Greinasafn fyrir merki: sálmar Sigurbjarnar

Sigurbjörn Einarsson og Guð

Ég naut þeirra forréttinda og blessunar að kynnast Sigurbirni Einarssyni meðan ég enn var barn. Þegar Sigurbjörn var kosinn biskup árið 1959 fluttist hann og fjölskylda hans í húsið nr. 15 við Tómasarhaga og ég bjó í húsinu nr. 16. Samgangurinn var talsverður. Fyrir nokkrum árum barst mér saga úr fjölskyldu Sigurbjarnar um fyrstu samskipti okkar á frumbýlingsárunum við Tómasarhaga. Sigurbjörn gekk alla tíð mikið og einu sinni var hann á heimleið. Ég var við götukantinn að vinna við stífluframkvæmdir og fleyta bátum á milli lóna á holóttum Tómasarhaganum. Þegar Sigurbjörn kom að mér stoppaði hann. Mér varð starsýnt á hann og þótti maðurinn áhugaverður. Ég spurði kotroskinn: Hvað heitir þú? Hann svaraði: „Ég heiti Sigurbjörn og stundum kallaður biskup. En hvað heitir þú?“ Og svarið var: „Ég heiti Sigudur Ádni og stundum kallaður Litli.“

Sagan hefur örugglega verið snikkuð til en hún lifði í fjölskyldu Sigurbjarnar og hefur væntanlega verið skemmtiefni í þeirri glöðu fjölskyldu. Magnea Þorkelsdóttir, kona Sigurbjarnar, var góð við okkur krakkana og bauð okkur stundum inn og ég man eftir að mér þótti mikil furða að sjá froska í skál í stofunni. Okkur þótti áhugavert að fylgjast með lífinu á nr. 15 og sáum stundum Sigurbjörn taka strákastrolluna með sér í göngutúr. Sögur um þessar lærisveinaferðir og kennsluferðir Sigurbjarnar á göngu lifðu í hverfinu. Nágranni okkar við Lynghaga sagði mér fyrir nokkrum árum að Sigurbjörn hafi skipst á að tala við þá. Einn hefði verið með pabbanum fremst og svo hefði hann sent þann fremsta aftar og annar tekið við. Feðgar á lærdómsferð og það var Jesúaðferðin sem hann notaði.

Magnea og Sigurbjörn voru góðir grannar og komu í fermingarveisluna mína og gáfu mér Biblíu sem ég hef notað svo vel að kjölurinn er farinn en bókin er mér kær. Við Sigurbjörn voru í góðum tengslum alla tíð og hann fylgdist náið með námi mínu og bað mig um doktorsritgerðina mína þegar hún var til enda áhugasamur um guðfræði alla tíð. Ég byrjaði prestsskap í Ásaprestakalli, vestan við Kirkjubæjarklaustur, og kynntist Skaftfellingum og náttúrudýrmætum Íslands, Skaftafellssýslum. Þegar ég hitti Sigurbjörn á þessum árum spurði hann mig gjarnan um vini sína fyrir austan og sérstaklega í Meðallandinu. Svo fór ég til starfa í Skálholti og stýrði Skálholtsskóla og beitti mér fyrir að heimavistarskólanum yrði breytt í miðstöð menningar og fræða. Meðal þess sem sem ég vildi prófa í hinum nýja Skálholtsskóla voru kyrrðardagar. Ég hafði sannfærst um að staðurinn, húsakynni og helgi sögunnar væru ákjósanleg umgjörð sálarferða til dýpta. Ég treysti engum betur en Sigurbirni til sjá um íhuganir. Hann var með mér á fyrstu kyrrðardögunum árið 1986 og síðan árin þar á eftir. Kyrrðardagar slógu í gegn og hafa verið haldnir þar eystra í nær fjóra áratugi. Samvinna og verkaskipting okkar Sigurbjarnar var skýr og klár. Ég gætti rammans en líka hans og tryggði honum næði. Það var gott að þjóna Sigurbirni og gaman að dekra við hann. Við Litli og biskup áttu vel saman.

