Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

+ Hulda Valtýsdóttir +

Hulda Valtýsdóttir var eiginlega alls staðar – og hafði áhrif á okkur. Hún var fjölhæf, dugmikil og hrífandi. Hún bar í sér þroskaða menningu, beitti sér með dug og vinsemd og kom afar mörgu til leiðar. Líf hennar var heillandi. Þegar við stöldrum við og hugsum um Huldu er eins og hún hafi snert öll – og líka öll okkar æfiskeið og lífsvíddir. Hún kom svo víða við sögu. Flest íslensk börn hafa notið hennar í leikverkunum og barnabókunum, sem hún þýddi. Þýðingar hennar eru orðnar klassík og hluti þjóðmenningar, sem ekki rýrnar heldur er sívirk. Hulda stýrði ásamt systur sinni afar vinsælum barnaþætti í útvarpi og gaf út barnabækur. Eldra fólkinu þjónaði hún með skrifum sínum, ekki síst í Morgunblaðinu. Hún var vörður hinna stóru málefna, gilda, gæða og lista sem vörðuðu allt samfélag þjóðarinnar. Reykvíkingar njóta verka hennar og vökullar íhygli í stjórn borgarinnar. Og margt eigum við henni að þakka í þeim efnum. Hún fleytti framtíðinni inn í samfélag sitt með því að þora að ræða opinberlega stóru málin með hispurslausum hætti og þar eru umhverfismál – og þar með talin skógrækt – í öndvegi. Og eldri borgarar nutu hennar. Henni treyst fyrir úthlutun fálkaorðunnar sem formanni orðunefndar. Hulda kom við sögu allra.

Þjónað í þágu lífsins

Af hverju var var áhugi hennar svo víðfeðmur? Mér þótti merkilegt að koma í stórkostlegt Sólheimahús þeirra Gunnars og Huldu, sem hann teiknaði, þau hönnuðu og byggðu sér. Þar hlustaði ég á dætur Huldu segja frá móður þeirra og öðrum ástvinum segja litríkar og elskulegar sögur. Þá skildi ég að það voru gæðin í foreldrum hennar og fjölskyldu sem skiluðu Huldu menningu, mannsýn, ást til náttúrunnar og samhengi í tilverunni. Hún var hæfileikarík og vann vel úr.

Hvað gerir okkur gott? Það er spurning hefur fylgt okkur mönnum frá upphafi. Viturt fólk hefur alla tíð vitað að við höfum áhrif. Grískt spakmæli kennir að friður og velsæld ríki þegar gamalt fólk sáir trjáfræum þrátt fyrir að það muni aldrei njóta skugga þeirra trjáa, sem það sáir til. Marteinn Lúther var spurður hvað hann myndi gera ef hann vissi að heimsendir yrði á morgun. Svarið var einfalt – fara út og planta eplatré í dag. Skógræktarmenn hugsa ekki um skyndigróða heldur hugsa eins og kristinn maður – í öldum. Hin eiginlegu gæði varða ekki aðeins augnabliksfullnægju, heldur eru í hinu stóra og mikla, fagra og víðfeðma, langa og lífseiga. Mannlíf í auðn er ekki gæfulegt, en ríkulega klætt land og iðandi lífheimur er til góðs fyrir fólk. Lífríki er gott en lífleysa vond. Þá klassík, mannsýn og heimssýn fékk hún í arf í foreldrahúsum. Hún hafði í sér gæðin til að miðla áfram. „Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá“ – segir í Fjallræðunni.

Upphaf og fjölskylda

Hulda Steinunn Valtýsdóttir fæddist í Reykjavík 29. september árið 1925. Hún var dóttir hjónanna Valtýs Stefánssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, og Kristínar Jónsdóttur, listmálara. Þau voru bæði frumkvöðlar og risar á sínum sviðum. Um bæði hafa verið skrifaðar glæsilegar og upplýsandi bækur.[1]Þau voru eyfirsk að uppruna. Kristín fæddist á því fallega Arnarnesi við Eyjafjörð. Þar var menningarheimili. Valtýr bjó bernskuárin á Möðruvöllum – þar sem faðir hans kenndi við Möðruvallaskóla. Skemmtilegar sögur eru um bernskutengsl Kristínar og Valtýs því Arnarnesfólkið átti kirkjusókn til Möðruvalla og sótti þangað messur. Valtýr var ungur þegar hann hreifst af Kristínu. En sagt var að hann hefði einu sinni hrint henni niður af öskuhaug. Hann var þó kurteis ungsveinn og bauð henni upp í dans og dansaði við hana á sokkaleistunum. Ekki af eftirsjá vegna gjörningsins á öskuhaugnum heldur fremur vegna hrifningar á stúlkunni. Dansinn var ávísun á síðari kynni. Þau Kristín og Valtýr fóru um veröldina í sitt hvoru lagi en endurnýjuðu kynnin í Kaupmannahöfn, töluðu sig til ástar, gengu í hjónaband og urðu og voru afar náin og samhent alla tíð. Kristín og Valtýr byggðu húsið á Laufásvegi 69 og þar átti Hulda heima til fullorðinsára. Og í bókunum um þau Valtý og Kristínu, í minningargreinum og minningum vina er skýrt tjáð að heimilislífið á Laufásveginum var skemmtilegt og heimilið var opið. Listamenn þjóðarinnar áttu í þeim vinsemd og frábæran skilning – eins og Gunnlaugur Scheving orðaði það. Áhugafólk um stjórnmál kom þar og ólíkar skoðanir voru ekki aðeins leyfðar heldur óskað eftir öflugum skoðanaskiptum. Þar var hressilega rætt um listir og stjórnmál, jarðrækt og bókmenntir, blaðamennsku, búskaparhætti og þjóðsögur. Þetta var klassík heimilisins en nútíminn bankaði líka sá dyr. Pólitíkin varð stundum sem aðalkrydd máltíða og Hulda lærði að lesa í flóknar aðstæður, hlusta á gagnstæð viðhorf, horfa á mál frá mörgum hliðum, íhuga næmt og túlka skýrt.

Systurnar voru tvær. Helga var eldri og var kunn fyrir leikhússtörf sín. Huldunafnið kom upprunalega úr vitrun Stefáns á Möðruvöllum, afa Huldu.[2]Þegar Hulda fæddist tók eldri systirin hinni nýju systur með gleði. Af myndum úr fjölskyldualbúmunum má sjá að þær systur voru nánar og deildu kjörum. Þær áttu hægt með að vinna saman alla tíð og útvarpsþættir þeirra á sjötta og sjöunda tug liðinnar aldar eru mörgum í fersku minni. Helga lést árið 1968, aðeins 44 ára gömul.

Skóli, störf og baráttumál

Hulda hóf skólagöngu í Landakotsskóla og þaðan fór hún í MR og lauk þaðan stúdentsprófi árið 1945. Strax í bernsku hafði Hulda mikinn áhuga á lífinu á ritstjórn Morgnblaðsins. Hún byrjaði að sendast fyrir blaðið meðan hún var enn í grunnskóla. Síðar varð hún ritari föður síns og varð svo blaðamaður á Morgunblaðinu. Hulda skrifaðium margvísleg efni fyrir Morgunblaðið, þ.m.t. Lesbókina, og ritaði fasta pistla. Umhverfis- og menningar-mál voru henni hugleikinn. Frá 1989 til 2005 sat Hulda í stjórn Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins og var varaformaður stjórnar frá 1989 til 1995. 

Hulda var afkastamikil í þýðingarstörfum og verk hennar höfðu mikil áhrif. Hún þýddi barnasögur og leikrit, m.a. sögurnar um Bangsímonog leikritin Dýrin í Hálsaskógi, Kardemommubæinn og Karíus og Baktus,auk fleiri sígildra verka sem Helga systir hennar las í útvarpi.

Í foreldrahúsum lærði Hulda að pólitík gat verið harðvítug og orðið ágeng fjölskyldulífinu. En hún brást vel við kalli til starfa í borgarmálum þegar eftir var leitað. Hulda sat í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árunum 1982 til 1986. Og það er gaman að sjá mynd af fyrsta borgarstjórnarfundinum eftir kjörið. Hulda var í flottum kjól og bar af öllum að glæsileik. Umhverfis- og menningarmál voru Huldu hugleikin sem og málefni ungu kynslóðarinnar. Hún vildi að hagsmunir barna væru virtir og rödd þeirra fengi að hljóma. Hulda var formaður umhverfismálaráðs og fyrsti formaður menningarmálanefndar Reykjavíkur. Í þeim störfum tengdist hún mörgum erlendum gestum. Og Yoko Ono og Erró urðu vinir hennar sem og ýmsir umhverfisverndarsinnar. Hulda leit á þessa málaflokka hafna yfir flokkspólítík. Og það er merkilegt að sjá hve skeleggar greinar hennar voru um þau mál og hve ákveðið hún lyfti umræðu um stóru málin og siðferðisgildin á æðra plan.

Í uppvexti lærði Hulda að meta gildi skógræktar. Foreldrar hennar vildu klæða land og efla lýð. Hulda beitti sér í málefnum skógræktar og var formaður Skógræktarfélags Íslands frá 1981 til 1999. Hún var einnig formaður framkvæmdanefndar um landgræðsluskógaátakið Ár trésins, sat í stjórn Landgræðslusjóðs og í stjórn Rannsóknarstöðvarinnar á Mógilsá. Hulda var heiðursfélagi Skógræktarfélags Íslands og Skógræktarfélags Reykjavíkur. Hún var sæmd stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf að skógræktarmálum. Í öllum störfum og stjórnum var Hulda styrk, velviljuð og framfarasinnuð.

