Aular?

Fyrir utan Hallgrímskirkju eru skúlptúrar Steinunnar Þórarinsdóttur á sumarsýningu Listahátíðar. Það eru ekki eftirmyndir eða afsteypur einstaklinga og stórmenna heldur fremur táknmyndir. Annars vegar eru menni án klæða, eins og táknverur mennskunnar sem býr í öllum áður en menning eða ómenning mótar, íklæðir eða afskræmir. Hins vegar brynjuð menni sem táknmyndir vígvæddrar mennsku. Mennin annars vegar og vopnafólkið hins vegar standa saman úti á holtinu. Bil er á milli. Fólkið sem á leið um Skólavörðuholt þessa dagana hleypur ekki fram hjá þessum skúlptúrum eins og Leifi heppna heldur fer að þeim, skoðar þá, snertir þá, stillir sér upp við þá, ræðir um mennin og hermennina og sum segja að brynjuliðið sé eins og her af Pútínum allra landa. Á móti séu saklausir borgarar allra alda. Tvennur Steinunnar vekja viðbrögð og eru þátttökuskúlptúrar og ýmsar túlkanir vakna. Suma dagana eru þeir með fangið fullt af blómum. Fyrir nokkrum dögum kom ung kona og kyssti eina brynjuna rembingskossi – eins og hún væri að reyna að leysa ófreskju úr álögum, kyssa prinsinn til lífs og gleði. Tvær ólíkar manngerðir á torgi lífsins. Önnur í álögum og hin til framtíðar – en til lífs – eins og við förufólk heimsins erum kölluð til.

Hroki og auðmýkt
Guðspjallstexti þessa sunnudags er líka um tvo menn, tvennu. Sagan segir frá tveimur í tengslum og með mismunandi skilning. Þeir voru eins ólíkir og spennuverurnar á torginu utan kirkjunnar. Annar var upptekinn af stöðu sinni. Hann var drambsamur. En hinn baðst miskunnar og fékk lífsdóm. Annar var með bólgið egó en hinn útflatt. Annar var hrokagikkur en hinn í rusli. Þeir fóru á sama staðinn til að vinna með tilvist sína. Annar kom til að fá staðfestingu þess að hann væri frábær. Hinn kom til að vinna með bresti sína og fá, það sem heitir á máli Biblíunnar, fyrirgefningu syndanna. Annar var brynjaður en hinn vitjaði mennsku sinnar. Sagan er ein útgáfa tvennuspennu sem frjóvgar hugsun, nærir íhugun, hvetur til þátttöku, breytir fólki og stælir visku. Mennið í okkur er guðsmyndin og er kallað til mennsku, að frumgerð okkar sé virkjuð til ástar og lífs.

Jesús hefði fengið Nóbelinn ef hann hefði verið sögumaður í samtíð okkar. Smásögurnar hans eru hrífandi og hnittnar. Þær hafa jafnan óvæntan endi, sem vekur til umhugsunar. Sögurnar eru lyklar að visku. Drambsamir líta niður á aðra, gera grín að fólki, benda á veikleika, missmíði, áföll og hefja sjálfa sig upp á kostnað annarra. Þeir temja sér botnhegðun. Hinn hrokafulli lítur niður á aðra því hann horfir ekki upp, sér ekki hærra en eigin topp, eigin stöðu og dýrð. Hinn drambsami talar niður til fólks, rýrir málstað annarra, gildi og stefnur sem ekki henta honum. Farísei texta dagsins var slíkur maður. Við þekkjum öll slíkt fólk, við lifum jú blómatíma hinna hrokafullu sjálfhverfunga. Þeir eru brynjulið samtíma okkar og vakna ekki af álögunum þó þau séu kysst.

En það er ímynd auðmýktarinnar, sem mig langar til að við íhugum. Tollheimtumaðurinn í Jesúsögunni kemur algerlega blankur fram fyrir Guð, þorir varla að biðja um hjálp, en stynur upp miskunnarbæninni, svipaðri þeirri og við höfum yfir í messunni alla sunnudaga. Kristnin hafnar hroka en er tollheimtumaðurinn hin hreina mynd hins kristna manns? Bæði já og nei. Vissulega er tollheimtumaðurinn ímynd þeirra, sem hafa skrapað botninn, skilja að lengra verður ekki haldið á lastabrautinni. Tollheimtumaðurinn getur verið fyrirmynd fyrir fíkla og þau, sem hafa misst allar festur og fóta. En mörgum mun reynst örðugt að samsama sig atferli hans og afstöðu. Þá erum við komin að auðmýktinni. Er tollheimtumaðurinn ímynd auðmýktarinnar?

