Magnús Heimir Gíslason

 Hann gerði sér grein fyrir takmörkunum mannsins og að allt er forgengilegt. En tónlist, frumform, litundur í náttúrunni og þrá í sálardjúpum er hvísl um lífið, sem er handan þessa. Minningarathöfn um Magnús H. Gíslason var gerð frá Neskirkju 15. mars 2006.

Bíldudalskrossinn

Lítill kútur vestur á Bíldudal sá kross á kirkjunni, spurði mömmu sína um tilgang krossa og líka hlutverk kirkju. Svo fór hann til pabba, sem gat allt og bað: „Pabbi viltu gera fyrir mig kross eins og á kirkjunni?” Smákarlinn hafði hugmynd um formið, pabbinn lét undan og krossinn var smíðaður. En stubbur var ekki ánægður með smíðisgripinn, hafði ýmislegt við krossinn að athuga og pabbinn tók sig til og bætti um betur. Svo fóru feðgarnir að kirkjunni, krosseigandinn smái brá upp smíðinni og bar saman við fyrirmyndina yfir skrautlegum turninum, með gluggafjöldina, upsir og kúlu. Þá var allt orðið eins og það átti að vera, hlutföllin voru komin í lag og allt var gott! Í þessari krossvinnslu komu ýmsar eigindir og hneigðir Magnúsar Heimis Gíslasonar fram – listfengi, formskynjun, húsaáhugi, leit í trúarvíddir og tákn og teiknigeta. Hann brá upp krossi og varð að bera sína krossa í lífinu. Svo er hann krossaður hér í þessu guðshúsi fyrir ferðina miklu inn í eilífð himinsins. Lífið byrjaði með Bíldudalskrossi og lýkur undir krossi Krists.

Æviágrip

Magnús Heimir Gíslason fæddist á Bíldudal 17. apríl 1941 en lést 3. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Gísli Súrsson Magnússon frá Bíldudal (1912-2001) og Laufey Sæbjörg Guðjónsdóttir fædd á Siglufirði (1917). Bróðir Magnúsar er Guðjón Már. Magnús eignaðist soninn Gísla Þór með þáverandi sambýliskonu sinni, Rósu Sigvaldadóttur. Kona Gísla er Guðrún Dóra Harðardóttir. Börn þeirra eru Urður Helga og Hákon Orri. Árið 1974 kvæntist Magnús Lilju Sólrúnu Halldórsdóttur. Þau skildu eftir sautján ára samveru. Dóttir Magnúsar og Lilju er Sif Eir. Börn hennar og Snorra Otto Vidal eru Alexander Leonard og Mikael Máni. (Núverandi sambýlismaður Sifjar er Gylfi Már Logason – nb aðskilin síðar).

Nám og störf

Magnús flutti með foreldrum sínum frá Bíldudal til Reykjavíkur árið 1944 og sótti skóla hér í Vesturbænum, Melaskóla og Gaggó Vest. Eftir landspróf fór hann í MR og síðan í Iðnskólann í Reykjavík. Þar útskrifaðist hann sem húsasmíðameistari, 1963, og dúxaði. Magnús átti létt með nám og var öllum samnemendum sínum hærri við útskrift í Iðnskólanum. Hann hafði sett kúrsinn og fór til Kaupmannahafnar og nam byggingafræði og útskrifaðist árið 1967 sem byggingafræðingur og byggingameistari eftir fjögurra vetra nám ytra.

Heimkominn frá námi starfaði Magnús hjá Húsameistara ríkisins og á ýmsum kunnum teiknistofum, teiknaði íbúðarhús, kirkjur og jafnvel innréttingar í Seðlabanka. Síðan kenndi hann fag- og iðnteikningu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja í níu ár en síðar tækniteiknun við Iðnskólann í Reykjavík. Hann varð svo starfsmaður Olíufélagsins og síðustu árin starfaði Magnús hjá Olíudreifingu.

Teikningin og listfengi

Hvað hugsar meistari þegar hann skapar tilveru, umgjörð fyrir fólk, hús fyrir lífið? Autt blað getur kallað til verka. En það getur líka hrætt þann, sem gengur með ófullburða hugmynd, með hugdettu sem ekki er alveg tilbúin. Penninn getur rissað fram og til baka, en svo gengur verkið ekki. En ef hugmyndin er flott, er tilbúin að fæðast, gengur dæmið upp, allt fellur á sinn stað, myndin eða teikningin sprettur fram með samruna hugmyndar, tilfinningar, handverks, þjálfunar og andagiftar.

Hvað hugsaði Guð þegar tilveran var auð og tóm? Var það hönnunargleði, sem kviknaði, löngun til að móta, útbúa kerfi, skipa málum, hanna heita reiti hér og kalda þar, smella rauða litnum á þessa plánetu hér og bláum þar? Aðgreina ljós og myrkur, dag og nótt, hanna umhverfi, útbúa veruleika fyrir fólk. Síðan hefur ævintýrið haldið áfram í fjölbreytileika lífríkis, í mannkyni, menningu, birst í musterum, sem við getum gengið inn í og dáð og líka í stórvirkjum andans hvort sem er í tónlist, trúarbrögðum og öðrum rismiklum afurðum menningar. Magnús gekk inn í þessa miklu sköpunarverðandi, heillaðist af henni og speglaði í lífi sínu margt af þeim gæðum, sem höfða til tilfinninga, kitla fegurðarskynið og vekja fögnuð. Hann var næmur á sköpunarsnilld.

Myndlistin

Magnús var þegar í bernsku hæglátur, naut sín vel við handverk og iðju og varð snemma afar drátthagur. Skólabækurnar í Melaskóla myndskreytti hann fallega og var ljóst hvert og hvernig krókurinn beygðist. Magnús hafði næmt sjónskyn, greip snögglega hvernig hluturinn var formaður. Það nýttist síðar vel í byggingafræðinni. Í foreldrahúsum var fyrir honum haft og líka innrætt mikilvægi vandvirkni í verkum. Það skal vanda sem lengi skal standa. Hann lærði, að hús skyldu haglega gerð, skip og mannvirki yrði að gera sem best til að þau þjónuðu ekki bara skammtímahlutverkum heldur dygðu lengi og væru til yndis að auki. Með þetta veganesti og góðar námsgáfur gekk Magnúsi námið vel og hann naut sín við teikniborðið. Þar hafði hann næði til að móta, fullvinna rými svo það bæði nýttist vel og væri fallegt. Og hann þurfti tíma fyrir verk sín, til að fullvinna, til að tryggja að húsin yrðu góð.

Teikni- og formskynjunin nýttist líka í tómstundum hans. Magnús hafði menntast í teikningu í bygginganámi sínu en í málverki var hann sjálfmenntaður og varð frábær vatnslitamálari. Þessar tómstundir urðu meira en prívatmál. Lilja aðstoðaði hann og kom á sýningum í Ásmundarsal og líka í Heilsuhælinu í Hveragerði. Magnús hafði um tíma talsverðar tekjur af myndlist sinni, sem fleyttu honum yfir tímabil þegar hann var ekki í fastri vinnu. Og Gallerí List seldi um tíma myndir hans. Magnús málaði landslagsmyndir, en gerði líka myndir af byggingum og tækjum. Tússmyndir hans af kirkjum voru birtar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Hann málaði vantslitamyndir af öllum skipum Eimskips, sem hengu uppi í aðalstöðvum félagsins. Og B&L keypti líka af honum myndaröð.

Magnús var ekki aðeins áhugamður um sköpunarverkið og húsasmíði manna og þar með nýjustu gerð þakglugga, heldur hafði víðtækan tækniáhuga. Hann hafði áhuga á gerð skipa og hlutföllum þeirra, smíðaði stóran sjómælingabát úr balsaviði og vitaskuld í réttum hlutföllum. Hann tók ástfóstri við katla og gufuvélar og vildi helst gerþekkja hönnun þeirra og notkun.

Músíkin

Listrænan í honum spannaði líka tónlist. Hann hélt upp á sígilda tónlist, var mikill Wagneraðdáandi og kunni vel að meta orgel-Bach og líka léttleikandi Mozart. Svo var hann áhugasamur um rússnesku tónskáldin, Borodin, Mussorsky og Rimskij-Korsakoff. Óperutónlist kunni hann vel að meta, hélt upp á Verdi, kunni Oþelló utan að og sat með nóturnar og fylgdist með. Svo las hann textana upphátt eða þýddi fyrir tilheyrendur og varð vinum sínum og kunningjum bæði tónlistarkennari og hvati til tónlistarupplifunar. Magnús lék á bæði orgel og píanó. Hann gekk ekki í tónlistarskóla, var sjálfmenntaður. Hann m.a.s. las tónfræðibækur sér til skemmtunar og samdi eigin tónverk, sem hann fór þó leynt með.

