Trúin úrelt?

Ágætt tímarit, Grapevine, er gefið út hér á landi og fjallar um íslensk málefni fyrir enskumælandi fólk. Nýlega var því haldið fram í þessu riti að vegna nútímaviðmiða hefði trúin hopað. Ein rökin eru að meðlimafjöldi þjóðkirkjunnar hafi minnkað.  Á þrjátíu árum hefur fjöldinn lækkað um tuttugu prósent. En þrátt fyrir breytingar í kirkjuefnum er trúin ekki að hverfa. Kristnum mönnum fjölgar í heiminum og trúin lifir þvert á trú þeirra sem halda að trúin sé að hverfa. 

Hvað er trú?

Sumir telja í einfeldni sinni að trúnni fylgi óhjákvæmilega forvísindalegar hugmyndir um líf, vísindi og veröldina. Því sé trúin dæmd til að gufa upp í ljóma nýrrar þekkingar. Það er Grapevinetúlkunin. Það er rangt, trú er ekki hugmyndir, hvorki gamaldags eða nýjar hugmyndir, heldur mun róttækara fyrirbæri. Aðrir telja að trú sé það að samþykkja bókstafsútgáfu helgirita. Trúað fólk sé þröngsýnislið. En slík túlkun á trú getur átt við um ofbeldishópa af ISIS-taginu en ekki eiginlega trú. Síðan eru þau sem telja að trú sé einhvers konar rétttrúnaður af sannfæringartaginu.

En trúað fólk sér sig ekki í þessum nálgunum. Þetta eru afbakanir, smættanir sem byrja á röngum stað og ná aldrei aðalatriðinu. Svona einfaldanir byrja allar með því að einblína á fólk og hið smáa, hvernig menn bindi sig á einhvern klafa heimatilbúinnar speki.

En trú er allt annað og mun róttækara fyrirbæri. Trú er ekki yfirborðslegar skoðanir og alls ekki forvísindaleg lífssýn. Trú er dýpri og stærri. Trú er ekki fasteign eða staða sem menn ávinna sér með því að vera meðlimir í kirkjudeild eða stofnun. Trú finnur sér vissulega farveg, en lifir þó breytingar verði í þjóðfélagi og menningu. Trú er ekki háð kirkjustofnunum en kirkjur eru hins vegar háðar trú. Trú er aldrei til án Guðs. Trú lifir ekki án þess að tengjast Guði. Trú er undur sem Guð kallar fram.

Trú er það djúptækasta sem til er, lífsfestan sjálf. Það er eðlilegt að fólk hafni gamaldags trú. Trúarkenningar breytast því samfélag, skilningur fólks og viðmið hafa breyst. Þar með hættir Guði ekki að vera til. Guð er fólki nánari en maki, foreldrar eða börn. Guð er nánari en vitund okkar. Guð er hinsta og dýpsta viðmið hvers manns.

Ekki á útleið heldur innleið

Er þá trúin ekki á útleið? Nei, þó þjóðfélag og stofnanir breytist hverfur trúin ekki – aðeins hugmyndir fólks. Trú getur blómstrað þótt kirkjufélag tapi öllum meðlimum sínum og hverfi. Heilbrigð gagnrýni og aukin þekking grisjar burt veiklaðar eða úreltar hugmyndir um heim, fólk og líka kenningar. En trúin hverfur ekki þótt í ljós hafi komið að sköpunarsagan sé ekki náttúrufræði heldur ljóð sem tjáir tilgang og samhengi lífsins. Trú hvetur til hugmyndagrisjunar. Þar sem trú er hinsta viðmið fólks beinist hún gegn yfirborðsnálgun. Trú þolir ágætlega að fólk segir skilið við manngerða trú. Trú hvetur til ævarandi siðbótar.

Lífsfestan sjálf

Tenging við Guð leiðir til lífssýnar og kallar á túlkun trúarreynslu. Öll þau sem hafa verið upplýst af trú fara að sjá veröldina sem mikinn veraldarvef sem er ofinn og magnaður af Guði. Veröldin er samsett af efni og anda. Geimi og grösum er gefin skipan og lögmál sem trúin kennir við Guð. Hver maður er undur sem Guð gefur. Og einu gildir hvort viðkomandi þakkar Guði tilveru sína eða þykist vera aðeins af sjálfum sér og skýrir tilveru sína af efnisrökunum einum. Í öllu lífi glitrar fegurð, máttur og mikilleiki. Við veljum sjálf hvort við sjáum í undri veraldar aðeins tilviljun eða nemum hið mesta og stærsta – undur Guðs.

