Hvenær til okkar?

brauðhús á altariDönsku konungshjónin komu til Íslands í opinbera heimsókn árið 1956. Vel var tekið á móti þjóðhöfðingjum gömlu herraþjóðarinnar. Fánar og veifur blöktu og mannfjöldi var þar sem gestirnir fóru um.

Meðan konungshjónin dvöldu í Reykjavík bjuggu þau í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Hinum megin við Tjörnina bjó frændfólk mitt, í brúna húsinu við hlið Iðnó. Þar voru 7 í heimili, börnin voru 5 og yngst voru tvíburar. Mamman á heimilinu var dönsk og pabbinn hafði kynnst konuefni sínu þegar hann var við nám í Danmörk. Reyndar kynntust þau á Ríkissjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn þar sem hún hjúkraði honum svo vel að hann lifði og komst til heilsu. Hún bjargaði honum og hann elskaði hana æ síðan.

Danska var töluð á heimilinu og konungsheimsóknin frá Danmörk var fjölskyldunni stórmál. Þau fóru yfir að gististaðnum, ráðherrabústaðnum og tóku þátt í hátíðinni. Eftir nokkrar ferðir var 6 ára drengurinn orðinn hugsi yfir endasleppum móttökunum. Hann var jafnvel orðinn þreyttur á þessum samkvæmisleik sem aldrei endaði með því að kóngur kæmi í heimsókn til þeirra. Og grunurinn var farinn að bíta sig í hann að það yrði ekkert meira en þessar götuveifur. Pirraður spurði drengurinn fólkið sitt: “Hvenær koma þau eiginlega til okkar?”

Eldri systurnar hlógu að barnaskapnum en vonbrigðin og spurning litla bróður lifði í fjölskyldunni. Hvenær koma þau eiginlega til okkar? Og kannski hljómar líka spurningin: Koma þau nokkuð til okkar?

Alla daga

Nú eru jólin komin. En hvað kemur og hvernig? Eru kannski einhver vonbrigði tengd jólunum. Verður kannski ekki eitthvað sem þú vonaðist til?

Jólin eru marglaga og margþætt. Á þessari jólanótt erum við búin að hlusta á marga texta úr Biblíunni sem hafa verið túlkaðir sem perlur á gullþræði vonarsögu hebrea og Gyðinga. Þetta eru textar um þrá einstaklinga, þjóðar og menningar – þrá eftir lausn. Þeir tjá löngun um að Guð sendi frið svo fólk geti lifað vel og í réttlæti. Allt fólk þarfnast festu og kyrru í samfélagi til að börnin geti vaxið, hægt sé að njóta ávaxta vinnu og réttlæti fái blómstrað í samskiptum fólks og þjóða. Vonin um frið og réttlæti ófst inn í bænaköll fólks upp í himininn um aldir og Guð heyrir heilar bænir.

Það er í krafti vonarópa árþúsunda sem draumurinn um Guðsfriðinn rætist. Guð kemur ekki sem harðstjóri af himnum og leikur sér að mannlífi og náttúru. Það hefði orðið ytri saga. Nýlundan, byltingin var fólgin í að Guð kom inn í sögu, tíma, efni, tvíbenta veröld sem barn, varnarlaus vera í heimi róttæks frelsis – til góðs en líka ills. Guð er vera hinna mjúku og persónulegu tengsla en ekki hörku og hlýðni. Guð er ekki utan við heldur innan við, ekki fjarri heldur ofurnærri. Guð er ekki bara fortíð, heldur nútíð og framtíð.

Hvenær koma þau til okkar?

Mál jólanna er að hann kom en kemur líka – og raunar alla daga. Guð kemur til þín, talar við þig, mætir þér alls staðar, þegar þú hefur samskipti við samstarfsfólk, í vinnunni, í glímu við siðferðiskrísur, á álagstímum og þegar þú heyrir einhver neyðaróp. Þá er Kristur á ferð, þá er Jesús Kristur að koma til þín. Jólin, koma Guðs til manna, eru því sístæð, alla daga og í öllu lífi.

Jólin eru veraldarbylting, sem er fólgin í að lífið er ekki lengur tilviljanalausar hendingar, ópersónuleg efnaferli í alheiminum, heldur er allur heimur, efni og líf þrungin komu Guðs. Þar sem fegurðin ríkir er Guð. Þar sem mismunun og kúgun lama þar kallar Guð. Þar sem gamanið blómstrar þar er Guð að leika sér. Lífið er fallegt, stórkostlegt og fagnaðarríkt. Þegar menn sjá Guð í vatni, smábörnum, gamalmennum, skrítnum aðstæðum og einkennilegu fólki fer gamanið heldur betur að aukast. Jólaboðskapurinn er ekki aðeins fyrir börn heldur fyrir alla.

Hvenær?

Guð fæddist ekki aðeins á fyrstu jólum, heldur vill fæðast í þér. Vill gjarnan hvísla að þér að Guð sé tilbúinn að liðsinna þér í því sem þú ert að glíma við, í gleði, sorgum, verkefnum og vinnu. Söngurinn í kirkjunni er söngur himinsins. Þegar þú ferð út úr kirkjunni mætir þér kæla, sem hvíslar að þér elsku skapara síns. Þegar þú finnur hjarta þitt slá er þar umhyggjusamur sláttur sem bergmálar kirkjuklukkur himins.

Til okkar?

Líf heimsins er ekki bara það sem gerist utan við þig heldur varðar þig og mjög persónulega og náið. Koma Guðs var ekki aðeins fyrir einhverja fáa útvalda, heldur hefur Guð útvalið þig – til að vitja þín og vera hjá þér sem besti vinur þinn og lífgjafi. Guð kemur til þín – er kominn og ætlar að vera!

Íhugun á jólanótt 2012