Gunnar og fjölskyldan

Svo var það Gunnar Hansson. Hann var á leið austur Laufásveginn, hafði fengið bíl lánaðan og var á rúntinum. Gunnar var með glöggt auga, sá glæsilega unga menntaskólastúlku ganga vestur Laufásveginn. Og hann var snöggur, tók u-beygju og sveigði upp að gangstéttinni þar sem Hulda var. Renndi rúðunni niður og sagði: „Going my way?“ Hulda hafði húmor fyrir svona öflugum herramanni, settist inn í bílinn – og hann ók hennar leið. „Going my way!“ Síðan var hans vegur hennar vegur og hennar leið hans leið. Þau áttu erindi saman allt lífið. Þau voru bráðung er þau kynntust en ástin logaði og lifði. Gunnar fór vestur um haf til að læra arkitektúr enda var ekki annað í boði á stríðsárunum en Ameríkuför. Þau settu upp hringana í sitt hvorri heimsálfuni og kunnu alveg að stilla klukkurnar – en uppsetningarhátturinn var skondinn. Svo kom Gunnar til baka þegar hann hafði lokið áfanganum sem hann ætlaði sér. Þau Hulda gengu í hjónaband, hann fékk vinnu í sínu fagi og hún vann á Morgunblaðinu. En svo vildu þau fara utan saman og Gunnar vildi bæta við sig. Þau voru í Kaupmannahöfn um tíma og síðar í Þrándheimi í tvö ár. Gunnar stúderaði, Hulda sá um ungviði og kynnti sér norræna menningu, viðmið, skógrækt og umhverfisvitund ytra. Hún fór heim og Gunnar varð eftir, lauk náminu og kom svo.

Hulda og Gunnar eignuðust þrjár dætur: Kristínu, Helgu og Hildigunni. Hulda lætur einnig eftir sig tvo tengdasyni, Michael Dal, eiginmann Helgu og Ásgeir Haraldsson, eiginmann Hildigunnar, en eiginmaður Kristínar var Stefán Pétur Eggertsson og lést árið 2013. Barnabörnin eru sex; Hulda, Gunnar, Eggert, Eva Kristín, Gunnar Steinn og Ragnheiður Steinunn. Langömmubörnin eru fimm; Stefán, Pétur, Steinunn Hildur, Jón Grétar og Birkir Michael. Mikill samgangur var einnig við börn Helgu – Kjartan, Kristín, Stefán og Björn voru heimagangar í Sólheimum.

Þau Hulda og Gunnar héldu saman veg lífsins. Það var jafnræði með þeim. Þau voru samrýmd, töluðu og hlógu saman. Þau deildu áhugamálum, náttúru Íslands, fjölmiðlun, menningarmálum og laxveiðar. Þau ferðuðust víða og veiddu saman.  Gunnari þótti nóg um hve fiskin Hulda var og hélt fram að hún þyrfti ekki annað en skrúfa frá krana þá væri kominn lax á færi hjá henni! En hann lagaði maðkinn fyrir Huldu sína – og taldi ekki eftir sér. Gunnar lést fyrir aldur fram árið 1989.

Minningarnar

Hvaða minningar koma upp í huga þinn þegar þú minnist Huldu. Manstu brosið hennar? Hvernig hún horfði á þig og fólk? Manstu hve vel hún las átök og hve laginn hún var að leysa hnúta? Manstu að hún var varkár? Kvaddi hún þig einhvern tíma og bað þig að fara varlega? Manstu að Hulda vildi gjarnan, að fólk hefði skoðun, þyrði að tjá hana og tæki sér stöðu í baráttumálum? En hún vildi þó ekki að neinn byggði sitt mál á sleggjudómum eða hæpnum forsendum. Manstu hve vel Hulda mat börn og að hagur þeirra væri metinn? Manstu eftir Huldu í landgræðsluferð upp á hálendi Íslands? Fórstu einhvern tíma á menningarviðburð með henni – jafnvel til að hlusta á Derrida? Manstu gæða- og gæsku-siðfræði og mannsýn Huldu?

Skil og eilífð

Og nú er komið að skilum. Hulda skrifar ekki framar á Olivetti-ritvélina sína kraftmikinn pistil um náttúrvernd, menningarverðmæti eða mikilvægi listar. Hún þýðir ekki framar erlend gæðastykki fyrir íslenskar fjalir. Hún tekur ekki þátt í annarri bylgju skógræktar á íslandi, kolefnisbindingarbylgjunni. Hún les ekki framar Kierkegård og spáir hvernig tilvistarspekin rann inn í afbyggingaraðferð póst-modernismans. Hún býður ekki framar erlenda listamenn velkomna inn í menningarheim Íslendinga. Eða laumar að okkur, að enginn viti hvað býflugurnar hugsa! Hún gefur ekki pólitíkinni framar mennska ásýnd, hlý augu og góða dómgreind. Hún brosir ekki framar við börnum fjölskyldunnar, blómum vallarins, fiskfullum veiðihyl eða birtu daganna. Hún er farin inn í ljósheim eilífðar. Sólheimarnir eru enn til, minningarnar varpa birtu yfir líf okkar hinna. Hulda var alls staðar, hafði mikil áhrif. En svo heldur lífið áfram. Guð er alls staðar og Hulda er engill þess lífmagns. Og það er svo okkar að lifa vel, varðveita gildin, berjast fyrir öllu því mikla og góða sem Hulda vissi að skipti máli. „Dvel ég í draumahöll og dagana lofa … “ Guð geymi Huldu Steinunni dóttur Valtýs og Kristínar. Guð geymi ykkur öll og styrki.

Amen.

Útför frá Dómkirkjunni 16. maí kl. 13. Jarðsett í Fossvogskirkjugarði. Erfidrykkja í Iðnó.

Ágrip

Foreldrar Huldu voru Valtýr Stefánsson, ritstjóri Morgunblaðsins og Kristín Jónsdóttir, listmálari. Systir Huldu var Helga, leikkona, d. 1968. Hulda giftist 27. júlí 1946 Gunnari Hanssyni, arkitekt, f. 19. febrúar 1925, d. 6. janúar 1989. Foreldrar Gunnars voru Hans Þórðarson, stórkaupmaður, og Guðrún Sveinsdóttir, húsfreyja, í Reykjavík. Hulda og Gunnar bjuggu að Sólheimum 5, í húsi sem Gunnar teiknaði. Þau eignuðust þrjár dætur. Þær eru: 1) Kristín, f. 4. mars 1947. Hennar maður var Stefán Pétur Eggertsson, d. 8. janúar 2013. Þeirra börn eru: Hulda, f. 1972, gift Pétri Þ. Óskarssyni. Börn þeirra eru Stefán, f. 2002, og Steinunn Hildur, f. 2007. Dóttir Péturs er Aðalheiður Ósk, f.1993. Gunnar, f. 1976, kvæntur Örnu Björk Jónsdóttur. Þeirra synir eru Pétur, f. 2007, og Jón Grétar, f. 2010. Eggert, f. 1977, kvæntur Anabel Baxter. 2) Helga, f. 31. ágúst 1953. Hennar maður er Michael Dal. Dóttir þeirra er Eva Kristín, f.1985, gift Atla Erni Sverrissyni. Þeirra sonur er Birkir Michael, f. 2015. 3) Hildigunnur, f. 18. apríl 1957. Hennar maður er Ásgeir Haraldsson. Þeirra börn eru: Gunnar Steinn, f. 1986, sambýliskona hans er Sara Sigurlásdóttir. Ragnheiður Steinunn, f. 1990, sambýlismaður hennar er Brynjar Þór Guðbjörnsson. Dóttir Ásgeirs er Tinna Laufey, f.1975, gift Sigurði Gylfa Magnússyni. Hennar sonur er Pétur Bjarni Einarsson, f.  2002.

[1]Aðalsteinn Ingólfsson skrifaði um list og æfi Kristínar Jónsdóttur og gerir grein fyrir upphafi, bernskuheimili hennar í Arnarnesi, fjölskyldubrag og heimilislífi, tengslum við Möðruvallaheimilið og síðan menntun Kristínar heima og erlendis. Svo skrifar hann ítarlega um list hennar. Bókin gefur gott samhengi fyrir list og líf Kristínar og tengir vel við bók Jakobs F. Ásgeirssonar um Valtý Stefánsson. Það er mjög ítarleg og vönduð heimildavinna sem Jakob hefur unnið. Ég á Aðalsteini og Jakobi þökk að gjalda fyrir þeirra merku rit sem ríma ágætlega.

[2]Frá þessu segir Jakob F. Ásgeirsson mjög skemmtilega í bókinni um Valtý Stefánsson.