Hvað er hinsta viðmið þitt, lífsfesta þín? Þar er trú þín og þar talar Guð við þig.

Íhugun – janúar 2017.

Kristján Egilsson – minningarorð

Skiptir máli hver flugstjórinn er? Afstaða, mat og traust fólks er mismunandi og margir eru smeykir við flug. Ég heyrði umsögn víðföruls Íslendings sem sagði að þegar hann sá Kristján Egilsson ganga fram flugvélina og vissi að hann yrði í stjórnklefanum þann daginn hefði farið um hann öryggistilfinning. Kristján var þeirrar gerðar að þegar hann var við stýri var eins og tæki og stjórnandinn yrðu eitt. Það var ekki aðeins í flugi heldur líka í bílaumferðinni. Kristján Egilsson lagði sál í það sem hann gerði, var gerhugul alnálægð í því sem hann gat lagt til og því stýrði hann öllum fleyjum til farsæls enda og áfangastaða.

Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans

Í 139. Davíðssálmi er efnt til flugferðar. Þar er lífi og lífsleiðum manna lýst með leit að öryggi. Hvernig getum við fundið það sem máli skiptir, átt tryggt samhengi fyrir líf okkar, hugsanir, tilfinningar, tengsl og traust? Hið forna skáld Davíðssálmanna orðar þetta merkingarflug mannsins með þessum hendingum:          

Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.

2 Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það,

þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.

3 Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það,

og alla vegu mína gjörþekkir þú.

5 Þú umlykur mig á bak og brjóst,

og hönd þína hefir þú lagt á mig.

 

Og svo bætir skáldið við og það er flugþol í hugsuninni:

 

8 Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar,

þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar.

9 Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans

og settist við hið ysta haf,

10 einnig þar mundi hönd þín leiða mig

og hægri hönd þín halda mér.

Já, það er flug í þessum texta. Víddirnar eru hinar stærstu og mestu, veröldin öll er vettvangur ferðalangsins. Allt himinhvolfið – allir heimar. Og svo er þetta morgunfagnandi flugtak: Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf – einnig þar myndi hönd þín leiða mig.

Hvernig líður þér við flugtak? Hvernig líður þér á álagsstunum lífsins? Er allt tryggt og öruggt? Kristján Egilsson valdi sér flug að ævistarfi og valdi að eiga sér persónulegt athvarf í besta flugstjórnarkerfi alheimsins, Guði. Sú flugumsjón er víðtæk og varðar tíma og eilífð. Lendingakerfið á hinum endanum virkar frábærlega og enginn hörgull á varabrautum. Blindflugið enginn vandi, tímasetningar á komum ekki heldur og allt virkar.

Æviágrip

Kristján Egilsson fæddist í foreldrahúsum í Reykjavík á gamlársdag árið 1942. Og afmælishald hans hefur verið litríkt af öllum skoteldum þjóðarinnar. Foreldrar hans voru hjónin Egill Kristjánsson og Anna Margrjet Þuríður Ólafsdóttir Briem. Egill, faðir Kristjáns, fæddist á Hliði á Vatnsleysuströnd. Hann var verslunarmaður og stórkaupmaður. Margrét fæddist í Viðey og starfaði auk heimilsstarfa við verslun með manni sínum. Að baki foreldrunum voru styrkir ættstofnar sem teygja rætur víða um land. Bróðir Kristjáns er Ólafur, sendiherra. Hann er liðlega sex árum eldri og fæddist í ágúst árið 1936. Þeir bræður fengu vandað uppeldi sem skilaði í þeim ábyrgri afstöðu og virðingu í samskiptum við fólk. Með þeim bræðrum var alla tíð gott bræðraþel.

