Unnur Guðmundsdóttir – minningarorð

Sálmabók Unnar var lögð á brjóst hennar áður en kistunni hennar var lokað í gær. Þessi bók söngsins fer með henni í hinstu ferð hennar. Í þeirri bók eru ljóð fyrir líf og eilífð. Unnur eignaðst ung sálmabók og hafði gleði af söng. Og svo þegar veröldin byrjaði að fljóta burt frá vitund hennar lifði þó söngurinn í henni. Lesa áfram Unnur Guðmundsdóttir – minningarorð

Skálholtsjárnið

SkálholtÍ dag er Skálholtshátíð og í ár eru fimmtíu ár liðin frá vígslu Skálholtskirkju árið 1963. Og þar sem Jesús segir í guðspjallinu frá húsabyggingum kemur í huga saga sem ég heyrði um byggingu Skálholtskirkju. Ég segi þá sögu, spegla hana líka í guðspjallinu og svo verða Skálholtsstef tilefni til að hugsa um okkur, grunn okkar og hlutverk. Skálholt er eins og táknstaður um líf okkar og getur orðið okkur sannleiksspegill. Lesa áfram Skálholtsjárnið

Kökur af himnum

photoÍ lok messunnar í Neskirkju 21. júlí hvatti ég söfnuðinn að venju að staldra við á Torginu eftir messu. Ég lét þess einnig getið að kosturinn yrði horandi því kirkjuvörðurinn, Valdimar Tómasson, hafði sagt mér að hann hefði ekkert annað en saltstangir til að setja fram með kaffinu! Svo fóru flestir úr kirkju í messukaffið. En sjá, kökukraftaverkið mikla varð.

 

 

Lesa áfram Kökur af himnum

Óskaganga á Helgafell

IMG_5111Skammt frá Stykkishólmi er hið forna höfuðbýli Helgafell. Sveitin umhverfis fær nafn af staðnum. Í Helgafelli var klaustur af Ágústínareglu frá árinu 1184, sömu reglu og Marteinn Lúther tilheyrði. Norðan bæjar og kirkju er fagurlega mótað Helgafellið, sem rís þokkafullt upp úr flatlendinu umhverfis og er líka fagurt að sjá frá sjó.

Á tvo vegu er fellið bratt en auðvelt að klífa það frá vestri og suðri. Norðan við kirkjuna er afgirt og greinilegt leiði Guðrúnar Ósvífursdóttur, kunnustu skvísu Laxdælasögu. Þaðan er auðvelt að ganga upp á fellið og að svonefndri kapellu. Sagan segir að hún sé rúst helgistaðar – væntanlega munkanna í klaustrinu. En byggingin gæti allt eins hafa verið skýli varðmanna sem fylgdust með umferð manna en kannski líka búpenings.

Göfgun og gönguhvati

Menn hafa löngum gefið ferðum sínum tilgang og reynt að göfga verk og daglegt atferli og séð í lífinu dýpri merkingu. Svo hefur verið gert við leiðina frá Helgafellskirkju og leiði Guðrúnar og upp á fellið. Hún varð að óskaferð, eins konar pílagrímsferð eða leið fyrir persónulega kyrrðargöngu.

Sagan segir að ef rétt sé farið að megi óska sér þrenns í þessari ferð. Til að vænta megi uppfyllingar óska eru skilyrðin að signt sé yfir leiði Guðrúnar, síðan verði gengið í algerri þögn upp stuttan stíg á fellið, ekki sé litið aftur á leiðinni og förumaðurinn snúi síðan í austur þegar upp er komið og beri fram óskir sínar með góðum huga.

Óskaganga

Fyrr í þessari viku fór ég í þessa pílagrímsgöngu með konu minni og yngri drengjum. Það var gaman að útskýra fyrir strákunum hvers konar ganga þetta væri, gera grein fyrir kröfunum sem gerðar væru fyrir göngumenn, hvers eðlis óskirnar gætu verið, hvað maður þyrti að gera á leiðinni og hvað maður mætti ekki gera. Ekki væri leyfilegt að tala, kvarta, spyrja, masa, hlægja eða gráta – ekki mætti horfa á annað en leiðina, hugsa um óskirnar með góðum huga, reyna að hreinsa þær þannig að þær væru raunverulega mikilvægar og maður gæti sjálfur unnið að því eða hjálpað til að þær rættust.