Auðmýktarsagan
Í mörg þúsund ár hefur auðmýkt verið lofsungin. Í Orðskviðum segir: „Drambsemi er undanfari tortímingar, og oflæti veit á fall. Betra er að vera lítillátur með auðmjúkum en að skipta herfangi með dramblátum.“ Svipaðar setningar og áherslur má finna víða í ritum forn-Grikkja, sem skildu vel speki hófsemi. Jesús lagði áherslu á auðmýkt og hógværð. Síðan spunnu kristnir spekingar í þessar gyðing-grísku uppistöður. Mér sýnist þó að margir kirkjujöfrarnir hafi farið offari í túlkun sinni á auðmýkt og eðli hennar og raunar spillt auðmýktarhugtakinu. Klaustraforkólfurinn Benedikt frá Núrsíu talaði t.d. um tólf skref auðmýktar og að toppnum væri náð þegar menn gerðu sér grein fyrir að maður sé lægst settur og aumastur allra. Síðar skrifaði Bernharður frá Clairvaux, annar merkur klaustramaður, líka um tólf skref auðmýktar. Hann áleit að auðmýktin gerði menn óttalausa og kærleiksríka. Hann taldi auðmýktina vera þá dyggð, sem kenndi mönnum að sjá sjálfan sig með réttum hætti og þá með því móti að menn fyrirlitu sjálfa sig. Er þetta góð kenning? Er auðmýkt að eðli til sjálfsfyrirlitning? Nei, ég held ekki.

Auðmýkt aðeins fyrir karla?
Ég heyrði öflugan guðfræðing halda fram, að auðmýktarsiðfræðin væri fyrir karla en alls ekki fyrir konur! Ég fór að íhuga þessa ydduðu yrðingu. Jú, boðskapur um auðmýkt hefur verið predikaður fyrir fólki lengi. Hin trúarlegu skilaboð runnu inn í karlstýrt þjóðfélags- og menningarkerfi þar sem auðmýktaráhersla var notuð til að skilgreina stöðu kvenna skör lægra en karlana. Við getum samþykkt að konur hafi haft veikari stöðu en er fyrirbærið auðmýkt úrelt þar með? Mér þykir algerlega ótækt að auðmýkt sé aðeins mál okkar karla en ekki kvenna líka. Vissulega þurfa konur að leggja sig eftir styrkleika og sjálfstæði, berjast fyrir jafnrétti og jafnstöðu á við karla. En þær eiga ekki að berja af sér auðmýkt til að vera sterkar. Sem sé, það er ástæða til að endurnýta auðmýktina, endurskilgreina hana og endurlífga.

Kíkjum aðeins á sögu hugtaksins. Vestrænir hugsuðir hafa því miður lemstrað, “ræfilvætt” og undirlægjuskilyrt auðmýktarhugtakið. Þess vegna er ekki skrítið að heimspekingar síðustu alda hafi farið háðuglegum orðum um auðmýkt. Spinoza hafði t.d. litla trú á gildi auðmýktar og taldi hana yfirvarp annars. Hann taldi líka, að auðmýkt væri löstur ásamt með hrokanum. David Hume taldi auðmýktina, ásamt klaustradyggðum, ganga gegn góðum lífsmarkmiðum og beinlínis skadda fólk.

Margir hafa síðan fylgt í kjölfar þessara rýnenda. En gagnrýni þeirra hittir ekki auðmýktina heldur fremur undirlægjuhátt, aumingjaskilning og kúgunarþáttinn. Ég held við ættum að segja skilið við sjálfsfyrirlitningarskilning klaustramanna. Það er brynja sem má losa sig við að ósekju. Við þurfum hins vegar að endurvekja þá vitund, að við þiggjum allt að láni, njótum alls vegna elsku, erum ráðsmenn í þjónustu kærleikans og til gagns fyrir fólk og sköpun veraldar. Við erum menni á lífsleið ástar og gæsku.

