Í kossi, hrósi, beinum, skírn og tölvu

Hvað er heilagur andi, hvar og til hvers? Er sá andi eitthvað sem er bara til í áhrifaríkum kirkjum í Barcelona, Róm eða París. Og eru íslenskar sveitakirkjur sérstakir uppáhaldsstaðir Guðs?

Öll bernskuár mín var ég í sveit í Svarfaðardal. Sauðfé var rekið á fjall og sótti upp í hlíðar. Á þeim tíma var til siðs að smala fé í júlíbyrjun og rýja. Ég fór í slíka smalamennsku í mörg ár. Fjallgeimurinn var ofast undursamlegur. Mér er minnisstætt eitt sumarið að ég hljóp í þúsund metra hæð milli snjóskafla. Milli morkinna fanna var jörðin svört, vatnssósa og sterklyktandi. Engin gróður var sjáanlegur – allt virtist dautt.

En skyndilega sá ég líf. Agnarlítið háfjallablóm breiddi út blöð sín og sperrti skærrauða krónu mót himni og sól. Þetta smáa blómundur virtist svo umkomulaust en jafnframt grípandi fagurt í þessum blauta, svarta og hvíta risaramma. Eina lífsmarkið í tröllageimi, titrandi í næðingnum, speglaði og braut sólargeislana þúsundfalt í daggardropum krónunnar. Ég man að ég gat ekki annað kropið og lotið þessu lífsmarki og skildi, að það var helgidómur, eilífðarblómstur. Síðan hef ég skilið hvað sr. Matthías átti við með eilífðarsmáblómi þjóðsöngsins.

Allt er gleymt frá þessum degi, öll hlaup á eftir erfiðum rollum, áreynsla, skriður, klettar og klunguhlaup. Aðeins rjóð jurtin lifir í minninu. Hvað þýðir svona upplifun? Er þetta reynsla af heilögum anda? Já.

Hefur þú gengið einhvern tíma á hátt fjall? Reynt á þig, runnið til baka í brattanum, hræðst, haft mikið fyrir, en að lokum komist á toppinn, fengið útsýn til annarra fjalla í öðrum sýslum og jafnvel séð jökla í öðrum landshlutum? Það getur verið áhrifaríkt að lifa slíkt. Vissulega hjálpar efnabúskapur líkamans, endorfínið. En er slík reynsla af heilögum anda? Já.

Við Íslendingar vitum vel – vegna nándar við náttúruna og ferða okkar í rosalegu landi – að náttúran er ekki líflaus heldur ríkulegur veruleiki, sem hefur margvísleg áhrif á okkur. Náttúrusýn margra landa okkar er trúarlega lituð. Trúmaðurinn getur túlkað djúpa náttúrureynslu sem andlega og trúarlega merkingarbæra lifun. Náttúran er okkur mörgum sem helgidómur.

Andinn í listinni

Hefur þú staðið frammi fyrir stóru og miklu listaverki, heima eða erlendis, hrifist af formum eða litum, myndbyggingu, hugviti eða styrk einfaldleikans? Hefur þú starað á skúlptúr eða málverk í erlendri kirkju, sem hefur varpað þér í hæstu hæðir og veitt þér skynjun sem tekur flestu öðru fram? Hefur þú staðið frammi fyrir altaristöflunni í Skálholti, numið friðinn og blíðuna, þegar Jesús kemur inn úr bláma íslenskrar náttúru, með fangið opið? Er hægt að rekja reynsluna til heilags anda? Já.

Hefur þú einhvern tíma haldið á barni og fundið til svo ólýsanlegrar gleði, að allt annað hefur horfið í hrifningu stundarinnar? Hefur þú horft í djúp barnsaugna og fundið traustið og numið mikilvægi þitt? Hefur þú einhvern tíma haldið utan um maka eða ástvin og upplifað í þeim fangbrögðum svo djúpa fullnægju, að önnur gæði veraldar hafa bliknað í samanburðinum. Er slík ástarlifun af ætt heilags anda? Já

Hefur þú einhver tíma lent í siðklemmu, ekki vitað hvaða kostur væri hinn rétti, en síðan hefur ljósið runnið upp, rök og siðvit læðst í hugann? Er slíkt verk heilags anda? Já.

Andlegt smælki eða alls staðar?

Eru engin takmörk fyrir þessum Heilaga anda? Nei. Andinn er sá Guðsmáttur, sem gefur öllu líf, heldur grjóti, eðlislögmálum og þar með sólkerfum í skorðum, hindrar að efni þeirra hrynji saman í svarthol dauðans. Andinn er að starfi þegar fullorðinn segir barni sögur um lífið, ævintýri og undirbýr viskuna í brjósti uppvaxandi kynslóðar. Andinn er í kossi elskenda, hrósi vinar, í verki lækna og hjúkrunarfólks, í beinum sem gróa eftir brot, í starfi forritarans og rafvirkjans, í skírn og altarisgöngu, í jafnvægi krafta náttúrunnar, í tónlistargerningi kórsins, í uppgufun vatns og skýjamyndun og regni. Allt eru þetta verk anda Guðs.

Andinn kallar manninn til trúar, viðheldur samfélagi manna og eflir kirkjuna. Andinn upplýsir okkur, blæs okkur samvisku í brjóst, er rödd skynseminnar, helgar og leiðir, fullkomnar og styrkir. Andi Guðs er alls staðar að verki og kannski hvað augljósast þar sem barist er fyrir framgangi hins góða lífs og lífsgæði varin.

Guð kristninnar verður ekki afstúkaður í veröldinni í einhverjum kirkjukima. Sá Guð, sem ég þekki er alls staðar, sínálægur og sískapandi. Mína guðsafstöðu má m.a. útskýra með því sem hefur a gömlu fræðimáli verið kallað pan-en-teismi. Heitið, orðið, er af grískum uppruna og merkir einfaldlega, að Guð er alls staðar, í öllu og gegnsýrir allt. Því má alls ekki rugla saman við panteisma, sem kemur m.a. fram í indverskum átrúnaði og kennir að allt sé guðlegt. Að Guð sé í öllu og alls staðar merkir ekki að allt sé guðlegt. Við erum ekki guðir, þó Guð búi í okkur. Veröldin er ekki Guð og þar með ekki andlag tilbeiðslu þótt andi Guðs hríslist um hana og geri hana að farvegi andans.

Hvítasunna – 50hátíð

Nafnið hvítasunna er fallegt og tjáir hinn bjarta sólardag kristninnar. Á mörgum vestrænum tungumálum ber dagurinn nafn, sem komið er af gríska orðinu pentecoste og það merkir fimmtugasti og þá er miðað við fimmtíu daga eftir páska. Hátíðin er tengd páskum vegna þess, að hún er framhald, bætir við eða dýpkar þann veruleika, sem páskar tjá. Hvítasunnan er tengd jólum líka. Ef ekki væri Heilagur andi væri Jesús Kristur merkingarlaus og lífið tilgangslaust.

Vissulega hafa margir heldur óljósa mynd af hinum guðlega anda og til eru kristnir trúarhópar, sem hafa reynt að slá eign á þennan anda Guðs, en smætta þar með veru hans og virkni niður í sértækt starf tungutals, lækningar líkamans eða spádómssýn inn í framtíð. En Andi Guðs er meira en sértæk eign eða tæki safnaðar. Allt er eign Guðs en ekki öfugt.

Hvað er andinn? Andinn skapar veruleikann, náttúruna, er að verki í öllu því sem er til lífs. Andi Guðs er líka skapari trúarinnar. Það er Guðsandinn, sem hvíslar að þér þegar þú leitar Guðs, kennir þér að sjá Guðssoninn, kennir þér að sjá lífið nýjum augum, heyra músík veraldar sem himneska tónlist, kennir þér tala við Guð og að lokum kennir þér að skynja í öllu Guðsnávist, jafnvel í sorg, hörmung og dauða. Með slíka reynslu og afstöðu verður þú aldrei aftur ein eða einn. Alltaf verður nálægur þér sá andi, sá veruleiki, sem gefur öllu líf og er líka sjálft lífið í þér.

