Gætirðu sleppt jólunum?

Enn á ný höfum við upplifað jól, þessa undursamlegu hátíð ljóss og lífs. Enn einu sinni höfu við fengið að upplifa undrið, söguna um þegar barnið fæðist og himinn lýtur jörðu. En hvað um vafaatriði jólasögunnar? Er kannski jafnvel kominn tími til að leggja jólin niður?

Gagnræður

Hvað eru jólin þér? Skipta þau þig máli? Gætir þú hugsað þér að sleppa þeim? Föstudagskvöldið 21. desember sl. var mér boðið að hitta hóp af fólki í húsi við Klapparstíg. Það var reyndar í sömu byggingu, á sömu hæð og á sama stað og biskupsstofa var til húsa á áttunda áratugnum. Það var ljómandi því tilgangurinn var göfugur og heiti fundarins var gagnræður. Það var markþjálfafyrirtæki sem bauð til samkomunnar og markþjálfar eru agaðir í að tala um mál með skipulegu og skilvirku móti. Ég var gestur eins og aðrir fundarmenn.

Hópurinn settist í hring. Líf og fjör var í bænum og fjöldi fólks á þessu föstudags- og góðviðris-kvöldi skömmu fyrir jól. Sambatónlist barst frá skemmtistað nærri og takturinn dillaði. Högg og slaghljóð frá bassa og trommum bárust líka frá hljómsveit sem var að spila á Café Rosenberg. Áreiti næturlífsins var fjörleg umgjörð fyrir okkur sem settumst til að tala saman. Svo kynnti stjórnandinn hina aðferð gagnræðu sem verður ekki skýrð nánar. Og samtalsefnið var kynnt sem var spurningin: Getur þú sleppt því að halda jól?

Það var eins og okkur hafi með töfrum verið smellt inn í aðra vídd og tilveru. Fundarfólkið flengdist af stað í huganum. Hvaða afleiðingar hefði ef jólin yrðu bara þurrkuð út úr dagatalinu, þjóðlífinu, fjölskyldum og einkalífinu? Engin jól? Hvers færum við á mis? Við myndum losna við álag, útgjöld og fyrirhöfn. En hver yrði fórnarkostnaður og hvað er ómissandi í jólunum? Hvaða reynsla skiptir fólk máli og hvert er inntak hennar? Síðan hófst samtal sem kom fremur frá hjartanu en heilanum. Jafnvel þótt við þekktum ekki hvert annað tjáði fólk blóðrík mál og sagði miklar sögur. Og afstaða til jóla og inntaks þeirra kom fram með öflugum hætti.

Afjólun

Hvað um þig? Gætir þú sleppt jólunum? Enginn jólaljós á trjám eða á húsum í landinu, engar ljósaseríur, engin hlaup í verslun eða reddingar á hlaupum, engin jólakort, engar streitudeilur, ekkert ofbeldi, engin mistök í undirbúningi, engar smákökukröfur, engin kortaskelfing eða útgjaldanauð. Engin yfirspenna, engin hlutasýki, engin sorg yfir að jólin koma ekki, engin nagandi harmur lengur vegna þess að þau sem eru dáin og farin inn í himininn eru ekki lengur hjá þér til að upplifa hátíð. Gætir þú sleppt þessu? Já eða nei?

Hvað er það í jólunum og erindi þeirra sem skiptir þig máli? Er lykt jólanna mikilvæg, ilmur matnum á heimili þínu? Er það skrautið þitt sem snertir dýptir þínar? Einhver gömul jólakúla úr bernsku eða tengd fólki sem þú elskar eða hefur elskað? Eru það siðirnir, eitthvað í rútínu fjölskyldunnar og boðin? Er það að setja toppinn á tréð, kl. sex-hringingin frá Dómkirkjunni í Rúv-messunni eða einhver ákveðin heimsókn. Við eigum öll einhver jólatákn, sem opna fyrir tilfinningar. Og þá koma stundum í ljós sárar jólaminningar, reynsla af ofbeldi, vanrækslu eða vonbrigðum – reynslu sem er jafnvel svo sár að fólk fer að gráta bara við það að spurt um um líðan á jólum. Og svo eru það tengslin við fólkið þitt, sum brotin og önnur djúp, dýrmæt og gefandi. Allt þetta kom fram í gagnræðum föstudagsins.

