“Kirkjan þarf að byggja upp traust og á að byrja á barnastarfinu. Að baki ánægðu barni eða ánægðum unglingi eru foreldrar og fjölskylda.” Þessi orð féllu í þriggja landa skypesamtali um framtíð barnastarfs kirkjunnar í dag. Og er það ekki nákvæmlega þannig sem traust er byggt upp, fyrst með uppeldi og síðan í samskiptum, sem eru í samræmi við gott uppeldi. Traustið í fullorðnum manneskjum er ofið úr jákvæðri reynslu fólks í bernsku. Kirkja og trú á að koma inn í þá reynslu og vera traustisins verð.
Víða er unnið frábært barna- og unglingastarf í þjóðkirkjunni. Reynslu og þekkingu þarf að miðla. Snúa þarf við þeirri þróun sem verið hefur frá hruni bankakerfisins og leiddi til uppsagna faglærðra æskulýðsstarfsmanna á Reykjavíkursvæðinu. Gott barnastarf verður ekki nema áhöfnin sé öflug og vanda vaxin.
Viðmið um lágmarksnotkun fjár til barnastarfs safnaða ætti að setja. Auðvitað er munur á söfnuðum – sumir eru aldraðir en aðrir bráðungir, en hægt að miða við fjárhæð pr. barn.
Skoða ætti að útvistun fræðslusviðs kirkjunnar í söfnuðum. Biskupsstofa er ekki ráðuneyti, heldur þjónustumiðstöð og einstaka starfsþættir hennar gætu sem hægast fléttast inn í starfstöðvar í sóknum og prófastsdæmum.
Setja ætti upp starfseflingarsjóð kirkjunnar og söfnuðir gætu sótt í hann til átaks- og þróunarverkefna. „Trosoplærings“-sjóðir norska ríkisins eru áhugaverðir og ætti að ræða við stjórnvöld. Fé sem varið er til barnafræðslu verður höfuðstóll framtíðar.
Umræðan er gjöful – aðdragandi vals á biskupi kveikir í fólki – og í mörgum löndum. Takk þið vökulu og sókndjörfu framverðir kirkjunnar.