Alls staðar

Erlendur prédikari, sem heimsótti Ísland, fullyrti að Heilagur andi hafi ekki komið til Íslands fyrr en á tuttugustu öld! Hann átti auðvitað við, að Heilagur Andi hafi ekki átt erindi til landsins fyrr en söfnuður hans var stofnaður. Ég held hins vegar að Heilagur andi hafi verið hér áður en fyrsta Íslandshraunið sauð í sjónum, verið í flekahreyfingum, verið nærri í goti þorska og fjölgun krossfiska, verið nærri í sprengingum neðansjávargosa. Síðan hefur Andinn verið að verki og er enn að.

Ekkert er til án Guðsanda. En það er hins vegar hægt að sniðganga eða skeyta ekki um Andann, ef menn vilja ekki þiggja nema bara hluta virkninnar! Við getum valið að taka bara við nokkrum gjöfum, sem okkur berast en hirða ekki um aðrar og alls ekki um sendandann. Við getum valið að vera and-snauð. En á hvítasunnu ertu kallaður eða kölluð til dýpri skilnings og trúarskynjunar.

Ef þú ert í bústaðnum þínum, á ferð um landið, ferð í gönguferð eða faðmar fólkið þitt máttu vita að í lífi þínu er Guð nærri og andinn hríslast í öllu sem verður þér til lífs. Blómið á háfjallinu er sköpun Guðs og verk Andans. Elskendur eru sköpun Guðs og elska þeirra er verk Andans. Maðurinn er sköpun Guðs og trúin verður til við, að Guð elskaði, kom og kemur, umfaðmar sköpun sína með krossi sínum, hrífur allt líf með sér með lífgun sinni og úthellir endurnýjunaranda sínum yfir allt sem er til. Guð er alls staðar og í öllu. Við megum lifa í þeim Guðsanda, trúa lífinu og sjá þar með eilífð í öllu.

Amen.

Hallgrímskirkja, hvítasunnudag 2016. Útvarpsmessa RUV

Þorsteinn Magnússon + minningarorð

„Þorsteinn kemur í dag“ var oft sagt í Neskirkju því Þorsteinn nýtti sér aðstöðu í safnaðarheimilinu fyrir ferðafundi. Svo kom Þorsteinn síðdegis, kom snemma til að tryggja að borðum væri hentuglega raðað, tækin væru í lagi til að þjóna ferðarundirbúningi sem best. Svo þegar Þorsteinn var viss um að allt væri tilbúið rölti hann fram á Torg. Hann horfði glettnislega á okkur, tók kveðju vel og var sem einn af starfsmönnum á mannlífstorgi Neskirkju. Og stundum röbbuðum við um hvert hann stefndi sínu fólki. Svo komu ferðafélagarnir, hann fagnaði þeim og allur hópurinn fór til sinna starfa. Stundum kíkti ég inn í stofuna til að fylgjast með þegar ævintýraferðirnar voru undirbúnar. Ég dáðist að hve skipulagður Þorsteinn var, hve allt var grandskoðað og hve natinn hann var við að byggja upp eftirvæntingu, tilfinningu og þekkingu. Þorsteinn vann þakklátt starf og ferðafrömuðurinn sinnti mikilvægri þjónustu.

Ferð í tíma

Við menn erum ferðalangar í tíma og heimi. Kynslóðir koma og kynslóðir fara, allar sömu æfigöng, segir í sálmi Matthíasar. Við eigum okkar upphaf, meðgjöf sem eru gáfur okkar og gjafir himins. Svo spilum við úr svo sem okkur er unnt – í samskiptum við fjölskyldu okkar og samstarfsfólk. Vegur í tíma og svo eru lyktir – hlið æfivegarins. Hvaða leið förum við og hvert stefnum við? Við getum sem hægast talið að lífið sé ekkert annað en efnaferlar og spilverk hins efnislega. En við getum líka leyft hinum djúpu spurningum að vitja okkar. Hvert er inntak lífs og merking lífs einstaklinga? Jesús Kristur minnti á að við erum á vegi lífs. Hann sagði líka að hann væri vegurinn, sannleikurinn og lífið. Öll göngum við til enda lífs, öll endum við í hliði himins. Þar erum við ein en líka í mikilli hópferð mannkyns – og ég held alls lífs. Nú fylgjum við Þorsteini Magnússyni í hinstu ferð hans. Hinn mikli ferðarfrömuður var tilbúinn.

Æfi og upphaf

Hvernig byrjaði ferðin hans Þorsteins? Hann var Reykvíkingur og fæddist 17. október árið 1933. Faðir hans var Magnús Þórðarson, Reykvíkingur og aldamótamaður. Móðir Þorsteins var Helga Gísladóttir, sem ólst upp á Akri við Bræðraborgarstíg. Hún var fjórum árum eldri en faðir hans og lifði til ársins 1980. Systkinin voru fimm. Elstur var Hörður, síðan kom Margrét og svo Þóra Guðríður. Þorsteinn var fjórði í röðinni og Bjarni Þorkell yngstur. Öll eldri systkinin eru látin en Bjarni Þorkell lifir þau.

Þorsteinn var ekki bara Reykvíkingur heldur líka Vesturbæingur. Hann var barn að aldri þegar fjölskyldan settist að í húsi við Víðimel og við þá götu bjó hann mestan hluta æfinnar. Þar var var grunnstöð heimsferðagarspins. Þorsteinn fór, eins og krakkarnir í hverfinu í Miðbæjarskólann en þegar Melaskóli var tekinn í notkun sótti Þorsteinn skóla þangað. Stríðsárin voru umbreytingartími og Þorsteinn sá allar umbyltingarnar í hverfi og borg. Miklir herkampar urðu til á Högum og Melum og herinn setti mark á líf fólks. Systkinin fóru í sveit á sumrin austur í Hrygg í Flóa til móðursystur Þorsteins.

Eftir fullnaðarpróf og fermingu – eins og hann orðaði það sjálfur – fór Þorsteinn í Verzlunarskólann sem hafði mikil og mótandi áhrif á hann. Hann varð stöðugt dugmeiri námsmaður og blómstraði í Verzló og var þakklátur fyrir skóla, nám og veru þar. Það eina sem hann gat alls ekki lært var að læra að reykja undir tröppunum! Hann tók þátt í félagslífi skólans og var treyst til verka og uppátækja. Hann stofnaði m.a. tækniklúbb í skólanum og svo grínaðist Þorsteinn með að hann hafi m.a.s. verið dómari í fegurðarsamkeppni! Til þess verða menn að hafa gott auga og sans.

Magnús Þórðarson, faðir Þorsteins, sigldi á England öll stríðsárin og komst lífs af. Fjölskyldunni hafði því vel til hnífs og skeiðar á þessum árum. Magnús hélt svo áfram á sjónum en fórst árið 1951. Hann tók út á jólum þetta ár. Fráfallið breytti algerlega kjörum fjölskyldunnar en móðir og börn áttu í sér festu, andlegan styrk og samstöðu og studdu hvert annað til náms og lífs. Þorsteinn stóð sína fjölskylduvakt og studdi fólkið sitt ríkulega.

Þorsteinn varð stúdent frá Verzlunarskólanum árið 1955 og lauk viðskiptafræði frá HÍ árið 1963. Meðfram námi kom hann víða við sögu í vinnu og náði mikilli yfirsýn og aflaði sér dýrmætrar reynslu sem gagnaðist honum með margvíslegum hætti. Hann vann í heildverslun Magnúsar Kjarans, hjá Skrifstofuvélum og hjá Iðnmálastofnun. Svo fór hann að kenna í Verzló og síðar við HÍ. Hann starfaði einnig hjá Stjórnunarfélagi Íslands, Bréfaskóla SÍS og Tækniskólanum. Þá kenndi hann við Bankamannaskólann og var skólastjóri hans í áratug.