Maðurinn að baki

Hvernig maður var Magnús? Jú, þegar hefur verið nefnd listfengi. Hann var nákvæmur í verkum, vildi hafa umhverfi sitt í röð og reglu. Hann var bókelskur og hafði sértækan bókasmekk. Hann las líka stærðfræðibækur sér til skemmtunar og lagði sig eftir ritum um andleg fræði og hafði áhuga á trúmálum. Hann var meðlimur í Guðspekifélaginu, kynnti sér trúarbrögð og hafði áhuga á trúarheimspeki. Hann var stiltur, hógvær og hafði ríka næðisþörf. Smátt og smátt hjúpaði hann sig og hleypti ekki fólki að sér. Hvað hugsaði hann og hvað var hann? Við sjáum eigindirnar, en þekkjum ekki allt liftróf tilfinninga hans. En við getum verið viss um að maður með hans sálargerð þráir meira, leitar lengra, vill stærra en fengið er. Farðu yfir hugðarefnin og rifjaðu upp í huga þér hvað hann var. Var ekki alltaf ófullnægð þrá, einhver opnun, einhver glufa sem vísaði áfram til þess sem var stærra, meira, dýpra, sterkara en hann náði að tjá eða vera í lífinu? Við getum ekki lengur spurt hann eða grennslast eftir. Við getum aðeins ráðið í rúnir lífs hans og íhugað. Kannski getur vitaáhugi hans lokið upp leyndarmálum og lýst fram á veginn.

Viti og kross

Magnús hafði gaman af ferðalögum um landið og ekki síst að vitja þessara ljósvirkja á ströndum. Hann tók myndir af vitunum og dáðist að þeim. Vitabyggingarnar eru skýrar að forminu til, eiga sér líka samhengi í línum lands en eru tákn um hættur, áminning um sker og boða í sjó. Vitar hafa áhrif á hvernig umhverfi þeirra er upplifað og hafa verið mikilvægir við að vernda líf, að sæfarendur hafa komist heilir heim. Með sinni hljóðlátu og mikilvægu ljósgjöf hafa þeir vísað veg, varnað slysum og bent til vegar, gefið áttaviltum og áttlausum vitneskju, sem dugði til lífsbjargar. Þar er áleitið táknmál fyrir lífið. Vitar eru flottir, þeir eru til varnar lífi og benda til vegar. Þannig eru kirkjur, þannig er trúin, þannig er allt lífið þegar grannt er skoðað. En viljum við sjá form, liti og burðarkerfi lífsins? Magnús hafði séð þetta allt, gert sér grein fyrir takmörkunum mannsins, brestum og að allt er forgengilegt. En tónlistin, frumformin, litundrin í náttúrunni og þráin í sálardjúpum er hvísl um lífið, sem er handan þessa.

Litli drengurinn vestur á Bíldudal vildi ekki fyrsta krossinn og pabbi gerði nýjan. Sá var betri hinum fyrri og nógu góður. Lífið er til að læra af því, Magnús fékk sínar lexíur, bar sinn kross. En svo er til nýr og betri kross, sem er tákn um nýjan himin, nýtt hús í heimi eilífðarinnar. Sá kross er kenndur við Krist og er kross hinn meiri sem hæfir mönnum og líka Magnúsi. Þar er sköpunin alger, þar er allt gott því húsameistari þess ríkis getur og kann allt, þar eru allar teikningar frábærar og umbreyast í draumahús og hallir fyrir lífið.

Guð varpi yfir Magnús Heimi Gíslason ljóskrossi elskunnar og geymi hann alla eilífð.

Minningarorð flutt við útför í Neskirkju 15. mars 2006.

Æviágrip

Magnús Heimir Gíslason fæddist á Bíldudal 17. apríl 1941. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu Granaskjóli 80 í Reykjavík föstudaginn 3. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Gísli Súrsson Magnússon, f. 10. desember 1912 á Bíldudal, d. 25. mars 2001 og Laufey Sæbjörg Guðjónsdóttir, f. 3. september 1917 á Siglufirði. Bróðir Magnúsar er Guðjón Már Gíslason, f. 8. nóvember 1950. Sambýliskona Magnúsar var Rósa Sigvaldadóttir, f. 11. janúar 1947 í Hofsárkoti í Svarfaðardal. Þau slitu samvistum. Foreldrar hennar voru hjónin Sigvaldi Gunnlaugsson, f. 8. nóvember 1909, d. 6. júlí 1996 og Margrét Kristín Jóhannesdóttir, f. 30. október 1913, d. 21. september 1998. Sonur Magnúsar og Rósu er Gísli Þór Magnússon, f. 11. október 1969. Sambýliskona hans er Guðrún Dóra Harðardóttir f. 8. apríl 1970. Börn þeirra eru Urður Helga, f. 15. júní 1999 og Hákon Orri, f. 27. febrúar 2003. Hinn 9. ágúst 1974 kvæntist Magnús Lilju Sólrúnu Halldórsdóttur, f. 24. mars 1945 í Halakoti á Vatnsleysuströnd. Þau skildu. Foreldrar hennar voru hjónin Halldór Ágústsson, f. 7. mars 1910, d. 28. ágúst 1992 og Eyþóra Þórðardóttir, f. 5. apríl 1922, d. 25. febrúar 1987. Dóttir Magnúsar og Lilju er Sif Eir Magnúsdóttir, f. 5. nóvember 1971, var gift Snorra Otto Vidal, f. 3. júní 1973, þau skildu. Börn þeirra eru Alexander Leonard, f. 10. október 1997 og Mikael Máni, f. 26. júní 2000. Sambýlismaður Sifjar er Gylfi Már Logason, f. 11. maí 1972. Magnús flutti með foreldrum sínum frá Bíldudal til Reykjavíkur 1944. Eftir landspróf hóf hann nám við Iðnskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan sem húsasmíðameistari árið 1963. Hann nam byggingafræði í Kaupmannahöfn og útskrifaðist þaðan sem byggingafræðingur og byggingameistari árið 1967. Að námi loknu starfaði Magnús hjá Húsameistara ríkisins, teiknistofum, kenndi fag- og iðnteikningu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og tækniteiknun við Iðnskólann í Reykjavík. Síðustu árin starfaði Magnús hjá Olíudreifingu ehf.

 

Jón R. Árnason – minningarorð

Næmur læknir og opinn listamaður hugsaði um hvað lífið er og til hvers. „Orka eyðist ekki við dauða,“ sagði Jón R. Árnason og viðurkenndi mörk fræða sinna og skilnings, þorði að íhuga hvernig mætti túlka hið dýpsta samhengi lífsins. Með slíkt ratljós er hægt að fljúga áfram í heima fræða, lista og trúar. Útför Jóns var gerð frá Neskirkju 18. janúar 2006 og minningarorðin fara hér á eftir.

„Komdu að fljúga – það er svo gott veður.“ Í augum Jóns var gáski, kátína á vörum og flugsókn í hjarta. Ákefðin í röddinni smitaði og svo var viðmælandinn til í að koma. Rokið af stað út á flugvöll, vélin græjuð, sest upp og hreyflarnir fóru að snúast. Flugturn gaf leyfi, út á braut. Lokatékk, svo bensín í botn, líkaminn þrýstist aftur í sæti í hröðuninni, hjólin slepptu og svo var klifrað – mót himni, upp í góðviðrið, upp í frelsið, útsýn, yfirsýn, stórsýn. Mannheimar verða smáir undir hvelfingunni, sjórinn mikill og fjöllin glæsileg.

Upphaf

Jón R. Árnason fæddist í Reykjavík 19. apríl 1926 og lést 9. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Árni Pétursson (1899-1953), læknir, og Katrín Ólafsdóttir (1904-88). Systur Jóns eru Þórunn og Hólmfríður og uppeldissystir Svala Eyjólfsdóttir. Fjölskylda Jóns bjó um tíma á upphafsreit Reykjavíkur, í Uppsölum gegnt Herkastalanum, þar sem nú er búið að byggja hótel við eða yfir landnámsbæ. Á þeim reykvíska núllpunkti réðu ríkjum Þórunn, stóra amma, og Hólmfríður, litla amma, stjúpur Katrínar. Þegar Jón var ungur bjó fjölskyldan um tíma á Fjólugötu og síðar í Skála við Kaplaskjólsveg. Árni og Katrín byggðu síðar hús við sjávarsíðuna í Faxaskjóli 10.

