Lára G. Oddsdóttir, sóknarprestur í Valþjófsstaðarprestakalli

Ég styð sr. Sigurð Árna Þórðarson í embætti Biskups Íslands.

Af hverju?

Jú, það er vegna þess að ég tel að Þjóðkirkjunni verði vel borgið í framtíðinni með sr. Sigurð Árna sem biskup.  Hann hefur yfirgripsmikla þekkingu á málefnum kirkjunnar og glöggt auga fyrir því sem betur má fara auk þess að hafa dug og þor til að leiða kirkjuna okkar til farsældar og þar með okkur öll sem teljumst innan vébanda Þjóðkirkjunnar. Sigurður Árni býr yfir reynslu sem við sem þekkjum til hans finnum að glæðir öll störf hans og samskipti við fólk og hann vekur traust þeirra sem á vegi hans verða.

Ég treysti sr. Sigurði Árna Þórðarsyni.

Sunna Dóra Möller, æskulýðsfulltrúi Akureyrarkirkju

Ég styð framboð dr. Sigurðar Árna Þórðarsonar prests í Neskirkju til embættis biskups Íslands.  Dr. Sigurður Árni er reynsluríkur kennimaður, sem hefur skýra sýn á margt það sem er kirkjunni mikilvægara en annað sbr. barna-og ungmennastarf.  Æskulýðsstarf þjóðkirkjunnar er mér hugleikið og eftir samtöl við frambjóðandann hef ég trú á því að hann muni vinna að því að efla þetta mikilvæga starf og beita sér fyrir því að byggja upp kirkju til framtíðar.

Bolli Pétur Bollason, sóknarprestur Laufásprestakalli

Dr. Sigurður Árni Þórðarson prestur í Neskirkju býður sig fram til embættis biskups Íslands. Ég styð það framboð heilshugar og hef þannig trú á þeim mæta manni til að leiða þjóðkirkjuna í ólgjusjó nútímans. Ég kann vel við áherslur frambjóðandans hvað snertir barna-og ungmennastarf innan kirkjunnar.  Það er mikilvægt starf. Dr. Sigurður er málsnjall og hugsandi maður og býr yfir röggsemi og mýkt í senn. Hann hefur því að mínu mati alla burði til að leiða fólk saman kirkjunni til heilla og blessunar.

Gréta Konráðsdóttir, djákni í Bessastaðasókn

Mikið var ég glöð þegar Sigurður Árni Þórðarson sagði mér að hann ætlaði að bjóða sig fram til þjónustu sem biskup Íslands.   Ég tel að sá ágæti maður Sigurður Árni hafi svo margt fram að færa fyrir kirkjuna okkar, hann er vel lesinn eins og sagt er og horfir til framtíðar.  Það sem kirkjan þarf er leiðtogi sátta og sameiningar  með ríka réttlætiskennd og í það verkefni er Sigurður Árni vel hæfur.  Síðast en ekki síst er hann afskaplega hlýr maður sem veitir fólki og málefnum fulla athygli.  Ég treysti Sigurði Árna til þeirrar mikilvægu og vandasömu þjónustu sem biskup Íslands gegnir.

Gréta Konráðsdóttir, djákni í Bessastaðasókn.