Styrkur persónu – forsenda auðmýktar?
Frumþáttur auðmýktar kristins manns er fólgin í vitund um, að manneskjan lifir í ljósi Guðs, er af Guði og þiggur þaðan allt, líf og gæði, egó og aðstöðu. Kristinn maður er þakklátur og lítillátur af því að allt er frá Guði komið, stundir og dagar, fjölskylda og fé. Allt er að láni, líf og eignir og allir menn, já öll sköpun er hluti guðslífsins. Því er maðurinn, einstaklingurinn, hlekkur í milli lífs- og þjónustukeðju. Svo er hitt að enginn verður auðmjúkur við að sjálf og persónan hið innra brotni. Auðmýkt er persónueigind sterks sjálfs en ekki veiks. Til að auðmýkt spíri, vaxi og beri ávöxt þarf góðan skjólgarð hið innra. Auðmýkt verður ekki til nema í heilli, sterkri persónu sem ber virðingu fyrir reynslu sinni, gildum, stefnu og eigindum. Jesús Kristur er besta dæmið. Hann var ekki sundurknosaður karakter, heldur hafði fullkomlega heila og sterka vitund og mótað sjálf. En hann var auðmjúkur framar öðrum. Hann lifði í þessari samsettu vídd, að lúta föður sínum, sjá líf sitt og hlutverk í elskusamhengi, bera virðingu fyrir sér og köllun sinni og vera óttalaus í þjónustu gagnvart gildum, mönnum, verkefnum og þar með líka dauðaógn og skelfingarmálum.

Eitt sinn var sagt um íslenskan biskup: „Hann þóttist vera góður.” Það var meinlega sagt. En auðmýktin er ekki viljamál. Auðmýktin er dyggða erfiðust því um leið og menn verða sér meðvitaðir um eigin auðmýkt byrjar hún að deyja. Ákvörðuð auðmýkt er því miður ein gerð hroka. En tileinkun auðmýktar er æfiverkefni. Marteinn Lúther minnti gjarnan á, að auðmýkt er algerlega hulin hinum auðmjúka, sem  veit ekki og sér ekki eigin auðmýkt. Dýrlingur veit ekki af dýrðardómi sínum. Um leið og menn vilja vera dýrlingar verður þeim það ómögulegt. Góðverk eru auðvitað góð en verða stórkostleg, þegar fólk gerir þau án vitundar um hversu góð þau eru. Auðmýkt er ómeðvituð en sjálfræktuð lífslist.

Þrennan
Ekkert okkar er algerlega brynjuð vera né heldur fullkomlega nakið menni. En það er brot af báðum í okkur öllum. Jesús sagði yddaðar sögur til að minna okkur á að við lifum frammi fyrir Guði. Þar er ljósið skarpara en í mannheimi, þar sjást lífshrukkurnar, brestir og brot. Þar gildir ekkert annað en auðmýkt, því þar er upphaf og samhengi alls. Þann vísdóm megum við síðan fara með út í mannlífið, því þar er Guð líka, hvert sem við förum erum við í musterinu frammi fyrir Guði. Í lífi okkar þarf að vera auðmýkt til að brynjur falli, fólk verði glatt, öllum verði þjónað. Þegar við lærum að tjá: „Guð vertu mér syndugum líknsamur” þá verður undrið. Brynjan lifnar við kossinn og álögin falla.

Lexían: Jes 2. 11-17. Pistillinn: Rm 3. 21-26. Guðspjallið: Lk. 18.9-14.

11. sunnudagur eftir þrenningarhátíð – A-röð. 

Elsa Magnúsdóttir + minningarorð

Hún var skáldmælt hún Elsa. Þessa brýningu um þor og dug setti hún einu sinni á blað, viska sem á erindi til okkar: 

Dugðu, ei deigan lát síga.

Daglangt skal hamarinn klífa.

Þitt efldu þor og stolt.

Hagnýt þitt höfuð betur.

Hugsaðu eins og þú getur

Þá fær ekkert fleyinu hvolft.

 

 

Það er kraftur í þessu ljóði Elsu. Hún hafði verið á heilsuhælinu í Hveragerði sér til eflingar. Og ljóðið er sjálfshvatning eins og hún nefndi það. Dugðu, efldu, hugsaðu. Og það gerði Elsa í því sem henni var falið, í tengslum við fólk, innri átök, vinnu, og ævintýri lífsins.