Skólaganga

Jón sótti skóla í Reykjavík, en lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1947 og embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1955. Síðan tók við framhaldsnám og læknisstörf í Svíþjóð næstu ár eða til 1962. Jón var yfirlæknir við Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupsstað 1962-1964, rak læknastofu í Reykjavík frá 1964 – 1974, var síðan yfirlæknir á skurðdeild Sjúkrahúss Vestmannaeyja 1974 – 75. Heilsugæslulæknir við heilsugæsluna Sólvangi í Hafnarfirði var hann síðan frá árinu 1975 og þar til hann lét af störfum sökum aldurs.

Marlies

Einn sumardag árið 1950 sat Jón við píanóið og seiddi fram unaðshljóma úr hljóðfærinu en líka að sér þýska stúlku Marlies Wilke, sem eiginlega var bara í millistoppi á leið til Ameríku. En hún fór ekki lengra, tónlistin seiddi, hún sá þennan glaðsinna svein, sem sat við hljóðfærið og var starsýnt á mokkaskóna sem dönsuðu á pedölunum. Svo töluðu þau um djass, uppgötvuðu að þau voru bæði á móti honum. Sú andstaða braut ísinn svo þau töluðu, hrifningin óx og hitinn í augunum líka. Þetta gat ekki endað nema á einn veg. Þau Marlies gengu í hjónaband hjá fógeta 7. júlí 1951 og bjuggu fyrst á Ránargötu, auralaus og sæl. Svo enduðu þau för sína í Sörlaskjólinu, áður en Jón fór á Eir vegna heilsubrests. Þar var hann síðustu árin og naut einstakrar umhyggju, sem hér skal þökkuð.

„Já, við elskuðum hvort annað,” sagði Marlies með blik í auga, svipurinn hennar varð mildur og það var eins og strokur og blíða áratuganna færi um hana alla. Þau fóru um heiminn saman, fóru víða vegna vinnu Jóns og alltaf fór Marlies með, studdi mann sinn með þeim ráðum og dáð sem hún átti.

Börnin, tengdabörn og afkomendur

Börnin þeirra Jóns og Marliesar urðu fimm. Þau eru:

Árni Erwin, kvæntur Guðrúnu Hjörleifsdóttur.

Katrín Hildegard, gift Jóni Magnúsi Ívarssyni.

Gunnar Pétur, kvæntur Ernu Valgeirsdóttur.

Þórarinn Axel, unnusta hans er Natali Ginzhul

og Þórunn Hólmfríður, hennar sambýlismaður er Haraldur Axel Gunnarsson.

Samtals eru afkomendurnir sextán og voru afa ömmu gleðigjafar. Af þeim getur Tinna Karen ekki verið við þessa athöfn en ber til ykkar kveðju sína.

Heimilislífið

Jón var góður heimilismaður, vann þau störf og útréttaði í samræmi við það, sem þeim Marlies talaðist til um. Hann lagði sitt til uppeldis og menntunar barnanna, ræddi við þau, gantaðist og hleypti upp fjörinu. Hann bullaði með þeim og sagði við þau goddi, goddi, sem er elskuyrði og eiginlega útleggst sem guðsbarn. Hann hafði augu og elsku til að nema og skapa gæsku.

Krakkarnir vissu alveg hvað pabbi vildi og hvað ekki. Hann hafði meiri áhuga á píanómúsík en dynjandi húðaslætti í einhverju trommusóló. Hann hafði unun af synfónískri tónlist en enga af poppi eða villtum spunajazz. Þrátt fyrir mikla vinnu og annir var hann fólkinu sínu náinn og natinn. Eins og húsmæður hennar kynslóðar var Marlies alltaf heima. “Hún er kjarninn,” sagði Jón og skilgreindi þar með eðli hjúskapar og samvinnu þeirra. Hann hafði því frelsi til að sinna vinnu og gat líka leyft sér að þjóta af stað ef þörfin vaknaði og flugið kallaði hið innra.

Leitin að lífsgildum

“Hvert get ég farið?” spurði skáld fyrir meira en þrjú þúsund árum. Það er spurning allra förumanna í vísindum, listum og lífinu. Í Davíðssálminum er minnt á ýmsa möguleika: Upp í himininn, í undirheima og í dýptir viskunnar. Niðurstaðan er, að alls staðar sé Guð, sem leggur hönd á bak og brjóst. Þó ég svifi upp, væri lyft af aftureldinu og roða dagrenningar – þá ertu líka þar. Þannig er þessi forna lýsing manns á veruleika Guðs – eða kannski návist Guðs. Er ekki mannlífið mikið ferðalag, sókn í gæði, í gildi, fræði, för hamingjuleitar? “Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans,” segir sálmaskáldið svo vel og yndislega – og settist við hið ysta haf. Einnig þar mundi hönd þín leiða mig.

Hvað og hvernig var hann Jón? Hver er myndin þín sem þú dregur upp í huga? Kannski var líf hans ferðir í mörgum heimum. Hann var Reykvíkingur, sem fór norður til að verða stúdent. Hann hefði alveg getað hugsað sér verkfræði, en fór í læknisfræði. Hann stundaði nám og störf víða í Svíþjóð. Hann starfaði austur á landi og í Vestmannaeyjum auk Reykjavíkur. Hann var rammíslenskur í menntunarmótun, en kvæntist þýskri konu. Hann var eitt, en gat orðið annað. Hann hafði skoðanir, en var opin og þorði að færa sig um set.

Læknirinn góði

Jón var að sögn góður læknir. Hann menntaði sig í skurðlækningum ytra, hafði gaman af kírúrgíunni, en starfsævinni helgaði hann heimilislækningum. Hann hafði áhuga á fólki, sinnti þörfum þess og tók sér tíma, þegar sjúklingarnir höfðu aðrar þarfir en að láta skera vörtu eða líta á fingur – þó það væri yfirvarpið. Hann skynjaði þegar tilfinningar og innri vandi leitaði á fólk og var sá mannvinur, að hann tók sér góðan tíma til að hjálpa beygðu fólki að rétta úr sér og tala. Hann bar þá virðingu fyrir mennsku skjólstæðinga sinna, að skýra vel fyrir þeim í hverju sjúkdómur þeirra væri fólginn, hvað væri til ráða og hverjar horfur væru. Hann var drátthagur og teiknaði oft skýringarmyndir, sem stundum hjálpuðu óttaslegnum sjúklingum.

Hugðarefnin

Áhugamálin voru mörg. Hann spilaði handknattleik á æskuárum, átti sverð og stundaði skylmingar og boxaði líka um tíma! En mörg hugðarefnin gáfu Jóni möguleika á innra eða ytra ferðalagi, ekki verra ef þau gáfu honum vængi til að fljúga með. Hann var alinn upp í músík. Foreldrarnir voru báðir músíkalskir, pabbinn söng og mamman hafði lært á fiðlu. Hljóðfærði Jóns var píanóið, en fiðlunám stundaði hann um tíma og þótti ekki öllum heimilismönnum æfingatíminn skemmtilegur. Nú híma hljóðfærin hans hnípin, fallegi Berlínarflygillinn hans kann ekki lengur að stemma í samhljóm og bíður sinnar upprisu.

Jón var klassískur í músíkmennt sinni og hans menn segja talsverða sögu um persónu og lyndiseinkunn. Maður, sem heillast af Chopin hefur í sér tærleika og fíngerða næmi. Bach og Beethovern kunnu að stafla músíkbunkum með fimi byggingameistarans. Það kunni Jón að meta og snilli ýmissa annarra klassískra meistara. Í bókastofunni hans Jóns er stór skápur með nótum, vitnisburður um spilafærni og gleðistundir. Frá upphafi leyfði hann Marlies að njóta, og svo vildi hann gjarnan að hún hætti aðeins í húsverkunum, staldraði við og deildi með honum gleði yfir einhverri snillinni, hvort sem það var nú Goldbergvariasjónir í flutningi Gould eða glitrandi næturljóð Chopin.

Menning – bækur

Jón var alinn upp í málrækt og menningu þess fólks, sem skapaði lýðveldið Ísland. Hann var handgenginn klassískum sögum kenndar við Íslendinga, bæði þekkti og mat mikils íslenskan skáldskap nítjándu og fyrri hluta tuttugustu aldar, hvort sem það var nú hin hrifnæmi og stundum stórkallalegi kveðskapur Matthías Jochumssonar, lipurð Jónasar eða djúphygli Einars Benediktssonar. Þegar Jón hafði misst heilsu og var ekki upplitsdjarfur átti Hólmfríður systir til að spyrja um ljóð. Þá kom líf í augun, orð á varir og ljóðið kom heilt og gleðin með í hugann. Jón var alhliða bókamaður. Hann hafði gaman af skáldsögum, las höfunda bæði austan Atlantsála sem vestan, hvort sem það nú voru Stephan Zweig eða Mark Twain. Bækur máttu líka vera til mannbóta með beinum hætti. Hann gaf börnum sínum mannræktarbók eftir Dale Carnegie.