Bernskuheimili Kristjáns var á horni Baldursgötu og Lokastígs. Í flestum húsum hverfisins var fjöldi barna og margir möguleikar til leikja og götulífið fjölskrúðugt. Kristján var glaðvær drengur. Skólavörðuholtið gnæfði yfir, ennþá með braggahverfi og kirkju í byggingu. Svo var þar fótboltavöllur líka. Reykjavíkurflugvöllur var nærri einnig og flugumferðin fór ekki fram hjá drengnum. Flugið var að aukast fyrir framtak dugandi manna og mikilvægi þess fyrir þjóðina að vaxa. Við Sóleyjargötu 17 þar sem amman bjó var hægt að skoða hvernig flugmennirnir höguðu aðfluginu. Útþráin var vakin.

Kristján sótti skóla í Miðbæjarskóla og honum þótti betra að Ólafur bróðir fór með honum fyrsta daginn. Svo varð hann sjálfstæður og átti góða daga og skemmtilega í skólanum og krakkarnir í hverfinu urðu félagar hans og kunningar.

Fermingarmynd. Kristján Egilsson.

Þegar Kristján hafði lokið grunnnámi setti hann strax stefnu á flugnám. Hann kynntist verslunarstörfum í uppvexti, faðir hans vann í þeim geira og ýmis ættmenni í móðurlegg höfðu stundað verslun. Kristján ákvað fara í Verzlunarskólanum áður en sigldi upp í skýin. Hann var ekki fyrr búinn að læra credit og debit og annað það sem Verzlunarskólinn kenndi þegar hann byrjaði flugnámið. Meðfram flugskólanum starfaði Kristján á Reykjavíkurflugvelli og tók ekki aðeins til hendi og gekk í mörg störf flughafnar heldur náði með vinnulaunum sínum að kosta að fullu almenna flugnámið. Það var bara tekinn víxill fyrir blindfluginu.

Kristján lauk Verzlunarskóla Íslands árið 1961 og ári síðar hóf hann flugnám við Flugskólann Þyt. Hann lauk atvinnuflugmannsprófi 1964. Kristján var alla tíð ljúfur í samskiptum og góður fræðari og eftir að hann lauk prófi var hann fenginn til að vera flugmaður og flugkennari hjá Þyt hf. Og svo sótti hann um flugmannsstöðu og var ráðinn til Flugfélags Íslands frá ársbyrjun árið 1965. Svo varð hann flugmaður hjá Flugleiðum og flugstjóri frá 1981. Áður en yfir lauk var Kristján búinn að fljúga flestum helstu flugförum Íslendinga. Hann flaug þristinum (Douglas DC-3) Fokkernum, Douglas DC-6B og Boeing 727, 737 og 757 þotum. Og hann hafði einna mest gaman af að fljúga 727- vélinni. Já Kristján var góður flugmaður, sál hans og vit sameinaðist vélunum.

Félagsmál í flugi og kirkju

Og þá er komið að hinum margvíslegu félagsmálum sem Kristján lét sig varða. Hann vann annars vegar á Guðs vegum í safnaðarstarfi Neskirkju og svo hins vegar á vegum Félags Íslenskra Atvinnuflugmanna – sem er nú kannski líka á Guðs vegum. Kristján beitti sér fyrr og síðar fyrir að öll öryggismál væru höfð í hávegum og tryggt væri að allt væri vel unnið sem varðaði flug, flugmennina og skipulag flugsins. Kristján var formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) í fjölda ára frá 1979, endurkjörinn margsinnis, og hafði mikil og góð áhrif á kjör og starfsaðstæður stéttarinnar. Kristján þótti laginn málafylgjumaður í kjaraviðræðum og fékk sitt fram með hlýrri festu og traustum, sanngjörnum rökum.

Kristján sat í trúnaðarmannaráði og samninganefndum í fjölda ára, einnig starfsráði FÍA og Flugleiða, samstarfsnefndum sömu aðila og í Öryggisnefnd FÍA. Vegna farsælla starfa sinna var hann fulltrúi í Samtökum Evrópuflugmanna um nokkurra ára skeið. Hann sótti einnig nokkur ársþing Alþjóðasamtaka flugmannafélaga. Kristján var í Flugráði um skeið sem varamaður. Kristján var hann skipaður af ráðherra í nefnd til að ákvarða aðgerðir og varnir gegn flugránum. Þá vann hann einnig að tillögugerð um framkvæmdir í flugmálum. Og þegar Kristján hætti að fljúga lauk ekki félagsstörfum hans í þágu flugmanna. Hann var í stjórn Eftirlaunasjóðs atvinnuflugmanna til æviloka. Og svo var hann í stjórn söguritunar á vegum FÍA. Kristján var í stjórn Flugminjasafns Egils Ólafssonar að Hnjóti. Og ég kynntist svo Kristjáni þegar hann var í sóknarnefnd Neskirkju. Þar var hann eins og annars staðar ráðhollur, glöggur málafylgjumaður.

