Nýfrjálshyggjan uggandi

Ég vaknaði með ugg í brjósti í morgun, hitaði mér kaffi í Bialetti-könnunni minni og settist niður hugsi með ilminn í nefinu.

Ég ólst upp í skugga braggahverfis hernámsáranna á Grímsstaðaholti og Kanar voru nágrannar. Þróun eftistríðsáranna vestra var eiginlega í golu bernskunnar. Ég valdi að sækja nám í Suðurríkjunum frekar en að vera í skólunum á Austurströndinni. Ég vildi kynnast þykku menningunni. Ég bjó í nokkur góð og merkileg mótunarár í Nashville. Þegar ég fór að ræða við félaga mína í skólanum vestra fullyrtu þeir að eftir óreiðu og hrylling seinni heimsstyrjaldar hefði margt verið gert til að þétta raðir og græða sárin. Ég sannfærðist um að mikill meirihluti Bandaríkjamanna styddi sígandi lukku, vildi góðan og eðlilegan hagvöxt, styddi félagslegt öryggi, vildi lina kynþáttahyggju og búa til samfélag sem nyti stöðugleika og þokkalegs jafnvægis. Vöxtur þarfnast jú fyrirsjáanlegrar festu. En svo tók nýfrjálshyggan við vestra.

Eftir 1970 fór efnahagslegt ójafnvægi að aukast í bandarísku samfélagi. Þar með gliðnuðu menningargjárnar að nýju, þessar sem reynt hafði verið að brúa. Og miklu máli skipti að áherslur stjórnmálanna breyttust. Heildarhyggjan linaðist og kannski brotnaði. Velsæld markaðarins varð aðalmál og áhugamál pólitíkusanna fremur en velsæld samfélagsheildarinnar. Hlutsýn kom í stað heildarsýnar. Starsýni í stað víðsýni. Vaxandi skuldsetning hélt uppi neyslunni. Fjölmiðlar breyttust, mörkuðu sér sérstöðu og áherslur einhæfðust. Þeir bjuggu svo til búblur, eigin málheima og gildaheima sem lokuðu fólk og hópa af frá öðrum og heildinni. Þessar búblur urðu gámar, aðgreindir frá öðrum pólitískum gámum. Samfélagslegar andstæður skerptust. Ég sá vel að fátæklingarnir voru fátækir og hve hin ríku voru ofurrík í Nashville. Og ég varð vitni að menningarátökum. Málsvarar hópa æfðu sig í ópum og deilum á skólalóðinni í Vanderbilt. Þau lærðu að vera hópur gegn öðrum hópum, hrópa slagorð yfir mörkin. Við-þið hugsunin skar í samfélagsvefinn og sleit þræði samheldninnar. Síðan hefur reiðin vaxið – stöðugt – og orðið mein samfélagsins, opnað leiðir fyrir lukkuriddarana og nýja gerð alræðissóknar í Bandaríkjunum. Og svo hrópa menn ekki bara milli gáma, heldur skjóta því byssueignin er ekki skilyrt, þ.e. bundin við andlegt heilbrigði.

Í MAGA-Trumphyggjunni er sannleikurinn neysluvara en ekki alvöru gildi. Á markaði má öllu breyta og “sannleikurinn” er því síbreytilegur. Gyðingar voru blórabögglar nasistanna en innflytjendur, hommar og trans hjá MAGA-liðunum. “Þau” eru ekki hluti af “okkur” – við ákveðum hvað verður um “þau” sem merkir að mennska þeirra er önnur en “okkar.” Á þeim má pönkast að vild. Manngildi er því ekki grunngildi skv. þessari nálgun. Í samfélagi nýfrjálshyggjunnar skapa markaðir, sundraðir fjölmiðlar og vaxandi ójöfnuður nýja gerð alræðisstefnu. Það er vond pólitík og hvorki góð til innflutnings né útflutnings – óháð tollum.

Stundum þarf maður bara að koma ugg í orð. Og kaffið hressir líka.

Jeríkókjúklingur með lauk, döðlum og granatepli

Sæta döðlunnar, mildur blaðlaukur og safaríkt granatepli kyssast í rétti sem minnir á Jeríkó.

