Greinasafn fyrir merki: Hulda Valtýsdóttir

+ Hulda Valtýsdóttir +

Hulda Valtýsdóttir var eiginlega alls staðar – og hafði áhrif á okkur. Hún var fjölhæf, dugmikil og hrífandi. Hún bar í sér þroskaða menningu, beitti sér með dug og vinsemd og kom afar mörgu til leiðar. Líf hennar var heillandi. Þegar við stöldrum við og hugsum um Huldu er eins og hún hafi snert öll – og líka öll okkar æfiskeið og lífsvíddir. Hún kom svo víða við sögu. Flest íslensk börn hafa notið hennar í leikverkunum og barnabókunum, sem hún þýddi. Þýðingar hennar eru orðnar klassík og hluti þjóðmenningar, sem ekki rýrnar heldur er sívirk. Hulda stýrði ásamt systur sinni afar vinsælum barnaþætti í útvarpi og gaf út barnabækur. Eldra fólkinu þjónaði hún með skrifum sínum, ekki síst í Morgunblaðinu. Hún var vörður hinna stóru málefna, gilda, gæða og lista sem vörðuðu allt samfélag þjóðarinnar. Reykvíkingar njóta verka hennar og vökullar íhygli í stjórn borgarinnar. Og margt eigum við henni að þakka í þeim efnum. Hún fleytti framtíðinni inn í samfélag sitt með því að þora að ræða opinberlega stóru málin með hispurslausum hætti og þar eru umhverfismál – og þar með talin skógrækt – í öndvegi. Og eldri borgarar nutu hennar. Henni treyst fyrir úthlutun fálkaorðunnar sem formanni orðunefndar. Hulda kom við sögu allra.

Þjónað í þágu lífsins

Af hverju var var áhugi hennar svo víðfeðmur? Mér þótti merkilegt að koma í stórkostlegt Sólheimahús þeirra Gunnars og Huldu, sem hann teiknaði, þau hönnuðu og byggðu sér. Þar hlustaði ég á dætur Huldu segja frá móður þeirra og öðrum ástvinum segja litríkar og elskulegar sögur. Þá skildi ég að það voru gæðin í foreldrum hennar og fjölskyldu sem skiluðu Huldu menningu, mannsýn, ást til náttúrunnar og samhengi í tilverunni. Hún var hæfileikarík og vann vel úr.

Hvað gerir okkur gott? Það er spurning hefur fylgt okkur mönnum frá upphafi. Viturt fólk hefur alla tíð vitað að við höfum áhrif. Grískt spakmæli kennir að friður og velsæld ríki þegar gamalt fólk sáir trjáfræum þrátt fyrir að það muni aldrei njóta skugga þeirra trjáa, sem það sáir til. Marteinn Lúther var spurður hvað hann myndi gera ef hann vissi að heimsendir yrði á morgun. Svarið var einfalt – fara út og planta eplatré í dag. Skógræktarmenn hugsa ekki um skyndigróða heldur hugsa eins og kristinn maður – í öldum. Hin eiginlegu gæði varða ekki aðeins augnabliksfullnægju, heldur eru í hinu stóra og mikla, fagra og víðfeðma, langa og lífseiga. Mannlíf í auðn er ekki gæfulegt, en ríkulega klætt land og iðandi lífheimur er til góðs fyrir fólk. Lífríki er gott en lífleysa vond. Þá klassík, mannsýn og heimssýn fékk hún í arf í foreldrahúsum. Hún hafði í sér gæðin til að miðla áfram. „Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá“ – segir í Fjallræðunni.