Form, hlutverk og merking sögunnar

Í þessum stóra hópi hér í kirkjunni er líka margvíslegar tilfinningar, væntingr, vonbrigði, erfiðleikar og gleðimál. Getur þú hugsað þér að eyða jólnum úr lífi þínu, útskrifa jólin? Ef ekki, hvað er það þá sem skiptir þig máli? Hvað eru jólin? Reyndu að svara í huga þínum.

Við leikum, segjum og lesum jólasöguna á aðventu og jólum. Hún er saga sem tjáir mikil tíðindi með fátæklegum orðum. Og hún er ekki rannsóknarskýrsla leynilögreglu Rómarveldis eða röð atburða í texta sagnfræðirits. Form sögunnar og gerð þjónar slíkri notkun og samhengi illa. Hún er helgisaga og slík saga lýsir ekki nákvæmlega röð viðburða. Þvert á móti eru yfirborðsmál eða ferli alls ekki til skoðunar heldur fremur merking. Það er táknmál sem er notað til miðlunar slíks sannleika. En tákn verða til á hverjum tíma og tilheyra líka menningu. Tákn lifna og deyja svo þegar menning breytist. Tákn sem hrífa eiga sér skírskotun um skeið en hætta svo að höfða til fólks eða miðla dýpri rökum.

Hlutverk, líf og dauði tákna

Og tákn jólasögunnar heyra til fornum tíma, höfðu skýrar vísanir, merkingarsvið og vöktu merkingarvitund. En táknin eru kannski ekki jafn sterk í okkar samtíð. Stjarnan er ekki aðalatriði sögunnar heldur var í fornöld tákn um stóviðburði. Þegar heimssögulegir viðburðir urðu þótti fólki til forna eðlilegt og væntu jafnvel að teikn yrðu á himni. Vitringarnir voru líka tákn stórviðburða. Sögubrotið um vitringana er ekki endursögn fréttamanns heldur táknsaga um að barnið sem borið var væri höfðingi, konungsefni.

Inntakið

Það er engin kristileg synd að flysja helgisöguna og draga ferli eða atriði hennar í efa. Hlutverk sögunnar var aldrei að fá trúmenn til að trúa bókstaflega heldur með hjartanu. Heilinn má vera svellkaldur en hjartað þarf að vera heitt. Trú kristins manns beinist ekki að helgisögu eða hinu bókstaflega heldur að þeim sem er inntak sögunnar, Guði. Að trúa ytri táknum getur jafnvel orðið til að glepja mönnum sýn og skekkt líf fólks. Ef við förum að baki öllu hinu ytra og til dýpta: Hvað er þá inntak jólanna. Hvert er meginmál þeirra?

Það sló mig í gagnræðum hópsins á Klapparstígnum á föstudag hve mörg töluðu um þrá eftir tengslum, upplifun nándar og að ástvinir skipta mestu máli. Það er fólkið, lifandi og látið, sem varðar lífshamingju þegar allt er skoðað og metið. Tengslin við fólk varð til mestrar gleði en líka mestrar sorgar. Þegar hjartasögurnar voru sagðar kom í ljós að jólin í fyllingu sinni væru hátíð tengsla við lífið, við þau sem nærðu lífið. En svo kom í ljós að mörg í hópnum upplifðu og tjáðu að meginmál jólanna væri að Guð kæmi og tengdi.