Í 4Mós 11.5 segir frá hve ákaft Ísraelsmenn söknuðu lauks, hvítlauks og blaðlauk sem þeir nutu í Egyptalandi. Döðlur voru gjarnan kallaðar „brauð eyðimerkurinnar“ og voru helsti orkugjafi á ferðalögum (2Sam 6.19). Granatepli voru tákn lífs, frjósemi og blessunar (5Mós 8.8; 2Mós 28.33–34). Hér sameinast þessi þrjú hráefni í rétti með áhugaverðar bragðvíddir. Í unaðsborginni Jeríkó var hægt að elda svona mat og halda veislu.

Hráefni (fyrir 5 manns)

  • 15 kjúklingaleggir (Gallus gallus)
  • 2 rauðlaukar (Allium cepa), grófsaxaðir
  • 2 blaðlaukar (Allium porrum), þverskornir í þunnar sneiðar
  • 1 heill hvítlaukur (Allium sativum), klofinn í geira en óafhýddur
  • 2 stilkar sellerí (Apium graveolens) þverskornir í ca 1 cm búta
  • 2 msk ólífuolía (Olea europaea)
  • 4 lárviðarlauf (Laurus nobilis)
  • 1 msk fersk salvía (Salvia fruticosa) eða þurrkuð
  • 1 msk ferskt rósmarín (Salvia rosmarinus)
  • 1 tsk kúmmín (Cuminum cyminum)
  • ½ tsk kanill (Cinnamomum verum)
  • 6 döðlur (Phoenix dactylifera), saxaðar smátt eða maukaðar í soði
  • Safi og fræ úr 1 granatepli (Punica granatum)
  • ½ glas vatn + grænmetissoð (bygg- eða linsukraftur)
  • Maldonsalt eða gróft sjávarsalt
  • Nýmalaður svartur pipar

Aðferð

  1. Marínering: Kryddið kjúklinginn með salti, kúmmín, kanil og ólífuolíu. Látið liggja í kæli í nokkrar klukkustundir eða yfir nótt.
  2. Grunnurinn: Steikið rauðlauk, blaðlauk og sellerí á pönnu þar til allt mýkist. Bætið hvítlauk og lárviðarlaufi út í.
  3. Steiking kjúklings: Brúnið kjúklingaleggina á heitri pönnu þar til húðin er gullin. Hellið grunninum yfir kjúklinginn. Og steikið áfram.
  4. Sósan: Maukið döðlur í vatni. Hellið öllu yfir kjúklinginn á pönnunni. Stráið salvíu og rósmaríni yfir. Notið þurrkað krydd ef ferskt er ekki til.
  5. Steiking: Látið réttinn malla á meðalhita á pönnunni í 45 mínútur. Gætið þess að vökvinn á pönnunni þorni ekki upp. Bætið vatni við ef þarf.

Berið fram á pönnunni: Dreifið granateplum yfir og skreytið með ferskri steinselju. Rétturinn er bestur með soðnu byggi og ósýrðu brauði sem dregur í sig ríkulegan sósukeim.

Bæn: Þökkum Drottni, því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Sauð vatnið upp á bak örninni – og 60 laxar

Ernir verptu við Sogið og nærri Alviðru fram eftir tuttugustu öld, fyrst í Arnarhólma í Álftavatni og síðan í klettum í norð-austurhluta Ingólfsfjalls. Lax og silungur í Soginu var ekki aðeins mikilvægur mannfólki heldur líka örnum og ránfuglum. Afstaða íbúa í nágrenninu til þessara miklu fugla og veiði þeirra var mismunandi. Sumir grunuðu þá um lambarán en aðrir vörðu og vernduðu ernina og rökstuddu afstöðu sína í ljósi reynslu og samskipta. Árni Jónsson (7. okt. 1880 – 6. okt. 1966) var bóndi í Alviðru fram yfir miðja tuttugustu öld. Hann tók saman ítarlega örnefnaskrá fyrir Alviðru. Í greinargerð Árna segir hann frá viðburðum og minningum sínum sem tengjast örnefnunum. Meðal annars segir hann frá arnarvarpi í landi Alviðru. Í frásögn Árna koma líka fram upplýsingar um fálka og fiskveiðar. Málfar hans er áhugavert og varðveitt í þessari uppritun. Árni talar um össuna í kvenkyni og hún er þá örnin með einu n-i. Textinn er hafður eftir Árna og skjalið varðveitt á Örnefnastofnun:

„Í eggjunum fyrir norðan Hádegisholtsgil er Langibás. Þar verpti örnin eftir það, að hún fór úr Arnarhólma. Langibás er í Torfastaðalandi. Þegar ég var ungur, verpti örnin í Arnarhólma á Strýtukletti, norðast í hólmanum, í landi Torfastaða. Örnin veiddi silung og lax í vatninu. Eitt sinn var komið að örninni við vatnið, og var hún þá búin að veiða 2ja fjórðunga lax og éta hann hálfan. Öðru sinni sá Þórður bóndi á Tannastöðum til hennar við ármótin á Sogi og Hvítá, að hún flaug yfir og setti klær í lax, sem synti ofarlega í ánni. Laxinn tók kast og vildi stinga sér, en örnin hélt á móti. Sauð vatnið upp á bak örninni, og leit út fyrir, að laxinn myndi keyra hana í kaf. En eftir dálitla stund er örnin búin að draga hann upp á eyri og drepa hann. Örnin hristir sig og lagar og flýgur í burt; kemur eftir litla stund aftur, er þá með tvær arnir með sér. Þœr setjast að laxinum og éta hann upp.

Eitt sinn komu menn frá Vaðnesi og báðu Torfastaðabændur um að steypa undan örninni í hólmanum, en þeir sögðust ekki gera það, því að hún tæki aldrei lömb frá þeim, þó svo að þau væru að leika sér við hreiðrið hennar, og svo lengi sem hún sæi lömbin í friði, hreyfðu þeir ekki við eggjum eða ungum arnanna í hólmanum. En Vaðnesmenn grunuðu örnina um að taka lömb frá þeim og færa þau ungunum sínum. Hún sótti stundum lömb og bar þau í hreiðrið, en má eins búast við, að það hafi verið dauð lömb, sem hún tók, því arnir átu dauðar kindur.

Eitt sinn bjó bóndi á Torfastöðum, sem Guðmundur hét Loftsson. Hann rændi örnina í hólmanum 2 eggjum, fór með þau á Eyrarbakka og seldi Nielsen verzlunarstjóra þau á 2 krónur. Nielsen lét eggin á eggjasafn, sem hann síðar hafði gefið barnaskóla á Eyrarbakka. En eftir þetta verpti örnin aldrei í hólmanum, en flutti sig í ógenga hamra í Langabás í fjallinu. Þar komst enginn til hennar nema fuglinn fljúgandi. Gjótan, sem hún var í, var svo vel löguð, að hún flaug þar inn með útbreidda vængina. Oftast kom hún út 2ur ungum, sem komu úr hreiðri um höfuðdag, þá eins stórir sem fullorðnir ernir. Það var sagt, að þá hrinti hún þeim úr hreiðrinu og ef þeir gætu ekki bjargað sér, þá dræpust þeir eða rotuðust. En það hefur þurft mikinn aðdrátt handa fjórum örnum.

Þegar ég var unglingur að smala kvíaám, sátu arnirnar oft á Hádegisholti. Virtust ungarnir ekki hræddir við mig og sátu kyrrir, þó að ég kæmi nærri þeim. Ef gömlu örnunum þótti þeir of nærri mér, komu þeir og ráku ungana upp, en skiptu sér ekkert af mér. En er á sumarið leið, hurfu ungarnir og sáust ekki meir, en gömlu arnirnar héldu sig á sínum fornu slóðum. Sama var að segja um hrafnsungana, sem komust fram í fjallinu. Þeir hurfu, er á sumarið leið, og sáust ekki meir, en gömlu hrafnarnir héldu sig í fjallinu, oft á nóttum nálægt hreiðrinu sínu. En hvað varð af öllum þessum ungum, vissum við ekki.

Það var ungur maður í Tungu í Grafningi, sem Þorsteinn hét Þorsteinsson … … sá sem mest veiddi í ádrátt laxinn á svokölluðum Tungudráttum. Hann byrjaði að veiða 18 vikur af sumri og dró á fram undir jól, er góð var tíðin. Kom fyrir, að hann fékk 60 laxa á einu kveldi og hlóð ferjubát, er hann átti. Laxinn var saltaður í öll ílát, sem til voru, og svo saltaður í stafla í skemmuna, sem tíðkaðist með þorsk við sjó. Þorsteinn Þorsteinsson var eitt sinn á gangi með Soginu. Finnur hann þá örn með aðra klóna fasta í laxi, en hina klóna fasta í torfbakka við Sogið. Laxinn var lifandi. Hann náði örninni og laxinum, skar stykki úr laxinum og lét örnina hafa það, sem hún hélt í klónni, og sleppti henni svo.