Margrét og dæturnar

Svo var það ástin. Þingvellir eru ekki bara sögustaður stjórnmála heldur örlagastaður í ástamálum þúsunda, líka Kristjáns og Margrétar Óskar Sigursteinsdóttur. Hún skrapp eftir vinnu með vinkonum sínum austur og þar var Kristján með sínum félögum. Þau sáu hvort annað, hlýnaði um hjartaræturnar og ástin kviknaði. Svo tóku við gönguferðir, bílferðir og dýpkandi samband. Þau Kristján og Margrét gengu í hjónaband hér í Neskirkju 4. september 1965. Þau hjónin eru því búin að ganga götuna saman frá þeim tíma, njóta samskiptanna, trausts og samstöðu. Margrét er menntaður barnakennari og starfaði við kennslu um árabil.

Kristján og Margrét eignuðust tvær dætur. Anna Sigríður fæddist í september árið 1967. Hún er viðskiptafræðingur og sambýlismaður hennar er Magnús Ragnarsson framkvæmdastjóri. Dætur Önnu eru Margrét Mist, Ragnheiður Sóllilja og Snæfríður Blær.

Ásta fæddist svo í maí árið 1971. Hún er lögfræðingur og sambýlismaður hennar Bragi Gunnarsson, lögfræðingur. Börn Ástu eru Kristján Eldur og Eva Sóldís.

Kristján vakti yfir velferð dætra sinna og vildi tryggja öryggi þeirra og allra afkomenda. Þegar Margrét lét af kennslu gætti hún barnabarnanna og kenndi þeim. Þau Kristján voru samhent í þjónustunni við stórfjölskylduna. Margrét reyndist manni sínum frábærlega vel og var honum dyggur lífsförunautur. Þegar Kristján veiktist af krabbameini vakti hún yfir velferð hans og á miklar þakkir skildar fyrir óhvikula alúð.

Eigindir

Hvernig maður var Kristján? Hvernig manstu hann? Leyfðu svipbrigðum, stemmingum og minningum að koma fram í hugann. Ég býst ekki við að Kristján hafi tekið ballettspor í flugstjórnarklefa eða á samningafundum um launakjör. En þessi stóri maður átti það til að hoppa upp og taka fjörleg ballettsport til að kæta ungviði og vekja hlátur.

Manstu hve nálægur Kristján var í kyrru sinni og áreitnisleysi? Hann var aldrei óðamála og reyndi aldrei að yfirgnæfa aðra, en átti heldur aldrei í vandræðum með að ljáta í ljós skoðun sína um það sem honum þótti máli skipta. Og Kristján var hreinskiptinn og velviljaður í ummælum sínum um mál, verk og fólk og vildi leyfa öllum að njóta sannmælis.

Kristján vildi alltaf láta gott af sér leiða bæði í störfum og félagsmálum. Fyrir honum var höfð rík ábyrgðartilfinning í foreldrahúsum og Kristján var síðan umhugað að skila því af sér sem honum hafði verið falið betra en hann hafði fengið í hendur. Hann vildi ekki eiga undir öðrum en sjálfum sér að fá framgang eða vegtyllur í starfi. Hann vildi aldrei að aðrir lyftu honum á annarra kostnað. Og hann vildi aldrei sýnast eða berast á. Kristján var mikill af sjálfum sér.

