Greinasafn fyrir merki: Öryggi

Landskjálftar, sprenging og hjálp

Hver og hvað hjálpar þegar jörð skelfur, hús hrynja eða springa, tugir þúsunda deyja í hamförum, samfélög riðlast, stórveldi klikkast og ástvinir falla? Í Davíðssálmum segir: „Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp?“ Hinar hrikalegu myndir sem okkur berast frá Tyrklandi og Sýrlandi síðustu daga skelfa og meiða en minna mig líka á fjölskylduferð upp á Skaga. Þar hitti ég Harald Sturlaugsson. Hann bauð mér að koma heim með sér svo hann gæti sýnt mér atvinnu- og íþrótta-sögusafn Akraness sem hann hefur unnið að og komið upp. Safnið er glælsiulegt einkasafn og varðveitt í íbúðarhúsi við Vesturgötu nr. 32. Við fjölskyldan fórum inn og heilluðumst. En hvað var þetta sem var þarna á mynd? Var þetta ekki húsið sem hýsti safnið? Hafði það sprungið eða hafði jarðskjálfti splundrað húsinu? Haraldur sagði okkur hrikalega sögu.

Laust fyrir klukkan fimm aðfaranótt laugardagsins 27. nóvember árið 1976 sprakk tólf tonna hitatankur í kjallara hússins. Sprengingin var svo öflug að loftið yfir hitaklefanum splundraðist og líka hæðirnar þar ofan við. Stór hluti þaksins hvarf út í nóttina. Rúður í nálægum húsum brotnuðu og bíll sem stóð í vari undir steinvegg fjörutíu metrum frá spreningarstað stórskemmdist. Steypuhlutar úr gólfum og veggjum flugu hátt í loft upp og grófust svo í jörðu þar sem þeir komu niður. Fáir næturgestir voru heima þessa nótt. En sólarhring áður hafði húsið verið fullt af fólki. Þá nótt gistu yfir tuttugu mans. Ef sprengingin hefði orðið þá hefðu margir dáið. En þessa nótt voru heima mægðurnar Rannveig Böðvarsson og Helga Sturlaugsdóttir og báðar héldu lífi. Sprengigígurinn í miðju húsinu var stór. Rannveig rauk upp við hamfararnir og ætlaði að vitja dóttur sinnar en í myrkrinu féll hún í gíginn og slasaðist illa. Dóttirin Helga var í herbergi sínu og var síðar bjargað.

Hvaðan kemur mér hjálp? Haraldur sagði hvernig stóru spurningarnar hefðu vaknað um líf og dauða, um eyðileggingu og hvort endurbyggja ætti. Svo sýndi hann mér blátt Gídeon-Nýja testamenti sem hafði verið í herbergi Helgu. Þegar björgunarmaður kom í herbergi hennar um morgunin var testamentið opið á náttborðinu. Við blöstu skilaboð í opnunni á blaðsíðum 128 og 129. Þar segir í sálmi 121:

„Ég hef augu mín til fjallanna,

hvaðan kemur mér hjálp?

Hjálp mín kemur frá Drottni,

skapara himins og jarðar.

Hann mun ekki láta fót þinn skriðna,

vörður þinn blundar ekki …

Eftir þessum skilaboðum var tekið og minningin um þau lifa. Guð vörður þinn. Guð sem skýlir þér. Það var einkennilegt að ganga um í kjallaranum þar sem sprengingin á Skaganun varð, hugsa um orkuna sem leystist úr læðingi og splundraði húsi og öryggi fólks. En svo var byggt upp. Húsið var lagfært. Sálarsárin gréru og lífið lifði. Svo var búið til safn til vitnis um lífið á Skaganum. Sprengjuhólfið, kjallarinn á Vesturgötu 32 hefur orðið vaxtarreitur menningar, lífs og elskusemi. Fingur húsbóndans benda á ofursamhengið: „Ég hef augu mín til fjallanna, hvaðan kemur mér hjálp?“ Þessi saga af Skaganum vísar hún út fyrir sjálfa sig eins og öll menning og allt líf, vísar til dýpta, breiddar og hæða. Líka austur til Sýrlands, Tyrklands og annarra heljarslóða heimsins.