Einu sinni var ég á ferð hjá Hádegisholti. Kom ég frá Torfastöðum. Kemur þá fljúgandi fálki ofan úr Ingólfsfjalli, kastar sér yfir víkina í Álftavatni, slær þar önd, sem var á víkinni, grípur hana áður, en hún dettur á vatnið, og snýr til fjalls. En á sömu stund kemur annar fálki ofan úr fjalli, ræðst á þann, sem var með öndina, setur í hana klærnar, og svo togast þeir á í loftinu. Þá hleyp ég til og datt í hug, að ég myndi ná öllu saman, því að þeir voru skammt frá jörð og ýlfruðu mikið. En er ég kom nær, slepptu þeir báðir öndinni og flugu til fjalls, en ég hafði öndina. Fálkinn hafði slegið öndina á hálsinn, svo að hausinn hékk við hana á svolítilli skinnrönd. Svona slær fálkinn hausa af fuglum. Til dæmis hef ég séð fálka slá haus af rjúpu, svo að haus og kroppur hafa fallið til jarðar hvort í sínu lagi.“

Samkvæmt túlkun Magnúsar Más Lárussonar í Kuluturhistorisk Lexikon for Nordisk Middelalder hefur fiskurinn sem assan náði á land verið um 17 pund. 

Meðfylgjandi ljósmynd Jóhanns Óla Hilmarssonar sem hann sendi mér og heimilaði mér notkun á.  

Rómverskur kjúklingur með kartöflum – allt á pönnu

Í þessari ofnuppskrift eru kartöflur og kjúklingurinn fær bragð af góðri og ilmsterkri rósmarínsósu með kapers og ansjósum. Í staðinn fyrir tómata sem oft eru notaðir í pottrétti, er sýrubragðið fengið úr hvítvíni og ediki. Kjúklingurinn er lagður á kalda pönnu og síðan steiktur – til að ná stökkri húð og nota fituna sem grunn fyrir kartöflurnar. Grunnur uppskriftarinnar er frá Cybelle Tondu.

Fyrir 4

Hráefni:

900 g kjúklingalæri eð leggir (með beini og húð)

2 tsk gróft sjávarsalt

3 msk ólífuolía

500 gr kartöflur

1 msk ferskt rósmarín (nálarnar saxaðar)

4 ansjósur

2 hvítlauksrif

2 msk kapers

180 ml þurrt hvítvín

2 msk hvítvínsedik (eða rauðvínsedik)

2 msk fersk steinselja (söxuð)

Matseld:

  1. Ofninn stilltur á 220°C. Kjúklingurinn þerraður með pappírsþurrku og saltaður – 2 tsk salt.
  2. Hitið stóran pott eða djúpa pönnu (með loki eða án) og hellið 1 msk af olíu í. Leggið húðhlið kjúklingsins í kalda pönnuna og hitið síðan yfir meðalhita. Steikið án þess að hræra í um 15 mínútur, eða þar til húðin er orðin gullinbrún og losnar auðveldlega frá pönnunni.
  3. Á meðan kjúklingurinn steikist: Skerið kartöflurnar í bita um 2,5 cm að þykkt. Setjið í skál og bætið við rósmarín, söxuðum ansjósum, mörðum hvítlauk, kapers, 2 msk olíu og ½ tsk salti. Blandið öllu saman.
  4. Snúið kjúklingnum við og bætið kartöflublöndunni á pönnuna – komið fyrir yfir og undir kjúklingnum. Hellið hvítvíninu yfir. Setjið pönnuna í ofninn og steikið án loks í um það bil 25 mínútur, eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn og kartöflurnar mjúkar.
  5. Takið pönnuna af hitanum og veiðið kjúklinginn úr pönnunni og setjið til hliðar. Bætið ediki og 2 msk vatns á pönnuna og látið malla á meðalhita. Hrærið öðru hvoru, þar til kartöflurnar eru þaktar þykkri, gljáandi sósu (um 5 mínútur eða lengur ef þarf). Ef sósan er of þykk eða feit, bætið við vatni, 1 msk í einu, til að ná réttri áferð. Smakkið til og bætið við salti og ediki ef þörf verður á.
  6. Setjið kjúklinginn aftur á pönnuna og stráið saxaðri steinselju yfir.