+ Inga Jóelsdóttir +

Við erum komin saman til að kveðja Ingu – og þakka fyrir líf hennar,gott líf. Hún var kærleiksríkur og umhyggjusamur kvenskörungur. Hún fagnaði fólki, lífi og láni. Við þessi skil getum við þakkað – eins og eitt barna hennar sagði: Við getum þakkað fyrir gott líf hennar. Og við megum gjarnan lifa í þakklæti fyrir það sem við fáum að njóta. Lífið er fullt af undrum Skaparans sem gefur veröld – og líf. Okkar er að bregðast við og bera okkar ávexti í lífinu. Inga tók á móti því sem henni var rétt, vann fallega úr, bar ríkulega ávexti á langri ævi. Við þökkum og megum leyfa því sem Inga var og tjáði okkur að hvetja okkur til að lifa vel.

Fjölskylda og upphaf

Inga fæddist á Stokkseyri 24. apríl árið 1922. Foreldrar hennar voru Guðríður Ingvarsdóttir og Jóel Jónasson, bæði Árnesingar. Þau eignuðust fimm börn. Inga var elst og svo komu Ásgeir, Jóel Bachman, Guðríður og Jónasína. Þau eru nú öll látin, og sú elsta fór síðust inn í heiðríkju himinsins.

Guðríður og Jóel, foreldrar Ingu, héldu sig við ströndina. Þau fluttu frá Stokkseyri og í Leiruna suður með sjó. Mamman sá um heimilireksturinn og pabbinn var útvegsbóndi og sinnti ýmsum öðrum störfum og var m.a. kyndari á skipum. Inga ólst upp við stóran himinn, stórt land og stórt haf. Hún lærði á hinar miklu víddir. Þegar hún hóf skólagöngu voru engir skólabílar til að létta börnunum lífið. Inga gekk fimn kílómetra leið yfir móa og mela í skóla í Garði í Gerðum. Engu skipti hvort það var í blíðu eða stríðum stórviðrum – börnin fóru í skóla. Og auðvitað óku stundum bílar á milli og börnin lærðu fljótt að greina á milli hvort það væru góðu mennirnir eða hinir sem fóru hjá. Því góðu mennirnir leyfðu göngugörpunum að fljóta með, tóku þau upp í og óku þeim áleiðis.

Inga lærði snemma að lesa og var til fyrirmyndar í námi og tengslum. Þær voru nánar móðir hennar og hún. Mamman treysti henni og meðal annars ábyrgð á stækkandi systkinahóp. Hún var elsta barnið alla tíð og getan og kunnáttan skilaði sér í rekstri heimilis þeirra Björns síðar meir. Inga var vön að gera gagn og fór fljótt að vinna fyrir sér og sínum utan heimilis. Hún var um tíma í Keflavík en fór svo til Reykjavíkur og bjó á Hverfisgötu.

Björn og hjúskapurinn

Svo var það Björn Guðjónsson. Saga Ingu og Bjössa var og er hrífandi saga. Þau hittust á rúntinum í Austurstræti árið 1940. Vinkonur voru þar á ferð á jóladag og Björn og vinur hans voru úti að aka, en höfðu þó augun hjá sér! Þeir sáu dömurnar, buðu þeim í bíltúr og ferðin endaði í húsi við Tjarnargötu. Þar kom í ljós, að Björn og Inga höfðu líkan smekk. Þegar ávaxtaskálin fór hringinn sá Inga appelsínu, sem hana langaði í, en Björn var á undan. Hann var alla tíð snöggur, glöggur og gamansamaur. Hann sá auðvitað löngunartillit hennar og valdi appelsínuna, sem hún vildi.

En dýpri rökin voru, að Björn vildi sama og Inga. Hans viðmið voru hin sömu og hennar. Inga varð hans appelsínustelpa. Hann varð ekki aðeins jólabjörninn hennar, heldur heldur jólagjöf fyrir lífið. Og alla tíð vissi hann að besti maturinn var heima – hjá henni Ingu hans. Í Ingu átti hann sálufélaga.

Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá – var slagorð Silla og Valda í Austurstrætinu. Þessi biblíuorð úr Fjallræðu Jesú áttu líka við unga parið. Appelsínan varð til að Inga kom á þann reit, sem Björn vissi bestan í veröldinni, Grímsstaðaholtið og Ægisíðu. Þau gengu í hjónaband 11. desember 1942 – tæplega tveimur árum eftir appelsínuviðburðinn – og nutu hjúskapar næstu 66 árin – eða þar til Björn lést 30. nóvember árið 2008. Þeirra saga var gæfusaga. Þau voru gott par, góð hjón og báru djúpa virðingu fyrir hvoru öðru, tóku tillit til hins, skoðana, hugðarefna og gleðiefna. Á heimili þeirra átti hamingjan heima. Og við megum gjarnan hugsa um hvað þau gerðu í samskiptum til að rækta gleði og lán daganna. Þegar þau greindi á gerðu þau upp sín mál og sólin settist ekki á ágreining þeirra. Hjúskapur þeirra var hreinskiptin og gleðilegur. Og börnin þeirra höfðu það veganesti í eigin hjúskap og fjölskyldulíf.

Inga og Björn bjuggu fyrst á Bjarnastöðum, en byggðu síðan með Geir Zoega og Sigríði Einarsdóttur húsið á Ægisíðu 66. Þau fluttu inn fyrir jólin árið 1956 og þar bjuggu þau Inga síðan og með sama fólki alla tíð. Í nágrenninu var móðir Björns og í einum kofanum við vörina fiðurfé hennar, sem er okkur nærbýlingum eftirminnilegt, ekki síst Pekingendurnar.

Þau Björn og Inga nutu barnsældar og barnaláns. Þau eignuðust fimm börn. Þorvarður Ellert var elstur og hans kona Steingerður Steindórsdóttir. Þorvarður lést í desember 2013. Fyrri maki hans var Hrafnhildur Marinósdóttir. Næst í barnaröð Ingu og Björns var Sigrún Björk og hennar maður er Örlygur Sigurðsson. Guðrún Gerður var þriðja og hennar maður er Jóhann Hafþór Þórarinsson, fyrri maki hennar var Þórður Eiríksson. Langsíðastir og eiginlega í seinni hálfleik barneigna komu svo Guðjón Jóel og Ásgeir. Kona Guðjóns er Helena Þuríður Karlsdóttir og kona Ásgeirs er Kristín Jónsdóttir.Inga og Björn vissu að þau voru lukkufólk. Afkomendur þeirra eru 41 og Inga talaði opinskátt um barnlán sitt og fjölskyldugleði sína.

Þegar saman fer elskusemi og hæfni til uppeldis er vel. Heimilið var ríki Ingu. Hún bjó ekki aðeins börnum sínum og bónda öruggt skjól heldur einnig systkinum sínum, stórfjölskyldu og vinum. Allir voru alltaf velkomnir á heimili hennar. Alltaf bakaði Inga fyrir helgarnar, enginn gerði boð á undan sér og öllum voru opnar dyr. Svo var allt til enda. Fólkið þeirra Ingu sótti á heimilið við Ægisíðuna og barnabörn og afkomendur lærðu leiðina til þerra Ingu. Hún var límið í fjölskyldunni. Móðir hennar lést fyrir aldur fram árið 1957. Fráfall hennar var Ingu mikið áfall en hún stækkaði kærleiksfangið og gætti stórfjölskyldunnar.

Þegar börnin Ingu uxu úr grasi og um hægðist fór hún að vinna utan heimilis að nýju. Alls staðar var hún vel liðin og metin. Um tíma vann hún í greiningarstöðinni í Kjarvalshúsinu á Seltjarnarnesi og um tíma í mötuneyti á Raunó, Raunvísindastofnun Háskóskólans. Það voru allir ánægðir með grjónagrautinn hennar Ingu og þó fólk reyndi að líkja eftir og setti í vellinginn smjör og vanilludropa náðist aldrei hennar bragð. Inga kunni slow foodog sousvidesíns tíma og eldaði með kærleika.

Minningarnar

Hvernig manstu Ingu? Manstu tillitið hennar? Manstu hvernig saltfiskurinn entist hjá henni? Hún bara bætti fiski í pottinn ef fleiri komu en hún hafði upprunalega búist við. Manstu félagshæfni hennar? Manstu hve hún hafði gaman að ferðast, innan lands og utan? Og manstu ljóðaáhuga hennar? Hún meira að segja sótti ljóðanámskeið og las ljóð listavel fyrir margmenni. Skáldin hennar Ingu voru Jónas, Einar Ben, Davíð og svo var henni hugstæður Guðmundur skólaskáld.

Inga var varkár með eld í lífinu. Alla tíð þótti henni erfitt að horfa á brennurnar á gamlárskvöldi. Ástæðan var að fjölskylda hennar missti heimili sitt í bruna. Inga var tíu ára þegar Bakkakotshúsið í Leiru brann til grunna. Hún hafði farið inn í Keflavík með móður sinni og þegar þær komu til baka stóð fjölskyldan úti við brennandi húsið. Pabbinn hafði stokkið inn í eldinn til að tryggja að allir væru komnir út. Húsbruninn og heimilismissirinn var mikið áfall, fjárhagslega og tilfinningalega. Eldurinn settist í sál Ingu og hún gætti æ síðan vel að því að tryggt væri að eldur næði ekki að kveikja út frá sér. Húslaus fjölskylda Ingu reyndi síðan að gott fólk var tilbúið að veita þeim húsaskjól. Inga mótaðist af þessari lífsreynslu og hennar hús var ætíð opið öllum þeim er þurftu skjól, hjartahlýju og næringu. Í því sem öðru voru þau Inga og Bjössi samstiga.

