Djúp og breið

Alger munur er á fyrri umferð í biskupsvali og hinni seinni. Almenn kynning á biskupsefnum fór fram áður en kosið var í fyrri umferð. Fyrra valið var eins konar forval. Fjöldi biskupsefna og eðli forvals varð til, að kynningar náðu þó ekki ákjósanlegri dýpt. Nú er seinni umferð að hefjast, en þó er enginn almennur fundur til kynningar.

Í fyrri umferð var nálgun kjörmanna almenn og ljóst að ekki yrði kosið til úrslita í þeirri umferð. Í seinni umferð velja kjörmenn milli tveggja. Kjörmenn hefðu því þurft gott samtal með ítarlegum svörum og á dýptina. Í ljósi þess hef ég lagt mig eftir að svara spurningum kjörmanna og fréttamanna. Kjörmenn vanda val sitt og biskupsefni virðir þær þarfir.

Fyrri umferðin var á breiddina en seinni umferðin ætti að vera á dýptina. “Djúp og breið” syngjum við í kirkjunni. Í kirkjukosningum þarf líka að vera dýpt og breidd.

Opinn fundur um biskupskjör

Stuðningsfólk mitt býður í kvöld, 29. mars, til opins fundar um biskupskjör og kosti kirkjunnar. Fundurinn verður í safnaðarheimili Neskirkju og hefst kl. 20. Örræður flytja Inga Rún Ólafsdóttir, Hreinn Hákonarson, Sigurvin Jónsson og Jóna Hrönn Bolladóttir. Fyrirspurninir og umræður. Lífsstíll þjóðkirkjunnar þarf að vera stíll hins opna og frjálsa samfélags. Allir eru velkomnir til fundarins, fjölmiðlar einnig því þetta verður opinn fundur.

Vonast til að sjá þig. Sigurður Árni

Pétri Kr. Hafstein þakkað

Pétur Kr. Hafstein lætur skyndilega af störfum, vegna heilsubrests, sem kirkjuþingsmaður og forseti kirkjuþings. Hann hefur reynst kirkjunni frábær leiðtogi, réttsýnn, hollráður og framsýnn. Hann hefur beitt sér fyrir markvissri eflingu kirkjuþings, sem æðsta stjórnvalds þjóðkirkjunnar.

Eitt af helstu baráttumálum Péturs er að auka áhrif og virkni leikmanna í starfi og stjórnun þjóðkirkjunnar. Í því verki hefur hann verið stefnufastur og skýrmæltur. Í biskupskjöri þessa árs njótum við stefnu hans og meirihluti kjörmanna er leikmenn.

Ég vil þakka Pétri Kr. Hafstein einurð hans og sýn um, að þjóðkirkjan megi ekki standa í stað heldur eigi stöðugt að breyta starfsháttum og skipulagi til að fólki, kirkju og þjóð verði þjónað sem best í framtíð.

Tími tækifæranna

Fimmtudaginn 29. mars, kl. 20 verður efnt til opins fundar í safnaðarheimili Neskirkju um biskupskjör og kirkjumál.

Stuttar framsögur flytja:

  • Hreinn Hákonarson, fangaprestur
  • Inga Rún Ólafsdóttir, sóknarnefndarformaður og kirkjuþingskona
  • Sigurvin Jónsson, æskulýðsprestur
  • Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur

Til fundarins boðar stuðningsfólk dr. Sigurðar Árna Þórðarsonar í biskupskjöri.

Fundurinn er öllum opinn, kjörmönnum, sóknarnefndarfólki og öllu áhugafólki um kirkjumál.

Sigríður Haraldsdóttir, landfræðingur

Ég kynntist Sigurði Árna Þórðasyni fyrst að einhverju marki þegar ég gekk til liðs við Kór Neskirkju árið 2005.  Sem formaður kórsins til nokkurra ára hef ég átt samskipti við prestana og aðra starfsmenn Neskirkju.  Við Sigurður erum auk þess nágrannar, eigum jafnaldra syni og síðast en ekki síst þá jarðsöng hann föður minn fyrir fáeinum árum.

Í samskiptum  mínum við Sigurð Árna hef ég kynnst mörgum af hans góðu kostum.  Hann er einstaklega jákvæður, óspar á hrósið og tekst þess vegna afar vel að hvetja fólk í kringum sig til góðra verka.  Þessu höfum við í kórnum fengið að kynnast því Sigurður Árni segir bæði okkur og söfnuðinum sem sækir Neskirkju hversu mikils hann metur okkur og okkar framlag  til safnaðarstarfsins og messuhaldsins.  Þá sýnir hann starfi okkar virðingu á ýmsan hátt m.a. með því að sækja tónleika kórsins.  Þannig eru prestarnir og starfsfólkið í Neskirkju.

Sigurður Árni hefur miklu að miðla og gerir það í ræðu og riti og í samtölum við fólk.  Hann er næmur á aðstæður og leggur sig fram um að hlusta og kalla eftir skoðunum fólks.  Hann sér það einstaka og jákvæða í orðum og athöfnum manna en kann jaframt að glíma við erfiðleika og ágreining og leiða fram sættir.

Það dylst engum sem hlustað hafa á Sigurð Árna í prédikunum að hann hefur gott vald á íslenskri tungu og leggur mikla rækt við tungumálið.  Slíkt ber vitni um hversu vænt honum þykir um móðurmálið og hversu mikilvægt honum finnst að  sýna því virðingu og nýta það með sem bestum hætti til þess að koma hugsunum sínum og boðskap á framfæri.

Persónuleiki, menntun, starfsreynsla og lífreynsla gera það að verkum að Sigurður Árni er kjörinn til þess starfs sem hann nú býður sig fram til.  Að mínu mati er einn af hans allra mikilvægustu eiginleikum að hann er sannur jafnréttissinni hvort sem það snýst um jafnrétti karla og kvenna eða jafnrétti ýmissa hópa í samfélaginu.  Þetta einkenni Sigurðar Árna ásamt getu til að miðla málum og leiða til sátta eru eiginleikar sem gætu skipt sköpum fyrir íslensku þjóðkirkjuna.