Manstu hve vandvirkur Kristján var? Í öllum efnum og málum. Hann hafði gaman af handverki. Kristján hafði litla gleði af búðaferðum almennt en þeim mun meira gaman af að fara í verkfæraverslanir til að kaupa sér vönduð verkfæri á verkstæðið heima. Hann var enginn merkjamaður í fatnaði en kunni hins vegar vel að meta góð verkfæri sem mætti grípa til viðgerða. Þau Margrét voru samhent við húsbætur heimila sinna og unnu saman. Og Kristján hikaði ekki þegar kom að smíðum, pípulögnum og reisa veggi. Dætur hans nutu föður síns fyrr og síðar þegar þær stóðu í hreiðurgerð og fegrun heimila sinna. Og þau Margrét lögðu gjörva hönd að byggingu sumarbústaðar þeirra við jaðar Hekluhrauns. Þar kom vel í ljós hve góður smiður Kristján var.

Svo var hann gjörhugull. Hann tók eftir fólki, var næmur á ýmis smáatriði, tók eftir því sem mætti honum í félagslífi og á götum mannlífsins. Því var hann ekki aðeins góður tæknimaður í fluginu heldur sá oft fyrir vanda sem varð áður en í óefni var komið.

Manstu músíkina í Kristjáni? Heyrðiru hann einhvern tíma spila eftir eyranu á hljómborð, jazz eða ljúfa ameríska músík?

Og svo var Kristján málsvari öryggis í öllum málum í fjölskyldu og félagsmálum. Öryggissýn Kristjáns skilaði mjög miklu í flugmálum Íslendinga og hann hefur því átt drjúgan þátt í tryggum verkferlum og starfsmannavernd sem hefur skilað farsælu flugi um áratugi. Hann naut mikils trausts í flugmannastéttinni og meðal flugfólksins í landinu.

Og nú er Kristján Egilsson farinn í sitt síðasta flug – inn í himininn – inn í morgunroða eilífðar. Hann dansar ekki lengur splittstökk fyrir ungviðið, leggur Lífeyrissjóði kolleganna lið eða tekur þátt í að skapa flugsöguna. Hann lýtur ekki að trjáplöntum framar eða heldur að unga fólkinu kjötbollum. Hann syngur aldrei aftur Shibaba, fer aldrei í köflótta, stutterma skyrtu aftur og dregur ekki klink upp úr vasa til að gauka að barnabörnum sínum.

Og við megum þakka ríkulega fyrir allt það sem hann var og gaf. Fyrir hönd Neskirkju og þjóðkirkjunnar ber ég fram þakkir. Hópur flugfólks sem hér er þakkar fyrir hönd okkar allra störf Kristjáns í flugmálum. Og ástvinir þakka. Kristján er farinn og lentur á stærsta og öruggasta vellinum. Þar eru engar veilur í stjórn lofhelgi eilífðar – Jesúavían er algerlega kvillalaus. Og þegar Kristján lyftist á vængjum morgunroðans heldur honum – eins og okkur öllum – hönd Guðs.

Nýtt ár er upp runnið – eilífðin umvefur hann.

Guð geymi Kristján Egilsson og Guð geymi þig.

Útför Kristjáns fór fram föstudaginn 13. janúar, frá Neskirkju við Hagatorg. Bálför.

 

Pabbar eru líka fólk

 

Hvenær byrjar eilífa lífið? Í þessu lífi. Þegar barn er vígt himninum í skírn kyssir eilífðin tímann. Skírn og trúaruppeldi hafa verið töluð niður í samfélagi okkar en ekkert er of gott fyrir börnin. Og börnin þurfa að læra margt og eflast að þroska. Sálarþroski og trúarþroski er einn veigamesti þáttur þess að verða manneskja. Börnin þurfa að læra að umgangast hið heilaga, að tala við Guð og að sjá líf sitt í stóru samhengi lífsins, sjá hlutverk sitt í tengslum við annað fólk, bera virðingu fyrir sjálfum sér og að þjóna öðrum og nýta hæfileika sína til góðs.

Kirkjan aðstoðar við trúarlega mótun en heimilin eru afgerandi um hvort börnin fá notið trúarþroska. Guðmæður og guðfeðgin hafa líka hlutverk við uppeldið. Við erum öll kölluð til að blessa börnin. Karlarnir hafa líka hlutverk; feður, afar, bræður – já heilu karlahóparnir.

Leyfið

Við allar skírnir á Íslandi, í heimahúsum, í kirkju, í messum og utan messutíma, eru lesin orð Jesú um að leyfa börnum að koma:  “Leyfið börnunum koma til mín…” – segir hann – “…varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki.” Og þetta er guðspjallstexti dagsins.