Margir kölluðu eftir sérfræðiþekkingu hans, m.a. Seðlabankinn, Tryggingastofnun og Þjónustumiðstöð bókasafna. Þá var hann prófdómari og eftirsóttur fyrirlesari. Og þar sem Þorsteinn var dugmikill og skilvís verkmaður var sóst eftir störfum hans í ýmsum félögum og var m.a. í stjórnum Hagfræðingafélagsins, Félags verslunarkennara, Giktafélags Íslands og Grikklandsvinafélagsins. Þá stundaði Þorsteinn ritstörf og gaf út bækur á kennslusviðum sínum. Öll þessi störf og verk bera vitni elju og áhuga hans.

Maríumenn og ferðirnar

Svo var hann ferðamaður og ferðagarpur. Þorsteinn hafði brennandi áhuga á löndum og lýðum og sóttist eftir að vera með fólki sem horfði í kringum sig til að skoða heim og mannlíf. Meðal þeirra voru Maríumenn, ferðahópur ungra karla, sem líklega fékk nafn úr kvæði eftir Sigurð Þórarinsson, sem hin eldri þekkja og hafa sungið hástöfum í rútuferðum og tjaldútilegum. Maríumenn voru einu sinni á ferð í Mosfellssveit og komu þar að sumarbústað Sambands Íslenskra Samvinnufélaga. Þeir vissu ekki að þar voru fyrir ungar dömur sem höfðu fengið bústaðinn lánaðan. Hlutverkunum var snúið við. Þeir báðu Maríurnar ekki að koma inn heldur leyfðu þær þessum kurteisu sveinum að vera. Í bústaðnum á Reykjum var Þórdís Þorgeirsdóttir. Hún sá festuna í ferðagarpinum og að hann væri traustsins verður. Hann horfði á hana og hún á hann – og svo skoðuðu þau göngulagið, ferðataktinn og allt gekk upp. Þau gengu í hjónaband hér í Neskirkju þann 23. október 1961.

20100526-222838Þau voru ekki eins en þau urðu eitt og áttu í hinu sálufélaga. Þorsteinn var ekki allra, en treysti konu sinni fullkomlega og saman hafa þau átt ferðafélaga til lífs. Þeirra ástar- og hjúskaparsaga var góð. Og það var ekki sjálfgefið að Þorsteinn gæti farið frá heimili og börnum í allar utanlandsferðirnar sem hann stýrði. Líklega voru þær á annað hundrað og samtals nokkur ár að lengd. En Þórdís stóð með sínum manni í öllum verkum hans og áhugamálum. Og hún styrkti hann, studdi hann og í henni átti hann stoð – líka í veikindunum – og til hinstu stundar. Lof sé henni.

Svo komu börnin, Þórrún Sigríður, Þórný Ásta og Þórður Geir.

20160406-210116Þórrún Sigríður fæddist í febrúar 1962. Hún er kennari og maður hennar er Reynir Sigurðsson. Börn þeirra eru Þórdís, Helga María, og Reynir Tómas.

Þórný Ásta kom í heiminn í september 1966 og hún á soninn Sólmund Erni.

Þórður Geir fæddist í maí 1969. Hann er rannsóknarlögreglumaður og kona hans er Ana Martha Helena. Þau eiga Klöru Maríu Helenu og í fyrra hjónabandi átti Þórður með Björgu Loftsdóttur soninn Þorstein Mána. Allt þetta fólk átti sér miðstöð á Víðimel 65. Þar gerðu þau Þorsteinn og Þórdís afar smekklegt og fallegt heimili. Og Þorsteinn átti grunntraust í konu sinni og festu í heimili sínu. Og afkomendurnir nutu ríkulega.

Þorsteinn var barngóður, miðlaði fúslega fróðleik sínum til síns fólks, hafði áhuga á viðfangi og verkum barna og afkomenda sinna, fylgdist eins vel með og hann gat, var þeim skjól og gladdist þegar hann gat gert þeim gagn og greiða. Og hann gekk jafnvel úr rúmi til að tryggja afabarni gott skjól.

20160423-181453Fararstjórinn

Og svo voru það allar ferðirnar. Þorsteinn bar í sér forvitni um lífið. Hann fór um veröldina til að skoða, skilgreina og fræðast um líf, menningu, stjórnunarhætti, músík, stríð, uppbyggingu, niðurrif, allt þetta sem gerir sögu manna svo dapurlega en líka hrífandi. Fræðarinn, kennarinn, sem allir báru virðingu fyrir, naut sín líka í ferðum heimsins. Þorsteinn hóf fararstjórn sína um miðjan sjöunda áratuginn. Svo varð til ferðafélagið Garðabakki, sem var eiginlega flétta úr Garðabæ og Eyrarbakka – með stefnu á útlönd. Það er merkilegt að skoða bókahyllurnar á skrifstofu Þorsteins. Þar er risa-ferðabókasafn. Hann undirbjó ferðirnar vel, las allt sem hann náði í, varð afburðafróður um lönd, landshagi, sögu og samtíð. Og sérfræðingur á mörgum sviðum og m.a. á margslunginni sögu Rómverja og síðari alda Evrópusögu. Þorsteini lánaðist að flétta fræði sín og hugðarefni saman og gat sem hægast – hvar sem hann fór – tengt mannlíf við verslun, sem varð honum hjálp við að setja upp vef þeirrar menningar sem hann sótti heim og fræddi íslenska ferðalanga um. Í ferðum var Þorsteinn allt í senn fararstjóri, leiðsögumaður, kennari en líka nemandi. Hann hafði í sér vaxtargetuna.  Löndin sem Þorsteinn sótti heim um dagana voru fleiri en löndin sem hann hafði ekki komið til. Og það er gríðarlega stór hópur fólks sem hefur notið leiðsagnar hans, þjónustu, umhyggju og fræðslu. Með Þorsteini er horfinn einn öflugasti ferðafrömuður Íslendinga á síðustu áratugum.

20091030_999_51Nú er Þorsteinn farinn hinstu ferð inn í himininn. Hvernig manstu hann? Manstu fróðleiksgetu hans og kennsluhæfni? Manstu Þorstein með hljóðnemann í rútu? Vissir þú að þegar hann var á ferð með hópa erlendis fór hann oft á fætur fyrir dagrenningu til að skoða gönguleiðir og velja þær sem best hentuðu hóp og aðstæður? Og svo í dagslok settist hann yfir bækurnar til að undirbúa næsta dag.

Hvaða minningar spretta fram í huga þér um Þorstein? Hann var umtalsfrómur, talaði vel um aðra, orðvar, bar virðingu fyrir fólki og skoðunum þess. Þorsteinn var æðrulaus, jafnlyndur, geðgóður, skapstilltur, umburðarlyndur og stefnufastur. Manstu einlægni hans og heillyndi?

Hann mat tónlist og svo var hann matgæðingur. Manstu hljóðláta glettnina? Manstu hve góða nærveru hann hafði? Honum þótti miður að fólk bölvaði og ragnaði. Hann vildi fremur efla fólk með tali en hafa illt fyrir því.

Hvað hreif þig mest í fari hans? Manstu hve fróðleiksfús hann var? Manstu kvikmyndaáhugamanninn Þorstein? Manstu leiðtogahæfni hans ogótrúlega þekkingu hans, hvort sem var á verslunarháttum Íslendinga til forna eða á nýrri tíð, stríðssögu Evrópu eða Kaupmannahafnarsögu?

20100703_999_41Og nú er þessi pílagrímur menningarinnar farinn. Hann ræðir ekki lengur verslunarhætti í fornöld, mál véfréttar í Delfí, fer ekki framar á tónleika með Kristni Sigmundssyni eða gælir við barnabörnin sín. Nú er það eilífðin. Hann er farinn á undan ykkur – og gott ef ekki til að skipuleggja eilífðarreisur. Við þekkjum ekki eilífðarlandið – en Þorsteinn hvarf inn í páskaljóma lífsins og upprisunnar. Páskar eru stóra ferðasagan um að Guð opnar lendur lífsins í eilífðinni. Dauðinn dó og lífið lifir. Góð ferðaskrifstofa það sem býður slíkar ferðir. Þorsteinn Magnússon er í þeim félagsskap – Garðabakka eilífðar Guðs.

Guð geymi hann og Guð geymi þig.

Amen.

