, sjálft sig og verðandi tímans. Alla daga þegar kirkjan er opin sækir fólk í þetta hlé til að tengja við djúpið. Hér er gott að íhuga, gott samband. Það sem mikilvægast er að hér er Guð, friður, Andi Guðs. Við sem hér störfum gerum okkur grein fyrir mikilvægi þess að þjóna fólki, vera fólki útréttir armar himins, eyru hins hjálpandi kærleika, augu hins umhyggjusama. Hlutverkin eru margvísleg og flókin. Oft erum við ekki viss um hvaða leið eigi að fara. En þegar allt er skoðað og skilgreint er meginhlutverkið skýrt. Kirkjan er hús Guðs. Hún er falleg því hún þjónar því hlutverki að vera tengill Guðs og manna. Hún er ekki utan þjónustusvæðis heldur getur fólk tengt.

Smekkur Guðs

Smekkur fólks er mismunandi. Um gæði húsa hefur fólk og má hafa á mismunandi skoðanir.Við deilum ekki um smekk. En kirkjuleg fegurð varðar ekki aðeins útlit, efni, liti eða form, heldur fremur andlegan veruleika – að kirkja er hús Guðs. Það er aðalatriðið og skilgreiningaratriði sem er handan smekks einstaklinga og sprengir öll þröng og einstaklingsbundin viðmið. Guðsdýrkunin og guðstengslin skilgreina allt. Og það er raunar stórkostlegt að breyta um fegurðarskyn og merkingartúlkun, og læra að horfa á allt með hætti guðssýnarinnar, endurskoða gildi alls sem er í kringum okkur og í okkur líka. Ertu fallegur? Ertu falleg? Fegurðardrottning heimsins? Á topplistanum? Já, þannig horfir Guð á þig – þú ert djásn í heimi og lífi.

Alla daga og á öllum árum þarf kirkja Jesú Krists að fara yfir hvað er við hæfi í lífi kristninnar og þar með kirkjunnar. Er þjónusta við ferðamennina í samræmi við hlutverk kirkjunnar og hvernig megum við efla tjáninguna um að fólk sé elskað og Guð sé nær fólki en vitund og hjartsláttur þess? Er hægt að styrkja eitthvað í kirkjustarfinu til að þjóna betur hamingjuleit fólks á ferð? Geta sýningar, tónleikar, listin og reksturinn þjónað mönnum og Guði betur? Getum við bætt þjónustu við söfnuðinn með nýjum starfsþáttum og starfsháttum? Er mannahaldið í samræmi við að þetta er fallegt hús Guðs?

Mér þykir Hallgrímskirkja falleg kirkja, en fallegust er hún þegar hún verður því fólki sem sækir kirkjuna heilagur staður. Kirkja er hús fyrir samfélag, fyrir mikilvægustu söngva lífsins og bestu orð veraldar. Kirkja er veruleiki og samhengi þess að himin og jörð kyssast. Kirkjuhúsið Hallgrímskirkja er merkilegt byggingar- og menningar-sögulegt djásn, 38. fegursta hús heims skv. smekk fjölda ferðamanna. Ytri ásýnd kirkjunnar er mikilvæg en fegurð kirkjunnar verður best skilgreind í ljósi trúar og guðstengsla. Guð er fegurðin í fyllingu sinni. Allur heimur og allt líf þiggur fegurð og merkingu frá þeirri uppsprettu. Að húsið er hús fyrir bæn merkir að kirkjan er heitur reitur tengsla Guðs og manna. Þegar kirkja er vettvangur faðmlags Guðs og lífs er kirkja bænahús.

Hvað er fallegt og hvað er mikilvægt? Fólk getur metið hluti, málstað og fólk misjafnlega en í samhengi Guðs breytast öll viðmið. Menn eru misjafnt metnir í misvitru samfélagi fólks. En smekkur Guðs er annar og um hann verður ekki deilt heldur. Þegar Guð horfir er fólk fallegt. Guð býr ekki til lista yfir fallega fólkið og svo hina sem ekki eru falleg. Við erum elskuð, falleg, á topplista Guðs. Þegar Guð horfir á okkur erum við stórkostleg. Af hverju? Vegna þess að við erum Guðs börn. Já kirkja er falleg því hún þjónar Guði en svo er það makalausa að Guð elskar fólk meira en hús. Þú komst í fallegt hús en við megum vita að við í okkur býr fegurð himinsins. Þú ert fögur og fallegur því þú ert ástvinur Guðs. Já musteri Guðs.

