Steindór Haraldsson, kirkjuþingsmaður

Það er mér sönn ánægja að lýsa yfir stuðningi mínum við dr. Sigurð Árna Þórðarson vegna framboðs hans til biskups Íslands.

Við Sigurður Árni erum búnir að þekkjast síðan við vorum ungir menn og með okkur var alltaf góður kunningsskapur. Þegar nýtt kirkjuþing kom fyrst saman eftir síðustu kirkjuþingskosningar vorum við þar báðir í hópi nýrra kirkjuþingsmanna. Það kom fljótlega í ljós að mér fannst auðvelt og ánægjulegt að vinna með Sigurði Árna. Hann tekur mjög vel rökum en er engu að síður mjög stefnufastur.

Við höfum tekist á um málefni og engan þekki ég sem betra er að vera ósammála en Sigurði Árna. Hann tekur umræðum málefnalega og talar rökvíst og vel sínu máli. Hann er vammlaus maður og er hvers manns hugljúfi. Mér líkar vel við í fari Sigurða Árna hversu vel hann skynjar þarfir kirkjunnar á landsbyggðinni og gerir sér grein fyrir ólíkri stöðu og þörfum kirkju í dreifbýli og þéttbýli.

Sr. Pétur Þ. Ingjaldsson heitinn, fyrrverandi prestur minn hér á Skagaströnd, hefði sagt að Sigurður Árni væri góðum gáfum gæddur, trúmaður góður og mjög hæfur til biskupsdóms. Ég er líka sannfærður um að Sigurður Árni er sá kandídat í íslensku kirkjunni sem allir geta verið mjög sáttir við. Ég tel það nauðsynlegt fyrir Þjóðkirkjuna að nú verði valinn biskup sem er maður sátta og samlyndis eins og Sigurður Árni er. Eins og ekki síður er hans framtíðarsýn mjög í takt við umræðuna um jafnrétti og opna stjórnsýslu.

Ég veit að dr. Sigurður Árni Þórðarson hefur kjark og dug til að takast á við þær nauðsynlegu breytingar í kirkjunni okkar, sem verða að eiga sér stað í nánustu framtíð.