Upphafið

Sigurbjörn fór til náms í Svíþjóð eftir að hafa lokið prófi hér heima. Hann varð prestur í Breiðabólstaðarprestakalli á Skógaströnd árið 1938 og var þar í um tvö ár og var síðan í þjónustu Hallgrímskirkjusafnaðar frá upphafi árs 1941. Hann stundaði háskólakennslu meðfram preststörfum á árunum 1942-44 og eingöngu þaðan í frá þar til hann varð biskup árið 1959. Þegar vestur við Breiðafjörð uppgötvaði söfnuðurinn að Sigurbjörn var afburða prédikari. Ritsnilli hans varð öllum ljós með birtingu bóka og greina frá Skógastrandarárunum. Ég bendi á ritsmíðina „Við orf og altari“ frá 1939 sem er einn af kjarnatextum tuttugustu aldar íslenskuskrifa. Eftir að Sigurbjörn kom til Reykjavíkur komu margir í guðsþjónustur Hallgrímssafnaðar til að hlýða á hann. Sem háskólakennari kom Sigurbjörn við í fleiri predikunarstólum en áður. Hann efldist sem alhliða fræðari og hafði, þrátt fyrir ónæðisstundirnar allar, einnig næði til að kafa enn dýpra en honum hefði verið mögulegt sem bæjarpresti í miklum önnum í sístækkandi og ólgandi borg. Fyrirlesarinn, útvarpspredikarinn og háskólamaðurinn náði margra eyrum en sem biskup var honum tekið með opnum örmum af meirihluta þjóðarinnar. Þá varð hann ekki síst kunnur sem afburða kennimaður. Sem slíkur breytti hann kirkjunni eða alla vega viðhorfi til kirkjunnar. Síðan hefur Sigurbjörn verið viðmið um hvernig biskup ætti að vera. Ég hitt Harald Ólafsson mannfræðiprófessor og alþingsmann fyrir nokkrum dögum. Hann sagði mér hvað það hefði verið gaman og hrífandi að sækja tíma hjá Sigurbirni. Þeir Jökull Jakobsson, síðar rithöfundur, hefðu verið með stjörnur í augum þegar þeir komu út úr tímum hjá honum – „slík var mælskan og snilldin“ – sagði Haraldur.

Hvernig predikað
Sigurbjörn Einarsson kvaddi Hallgrímssöfnuð með ræðu í Dómkirkjunni 7. janúar 1945. Hann leit til baka og sagði: „Vinir. Ég kveð yður í dag. Þetta er ekki staður né stund fyrir tilfinningamál, og ég vil ekki tala um tilfinningar mínar, það er ekki meðfæri mitt á þessari stundu. En Guði, góðum Guði vil ég þakka fyrir liðin fjögur ár. Hann hefur eins og fyrr gjört langt fram yfir allt það, sem ég hef kunnað að biðja. … Ég get engu um framtíðina spáð. En það veit ég, að ég á ekki eftir að eignast dýrmætari stundir en ég hef átt sem prestur Hallgrímssafnaðar.“

Hvernig var svo boðskapur þessa kennimanns, sem kvaddi söfnuð sinn svo vel og elskulega? Hvernig voru predikanir hans? Ræðuháttur, stílbrögð og málfar þeirra eru merkilegt skoðunarefni. Kirkjan hefur valið ákveðna texta til skoðunar í hverri guðsþjónustu sem prestar fylgja oftast. Þeir leggja alla jafnan út af guðspjalli dagsins og er sömu textarnir til umfjöllunar í flestum guðsþjónustum þess helgidags í kirkjum landsins. Hægt er að útleggja frá versi til hins næsta allt til enda sem er Biblíuskýring viðkomandi texta. Þá er hægt að halda trúfræðifyrirlestur í samræmi við eitthvert atriði textans eða siðfræði í sama stíl. Aðrir endursegja textann og leggja hann út með því að skapa ljóðræna stemmingu eða segja smásögu. Enn aðrir gera textann að tilefni til samtals við samtíðina og boða sína stefnu eða einhverra annarra. Þegar verst lætur verður guðspjallstextinn að einhvers konar stökkbretti sem ræðumaðurinn stingur sér frá og kemur aldrei til baka úr sundferð sinni eða svamli um mismikilvæg málefni stundar eða sögu. En hvað einkennir predikun Sigurbjarnar Einarssonar? Eitthvað af þessu? Eiginlega ekki. Predikunarháttur hans er næst textaútleggingu en fyrst og fremst með tematísku móti. Einkennandi fyrir predikanir hans er að hann dregur út eitt meginstef eða stefjabúnt úr textanum sem hann gerir að aðalefni. Hann leyfir sér aldrei ótrúmennsku við guðspjallið eða Biblíutextann heldur lyftir stefinu eða meginefni með því að draga inn í ræðu sína önnur atriði viðkomandi texta svo það verður skýrara og meitlaðra eftir því sem á predikunina líður. Málefni hverrar predikunar eru mörg og hann leyfir sér að ræða samtíð sína, dægurmál, siðferðileg úrlausnarefni, höfuðkenningar kristninnar o.s.frv. en aldrei þó þannig að rammi textans sé sprengdur eða týndur. Svo öflugur kennimaður sem Sigurbjörn var hefði hann auðveldlega getað hafið sig til flugs frá texta, farið mikinn í einhvers konar andlegu heimsskautaflugi. En svo var ekki. Hinar tematísku predikanir voru ekki tilraunir með þanþol trúar eða tilheyrenda. Þær eru Biblíulegar. Þegar margt er sagt og mikinn farið sem er fremur einkenni en undantekning á þessum ræðum þá er talað úr heimi trúarinnar, glímunnar við Guð, úr spekisafni og lífsreynslu eða kannski betur sagt guðsreynslu Ritningarinnar. En ef það var hinn biblíulegi heimur sem Sigurbjörn jós af með fögnuði þá var viðmælandinn nútímafólk með beyglur sínar og vanda, á hraðaflótta undan sjálfu sér, skynsemi sinni, samvisku, réttlætiskröfum, á flótta frá Guði sem allt hefur lagt í sölur fyrir gallagrip, manninn. Sigurbjörn færði hinn biblíulega heim til samtals við samtíma sinn, hélt samræðunni öflugri og árangursríkri vegna þess hversu vel hann fótaði sig í báðum heimum og kannski helst vegna þess hversu vel hann var heima í hinni miklu veröld Biblíunnar og hversu djúpt hann skynjaði litróf og list hennar. Hann hafði reynt sannleik þeirrar trúar og hann fylgdi Jesú Kristi eftir, uppfyllingu hennar. Því urðu hinar tematísku predikanir svo trúverðugar og fluttar af sannfæringu þess sem hafði verið höndlaður og meinti sjálfur allt sem sagt var.

