Calatafimi-kjúklingur í potti með orzo og sítrónum

Dásamlegur pottréttur sem kætir bragðlauka og nærir líkama og sál. Það er engin ástæða til að stressa sig yfir nákvæmum mælingum og hægt að sleppa hráefnum að vild og/eða bæta öðru við sem er til í búrinu og gæti passað. Orzo er skemmtilegt pasta sem hentar matarmiklum pottréttum og ég nota t.d. gjarnan orzo í kjötsúpu. Ég kemst í hátíðarskap þegar ég tek fram rauða hangikjötspottinn og fer að steikja. Og á eldhúsbekknum er haugur af gulrótum og blaðlauk. Þá er góðs að vænta. Grunnur uppskriftarinnar er frá Nigelu Lawson. 

Hráefni (fyrir 4–6)

2 msk ólífuolía

1 heill kjúklingur

Börkur og safi úr 2 lífrænum sítrónum

5 hvítlauksrif, afhýdd og söxuð smátt

6 gulrætur

3 meðalstórir blaðlaukar

2 tsk Maldonsalt

½ tsk chiliflögur

2 tsk þurrkað estragon

300 g orzo pasta

1 búnt steinselja söxuð

Undirbúningur

Hitið ofn í 180°C.

Skerið gulræturnar í stangir. Þverskerið blaðlaukinn í 1,5–2,5 cm búta.

Steikið kjúklinginn

Hitið olíu í þykkbotna pott með loki (emaileraður járnpottur er góður kostur).

Setjið kjúklinginn í pottinn og snúið bringunni niður. Brúnið í 3 mínútur þar til húðin er gullin. Snúið fuglinum svo við. Takið pottinn af hitanum eða lækkið hitann. Dreifið sítrónuberki og hvítlauk í olíuna kringum kjúklinginn og hrærið lítillega. Setjið gulræturnar og blaðlaukinn meðfram kjúklingnum. Kryddið með salti, chiliflögum og estragoni. 

Suðan

Hellið 1,25 lítrum af vatni í pottinn og bætið við vatni  þar til vökvinn nær upp á lærin. En brjóstið á að vera fyrir ofan vatnsyfirborðið. Hellið sítrónusafa út í og yfir fylginn. Ég sting kreistu sítrónunum inn kjúklingskviðinn að hætti Jamie Oliver. Hitið án loks þar til suðan kemur upp. Ýtið grænmetinu niður ef það flýtur upp eða of hátt.

Í ofninn

Setjið lok á pottinn og bakið í ofni í 1 klst og 10 mínútur. Bætið þá orzo út í og hrærið út í vökvann í kringum kjúklinginn. Setjið lokið aftur á og bakið í 15 mínútur til viðbótar í ofninum þar til orzo er orðið mjúkt og þrútið.

Lokafrágangur

Takið pottinn úr ofninum, takið lokið af og látið síðan standa í 15 mínútur. Hrærið lítilleg til að tryggja að orzo festist ekki við botninn. Orzo-ið mun halda áfram að sjúga í sig vökva. Hrærið 4 msk af steinselju saman við og stráið síðan afganginum ofan á.

Borið á borð

Setjið pottinn á borðið. Rífa má kjötið af beinunum og fjarlægja húð og bein. Hrærið kjöt og orzo saman áður en borið er fram. Setjið saxaða steinselju í skál á borðið fyrir þau sem vilja bæta seljunni við. 

Bæn. Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.

 Og hvar er Calatafimi? Á vesturhluta Sikileyjar.

Uppskerudagur í Alviðru 14. september

Í tengslum við dag íslenskrar náttúru verður boðið til veislu og uppskerudags í Alviðru sunnudaginn, 14. september, kl. 14-17. Veisluborð verða dúkuð og boðið verður upp á grænmetissmakk úr grenndargarðinum, kaffi og kakó. Gestir bera með sér veitingar að borðinu og njóta veislunnar saman undir stjórn Auðar I. Ottesen og Sigurðar Árna Þórðarsonar. Hið árlega Alviðruhlaup verður einnig á þessum uppskerudegi.

Félagsmönnum Landverndar býðst að rækta í grendargarði Alviðru. Þar rækta nú fimmtán fjölskyldur matjurtir og unnið er að fjölgun ræktunarreita. Auður segir frá grænmetis- og kryddræktuninni og býður gestum að smakka nýuppteknar garðafurði. Sigurður Árni deilir uppskriftum að piparmyntuhlaupi og grænkálssnakki.

Alviðra er umhverfis- og fræðslusetur í Ölfusi og jörðin er í eigu Landverndar. Ungir sem aldnir geta notið náttúrugæða í hlíðum Ingólfsfjalls, í Öndverðarnesi, Þrastaskógi og við Sogið. Tryggvi Felixson er formaður stjórnar Alviðru og með honum í stjórn eru Auður I. Ottesen, Kristín Vala Ragnarsdóttir, Margarita Hamatsu og Sigurður Árni Þórðarson. Alviðrunefnd efnir til margvíslegra fræðsluviðburða og gönguferða.

