Ég kynntist fyrst séra Sigurði Árna Þórðarsyni á ráðstefnu í Skálholti fyrir allmörgum árum. Hann stýrði þar umræðum og vakti athygli mína fyrir sköruglega fundarstjórn, vandað málfar og hæfileika til að ræða málin af yfirvegun og sanngirni. Svo liðu árin og allt í einu var hann orðinn sóknarprestur minn. Þá kynntist ég honum á ný, ef svo má segja. Prestarnir við Neskirkju hafa verið samtaka um að gera safnaðarstarfið fjölbreytt og aðlaðandi. Það eru ekki aðeins guðsþjónustur og hin venjulegu embættisverk sem einkenna starfið í kirkjunni. Alla daga virðist sem eitthvað sé þar á seyði til gagns, gamans og uppbyggingar fyrir unga sem aldraða. Þar eð ég ólst upp á kirkjustað er ekki að undra þótt ég kunni vel að meta veitingarnar í safnaðarheimilinu eftir hverja messu.
Kristin kirkja hefur um þúsund ára skeið verið samofin þjóðlífi landsmanna, hvort heldur hún var undir páfa eða evangeliskum biskupum, hvort sem hún var háð konungsvaldi eða afskiptum stjórnmálamanna. Hvað sem líður trúarkenningum, mismunandi afstöðu til helgisiða og hvort menn tala um þjóðkirkju, kirkjuna sem stofnun, íslenska kirkju, hina evangelisk-lútersku kirkju, þá er hún ein áhrifamesta stofnun landsins og biskupar hennar áhrifamiklir fulltrúar íslenskrar menningar og þjóðlífs. Ég treysti séra Sigurði Árna sérstaklega vel til að sinna því vandasama embætti. Hann kann þá list að ræða erfið mál af yfirvegun, ræður hans bera vitni djúpri virðingu fyrir starfi sínu og hann nálgast dægurmálin af óttaleysi og segir meiningu sína af hreinskilni og án vafninga. Kirkjan mun þurfa að taka á með öðrum lýðræðislegum öflum landinu við að byggja upp gott og sanngjarnt samfélag hér á landi. Það er alls ekki svo að allt sé hér í kaldakoli. Síður en svo, en gott samfélag er alltaf í mótun. Ég veit að séra Sigurður Árni yrði sem biskup öflugur liðsmaður þeirra afla sem munu halda áfram að móta gott samfélag á Íslandi.