Upphaf og fjölskylda

Hulda Steinunn Valtýsdóttir fæddist í Reykjavík 29. september árið 1925. Hún var dóttir hjónanna Valtýs Stefánssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, og Kristínar Jónsdóttur, listmálara. Þau voru bæði frumkvöðlar og risar á sínum sviðum. Um bæði hafa verið skrifaðar glæsilegar og upplýsandi bækur.[1]Þau voru eyfirsk að uppruna. Kristín fæddist á því fallega Arnarnesi við Eyjafjörð. Þar var menningarheimili. Valtýr bjó bernskuárin á Möðruvöllum – þar sem faðir hans kenndi við Möðruvallaskóla. Skemmtilegar sögur eru um bernskutengsl Kristínar og Valtýs því Arnarnesfólkið átti kirkjusókn til Möðruvalla og sótti þangað messur. Valtýr var ungur þegar hann hreifst af Kristínu. En sagt var að hann hefði einu sinni hrint henni niður af öskuhaug. Hann var þó kurteis ungsveinn og bauð henni upp í dans og dansaði við hana á sokkaleistunum. Ekki af eftirsjá vegna gjörningsins á öskuhaugnum heldur fremur vegna hrifningar á stúlkunni. Dansinn var ávísun á síðari kynni. Þau Kristín og Valtýr fóru um veröldina í sitt hvoru lagi en endurnýjuðu kynnin í Kaupmannahöfn, töluðu sig til ástar, gengu í hjónaband og urðu og voru afar náin og samhent alla tíð. Kristín og Valtýr byggðu húsið á Laufásvegi 69 og þar átti Hulda heima til fullorðinsára. Og í bókunum um þau Valtý og Kristínu, í minningargreinum og minningum vina er skýrt tjáð að heimilislífið á Laufásveginum var skemmtilegt og heimilið var opið. Listamenn þjóðarinnar áttu í þeim vinsemd og frábæran skilning – eins og Gunnlaugur Scheving orðaði það. Áhugafólk um stjórnmál kom þar og ólíkar skoðanir voru ekki aðeins leyfðar heldur óskað eftir öflugum skoðanaskiptum. Þar var hressilega rætt um listir og stjórnmál, jarðrækt og bókmenntir, blaðamennsku, búskaparhætti og þjóðsögur. Þetta var klassík heimilisins en nútíminn bankaði líka sá dyr. Pólitíkin varð stundum sem aðalkrydd máltíða og Hulda lærði að lesa í flóknar aðstæður, hlusta á gagnstæð viðhorf, horfa á mál frá mörgum hliðum, íhuga næmt og túlka skýrt.

Systurnar voru tvær. Helga var eldri og var kunn fyrir leikhússtörf sín. Huldunafnið kom upprunalega úr vitrun Stefáns á Möðruvöllum, afa Huldu.[2]Þegar Hulda fæddist tók eldri systirin hinni nýju systur með gleði. Af myndum úr fjölskyldualbúmunum má sjá að þær systur voru nánar og deildu kjörum. Þær áttu hægt með að vinna saman alla tíð og útvarpsþættir þeirra á sjötta og sjöunda tug liðinnar aldar eru mörgum í fersku minni. Helga lést árið 1968, aðeins 44 ára gömul.

Skóli, störf og baráttumál

Hulda hóf skólagöngu í Landakotsskóla og þaðan fór hún í MR og lauk þaðan stúdentsprófi árið 1945. Strax í bernsku hafði Hulda mikinn áhuga á lífinu á ritstjórn Morgnblaðsins. Hún byrjaði að sendast fyrir blaðið meðan hún var enn í grunnskóla. Síðar varð hún ritari föður síns og varð svo blaðamaður á Morgunblaðinu. Hulda skrifaðium margvísleg efni fyrir Morgunblaðið, þ.m.t. Lesbókina, og ritaði fasta pistla. Umhverfis- og menningar-mál voru henni hugleikinn. Frá 1989 til 2005 sat Hulda í stjórn Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins og var varaformaður stjórnar frá 1989 til 1995. 

Hulda var afkastamikil í þýðingarstörfum og verk hennar höfðu mikil áhrif. Hún þýddi barnasögur og leikrit, m.a. sögurnar um Bangsímonog leikritin Dýrin í Hálsaskógi, Kardemommubæinn og Karíus og Baktus,auk fleiri sígildra verka sem Helga systir hennar las í útvarpi.

Í foreldrahúsum lærði Hulda að pólitík gat verið harðvítug og orðið ágeng fjölskyldulífinu. En hún brást vel við kalli til starfa í borgarmálum þegar eftir var leitað. Hulda sat í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árunum 1982 til 1986. Og það er gaman að sjá mynd af fyrsta borgarstjórnarfundinum eftir kjörið. Hulda var í flottum kjól og bar af öllum að glæsileik. Umhverfis- og menningarmál voru Huldu hugleikin sem og málefni ungu kynslóðarinnar. Hún vildi að hagsmunir barna væru virtir og rödd þeirra fengi að hljóma. Hulda var formaður umhverfismálaráðs og fyrsti formaður menningarmálanefndar Reykjavíkur. Í þeim störfum tengdist hún mörgum erlendum gestum. Og Yoko Ono og Erró urðu vinir hennar sem og ýmsir umhverfisverndarsinnar. Hulda leit á þessa málaflokka hafna yfir flokkspólítík. Og það er merkilegt að sjá hve skeleggar greinar hennar voru um þau mál og hve ákveðið hún lyfti umræðu um stóru málin og siðferðisgildin á æðra plan.