Manstu hve Inga hafði góða stjórn á sjálfri sér, verkum sínum og heimili. Hún smitaði reglusemi sinni til síns fólks. Hún var kát og félagslynd og reglusöm. Hún reyndi aðeins einu sinni að keyra bíl – og það fór nærri því illa. Hún vildi ekki gera neinum skaða og valda slysum. Björn, bóndi hennar, gantaðist með að hann hefði nú misst margan sopan því Inga hafði ekki bílpróf! Börnin hennar Ingu nutu festu hennar og öryggis. Inga hvatti börnin sín til menntunar og dáða í lífinu.

Inga var fólkinu sínu fyrirmynd – líka um hvernig vinna má með áföll og bregðast við þeim. Hún fékk krabbamein fyrir tuttugu árum. Tók vandanum með æðruleysi og komst frá þeim hildarleik. Hennar stíll var ekki að gefast upp heldur mæta hinu mótstæða með skapstillingu. Og hún tapaði ekki húmornum. Þó hún þyrfti að gæta að fæði sínu vegna blóðsykurs og blóðfitu stakk hún gafli sínum í feitan kjötbita og sagði með glettni í augum: „Úr einhverju verður maður nú að deyja!“

Inga naut langrar æfi. Hún var elst í systkinahópnum en lést síðust syskinanna. Langt líf er ekki sjálfgefið og Inga lifði hátt í öld. Það er þakkarvert. Síðustu tvö árin bjó hún á Grund við Hringbraut. Hún flutti ekki dótið sitt þangað því hún var eiginlega alltaf á leiðinni heim á Ægisíðu. Ástvinir þakka fyrir umhyggju starfsfólksins á Grund.

Nú kemur Inga ekki framar heim í Ægisíðu 66. Inga verður lögð til hinstu hvílu í Gufuneskirkjugarði. Þar eru leiði manns hennar og sonar. Nú er Inga farin inn í himininn til fundar við þá. Hún var trúuð og má fagna með sínum í heiðríkjunni þar sem allt er gott. Hún þarf ekki að velja appelsínuna á undan Bjössa því þau verða samstillt efra – eins og á ströndinni við Skerjafjörð. Þar verður allt gott. Himininn stór, hafið ljúft og strönd eilífðar er góð Ægisíða.

Guð geymi Ingu og Guð geymi þig.
Amen

Minningarorð í Neskirkju 16. mars 2018. Kistulagning kl. 9,30 og útför kl. 11. Erfidrykkja var í safnaðarheimili kirkjunnar. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

Æfiágrip

Inga Jóelsdóttir fæddist á Stokkseyri 24. apr. 1924. Hún lést 3. mars síðasliðinn á nítugasta og sjötta aldurári. Foreldrar hennar voru hjónin Guðríður Ingvarsdóttir( f. Stokkseyri 30.apr. 1900 dáinn í Keflavík 2. júlí 1957) og Jóel Jónasson (f. í Hákoti í Flóa 12. sept. 1894 d. í Rvík. 8. júní 1988) bændur í Bakkakoti í Leiru og síðar í Kötluhóli í sömu sveit en bæði voru ættuð úr Árnessýslu. Inga fluttist ung með foreldrum sínum til Reykjavíkur á Hverfisgötu100A og myndaði við það fólk ævilöng vinatengsl. Þaðan fluttist litla fjölskyldan suður í Leiru og ólst hún þar upp ásamt systkinum sínum. Hún var elst á eftir komu Ásgeir, Jóel Bachmann, Guðríður og Jónasína, öll látin. Hún gekk í Gerðaskóla, fimm km leið, og lauk barnaprófi þaðan. Hún var í vist í Keflavík og þar gekk hún í kvöldskóla svo tók skóli lífsins við og ýmiss konar námsskeið. Hún kom til Reykjavíkur, dvaldi hjá föðurbróður sínum  og fór að vinna á Kleppsspítala. Á þeim tíma kynntist hún mannsefni sínu sem var Björn Guðjónsson  f. 11.11 1921 d. 30. nóv. 2008 sonur hjónanna Guðrúna V. Guðjónsdóttur og Guðjóns Bjarnasonar. Þau giftu sig 11. des. 1942 og hófu búskap á Bjarnastöðum á Grímsstaðaholti og byggðu svo á Ægisíðu 66 og bjuggu þar æ síðan.

Börn þeirra 1) Þorvarður Ellert f. 5. mars 1943 d. 18. des. 2013.

 Eftirlifand maki Steingerður Steindórssdóttir.

Fyrri  maki Hrafnhildur Marinósdóttir d. 1986

Sigrún Björk f. 21. des 1945, maki Örlygur Sigurðsson

Guðrún Gerður f. 31maí 1947 sambýlismaður Jóhann Þórarinsson

Fyrri maki Þórður Eiríksson d. 2000

Guðjón Jóel f. 10. febr. 1959, maki Helena Þuríður Karlsdóttir

Ásgeir f. 25 mars 1960, maki Kristín Jónsdóttir

Barnabörnin eru tólf, langömmubörnin tuttugu og eitt og þrjú langalangömmubörn.

Helga Guðmundsdóttir +

„Og svo dönsum við dátt þá er gaman meðan dagur í austrinu rís. Og svo leiðumst við syngjandi saman út í sumarsins paradís.“

Þeir eru fallegir verðlaunaskildirnir sem Helga fékk fyrir dans. Og hún var góður og alhliða dansari. Hún kunni vel samkvæmisdansa og fékk verðlaun fyrir. Og svo voru suður-amerísku dansarnir. Hún kunni cha cha cha, rúmbu, samba og salsa. En svo kunni Helga líka tango sem er ekki á allra færi að útfæra með stæl. En hún fór yfir dansgólfið með þokka og lagði sitt til dansstjórnarinnar. Það þarf fimi, tilfinningu, góða líkamsvitund og vilja til að dansa vel. Helga hafði í sér getuna til að æfa sporin, þola æfingarnar og opna tilveruna fyrir takti, sveiflum, hljómum og öllum hinum sem voru á gólfinu. Og hún hélt áfram að bæta við og hafði gaman af ýmsum dansstílum, líka línudans, dansinum sem gengur víða undir nafninu square dance. Helga var m.a.s. í hópi sem dansaði þennan skemmtilega dans í kvikmyndinni Fúsi. Hún á sér því líka framhaldslíf í heimi kvikmynda.

Dans í lífinu. Líf með hreyfingu, líkamsfærni, fegurð hreyfingar, samstilling margra á stóru sviði fótmenntarinnar. Dans er eins og tákn fyrir allt hið fjölþætta sem við menn gerum. Við erum einstaklingar í hóp. Við verðum að taka tillit til annarra svo við hvorki rekumst á eða stígum ofan á tær eða fætur annarra. Það er eittvað heillandi við hinar öguðu hreyfingar og samhæfingu allrar manneskjunnar í flæði fjöldans. Við erum ekki aðeins stór efnishlunkur heldur verur margra vídda, með heyrn, sjón, tilfinningar og útlimi sem þarfnast samhæfingar. En svo eru alltaf einhver mörk á takti, rými, möguleikum, skynjun og færni. Hvað svo? Hvað er meira, hver er merking alls þess sem við gerum, erum, iðjum og hugsum? Þar mætum við stóru spurningum lífsins.

Jesús svaraði spurningum Tómasar um veginn og lífsferðina: „Ég er vegurinn sannleikurinn og lífið.“ Þar var taktur lífsins skilgreindur, samhengi og hvernig má vera og lifa. Vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Ævistiklur

Helga var fædd í Reykjavík 23. febrúar árið 1942. Hún var eina barn hjónanna Guðrúnar Guðmundsdóttur (1920 – 2003) og Guðmundar Gestssonar (1914-93). Mamman var af Snæfellsnesi, frá Efri-Hlíð í Helgafellssveit, en pabbinn frá Miðdalskoti í Kjós. Móðir Helgu var heimavinnandi og Guðmundur var bifreiðastjóri. Helga átti annað nafn framan við Helgunafnið. Hún var nefnd og skírð Sigríður Helga en notaði Helgunafnið.

Helga var Reykjavíkurdama. Hún ólst upp í foreldrahúsum í Skipasundi, sem þá var líflegt og barnmargt úthverfi Reykjavíkur. Síðar fluttu þau í Hlíðargerði í Smáíbúðahverfi og þar var Helga á unglingsárunum. Helga bjó í foreldrahúsum við skýran og ákveðinn aga. Helgu gekk vel í skóla enda vel gerð, vel gefin, iðjusöm og ákveðin. Þegar hún hafði lokið skólagöngu fór hún að svipast um eftir vinnu. Að ráði varð að hún réðist til Mjölkursamsölunnar. Hún vissi að þar væri góður vinnumórall því faðir hennar vann hjá fyrirtækinu. Helgu leið vel á vinnustað og Mjólkursamsalan var vinnustaður hennar í mörg ár. Vinnufélagarnir voru glaðværir og gott samstarfsfólk. En svo langaði Helgu að breyta til og fór til sælgætisgerðarinnar Nóa-Síríus. Þar vann hún síðan í nokkur ár. Eftir það lá leið hennar aftur til baka til Mjólkursamsölunnar og vann m.a. lengi í ísgerð Samsölunnar. Helga vann svo á síðari árum einnig við þrif á skólahúsnæði Framtíðarinnar sem heitir Framvegis, miðstöð símenntunar.