Undanfarin ár hefur verið unnið að endurbótum á húsakynnum Alviðru. Í fjósi og hlöðu verða samkomusalir sem nýtast til funda, viðburða, ráðstefnuhalds og náttúrufræðslu. Fjósið verður notað sem veislusalur uppskerudags.

Auður og Sigurður Árni taka vel á móti gestum sem hvattir eru til að leggja lítilræði til Pálínuboðsins og njóta þess að gleðjast saman í Alviðru.

Verið velkomin.

Mynd: Páll Jökull

Þorskur með krækiberjasósu og blómkáli

Er hægt að nota krækiber með fiski? Á berjatíma og þegar grænmetið er tilbúið í garðinum er gaman að leika sér með afurðirnar. Vinir komu í heimsókn. Við ákváðum að elda þorsk, nota blómkál og prufa krækiberjasultu með. Þá varð til þessi réttur. Þegar búið er að sjóða og steikja er blómkáli komið fyrir á diski, fiskurinn settur yfir. Svo er ferskt krydd látið falla yfir. Krækiberjasósunni er síðan dreift af hógværri smekkvísi og öguðum einfaldleika yfir fisk og í kringum hann. Kraftaverkin verða þegar vinir hittast, hjartastöðvar eru opnar og matarástin lifir.

Hráefni fyrir 4

800 gr þorskflök (skorin í 4 jafna bita)

Salt og hvítur pipar

2 msk ólífuolía og/eða smjör til steikingar

Krækiberjasósa

Hægt er að nota krækiberjasultu og þynna lítillega – best með hvítvíni.

Annars er uppskriftin þessi:

150 g krækiber (fersk eða fryst)

50 g sykur (ca. 3 msk, eftir smekk)

30 ml vatn

30 ml hvítvín

1 msk sítrónusafi

½ msk smjör (til að ná gljáa í lokin)

Blómkál

1 lítið blómkál – kjarninn skorinn frá og hitt brotið í litla blómkálssprota eða blóm

30 g smjör

Salt

Ferskar kryddjurtir (t.d. dill eða steinselja)

Matseld

Krækiberjasósa

Krækiber, sykur, vatn og sítrónusafi í pott. Sjóðið á lágum hita í 10 mínútur, þar til berin eru sprungin og sósan orðin svolítið seig. Hrærið smjöri út í í lokin til að fá fallegan gljáa. Mér finnst skemmtilegt að hafa berin með og nota þau sem fegurðarauka og viðbit. En það er líka hægt að sikta þau frá og skreyta með safanum.

Þorskur

Saltaðu og pipraðu þorskbitana. Hitaðu pönnu með olíu/smjöri, steiktu bitana 2–3 mínútur á hvorri hlið (fer eftir þykkt). Í steikingarlok á þorskurinn að vera hvítur og safaríkur en fiskrifin eiga að losna auðveldlega sundur.

Blómkál

Sjóðið blómkálið í söltuðu vatni í 3–4 mínútur (al dente). Steikið síðan stutt í smjöri til að ná fram hnetukeim. 

Diskurinn

Setjið blómkál á miðju hvers disks. Þorskbitarnir eru síðan lagðir ofan á blómkálið.

Skreytt með ferskum kryddjurtum, t.d. graslauk eða dilli. 

Krækiberjasósunni er dreift af hógværri smekkvísi og öguðum einfaldleika yfir fisk og í kringum hann.

Borðbæn:

Allt sem í dag er borið borði

blessaðu nú með þínu orði,

eilífi Drottinn; þelið þitt

þvoi og lýsi’ upp hjarta mitt.

            Bæn Sigurðar Ægissonar, Siglufirði

Mynd sáð

Þú Guð sem elskar

Þú Guð sem elskar

Kenn okkur að elska einnig

Kenn okkur að elska okkur sjálf,

móður og föður, systkini, börnin okkar.

Kenn okkur að elska maka okkar, ástvini.

Kenn okkur að elska fólk, allt fólk – líka þau sem erfið

 

Þú Guð sem elskar

Kenn okkur að elska að dagur er eftir nótt,

gleði eftir sorg, von í vonleysi, ljós í myrkri.

Kenn okkur að elska ….elska þig.

 

Þú Guð sem elskar

Kenn okkur að elska vind og vötn, fuglasöng, skepnur,

jafnvel kettina sem veiða fuglana í garðinum,

og líka geitungana sem hræða og stinga.

Kenn okkur að elska þína undursamlegu smíð

og kenn okkur að elska með umhyggju

 

Þú Guð sem elskar

Við viljum læra að vera hvert öðru elskuenglar, speglar ástar þinnar.

Gef að við förum út á vegi og fundi dagsins með elskuleitina skýra

og þig í hjarta.