Ingibjörg Sigurjónsdóttir, í Colorado í Bandaríkjunum biður fyrir kveðjur til þessa safnaðar. Vegna bálfarar verður ekki jarðsett í dag heldur getið þið gengið fram í lok athafnar og signt yfir kistuna hans Þorsteins. Skipulagið verður að þið gangið fram kirkjuna með veggjum og þegar þið komið að kistunni kveðjið þið og gangið síðan fram og út miðgang kirkjunnar. Erfidrykkja verður í safnaðarheimilinu strax að lokinni athöfn og jarðsetning duftkers verður síðar og jarðsett í Sóllandi.

Minningarorð í útför Þorsteins Magnússonar, sem gerð var frá Neskirkju, 8. apríl, 2016, kl. 13.

Stefán Karlsson – handritafræðingur

Stefán var í París. Hvað gerir maður í þeirri borg? Jú, aðalskoðunarefni hans var ekki turn, Frúarkirkja eða latínuhverfi heldur skinnhandrit! Hjarta Stefáns tók kipp, hann sá kunnuglega hönd. Atburðarásin varð eins og í byrjun einhverrar DaVincískrar spennusögu. Leitin að höfundinum var hafin, tímasetning væri kannski möguleg og dökk bók á safni í París myndi kannski eignast ritara, frændgarð og ríkulega framtíð. Stefán hringdi heim í samstarfsmann sinn, nú skyldi farið í skrifborðið hans, miðskúffuna hægra megin. Kíkja þyfti í kompu, þessa með brúnu teygjunni! Þar væru dæmi, sem hann hafði skrifað upp, lyklar, sem gætu rofið innsigli tímans, tengt fortíð og framtíð, birt þræði milli Parísar nútímans og miðalda Íslands. Stefán var að opna rit, birta og nefna höfund.

Biblia og rit

Í síðustu bók Biblíunnar, þeirri litríku Opinberunarbók Jóhannesar segir: “Í hægri hendi hans, er í hásætinu sat, sá ég bók, skrifaða innan og utan, innsiglaða sjö innsiglum. Og ég sá sterkan engil, sem kallaði hárri röddu: ,,Hver er maklegur að ljúka upp bókinni og leysa innsigli hennar?” (Op. Jóh. 5.1-2)

Rit kristinna manna er bókasafn. Biblia er grískt orð í ft. og þýðir einfaldlega bækur. Í því bókasafni er síðan rætt um alls konar bækur og mikilvægi þess að rita niður það, sem máli skiptir. Þar er talað um lífsins bók og bók sannleika. Esekíel spámaður át meira að segja bók, Jesús Kristur las upp úr bók til að tjá fólki hver hann væri og til hvers hann lifði. Jóhannes guðspjallamaður var svo heillaður af orðkyngi, að hann byrjaði guðspjall sitt með íhugun um orð, reyndar Orðið, sem veruleika lífsins. Við upphaf veraldar voru engin ónytjuorð, heldur máttarorð. Hebrear álitu Guð vera skáld lífsins. Guð sagði og það varð sem sagt var, poesis heimsins, gjörningur sköpunar. Við enda Ritningarinnar er bóknálgun til íhugunar. Í forsæti himins er innsiglað rit, sem á að opna. Kallið hljómar hárri röddu: “Hver er maklegur að ljúka upp bókinni?” Hverju þjónar slík upplúkning? Eru orð, blaðsíða og bók til einhvers? Hvað verður opinbert?

Uppruni og ættmenni

Stefán Karlsson fæddist á Belgsá í Fnjóskadal 2. desember árið 1928 og lést í Kaupmannahöfn 2. maí síðastliðinn, 77 ára að aldri. Foreldrar hans voru Jónasína Soffía Sigurðardóttir og Karl Kristjánsson, bændur á Belgsá. Þegar Stefán var aðeins fimm mánaða gamall fórst Karl í snjóflóði. Móðirin brá búi og flutti til systkina sinna og móður á Akureyri. Í fjölskylduhúsi við Oddeyrargötu bjuggu þau síðan saman eins og stórfjölskylda í sveit. Reyndar sváfu þau ekki í baðstofu, en karlarnir sváfu samt saman í herbergi og konurnar í öðru. Jónasína og sonur hennar fengu þó skonsu fyrir sig. Stefán var eina barnið á heimilinu og naut ríkulegrar athygli og elsku margra. Hann lærði strax í bernsku að best gekk þegar konurnar, stúlkurnar, voru vinir hans. Alla tíð var hann elskulegur og því elskaður.

Móðurbróðir hans giftist ekki fyrr en á miðjum aldri og Stefán átti því tvo karlhauka í horni þrátt fyrir föðurmissinn. Félagslífið heima var ríkulegt, vinafólk fjölskyldunnar kom í heimsókn. Flest voru einhleyp svo Stefán hafði lítil kynni af hvernig hjónalíf væri iðkað. En sögur og fortíð helltust yfir hann. Auðvitað varð Stefán kotroskinn í þessum sérstæða hópi fullorðinna. Hann fékk að vera barnið, en skyn hans var teygt inn í fortíðina. Kannski er í þessu að leita skýring á, hvers vegna Stefán varð tvenna æsku og alda, síungur en þó forn.

Skólar og vinna

Stefán sótti skólana á Akureyri, var afburða námsmaður, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1948 og hóf síðan nám í Kaupmannahöfn. Meðfram námi stundaði hann kennslu í viðbót við mælingavinnu á hálendinu og önnur störf. Stefán var stundakennari við sinn gamla menntaskóla einn vetur. Annan vetur kenndi hann í Samvinuskólanum. Hann var starfsmaður Stofnunar Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn, fyrst lausráðinn árið 1957, frá 1962 sérfræðingur og bjó og starfaði í Höfn til 1970. Hann lauk magistersnámi frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1961.

Stefáni leið vel í Kaupmannahöfn. Aðstæður til starfa voru góðar, menningarlífið var örvandi, stúdentapólitík varð æ meira spennandi, Jón Helgason og kollegar í fræðunum góðir. Stefán lagði sín þugnu lóð á vogarskálar í slagnum um handritin og var afar þarfur. Hann hefði eflaust getað hreiðrað um sig ytra, en Ísland átti sína króka og stafkróka. Stefán varð sérfræðingur og fræðimaður við Handritastofnun Íslands, sem síðar varð Stofnun Árna Magnússonar, árið 1970 og hélt þeirri stöðu til 1994 þegar hann tók við af Jónasi Kristjánssyni, sem forstöðumaður stofnunarinnar og prófessor við heimspekideild. Þeirri stöðu gegndi Stefán til ársins 1998 er hann hætti fyrir aldurs sakir. En grúskinu hélt hann áfram með dugnaði til lokadags.

Fræðimaðurinn

Stefán var víðfeðmur, þolinmóður og nákvæmur fræðimaður. Hann las hendur afar vel, var skarpskygn, sá smáatriði og sérkenni höfunda og varð eins og Indiana Jones í grafhýsi höfundarlausra handrita. Stefán náði oft að gefa slitrum og ritum nýtt líf, stundum nýtt samhengi, upplýsa skrifara og tímasetja með vissu. Það er dálítið guðlegt hlutverk. Þegar skoðaðar eru aldursgreiningar norrænna handrita, sem gerðar hafa verið síðustu áratugina kemur í ljós að nafn Stefáns Karlssonar kemur oft við sögu. Hann var meistari.

Stefán skrifaði mikið alla tíð um málsögu, íslensk handrit og texta. Hann gaf út mikilægt safn fornbréfa, fornskjala, frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar, eða til 1450. Hann var m.a. sérfræðingur í biskupasögum og vann á síðari árum að sögum hins sæla Guðmundar góða Arasonar.

Hin ábúðarmikla ritaskrá Stefáns Karlssonar verður ekki þulin hér. En fyrir hönd íslenskrar kristni skal Stefáni að leiðarlokum þökkuð elja hans við að greina og skýra hina kristnu hefð. Ritgerðir hans um málfar trúar og Biblíu eru merkar og ýmsar smáritgerðir hans ekki aðeins faglega góðar, heldur líka líflegar og kætandi. Mörgum hefur Stefán hjálpað og m.a. orðið okkur klerkum til skilnings. Það er ekki lengra en tveir mánuðir síðan að ég var að vinna að prédikun um skírn og vildi tengja við verndun vatns. Mig rámaði í miðaldatengingu á Jesúskírn og vatnshelgun veraldar en mundi ekki hvar ég hefði lesið. Margrét Eggertsdóttir upplýsti svo, að Stefán hefði auðvitað líka skrifað um þetta efni.[i] Svo rataði vísdómur Stefáns í prédikun á sunndegi í föstuinngangi.