Prestarnir fara gjarnan með textann við skírnirnar en stundum lesa foreldrar, guðfeðgin eða aðrir ástvinir. Sjaldan er fyrirstaða með að afla lesara og það er gaman að sjá og heyra ástvinina flytja þennan elskulega texta um að leyfa börnunum að koma til Jesú. Þegar bræður eða pabbar lesa hef ég stundum hugsað um vilja karlanna til uppeldis. Eru þeir tilbúnir að vera trúarlegar fyrirmyndir, sinna kvöldbænaiðjunni, lesa biblíusögurnar, skýra eðli bæna, kenna góðverk og vera huggandi öxl þegar slys og dauðsföll verða?

Jákvæðni foreldranna

Prestar tala við foreldra áður en skírt er. Þessi skírnarviðtöl eru merkileg. Þá er hægt að fara yfir líðan, samskipti hjóna, möguleika og skyldur varðandi velferð og uppeldi barnsins, spyrja um líðan á meðgöngu og eftir fæðingu, fara yfir hætturnar sem steðja að ungbarnafólki, ræða um samskipti, álagsþætti og ræktun kærleikans. Ótrúlegt er hversu viljugir flestir foreldrar eru að kafa djúpt og hversu hæfir flestir eru að ræða þessi mál. Fæst hiksta þegar spurt er um trúarlega afstöðu og sjaldan hika þau að segja skoðunum sínum í þeim efnum. Og þær eru margvíslegar og alls konar.

Ég vek athygli feðranna á stöðu þeirra, möguleikum og þátttöku í uppeldi, trúarlegu atlæti barnanna og hvaða fyrirmyndir þeir séu eða geti verið á öllum sviðum. Frjálsir pabbar samtíðans eru tilbúnir til góðra verka. Þeir eru jafnvel tilbúnir að taka upp bænahald að nýju til að vera betur í stakk búnir að gefa börnum sínum traust og sálarfestu.

Hlutverk karlanna

Karlar eiga að skoða hlutverk sitt og skyldur varðandi trúaruppeldi. Rannsókn á trúarlegri mótun fólks á Íslandi árið 1986 sýndi að feður gegndu litlu trúarlegu mótunarhlutverki. Mömmurnar voru langmikilvægastar, síðan komu ömmur og afar, svo prestarnir og pabbarnir voru í fjórða sæti. Ástæðurnar voru menningarlegar. Atvinnuhættir og samfélagsgerð bundu marga pabba einhvers staðar fjarri heimilum, svo sem út á sjó. Í heimi þar sem karlar áttu að bíta á jaxlinn í sorgum og áföllum áttu sumir þeirra í vandræðum með náin samskipti, fíngerða samræðu og uppeldi. Og konurnar sáu gjarnan um trúarlega miðlun.

Vöðvastælt víkingaímynd og tilfinningafryst karlmennskuídeöl fyrri ára voru heldur ekki hliðholl kærleiksáherslu og tilbeiðsluiðkun. En hörkunaglarnir detta úr tísku. Feður samtíma okkar eru mun virkari í uppeldi ungviðisins nú en fyrir þremur áratugum. Þáttaka kvenna og karla er jöfn í atvinnulífinu og eðlilegt að karlarnir axli jafna ábyrgð í heimilislífinu.

Gæði fæðingarorlofs

Kynhlutverkin hafa breyst. Lögin um fæðingarorlof (nr. 95/2000) höfðu góð áhrif á íslenska feður. Markmið laganna er að tryggja barni samvistir með báðum foreldrum. Tilgangur þeirra er m.a. að hvetja karla til að gegna skyldum sínum gagnvart börnum sínum og fjölskyldulífi til jafns við mæður. Skírnarviðtölin hafa sannfært mig um að flestir karlarnir eru afar barnvænir. Þeirra hlutverk er ekki lengur bara á kafi í að byggja eða nota feðraorlof í puð. Þeir eru þvert á móti á kafi í bleyjum og tilfinningalífi barna sinna.

