Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Hallgrímssöfnuður 85 ára

Hallgrímssöfnuður á afmæli og er 85 ára. Árið 1940 ákvað Alþingi að stofna þrjár nýjar sóknir í Reykjavík og þar á meðal var Hallgrímssókn. Fyrstu árin var helgihald í Austurbæjarskóla. Bygging Hallgrímskirkju hófst árið 1945 og þremur árum síðar var kjallari kórsins vígður sem kirkjusalur. Þar var messað þar til nýr kirkjusalur var tekinn í notkun í suðurálmu turnsins árið 1974. Kirkjan var síðan vígð 26. október 1986, daginn fyrir 312. ártíð Hallgríms Péturssonar, sama ár og Reykjavík hélt upp á 200 ára afmæli sitt. 

Hallgrímskirkja er hverfiskirkja og þjóðarhelgidómur. Hún er komin á ofurskrár heimshúsa – topp tíu, topp fimmtíu og topp hundrað. Hún er á ofurlistum um mikilvæga ferðamannastaði, hrífandi kirkjur og mikil steinsteypumannvirki. Hún er líka á lista the Guardian sem eitt af tíu mikilvægustu tilbeiðsluhúsum heims. Fólk nær sambandi hvort sem það leitar sjálfs sín, friðar, vonar eða Guðs. Söfnuðurinn er á virðulegum aldri en Guð er ekki bundinn af skorðum ára og tíma – Guð er lind lífs, tilgangs, friðar, samfélags, vonar og trúar. 

Mynd sáþ af kirkjunni sem myndfleti á vetrarhátíð. 

Hróp mitt er þögult

Hvernig er þögult hróp? Óp heyrist ekki frá mynd norska málarans Edvard Munch. En samt hríslast angist hrópandans inn í mann við málverkið í Munchsafninu í Osló. Hesturinn og konurnar æpa hljóðlaust í Guernica-mynd Picasso. Phan Thi Kim Phuc, nakta napalm-stúlkan æpti á hlaupum frá sprengingum Ameríkana í Víetnam. Óp hennar heyrðist aldrei í árásargnýnum en berst okkur þó enn áratugum síðar. Ópið í sálmabók Gamla testamentisins hríslaðist í Jesú Kristi þegar hann stundi: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið. mig?“ Það er frumópið.

Þetta rifjaðist upp í messunni í morgun. Kór Hallgrímskirkju söng eftir prédikun hinn magnaða sálm Sigurðar Pálssonar um hið þögla hróp (nr. 540 í sálmabók þjóðkirkjunnar). Lagið samdi Ragnheiður Gröndal.

Hróp mitt er þögult,

þú heyrir það samt,

þögnin hún ómar

í þér, í þér,

ómar eins og vatnið,

streymandi vatnið.

 

Þrá mín er þögul,

þú heyrir hana samt,

þráin hún ómar

í þér, í þér,

ómar eins og vatnið,

svalandi vatnið.

 

Bæn mín er þögul,

þú heyrir hana samt,

bænin hún ómar

í þér, í þér,

ómar eins og vatnið,

lifandi vatnið.

Við Ísak, sonur minn, gengum heim frá messu. Í sólskininu sagði ég honum frá skáldinu. Svo fórum við göngustíginn yfir Vatnsmýrina. Vatnið rann hljóðlaust í farvegum mýrinnar og hornsílin syntu í hljóðlausum straumnum. „Í þér, í þér, / ómar eins og vatnið, /lifandi vatnið.“

28. september 2025. Myndirnar tók ég á símann í Vatnsmýrinni á leið frá messu.

Veistu ekki hver pabbi minn er?

Ég var einu sinni á næturvakt á tjaldsvæði þjóðgarðsins Þingvöllum. Hlutverk okkar starfsfólks var að tryggja næði og næturfrið. Í mörgum tjöldum voru ólæti þessa nótt og þurfti að hafa afskipti af mörgum gleðipinnum. Í flestum tilvikum var hægt að ræða málin og féll á ásættanlegur friður nema í einni tjaldþyrpingunni. Þar var vinahópur og forsprakkinn varð pirraður þegar kyrrðar var óskað. Honum var bent á að flestir tjaldbúar á svæðinu vildu sofa en hann espaðist bara. Hann kom ógnandi að mér og spurði hranalega með reiðiglampa í augum: „Veistu ekki hver ég er?” Þegar ég féll ekki flatur fyrir mikilfengleika tjaldbúans espaðist hann og hreytti út úr sér: „Veistu ekki hver pabbi minn er?” Lætin héldu áfram og ekki kyrrði í öllum tjöldum fyrr en undir morgun. Eitt af morgunverkum mínum var að hringja í pabbann þjóðþekkta. Hann brást vel við, kom austur og fór með sinn pilt. Sá var lúpulegur í morgunsólinni.