Upphaf og fjölskylda

Þorbjörg Elsa Magnúsdóttir fæddist í Reykjavík laugardaginn 1. september árið 1928. Foreldrar hennar voru Valgerður Pétursdóttir og Magnús Skúlason. Þá bjuggu þau við Laugaveginn og þar fæddist Elsa. Magnús var ættaður úr Mýrdal en Valgerður kom að austan – frá Reyðarfirði. Þegar Elsa óx í móðurkviði var faðir hennar í önnum við að búa fjölskyldunni framtíðarbústað í Skerjafirði, húsið Þrúðvang, sem var Þvervegur 2 en svo síðar – vegna allra götu- og byggðarbreytinganna sem flugvallargerð stríðsáranna olli – varð að Einarsnesi 42. Magnús var framkvæmdamaður og stækkaði og breytti og hafði sinn hátt á húsahönnun. Húsið þeirra var um tíma kallað píanókassinn vegna þess að það minnti spaugara hverfisins á efri hluta píanós. Landrýmið leyfði og jafnvel kallaði á fleiri hús. Magnús byggði húsið Einarsnes 42a og þar bjó fjölskyldan um tíma. Það var kallað steinhúsið, enda steinsteypt.

Elsa var elst alsystkinanna. Yngri eru Gunnar Sigurður, sem fæddist á Alþingisárinu 1930 og Ásdís Sigrún, Sísí, fæddist árið 1932. En Rakel Kristín Malmquist varð ein af hópnum. Hún var fjórum árum eldri en Elsa, missti móður sína í bernsku, kom í Einarsnesið ung og varð elst í barnahópnum. Þær Elsa og Rakel urðu nánar og studdu hvor aðra alla tíð. Rakel lifir systkini sín.

Skerjafjörður og Reyðarfjörður

Saga byggðarinnar við Skerjafjörð er litrík, allt frá Nauthóli og meðfram strandlengjunni í vestur. Nokkrir byggðakjarnar urðu til á tuttugustu öldinni á þessu svæði, við Skerjafjörðinn, nærri Görðunum og á Grímsstaðaholti. Og Elsa naut uppvaxtar í fjölbreytilegu mannlífi á þessum útjaðri Reykjavíkur. Og löngu áður en Melaskóli varð til var skóli í Skerjafirði og þar byrjaði hún nám. Svo var til Sundskáli við Þormóðsstaðavör og þar lærði Elsa sundtökin.

En Elsa var ekki aðeins úr Skerjafirði og Reykjavíkurmær. Hún var líka Skaftfellingur en ekki síst að austan. Reyðarfjarðartengslin voru henni mikilvæg og ég rakst á – í einni heimildinni – að Elsa sagðist vera frá Reyðarfirði. Þegar í bernsku var Elsa send með strandferðaskipi austur í sumardvalir. Og þar sem henni leið vel og lagði líka gott til ættfólks síns urðu ferðir hennar margar austur og þar kom að hún hafði líka vetursetu. Þegar seinni heimsstyrjöldin skall á þótti öruggara að hún yrði sem lengst fyrir austan. Elsa naut því menntunar í Reyðarfirði líka og var í farskóla sveitarinnar. Elsa var jafnvel fermd á Hólmum og að fjarstöddum foreldrunum. Hún fékk tvær krónur frá afa sínum og pabbi hennar og mamma gáfu henni armbandsúr þegar þau komu austur um sumarið. Til er falleg mynd af brosandi fermingastúlkunni með sítt hár og í hvítum kjól. Hún er með þessa líka fínu blómaskreytingu í hárinu. Reyðarfjarðarárin voru Elsu hamingjutími. Hún tók þátt í öllu því sem sveitalífið gaf og það var alltaf nóg að gera. Elsa fór meira segja á sjó með afa sínu til að vitja. Og svo tengdist hún skepnum og var alla tíð síðan dýravinur og hélt gjarnan dýr.