Svo kom Guðmundur Vilbergsson hlaupandi inn í líf Helgu. Hún hafði farið með Þóru, vinkonu sinni á ball í bænum og þær voru á leið heim. Þær ætluðu að ná í leigubíl og sáu bíl álengdar í miðbænum. En svo vildi til að Guðmundur og Eggert Ólafsson, vinur hans, höfðu líka verið á balli og voru á heimleið. Og Guðmundur tók á rás til að ná leigubílnum og Eggert kom skokkandi á eftir. Svo þegar Guðmundur var búinn að festa sér bílinn komu stúlkurnar  – fremur brúnaþungar yfir þessum skorti á herramensku þeirra félaga. En á henni var þó enginn þurrð því þeir buðu dömunum að láta aka þeim heim. Og bílferðin var skemmtileg, þær heilluðust og létti reiðin yfir Guðmundarhlaupinu. Þær gerðu sér grein fyrir að þessum körlum var ekki alls varnað. Og svo urðu þau vinir, síðan pör og svo hjón.

Guðmundur var glæsilegur tveggja metra maður. Þau Helga voru flott par, bæði hávaxin og vel að manni. Þau gengu í hjónaband 11. apríl árið 1970. Guðmundur var rafvélavirkjameistari og rak með bræðrum sínum fyrirtækin Segul og Skipaljós. Þau Helga og Guðmundur bjuggu fyrstu árin í Vesturbænum, á Kaplaskjólsvegi og héldu svo enn vestar og keyptu hús á Bollagörðum á Seltjarnarnesi. Helga bjó þeim Guðmundi stílhreint og fagurt heimili. Síðar, þegar Helga var orðin ekkja, flutti hún í Tjarnarmýri, sem er líka á Nesinu. Og síðustu árin bjó hún við Dalbraut. Þeim Helgu og Guðmundi varð ekki barna auðið, en fyrir hjónaband átti Guðmundur einn son, Hans Vilberg.

Þau Helga og Guðmundur studdu hvort annað, fóru víða, höfðu ánægju af ferðalögum innan lands sem utan. Þau nutu samvistanna við fólkið þeirra. Helga hafði samband við ættmenni sín. Og svo fór hún með Guðmundi sínum í margar ferðir norður á Skaga. Þar áttu Guðmundur og bræður hans jörðina Foss í Skefilsstaðahreppi, stunduðu þar veiðar og nutu unaðar norðlenskrar sumarbirtu og fagnaðar stórfjölskyldunnar. Bræður Guðmundar og fjölskyldur þeirra urðu Helgu mikilvægir. Þökk sé þeim, frænkum og ættmennum Helgu, sem og vinum þeirra fyrir alúð þeirra í garð Helgu fyrr og síðar – ekki síst þegar hún var orðin ekkja. Guðmundur var vinamargur og Helgu lét vel að vera með vinum hans og taka þátt í félagslífinu sem þeim tengdist. Guðmundur varð fyrir heilablóðfalli á miðjum aldri og féll frá fyrir 23 árum, eftir alvarleg veikindi. Fráfall hans var æviskuggi Helgu síðan. Ljósið féll aldrei yfir allan skuggann. 

Minningarnar um Helgu

Og svo eru minningarnar. Hvernig manstu Helgu? Sástu hana dansa? Manstu fatastílinn hennar Helgu? Manstu að hún hugsaði vel um móður sína sem bjó hjá henni síðustu árin? Og vissir þú að hún var náin föður sínum? Manstu hve umtalsfróm Helga var? En hún gat líka alveg sagt skoðun sína? Hún hafði skýrar hugmyndir um margt og sagði óhikað hug sinn ef sá gállinn var á henni: „Ég hefði nú haft þetta öðru vísi.“ Helga hafði áhuga á fólki og spurði um hagi þess og hvað væri að frétta ef hún átti tal við ættingja. Hún fylgdist vel með og hafði jafnan góða yfirsýn varðandi ættfólk sitt. En svo var Helga einnig hlédræg um eigin líðan og hugsanir og fáir áttu greiða leið að innstu tilfinningum hennar eða þönkum. Hún var tengd en líka utan seilingar. Það kom einnig fram í félagstengslum hennar. Hún vildi ekki lokast inni eða vera lengi á hverjum stað. Best lét henni að stjórna eigin ferðum, geta verið ef henni þótti svo, en geta líka farið af stað ef hún fékk útþrá. Helga var sjálfstæð, gat alveg dansað í takt við alla í kringum sig. En hún vildi líka geta ákveðið sinn eigin danstakt, farið sinna eigin ferða, verið eins og hún vildi. Hún var sjálfstæð, þorði, gat og vildi.

Manstu spilakonuna Helgu? Hún hafði mikla ánægju af spilamennsku. Hún var öflugur vistspilari og sótti gjarnan þangað sem fólk kom saman til að spila. Og félagsvistin var góð félagsleg viðbót við dansinn og reyndi vel á heilann. Það þarf útsjónarsemi, félagslegt innsæi og snerpu til að vera leikinn vistspilari.

Og manstu að hún vildi hafa líf sitt og fjármál á hreinu og í góðri reglu? Og manstu hvað hún gat hlustað vel? Manstu hve Helga hafði gaman af að klæða sig upp?

Himininn

En nú er Helga farin. Hún fær sér ekki framar nýjan bíl sem örugglega hefur varadekk. Hún ekur ekki hingað og þangað til að hitta sitt fólk. Hún dansar ekki línudans í kvikmynd og gerir enga slemmu framar. 23 ára aðskilnaði þeirra Guðmundar er lokið. Vegurinn, sannleikurinn og lífið – og himininn er opinn. Nú hefur Helga dansað veginn inn í eilífðina – til fundar við fólkið sem hún elskaði. Henni er fagnað og boðið strax á stóra dansgólf himinsins. Nú sveiflast hún í tangó eilífðar með Guðmundi sínum. Og það er gott. „Og svo leiðumst við syngjandi saman út í sumarsins paradís.“

Guð geymi Helgu og Guð geymi þig.

Amen.

Björk og Jón Arnar geta ekki verið við þessa útför og hafa beðið fyrir kveðjur til ykkar sem hér eruð í dag og kveðjið Helgu.

Minningarorð við útför Helgu í Fossvogskirkju 8. desember, 2017. Kistulagning og útför sama dag. Erfidrykkja í Perlunni. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði.

+ Magnús Jóhannsson +

Hvað fannst þér eftirminnilegast við Magnús Jóhannsson? Er það, sem hann gerði eða sagði? Áttu þér minningu um hann, sem hefur orðið þér svo mikils virði að þú hefur þroskast eða breytt einhverju í þínu lífi? Magnús umgekkst marga og hafði áhrif á líf fjölda fólks.

Brunnlokin

Sagan af brunnlokunum varð mér skilningslykill að mörgu í lífi Magnúsar. Og hvernig var sú saga? Magnús var alltaf með augun opin, fylgdist með þróun samfélagins, hlustaði á fréttir, fylgdist með verktakabransanum og hverjir gerðu hvað. Hann hafði tekið þátt í eða séð um margar stórframkvæmdir og vissi hverjir sáu um gerð holræsa og hvað mátti bæta. Svo kom auglýsing um útboð á brunnlokum. Og þar sem Magnús var sérfræðingur í holræsum – og hafði að fenginni reynslu miklar skoðanir á lokum þeirra – ,hugsaði hann hratt. Gat þetta verið raunverulegt útboð eða var það lagað að þörfum einhvers innflytjanda eða framleiðanda? Magnúsi sýndist að tímaramminn sem var gefinn í útboðinu, gæti verið nægur til að hann gæti lagt inn tilboð. Svo fór hann á netið, fann framleiðendur erlendis og hafði samband þá. Þegar hann hafði náð tengslum voru teikningar sendar út og svarið var að hægt væri að búa til lokin og á verði sem væri innan marka.

Magnús var vanur að meta verkhluta og greina tímaþætti. Svo áætlaði hann kostnaðarliði og fann út hvað heildartilboð yrði að vera hátt til að hann greiðslan yrði yfir núllinu. Svo sendi hann sveitarfélaginu tilboð sitt. Og Magnús var kallaður á fund til að ræða málið. Trúin á að hann gæti klárað alla útboðsþætti var kannski ekki mikil hjá kaupendunum og hann var því spurður hvort hann gæti skilað þessum tilskylda fjölda brunnloka eftir skamman tíma. En Magnús var með sitt á þurru. Af því hann var svo snöggur að plana og panta voru lokin komin til landsins. Já, já, svaraði Magnús. Þau væru tilbúin og það væri hægt að afhenda þau strax! Ég hefði gjarnan viljað vera á skrifstofu útboðsaðilanna og sjá furðusvipinn á andlitum þeirra þegar þeir gerðu sér grein fyrir að tilboð Magnúsar var alvöru tilboð. Hann hafði skoðað allt, farið bestu leiðina, fengið góð lok og á betra verði en aðrir gátu boðið. Magnús fékk því samninginn og varð einn aðalinnflytjanda brunnloka í landinu. Mörg, kannski flest lokin, sem við sjáum eða ökum yfir eru komin frá fyrirtæki þeirra hjóna, Magnúsar og Lovísu. Brunnlok varð alvörufyrirtæki af því getan var mikil, snerpan og áræðið.