Hallgrímskirkja 5. september. 14. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Aðalfundur Hallgrímssafnaðar. 

Dans vatnsins

Sólskinið kyssti okkur, skútufólk, á siglingu um sundin milli Koster og Strömstad í Svíþjóð. Skyndilega varð skýfall. Ofsarigning á sólskinsdegi og í skamman tíma. Þegar fossinn að ofan byrjaði kyrrði sjóinn. Öldugangurinn snarminnkaði þegar risadroparnir skullu á yfirborð sjávar og rugluðu sjávarbylgjurnar. Ofankoman stillti mátt að neðan og frá hlið, eins og jafnvægi kraftanna kæmist á, kannski til að dans vatnsins yrði sem bestur. Ekki aðeins menn, fuglar og dýr dansa. Vatn dansar líka á krossgötum samfundanna. Vatnsballettinn var hrífandi, samstilling allra krafta. Það er gömul, sprelllifandi speki Biblíunnar að til að lífið sé gott skuli kraftar samstillast. Við, menn, eru kallaðir til að beita okkur í þágu þeirrar samstillingar en líka gleðjast og hrífast þegar hún verður. Í þessum vatnsdansi fannst mér ég skynja húmor Guðs. Þetta var vitjun dagsins.

Aldrei aftur Útey

Hvað gera unglingar og ungt fólk í sumarbúðum um mitt sumar? Tala saman, hlæja, ræða málin, njóta lífsins. Og svo er þetta tími upplifana, hrifningar og að verða ástfanginn.

Útey er á einu dásamlegasta svæði Noregs. Eplaakrarnir við Tyrivatnið eru sannarlega heillandi. Systir mín og fjölskylda býr í nágrenninu og bátalægi þeirra er rétt við Útey, sem Verkamannaflokkurinn á. Systir mín fer með gesti sína á þetta svæði unaðar og dásemda. Þegar ég var við bryggjuna í Útey hugsaði ég um hvað svona eyja væri góður vettvangur fyrir lífsmótun fólks til framtíðar.

Svo varð heimsendir í þessari paradís, sem djöfull læddist inn í. Þegar sprengjan sprakk í Ósló héldu flestir, að óður múslimi hefði unnið hryllingsverkið. En hið illa kom ekki að utan heldur að innan. Hinn illi var ekki aðkomumaður heldur innfæddur. Forsætisráðherra Noregs endurómaði amerískan talshátt og sagði verknaðinn vera heigulsverk. Það er rangt því sprenging og fjöldamorð er fremur æði haturs.

Að baki djöfulskapnum er ótti, sem beinist að öllu því sem er öðruvísi: Ótti við aðrar lífsskoðanir, litarhætti, öðruvísi menningu og fólk. Ótti elur af sér hatur og hatur gengur alltaf í lið með dauðanum. Ofbeldið á sér því stefnu, berst gegn opnu samfélagi umhyggju og samhjálpar. Illvirkin eru atlaga gegn framtíð, sem umfaðmar ríkidæmi margra kynþátta og samvinnu menningar, átrúnaðar og fjölbreytileika. Hinn norski fjöldamorðingi er ekki ruglaður byssukall, heldur maður sem fyrirlítur öðruvísi fólk og hatar fjölbreytileika. Hann reynir að fyrirbyggja, að ólíkt fólk með mismunandi trú og sið geti búið saman í friði og jafnvel orðið ástfangið hvert af öðru.