Í Skerjafirðinum sótti Elsa Skildinganesskóla þar sem nú er Bauganes 7 (áður Baugsvegur 7). Svo fór Elsa vestur í skóla og var ásamt Gunnari bróður hennar í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Hún lærði m.a.s. að binda inn bækur og væntanlega hefur skáldið Þóroddur Guðmundsson, sem þá var skólastjóri í Reykjanesi, haft hvetjandi áhrif á skáldkvikuna í Elsu. Elsa stundaði svo líka nám í húsmæðraskólanum Ósk á Ísafirði. Hún naut ekki aðeins að læra hannyrðir og húshald heldur eignaðist hún í skólasystrum sínum vinkonur og entist vináttan æfina alla. Og seinna stundaði Elsa svo nám í Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Og þar eignaðist hún annan vinkvennahóp sem hún naut samvista við æ síðan.

Ásmundur, börnin og lífið

Svo var það Vetrargarðurinn og Ásmundur. Á Tívolísvæðinu í Vatnsmýrinni var aðalfjörið fyrir unga fólk höfuðstaðarins eftir stríð. Vetrargarðurinn var starfræktur frá 1946 og fram yfir 1960. Unga fólkið safnaðist þar saman, talaði og hló og dansaði. Og Ásmundur sá draumadísina sína og hún hann. Ásmundur var flugvirki og hafði lært sín fræði í Bandaríkjunum. Þau Elsa urðu par, já glæsilegt par, og hófu hjúskapinn í Skerjafirðinum, fyrst í Einarsnesi 42 en síðan í Einarsnesi 40 sem faðir Elsu hafði m.a. annars tekið þátt í að byggja 1928. Þau Elsa og Ásmundur áttu ekki börnin í kippu heldur dreifðu þeim á nær tvo áratugi. Valgeir Már kom í heiminn árið 1948, Magnea Þórunn árið 1952 og svo löngu seinna fæddist Friðrik Smári eða árið 1965. Ásmundur flaug um heiminn á vegum íslenskra flugfélaga og Elsa sá um uppeldið og heimilishaldið. Elsa vann gjarnan með heimilisstörfum, m.a. í verslunum í Skerjafirði og svo síðar í versluninni Baldri við Framnesveg og líka á Hótel Borg. Elsa starfaði líka í verslun Íslenska heimilisiðnarfélagsins meðan hún var enn við Laufásveginn. En við svo sértæka afgeiðslu voru ekki fengnar konur nema að þær kynnu til hannyrða og væru vel að sér í þeim merku fræðum.

Minningarnar

Og nú eru orðin skil. Ásmundur er löngu farin í flugferðina hinstu og nú hefur Elsa lagt í sína för. Eftir eru minningar, gripir og handaverk þeirra. Steinasafnið í garðinum er stórkostegt og opnar sýn til vídda í persónu Elsu og vekur skilning á náttúrubarninu. Elsa sagði um sjálfa sig í blaðaviðtali að hún væri náttúrubarn. Hverngig manstu Elsu og hvað skildi hún eftir hjá þér? Hvað fannst henni gaman að gera, hvað skemmti henni, hvernig er eftirminnilegasta minningin um hana í þínum huga?

Það er áhugavert að hugsa um sögu hennar og hvað mótaði hana. Víddir hennar voru margar og hún varð til úr svo mörgu og fléttaði sjálf lífvefnað sinn með listfengi og af fjölþættum hæfileikum. Hún var alin upp á ströndinni við Skerjafjörðinn og mótaðist undir himinháu fjalli og við sjó austur í Reyðarfirði. Hún sótti nám vestur og eignaðist mann sem kom fljúgandi úr háloftum og líka að norðan. Elsa var tónelsk og leyfði sér að fljúga á vængjum söngsins. Hún lærði söng og söng í kórum, einnig kirkjukór Hallgrímskirkju og kór Langholtskirkju. Og það voru ekki bara þakklát mannabörn sem nutu tónlistar hennar heldur blómin hennar líka. Löngum hefur nú verið sagt, að jurtir verði fallegri ef andað er á þau – og ef öndunin ber þeim líka músíkfegurð er ekki einkennilegt að blómin hennar Elsu hafi tekið flestum fram. Já, svo var Elsa kvennréttindakona, dýravinur, hannyrðakona, mannvinur sem alltaf studdi þau sem þörfnuðust aðstoðar. Hún studdi velferðarmál. Keypti hlutabréf í Kvennalistahúsinu. Hún var góður bílstjóri því faðir hennar kenndi henni vel að keyra og var líka með meirapróf og hafði löngun til að keyra strætisvagna, en náði ekki að brjóta niður einokun karlaveldisns í akstri þess tíma. Elsa var litrík, fyldist vel með tískunni, en fór síðan eigin listrænu leiðir. Hún var vissulega húsmóðir, vann víða og hefði getað titlað sig með ýmsu móti – en þegar hún ritaði undir áskorunarskjal fyrir liðlega tuttugu árum sagðist hún vera ljóðskáld. Já Elsa orkti, hún var góður hagyrðingur og ljóðskáld eins og mörg ykkar vitið fyrir.