Þessi saga er lykilsaga. Góður útreikningur, dugur, hugrekki og framsýni – allt einkennandi fyrir Magnús. Og nú er hann farinn inn í himininn. Þar ræður Guð ríkjum, sem kann að reikna, lætur ekki bilanir heimsins trufla sig, er áræðinn, hefur góða reynslu af framtíðinni og gerir okkur mönnum ótrúlegt tilboð. Viljum við taka því eða ætlum við bara að taka verri tilboðum og svíkja sjálf okkur og sannleikann? Magnús ætlaðist til að heiðarleiki ríkti. Hann er okkur fyrirmynd. Guð gefur okkur möguleika. Okkar er að svar tilboðinu!

Æviágrip og upphaf

Magnús Jóhannsson var alinn upp í Ólafsvík, en hann fæddist reyndar á Siglufirði 19. júní árið 1941. Hann var sonur hjónanna Jennýjar Magnúsdóttur og Jóhanns Þorgilssonar. Þau voru bæði frá Ólafsvík. Magnús var elstur fimm systkina. Bræðurnir voru fjórir en ein systir. Systkini Magnúsar eru Þorgils, Brynja, Viðar og Guðmundur Bjarni. Brynja og Guðmundur lifa systkini sín.

Lífið í Ólafsvík var skemmtilegt, nóg við að vera og leikjamöguleikarnir miklir fyrir tápmikinn dreng eins og Magnús. Hann var hugmyndaríkur leiðtogi og kom því í verk sem honum þótti fýsilegt. Ef krökkunum í Víkinni datt í hug að fara á sjó, en höfðu enga fleytu, smíðuðu þau hana. En fullorðna fólkinu þótti vissara að fylgjast með. Magnús mótaðist af heimabyggð sinni, atvinnuháttum og menningu. Hann naut góðrar skólagöngu og fékk Passíusálma í verðlaun fyrir góða kristinfræðiþekkingu. Magnús var góður íþróttamaður, spretthlaupari, kúluvarpari og góður langstökkvari.

Magnús fór snemma að vinna og leggja til heimilis síns. Í fiskiplássinu Ólafsvík fór hann á sjó þegar færi gafst. Svo vann hann í frystihúsinu. En aksturinn átti hug Magnúsar. Jóhann, faðir hans, rak vörubíl. Og Magnús lærði að keyra áður en hann náði niður á pedalana og svo þegar hann var nægilega langur til var hann kominn á fullt í akstri. Hann var í bíl með föður sínum ungur og keyrði þegar þurfti. Meira var spurt um getu en aldur á vegunum á Snæfellsnesi! En svo þegar Magnús hafði aldur til fékk hann hið formlega ökupróf og hafði atvinnu af akstri í áratugi. Og til viðbótar við rekstur vörubíls kom svo vélaútgerð. Magnús átti margar vélar um dagana og hann keypti og seldi allt eftir þörfum hvers tíma og umfangs þeirra verkefna sem hann sinnti. Og við höfum þessa dásamlegu mynd í sálmaskránni af nokkrum af vélum Magnúsar – og hann er sjálfur næsta smár hjá stórtækjunum. En hann hafði fulla stjórn á tækjunum.

Hjúskapur og barnalán

Svo var það Lovísa Ólöf Guðmundsdóttir. Sumarið 1960 fór hún að vinna í Bjarkarlundi. Svo var haldið ball í Tjarnarlundi í Saurbænum. Nokkrir starfsmanna í Bjarkarlundi fengu frí og fóru til að dansa. En Lovísa, sem man að hún var í grænni peysu, dansaði ekki aðeins vals og ræl heldur fann manninn sinn. Magnús sá hana og hún hann. Svo kom hann svífandi, tók í hönd hennar og bauð henni upp. Hann var stefnufastur og vissi hvað hann vildi. Og Lovísa var varkár, skoðaði Ólsarann vel og notaði innsæið. Allt gekk upp. Þau dönsuðu sig til framtíðartengsla á þessu afdrifaríka balli í Saurbænum. Hún fór svo heim um kvöldið með stjörnur í augum og Magnús sveif heim með ástina í hjarta og símanúmer hennar á blaði. Svo hringdi hann í hana um haustið og þau hittust, sambandið byrjaði að fléttast. Svo ætlaði Magnús að koma suður um jólin. Og hann þurfti svo sannarlega að hafa fyrir að finna elskuna sína, því hann varð að ganga á undan rútunni yfir alla Fróðárheiði, svo dimmt var hríðarkófið! En alla leið komst hann og þau Lovísa settu upp hringana inn í herbergi hennar á æskuheimilinu í Keflavík. Svo komu þau fram og sýndu fingurgullin – og tengdaforeldrarnir fögnuðu. Magnús gekk síðan aldrei einn í hríðarkófum lífsins – þau gengu tvö saman – áttu alltaf stuðning í hvoru öðru.

Móðir Magnúsar veiktist um veturinn og hann skrifaði konuefni sínu og spurði hvort hún gæti komið til að bjarga heimilisrekstrinum í Ólafsvík. Lovísa fór vestur og þar með hófst hjúskapur þeirra og hefur staðið í meira en hálfa öld. Þau unnu líka saman, m.a. við Búlandshöfða þar sem hún sá um fæði fyrir vegagerðarmennina, en hann ók. Um tíma leigðu þau Magnús íbúð í Ólafsvík en svo ákváðu þau að flytja suður. Þau voru samstiga og komu sér upp húsnæði. Þau bjuggu í Kópavogi. En Magnús sá svo auglýsingu um hús og stóra landspildu á Hraðastöðum í Mosfellssveit. Hús og land freistuðu hans og hann gerði sér grein fyrir kostum þess að hafa pláss fyrir allar vélarnar heima við. Svo fóru þau og skoðuðu, Lovísa fór yfir alla þætti með honum og svo tóku þau stefnuna upp í sveit með barnahópinn sinn. Það var gæfuspor í lífi þeirra.

Og þau Magnús og Lovísa nutu barnaláns.

  1. Elstur er Guðmundur sem fæddist árið 1962. Guðmundur er bóndi í Káraneskoti í Kjós. Kona hans er Jóhanna Hreinsdóttir. Þau eiga Lovísu Ólöfu, Lísbet Dögg og Atla Snæ.
  2. Jenný fæddist árið 1965. Hún er ráðgjafi og maður hennar er Andrés Guðni Andrésson. Þau eiga þrjá syni: Magnús Óskar, Bergvin Gísla og Guðna Emil.
  3. Þriðji og yngstur barna Magnúsar og Lovísu er Benedikt Sævar. Hann fæddist árið 1971 og starfar sem tæknifræðingur. Kona hans er Sigrún Magnea Gunnarsdóttir. Þau eiga fjórar dætur. Þær eru Bergljót Soffía, Inga Birna, Freyja Dís og Lóa Mjöll.

Svo eru langaafabörn þeirra Magnúsar og Lovísu þrjú: Hrönn, Erna Jóhanna og Andrés Óskar.

Störf og verk

Magnús hafði löngum atvinnu af akstri og vélaútgerð. Hann bæði ók fyrir aðra og tók að sér alls konar verk, stór og smá. Víða kom Magnús við sögu. Margar götur og fráveitukerfi á suðvesturhorninu eru hans verk. En Magnús var meira en bílstjóri og vélamaður. Hann var stöðugt með augun opin fyrir nýjum möguleikum. Hann þorði að skoða tækifæri sem gáfust. Þau Lovísa stofnuðu rekstur um það sem þeim þótti fýsilegt. Magnús notaði þekkingu á vélum og kunnáttu við vélabreytingar til að þróa vélar, sem hann þurfti við smiðjur sem þau settu á fót.

Þar sem fjölskyldan átti oftast hesta gerði Magnús sér góða grein fyrir skeifum og notkun þeirra. Hann fékk hugmynd um kaldsmíðaðar skeifur og kom þeim í framleiðslu. Skeifurnar voru mikið notaðar vegna endingar. Þau seldu verksmiðjuna.

Þá stofnuðu og ráku þau hjón hellusteypu og notuðu vikur til gerðar á milliveggjahellum. Verksmiðjan var flutt í Gnúpverjahrepp og síðan seld.

Fyrirtækið um brunnlokin var svo það síðasta sem þau Magnús stofnuðu.

Minningarnar

Hvaða minningar áttu um Magnús? Manstu þolinmæði hans og skapstillingu? Manstu hvað hann gat verið þrautseigur við viðgerðir? Manstu hve gott yfirlit hann hafði við verk? Og manstu hve vélarnar entust hjá honum af því að hann fór vel með og hafði þrautþjálfað skynjun sína á hvað græjurnar þyldu og hvað mætti bjóða þeim? Manstu hve kjarkaður Magnús var, glöggur og útsjónarsamur? Manstu umhyggjusemi Magnúsar og að hann var alltaf viljugur til að styðja alla í fjölskyldu sinni ef honum fannst þörf á? Manstu hve örlátur hann var og bóngóður? Manstu persónustyrk hans, að hann gafst aldrei upp? Ræktaðu minningarnar um Magnús. Leyfðu þeim að næra vitund þína og líf. Og taktu mark á fyrirmyndinni Magnúsi. Vertu með vitund og vertu opinn fyrir framtíðinni.