Í upphafi var orðið, orðið var frá Guði og orðið var Guð. Þegar kafað er í jólasöguna og jafnvel alla guðfræði aldanna blasir við að Guð hefur engan áhuga á að beita veröld og fólk valdi. Guð kemur ekki sem ofurmáttur sem svínbeygir alla í duft hræðslu og smæðar. Nei, tjáning jólanna er þvert á móti að Guð kom í algeru og auðsæranlegu varnarleysi, því tilgangurinn var að ná tengslum. Jólin eru skýrasta tjáning Guðs á að efnið er gott en ekki annars flokks, að veröldin er ekki óvinur Guðs heldur góð og gjöful, að mennirnir eru ekki glæpagengi heldur manneskjur sem þarfnast umhyggju, athygli, elsku og tengsla. Guð er ekki yfir – heldur í, með og undir. Guð er ekki vald heldur nánd. Mál jólanna er að það sem er rofið, brotið og splundrað nær bata. Ekki með töfrum eða valdi heldur með barni og ást.

Til að tengjast

Guð kristninnar hefur alla tíð verið umtalaður og tjáður með mynd þrenningar. Sú eining er ekki valdaeining, Faðir er ekki yfir syni eða anda. Band hins innra lífs Guðs er elska og tengsl en ekki stjórnunar. Það er sá boðskapur sem er opinberaður á jólum. Guð elskar innbyrðis og útbyrðis. Guð elskar þig og veröldina alla og kemur – ekki sem vald heldur ástvinur – tengslavera. Hin róttæku, glaðlegu, afslöppuðu tengsl gagnkvæmrar virðingar og umhyggju kom síðan fram í sögu Jesú. orðum hans og verkum. Hin altæka umhyggja kom fram í tengslum hans við menn og málefni. Og það er sú vitund og merking sem vitjar okkar á jólum og við eigum ekki að sætta okkur við eftirlíkingar. Fals og yfirborðstengsl hæfa hvorki jólum eða fólki. Því upplifir fólk sorg og þjáningu á jólum þegar tengsl eru slæm og fölsk.

Gagnræður opinberuðu að jólin eru flókin en enginn vildi sleppa þeim. Guð kemur í barni og Guð kemur til þín – tengist þér ef þú vilt tengja. Gagnræður jólanna er að í upphafi var orðið og orðið var hjá Guði en líka að orðið varð hold og bjó meðal okkar manna fullur umhyggju, ástar, nándar og tengsla. Guð er tengdur þér og kemur til þín.

Amen.

Prédikun í Neskirkju jóladag 2012.

Textaröð:  B

Lexía:  Jes 62.10-12

Gangið út, já, gangið út um hliðin,
greiðið götu þjóðarinnar.
Leggið, leggið braut,
ryðjið grjótinu burt,
reisið merki fyrir þjóðirnar.
Sjá, Drottinn hefur kunngjört
allt til endimarka jarðar:
„Segið dótturinni Síon, 
sjá, hjálpræði þitt kemur.
 Sjá, sigurlaun hans fylgja honum
 og fengur hans fer fyrir honum. “
Þeir verða nefndir heilagur lýður, 
hinir endurleystu Drottins,
 og þú kölluð Hin eftirsótta, 
Borgin sem aldrei verður yfirgefin.

Pistill:  Tít 3.4-7

En er gæska Guðs, frelsara vors, birtist og elska hans til mannanna, þá frelsaði hann okkur, ekki vegna réttlætisverkanna, sem við höfðum unnið, heldur frelsaði hann okkur af miskunn sinni. Það gerði hann í þeirri laug endurfæðingar og endurnýjunar heilags anda sem hann lét ríkulega yfir okkur streyma sakir Jesú Krists, frelsara vors. Þannig erum við réttlætt fyrir náð hans og urðum í voninni erfingjar eilífs lífs.

Guðspjall:  Jóh 1.1-14 (eða Lúk 2.1-14)

Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því.
Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það. Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.
Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd.
Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.