Allar kynslóðir og allar fjölskyldur heimsins eiga sér hamfarasögur. Hvað hjálpar? Sálmurinn er boðskapur um nánd Guðs. Ég horfði á húsið á Akranesi, hugsaði um fólkið og sögu samfélagsins. Við horfum á fallin hús á landskjálftasvæðum, syrgjum hryllinginn og íhugum eyðingu. Allt fólk leitar öryggis og spyr um hjálp og vernd á einhverju skeiði. Sprengingar verða með ýmsu móti í lífi okkar. Skjálftar verða en við ákveðum hvert við leitum og hvað verður lífsakkeri okkar. Hvar er samhengið, lífsbjörgin, trúin?

„Ég hef augu mín til fjallanna,

hvaðan kemur mér hjálp?

Hjálp mín kemur frá Drottni,

skapara himins og jarðar.

Hugleiðing í kyrrðarstund 9. febrúar 2023. Myndin úr safni Haraldar Sturlaugssonar. Frásögn hans er að baki þessari smellu

Sóttvarnir og engill í húsi

Handaþvottur og sprittun, bil á milli fólks og lokanir fyrirtækja eru til að tryggja sem besta sjúkdómavörn. Þetta er tími varna gegn vírusnum. Við vöndum okkur í samskiptum. Hvaða varnir eru mikilvægar og hver eru grunnatriðin?

Börnin mín og fjölskyldur þeirra eru dýrmæti lífsins. Þegar yngstu drengir mínir, tvíburar, fæddust uppgötvaði ég að börn breyta heiminum. Fyrstu vikurnar eftir fæðingu þeirra hleyptum við, eldra fólkið á heimilinu, engri streitu að okkur. Váleg tíðindi og vondum fréttum var haldið utan húss. Löngunin að kveikja á sjónvarpsfréttum þvarr og útvarpsfréttir hljómuðu lágstemmt. Það var helst að ég fletti netmiðlum á skjánum til að skima yfir fréttayfirlitin, þó ekki væri nema til að fylgjast með gengi minna manna í boltanum.

Magnea Þorkelsdóttir var helg kona. Hún kom í mitt hús til að fagna nýfæddum drengjum og blessa þá. Hún sagði þessa setningu: „Þar sem er engill í húsi er ekki hægt að hugsa neitt vont.“ Þessi kyrrláta speki hefur lifað með mér æ síðan. Hið vonda og skelfilega fær ekki sama aðgang að lífi manna þegar englar búa í húsi. Þau, sem eiga að vernda aðra, verða að hafa hlutverk sitt á hreinu og vera heil í afstöðu verndarinnar. Illar hugsanir, ill tíðindi og streituvaldar eiga ekki að ná til barna. Raunar erum við öll börn hið innra og höfum sömu grunnþarfir. Við njótum hins hreina og friðsamlega. Á máli trúarinnar heitir það helgi eða heilagleiki.

Í ævintýrum er oft sagt frá álögum í tengslum við smábörn. Til að forðast ill álög þarf að rækta innri mann. Trú hefur um aldir verið besta heimavörnin í þeim efnum. Grikkir töluðu forðum um kaþarsis, sem varðar hreinsun og tæmingu. Í trúræktarsamhengi er kaþarsis þegar einstaklingur losnar undan álögum, illvilja, vondum minningum og illum hugsunum. Tvíburarnir mínir urðu mér tilefni tæmingar og endurmats. Að baki var og er þrá að vanda umönnun hins unga lífs, að leyfa ekki vonsku að seytla um sálir heimilisfólksins, síast í sængurföt barna og spilla lífi þeirra.

Litlum börnum fylgja vitaskuld álag, missvefn og oft áhyggjur. Altækt varnarleysi barna brýnir okkur, sem eldri erum, að gæta að hreinlæti og sóttvörnum. Hindra að félagsleg, líkamleg og tilfinningaleg mengun komist inn á heimilið og í fólkið í fjölskyldunni. Fjölþættar sóttvarnir eru til verndar hinu varnarlitla lífi.

Börn koma, vaxa, þroskast og fara síðan út í heim. En lífshvatar þeirra mega lifa í öllum húsum. Tilveran með engil í húsi er afstaða þroskans. Vitundin um átök lífsins hverfur ekki, heldur aðeins streitan. Nú sinnum við ytri sóttvörnum, en þurfum líka að sinna andlegum sóttvörnum. Engill í húsi er eftirsóknarverður og englar í húsum eru guðsgjöf. Handspritt notum við og virðum góðar samskiptareglur. En grunnvörn okkar varðar frið, öryggi og trú.

Íhugun, birtist í Morgunblaðinu 1. apríl, 2020. Myndskeið með sama efni er að baki þessari smellu