Bónusarnir eru margir. Það er beinlínis heilsusamlegt að taka feðraorlof. Alla vega uppgötvuðu Svíar, að karlarnir sem taka feðraorlof eiga mun síður hættu á að deyja fyrir fimmtugt en hinir sem nýta sér ekki orlofið. Það hefur lengi verið vitað að konur lifa almennt heilbrigðara lífi eftir að þær verða mæður, en rannsóknir leiddu líka í ljós, að þegar feður bindast börnum sínum tilfinningaböndum verða þeir varkárari, passa sig betur gagnvart hættum, drekka minna og heilsa þeirra batnar. Þeir fara að axla fleiri ábyrgðarhlutverk sem konur hafa sinnt áður. Með batnandi heilsu batnar heimilisbragur og líðan heimilisfólksins þar með.

Margir feður hafa nýtt tímann vel og notið þessa tíma. Einn faðir setti þá athugasemd á netið, að föðurorlof hans hefði verið frábær tími, “sjálfsagt skemmtilegasti tími lífs míns. Feðraorlof er mesta snilld”skrifaði hann.

Vilja vera heima en verða að vinna!

Pabbarnir eru á uppleið á Íslandi en atvinnusamhengi feðranna þarf að bæta. Það kemur í ljós að of margir feður telja sér ekki fært að taka sína orlofsmánuði. Af hverju? Vegna þess að aðstæður í fyrirtæki þeirra leyfi ekki fullt feðraorlof. Ef þeir taka allan orlofstímann eru margir hræddir um að búið verði að grafa undan starfi þeirra eða breyta þegar þeir koma til baka. Pabbar í feðraorlofi upplifa það sem konur hafa mátt búa við í áratugi, að barn stefni vinnu í voða. Of margir feður telja sig tilneydda að fara að vinna áður en þeir eru búnir með sinn kvóta. Það er skaði því það eru börnin sem eiga rétt á feðrunum en ekki fyrirtækin.

Það er skylda mín sem prests, skylda okkar sem safnaðar og skylda okkar sem kirkju að standa með börnum og fjölskyldum í að breyta viðhorfum. Það er skylda yfirmanna að tryggja fjölskyldufrið á ungbarnaheimilum. Jesús bað um að börnunum væri leyft að koma til hans. Það þýðir ekki aðeins að börnum verði heimilað að koma í kirkju, heldur að börnin fái notið alls hins besta í lífinu – líka feðra sinna. Þeir eiga að fá næði til tengjast börnum sínum og vera þeim trúarlegar fyrirmyndir. Faðir, sem nær tíma með barni sínu, fær betri möguleika á að leggja traust í sál þess og gefa því styrkari skaphöfn. Það er trúarlegt erindi og trúarlegt verkefni. Góður föðurtími með börnum skilar oft betri trúarþroska. Traust föðurímynd er sumpart forsenda guðstrausts.

Feður eru mikilvægir fyrir uppeldið. Jesús sagði “leyfið börnunum að koma til mín og varnið þeim eigi.” Skírnin er mikilvæg og Jesús minnti á í skírnarskipuninni, að við ættum að kenna líka. Foreldrarnir báðir hafa trúarhlutverki að gegna.

Verndum feðurna, þá eflum við heilsu fólks, eflum heimilislíf – þá blessum við börnin og Jesús gleðst með fangið fullt af hamingjusömu fólki.

Amen

Hallgrímskirkja, 8. janúar 2017, 1. sunnudag eftir þrettánda.