IMG_5080Síðan var hægt að tala um helgistaðinn, bænastaðinn, kirkjustaðinn, bænaiðju munka – sem synir mínir kölluðu nunnukalla á síðasta ári – en hlægja nú að því orði. Þeir og kona mín voru sammála um skilmála, aðferð og tilgang. Svo krossuðum við yfir leiðið, gengum í þögn og með hæfilegu millibili í góðviðri, með fuglasöng í eyrum, ilm jurta og sjávar í nösum og fundum fyrir örum hjartslætti í brjósti. Við orðuðum óskirnar í kyrru hugans og stóðum svo í kapellunni efra, horfðum í austur og bænir flugu í nafni Föður, Sonar og heilags Anda. Svo var þögnin rofin.

Merking óskagöngu

Hvað merkir svona ferð? Hvers eðlis er bera fram óskirnar? „Er þetta satt pabbi?“ spurðu drengirnir og ég skýrði út fyrir þeim eðli þjóðsagna, hlutverk þeirra, merkingu og hvað væri hvað? Er Helgafell töfrastaður, er þar styttra í svarstöð himins en annars staðar? Ef maður klúðrar einhverju rætast þá ekki óskirnar og snúast jafnvel í andhverfu sína? Ef maður lítur óvart aftur eða gleymir að signa yfir leiðið er þá ferðin til einskis eða jafnvel ills? Svona spurningar eru þarfar og mikilvægt að ræða. Einu gildir á hvaða aldri maður er. Svona spurningar eru mennskar og mikilvægar.

Saga gefur

Hvert er eðli og tilgangur þjóðsögu? Í þessari sögu er hægt að merkja að atferli leiðir til íhugunar og hreinsunar, að bænir eiga sér ytra form, að göngur hafa fengið dýpri skýringu, endurtúlkun og göfgun, að frátekin staður og guðsmenn hafa kallað á vitund um hið heilaga og skýringaþykkni. Og svo lifir saga um dásemd, möguleika, mikilvægi, merkingu og tilgang. Þjóðsögur eru ekki aðeins skemmtisögur heldur má fara inn í þær og skilja erindi þeirra á dýptina og hlusta eftir boðskap þeirra. Svona sögur á ekki að taka bókstaflega heldur vinsamlega – leyfa þeim að tjá gildi, dýpri mál, hlutverk og möguleika sem geta haft svo mikil áhrif að líf okkar breytist. Saga gefur, veitir fyrirmyndir, miðlar visku og styður því líf.

Guð kallar

Ytri skilyrðin voru okkur hinum fullorðnu ekki aðalatriði eða forsenda að óskir rættust. Ég rölti með mínu fólki upp á Helgafell í fullri vissu um að ég þyrfti ekki að lúta þrældómi aðferðar heldur væri annað mikilvægt. Aðferðirnar væru tæki til að opna djúp. Göngu og atferli væri ætlað að opna fyrir möguleika, kalla fram nýjar hugsanir, við mættum hlusta eftir djúpröddum hjartans sem er tjáning Guðsandans. Allt sem skiptir máli í lífinu krefst einhverrar fyrirhafnar. Guð er ekki utan við veröldina heldur talar í gegnum raunveruleika lífsins, hvort sem það er nú í golu í hríslum og blábergjalyngi, fuglasöng eða samskiptum við fólk. Guð kallar til lífs og vaxtar.

Pílagrímaganga – samfylgd Guðs og manns

Helgafell er vissulega áhrifaríkur sögustaður, vermireitur bókmennta og minnir á átakanlega ástarsögu Laxdælu. Helgafell er kirkjustaður, samkomustaður safnaðar til að biðja og syngja Guði lof. En svo gerir göngusagan Helgafell einnig að vettvangi pílagrímagöngu. Það er því hægt að nota staðinn til að gera upp mistök og sorgarefni og stafla þeim í grjótvegg kapellunnar efra og skilja þar eftir það sem miður fer og má hverfa í lífi fólks. En í staðinn koma gjafir Guðs til góðs.