Söguríkir staðir heilluðu hann og hann vildi gjarnan fræðast um slíka og helst skoða allan heiminn. Sagnfræðin átti greiða leið að honum og Jón lagði sig eftir ólíkum greinum, sem gætu orðið honum til aukins skilnings. Jafnvel bækur um réttarhöldin í Nürnberg eru til í bókahillu hans. Af því Jón var málamaður eru þessir bókaskápar eins og útibú frá háskólabókasafni. Þar eru bækur á mörgum tungum. Jón naut þess að lesa upphátt fyrir fólkið sitt og vildi gjarnan einnig deila þeim gæðum með Marlies sinni.

Tækni- og flugmaður

Jón var ekki aðeins hrifnæmur á listasviðinu heldur dáðist að tækni og fegurð hennar. Alla tíð hreifst hann af nýjungum, sem gátu flutt menn og mannkyn til, inn í nýja heima, nýja reynslu, nýja möguleika eða nýja þekkingu. Popular Mechanics var hans gleðilesning og færði honum þekkingu og skilning langt út fyrir eigið fræðasvið. Hann praktíseraði líka að hagnýta tæknina, þurfi að prufa sjálfur, eignaðist mótorhjól ungur og hentist eftir rykugum Kaplaskjólsveginum. Síðar vildi hann eiga góða bíla og auðvitað var þýska bílundrið, Mercedes Benz, honum gleðigjafi. Í Svíþjóð átti hann bát um tíma.

Á vængjum morgunroðans… Fólkið hans Jóns ferðaðist mikið. Foreldrarnir á ferð og flugi, en það var Jón einn sem raunverulega flaug. Hann var áhugamaður um flugvélar og varð sem ungur maður vitni að þróun flugsins. Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni var auðvitað staðurinn sem flugáhugamenn nutu. Svo lærði Jón að fljúga og átti um tíma hlut í flugvél. Flugið sameinaði margar víddir, eigindir og hugðarefni Jóns. Hann gat leikið sér með og notið tækninnar, lifað fegurð hálofta og notið útsýnis, grandskoðað landið frá nýjum sjónarhól, átakalaust og með hraði flogið aftur og aftur yfir það, sem hann vildi skyggna vel, gefið vinum sínum færi á að fara annað en þeir höfðu áður getað – og hann var frjáls til að vera, fara langt og víða.

Guðsorkan

Leitandi fræðimaður, opinn listamaður, næmur læknir hugsar um hvað lífið er og til hvers. Jón var óhræddur, að viðurkenna mörk fræða sinna og skilnings og þorði að íhuga hvernig mætti túlka hið dýpsta samhengi lífsins. Orkan, jú við erum borin áfram af orku. Og “sú orka eyðist ekki við dauða,” sagði Jón. Með slíkt ratljós er hægt að fljúga áfram inn í heima fræða, lista og trúar.

Hvað er Guð? Hvernig má lýsa hinu dýpsta í veröld með fátæklegum orðum? Hvernig getur hið takmarkaða og endanlega orðið brú vitsmuna og skynjunar inn í ofurveröld? Orkubúskapur mannslíkamans er vegvísir, stefnuviti um eigindir veraldar og kannski líka um Guð. Allt er háð því, að hið mikla veitukerfi gangi og virki. Hið smæsta ódeili er hluti orkunets, hin stærstu kerfi sem mannsvitið greinir í geimnum eru líka kraftknippi. Maðurinn getur leyft sér að skynja og upplifa Guð í því samhengi og skilningsljósið getur kviknað.

Uppsalir eilífðar

“Hvert get ég farið?” spurði skáldið forðum. Hvað ætlum við að gera úr okkar göngu? Jón hefur lifað vel, lifað sínu lífi og af honum megum við læra. Líf hans er okkur vegvísir og hvati til að fara vel með okkar líf, styðja hvert annað til hamingju, sem svo auðvelt er að splundra ef við ekki vöndum okkur. Viljum við eiga þann að á lífsförinni, sem ávallt er nærri og aldrei ræðst að? Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans, segir sálmaskáldið svo vel og yndislega – og settist við hið ysta haf. Einnig þar mundi hönd þín leiða mig. Jón hefur farið þá leið, inn í dagrenningu eilífðar. Þar er engin pína, ekkert bakfall, engin höfuðkvöl heldur leiftrandi léttleiki. Þar er alltaf veður til að fljúga inn í ljósið, gæskuna, á vængjum sem aldrei missir kraft. Þar eru Uppsalir eilífðar og músík morgunroðans. Guð geymi Jón R. Árnason í sínu fangi um alla eilífð.

Neskirkja, 18. janúar 2006

Ástarsaga Guðs og Rósu

Sjö ára stúlka sagði hátt og snjallt: “Lífið er ástarsaga.” Bragð er að þá barnið finnur. Sú stutta var að koma úr útför Rósu frænku, sem fór fram frá Neskirkju 17. janúar. Minningarorðin fara hér á eftir. 

Rósa hélt veislu, sat fyrir enda borðstofuborðsins, sem hægt var að lengja svo margir gesti kæmust fyrir. Stellið hennar, þetta fína, drapplitaða Rosenborgstell var auðvitað prýtt rósum og enginn bolli eins. Stellið var komið á borðið. Frænkurnar voru alveg til í að þjóna. Rósa, með leiftur í augum, áhugasöm um gesti sína og var allra glöðust, tók þátt í samræðum og var heima í flestu. Og hún vissi líka margt um fólkið sitt, því hún fylgdist vel með, mundi afmælisdagana, vissi um árangur og afrek þeirra. Hún grennslaðist eftir lífssögum þeirra og horfði á þau með augum elskunnar. Hún tók eftir því sem var gott, var sjálf vitnisburður um, að lífið er skemmtilegt þó gefi á og margt verði til að toga í fólk. Rósa var fólki vottur um þann meginboðskap trúarhefðar okkar, að lífið er sterkast. Þótt hún hefði sitthvað lifað lagði hún áherslu á hið jákvæða, þó hún hefði misst hélt hún í fögnuðinn. Í lífi Rósu nutu samferðamenn hennar lífsblóma hins góða, hrífandi og elskulega.

 Elskaði Guð

Í Jóhannesarguðspjalli standa orð, sem margir þekkja og Lúther kallaði Litlu Biblíuna. “Því svo elskaði Guð…” Hvað elskaði Guð? “Því svo elskaði Guð heiminn…” Af hverju? “…til að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.” Þetta er jákvæðni Guðs að meta alla, elska fólk, gæta veraldarinnar og vekja hug fólks til góðs lífs. Svo opnar Guð fangið gagnvart öllum, hvort sem þeir hafa hrasað frá um stund eða alltaf búið í skjóli himins. Þannig var Rósa líka.

Samband Guðs við veröldina og mennina er ástarsaga, saga um  lífsgleði, sem umfaðmar allt og líka þessa góðu konu, sem við kveðjum í dag. Hún var boðberi réttrar lífsafstöðu, að lífið er fyrir elskuna þrátt fyrir, að margir gleymi því í erli og átökum daganna.  

Rósa og fjölskylda

Ingveldur Rósa Bjarnadóttir fæddist á Stokkseyri 25. ágúst 1912. Móðir hennar var Ólafía Kristrún Magnúsdóttir (1881-1975) og Bjarni Benediktsson (1889-1972). Hún var elst fimm alsystkina, sem fæddust á árunum 1912-24. Af þeim lifir aðeins Ólafía Kristrún, kölluð Rúna (1923-). Hún býr í Fíladelfíu í Bandaríkjunum og sendir, ásamt fjölskyldu, kveðjur til viðstaddra. Önnur alsystkin voru Kristján (1914-83), Benedikt (1915-91) og Magnús (1924-93). Þeir eru allir látnir.

Áður en foreldrar Rósu, Ólafía og Bjarni, hófu hjúskap hafði Bjarni átt Mörtu Sigríði (1910-14), sem dó í æsku. Ólafía hafði hins vegar eignast fjögur börn með Helga Jónssyni (1880-41). Þau eru Þuríður, Sigrún, Karlotta og Hálfdán, öll látin.  Melkorka Rán í San Fransisco hefur beðið fyrir kveðju sína til þessarar samkomu.