Hin opna framtíð og himininn

Magnús og Lovísa keyptu landskika austur í Grímsnesi árið 2005. Þau vildu gjarnan skapa góða aðstöðu fyrir sig og sína. Magnús flutti tæki austur og fór að sinna landbótum, ýtti m.a. upp stórri skjólmön. Mönin sem hann ýtti upp er eins og spurningarmerki í laginu og svo stór að hún sést utan úr geimnum og á Google-map. Og innan hrings – við Magnúsartorgið – er góð aðstaða fyrir alla fjölskylduna og þar er bústaður þeirra Lovísu. Þessi aðstaða er ætluð fólkinu hans og er vitnisburður um vökula þjónustu við stórfjölskylduna. Magnús var stór í þjónustu sinni og verkum. Magnúsartorgið verður vitnisburður um þá opnu framtíð sem Magnús tók ávallt fagnandi. En nú er hann farinn og verkin hans og minningar lifa.
Magnús var trúaður og nú er hann farinn að skoða vegagerð, manir og brunnlok himins. Hann stofnar ekki fleiri fyrirtæki. Hann mun ekki búa til fjölnotaveiðitæki fyrir laxveiði á Íslandi eða aðrar nýjar græjur fyrir þessa veröld. Hann gaukar engu dýrmæti að þér framar til að tjá þér tilfinningar sínar eða afstöðu til þín. Magnús spilar ekki Aerosmith eða Eagles aftur í þessum heimi – eða Rachmaninov 2. Magnús átti margar vélar og bíla um ævina en kaupir ekki framar eða selur. Hann hefur látið af útgerð og hefur ráðið sig í útgerð á himnum þar sem ekkert bilar, allt gengur smurt og feilfrítt.

Guð geymi Magnús Jóhannsson – og Guð geymi þig.

Minningarorð í Mosfellskirkju, 22. nóvember, 2017. Jarðsett í Mosfellskirkjugarði. Erfidrykkja í safnaðarheimili Lágafellssóknar. Karlakór Kjalnesinga. Organisti Þórður Sigurðarson.

+ Valdimar Hergeirsson +

Valdimar samdi mörg próf um dagana og var snjall prófamaður. Prófin sem hann samdi voru erfið en réttlát. Þau voru þeirrar gerðar, að nemendur urðu að hafa glímt við námsefnið, þurftu að kunna til að geta svarað flestum spurningunum. Og í prófunum var jafnan einhver undraspurning utan rammans, sem Valdimar lagði oft mikið á sig að búa til. Spurning, sem krefðist kunnáttu í námsefninu en líka skapandi hugsunar. Til að svara reyndi á hvort nemendur gætu gert meira en bara beita reglum. Svarið krafðist ekki bara þekkingar heldur skilnings. Valdimar vildi skapandi huga. Plús-spurningin leiddi í ljós þekkingu, getu og snilld. Hún var gullspurningin.

Er það ekki góð skólastefna að kenna ekki aðeins staðreyndir heldur opna fólki dyr til þroska? Valdimar fór hratt yfir í tímum, en líka djúpt. Hann skerpti skussana, kom mikilli þekkingu til skila á stuttum tíma og vildi koma öllum til nokkurs þroska. Kennarinn miðlaði þekkingu, en vildi að hugur nýttist handverkinu. Valdimar vildi að hans fólk nýtti þekkinguna til lausnar í óséðum dæmum, þyrði að hugsa. Það er gott að læra vel en handan hins venjulega er vonarland snilldar og sköpunar. Greind er ekki aðeins að greina að – heldur greina það sem tengja má saman. Af hverju skyldi fólkið hans Valdimars þora og geta?

Við getum túlkað gullspurninguna sem vott um víddir í persónu og lífi Valdimars. Hann vildi gjarnan læra hið hagnýta, tileinka sér þekkingu en svo vildi hann bæta við, opna fyrir það sem gæti eflt, dýpkað og glatt. Þetta sjáum við í kennslu hans, menntunarafstöðu, skólastefnu og líka í einkalífi. Hann vildi halda því til haga sem væri nýtanlegt og gott, en líka skoða og endurskoða til að leyfa hinu nýja að verða og þroskast.

Það er góð afstaða í þessari samþættingu. Öll þiggjum við fjölmargt í arf en hræðumst stundum eða lokum á það sem gæti orðið til góðs. Við þörfnumst tengingar við það sem gefið er, en megum þora að opna huga, samfélag, vísindi, fræði, fjölskyldur og líf. Hefð og nýung eru góðar systur. Skipan og nýsköpun. Fræði og framtíð líka. Þekking er mikilvæg, en miklu betri er hún í góðri sambúð við viskuna. Og þá erum við komin inn á svið mannsýnar klassískrar kristni sem kennir opnun, beinir til hins háleita, vísar til ljóss, máttar og hins stóra. Á tilbeiðslumáli kristninnar er þetta kallað dauðinn dó en lífið lifir. Þar er plús heimsins og alls lífs. Gullspurning opnar snilldarheima tíma og eilífðar.

Ævi, fjölskylda, nám og störf

Valdimar Þór Hergeirsson fæddist 9. ágúst 1930. Foreldrar hans voru Hergeir Kristján Elíasson, skipstjóri, og Ragnheiður Guðmunda Þórðardóttir, húsmóðir. Pabbinn var ættaður af Vestfjörðum en móðirin úr Borgarfirði. Valdimar er elstur systkina sinna. Hin eru Haukur, Herdís og Elías. Elías lifir systkini sín. Fyrstu árin bjó fjölskyldan á Kjalarnesi – í skjóli Guðmundu hálfsystur Ragnheiðar og Valdimars í Varmadal. Á Kjalarnesi var Valdimar til tíu ára aldurs, gekk í skóla og lærði líka að synda þar sem Pétur á Álafossi var svo framsýnn að stífla læk og koma sveitungum sínum til vitundar um mikilvægi góðrar sundaðstöðu. Valdimar synti alla ævi og við höfum m.a.s. flotta mynd af sundkappanum í sálmakránni og til eru tvö skemmtileg blaðaviðtöl við Valdimar um sundiðkun.

Þegar fjölskyldan flutti til Reykjavíkur settist hún fyrst að á Framnesvegi og svo var fjölskylduhúsið á Kaplaskjólsvegi 5 byggt, þar sem nú er Víðimelur 74. Húsið var tilbúið í miðju stríðinu og þar var fjölskyldan síðan. Valdimar sótti skóla í Vesturbænum og fór svo í Verzlunarskólan sem þá var á Grundarstíg. Verzló og Valdimar áttu svo samleið í liðlega hálfa öld. Hann hóf nám árið 1945 og útskrifaðist sem stúdent vorið 1952.

Þá lá leiðin í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og Valdimar lauk þaðan prófi árið 1956. Svo stundaði hann nám vetan hafs og austan. Átta árum eftir að Valdimar lauk námi í Verzló, árið 1960, var hann ráðinn til kennslu þar. Síðan starfaði hann sem kennari, yfirkennari og um tíma skólastjóri. Hann lét af störfum vegna aldurs sem yfirkennari árið 2000 en Verzló-fólkið sleppti honum ekki og Valdimar kenndi til ársins 2004.

Valdimar var stundakennari við viðskiptadeild Háskóla Íslands í tvo áratugi. Hann hafði alla tíð gleði af kennslu og kenndi mikið. Hann skrifaði líka kennslubækur í hagfræði og bókfærslu. Hann var félagslyndur og kunnáttusamur í félagsefnum. Þær gáfur nýttust vel í fararstjórn. Í mörg sumur – á 8. og 9. áratug síðustu aldar – var hann fararstjóri erlendis fyrir ferðaskrifstofurnar Sunnu og Samvinnuferðir.

Valdimar skrifaði margt og m.a. um tengsl sín og Verzlunarskólans. Í upphafi kom hann á reiðhjóli í skólann en var svo óheppinn að lykillinn að hjólinu týndist. Valdimar fór inn og bað um aðstoð. Skólastjórinn sagði spámannlega: „Kannski kemst þú ekkert héðan. Ætli við sitjum ekki bara uppi með þig!“ Svo varð og Valdimar var tengdur skólanum í meira en hálfa öld. En skólinn sat ekki upp með hann því hann lagði ávallt mikið til menntunar, stjórnunar og félagslífs skólans. Og ef einhverjir efast um breiddina í þjónustu hans skal það upplýst að á námsárum sínum sá Valdimar ekki aðeins um skólaskákmót og sat í ritnefnd skólablaðsins, heldur var einn helsti frömuður og kyndilberi bindindishreyfingar skólans. Hann sá til þess að bindindiserindrekar komu og töluðu um áfengisbölið við skólafélaga hans. Og Valdimar þakkaði bindindisafstöðunni að hann var þurr – fram að dimisjón! Þá gerðist eitthvað. Og bindindissemi Valdimars þróaðist svo hann hann vildi engan rudda, aðeins eðalkoníak og þokkalegt rauðvín. En Valdimar ólst við bindindi og bar í sér visku hófstillingarinnar síðan.