Mál og myndir
Það sem kitlar málunnendur og gefur ræðunum bæði lit og mátt eru nýyrði, hnittni, meitlaðar setningar, hlý og kærleiksríksrík írónía og frumsamið eða endurnýjað málsháttamálfar sem gerði prédikanirnar læsilegar: „En ekki myndi neistinn sjást, ef enginn væri eldur.“ Á öðrum stað segir: „Þú getur verið þjófur í leyndum hugans, þótt þú sért vítalaus að lögum. Þú ert ekki barn guðsríkis, þótt þú sért boðlegur samfélagsþegn.“

Kænska, útsjónarsemi og slyngi eru ekki uppfinning nútíma. Stjórnmál þá og nú eru hin sömu og Sigurbjörn dró saman: „Pólitíkusar nútímans eru allt eins slóttugir og foringjalið Gyðinga forðum. Óvinurinn lærir svo sem af reynslunni.“ Í predikun um kraftaverkið í Kana segir: „Hjónabönd geta ekki síður bilað sakir óhófs en skorts.“ Og í anda allt annarra Kana segir hann: „Í Hollywood er sagt, að allt geti komið fyrir – nema eitt: Þar er aldrei haldið silfurbrúðkaup.“ Í umfjöllun um afstöðu til Jesú út af ellefta kafla Lúkasarguðspjalls afmarkar Sigurbjörn þrjá hópa í afstöðunni til Jesú: Í fyrsta lagi talar hann um hugsunarleysingja, í öðru lagi eru til andlegir lausingjar og í þriðja lagi eru hatursmenn Jesú. Ræðan er nærgöngul. Spurningarnar þyrlast upp: Hver er ég, hver ert þú? Ertu hugsunarlaus, lausamaður í andlegum efnum, á sífeldum hnotskóg eftir einhverju furðulegu og óvenjulegu eða ertu hatursmaður Jesú? Í þessari ræðu segir Sigurbjörn fyrir munn eins hóps manna:

„Kristindómurinn er að vísu góður, en ekki nógu góður, ekki eins og hann ætti að vera. Það þarf að breyta honum. Mannkyninu er þó alltaf að fara fram. Það veit þó væntanlega eitthvað meira í dag um líf og dauða, um Guð og mann, en þessi 2000 ára gamli „meistari“ frá Nazaret og fákunnandi fylgismenn hans. Vér vitum þó líklega eitthvað meira um synd og sekt, um ábyrgð og alla aðstöðu mannsins í alheimi nú en t.d. Marteinn Lúther, sem er dáinn fyrir 400 árum. Oss sem þekkjum Darwin og Edison og Einstein, hlustum á útvarp og ökum í bílum og höfum fundið upp penicillin, oss hæfir blátt áfram ekki, að Guð virði oss svo lítils að bjóða upp á sama veg til hjálpræðis og mönnum, sem kunnu ekki einu sinni að bursta tennurnar.“