Stefáni var ekki sama um gildi og því skrifaði hann um merkileg mál, sem tengjast lífinu. Hann hefur framselt í hendur okkar verkfæri, sem varða ekki aðeins heim fræða heldur líka hvernig við eigum að axla ábyrgð, líka gagnvart náttúru.

Stefán var gerður að heiðursdoktor bæði við Háskóla Íslands og  Kaupmannahafnarháskóla. Mat hann þann sóma mikils. Margir aðrir vildu heiðra hann og sæma orðum og medalíum, en Stefán endursendi orðurnar en með elskulegum skýringabréfum. Yfirdrepsskapur var honum fjarri og prjál sömuleiðis.

Hjúskapur og afkomendur

Stefán kvæntist Helgu Ólafsdóttur árið 1958. Í Helgu eignaðist hann vin og félaga. Hún tengdi hann við tímann og uppfærði m.a. stúdentinn í honum. Þrátt fyrir að hann væri fertugur varð hann sem tvítugur í stúdentavorinu upp úr ‘68. Þau Helga voru samstiga í að leyfa rauðsokkunum að dansa fyrstu sporin í kjallaranum á Ásvallagötunni. Sokkarnir tipluðu upp stigana, enda bæði jafnréttissinnar.

Stefán og Helga eignuðust dótturina Steinunni. Leiðir þeirra Helgu greindust í sundur og þau skildu eftir tveggja áratuga hjónaband. Stefán var Steinu sinni natinn faðir. Hann hefur líklega verið óvenjulegur karl af sinni kynslóð því hann vaknaði til dótur sinnar á nóttunni til að gefa henni þegar hún var á pelaaldri. Auðvitað las hann fyrir hana, burstaði tennur í smáskrikjandi stúlku og eldaði fyrir hana þegar hún var á skólaaldri.

Stefáni var umhugað um hag dóttur sinnar, sóttist eftir að vera með henni, fagnaði tengdasonunum, Tryggva Þórhallssyni og síðar Arthuri Morthens. Hann tók á móti dótturdætrum sínum opnum örmum og huga, þeim Helgu, Önnu og Höllu, hýsti þær, þegar þess þurfti með, kenndi þeim þegar þær vildu, fór með þær í álfaferðir í land sitt og skóg í Fnjóskadal, skemmti sér við sögur þeirra og kætti þær með gríni og gleðiefnum.

Afaelska Stefáns var þó ekki markalaus. Þegar innrásin í Írak hófst bjuggu stelpurnar hjá honum. Hann keypti fyrir þær það,  sem þær vildu. Þegar bomburnar sprungu í Bagdad var Stefáni nóg boðið og hætti að kaupa kók fyrir þær. Það voru skilaboð, sem hann sendi Bush, en kannski ekki síður þeim. Það skiptir máli hvað maður er og hvernig í veröldinni. Stelpurnar urðu bara þaðan í frá að sætta sig við Egils-appelsínulímonaði.

Nú er brosið hans afa stirnað og fræðasjór þeirra er farinn. Þær sjá á bak afa sem var margt; ungæðingslegur vitringur, íhaldsamur byltingamaður, jólasveinn á jólum, skógarmaður á sumrum, heimsborgari í Höfn og alltaf sjarmör.

Veitull höfðingi

Vegna skapfestu og persónueiginda var Stefán gjarnan kjörinn til stjórnunartarfa í þeim félögum, sem hann sinnti, á Akureyri, í Kaupmannahöfn, í fræðafélögum og líka á vettvangi menningarmála og stjórnmála.

Stefán var mannblendinn og veitull höfðingi. Réttlætiskenndin í brjósti hans var rík og hann hafði góða vitund um ábyrgð sína sem borgara. Hann tók fús þátt í umræðum um þjóðmál. Sósíalistinn mótmælti með elskulegum hætti, þegar honum þótti mikilvægan málstað að verja eða brjóta yrði réttlætinu leið.

Þrátt fyrir annir veik hann sér aldrei undan ef einhver þarfnaðist hans, ef fræðaráða væri þörf, ef einhver var óviss um lestur, ef spurt var um hvar heimilda væri helst að leita eða hvaða þræði væri vert að rekja. Ef Stefáni þótti einhver fara villur vega í fræðum skaut hann vísifingri og löngutöng undir gagnauga, renndi augum upp og andmælti hógværðarlega: “Ég er ekki viss um að þetta sé alveg rétt.” Svo nuddaði hann dósirnar sínar, kom með betri skýringu og var að lokum komin inn úr dósunum.

Ef erlenda gesti skorti húsaskjól eða skapa þurfti huggulegan fagnað var gestgjafinn Stefán tilbúinn. Mörgum bauð Stefán heim um dagana, margir komu í tjaldið hans í Þórðarstaðaskógi og fengu bjór úr læk. Mörgum kenndi hann fræðin bæði í Kaupmannahöfn og síðan á Íslandi, var natinn og gjafmildur kennari.

Stefán hleypti fjöri í samkomur, ef ekki vildi betur þá lagði Stefán til að dansaður yrði færeyskur hringdans, sem hann stjórnaði svo sjálfur. Stefán var elskaður velgerðarmaður og mentor margra, sem voru honum samstiga fræðum og félögum. Því staldrar fólk við í dag, um víða veröld, til að þakka og votta Stefáni virðingu sína. 

Lífsbókin

“Í hægri hendi hans …sá ég bók, skrifaða innan og utan, innsiglaða… ,,Hver er maklegur að ljúka upp bókinni og leysa innsigli hennar?” Hvað er lífið? Hvað fer leynt, hvað er opinbert? Stefán sótti inn í hin innsigluðu vé til að efla þekkingu. Hann sótti í lífsgleðina og sótti lífsmátt. Hann sótti í mannfélag og vildi réttlæti. Hann var hreinskiptin en jafnframt á dýptina og varð aldrei algerlega séður. Hann var skemmtilegur og kúnstugur, en svo var þó eitthvað meira. Stefán var fjölhæfur hæfileikamaður, sem ræktaði sinn reit, sitt fólk, sjálfan sig, embætti og frændgarð.

Hverju skiluðu rannsóknarferðirnar og bækurnar Stefáni? Visku og innsýn. Hann var vökumaður fræða, þjóðar, réttlætis, menningarlegrar reisnar og einstaklinga. Nú hefur hann lokið að fletta blöðum í sínum handritum og bókum. Nú hefur lífsbók hans verið flett í hinsta sinn og lokað. Hver er maklegur að opna? Er lífi Stefáns með öllu lokið eða er það við nýtt undursamlegt upphaf, – nýtt afrit, lýst og skreytt framar öllu því sem þetta líf getur leyft okkur að skygnast inn í? Getur verið að nú megi hann fá að njóta dýpri skilnings vegna þess að sá, sem var hið mikla orð, samhengi bókanna til forna, hafi verðugur opnað hið stórkostlega bókasafn himinsins, þar sem allar víddir eru tengdar, allar bækur samþættast, þar sem allir höfundar finnast, párið raðast upp í himneskt kerfi, þar sem réttlæti og bræðralag ríkir og líka á rauðum sokkkum, þar sem enginn hefur af neinum neitt og allir gefa öðrum til gleði? Í því er undur trúarinnar, að efasemdamaðurinn má vona hið góða.

