Magnús Lyngdal Magnússon, aðstoðarforstöðumaður Rannís

Sigurður Árni Þórðarson er ákaflega vandaður maður; góðgjarn, réttsýnn og traustur. Ég kynntist honum fyrir um það bil 15 árum þegar við sungum saman í Mótettukór Hallgrímskirkju og fékk strax mætur á honum. Við ræddum gjarnan saman um aðskiljanlega hluti – stóra og smáa – og ég fann strax að þar fór reyndur og lífsglaður maður sem var óhræddur við að velta upp álitamálum og ræða þau af skynsemi og yfirvegun, jafnt út frá eigin brjósti og um leið með því að hlusta á innlegg og reynslu annarra. Ég tek það fram að ég er ekki skráður í þjóðkirkjuna en hún er auðvitað stærri hluti af sögu okkar og samfélagi en svo að hún skipti mig ekki máli. Ég tel einmitt að mannkostir Sigurðar Árna muni nýtast vel við að endurvinna traust og stöðu kirkjunnar í samfélaginu; það verkefni verður ekki auðvelt en ég treysti fáum betur til að leysa það farsællega en Sigurði Árna Þórðarsyni.