Elsu var frelsið mikilvægt. Hún þjónaði vissulega fólkinu sínu og verkefnum, en gat líka verið á fótum á nóttinni. Ef hún var að gera eitthvað mikilvægt átti hún janvel til í gleði sinni að vekja þau sem sváfu til að fara fyrir þau með ljóð eða segja þeim tíðindi, sem hún taldi að ekki geta beðið morguns. Líf Elsu var fjölbreytilegt, margvíslegt og með öllum litaskalanum frá hinum dimmustu til hinna björtustu. Í henni bjó ríkulegt listfengi, mikil músík, djúpar tilfinningar. Draumar veraldar áttu leið inn í kviku hjarta og huga. Framtíðin var henni alltaf opin.

Og nú er hún farin inn í Einarsnes eilífðar með Hólmatind paradísar nærri. Og úr þeirri fjallaborg falla engar skriður og valda engum kvíða. Elsa syngur ekki framar fyrir blómin sín, eða raðar steinum mót sólu. Hún vekur engan framar í gleði sinni til að segja frá dásemdum lífsins. Hún opnar ekki alla vitund sína þegar nýtt lag hljómar á öldum ljósvakans. Hún raðar engum orðum í hrífandi ljóðræðnu, gefur engin ráð framar, saumar ekki og prjónar, eða segir sögur frá Hong Kong. Ekkert hindrar, ekkert er ómögulegt, allt er fært, ljóst, bjart, gott og hláturinn fyllir veröld hennar, Ásmundar, allra þeirra sem hún elskaði. Ekkert er of gott fyrir orðið sem kemur frá Guði. Hún varð slíkur boðskapur sínu fólki og nú er hún farin í himininn. 

Le,,

mggðu aftur augun þín.

Elsku litla stúlkan mín.

Dagur aftur í austri skín.

Alvaldur mun gæta þín.

Amen. Kveðjur: Pétur Haukur Guðmundsson biður fyrir kveðjur. Það gera einnig Sonja Einarsdóttir og Þórdís og Selma Matthíasdætur. Sigga ósk og Kolbrún Helga Gústavsdóttir biðja fyrir kveðjur sem og Filippía Helgadóttir, svilkona Elsu. Friðrik Smári kemst ekki til útfarar móður sinnar. Hann, Vigdís og Snædís dóttir þeirra biðja fyrir kveðjur til ykkar allra.

Útför, Fossvogskirkja 12. mars, 2020. Jarðsett í Fossvogskirkjugarði D-5-46.

 

 

 

 

Handverkið mikla

Hundruð barna komu í Hallgrímskirkju laugardaginn 20. ágúst. Þau fóru í kirkjuna, horfðu upp í hvelfingarnar og hlustuðu á organistana spila á orgelmaraþoni. Sum kveiktu á kertum og mörg lituðu Hallgrímskirkju á blöð sem mynduðu kórónur fyrir börn. Við stigann úr forkirkjunni var búið að koma fyrir mikilli þrykkstöð fyrir unga fólkið. Þar báru þau liti á lófana og þrykktu síðan á risastóran myndflöt. Þegar leið á daginn varð til mikið handverk barna framtíðarinnar. Vissulega spurðu einstaka sem voru komin til fullorðinsára: „Má ég líka?“ Verkið er litfagurt og formsterkt verk framtíðarfólksins. Mörg þeirra fóru út í menningarnóttina með kirkjukórónu sem þau höfðu smellt á höfuðið.

Kristný Rós Gústafsdóttir og Ragnheiður Bjarnadóttir sáu um barnadagskrána.