Tillögur að meðlæti:

Brauð

Rúgbrauð, focasía eða súrdeigsbrauð – til að dýfa í sósuna. Grillað brauð með hvítlauksolíu við bragðvídd.

Grænt salat

Létt rúkkola- og spínatsalat með sítrónusafa og ólífuolíu.

Má bæta við parmesanflögum eða kirsuberjatómötum.

Sítrónu- eða edikgljáð grænmeti

Grillaður aspargus eða grillaðar gulrætur með örlitlu balsamik-ediki.

Bæn: Þökkum Drottni því að hann er góður – og miskunn hans varir að eilífu. Amen. 

Calatafimi-kjúklingur í potti með orzo og sítrónum

Dásamlegur pottréttur sem kætir bragðlauka og nærir líkama og sál. Það er engin ástæða til að stressa sig yfir nákvæmum mælingum og hægt að sleppa hráefnum að vild og/eða bæta öðru við sem er til í búrinu og gæti passað. Orzo er skemmtilegt pasta sem hentar matarmiklum pottréttum og ég nota t.d. gjarnan orzo í kjötsúpu. Ég kemst í hátíðarskap þegar ég tek fram rauða hangikjötspottinn og fer að steikja. Og á eldhúsbekknum er haugur af gulrótum og blaðlauk. Þá er góðs að vænta. Grunnur uppskriftarinnar er frá Nigelu Lawson. 

Hráefni (fyrir 4–6)

2 msk ólífuolía

1 heill kjúklingur

Börkur og safi úr 2 lífrænum sítrónum

5 hvítlauksrif, afhýdd og söxuð smátt

6 gulrætur

3 meðalstórir blaðlaukar

2 tsk Maldonsalt

½ tsk chiliflögur

2 tsk þurrkað estragon

300 g orzo pasta

1 búnt steinselja söxuð

Undirbúningur

Hitið ofn í 180°C.

Skerið gulræturnar í stangir. Þverskerið blaðlaukinn í 1,5–2,5 cm búta.

Steikið kjúklinginn

Hitið olíu í þykkbotna pott með loki (emaileraður járnpottur er góður kostur).

Setjið kjúklinginn í pottinn og snúið bringunni niður. Brúnið í 3 mínútur þar til húðin er gullin. Snúið fuglinum svo við. Takið pottinn af hitanum eða lækkið hitann. Dreifið sítrónuberki og hvítlauk í olíuna kringum kjúklinginn og hrærið lítillega. Setjið gulræturnar og blaðlaukinn meðfram kjúklingnum. Kryddið með salti, chiliflögum og estragoni. 

Suðan

Hellið 1,25 lítrum af vatni í pottinn og bætið við vatni  þar til vökvinn nær upp á lærin. En brjóstið á að vera fyrir ofan vatnsyfirborðið. Hellið sítrónusafa út í og yfir fylginn. Ég sting kreistu sítrónunum inn kjúklingskviðinn að hætti Jamie Oliver. Hitið án loks þar til suðan kemur upp. Ýtið grænmetinu niður ef það flýtur upp eða of hátt.

Í ofninn

Setjið lok á pottinn og bakið í ofni í 1 klst og 10 mínútur. Bætið þá orzo út í og hrærið út í vökvann í kringum kjúklinginn. Setjið lokið aftur á og bakið í 15 mínútur til viðbótar í ofninum þar til orzo er orðið mjúkt og þrútið.

Lokafrágangur

Takið pottinn úr ofninum, takið lokið af og látið síðan standa í 15 mínútur. Hrærið lítilleg til að tryggja að orzo festist ekki við botninn. Orzo-ið mun halda áfram að sjúga í sig vökva. Hrærið 4 msk af steinselju saman við og stráið síðan afganginum ofan á.

Borið á borð

Setjið pottinn á borðið. Rífa má kjötið af beinunum og fjarlægja húð og bein. Hrærið kjöt og orzo saman áður en borið er fram. Setjið saxaða steinselju í skál á borðið fyrir þau sem vilja bæta seljunni við. 

Bæn. Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.

 Og hvar er Calatafimi? Á vesturhluta Sikileyjar.