Þegar óróaseggurinn var fluttur suður sat ungur pabbi úti fyrir tjaldi sínu. Börn hans höfðu verið hrædd um nóttina og ég bað hann afsökunar á ónæðinu. Hann svaraði: „Hafðu engar áhyggjur. Þið hafið gert allt sem hægt var að gera. Þetta eru bara unglingar sem þurfa að reka sig á. Við höfum öll orðið að hlaupa af okkur hornin. Við bara sofum út í stað þess að fara á fætur kl. 7.”

Þessi pabbi varð þjóðþekktur líka. Ég minnist alltaf þeirra tveggja, ógnandi óróaseggsins og pabbans unga, þegar ég sé hann í sjónvarpinu. Siðferði er vissulega háð uppeldi en frægir pabbar auka hvorki réttindi fólks né minnka ábyrgð þess. Okkar er ábyrgðin en ekki pabba eða mömmu.

Charlie Kirk og Jesús Kristur

Til að botna í pólitík í Bandaríkjunum þessar vikurnar er þarft að bera saman boðskap Jesú Krists og erindi hins myrta Charlie Kirk. Kirk varð á síðustu árum talsmaður “kristinnar þjóðernishyggju“ í Bandaríkjunum. Hann boðaði að kristnir ættu að stjórna á öllum lykilsviðum samfélagsins: fjölskyldu, trúarsviðinu, menntun, fjölmiðlum, listum, viðskiptum og stjórnmálum. Hann skilgreindi verkefni sitt og hlutverk sem stríð gegn óvinum kristninnar á öllum sviðum mannlífs og þjóðlífs. Því varð Kirk svart-hvítur í tali og sumt af því sem hann sagði var harkalegt og jafnvel grimdarlegt.
Jesús gerði ástina að stefnuafstöðu sinni og sagði gjarnan: „Elskið óvini yðar.“ Hann sagði líka: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi.“ Hann hafnaði að Guðs ríki yrði komið á með valdi eða ofbeldi. Honum var umhugað um hin fátæku, sjúku, börn og útlendinga og setti þau í forgang.
Jesús boðaði þjónustu, sjálfsafneitun og frið. Kirk boðaði yfirráð, vald og baráttu. Kirk og skoðanasystkni hans vestan hafs blönduðu saman trú og pólitík og hafa fjarlægst hinn upprunalega boðskap kristninnar. Jesús Kristur boðaði óvopnað ríki ástar og þjónustu en Kirk og lærisveinar hans valda- og menningarstríð í nafni kristni.
Hvort ætli þjóni fólki, þjóðfélögum, menningu, heimsbyggðinni, náttúrunni, lífríkinu betur – vald eða ást?

Arvo Pärt og hljóðbænirnar

Arvo Pärt fór eigin leið í lífinu og tónsmíðunum. Hann er einn af dýrlingunum mínum. Mér þykir hann vera andríkasta tónskáld síðustu áratuga. Bjöllustíllinn er einstakur, kyrrðin umvefjandi og áleitin, einfaldleikinn agaður og sláttur englavængja heyranlegur. Tónlistin opnar milli himins og jarðar, tíma og eilífðar. Fíngerðar breytingar í stefjavinnslunni magna kyrrð vitundar og í andstæðu við síbylju samtímans. Pärt-tónlistin er andstæða hávaða. Hún er eins og hljóðbæn – fámál en þrungin merkingu. Það er dásamlegt að syngja verk Arvo Pärts, sem hljóma best í ómhúsi eins og Hallgrímskirkju, en líka að hlusta á þau með opnu hjarta. Pärt er níræður og þessa dagana spila ég tónlist hans.