Greinasafn fyrir merki: ouzo

Brennivínskjúklingur

Þetta er brennivínskjúklingurinn. Mér leist illa á að sulla grísku ouzo eða líbönsku arak yfir kjúkling. En ég var í góðu samfélagi fagurkera og matargerðarfólks sem var sannfært um að Ottolenghi væri treystandi. Við matreiddum því réttinn. Brennivínsbeygurinn þ.e. ouzo-óttinn hvarf snarlega þegar fulleldað var og bylgjur af ólíkum brögðum fóru um munninn. Brennivínið var horfið en anísvíddin var orðin ein af mörgum bragðvíddum í þessu rétti. Brennivínskjúllinn er bragðundur.

Fyrir fjóra

Hráefni

100 ml ouzo eða arak (lakkrísbrennivín)

4 msk ólífuolía

3 msk nýpressaður appelsínusafi

3 msk límónusafi

2 msk kornótt sinnep t.d. Dijon

3 msk ljós púðursykur

2 fennel (ca 500 gr)

1,3 kg kjúklingur– bútaður í 8 bita (ég nota stundum læri – og hluti þeirra úrbeinaður)

4 klementínur (ca 400 gr) skornar í sneiðar

1 msk tímían

2 ½ tsk fennelfræ – grófmöluð

Steinselja grófskorin til skreytingar

Matseldin

Setjið sex fyrstu hráefnin (ouzo og til og með púðursykur) í stóra skál og blandið og bætið við 2 ½ tsk salt og 1 ½ tsk svörtum pipar. Blandið vel og setjið til hliðar.

Snyrtið fennelboltana og skerið báða langsum í tvennt. Skerið hvern helming í fjóra bita langsum. Bætið fennel í vökvaskálina. Setjið kjúklinginn einnig í vökvann. Þá fara klementínusneiðarnar líka í vökvann, sem og tímían og fennelfræin. Blandið vel saman, setjið lok eða plast yfir. Marínerast í ísskáp einhverja klukkutíma eða yfir nótt. Í stressi tímaskorts má auðvitað sleppa þessum maríneringartíma – rétturinn verður vissulega góður en þó ekki eins bragðdjúpur og annars væri.

Hitið ofninn í 200 og notið viftuna. Setjið allt hráefnið í stórt eldfast mót (ca 30×40 cm), alla vega svo stórt að steikingarlagið verði ekki of þykkt. Húðin á kjúklingnum snúi upp. Steikt í 35-45 mín þar til kjötið er vel brúnað og gegnumsteikt. Takið úr ofninum.

Takið kjúklinginn, fennel og klementínurnar úr fatinu og komið fyrir í heitu fati (eða fallegum potti sem má bera fram) með loki. Tilangurinn er að halda heitu meðan vökvinn úr steikingu er soðinn niður. Sem sé: Takið allan vökvann úr ofnsteikingunni og setjið á pönnu og sjóðið niður, alla vega um þriðjung. Hellið síðan heitum vökvanum yfir kjúklinginn, skreytið með steinselju og berið fram.

Ljómandi að hafa sætar kartöflur með – góð uppskrift með pekanhnetum og hlynsírópi – sjá

Steiktar sætkartöflur með pekanhnetum og hlynsírópi !

Sumir vilja bankabygg með og ef fegurðarskyn og smekkur leyfir er hægt að bæta grænu salati við.

Þessi kjúklingauppskrift er úr Jerúsalem-bók Ottolenghi (179), sem ég fékk einu sinni fyrir skírn í húsi við Hagamel. Uppskriftin er líka á netinu: https://ottolenghi.co.uk/recipes/roasted-chicken-with-clementines-arak