Samhengi

Rósa var alla bernskuna á Stokkseyri. Undir risahimni hafði hún næði til að hugsa stórt, en líka gefa gaum hinu smágerða lífi. Hún naut þorpsins, fásinnistengsla og lærði að hægt var að ná yfirliti og innsýn í heima fólks í plássinu, skilja aðstæður og lífssögur þeirra. Fjölskyldusaga Rósu var margþátta og gaf tilefni til heilabrota. Hún varð kunnáttusöm í tengslum og samskiptum og naut æskuþjálfunar síðan í vinnu og samskiptum við fjölskyldu og vini.

Rósa lærði auðvitað líka á náttúruöflin, hin miklu átök sjávar við skerjótta strönd, hættur í ótryggri höfn, kynntist veðraólgu, en líka hvað flói og fjöll gátu brosað fallega í góðviðri. Við henni blöstu dýrmæti Suðurlands, hvert sem litið var, Mýrdalsjökull, Tindfjöllin, Hekla, fjöllin í uppsveitum Árnessýslu og síðan Ingólfsfjallið og Hengilsvæðið og áfram fjallaflákar í vestri. Suðurskautið beint í suður! – eins og Páll Ísólfsson minnti á – og fært á sjó alla leið. Í svona stórfaðmi verður manneskjan lítil, en lífið stórt.

Lífið er ástarsaga

Vafalaust var saga foreldranna áleitin. Hvernig var þessi saga mömmu og Helga? Af hverju fór mamma og þó aðeins með hluta af barnahópnum? Hvað um hálfsystkinin, sem ekki voru heima hjá henni? Hvernig voru þessar tvær hálfsystur, sem dóu áður en hún komst til vitundar?

Hvaða hugsanir geymdi svo Ólafía mamma, hvernig vann hún úr ástarsögum sínum og tengdist Bjarna? Hvað sagði hún sínu fólki? Enginn þekkir þá sögu til fulls og við getum lítið meira en íhugað örlagasögu alls þessa fólks. Þetta er merkileg saga og í ljósi hennar getum við skilið, að Rósa hefur snemma lært það aðalatriði, að betra er að leggja rækt við hið skemmtilega og elskulega en hitt. Rósa komst að því að betur gefst að lifa í núinu en draga alla fortíðina með sér! Hvað er tilveran? Er hún ekki fyrir hið skemmtilega og góða? Rósa svaraði með lífshætti sínum, að lífið er ástarsaga.

Í Vesturbæinn

Fjölskyldan tók sig upp í lok þriðja áratugarins og flutti til Reykjavíkur. Þau settust að í húsinu Mávahlíð, sem er rétt vestan við Melabúðina hér á Högunum. Það var auðvitað spennandi fyrir unga stúlku að koma í bæinn. Reykjavík var að stækka og mannlífið var fjölbreytilegt.

Í því sem var fallegt

Rósa fór að vinna í versluninni Edinborg niður í Hafnarstræti, seldi fólki vefnaðarvöru og ýmis búsáhöld. Hún naut félagsfærni sinnar í samskiptum við óörugga kúnna. Ekki spillti fegurðarskyn hennar, næmi og fín tilfinning. Hún var lady og hreif. Hún var afar næm og skynjaði meira með fingrum en við hin, sem nýttist henni vel þegar sjónin bilaði. Rósa vann í miðju bæjarins og hafði því tengsl í allar áttir. Þegar Edinborg flutti upp á Laugaveg, fór hún líka og vann þar. Síðustu árin vann Rósa svo í vefnaðarvöruverslun í Austurveri.

Ástarsagan

Rósa átti ekki börn, en var elsk að sínu fólki og væntumþykjan hljómar skýrt, þegar ættmenni hennar segir nafnið hennar og frænka fylgir með. En Rósa átti fleiri að en frændgarð, hún eignaðist menn. Fyrsti maður hennar var Óskar Jónsson (1910-91). Eftir stuttan hjúskap fór Óskar til Vestmannaeyja og ílentist þar. Þau skildu.

Rósa giftist svo Jóni Einari Jónssyni (1901-61), sem var talsvert eldri en hún. Jón var stýrimaður, lengstum á Brúarfossi. Meðan hann var á sjónum fór Rósa stundum með honum og varð heimsborgari. Þau Jón áttu fallegt bú fyrst á Sólvallagötu og síðar á Vífilsgötu. Ýmsir munir, sem prýddu heimilið komu með úr ferðum þeirra. Hjónaband þeirra var farsælt, hlýtt, elskulegt og gott. Jón var líka opinn faðmur hinni stóru fjölskyldu. Hann lést 1961 og þá var Rósa ekki fimmtug.

Rósa naut sín í fjölmenni. Hún var veislukona og fagurkeri. Fegurðarskyn hennar leiftraði í öllu því, sem hennar var. Vegna þess að hún var síung sótti unga fólki til hennar, jafnvel með erfiðu málin. Alltaf var Rósa fús til hjálpar. Hún hafði kætandi áhrif á fólk og margir sóttu því á hennar fund. Á Hrafnistu kom fólk til hennar og vildi tala við hana. Sjónin hafði bilað henni, hún fór lítið, en margir komu því hún var “bjartsýn.” Hún hafði sterka útgeislun og fólk sótti í birtu hennar.

Karlar með fegurð í hjarta hrifust líka. Matthías Ásgeirsson gat ekki gleymt henni. Hann kynntist henni ungri, en þau náðu ekki saman. Þegar hún var orðin ekkja tók hann upp gamlan þráð, fór að heimsækja hana og þau giftu sig 1964. Þau keyptu íbúð í Safamýri, áttu góð ár saman, en svo missti hún hann líka. Hann lést eftir aðeins fimm ára hjúskap þeirra.  

Hún var þá orðin ein að nýju, seldi íbúð sína, fór upp í Breiðholt og síðan á Kleppsveg 5 og að lokum á Hrafnistu. Á gamals aldri varð enn eitt undrið. Fyrsti eiginmaður hennar hafði ekki gleymt heldur. Þegar Rósa var komin undir áttrætt hringdi síminn. Óskar var á hinum endanum og spurði hvort þetta væri ekki örugglega hún Rósa. “Jú, jú, þú mátt koma í heimsókn” sagði hún. Heimsóknin varð til góðs og þau urðu vinir að nýju. Svo dó hann líka.

 Er þetta ekki merkileg saga? Rósa var umlukin ástarsögum í uppvexti og svo varð líf hennar flétta atburða sem má túlka í ástarljósi. En sannar sögur geta endað illa eða vel, allt eftir því hvernig á er haldið. Rósa brást við hverri raun með því að lifa, hún grét en var þess megnug að sjá ljós í gegnum tárin. Jafnvel mennirnir, sem hún hafði tapað úr fangi sér á lífi, gátu ekki gleymt og komu til baka. Það er guðleg dýpt í þessum sögum.

Táknsaga og lífháttur

Við sjáum á bak konu, sem ber líka í sér táknsögu Íslands, – flutti úr sveit og sjávarplássi og birtir með búsetusögu og atvinnusögu sinni líf- og breytinga-sögu þjóðarinnar á tuttugustu öld. Hún var fjölskyldu sinni samhengi, miðstöð og tengdi saman eldri og yngri kynslóð og var fastur punktur tilverunnar.

En svo var hún í lífsháttum sínum líka fulltrúi fyrir þroskaða afstöðu. Hvernig lifum við? Hvaða lífi viltu lifa? Hvað er það í lífi Rósu, Rósu frænku, sem þú getur lært af? Þú getur rifjað upp minnisstæð atvik úr samskiptum ykkar. En getur verið, að þú lærir svolítið um Guð í leiðinni? Getur verið að elska hennar eigi sér himneskt upphaf, vilji hennar til að sjá ljósið, færni hennar til að fyrirgefa og faðma, fegurðarskyn sem kemur úr næmu hjarta lífsmiðjunnar sjálfrar?

Því svo elskaði Guð

Hvað er lífið? Er það ekki fyrir ástina? Munum, að Guð er einskær ást, umhyggja. “Því svo elskaði…” elskaði hvað? Því svo elskaði Guð Rósu… að hún speglaði elsku til allra. Því svo elskaði Guð þig…. til, að þú verðir farvegur lífsins, ástríkis, birtu og vona.

Ingveldur Rósa Bjarnadóttir lést 8. janúar síðastliðinn og verður jarðsett í kirkjugarðinum við Suðurgötu, Hólavallagarði. Þar verður hún lögð til hinstu hvílu með tveimur mönnum sínum. Þegar þú vitjar hennar skaltu hugsa um ástina og hugsa um hvernig þú getir blómstrað lífsrósum, leyft ástinni að lifa í eigin lífi.