Í uppvexti lærði Hulda að meta gildi skógræktar. Foreldrar hennar vildu klæða land og efla lýð. Hulda beitti sér í málefnum skógræktar og var formaður Skógræktarfélags Íslands frá 1981 til 1999. Hún var einnig formaður framkvæmdanefndar um landgræðsluskógaátakið Ár trésins, sat í stjórn Landgræðslusjóðs og í stjórn Rannsóknarstöðvarinnar á Mógilsá. Hulda var heiðursfélagi Skógræktarfélags Íslands og Skógræktarfélags Reykjavíkur. Hún var sæmd stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf að skógræktarmálum. Í öllum störfum og stjórnum var Hulda styrk, velviljuð og framfarasinnuð.

Gunnar og fjölskyldan

Svo var það Gunnar Hansson. Hann var á leið austur Laufásveginn, hafði fengið bíl lánaðan og var á rúntinum. Gunnar var með glöggt auga, sá glæsilega unga menntaskólastúlku ganga vestur Laufásveginn. Og hann var snöggur, tók u-beygju og sveigði upp að gangstéttinni þar sem Hulda var. Renndi rúðunni niður og sagði: „Going my way?“ Hulda hafði húmor fyrir svona öflugum herramanni, settist inn í bílinn – og hann ók hennar leið. „Going my way!“ Síðan var hans vegur hennar vegur og hennar leið hans leið. Þau áttu erindi saman allt lífið. Þau voru bráðung er þau kynntust en ástin logaði og lifði. Gunnar fór vestur um haf til að læra arkitektúr enda var ekki annað í boði á stríðsárunum en Ameríkuför. Þau settu upp hringana í sitt hvorri heimsálfuni og kunnu alveg að stilla klukkurnar – en uppsetningarhátturinn var skondinn. Svo kom Gunnar til baka þegar hann hafði lokið áfanganum sem hann ætlaði sér. Þau Hulda gengu í hjónaband, hann fékk vinnu í sínu fagi og hún vann á Morgunblaðinu. En svo vildu þau fara utan saman og Gunnar vildi bæta við sig. Þau voru í Kaupmannahöfn um tíma og síðar í Þrándheimi í tvö ár. Gunnar stúderaði, Hulda sá um ungviði og kynnti sér norræna menningu, viðmið, skógrækt og umhverfisvitund ytra. Hún fór heim og Gunnar varð eftir, lauk náminu og kom svo.

Hulda og Gunnar eignuðust þrjár dætur: Kristínu, Helgu og Hildigunni. Hulda lætur einnig eftir sig tvo tengdasyni, Michael Dal, eiginmann Helgu og Ásgeir Haraldsson, eiginmann Hildigunnar, en eiginmaður Kristínar var Stefán Pétur Eggertsson og lést árið 2013. Barnabörnin eru sex; Hulda, Gunnar, Eggert, Eva Kristín, Gunnar Steinn og Ragnheiður Steinunn. Langömmubörnin eru fimm; Stefán, Pétur, Steinunn Hildur, Jón Grétar og Birkir Michael. Mikill samgangur var einnig við börn Helgu – Kjartan, Kristín, Stefán og Björn voru heimagangar í Sólheimum.

Þau Hulda og Gunnar héldu saman veg lífsins. Það var jafnræði með þeim. Þau voru samrýmd, töluðu og hlógu saman. Þau deildu áhugamálum, náttúru Íslands, fjölmiðlun, menningarmálum og laxveiðar. Þau ferðuðust víða og veiddu saman.  Gunnari þótti nóg um hve fiskin Hulda var og hélt fram að hún þyrfti ekki annað en skrúfa frá krana þá væri kominn lax á færi hjá henni! En hann lagaði maðkinn fyrir Huldu sína – og taldi ekki eftir sér. Gunnar lést fyrir aldur fram árið 1989.