Og til hvers eru pílagrímagöngur, eingöngur, kyrrðargöngur? Þær eru til að vinna með merkingu mannlífs, lífs okkar mannanna. Þær eru til að skilja við það sem dregur úr fólki gleði og lífskraft – allt sem splundrar okkur og sundrar sambandi við sjálf okkur og Guð. En þær eru líka til að kalla okkur til sjálfra okkar, leyfa þrá okkar að koma fram, dýpstu löngun okkar að hrópa til sjálfra okkar, leyfa óskum okkar að fljóta upp í vitundina og taka flugið til hæða. Pílagrímagöngur verða gjarnan til að við vöknum til að Guð fái talað við okkur. Þegar svo verður fyllumst við krafti til endurnýjunar. Þá fara bænirnar að rætast og við lifnum og eflumst.

Textar dagsins eru ferðatextar fyrir lífið. Og hverjum mætum við þegar við verðum fyrir mikilli reynslu á leið okkar? Guði. Það var vitnisburður ferðamannsins Páls sem lenti á sínu Helgafelli. Það var reynsla vina Jesú sem urðu vitni að því að veröldin er mikið Helgafell sem Guð á og gefur okkur til búsetu og líflistar.

Tilgangsferðir og trú

Á leiðinni ofan af fjallinu hjöluðu drengirnir mínir. Þeir höfðu beðið bænir sínar og tjáð óskir sínar og við hin eldri einnig. Þjóðsaga og helgisaga höfðu orðið okkur til góðs. Við höfðum fundið til helgi lífsins á Helgafelli. Sumarferðirnar eru ekki aðeins ferðir út í buskann heldur ferðir með ríkulegum tilgangi. Ég hafði ekki skipulagt pílagrímagöngu þennan dag, hún kallaði okkur til sín, kom okkur á óvart. Og við nutum hennar og hún hafði áhrif á okkur öll. Lífið er dásamlegt og þegar við leyfum ævintýri dýptanna að vitja okkar verður lífið skemmtilegra og eiginlega marglaga undur og óvæntir viðburðir til að gleðja og kalla til dýpta. Og það besta er að óskirnar rætast. Sumarferðir og kannski allar lífsleiðirnar mega verða okkur Helgafellsgöngur. Við megum bera fram óskir í góðum huga og þá göngum við inn í ósk Guðs, sem ann okkur mest og er okkur bestur.

Amen

Íhugun í Neskirkju 30 júní 2013

Erlingur E Halldórsson – minningarorð

Franska akademían heiðraði Erling og nýlega var honum boðið í ítölsku akademíuna í Róm til að heiðra hann. Aldrei sóttist Erlingur eftir skrumlofi og vegtyllum, aðeins því að vel væri gert og verk hans væru metin að verðleikum. Hann þýddi og var meistari. Erlingur samdi leikrit og leikstýrði einnig. Hann setti upp eigin verk og leikhúsfólkið vissi vel af getu Erlings.

Í síðustu bók Biblíunnar segir:

„Í hægri hendi hans, er í hásætinu sat, sá ég bók, skrifaða innan og utan, innsiglaða sjö innsiglum. Og ég sá sterkan engil, sem kallaði hárri röddu: ,,Hver er maklegur að ljúka upp bókinni og leysa innsigli hennar?” (Op. Jóh. 5.1-2)

Opinberunarbók Jóhannesar er merkilegt og margrætt rit. Þýðing hennar og túlkun er ekki einhlít? Bækur eru margar í heimi Biblíunnar. Orðið biblia er grískt og í ft og þýðir einfaldlega bækur. Í því bókasafni er síðan rætt um alls konar bækur og mikilvægi þess að rita niður það sem máli skiptir. Þar er talað um lífsins bók og bók sannleika. Esekíel spámaður borðaði meira að segja bók. Jesús Kristur las upp úr bók til að tjá fólki hver hann væri og til hvers hann lifði. Orð voru talin ávirk og Hebrear álitu Guð vera skáld lífsins, höfund allrar hugsunar og þar með veraldar. Og við enda Ritningarinnar er þessi bóknálgun enn til íhugunar. Í forsæti himins er innsigluð bók, en þá bók á að opna. Kallið hljómar hárri röddu: “Hver er maklegur að ljúka upp bókinni?”Hverju þjónar slík upplúkning? Eru orð, blaðsíða og bók til einhvers?