Fallegu hendurnar hennar hreyfst ekki lengur, hringarnir hennar ekki heldur. Fallegu augun hennar horfa ekki lengur í augu þín. Þú getur ekki lengur hringt í hana eða farið til hennar. Hún er horfin – inn í hina eilífu elsku, inn í hinn stóra ástarfaðm, sem Guð er. Hún er við endann á hinu stóra borði himinsins, í hinum stóra mannfagnaði eilífðar, þar sem er bara hlátur, góðar fréttir, birta og gaman. Leyfðu minningunni um Rósu að lifa í huga þér og næra lífsmátt þinn. Því svo elskaði Guð, elskaði svo mikið að Guð kom sjálfur til að bjarga lífinu, bjarga heiminum, okkur öllum. Rósa minnir okkur á, að Guð er elskhugi, horfir á okkur ástaraugum. Þegar við hugsum um Rósu má hugur alltaf nema þá hvatningu, að við ættum líka að lifa vel, muna að lífið er ástarsaga. Með því minnumst við Rósu vel og leggjum okkar í ástarsögu Guðs.

  Neskirkju 17. janúar 2007. Jarðsett í Hólavallagarði við Suðurgötu.

Ingvi Sveinsson

„Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefur þú lagt á mig. Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn. Hvert get ég farið…? Þó ég stigi upp í himininnn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá þú ert þar. Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf, einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér. “
Sálm. 139

Hvert get ég farið? Upp í himininn, í undirheima, í dýptir viskunnar, – alls staðar ert þú Guð. Hefur lagt hönd á bak og brjóst – heldur í mig. Þó ég svifi upp, væri lyft af aftureldinu og roða dagrenningar – þá ertu líka þar. Þannig er mörg þúsunda ára gömul lýsing manns á veruleika Guðs – eða kanski návist Guðs. Mannvera á ferð, en með fylgd, á leið en með föruneyti, stundum á hlaupum en þó með skugga, ekki þennan venjulega, heldur einhvern sem fylgir, áreynslulaust og hljótt. Er ekki mannlífið allt ein samfelld sókn í gæði, sókn í gildi, hamingjuleit? Og hvað er okkar í þeirri leit, af hverju óþreyjan og grunur um dýpt; hvað er Guð á þeirri för? Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans, segir sálmaskáldið svo vel og yndislega – og settist við hið ysta haf. Einnig þar mundi hönd þín leiða mig. 

Ingvi Ragnar Kristján Sveinsson fæddist á Akureyri janúardag 1935. Hann fæddist eiginlega inn í kvennahús. Ásta Júlíusdóttir, móðir hans, Norðlendingur að ætt, en fædd í Bolungavík, hafði verið tekin í Akureyskt fóstur. Ingibjörg Jónsdóttir bjó til heimili og varð athvarf Ástu og Ragna Pétursdóttir, gullsmiður var með þeim nyrðra. Ásta fékk berkla og var send suður á Vífilsstaði og Ingibjörg gerði ekki endssleppt við þessa fósturdóttur sína, heldur fór suður og vann á Vífilsstöðum meðan hún var að ná sér. Síðan fóru þær norðu aftur. Þá kynntist Ásta Sveini Pétri Hjartarsyni frá Vík í Heðinsfirði. Þau eignuðust saman Ingva árið 1935. Þau bjuggu ekki saman og Sveinn lést þremur árum síðar, eða 1938.

Á stríðsárunum fluttu konurnar allar suður með sitt fólk. Ingibjörg hóf þá byggingu hússins á Grenimel 28 ásamt með sínu fólki. Ekki varð Ingvi þó búsettur þar fyrr en síðar. Hann veiktist af berklum og fór á Vífilsstaði eins og móðir hans, átti lengi í veikindum og náði sér ekki fyrr en nærri tvítugsaldri. Og um það leyti flutti hann á Melana og var í sama húsinu á Grenimel í um 45 ár, í skjóli tengslafólks síns.  

Hann mat stjúpömmu sína mikils og naut hennar og fólksins á Grenimel í lífinu. Þegar amma féll frá var endir á búsetu hans þar og þá flutti Vesturbæingurinn sig um set, þó ekki langt og fór yfir á Hagamel 46. Þar lést hann síðan, nýlega sjötugur.

Ingvi var ljúfur maður, fór sinna eigin leiða, hlédrægur og einrænn. Góður verkmaður og lofaður af vinnuveitendum í áratugi suður í Straumsvík. Þegar Ingvi hafði náð sér af berklum fór hann í byggingavinnu, m.a. í Búrfell, þegar orkuverið var reist en lengstum vann hann hjá Alusviss og síðan Alcan í Straumsvík. Sonur Ingva er Rúnar. Kona hans er Inga Jóna og eiga þau einn son.

Hvert get ég farið…? Svo var spurt til forna. Svarið gaf ljóðskáld sálmanna sem kenndir eru við Davíð: Þó ég stigi upp í himininnn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá þú ert þar. Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf, einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.

 Lífið hans var ferð um allar lendur myrkurs og ljóss, undirheima og himinsælu. Hvert get ég farið? Mannvera á ferð, en með fylgd, með gott föruneyti, stundum með vanlíðan en ávallt með styðjandi hendi, sem ekki brást. Hvað ætlum við að gera úr okkar göngu? Lífssögur fólks verða okkur hvati og vegvísir að fara vel með okkar líf, styðja hvert annað til hamingju, sem svo auðvelt er að splundra ef við ekki vöndum okkur. Viljum við eiga þann að á lífsförinni sem ávallt er nærri og aldrei ræðst að? Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans, segir sálmaskáldið svo vel og yndislega – og settist við hið ysta haf. Einnig þar mundi hönd þín leiða mig. Ingvi hefur farið þá leið, inn í dagrenningu eilífðar. Þar er ekki myrkt heldur má líf hans vera samfelld birta, samfelldur dagur, í stórhúsinu þar sem samheldnin er alger, Hagamel himins. Þar er upphaf og endir, því Guð geymir hann um alla eilífð.

25. maí 2005. 

 

Guðjón Ármann Eyjólfsson +

Í milljónir ára hafa menn starað upp í himininn – og hugsað. Hvað merkir þessi blikandi mergð þarna uppi? Hvað er að baki? Er eitthvað hinum megin? Og þegar mannabörnin hafa legið á bakinu, séð stjörnuhröpin og numið óravíddir alheimsins hafa þau skynjað smæðina en líka vaknað til vitundar um möguleika. Óravíddir og smæð heimsins. Er nema von að sálmaskáldið spyrji í áttunda Davíðssálmi. „Hvað er þá maðurinn að þú minnist hans og mannsins barn að þú vitjir þess?“ Eitt er að kunna að sigla um sjó og afreka í lífinu en svo er eilífðarsiglingin. Hver eru stefnumið fyrir þá ferð? Hvaða vitar eru nothæfir? Jesús talaði um sannleikann og kenndi hvaða leið átti að fara. Guðjón Ármann Eyjólfsson var sérfræðingur í siglingum en líka kunnugur eilífðarstefnunni. Hann þekkti Karlsvagninn, Fjósakonurnar og Pólstjörnuna, stjörnumerki sem gefa stefnuna. Hann kenndi börnum sínum að þekkja stjörnuhimininn og sagði þeim nöfnin og sögurnar sem tengdust stjörnumerkjunum. Hann tengdi þau og nemendur sína við fræðin, sem færðu menn frá einni strönd til annarrar, tengdi tímann við fortíðina og himininn. Menn eru alltaf á ferð, ef ekki frá punti A til B, þá á ferð í fræðum eða í huganum til hinna draumkenndu stranda hið innra, eða á vit eilífðarhafnar á himni. Heimaey er ekki aðeins eyja sunnan við meginland Íslands heldur áfangi á himnum, sem við kristnir menn köllum eilífð. Þar er Guð og þar er Guðjón Ármann Eyjólfsson. Hann vissi hvernig átti að stýra og rataði.

Ætt og upphaf

Guðjón Ármann Eyjólfsson kom í heiminn í ársbyrjun, 10. janúar árið 1935. Vestmannaeyjar voru upphaf hans og samhengi allrar æfi hans. Guðjón Ármann var sonur hjónanna Guðrúnar Brandsdóttur og Eyjólfs Gíslasonar. Húsið sem þau byggðu og bjuggu í hét því virðulega nafni Bessastaðir. Eyjólfur, faðir Guðjóns Ármanns, var í fjóra áratugi einn fremsti formaður Eyja. Hann var ekki aðeins mikill aflamaður heldur einnig áhugamaður um sögu Vestmannaeyja. Sonurinn naut þess áhuga og arfs frá föðurnum. Guðjón Ármann sagðist líka njóta getu föðurins til að skrifa. Guðrún, móðirin, var listfeng hannyrðakona. Erlendur var elsti bróðir Guðjóns Ármanns, samfeðra. Sigurlína og Gísli voru alystkin hans, en Sigurlína lést ung. Guðjón Ármann var yngstur í barnahópnum. 