England er yfirlýst

England er ekki grænt heldur yfirlýst. Margar stórár heimsins líða fyrir þurrka og hita. Vatnskerfi yfirborðs eru víða veikluð. Flutningar á ám hafa víða farið úr skorðum, ekki má vökva flatir eða gróður. Við fórum fjögur til Oxford í nokkurra daga ferð. Úr flugvélinni sást vel hve England var skrælnað. Flatirnar við Christ Church og Bodleian-bókasafnið voru dauðar og á siglingu á Thames þurfti skipperinn að vanda sig til að taka ekki niðri. Hann sagði yfirborðið hálfum metra lægra en í venjulegu ári. Þakklæti fyrir lífsvatnið barðist hið innra með mér við óttann við umhverfisvanda áranna sem koma. Oxford er dásamleg en jörðin er að verða jafn gul og dreymandi spírur borgarinnar.

Myndin er af Bodleian-safninu í Oxford. Flatirnar skrælnaðar. Myndir sáþ

 

Brennivínskjúklingur

Þetta er brennivínskjúklingurinn. Mér leist illa á að sulla grísku ouzo eða líbönsku arak yfir kjúkling. En ég var í góðu samfélagi fagurkera og matargerðarfólks sem var sannfært um að Ottolenghi væri treystandi. Við matreiddum því réttinn. Brennivínsbeygurinn þ.e. ouzo-óttinn hvarf snarlega þegar fulleldað var og bylgjur af ólíkum brögðum fóru um munninn. Brennivínið var horfið en anísvíddin var orðin ein af mörgum bragðvíddum í þessu rétti. Brennivínskjúllinn er bragðundur.

Fyrir fjóra

Hráefni

100 ml ouzo eða arak (lakkrísbrennivín)

4 msk ólífuolía

3 msk nýpressaður appelsínusafi

3 msk límónusafi

2 msk kornótt sinnep t.d. Dijon

3 msk ljós púðursykur

2 fennel (ca 500 gr)

1,3 kg kjúklingur– bútaður í 8 bita (ég nota stundum læri – og hluti þeirra úrbeinaður)

4 klementínur (ca 400 gr) skornar í sneiðar

1 msk tímían

2 ½ tsk fennelfræ – grófmöluð

Steinselja grófskorin til skreytingar

Matseldin

Setjið sex fyrstu hráefnin (ouzo og til og með púðursykur) í stóra skál og blandið og bætið við 2 ½ tsk salt og 1 ½ tsk svörtum pipar. Blandið vel og setjið til hliðar.

Snyrtið fennelboltana og skerið báða langsum í tvennt. Skerið hvern helming í fjóra bita langsum. Bætið fennel í vökvaskálina. Setjið kjúklinginn einnig í vökvann. Þá fara klementínusneiðarnar líka í vökvann, sem og tímían og fennelfræin. Blandið vel saman, setjið lok eða plast yfir. Marínerast í ísskáp einhverja klukkutíma eða yfir nótt. Í stressi tímaskorts má auðvitað sleppa þessum maríneringartíma – rétturinn verður vissulega góður en þó ekki eins bragðdjúpur og annars væri.

Hitið ofninn í 200 og notið viftuna. Setjið allt hráefnið í stórt eldfast mót (ca 30×40 cm), alla vega svo stórt að steikingarlagið verði ekki of þykkt. Húðin á kjúklingnum snúi upp. Steikt í 35-45 mín þar til kjötið er vel brúnað og gegnumsteikt. Takið úr ofninum.

Takið kjúklinginn, fennel og klementínurnar úr fatinu og komið fyrir í heitu fati (eða fallegum potti sem má bera fram) með loki. Tilangurinn er að halda heitu meðan vökvinn úr steikingu er soðinn niður. Sem sé: Takið allan vökvann úr ofnsteikingunni og setjið á pönnu og sjóðið niður, alla vega um þriðjung. Hellið síðan heitum vökvanum yfir kjúklinginn, skreytið með steinselju og berið fram.

Ljómandi að hafa sætar kartöflur með – góð uppskrift með pekanhnetum og hlynsírópi – sjá

Steiktar sætkartöflur með pekanhnetum og hlynsírópi !

Sumir vilja bankabygg með og ef fegurðarskyn og smekkur leyfir er hægt að bæta grænu salati við.

Þessi kjúklingauppskrift er úr Jerúsalem-bók Ottolenghi (179), sem ég fékk einu sinni fyrir skírn í húsi við Hagamel. Uppskriftin er líka á netinu: https://ottolenghi.co.uk/recipes/roasted-chicken-with-clementines-arak