Hvað er innsiglað og hvað er opinbert? Maður orða og bóka, Erlingur Ebeneser Halldórsson, var í miðju menningarlífs Íslendinga en þó var hann líka utan við. Hann var í hópi fólks, en þó var hann líka þannig innréttaður að fáum hleypti hann nærri sér og enginn fékk að fara að baki innsiglum hans. Hann var opinn og félagslyndur sem barn, en svo lokaði hann gluggum smátt og smátt og við æfilok var sem hann hefði valið einveru. Hann átti sér vonir og þær urðu kannski í öðru en hann hafði ætlað sér. Hann stefndi að frama í leiritum en fékk viðurkenningu fyrir þýðngar.

Ævistiklur

Erlingur E. Halldórsson fæddist 26. mars árið 1930. Hann var sonur hjónanna Steinunnar Jónsdóttur og Halldórs Jónssonar á Arngerðareyri, í Nauteyrarhreppi við Ísafjarðardjúp. Erlingur var næstyngstur í stórum systkinahópi. Foreldrar hans voru bændur og fjölskyldan hafði viðurværi af landbúnaði. Erlingi var haldið að vinnu samkvæmt því vinnulagi, sem tíðkast í sveitum landsins á þessum tíma. En að honum var líka haldið orðasókn og ritagleði íslenskar menningar. Erlingur var hneigður til lærdóms og eldri systkin gaukuðu að honum bókum. Þegar hann hafði aldur til fór hann í Reykjaskóla við Djúp. Svo lá leiðin suður í fjörið og fjölbreytileika borgar, sem hafði allt í einu bólgnað út í nýliðnu stríði. Hann hóf nám í Menntaskólanum í Reykjavík og naut þeirra þroska- og umbrotaára, sem hann átti þar og lauk stúdentsbrófi árið 1950.

Þá tóku forspjallsvísindin við, norræn fræði og síðan opnðust honum franskir og þýsk-austurrískir menningarheimar. Erlingur hóf nám í París árið 1952. Hann var í Sorbonne og einnig um tíma í háskólanum í Vínarborg og naut til náms stuðnings eldri bræðra sinna. Síðar var Erlingur við nám hjá Berliner Ensemble árið 1962 og svo við leikhús Roger Blanchon árið 1968. Erlingur naut því fangmikillar menntunar, varð Evrópumaður í viðmiðum og lærði að sjá og skilja með margsýni hins fjölmenntaða. Hann gat brugðið upp augum barns af hjara veldar við hið ysta haf, en líka séð frá sjónarhól tinda evrópskrar menntunar.

Leiklistin

Vísnakompan hans Erlings sýnir, að hann byrjaði snemma að skrifa, skrifa upp eftir öðrum og æfa sig í hrynjandi mál og flæði texta. Á menntaskólaárum skrifaði hann líka, ekki aðeins fyrir sjálfan sig, heldur hafði ofurlitla atvinnu af. Leikhúsheimurinn heillaði hann snemma og hann ól með sér leikskáldadrauma. Nýstúdentinn skrifaði þegar árið 1951 leikritið Hinir ósigrandi. Og síðan skrifaði hann fjölda leikrita, mér er kunnugt um fjórtán en þau gætu verið fleiri.

Sum verka sinna setti hann upp í leikhúsi og önnur voru flutt í ríkisútvarpinu. Ragnar í Smára gaf út frægasta leikrit hans, Minkana, og Kristinn E. Andrésson lauk á það lofsorði. Og vert er að koma leikritum Erlings út í almannarýmið með einhverjum hætti, ef ekki á þrykk þá alla vega á veraldarvefinn. Grandskoða þyrfti handrit Erlings, tölvuna hans og halda þessum ritum til haga, koma afriti þeirra í hendur fagfólks til skoðunar á útgáfu og einnig afhenda þjóðskjalasafni til varðveislu og þar með síðari rannsókna. Hópur íslenskra leikskálda er ekki stór og vert að gæta vel að framlagi Erlings. Hann var án efa einn af framsæknustu leikhúsmönnum á sinni tíð, fulltrúi nýrra strauma frá og með sjöunda áratugnum.