En Sigurbjörn veit að: „Keipóttur og illa artaður krakki fær aldrei það, sem hann vill, hvað oft, sem honum er fengið það, sem hann heimtar.“ Sigurbjörn minnir á, að mannshjartað er svipað nú og fyrr: „ … í gleði sinni, í synd og sælu, í ást og hatri. Móðirinn lætur eins að barni sínu, elskhuganum er líkt innanbrjósts og fyrir öldum, morðinginn, þjófurinn, sælkerinn, svíðingurinn, kúgarinn og hórkarlinn áþekkir innvortis. Við fæðumst ekki með hátíðlegri hætti en fáfróðir forfeður, og á banasænginni erum við væntanlega í sömu sporum og þeir. Bílar, tækni og tannburstar breyta engu um hver við erum.“ Þetta dregur Sigurbjörn allt upp og ræðan skilst.

Andstæðuhlýja
Andstæður sem þessar hér að fram og stundum í bland við íróníu -sem aldrei verður köld í ræðu Sigurbjarnar – koma oft fyrir. Í ræðu á sunnudegi milli nýárs og þrettánda segir og með vísun til flótta hræddra foreldra með nýfæddan Jesú:

„Almættið á flótta fyrir ámátlegum leppkóngi, hin himneska alvizka í felum fyrir fólslegu ráðabruggi hans, hinn eilífi kærleikur hrakinn í útlegð af kórónuðum, sálsjúkum fanti! Unaðsraddir engla boða fæðingu guðlegs ríkiserfingja, hirðar og vitringar hylla hann, en rétt í sömu andrá er þessi himneski prins kominn á asna lengst út í eyðimörk og enginn fjöldi himneskra hersveita kringum hann eins og á jólannótt, aðeins einn engill er nefndur og hann laumast til Jósefs í draumi með flóttafyrirmælin.“

Með vísan til að Jesús nam staðar á hraðferð sinni til Jersúsalem, staldraði við til að sinna blindum og vesælum manni við veginn, spyr Sigurbjörn okkur, hvort við höfum tíma til að tala við Guð:

„Til að mynda á morgnana, áður en dagsverkið byrjar? Fimm mínútur frammi fyrir augliti hans, – það er líklega of mikið fyrir flesta af þesari vinnusömu kynslóð. En flestir hafa tíma til þess að lesa blaðið sitt eða blöðin. Eða á kvöldin? Verður ekki lítill tími aflögu til þess að minnast hans? Þó að oftast sé einhver tími fyrir útvarpið. Og það er með mestu herkjum að manni tekt að skjótast í messu og eyða í það einni klukkustund á viku. Raunar er það allt of mikil tímasóun í slíku fyrir lang-langflesta á þessari tímalausu öld, – eða réttara sagt eilífðarlausu. Og svo er allt þetta þindarlausa kapphlaup við tímann vitatilgangslaust, því að það endar á einn veg fyrir oss öllum, tíminn nær þér og mér og vér gefumst upp og hann fleygir oss fram af brotinu, ofan í hylinn mikla og sökkvir oss og heldur síðan áfram, áfram, eins og vér hefðum aldrei verið til, en dropafall þess lífs, sem vér lifðum, bergmálar inn í eilífðina á eftir oss þeirri spurningu, hvaða stundum vér vörðum til þess að treysta sambandið við Hann, sem minntist tímans blindu barna og lagði sjálfan sig í sölur til þess að þau fengju sjón, eilífan bata, eilíft líf.“

Er hægt að nýta sér andstæður með öllu skýrara móti í þágu hins góða málsstaðar? Í útleggingu Sigurbjarnar um rangláta ráðsmanninn segir hvernig ráðsmaðurinn braut fjármálaheilann, hratt og skjótrátt gagnvart hugsanlegri uppsögn:

„Auðvitað varð hann að lifa áfram fínu lífi eins og áður. Ekki gat hann farið að stunda púlsvinnu, fínn og feitur eins og hann var orðinn. – Ugglaust torveldara að koma við vinnusvikum þá en nú. – Og að biðja ölmusu – ekki var það gott, hann að ganga í flokk skítugra róna, sem þvældust um Hafnarstræti þeirrar borgar og lugu sér út peninga út á eymd sína! Nei, hann mátti ekki fara í hundana, ekki hrapa ofan í sauðsvartan, siggbarinn heiðarleik, eða fara á vonarvöl framan í öllum. Hvað myndi konan segja, og ónefnda, dýra vinkonan, og spilafélagarnir.“