Hann stundaði grunnnám á heimaslóð m.a. í skóla aðventista í Eyjum. Hann lauk landsprófi frá Gagnfræðaskólanum árið 1951. Þá hóf hann nám í Menntaskólanum á Laugarvatni en leiddist og fór suður og var sáttur og leiðalaus í Menntaskólanum í Reykjavík. Guðjón Ármann var fjölhæfur í námi. Fyrst lauk hann stúdentsprófi í máladeild vorið 1955. En hann vildi auka möguleika sína varðandi náms- og starfs-val. Með honum hafði vaknað löngun að fara til náms í danska Sjóðliðsforingjaskólanum. Skólinn gerði miklar kröfur og máladeildarprófið var ekki nóg. Guðjón Ármann stæltist alltaf við átök og var marksækinn. Hann ákvað því að bæta við öðru stúdentsprófi og lauk því líka stúdentaprófi frá stærðfræðideild ári síðar.

Með tvö stúdentsskírteini sótti Guðjón Ármann um nám Sjóliðsforingjaskóla danska sjóhersins. Hann var einn af 130 sem sóttu um en aðeins 30 komust inn. Námið var áháskólastigi og Guðjón Ármann lauk því árið 1960.[i] Þá fór hann til starfa hjá Landhelgisgæslunni og stundaði einnig rekstrarnám. Hann var aðstoðarframkvæmdastjóri frystihúsa í Vestmannaeyjum á árunum 1962-63. Hann var einnig hvatamaður og einn af stofnendum Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum og var skólastjóri hans frá stofnun árið 1964. Útgerðarmennirnir vildu laða unga efnismenn til Eyja og í skólann. Þeir vildu gefa þeim möguleika og menntun, en treystu því líka að stúlkurnar myndu síðan halda þeim í Eyjum, sem tókst vel!

Þegar gosið hófst í Eyjum var skólinn fluttur upp á land og í húsnæði Stýrimannaskólans í Reykjavík. Guðjón Ármann hélt áfram kennslu í skólanum eftir gos og varð skólastjóri Stýrimannaskólans í Reykjavík árið 1981. Hann gegndi starfi skólameistara til ársins 2003.

Guðjón Ármann helgaði starfsævi sína menntun íslenskra sjómanna. Hann var árið 1993 sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín að fræðslumálum sjómanna. Öryggis- og björgunarmál sjómanna voru honum hugleikin og var hann um árabil gjaldkeri Björgunarsjóðs Stýrimannaskólans í Reykjavík – Þyrlusjóðs.

Eftir Guðjón Ármann liggur mikið ritasafn. Hann skrifaði um sjómennsku, siglingasögu, siglingafræði og kennsluefni skipstjórnarmanna. Hann þýddi Alþjóðlegar siglingareglur og uppfærði þegar breytingar urðu (1972 og 1989). Hann skrifaði bókina Stjórn og sigling skipa, siglingareglur, sem gefin var þrisvar út í endurskoðuðum útgáfum (1982, 1989, 2006). Þá ritaði hann bækurnar Leiðastjórnun (2009) og Siglingafræði (2013). Þetta eru mikil rit og glæsilegar ritsmíðar.

En útgáfa rita um skipstjórnun og siglingafræði var ekki það eina sem Guðjón Ármann skrifaði. Eins og þegar er sagt var faðir hans mikill áhugamaður um sögu og mannlíf Vestmannaeyja. Um þau efni skrifaði Guðjón Ármann einnig mikið. Haustið 1973 kom út hin merkilega bók Vestmannaeyjar – byggð og eldgos, sem er heimild um mannlíf í Eyjum, horfna byggð og flótta íbúanna hina örlagaríku nótt, 23. janúar 1973. Þá skrifaði Guðjón Ármann um Vestmannaeyjar í ritið Landið þitt sem kom út árið 1984. Honum var síðar falið að skrifa Árbók Ferðafélags Íslands um Vestmannaeyjar sem kom út árið 2009 og var bókin að verðleikum tilnefnd til verðlauna Hagþenkis. Þessi Vestmannaeyjabók Guðjóns Ármanns er yfirgripsmesta ritið um Vestmannaeyjar. Auk annarra starfa var Guðjón Ármann ritstjóri Sjómannadagsblaðs Vestmannaeyja á árunum 1965-1975. Í því er á annað hundrað greina hans um mannlíf og sögu Eyjanna.

Guðjón Ármann var eftirsóttur félagsmálamaður enda glaður, áhugasamur um fólk, jákvæður og eflandi. Hann var virkur í Akóges um árabil og sinnti þar ýmsum trúnaðarstörfum. Þá var hann dugmikill tungumálamaður og áhugamaður um rómönsk tungumál. Þegar hann var barn fékk hann fyrstu frönsku orðabókina og drakk í sig frönsk áhrif. Guðjón Ármann var meðlimur í Alliance Française og sat í stjórn félagsins og skrifaði m.a. um rithöfundinn Guy de Maupassant. Þá þýddi hann smásögu úr frönsku eftir hann, sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins.

Anika og börnin

Svo er það fjölskyldan og Anika. Guðjón Ármann gerði sér alltaf grein fyrir gæðum og styrk. Anika Jóna Ragnarsdóttir, Arnfirðingurinn frá Lokinhömrum, vann á sjúkrahúsinu Sankt Josepí Kaupmannahöfn. Þau sáu hvort annað í Gullfossi við bryggju í Kaupmannahöfn. Svo hittustþau á Rauðu nellikunni, sem var vinsæll Íslendingastaður í Höfn. En Guðjón Ármann, sem var orðinn almælandi á dönsku þóttist vera Dani. En Anika sá gullið í gegnum þykistuna og dátabúninginn og hann sá gullið í henni. Nálgunaraðferð Guðjóns Ármanns var frumleg. Hann kom til Aniku og bað hana um að merkja fötin sín. Og hún gerði sér grein fyrir að hann var nákvæmur og kom úr formlegu vinnusamhengi sjóðhersins danska. Hún merkti vel og hann þakkaði vel fyrir sig. Þau gengu í hjónaband föstudaginn 30. desember árið 1960. Þau voru vinir og báru virðingu fyrir hvoru öðru. Þau stóðu saman, hrósuðu hvoru öðru og voru hinu styrkur. Guðjón Ármann hafði á hreinu alla tíð að góður eiginmaður ræktaði samband við konu sína og börn og þjónaði heimili sínu.

Þau byrjuðu búskapinn í Hátúni 4. Þegar Guðjóni Ármanni var boðin staða í Vestmannaeyjum var Anika til í að fara út með honum. Þau bjuggu í Eyjum í áratug, en fóru svo upp á land í gosbyrjun. Það tók tíma að koma sér fyrir í nýju samhengi eftir eld. Fjölskyldan bjó í Vesturbænum um tíma en eignuðust síðar sælureit í Fossvoginum þar sem Anika býr enn. Guðjón Ármann sagði, að hann hefði lært í danska flotanum að góður yfirmaður hugsaði vel um skip sitt og áhöfn og eiginkonu sína. Svo sagði hann við konu sína: „Þú hefur það eins og þú vilt, Anika mín.“

Börn Ármanns og Aniku eru fjögur. Ragnheiður er elst. Hún er MA í alþjóðasamskiptum og leiðsögumaður. Maður hennar er Leifur Björnsson. Synir þeirra eru Ármann og Björn. Ragnar er annar í röðinni. Hann er svæfingalæknir. Kona hans er Kristín Axelsdóttir og þau eiga synina Þórólf, Höskuld, Grím og Brand. Eyjólfur er sá þriðji. Hann er lögmaður. Kristín Rósa er svo yngst. Hún er hjúkrunarfræðingur og MA í lýðheilsuvísindum. Maður hennar er Jón Heiðar Ólafsson og þau eiga Ólaf Heiðar, Guðjón Ármann og Aniku Jónu.

Hvernig var Guðjón Ármann?

