Geir Guðsteinsson, blaðamaður og ritstjóri Vesturbæjarblaðsins

Kynni mín af sr. Sigurði Árna Þórðarsyni hófust þegar ég varð ritstjóri Vesturbæjarblaðsins fyrir nokkrum árum. Þá þegar mætti mér elskulegt viðmót og ekki síður áreiðanleiki hvað varðar allt sem hann samþykkti að gera fyrir mig, eða blaðið. Það hefur alla tíð staðið eins og stafur á bók. Ég hef einnig komið í messu í Neskirkju þar sem sr. Sigurður Árni hefur predikað, og það sem hann hefur þar sagt við söfnuðinn hefur m.a. vakið mig til umhugsunar um lífið og tilveruna, og ekki síður fyrir hvað við stöndum og hvers við væntum af lífinu. Það, og margt fleira, sannfærir mig um að sr. Sigurður Árni er afar hæfur til að gegna embætti biskups og manna líklegastur til að efla að nýju tiltrú landsmanna á Þjóðkirkjunni og starfsmönnum hennar, sem í sumum tilfellum hefur verið ábótavant.

Rakel Brynjólfsdóttir, háskólanemi og starfsmaður í æskulýðsstarfi kirkjunnar

Ég styð Sigurð Árna til biskupsþjónustu. Hann leggur til grundvallar það starf sem ég tel mikilvægast í kirkjunni í dag, barna og unglingastarfið. Ég vinn sjálf við barna og unglingastarf kirkjunnar og hef séð hversu mikil afturför hefur verið í þeim málaflokki. Þessu verður að breyta. Unga fólkið er framtíð kirkjunnar, ekki einhver flokkur sem er vel til þess fallinn að skera niður eingöngu vegna þess að börn og unglingar eiga ekki raddir sem ráðamenn kirkjunnar hlusta á. Ég trúi því að Sigurður Árni sé rétti maðurinn til að leiða kirkjuna okkar og muni gera barna og unglingastarf að flaggskipi kirkjunnar. Ég styð Sigurð Árna til biskupsþjónustu.

Þorsteinn K. Kristiansen, einn af stofnendum og starfsmaður Ungt fólk með hlutverk.

UFMH var sjálfboðaliðahreyfing innan Þjóðkirkjunnar.

Til að kirkjan geti orðið jákvæð og uppörvandi til framtíðar þarf hún að ganga í sjálfa sig og taka á syndum fortíðar.
Þjóð okkar þarfnast kirkju sem:

* vinnur að því leynt og ljóst að endurnýja trúverðugleika sinn
* við viljum bera börn okkar til
* er eins og andlegur faðir og móðir með uppörvandi / hughreystandi orð til þjóðarinnar
* er í stöðugu samtali við söfnuðinn / þjóðina

Ég hef þau kynni af sr. Sigurðurði Árna að hann geti orðið biskup með þannig áherslur. Því styð ég hann heilshugar.

Magnús Lyngdal Magnússon, aðstoðarforstöðumaður Rannís

Sigurður Árni Þórðarson er ákaflega vandaður maður; góðgjarn, réttsýnn og traustur. Ég kynntist honum fyrir um það bil 15 árum þegar við sungum saman í Mótettukór Hallgrímskirkju og fékk strax mætur á honum. Við ræddum gjarnan saman um aðskiljanlega hluti – stóra og smáa – og ég fann strax að þar fór reyndur og lífsglaður maður sem var óhræddur við að velta upp álitamálum og ræða þau af skynsemi og yfirvegun, jafnt út frá eigin brjósti og um leið með því að hlusta á innlegg og reynslu annarra. Ég tek það fram að ég er ekki skráður í þjóðkirkjuna en hún er auðvitað stærri hluti af sögu okkar og samfélagi en svo að hún skipti mig ekki máli. Ég tel einmitt að mannkostir Sigurðar Árna muni nýtast vel við að endurvinna traust og stöðu kirkjunnar í samfélaginu; það verkefni verður ekki auðvelt en ég treysti fáum betur til að leysa það farsællega en Sigurði Árna Þórðarsyni.