Sprengingin í Ósló og fjöldamorðin vega að gildum, trú, menningu og stefnu norrænna þjóða. Við erum öll Norðmenn þessa sorgardaga. Eigum við að leyfa höggbylgjunni frá Ósló að hræða eða skothríðinni í Útey að beygja okkur? Nei. Mæður og feður, sem gáfu börnum sínum gildi, elsku og framtíð, fóru til að sækja lík barna sinna. Glæpur var unninn á þeim, norsku þjóðinni en líka okkur – öllum. Hatrið réðst gegn ástinni. Látum ekki ungt fólk deyja til einskis, heldur heiðrum það með því að treysta samfélagsfriðinn. Mætum ótta með trausti. Hvikum ekki frá uppeldi fólks til menningarlegrar og trúarlegrar fjölbreytni. Ræðum opinskátt eðli hatursins. Leyfum lífinu að lifa. Til forna var sagt: Aldrei aftur Masada. Gegn hatri nútíma: Aldrei aftur Útey.

 
Þessi hugleiðinig birtist sem bakþankar Vísis, 26. júlí 2011. https://www.visir.is/g/2011365238d
 
Meðfylgjandi mynd tók ég við Geirangursfjörð í Noregi. 

IHS – fermingin

„Sæll og kærar þakkir fyrir flottu ferminguna og bókina og takk fyrir að vera svona skemmtilegur við okkur.“ Þessi fallega þakkarkveðja kom í tölvupósti og nokkrar myndir með frá fermingarstúlku eftir sumarfermingu í Hallgrímskirkju.

Ísabella Helga Seymour kom fljúgandi frá Ameríku til að fermast í Hallgrímskirkju sunnudaginn 18. júlí. Viktoría, mamma hennar, og Margrét Helga, yngri systir, komu með henni í messu viku fyrir fermingardaginn. Það var gaman að kynnast þeim, allar svo jákvæðar og kraftmiklar. Ísabella Helga tók því vel að útdeila í altarisgöngunni með okkur Ágústu Þorbergsdóttur. Svo báru móðir hennar og systir ljósin út í lok messu. Ísabella Helga valdi vers úr Rómverjabréfinu: „Við vitum að þeim sem Guð elska samverkar allt til góðs, þeim sem hann hefur kallað samkvæmt ákvörðun sinni. … Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur?“

Í ávarpinu til Ísabellu var talað um nafnið hennar, merkingu og hún var minnt á að skammstöfun nafns hennar væri IHS. „Sú skammstöfun er algeng í kirkjum heimsins, í kirkjulistinni sem og munum, skreytingum kristninnar í húsum, bókum og miðlunarefni. Á fyrstu öldum kristninnar urðu til alls konar styttingar, nk. emoji þess tíma. IHS var eitt af þeim. Upprunalega var IHS stytting á Iesus Hominum Salvator, sem er latína og þýðir: Jesús frelsari mannkyns. Þegar þú sérð IHS í kirkjulist heimsins máttu muna að Guð er nærri, elskar, gefur líf, ástvini sem elska þig, fjölskyldu, vonir og lífskraft. Þú mátt vera vinur IHS – bæði sjálfrar þín og mannkynsfrelsarans. Svo vil ég minna þig á að ein merking nafnsins Isabella er að vera eiðsvarin Guði, vilja vera Guðs. Fermd Guði með jái. Nafnið Helga er tengt helgi, sem er ekki föstudagur til sunnudags heldur að vera heilög. Það merkir að vera tengd Guði og lifa fallega og vel. Nafnið, viðburðurinn í dag hvetur þig að lifa alltaf vel. Iðkaðu sjálfsvinsemd og Guðsvinsemd.“

Ísabella Helga Seymour er fermd og fékk Passíusálma að gjöf. Í kirkjunni var hún sjálf gleðigjafi, hrósaði fólki sem brást vel við þessari ungu og geislandi konu. Já og Ísabella Helga sendi mér þessar líka fínu myndir og þakkaði fallega fyrir sig. Það er rækt í svona sjálfstæði og þakkarafstöðu. Svo kemur hún vonandi aftur þegar hún staldrar við á Íslandi í framtíðinni. Svo samverkar allt til góðs í lífi hennar og hún á í Guði öflugan bandamanna. Sumarfermingar eru líka skemmtilegar. IHS.

Með á kennimyndinni, efstu myndinni, er Matthías Harðarson sem var orgelleikari dagsins. Til heiðurs Ísabellu Helgu spilaði hann Ungi vinur, sem er lag Oddgeirs Kristjánssonar við hvatningarljóð Ása í Bæ.