Hvernig manstu Guðjón Ármann Eyjólfsson? Byrjum á öguðu snyrtimenninu. Hann fékk ákveðið uppeldi heima um hvað væri gott og hvað ekki. Svo slípuðu Danir hann í öflugri regluhefð danska hersins. Guðjón Ármann var agaður sjálfur og sagði nemendum sínum, að það væru ekki öflugir yfirmenn, sem gætu ekki klárað skúringar eða hreinsað salernin. Hann var smekkmaður, gætti að klæðaburði sínum og miðlaði innri sem ytri ögun til nemanna í Stýrimannaskólanum. Þeir lærðu fljótt, að það þýddi ekki að koma vankaður eða illa verkaður í skólann. Þeir lærðu líka að taka á móti kennara með stæl í stofu. Þegar stýrimannaskólinn flutti upp á land í gosinu gerðu nemendur Reykjavíkurskólans sér grein fyrir að Eyjanemendurnir voru á allt öðru og æðra plani hvað fatnað og aga varðaði. Þegar horft er til baka tala nemendur Guðjóns Ármanns um hve aginn sem hann kenndi þeim hefði skilað þeim miklu í störfum og stjórnun. Hatturinn hans Guðjóns Ármanns og fatnaður voru ekki sýndarmál skartmennis heldur ásýnd hins þroskaða manns. Hann var formlegur í lífi og tengslum. Og hann heilsaði með handabandi.

Guðjón Ármann var alltaf að læra. Hann var opinn, hæfileikaríkur og námsfús. Hélt áfram að þjálfa sig í tungumálum og menningu. Hann íhugaði hverju hann gæti miðlað og þar með bætt stöðu stéttar sinnar. Hann var gjarnan með bók í hendi. Hann var heillaður af dýpt franskrar menningar. Hann sótti inn á söfn, skoðaði allt vel, íhugaði og gleymdi stund og stað. Þar var hann að læra og lærði mikið. En börnum hans fannst stundum að safnaferðirnar mættu vera hraðari og styttri.

Guðjón Ármann var af kynslóð kraftaverkamanna, sem byggðu upp nútímasamfélagÍslendinga. Hann var frjálslyndur og – eins og margir af hans kynslóð – opinn gagnvart öllum gagnlegum nýungum og því sem nýta mætti í þágu íslenskrar þjóðar. Hann gekk til þjónustu við nútímasamfélaið og beitti sér af fullum þunga, ekki í eigin þágu heldur heildarinnar. Í æsku gerði hann sér grein fyrir mikilvægi útfærslu landhelginnar og mikilvægi sjómælinga. Guðjón Ármann miðlaði hugsjónum sínum til nemenda sinna og minnti þá á að góður yfirmaður lætur sér annt um velferð og hag allra um borð. Og hann minnti þá á að góður yfirmaður á sjó væri líka góður eiginmaður í landi. Mannrækt var honum mikilvæg, styrkur og fágun hið innra sem ytra. Hann mat hæfni fólks og hæfileika óháð stöðu eða stétt. Hann varumtalsfrómur mannvinur. Það er ástæða fyrir að sonur hans las áðan kærleiksóð Páls postula.

Guðjón Ármann var marksækinn og einbeittur í lífi og vinnu. Þegar hann hafði sett sér stefnu sótti hann ákveðið fram. Hann hafði að orðatiltæki „Vedligehold af målsætning.“ Hann notaði vel tímann en gekk jafnvel nærri sér vegna einbeitninnar. „Gutta cavat lapidem.“ Dropinn holar steininn – minnti hann á – og svo vissi hann og kenndi: „sed saepe legendo“ „ … ekki með afli heldur með því að falla jafnt og þétt; þannig verður maðurinn lærður, ekki með afli heldur stöðugum lestri.“ Guðjón Ármann var afkastamikill eljumaður. Hann kunni ekki vel – frekar en aðrir af hans kynslóð – að slappa af. Þegar tómstundir gáfust opnaði hann bók eða skrifaði. Hann miðlaði lífsafstöðu mennta, skynsemdar og ráðdeildar til barna sinnar. Þegar krakkarnir vildu fara í bíó eða þurftu peninga til tómstunda eða bara til að fara í sjoppuna lágu þeir ekki á lausu. En ef þau ætluðu að kaupa sér bók var afstaða pabbans mun opnari. Peningar voru ekki markmið heldur tæki til góðs og til menntunar. Og hann var áhugasamur um menntun barna sinna og studdi þau.

Í pólitík og menningarmálum taldi Guðjón Ármann mikilvægt að fjármunir væru ekki á fárra höndum, heldur ættu auðlindir að nýtast heildinni. Um skeið var hann virkur í bæjarpólitíkinni í Eyjum en taldi tíma sínum best varið við að mennta, fræða og tryggja velferð stéttar sinnar. Guðjón Ármann var gagnrýnin á þær stefnur og stjórnsýslu sem ekki tryggði velferð heildarinnar. Hann var t.d. gagnrýninn á kvótakerfið sem hann taldi of lokað og útilokandi.

Guðjón Ármann var afar hæfur félagslega. Hann hafði t.d. gaman af að tala við félaga barna sinna. Hann bar hag nemenda sinna mjög fyrir brjósti. Hann fylgdist með þeim og gladdist yfir velferð þeirra og árangri. Alltaf jákvæður og glaður. Svo héldu nemendur hans góðu sambandi við hann. Hann hélt gjarnan ræður á mannamótum, inntaksríkar, vinsamlegar og jákvæðar tölur. Hann starfaði að margvíslegum félagsmálum, sótti samkomur á vegum Eyjamanna og ræktaði vini sína, innlenda sem erlenda.

Eldurinn í Heimaey hafði djúptæk áhrif á Guðjón Ármann eins og aðra Eyjamenn. Hann skrifaði: „Það var mér stórkostleg og ólýsanleg sjón, er ég sá þessa firnakrafta að verki stundarfjórðungi eftir að þeir leystust úr læðingi. Í sömu andrá varð maður fullur furðu, skelfingar og lotningar gagvart því sem gerzt hafði.“ Minningin um eldinn lifði í honum síðan. Þegar fólk lendir í áföllum eru kostir einkum tveir, að bogna undan vandanum eða bregðast við. Guðjón Ármann fór upp á land – og öll fjölskyldan – og hann settist niður við skriftir. Hannskrifaði sig í gegnum gosskelfinguna. Þegar á gosárinu gaf hann út bók um Vestmannaeyjar. Hann setti allt hið mikilvægasta um Eyjarnar á blað, vildi tryggja að sem flest yrði varðveitt og sem minst yrði eldi gleymskunnar að bráð. Framlag Guðjóns Ármanns um sjómennsku, skip og farmennsku er veigamikið en einnig það, sem hann skrifaði um Vestmannaeyjar. Lof sé honum og þökk.

Guðjón Ármann Eyjólfsson er farinn inn í himininn. Hann hefur sett hattinn upp í síðasta sinn og bindið líka. Hann brýnir ekki framar fyrir nemum sínum mikilvægi skapandi reglu í vinnu og lífi. Fjölskylda Guðjóns Ármanns sér á eftir ljúfum, kærleiksríkum og menntandi fjölskylduföður. Þau eiga allar minningarnar, bækurnar og sverðið hans. Hvað er þá maðurinn að þú minnist hans? Guð gleymir ekki. Stefnumiðin voru skýr. Guðjón Ármann þekkti stefnuvitana og kunni að sigla. Hann er kominn til Heimaeyjar hið efra. Guð geymi Guðjón Ármann Eyjólfsson og gæti þín. Amen.

Kveðjur hafa borist frá Sigrúnu Ragnarsdóttur, Lilju Ragnarsdóttur og fjölskyldu og Jónasi Ragnarsyni og fjölskyldu sem eru búsett á Akureyri.

Ása Ingibergsdóttir biður fyrir kveðju, fyrir hönd skólasystkina Guðjóns Ármanns úr árgöngunum 1934 og 1935 úr barnaskólanum í Vestmanneyjum.

Þá barst kveðja frá Sveini Valgeirssyni, sem skrifaði: „Við, nemendur skólaárgangs 1972 til 1974, vottum eiginkonu og afkomendum Guðjóns Ármans okkar dýpstu virðingu og samúðarkveðjur með þökk fyrir góðar stundir í Stýrimannaskóla Vestmannaeyja.“

Jarðsett í Sóllandi, Fossvogi. Erfidrykkja í Hörpu, Norðurbryggja, 1. hæð. Ritningarlestrar, Sálm 8; 1. Kor. 13; Jóh. 14. Hallgrímskirkju, 23. júní, 2020 kl. 15.

[i] Nám Guðjóns Ármanns kom við sögu Alþingis ári síðar. Í ræðu Jóns Árnasonar, sem er að baki þessari smellu,  kemur fram að hann hafi meiri menntun en þá sem nemendur í íslenskum stýrimannaskóla hefðu getað veitt honum. https://www.althingi.is/altext/raeda/?lthing=81&rnr=1441