Valdimar lét ekki aðeins til sín taka í kennslunni í Verzló, heldur hafði umsjón með endurskoðun námsefnis og kennslu skólans. Valdimar beitti sér fyrir framsækinni skólastefnu og góðum fræðsluháttum og var í ljósi stefnu og árangurs fenginn af menntamálaráðuneyti til að bæta kennslu í framhaldsskólum.

Valdimar var dáður kennari og gerði kröfur til nemenda sinna. Þeir uppgötvuðu snarlega að betra væri að læra fyrir tíma. Vegna yfirferðarhraðans voru þeir óundirbúnum erfiðir en stórkostlegir ef heimalærdómurinn var góður. Sú saga var gjarnan sögð í skólanum að kraftur og hraði Valdimars hefði verið slíkur að hann hefði skrifað á töfluna með hægri hendi og þurrkað út jafnóðum með vinstri. Hann skrifaði af slíkri áfergju að krítin molnaði og brotin sáldruðust yfir gólf og krítarrykið rataði í vit læriföðurins. Og Valdimar varð jafnvel að nota fyrirbyggjandi aðgerðir svo hann missti ekki röddina af krítarkófinu! Hann var virtur og dáður sem skólamaður, bæði af samkennurum og lærisveinunum. Þar sem Valdimar var fljótur að greiða flækjur mannlífsins og hafði lag á samskiptum var hann gjarnan beðinn að vera farstjóri í nemendaferðum. Honum lánaðist gjarnan að slökkva elda og fyrirbyggja vandræði. Þegar stúdentafagnaðir voru haldnir var oft fyrsta spurningin hvort Valdimar mætti ekki. Hann var síðan umsetinn og hrókur fagnaðar.

Fyrir hönd Verzunarskólans eru hér með færðar þakkir fyrir þjónustu Valdimars í þágu nemenda og skóla.  

Og vinir Valdimars sem ekki geta verið við þessa útför hafa beðið fyrir kveðjur. Þau eru Börkur Hrafnsson og Elín Norðmann, einnig Bragi Björnsson og Ragna Björk Ragnarsdóttir. 

Fjölskyldan og ástvinir
Svo var það fjölskyldan og heimilislífið. Í einu af mörgum blaðaviðtölum um ævina var Valdimar spurður hvað skólastjóra Verzló þætti best. Honum þótti best að vera í faðmi fjölskyldunnar. Valdimar dansaði við Kristínu Þórunni Friðriksdóttur í Súlnasal Hótel Sögu. Þau sóttu danskvöldin á fimmtudögunum, voru bæði búsett í Vesturbænum og svo dönsuðu þau sig saman og voru góð í lífstaktinum allt þar til Kristín lést árið 1996. Í Kristínu átti Valdimar öflugan maka, ráðhollan vin og leiftrandi félaga. Vegna skerpunnar opnaði hún bónda sínum ýmsar gáttir skilnings. Og hann dáðist að konu sinni og mat mikils. Veislugetuna höfðu þau bæði og kunnu mörg dansspor við músík lífsins. En krabbinn tók hana – alltof snemma. Eftir voru sár og ör.

Valdimar bjó við barnalán. Stjúpdóttir Valdimars er Brynja Tomer sem Kristín átti áður en þau Valdimar tóku saman. Börn Brynju eru Anna Kristín Cartesegna, Sóley Ragna Ragnarsdóttir og Sæmundur Ragnarsson. Sonur Valdimars og Kirstenar Friðriksdóttur er Örn hagfræðingur. Kona hans er Aðalheiður Ósk Guðbjörnsdóttir, félagsráðgjafi. Börn þeirra eru Guðbjörn, Ársól, Friðrik Kári og Daníel Örn. Valdimar átti með eiginkonu sinni tvö börn: Ragnar Þór og Öldu Björk. Ragnar er tölvunarfræðingur og kona hans er Brynja Baldursdóttir, kennari. Þau eiga tvö börn: Silju Rós og Valdimar Þór. Alda Björk er dósent og maki hennar er Guðni Elísson prófessor. Þau eiga tvær dætur Steinunni Kristínu og Úlfhildi.

Eigindir

Og svo eru allar minningarnar og þær má blessa með ýmsu móti. Hvernig var Valdimar Hergeirsson? Það er gaman að hlusta fólk segja sögur af skólamanninum og fjölskyldumanninum. Valdimar hafði sterkan prófíl í störfum og lífi.

Hann var félagslyndur og skemmtilegur. Og spannaði kynslóðirnar vel, tengdi vel við eldri sem yngri í kennslu og almennum samskiptum. Og svo hafði hann áhuga á fólki, mundi eftir nemendum, lyndiseinkun þeirra og lífsafstöðu og svo auðvitað hvort þau leystu gullspurninguna. Og þar sem Valdimar var stuðlaði hann að jákvæðum tengslum við nágranna sína og samverkafólk.

Manstu hve vinnusamur Valdimar var? Hann vann alla tíð mikið, kenndi mikið og sló ekki slöku við þegar heim var komið. Oft sáu nágrannarnir sem voru að koma af skrallinu að Valdimar var enn að vinnu á skrifstofu sinni, við að undirbúa kennslu eða skrifa verkefni. 

Manstu eftir áhuga Valdimars á þróun skólastarfs og hve mikinn áhuga hann hafði á gæðum? Manstu tækniáhugann, tölvuvæðingu hans og hve hinn opni hugur sigldi á  ölduföldum tækninnar? Manstu metnaðinn og vandvirkni hans í öllu? Manstu örlæti Valdimars og hve veitull og gjöfull hann var? Svo var hann maður jöfnuðar, heiðarlegur og vandvirkur í samskiptum. Meira að segja gamalt hlutabréf sem hann erfði reyndist verðmætara en hann átti von á. Hann seldi það og skipti verðmætum milli systkinanna, sem sem sýndi bróðurþel hans og réttlætiskennd.

Já, Valdimar var skapstillingarmaður. En að baki jafnaðargeðinu var kvika hið innra sem hann varði vel. Hann agaði sig svo að tilfinningar leiddu hann ekki í neinar ógöngur. Og jafnan reyndi Valdimar að velta sér ekki upp úr tilfinningamálum heldur þótti mikilvægara að leyfa málefnum að ráða för. Valdimar var umtalsfrómur og varkár í dómum um menn og málefni. Hann hafði festu í dagsrytma sínum, rútínu sem hélt honum við efni lífsins.

Hann var ferðafrömuður. Í sálmaskránni er heillandi mynd af þeim Kristínu – geislandi – fyrir framan píramída í Egyptalandi. Valdimar þjónaði mörgum á erlendri ferðaslóð og opnaði Íslendingum heiminn. Af því Valdimar vildi þekkja og vita aflaði hann sér gagna og skoðaði til að geta frætt. Hann talaði við innfædda og miðlaði síðan til ferðafélaga sinna. Þekkingin en líka plúsinn sem Valdimar bætti við.

Manstu hve vel Valdimar var vel á sig kominn? Hann var vissulega matmaður, fór alls ekki ekki í sykurbindindi og mat rjómasósur mikils. En hann gætti vel að grömmum, synti og hreyfði sig.

Þegar hinn vinnusami Valdimar lét af störfum í Verzló var hann einn – og þá sneri hann athygli að hugðarefnum. Hann glímdi við gullspurningar lífsins. Og Valdimar opnaði og m.a. vildi hann læra betur tungumál sem honum voru töm en líka bæta við. Hann var maður þekkingarinnar en opnaði svo veru sína – þroskaður og fullorðinn – og leitaðist við að bæta málakunnáttu. Hann hlustaði og horfði á erlendar fréttir – bæði til að fylgjast með þróun heimsmála – en líka til að læra orð, byggja setningar á framandi tungum og nema blæ og hvísl menningarinnar. Valdimar var opinn fyrir plúsunum, gullinu í lífi heimsins.

Gullspurningin

Og nú er hann farinn, kaupir ekki fleiri páskaegg handa fólkinu sínu og tekur ekki blóðþrýstinginn. Hann kætir ekki framar húsvörðinn á Skúlagötunni, semur engar fleiri gullspurningar eða hlær með þér að gleðimálum þessarar veraldar. Valdimar notaði síðustu dagana til að kveðja vel. Svo er þessi útfarardagur á afmælisdegi móður hans sem hann mat svo mikils. Og við megum leyfa honum að fara inn í fagnað himins.

Gagnvart dauða og eilífð er alltaf plússpurning. Hvernig má leysa gátuna um dauða og sorg? Við úrlausn koma saman systurnar tími og eilífð, þekking og viska, skipan og nýung, dauði og líf. Boðskapur fortíðar um Jesú Krist kemur úr framtíð. Dauðinn dó en lífið lifir. Snilldin í prófúrlausn heimsins er að eilífðin er opnuð. Þú mátt sjá í skólamanninum, vini þínum og ástvini, Valdimari Þór Hergeirssyni, getuna til að opna svo lífsgáturnar megi sjá í nýju ljósi. Valdimar er í gullspurningunni – og vegna snilldar himinsins má hann upplifa gleði spurningar og úrlausnarinnar, sem er greindarleg. Guð, skólastjóri alheimsins, er alltaf sanngjarn og hefur gaman af þeim sem þora.

Guð geymi Valdimar og Guð geymi þig.

Minningarorð 10. nóv. 2017. Neskirkja. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði. Erfidrykkja í Neskirkju.