Nýtt líf

Fyrir skömmu hringdi sölukona tímaritafyrirtækis í Stefán og vildi selja honum áskrift að einhverju áhugaverðu tímariti. Nei, hann hafði ekki áhuga á Gestgjafanum þótt hann væri gestrisinn kokkur. Nei, glanstímaritin vöktu enn síður áhuga hans. Svona til að ljúka samtalinu sagði Stefán stúlkunni góðlátlega, að hann væri nú þannig innréttaður, að hann læsi helst ekkert sem væri yngra en frá árinu 1500! Hann hélt, að þá væri málið afgreitt. En stúlkan sá við honum og sagði hjartanlega: “Ja, hérna, er ekki kominn tími til að þú gerist áskrifandi að Nýju lífi”? Þetta þótti Stefáni fyndið og hló þegar hann sagði söguna.

Lífsbók Stefáns er nú blað í lífsbók veraldar. Verður bókin ávallt lokuð? Svarið við hinni miklu engilsspurningu um hver megnar að opna er svarað með boðskap páska, að Guð kemur sjálfur, rýfur innsigli allra heftinga og kúgunar, er sjálfur orðið sem hrífur, færir til betri vegar, er sjálfur stephanos, sigursveigur lífsins, nýtt líf.

Snillingur, sem með stafkrók tengir saman skinnbók í París, rit í Höfn og Reykjavík getur skilið þörf fyrir höfund að baki náttúrubókinni, höfund að baki réttlætissókn mannabarna, hlýju að baki elskudrama biblíusafnsins.

Pár veraldarinnar, lífsins, er stórkostlegt. Kristnir menn trúa, að höfundurinn heiti Guð og hafi komið fram, birst, í honum, sem skrifaði í sand og gekk síðar fram úr grjótinu. Þá var innsiglið rofið og bókin opnuð. Við sjáum sem í skuggsjá, en í hinu nýja lífi er allt ljóst, höfundurinn gengst við verkinu og opnar faðminn.

Góður Guð blessi minningu öflugs rannsóknarmanns, ljósmóður höfunda, liðsmanns lífsins – og gefi dóttur, barnabörnum, afkomendum og ástvinum líkn í sorg – og okkur öllum mátt til að sækjast eftir sveig sem er til lífs. Amen.

Bálför. Jarðsett í Illugastaðakirkjugarði í Fnjóskadal. Erfidrykkja í safnaðarheimili Neskirkju.

Minningarorð flutt 4. maí 2006. 

[i] Stefán Karlsson, “Greftrun Auðar djúpúðgu” sem birtist í afmælisriti til Kristjáns Eldjárns Minjar og mennti , 1976, 481-88.

Allir fingur upp til Guðs

fingur til GuðsÉg var með fjölskyldu minni í Kaupmannahöfn fyrir liðlega viku og við flugum heim í vikulok. Flugliðarnir í flugvélinni undruðust og höfðu orð á að vélin fylltist af Dönum á leið til Íslands. En skýringin er að fjórði föstudagur eftir páska er den store bededag og almennur frídagur í Danmörk. Margir Danir notuðu bænadaginn til Íslandsferðar. Bænadagur fyrir liðlega viku í Danmörk en svo er bænadagur á Íslandi í dag.

Og bænadagurinn á sér samiginlega sögu í Danmörk og á Íslandi því Kristján 5. fyrirskipaði á seinni hluta 17. aldar að almennur bænadagur skyldi vera á fjórða föstudegi eftir páska. Dagurinn var kallaður kóngsbænadagur af því það var kóngur en ekki kirkja sem ákvað bænaiðjuna. En margir héldu, að á þessum degi ætti að biðja sérstaklega fyrir kónginum en svo var ekki. Beðið var fyrir kóngi ekki bara einu sinni á ári heldur á öllum helgum dögum meðan Ísland var hluti Danaveldis, rétt eins og beðið hefur verið fyrir stjórnvöldum á lýðveldistímanum.

Og þótt Íslendingar segðu skilið við Dani héldu menn áfram að biðja og frá og með 1951 var haldinn bænadagur í kirkjum landsins – ekki á föstudegi heldur – á fimmta sunnudegi eftir páska. Og þessi sunnudagur er því bænadagur eins og verið hefur í sextíu og fimm ár í okkar kirkju. „Biðjið“ sagði Jesús. Já við ættum að biðja, biðja mikið.

Fingurnir

Bæn er ekki bara verk andans, n.k. andverk heldur jafnvel handverk líka. Í dag langar mig að spá í handverk bænarinnar og að bæn er handtak manns og Guðs. Fingur þínir snerta hönd himins. Guð vill ræða við þig og heyra hvað þú hefur að segja en líka finna til veru þinnar. Og margt er hægt að nota til að styrkja bæn, jafnvel alla puttana. Það langar mig til að ræða um í dag.

Fingurnir eru mismunandi og hægt að nota þá til aðstoðar í samtalinu við Guð. Eðlisþættir puttanna geta minnt á mikilvæga þætti, sem við megum gjarnan orða við himinvin okkar. Þeir geta orðið okkur hinir þörfustu guðsgaflar. Give me five!

Þegar við biðjum spennum við gjarnan greipar eða leggjum saman hendur. Hendur skipta miklu máli í lífinu – bænalífinu líka. Horfðu á hönd þína. Þú þekkir handarbakið sem blasir við þér, þekkir hvernig æðarnar hríslast. Svo er lófinn. Kannski hefur einhver spáð í líflínu og myndagátu lófans? Þegar ég kveð fólk við kirkjudyr finn ég vel hve ólíkar hendurnar eru og að þær tjá mjög mismunandi sögur og jafnvel atvinnu fólks.

Við tökum í hendur annarra, við heilsum og kveðjum gjarnan með handtaki. Við notum orðið handaband – það segir okkur að samskipti komast á, band verður milli þeirra sem takast í hendur. Handaband hefur á stundum verið ígildi undirskriftar. Handsal var gilding og við hjónavígslu er handsalið mikilvægt í stofnun hjúskaparins. Svo sláum við saman höndum í gleði. “Give me five” – og það eru allir puttarnir – gefðu mér alla hönd þína og gleðjumst saman.

Þegar við leggjum saman hendur verður það gjarnan til að kyrra huga. Og við getum líka notað hendurnar til stuðnings bænaiðju rétt eins og margir nota bænaband til að fara yfir ákveðnar bænir. Fingurnir eru mismunandi og hægt að nota þá til aðstoðar í samtalinu við Guð. Eðlisþættir puttanna geta minnt á mikilvæga þætti, sem við megum gjarnan orða við himinvin okkar. Þeir geta orðið okkur hinir þörfustu guðsgaflar.

Þumall og styrkur

Þumalfingur eða þumalputti er jafnan sterkasti puttinn á fólki. Þegar við smellum þumlinum upp er það ekki aðeins merki um hrós heldur getum við þar með minnt okkur á ákveðið bænaefni. Hvað vegur þyngst, hvað skiptir þig mestu máli í lífinu? Er ekki ástæða til að þakka Guði fyrir það? Hugsaðu nú um það hvað er mikilvægast. Er það ekki fólkið þitt, foreldrar, maki, börn, aðrir ástvinir og vinir? Er það heimili þitt og velgerðarmenn, sjúkrastofnun  – nú eða kirkjan þín? Er ekki gott að þakka Guði fyrir öll og allt sem styrkir þig í lífinu, gerir þig sterkari, eflir þig, varðveitir þig? Þumallinn sem bænafingur er táknfingur styrkleikans og minnir á stoðirnar þínar.

Vísifingur og vitringarnir

Svo er það næsti putti – vísifingur. Við notum hann til bendinga, við vísum til einhvers og bendum á. Hann gengur því líka undir nafninu bendifingur. Svo er vísifingur stundum sleikifingur af því börnin nota hann til að grafa í sultu, smjör, ís eða annað sem heillar og sleikja puttann svo. Börnin nota sleikifingur sem guðsgaffal, en við megum gjarnan skófla upp trúarlegri merkingu frekar en sætu í munninn.

Hverjir eru það sem vísa þér veg, benda þér áfram, hjálpa þér og ganga með þér veginn? Biddu fyrir þeim, sem eru svo leiðbeinandi í lífinu, vinum, kennurum, læknum, vitru fólki, spekingum, kirkjufólki, hjúkrunarfólki. Það er vert að þakka fyrir þetta fólk, biðja fyrir því, benda Guði á að það er að liðsinna og efla lífið.