Sálgæslupredikun
Einkennandi stílbragð predikana Sigurbjörns er notkun „ég“ og „þú“ fornafnanna. Saga Jesú er ekki forn saga sem einhverjir urðu vitni að í týndri tíð. Sú saga er um þig. Saga baráttu Guðs er ekki almenn saga alheimsins eða smáþjóðar í fyrndri fjarlægð. Hún er saga þín. Dæmi úr heimi Biblíunnar, sagnir af kraftaverki, af ótrúlegum atburðum, af stjórnmálum eða vandkvæðum eru allt í einu innanhúsmál þitt, varða samskipti þín við maka þinn, börn, vinnufélaga, stöðu þína, leyndustu hugsanir þínar, fýsnir, best földu leyndarmál þín og grafin gull hjarta þíns. Predikun Sigurbjarnar verður svo áleitin vegna þessarar aðferðar hans að beina tali allt í einu í farveg einkasamtals. Og það gengur upp vegna þess að predikarinn var trúverðurgur. Hann hafði ljóslega glímt við málið. Hann var sannfærður um að þessi saga varði þig í þínu ástandi og sé lausn á vandkvæðum þínum. Vegna þess hversu innlifaður Sigurbjörn var bæði biblíulegum heimi og stöðu nútímamannsins varð þessi persónulega aðferð svo sterk. Ræðan hætti að vera hlutlæg, utan manns, ópersónulegt viðfangsefni, eitthvað sem menn geta metið og vegið í rólegheitum. Hún varð knýjandi, einkalegt eða persónulegt trúnaðarmál sem verður að taka afstöðu til, bregðast við sem manneskja en ekki út frá hlutverki, málstað, þjóðerni, pólitík eða einhverri hyggju. Ræður Sigurbjarnar urðu því sálgæsla í söfnuði og predikarinn staðgengill Guðs en ekki einhver upplesari almennra tíðinda eða trúarlegra veðurfrétta um miðja nótt. Þessar ræður sverja sig til hins lútherska arfs. Lúther taldi manninn í heiminum ekki eiga neinn hlutlausan sjónarhól sem fólki væri gefinn til að skoða gnægtabúr andans og velja úr. Ræða Guðs væri persónulegt tiltal sem bregðast yrði við með innsta inni mannsins.

Þaulhugsaður vefur
Því má bæta við varðandi samsetningu predikana Sigurbjarnar að þær eru ekki óskipulegt samtal. Þær eru vel unnar. Ég heyrði tilheyrendur Sigurbjarnar tala um að ræður hans væru góðar af því að hann hefði haft svo mikla hæfileika. Manninum Sigurbirni Einarssyni var vissulega margt gefið en það hristir enginn mikla predikun fram úr erminni fremur en að gott tónverk hrapi fyrirhafnarlaust á blað, snilldarmálverk máli sig sjálft eða organisti leiki Bachstykki svona annars hugar. Ég var nærri Sigurbirni í ræðugerðarham á kyrrðardögum í mörg ár og veit því hversu mikið hann lagði á sig fyrir jafnvel lítinn bút í ræðu, hversu djúpt hann kafaði, að hann reyndi þanþol eigin líkama og sálar til að magna innsæi og grandskoða mál sem hann braut til mergjar. Stefjum raðaði hann og endurraðaði, vinsaði úr og valdi. Svo var vinnunni, íhugun, samningu og endurvinnslu lokið með ítrekuðum yfirlestri eða yfirferð sem skilaði oft blaðalausri, persónulegri ræðu, sem virtist útlátalítil þó hún væri hittin og áleitin. Þegar ræður Sigurbjarnar eru vandlega lesnar sést flókinn vefur og smekkvís stefjavinnsla.

Guð og flóttamaður
Tvö meginstef eru í predikun Sigurbjarnar Einarssonar fyrr og síðar. Það er Guð annars vegar og maðurinn hins vegar. Sá maður er á flótta undan sjálfum sér, skynsemi sinni, samvisku, köllun og þar með einnig Guði. Í predikun um týnda soninn kemur skýrt fram að báðir synirnir voru týndir og á flótta. Annar var heima en fjarlægur föðurnum samt. Hinn var týndur í útlöndum. Sigurbjörn dró þessa flóttamenn saman í samfelluna þú og ég. Manngildið er algert af því Guð er svo altækur, natinn og marksækinn í elsku sinni. Í þessum texta tjáir Sigurbjörn vel guðsmynd sína og guðsafstöðu:

„Er Guð þá ekki sæll, hinn ríki, voldugi konungur alheimsins? Nei, ekki á meðan þú ert ekki sæll, ekki á meðan hann vantar þig, ekki á meðan hann, Guð þinn og Faðir, er þér ekki annað en nafn, óljós grunur, reikul þrá – á meðan er Guð hryggur, hryggur yfir þér. Það er fylgzt með þér úr himnunum. Mennina skiptir svo litlu, hvernig leið þín liggur, hver afdrif þín verða, hvernig líf þitt fer. Það skiptir Guð svo miklu. Því að Guð elskar. Hann er hirðirinn, sem finnst hann missa allt, ef hann missir einn. Hann er Faðirinn, sem aldrei getur gleymt barninu, sem fór burt. Hann getur skapað milljónir sólna í stað einnar, sem slokknar. Gæti hann ekki skapað þúsundir engla í stað eins manns, eins vesalings, eins syndara, sem villist, hrapar, tapast, ferst? Hvað er ein manneskja? Fljót eru spor hennar að hverfa, hvar sem hún gekk, fljót er hún að gleymast. Það er enda orðið lítið handarvik að afmá milljónir á andartaki. Og heimurinn gengur sinn gang eftir sem áður. Vér erum sem skuggar, er líða yfir veginn, sem fis er fýkur fyrir skjáinn. Einu færra eða fleira, hverju skiptir það: Það skiptir Guð. Ég, skugginn, fisið, skúmið, minna en ekki neitt í mergð milljónanna, margfaldlega minna en ekki neitt í geimi stjarnanna, fyrir fáum árum ekki til, eftir fáein ár gleymdur, eins og ég hefði aldrei verið til – það er grátið yfir mér í himnunum, ef ég týnist, það er glaðst yfir mér í himunum er ég finnst. Það er svo margt óskiljanlegt í Biblíunni, segja menn, og því er svo erfitt að trúa. Hér er það, sem mér finnst óskiljanlegast í Biblíunni, lengst frá því að vera skiljanlegt af öllu, sem ég hef kynnzt. Og að geta orðið viss um þetta, það er ekki skilningsatriði, heldur það blessað undur Guðs, sem heitir trú. Sá, sem hefur fengið hugboð um, hvað í því undri felst af náð, er ekki framar að gera sig merkilegan á kostnað Biblíunnar og kirkjunnar. Hann er þakklátari en svo fyrir að mega vita, að hið undursamlegasta er satt, að Guð er slíkur, sem Jesús Kristur birti hann, í orði og lífi og dauða, að Jesús Kristur er slíkur, sem kirkjan hefur vitnað um hann í lærdómum sínum og boðskap.“

Þetta ræðubrot – og hægt væri að veiða upp úr predikunum Sigurbjarnar líka og samhljóma texta – segir mikið um tvennuna manninn og Guð. Síðar í sömu predikun segir og dregið er saman:

„Jesús ætlaði öllum að sjá sjálfa sig sömu augum og hann sá þá. Hann sagðist vera kominn til þess að leita hins týnda og frelsa það. Hverra leitaði hann ekki? Hann leitaði allra, vildi frelsa alla. Allir voru týndir í augum hans, frávilltir. Vér sjáum mannkynið í mynd hinna tveggja bræðra. Guð er Faðirinn, vér börnin hans.“ „Sagan um glataða soninn birtir ekki sannleik sinn til fulls nema í skugga krossins. Þar sérðu gleggst, að sagan er einnig um þig. Og þú lofar Guð fyrir fullkomna soninn, sem gjörðist bróðir glataðra og fórnaði sér til þess að hjálpa þér heim.“

Gefast upp – ávinna allt
Ræður Sigurbjarnar eru öflugir kastarar sem beint er að hvers konar hrófatildrum sem við komum okkur upp í blekkingaræði. Sem sálfræði eru predikanirnar vel til þess fallnar til að láta renna af mönnum, rífa af okkur spjarir, opinbera sjálfumgleði okkar, hroka og hversu kengbogin við erum í sjálf okkur eins og Lúther orðaði það. Við erum engu minni fíklar en hinir sjúkustu í bullandi afneitun ef við viðurkennum ekki uppruna okkar í Guði, ef við viðurkennum ekki vanmátt okkar gagnvart hinum mestu og stærstu spurningum um sjálf okkur og heiminn, ef við þiggjum ekki lausnina og göngum leiðina. Þessu lýsir Sigurbjörn með umhyggju, nærfærni en ákveðni, vegna þess að viðmiðið er skýrt, ljóst og altækt. Guð biður menn að hætta að flýja staðreyndir, hætta að elta mýrarljós, hætta að rugla, hætta að reyna í eigin mætti og biður menn að stoppa, viðurkenna og þá jafnframt ávinna allt, líf, hamingju, tilgang, sanna mennsku – trúa á Guð. Þar með er mannlýsing Sigurbjarnar ekki sálfræði, rétt fíkilsfræði, túlkunarfræði, meðferðaraðferð eða heimspekikenning heldur kristindómur, djúpsæ trúarboðun, persónuleg játning um hvað reyndist honum, já milljónum fyrr og síðar, lausn alls vanda, tjáning þess að Guð er, Guð elskar, Guð leitar manna og hættir ekki, gefst ekki upp og svíkur aldrei. Saga Jesú er staðfesting þessa á allan hátt, í orði, verki, í öllum litum og tilbrigðum. Sigurbjörn dró sjálfur saman boðskap sinn í páskapredikun:

„Í upprisu Krists gerist það, að lífið í eiginlegustu, í fyllstu merkingu orðsins, Guðs eigið líf, ryður sér nýjan farveg inn í sköpunina, vinnur og auglýsir úrslitasigur sinn á þeim lífsspjöllum, þeirri eitrun lífsins, sem heitir synd, og markar örugglega stefnuna að því markmiði að útrýma öllum dauða úr tilverunni. Jesús segir ekki aðeins: Ég er upprisinn, heldur: Ég er upprisan. Hann segir ekki aðeins: Ég lifi. Hann segir: Ég er lífið. Hann leiðir ekki aðeins í ljós framhaldslíf handan líkamsdauðans, hann er sjálfur hið eina sanna líf og allt er komið undir því, bæði þessa heims og annars, að eiga hlutdeild í lífi hans. Það eitt er annað en skuggi, það eitt er himnesk, guðleg eilífð.“ (147)

Hin falska trú á manninn
Þetta er undiraldan, hafdjúpið í kennimennsku Sigurbjarnar. Hann óx og þroskaðist á tímum bjartsýni. Hann fór ungur utan og skildi skipbrot evrópskrar menningar í fyrri heimstyrjöldinni sem skolaði í land raunsæi heimspekinga, rithöfunda, sálfræðinga og guðfræðinga. Á Íslandi voru margir seinir til – kannski vegna sjálfstæðisbaráttu, bættra kjara og uppbyggingar og trúðu bláeygt á mátt og möguleika mannsins. Þetta kallaði Sigurbjörn „trúna á manninn“ og sveið mörgum prestum og velunnurum menningarinnar þessi nefning og boðskapur Sigurbjarnar. Þau gerðu sér ekki grein fyrir hvað valurinn við Verdun var óskaplegur og áfdráttarlaus dómur yfir menningu og einfeldni og hversu önnur heimsstyrjöldin var jafnvel óhjákvæmilegt framhald þess hildarleiks. Skarpskyggni Sigurbjarnar og rótfesta djúpt í heimi íslenskra trúarbókmennta gerði honum fært að endurflytja hinn klassíska kristna boðskap með mætti. Ástæða er einnig til að benda á hinar röklegu forsendur og menningargreiningu hans sem liggja einnig til grundvallar.

Jesúmyndin

Í prédikun Sigurbjarnar er ljóst að hann var náinn Jesú Kristi. Jesús var ekki aðeins björgunaraðili heldur leiðtogi, fyrirmynd og besti vinur hans. Tjáning Sigurbjarnar um Jesú Krist er djúp og fer langt að baki því sem hann myndi tjá um mennska veru. Jesúvitund og Jesúinnlifun Sigurbjarnar varðar guðlega nánd. Jesúmyndin tjáir guðsmynd hans. Jesús var honum hinn mildi, góði, agaði, einbeitti og fullkomni. Við vitum að þó Sigurbjörn væri gagnrýninn og skarpur greinandi gerði hann ekki uppreisn gegn klassískri guðfræðitúlkun. Hann hefði svarað einfaldri spurningu um guðfræði sína að hún rímaði við hefðbundna þrenningarkenningu kristninnar. En við sjáum svo í prédikunum og líka sálmum hina persónulegu tjáningu á sambandinu við Guð sem veitir okkur tilfinningu fyrir skynjun og túlkun prédikarans og skáldsins. Jesúmyndin er hin nána vinarmynd. Sigurbjörn vildi líkjast leiðtoga sínum, vera ásjóna hans, tjá veru hans og siðferði, afstöðu og mannvinsemd. Í mínum tengslum við Sigurbjörn lánaðist mér að sjá í honum Jesúmynd hans og þar með líka guðsmynd hans sem var í góðu samræmi við kirkjuræðurnar. Svo eru sálmar hans líka afar góð dæmi um afstöðu og tjáningu hans á þeirri mynd Guðs sem var uppteiknuð í hans sál.