Erlingur samdi ekki aðeins leikrit heldur leikstýrði einnig.  Hann fór víða um land og stýrði áhugaleikhúsum. Hann setti upp eigin verk og vöktu þau athygli og leikhúsfólkið vissi vel af getu Erlings. Þá setti hann upp ýmis kunnustu leikverk samtímans, t.d. sló Biderman og brennuvargarnir í gegn vestur á Flateyri, var sýnt fyrir fullu húsi vikum saman og svo var það sýnt víðar á Vestfjörðum. Erlingi hafði lánast að kveikja svo í fólki í leikfélaginu, að athygli vakti og blöðin fyrir sunnan sögðu vel frá. Og ég hjó eftir að Erlingur vildi leyfa Helvítissenum í leikriti Frisch um Biderman og brennuvargana að fljóta með í Flateyraruppsetningunni og það varð m.a.s. til þess að einu sinni kviknaði í. Erlingur var dramatískari en aðrir leikstjórar, sem bara slepptu þessum þætti í mörgum uppsetningum. Hann hafði auga fyrir hinu ýtrasta.

Leikstjórn gat ekki orðið Erlingi lifibrauð, hvort sem hann sótti í yfirheima eða niðurheima og hann lagði því stund á kennslu – og kom víða við sögu, fyrir vestan, norðan og austan. Meðfram kennslu hafði hann svo tómstundir til skrifta, sem voru honum ekki innkomulind heldur lífsnauðsyn.

Fjölskylda

Fyrri kona Erlings var Hrafnhildur Gunnarsdóttir, lögfræðingur. Þau skildu.

Vestur á Flateyri hitti Erlingur svo seinni konu sína, Jóhönnu G. Kristjánsdóttur. Hún var ellefu árum yngri en Erlingur og þau voru hjón í ellefu ár. Börn þeirra Jóhönnu eru tvö, Kristján og Vigdís.

Kristján er desembermaður, fæddist á fullveldisdeginum árið 1962. Hann er framkvæmdastjóri eigin fyrirtækis í Úganda. Kona hans er Lesley Wales. Þau eiga tvíburadætur, sem heita Jóhanna Guðrún og Katherine Barbara.

Vigdís fæddist í febrúar 1970. Hún er skrifstofumaður. Börn hennar eru: María Rut sem á Þorgeir Atla. Annað barn Vigdísar er Alexía Rós, síðan kom Júlia Ósk og yngstur er Hörður Sævar.

Erlingur og Jóhanna skildu árið 1973. Þá hófst nýtt skeið í lífi hans. Hann stundaði kennslu, en auk leikritunar var þýðingarferill Erlings hafinn. Og fyrir þann orðabúskap hefur hann hlotið lof og verðlaun. Hann var ekki bara bundinn við einn bókakikma, heldur þýddi m.a. hinn portúgalska Quiros, hinn þýska Dürrenmatt, ameríska Steinbeck, norður-írann Bernhard Mac Laverty, þjóðverjann Berthold Brecht, frakkann Rabelais, Rómverjann Petronius að ógleymdum ítölunum Dante og Boccacio. Þýðingar Erlings eru agaðar og vandvirkar og viðfangsefnin voru jafnan stórvirki heimsbókmenntanna.

Honum leið væntanlega vel við það mikla djúp mannsandans, kunni vel sýsli með orð og þótti eflaust sá heyskapur enn skemmtilegri en á þufnapuð og hrífupot fyrir vestan í bernsku. Hann var alinn upp við mikla vinnu og eljan skilaði honum og íslenskri menningu stórvirkjum, sem fagmenn á engi bókmenntana lofa einum rómi. Afrek Erlings á sviði orðlistarinnar barst út fyrir landsteina og fallegur er verðlaunapeningur frönsku akademíunnar, sem hann hlaut fyrir þýðingu á Gargantúa og Pantagrúl.

Mér er ekki kunnugt um að franska akademían hafi heiðrað aðra landa okkar með svipuðum hætti. Og nýlega var Erlingi tilkynnt, að honum væri boðið í ítölsku akademíuna í Róm til að heiðra hann. Aldrei sóttist Erlingur eftir skrumlofi og vegtyllum, aðeins því að vel væri gert og verk hans væru metin að verðleikum. Hann var bóndi orðanna sem gekk til verka sinna. Oft hafði frænka hans Auður á Gljúfrasteini sagt við hann að koma en ekki fór hann þangað fyrr en hann fékk íslensku þýðingarverðlaunin fyrr á þessu ári fyrir þýðingu á Gleðileiknum guðdómlega. Þá var tími til kominn til ferðar í Mosfellsdalinn.

Hver dýptin?