Langatöng og leiðtogar

Lengsti fingurinn á flestum er langatöngin og til er lengra nafn þess putta – langastöng. Hvaða bænir minnir þessi lengsti putti á? Fyrir hverju biðjum við þegar við snertum löngutöng? Í kirkjum á Íslandi og meðal trúmanna um allan heim er beðið fyrir þeim sem eru leiðtogar. Við biðjum fyrir fólki í ábyrgðarstöðum, fyrir þjóðhöfðingja okkar, dómurum, fyrir alls konar stjórnvöldum og fyrirtækjum, fyrir þeim sem gegna mikilvægum ábyrgðarstörfum, taka ákvarðanir sem geta orðið til mikils góðs eða valdið miklu tjóni. Langatöngin sem bænafingur minnir okkur á að biðja Guð að laða fram hið besta í langintesunum í hinum opinbera heimi. Leiðtogar eru ekki aðeins einstaklingar heldur hreyfingar, stofnanir, menningarfyrirbæri, vefur menningar og straumar hennar.

Baugfingur og hin veiku

Þá er það fjórði puttinn. Hvað einkennir baugfingur annað en það að á þann putta er gjarnan settur hringur, baugur? Þessi putti, sem líka gekk undir nafninu hringfingur og græðifingur, er gjarnan kraftminnsti puttinn. Hvað minnir máttleysi okkur á? Kannski þau, sem eru sjúk, hafa misst þrek og þor, vinnu, eru fjárlaus eða syrgjandi. Máttleysi minnir okkur líka á öll þau sem líða vegna einhverra vondra aðstæðna, nær og fjær. Þegar við snertum baugfingur megum við biðja fyrir þeim sem líða vegna rangra stjórnvalda, fyrir þeim sem eru kúguð, fyrir þeim sem eru hamin af félagslegum, líkamlegum eða pólitískum aðstæðum.

Litli fingur – þú og ég

Og þá er komið að litlaputta. Hvað er eftir á bænalistanum? Það ert þú. Litli puttinn er putti sjálfsins. Þegar kemur að litla fingri þá er komið að öllu því sem þú ert. Hvernig biður þú og hvernig viltu nota þenna guðsgaffal? Byrjaðu á þakkarefnum. Þakkaðu Guði fyrir allt það stórkostlega, sem þú hefur notið og er það ekki talsvert? Farðu yfir gleðiefnin þín, yfir það sem Guð gefur þér í líkama þínum, hjartsláttinn og blóðrennslið, að þú getur hreyft þig, hlegið, nærst og glaðst yfir. Allt, sem þú skynjar, er undur til að gleðjast yfir, litirnir, golan sem kyssir eyrnasnepla þína og kitlar þig í nefið. Já bækurnar sem þú lest, hugmyndir sem kvikna í þér, allt sem þú bragðar og er til góðs, tónlistin sem flæðir í huganum, ástin í brjósti þér, getan til að hrífast, frelsið og málið. Og svo er það líka hitt, sem hemur þig, er þér  erfitt og hvílir á þér. Við reynum að létta litla putta byrðar. Eins er það í bænunum. Byrjaðu á plúsunum og farðu svo í mínusana – en svo aftur í plús. Þannig er ölduhreyfing bænamálsins. Allt byrjar í Guði, dýfist síðan niður í mannlífsgleðina, fer alla leið niður á botn og svo upp aftur inn í eilífð ljóss og vona.

Fingurnir geta aðstoðað þig með þessu móti til bæna, til að leiðbeina þér við bænaiðjuna. “Give me five.”

Bæn hefur hendur til að starfa með og þjóna lífinu. „Biðjið“ segir Jesús. Bæn er handtak manns og Guðs, fingur þínir snerta hönd himins. Guð vill alla fimm putta, samtal við þig og þér verður ekki sleppt.

Amen.

Þessi texti var til grundvöllunar hugleiðingu á bænadegi þjóðkirkjunnar, 1. maí.

+ Helga Einarsdóttir + minningarorð

Helga EinarsdóttirMörg börn heimsins hafa legið á bakinu og horft upp í himininn, undrast stjörnumergðina og rekið upp undrunaróp þegar loftsteinn strikar næturhimininn. Svo þegar bætt er við tölum eða vitund um stærð vetrarbrautar og geimsins verður jarðarkúlan lítil og mannveran sem liggur á bakinu og leyfir sér að synda á yfirborði afgrunnsins verður sem smásteinn í fjöru. Matthías Johannessen líkti í einu ljóða sinna manneskjunni við sandkornið á ströndinni og bætti við að kæleikur Guðs væri sem hafið. Við erum óteljandi börn lífsins á strönd tímans, mannabörn, sem leikum og lifum í flæðarmáli. Og það er undursamlegt að vona og trúa að við séum ekki leiksoppar rænulauss öldugangs og án tilgangs, heldur umvafin lífi, í kærleiksfangi. Annað skáld, mun eldra – höfundur 8. Davíðssálms Biblíunnar, vísar til hinnar sammannlegu reynslu að horfa upp í himininn og undrast og vinna með smæð mennskunnar. Hann segir:

Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað, hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess? Þú lést hann verða litlu minni en Guð, með sæmd og heiðri krýndir þú hann.

Hvað er maðurinn, hvað ert þú? Öll erum við dýrmæti. Hin kristna nálgun er að hver einasta mannvera sé undursamleg og stórkostleg. Jesús Kristur hvetur alla menn til að meta líf sitt og einnig að umgangast aðra sem djásn og vini Guðs. Og þannig megum við íhuga hið merkilega líf Helgu Einarsdóttur. Hún lifði líka þannig að líf fólks varð betra af því hún veitti til þeirra lífi og varð öðrum lífvaki. Guð minnist hennar, Guð varðveitir hana. Og þakkarandvarp sálmaskáldsins fyrir þúsundum ára var og má endurhljóma meðan börn íhuga dýptir og hæðir, stjörnur lifa og tungl og sólir lýsa: „Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!“

Æfistiklur

Æfi Helgu var margþætt og merkileg. Bernska hennar var stórfelld og íhugunarefni. Hún eignaðist góðan maka og megnið af starfsæfi hans bjuggu þau á landsbyggðinni. Svo varð til þriðja skeiðið þegar þau hjón komu í bæinn og Helga hóf nýjan feril og blómstraði í félagslífi borgarinnar.

Helga Einarsdóttir fæddist 6. desember árið 1922 á Ketilstöðum í Vallahreppi, S-Múlasýslu. Foreldrar hennar voru Margrét J. Jónsdóttir og Einar G. Markússon. Þau voru aldamótafólk – hann fæddist árið 1896 en hún aldamótaárið. Þau Margrét og Einar eignuðust tvö börn en skildu. Hjúskaparslitin urðu til að Helga dýrkeypt fór á mis við samskipti við föður sinn á bernsku- og unglings-árum eða til fullorðinsára þegar hún kynntist honum og þá einnig albróður sínum.

Foreldrar Helgu, Einar og Margrét, gengu í hjónaband að nýju. Albróðir Helgu var Jón Sigfús Einarsson og var liðlega tveimur árum eldri en systir hans. Hann er látinn. Hálfbræður Helgu eru Þráinn S. Þórarinsson og Óðinn G. Þórarinsson. Fóstursystir er Edda Stefáns Þórarinsdóttir. Hálfbræðurnir og fóstursystir lifa Helgu.

Þegar foreldrar Helgu skildu árið 1924 flutti Margrét með börnin suður til foreldra sinna í Reykjavík. Helga varð Reykjavíkurdama og þar naut hún hefðbundinnar skólagöngu þess tíma. Móðir hennar fór austur aftur en Helga varð eftir hjá ömmu sinni og afa.

Það er áleitið íhugunarefni að í frumbernsku tapaði Helga sambandi við föður sinn og sá hann ekki fyrr en sautján ára. Eldri bróðir hennar fór líka og móðir hennar einnig. Hvað gerist í sálarlífi barns við slíkar aðstæður? Hvaða áhrif höfðu þessar fjarvistir á hana og hvaða áhrif hafði það á persónumótun hennar? Getur verið að mannelska Helgu sé æfiviðbragð við æskureynslu? Getur verið að Helga hafi tamið sér að grennslast fyrir um líðan og reynslu fólks af því hún hafði sjálf upplifað mikið og skildi vel tilfinningar annarra? Var Helga svona einbeitt fjölskyldukona af því hún hafði séð ástvini fara langt í burtu? Við þekkjum ekki öll svörin en gjöful var hún og helg í gjafmilidi sinni og lífsfestu alla tíð.