Sigurbjarnarsálmar

Í hinni nýju sálmabók þjóðkirkjunnar eru hvorki meira né minna en 96 sálmar eftir Sigurbjörn af 811 sálmum – þe. tæplega 12% sálma bókarinnar. Sigurbjörn er orðinn sálmarisi Íslendinga. Sálmar Helga Hálfdánarsonar og Hallgríms Péturssonar eru mun færri í þessari Sigurbjarnarsálmabók. Skoðið þessa undursamlegu, persónulegu og litríku sálma hans. Sálmabókarhlutinn á kirkjan.is er góður til að fletta upp og lesa. Sálmarnir tjá hlýja guðsmynd elskunnar, Guðs sem gætir allra og blessar, en gengur ekki að neinum með offorsi heldur af umhyggjusamlegri virðingu. Í þeirri guðsmynd getum við líka séð Sigurbjörn sjálfan eða notað hann sem ásjónu. Hann notar náttúrutjáningar smekklega og með áhrifaríku móti. Ljós og hiti eru honum eðlilegar guðstjáningar og árstíðir notar hann gjarnan sem líkingar um sálarlíf og umbreytingar í lífi manna. Vetur er tákn hins þungbæra en svo umbreytist allt í lífskrafti vors og undri sumars. Vorstemming kemur t.d. fram í útfararsálminum Þótt líkaminn falli að foldu. Sigurbjörn var sálmaskáld ljóssins, dagrenningar, aftureldingar. Hann var prédikari upprisu og lífs þar sem hann talar og yrkir um að lífið batni, spíri, verði, fagni. Þegar ég fór að lesa prédikanir Sigurbjarnar að nýju og sálma hans nú í þessari yfirferð varð mér ljóst að öll þrætubókarlist er horfin í sálmum hans. Þeir eru ástartjáningar til Guðs annars vegar og hins vegar til heimsins sem guðselskan nærir og blessar. Sigurbjörn tjáir að allt væri honum tómt og dimmt ef Guð væri ekki. Í sálmunum er tjáð djúp trúarinnar og að ljós Guðs lýsir og er inntakið í möguleikum lífs, vaxtar og hamingju. Nokkrar sálmastiklur tjá þetta:

Ó, sól míns lífs, ég lofa þig

sem lífgar, frelsar, blessar mig

með guðdómsgeislum þínum.

Guðs míns kærleiks kraftur,

kom þú og ver mín sól.

 

Kom, himnesk sumarsól,

kom, sunna heilags anda,

sem endurfæðir allt

við efsta sólarlag.

Leiftra þú, sól, þér heilsar hvítasunna,

heilaga lindin alls sem birtu færir,

hann sem hvern geisla alheims á og nærir,

eilífur faðir ljóssins, skín á þig,

andar nú sinni elsku yfir þig.

Þorkell Sigurbjörnsson gerði dásamlegt lag við þennan stórkostlega hvítasunnusálm. Aðrir sálmar tjá birtunæmni Sigurbjarnar.

Þú, mikli Guð, ert með oss á jörðu,

miskunn þín nær en geisli á kinn.

Eins og vér finnum andvara morguns,

eins skynjar hjartað kærleik þinn.

 

Djúp er þín lind sem lífgar og nærir,

lófinn þinn stór, vort eilífa hlé.

Gjör þú oss, Kristur, Guðs sonur góði,

greinar á þínu lífsins tré.

Hið djúpa borið fram
Ég sat á rakarastofunni um daginn og vinur minn vissi að ég væri að fara að tala um Sigurbjörn. „Veistu“ sagði hann. „Ég les oft ræðu eftir Sigurbjörn á kvöldin til að fá næringu fyrir svefinn.“ Sigurbjarnarræður eru því ekki dottnar út heldur hafa í sér klassíska dýpt sem þolir áraun tímans. „Sigurbjarnarpredikanirnar munu fylgja mér allt lífið,“ sagði annar vinur minn. „Af hverju?“ spurði ég. „Vegna þess, að þær snerta tilfinningarnar“ svaraði hann og bætti við: „Ég hlustaði einu sinni á Sigurbjörn hugleiða það sem mér fannst heldur óyndislegt, rigningu. Þegar hann var búinn að ræða um rigninguna og benda á fjölmörg atriði sem ég hafði aldrei hugsað um hef ég ávallt síðan litið rigninguna velþóknunaraugum. Rigning er ekki rigning lengur, heldur margræður og trúarlegur veruleiki sem tjáir mér talsvert um Guð.“

Talað um Guð. Hallgrímskirkja 21. febrúar 2023.

Meðfylgjandi mynd SÁÞ af Sigurbirni Einarssyni. Sá litli er Jón Kristján og sat við hlið Sigurbjarnar og rannsakaði sessunaut sinn og kunni því vel þegar hönd hans var lögð mildilega á höfuð sveinsins.