Íslenskur ættarhringur og ástin sem lifir

Kona sem ég þekki var á leið í leigubíl frá Friðriksbergi í Kaupmannahöfn út á Kastrupflugvöll. Bílstjórinn spurði hvert hún væri að fara. „Ég er að fara til Íslands“ svarði hún. Þá sagði leigubílstjórinn og lagði tilfinningu í: „Ég á Íslendingum allt að þakka, hamingju mína.“ Svo sagði hann konunni á leið til Íslands sögu sína. Hann hafði komið til Danmerkur sem erlendur innflytjandi og kynnst innlendri stúlku sem var af “góðum” dönskum ættum. Þau urðu ástfangin en foreldrar hinnar dönsku konu höfðu ekki trú á sambandinu og gerðu unga fólkinu erfitt fyrir. Að lokum flýðu þau og tóku með sér tjald því þau höfðu ekki í nein hús að venda. Þau ákváðu að fara í rólegheitum yfir mál og möguleika. Þau reistu tjald sitt á tjaldstæðinu í Kolding. Þar voru þau þegar íslensk hjón gáfu sig að þeim og töluðu við þau. Unga parið treysti þeim og sagði þeim frá vanda sínum. Íslendingarnir hlustuðu og skildu kreppuna og að þau voru á flótta. Allt sem þau áttu var ást og von um að fá að lifa sem par. Á þriðja degi kom íslenska konan til að kveðja. Hún sagði þeim að hún hefði trú á þeim og ást þeirra og hún ætlaði að gefa þeim ættargrip sem væri heillagripur fjölskyldu hennar. Það væri hringur sem amma hennar á Íslandi hefði hefði átt. Svo dró hún þennan vonarbaug á hönd hinnar dönsku konu sem var djúpt snortin af þessari blessun og trú. Leigubílstjórinn sagði að þessi gjörningur og stuðningur hefði styrkt þau í trú á að ást þeirra gæti lifað þrátt fyrir mótlætið. Og þau væru nú búin að búa saman í tuttugu ár og eignast þrjú börn.

Þetta er ein af sögum heimsins, saga um ást, von og trú. Þetta er góð saga og minnir á samband Hallgríms Péturssonar og Guðríðar Símonardóttur, saga um erfiðleika en líka lífsundur. Kristnin er átrúnaður hins jákvæða og að lokaðar dyr má opna. Sá Guð sem Jesús Kristur opinberaði er Guð hins góða og lausnar. Ástin tengir og trúin eflir. Koldingsagan minnir okkur á að loka ekki á “hina” og þau sem eru “óæskileg” heldur opna. Öll erum við jafngild og öll elskar Guð. Ömmuhringurinn frá Íslandi er enn á fingri hinnar dönsku konu.

Veistu hver þau voru, þetta gjafmilda íslenska par? Ef eitthvert ykkar veit um hvaða Íslendingar voru í Kolding og gáfu ungu ástföngnu fólki trú og von væri gaman að fá upplýsingar eða ábendingu.

Myndin (sem ég tók á safni í Þýskalandi) er af hring Katharinu von Bora, konu Marteins Lúthers. Þau eru eitt af mörgum pörum sem bundust ástarböndum þvert á vilja ráðandi aðila og kerfa.

Jólin hans Hallgríms í Þýskalandi

Fyrir jólin kom út í Þýskalandi bókin Norræn jól (Skandinavische Weinachten) hjá Oetinger forlaginu í Hamborg. Þar er meðal annars að finna þýðingu Florence Groizier á Jólunum hans Hallgríms eftir Steinunni Jóhannesdóttur með myndum Önnu Cynthiu Leplar. Í bókinni er auk þess birt Jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum með myndum Erlu Siguðardóttur og sagan Jólin í Hælavík eftir Jakobínu Sigurðardóttur, myndskreytt af Imke Sönnischen.

Norræn jól er vegleg bók, um 220 síður í stóru broti og ríkulega myndskreytt. Þar eru mikilvægustu norrænu jólasögurnar sagðar af höfundum eins og Astrid Lindgren, Selmu Lagerlöf, H. C. Andersen, Ellen Reumert, Jo Tenfjord, Tor Åge Bringsværd, Tove Jansson, Zacharias Topelius og fleiri, ásamt myndum Elsu Beskow, Katrin Enkelking, Sven Nordqvist, Carola Sturm og fleiri listamanna. Einnig er greint frá ýmsu sem tengist jólahaldi og aðventu á Norðurlöndunum. Íslenskir jólasveinar, Grýla, Leppalúði og skötuilmur á Þorláksmessu koma við þá sögu.

Bók Steinunnar Jóhannesdóttur opnar sýn að jólum á tíð Hallgríms Péturssonar. Í Hallgrímskirkju var bæði í desember 2015 og 2016 tekið á móti barnahópum og þeim kynnt jólahald á tíð hins unga Hallgríms sem Steinunn segir svo frábærlega vel. Saga hennar hefur verið nú verið valin í úrvalssafn norræns jólaefnis. Það er magnað og fagnaðarefni.