Hjúskapur og fjölskylda

Svo var það ástin og ástvinirnir. Helga fór sautján ára til sumardvalar hjá föður sínum eystra og í framhaldi af þeirri dvöl var hún á Fáskrúðsfirði. Þar fann hún mannsefni sitt. Í miðju stríðinu fór Helga á ball og þar var líka Oddur Sigurbergsson frá Eyri í Fáskrúðsfirði. Hann var frábær dansari og þau féllust í faðma og dönsuðu eftir það lífsdansinn saman. Hún var tvítug þegar þau gengu í hjónaband þann 27. mars árið 1943. Og Helga var í fjólubláum kjól! Síðan áttu þau Oddur langt, gott og farsælt líf saman með ýmsum taktskiptum.

Oddur þjónaði Samvinnuhreyfingunni dyggilega og starfaði lengstum við stjórn kaupfélaga. Lengi bjuggu þau hjón á Suðurlandi, á Hvolsvelli, í Vík í Mýrdal og síðan á Selfossi. Í Vík og á Selfossi var Oddur mikils metinn kaupfélagsstjóri. Helga sá um heimilisreksturinn. Gestkvæmt var á heimilinuog þau hjón höfðingjar heim að sækja. Mörgum þótti ævintýralegt að njóta gestrisni Helgu, matreiðslan var rómuð og kitlað var við augu þegar borð voru dekkuð og matur fram borinn. Helga naut sín vel sem gestgjafi.

Helga hafði alla tíð gleði af samskiptum við fólk og var afar félagslega hæf. Þegar þau Oddur fluttu til Reykjavíkur árið 1983 opnuðust Helgu nýjar samfélagsvíddir og hún lagði mannúðar- og líknarfélögum lið. Hún gekk til liðs við Kvenfélagið Hringinn og starfaði m.a. um árabil í basarnefnd félagsins. Hún var einnig félagi í Kvennadeild Rauða Krossins og vann m.a. í verslun deildarinnar á Landspítala. Þá var hún virk í Félagi aðstandenda alzheimersjúklinga. Síðustu árin bjuggu þau Oddur á Þorragötu 5 í Reykjavík. Oddur lést árið 2001.

Helga og Oddur eignuðust dótturina Margréti. Hún kom í heiminn í september árið 1945 og starfaði m.a. sem dagskrárstjóri hjá Ríkisútvarpinu. Maður hennar er Hörður Filippusson, lífefnafræðingur og prófessor. Dætur þeirra eru Helga Brá Árnadóttir og Þórunn Dögg Harðardóttir. Í frumbernsku bjuggu þær um tíma hjá afa og ömmu á Selfossi og tengslin urðu djúp og öllum til blessunar. Áttu systurnar sitt annað heimili hjá afa og ömmu alla tíð. Fyrir umönnun dætranna á þeirra fyrstu árum þakkar Margrét af heilum hug.

481627_517755191577375_1951666811_n

Helga Brá er verkefnisstjóri við Háskóla Íslands. Eginmaður hennar er Jón Gunnar Þorsteinson. Þau eiga dæturnar Margréti Láru og Þórunni Helenu. Eldri börn Jóns Gunnars eru Þorsteinn Gunnar og Valgerður.

Þórunn Dögg Harðardóttir starfar sem ráðgjafi hjá Athygli-Ráðstefnum. Maður hennar er Jón Erling Ragnarsson. Dætur þeirra eru Una Brá, Andrea Rós og Telma Ösp. Það var æfiverkefni Helgu að hlúa að fólkinu sínu og efla.

Eigindir

Helga var gifturík, hæfileikarík og sterk. Hvernig minnist þú hennar? Manstu hlýja og glaðværa nærveru hennar? Manstu brosið og nærfærna hlustun og hve auðvelt hún átti með að tala við fólk á öllum aldri og gerði sér ekki mannamun? Hún átti ekki aðeins vinkonur á sínum aldri. Kynslóðabil gufuðu upp í Helgutengslunum. Hún var eins kunnáttusöm og afburðadiplómat í samkvæmum, fór á milli gesta, lagði skemmtilegheit til samkomuhaldsins og hlý orð til þeirra sem hún hitti. Hún hafði áhuga á líðan og tilfinningum, atburðum og viðburðum, áföngum og áformum fólks. Og hún studdi og samgladdist. Ungt fólk átti í Helgu jafn örugga vinkonu og þau eldri. Helga hlustaði vel, dæmdi ekki og var því elskuð af mörgum sem þótti gott að njóta styrks hennar.

Manstu hve vel Helga studdi allt sitt fólk? Og hún umvafði ekki bara bónda sinn, dóttur, tengdason og ömmudætur heldur langömmubörnin sömuleiðis, mat þau mikils, hvatti til dáða, bjó þeim athvarf og var alltaf reiðubúin að gera þeim greiða og allt það gagn sem hún mátti. Helga var fjölskyldukona og gjafmild ættmóðir sem uppskar elsku síns fólks vegna þess að hún elskaði af örlæti.

Manstu listina í Helgu? Hún var ljóðelsk og músíkölsk. Hún var laghent hannyrðakona og saumaði föt á fólkið sitt. Hún hafði sitt litakort á hreinu og var vandvirk með ásýnd og fyrirkomulag á heimili og hannyrðum. Og alla tíð var Helga flott í tauinu og Oddur einnig, glæsilegt par. Helga var flínkur kokkur og hikaði ekki við að leyfa gúrmetískum straumum að ná inn í kokkhúsið sem ástvinir hennar og gestir nutu.

Manstu hve Helga lyfti sér yfir aldur og árafjölda – hve síung hún var? Hún var eiginlega góður fulltrúi núvitundar, hlustaði og mat mál hvers tíma. Í Helgu bjó hlátur, kátína og lífsgáski sem smitaði vel til allra þeirra sem umgengust hana. Og allt til enda varðveitti Helga íhygli og skerpu. Er það ekki hrífandi að þegar stutt var eftir ævinnar velti hún vöngum yfir hvað væri sameiginlegt í þögnum tónlistar Arvo Pärt og litum í myndlist Georgs Guðna? Það er sláandi fyrir okkur sem höfum metið báða listamenn. Þessi saga er lykilsaga um Helgu. Dauðinn nálgaðist en hún varðveitti lífsgetuna til að hugsa estetíska djúpþanka. Er ég horfi á himininn, hlusta á tónlistina, nem litina, hvað er þá lífið, fegurðin og manneskjan? Þökk sé Helgu Einarsdóttur fyrir gjafmildi hennar. Í lífi hennar ríkti fegurð og örlæti sem ástvinir, já við öll, getum þakkað, því hún þorði að vera. Það er að virða kall Guðs til að lifa vel.

Og nú er hún horfin inn í himininn.

Dótturdætur og heimagangar hjá afa og ömmu urðu vitni að því að þau leiddust í svefni. Hendur Helgu og Odds féllu saman í kyrrð næturinnar. Og nú er langa nóttin komin – en afturelding einnig. Tími þeirra í heimi er liðinn en eilífðin er opin. Mynd af samfelldum höndum er einhver yndislegasta himinmynd sem hægt er að draga upp fyrir hugskotstjónum okkar sem kveðjum í dag. Að hendur ástvina falli saman og við fáum að leiðast í eilífðinni er vonarefni okkar allra.

Guð geymi Helgu, Odd og allan ættboga þeirra – og gefi þeim frið.

Og Guð geymi þig og blessi.

Amen.

Minningarorð við útför í Dómkirkjunni 27. apríl, 2016. Kl. 13.

Bálför. Kistan borin út eftir athöfn en jarðsett síðar í Gufuneskirkjugarði. Erfidrykkja á Hótel Borg eftir athöfn.