Geir Guðsteinsson, blaðamaður og ritstjóri Vesturbæjarblaðsins

Kynni mín af sr. Sigurði Árna Þórðarsyni hófust þegar ég varð ritstjóri Vesturbæjarblaðsins fyrir nokkrum árum. Þá þegar mætti mér elskulegt viðmót og ekki síður áreiðanleiki hvað varðar allt sem hann samþykkti að gera fyrir mig, eða blaðið. Það hefur alla tíð staðið eins og stafur á bók. Ég hef einnig komið í messu í Neskirkju þar sem sr. Sigurður Árni hefur predikað, og það sem hann hefur þar sagt við söfnuðinn hefur m.a. vakið mig til umhugsunar um lífið og tilveruna, og ekki síður fyrir hvað við stöndum og hvers við væntum af lífinu. Það, og margt fleira, sannfærir mig um að sr. Sigurður Árni er afar hæfur til að gegna embætti biskups og manna líklegastur til að efla að nýju tiltrú landsmanna á Þjóðkirkjunni og starfsmönnum hennar, sem í sumum tilfellum hefur verið ábótavant.