 

Þú Guð sem elskar.

Vitja allra þeirra sem eiga fyrir öðrum að sjá,

stjórnvöldum, öllum sem dæma og ákvarða í almannamálum

stjórnendum fyrirtækja, fjölmiðla,

Vitja þeirra sem líða, sakna og syrgja, veit þeim þina elsku

 

Þú Guð sem elskar.

Ver nærri í lífsveislu þinni.

Þú kemur sjálfur og býður okkur til veislu þinnar.

Bæn frá 2005 og mynd sáþ frá 2017, á Jakobsvegi.

Orwell í Washington?

Donald Trump telur sér fært og vill bæði endurskrifa sögu Bandaríkjanna og endurskilgreina sannleikann. Trump vill líka sjálfur ákveða hvernig saga hans skuli sögð, skráð og hvernig óþægilegir þættir hennar skuli túlkaðir og látnir hverfa. Það kallast þöggun. Í þeirri veröld sem George Orwell skissaði í bókinni 1984 stýrði ríkisvaldið ekki aðeins framtíðinni heldur líka fortíðinni. Henni var breytt að vild og skv. þörfum stjórnvalda. Er Washington 2025 endurskilgreind að hætti 1984?

Smithsonian og ritskoðun fortíðar

Í mars 2025 undirritaði Trump forsetatilskipun þar sem hann fordæmdi að hugmyndastefna hefði brenglað staðreyndamiðaða sögu Bandaríkjanna. Orðfærið virtist hvetja til hlutlægrar frásagnar en tilskipunin þjónaði öðru og trumpískara markmiði. Í kjölfar hennar var fjarlægt upplýsingaskilti í Smithsonian-safninu um embættisákærur Trumps. Aðferðin minnir á 1984 stjórnarhætti. Í sögu Orwells endurrituðu starfsmenn Sannleiksráðuneytisins gömul skjöl til að þau samræmdust nýjustu útgáfu valdhafans af sannleikanum.

Vísindin sveigð

Þegar tölfræðistofnun sem rannsakar breytingar á bandaríska vinnumarkaðnum birti tölur um slæma þróun atvinnulífsins rak forsetinn forstjóra stofnunarinnar. Trump líkaði sem sé ekki faglega greiningin og sagðist ekki trúa tölunum. Minnir á „doublethink“ Orwells. Ef tölur stangast á við þarfir valdsins eru tölurnar rangar og raunveruleiki og sannleikur lygi. Með því að skjóta sendiboðann, þ.e. refsa þeim sem opinberar óþægilegar upplýsingar, krefst stjórnin ekki aðeins þöggunar heldur undirgefni. Skilaboðin eru að allir verði að skilja, sjá og túlka heiminn eins og Trump – eða hverfa ella.

Skilaboðin – sannleikur þjónar valdi

Svona stjórnarhættir veikja traust og vekja ótta, auka meðvirkni og knýja til hlýðni. Allir sem veita upplýsingar um þróun mála bandarísks þjóðfélags eiga að beita sig sjálfsritskskoðun, laga sig að stefnu stjórnvalda og hegða sér eins og rússneskir eða norður-kóreanskir embættismenn. Sannleikurinn verður að falla innan tiltekins ramma einræðisherrans – annars er hætt við að þeir fái reisupassann. Rök, góð fræði, gagnsæi lúta valdstjórn í ótta. Fólk hættir að segja sannleikann ef hann er óþægilegur fyrir stjórnvöld. Sögulegum staðreyndum er breytt til að þóknast. Þetta merkir einfaldlega að frelsið er á útleið og ofríki tekur völdin. Fjálst fólk gerist gínur valdsins. Frjálsir menn verða þrælar. 

Sannleikurinn lygi – en lygi sannleikur

Trump kallaði árásarmenn á þinghúsið fanga og gísla og taldi þá föðurlandsvini. Hann hafnar líka fjölbreytileika og réttlætisviðmiðum í stjórnkerfinu. Hann hefur glamrað um bandarísk gildi sem hafa þó aldrei verið skilgreind. Markmiðið virðist að endurskilgreina söguna. Inntak þeirar sögu er að Trump sé bæði fórnarlamb og bjargvættur. 

Orwell tekur yfir Washington

Í veröld Orwells var þögn öflugt tæki yfirvalda. Bókum var ekki eytt heldur tryggt að þær væru ósýnilegar og sköðuðu ekki valdakerfið. Staðreyndir voru ekki bannaðar en athygli beint frá þeim. Þegar opinberar stofnanir mega ekki sýna þróun samfélags og þjóðfélags, þegar gagnrýnir embættismenn eru fjarlægðir og sögutúlkun er hagrætt í undirgefni við valdið er Orwell mættur og 1984 líka. Í stað Stóra bróður krefst forsetinn að allir speglar sýni hann og ávallt glæsilegan. Tryggt sé að enginn efist – og alls ekki opinberlega.