Hver var þessi maður? Engin ævi er opinber, við getum aðeins leitt líkum að ýmsu í lífi Erlings. Hann var sem fjölmenntaður endurreisnarmaður. Hann drakk í sig það, sem hann náði í af bókum á unga aldri. Hann gerði íslenskt menningarefni að sínu og meira segja skrifaði vísur og ljóð í kompu sína, eflaust til að eiga aðgengilegt og kannski læra í fásinninu. Svo las hann bókmenntir og alltaf stækkaði heimur orðanna. Og drama bókanna fór inn í hann og kannski breytti honum. Leikverkin runnu í hann og stórbækur heimsins urðu heimur hans.

Hverju skiluðu allar bækurnar Erlingi? Vökulum huga, útsýn og innsýn í menningarsögu Vesturlanda. Hvernig er lífið og hvað skiptir mestu? Hann átti í spekingum og höfundum vini og lærimeistara og gat vel samsamað sig orðum Grikkjans og Krítverjans Nikos Kazantzakis í verkinu um hina grísku ástríðu: Faðir minn hvernig ættum við að elska Guð? Með því að elska mennina. Og hvernig ættum við að elska mennina? Með því að reyna að vísa þeim áleiðis á réttri braut. Og hver er rétta brautin? Sú bratta.”

Þetta er vel orðað. Erlingur gat alveg skilið þessa speki um að himinn er meðal manna, að hlutverk okkar er í þágu lífsins og að ekkert verður úr neinu nema að fara erfiðu leiðina. Og Erlingur fór bratt og gerði hvorki sjálfum sér né sínu samferðafólki auðvelt fyrir. Hann sleit sjálfum sér út við hugaðefni sín. Sú fórn var vart svo stór, að ekki væri réttlætanleg fyrir andans verk og vegir Erlings voru stundum um klungur og hálendi andans og hann varð stundum viðskila við ferðafélagana á leiðinni. Hann átti jafnan sálufélag í listamönnum og fylgdist með menningarlífi. Hann hafði áhuga á myndlist, kvikmyndum og augljóslega helst á þeim listum sem tengdsut orðum, bókmenntum og leiklist.

Nú hefur hann lokið að fletta blöðum í sínum bókum. Nú hefur lífsbók hans verið flett í hinsta sinn og lokað. Nú hefur allt verið leikið og þýtt. Erlingur gerði sér alla tíð grein fyrir að ekki verður allt séð eða skilið. Lífsbókin er ekki einnar víddar og svo er hinn guðdómlegi gleðileikur margflókið ferli. Hver er maklegur að opna? Er lífi Erlings lokið við dauða eða er það kannski eins og hvert annað undursamlegt upphaf? Getur verið að þessi divina comedía haldi nú áfram, nú megi hann fá að njóta dýpri skilnings, nú njóti hann betri útsýnar, megi opna hið stórkostlega bókasafn himinsins, þar sem allar víddir eru tengdar, allar bækur samþættast, þar sem enginn hefur af neinum neitt og allir gefa öðrum til gleði?

Margir hafa þjónað Erlingi um dagana. Auk fjölskyldu hans er vert að minnast á Sigrúnu Jónsdóttur, systurdóttur Erlings, sem var honum lipur og sparaði ekki sporin þegar börn hans voru fjarri. Þau Kristján og Vigdís þakka henni umhyggju hennar gagnvart Erlingi.

Lífsbók Erlings er nú blað í lífsbók veraldar. Svarið við hinni miklu engilsspurningu um hver megni að opna er svarað með þeim boðskap að Guð kemur sjálfur, rýfur innsigli kúgunar, er sjálfur orðið sem hrífur. Kristnir menn trúa, að höfundur hins mikla klassíksers heimsins heiti Guð og hafi birst í honum, sem skrifaði í sand og leysti lífsgátuna með því að ganga út úr grjótinu. Við sjáum sem í skuggsjá, en í hinu nýja lífi er allt ljóst, höfundurinn gengst við verkinu og opnar faðminn.

Erlingur fæddist við Djúp og nú er hann farin inn í hið mikla djúp sem heitir eilífið og er himinn. Guð opni þá veröld, þýði líf hans inn í sinn gleðileik og verndi ávallt og ævinlega.

Þökk sé Erlingi það sem hann var og gaf.

Þökk sé þeim sem urðu Erlingi athvarf og styrkur á lifsgöngunni.

Guð geymi hann um alla eilífð og Guð geymi þig.

Neskirkja, október 2011.