Minningarnar

Hvaða minningar koma upp í huga þinn þegar þú minnist Huldu. Manstu brosið hennar? Hvernig hún horfði á þig og fólk? Manstu hve vel hún las átök og hve laginn hún var að leysa hnúta? Manstu að hún var varkár? Kvaddi hún þig einhvern tíma og bað þig að fara varlega? Manstu að Hulda vildi gjarnan, að fólk hefði skoðun, þyrði að tjá hana og tæki sér stöðu í baráttumálum? En hún vildi þó ekki að neinn byggði sitt mál á sleggjudómum eða hæpnum forsendum. Manstu hve vel Hulda mat börn og að hagur þeirra væri metinn? Manstu eftir Huldu í landgræðsluferð upp á hálendi Íslands? Fórstu einhvern tíma á menningarviðburð með henni – jafnvel til að hlusta á Derrida? Manstu gæða- og gæsku-siðfræði og mannsýn Huldu?

Skil og eilífð

Og nú er komið að skilum. Hulda skrifar ekki framar á Olivetti-ritvélina sína kraftmikinn pistil um náttúrvernd, menningarverðmæti eða mikilvægi listar. Hún þýðir ekki framar erlend gæðastykki fyrir íslenskar fjalir. Hún tekur ekki þátt í annarri bylgju skógræktar á íslandi, kolefnisbindingarbylgjunni. Hún les ekki framar Kierkegård og spáir hvernig tilvistarspekin rann inn í afbyggingaraðferð póst-modernismans. Hún býður ekki framar erlenda listamenn velkomna inn í menningarheim Íslendinga. Eða laumar að okkur, að enginn viti hvað býflugurnar hugsa! Hún gefur ekki pólitíkinni framar mennska ásýnd, hlý augu og góða dómgreind. Hún brosir ekki framar við börnum fjölskyldunnar, blómum vallarins, fiskfullum veiðihyl eða birtu daganna. Hún er farin inn í ljósheim eilífðar. Sólheimarnir eru enn til, minningarnar varpa birtu yfir líf okkar hinna. Hulda var alls staðar, hafði mikil áhrif. En svo heldur lífið áfram. Guð er alls staðar og Hulda er engill þess lífmagns. Og það er svo okkar að lifa vel, varðveita gildin, berjast fyrir öllu því mikla og góða sem Hulda vissi að skipti máli. „Dvel ég í draumahöll og dagana lofa … “ Guð geymi Huldu Steinunni dóttur Valtýs og Kristínar. Guð geymi ykkur öll og styrki.

Amen.

Útför frá Dómkirkjunni 16. maí kl. 13. Jarðsett í Fossvogskirkjugarði. Erfidrykkja í Iðnó.

Ágrip

Foreldrar Huldu voru Valtýr Stefánsson, ritstjóri Morgunblaðsins og Kristín Jónsdóttir, listmálari. Systir Huldu var Helga, leikkona, d. 1968. Hulda giftist 27. júlí 1946 Gunnari Hanssyni, arkitekt, f. 19. febrúar 1925, d. 6. janúar 1989. Foreldrar Gunnars voru Hans Þórðarson, stórkaupmaður, og Guðrún Sveinsdóttir, húsfreyja, í Reykjavík. Hulda og Gunnar bjuggu að Sólheimum 5, í húsi sem Gunnar teiknaði. Þau eignuðust þrjár dætur. Þær eru: 1) Kristín, f. 4. mars 1947. Hennar maður var Stefán Pétur Eggertsson, d. 8. janúar 2013. Þeirra börn eru: Hulda, f. 1972, gift Pétri Þ. Óskarssyni. Börn þeirra eru Stefán, f. 2002, og Steinunn Hildur, f. 2007. Dóttir Péturs er Aðalheiður Ósk, f.1993. Gunnar, f. 1976, kvæntur Örnu Björk Jónsdóttur. Þeirra synir eru Pétur, f. 2007, og Jón Grétar, f. 2010. Eggert, f. 1977, kvæntur Anabel Baxter. 2) Helga, f. 31. ágúst 1953. Hennar maður er Michael Dal. Dóttir þeirra er Eva Kristín, f.1985, gift Atla Erni Sverrissyni. Þeirra sonur er Birkir Michael, f. 2015. 3) Hildigunnur, f. 18. apríl 1957. Hennar maður er Ásgeir Haraldsson. Þeirra börn eru: Gunnar Steinn, f. 1986, sambýliskona hans er Sara Sigurlásdóttir. Ragnheiður Steinunn, f. 1990, sambýlismaður hennar er Brynjar Þór Guðbjörnsson. Dóttir Ásgeirs er Tinna Laufey, f.1975, gift Sigurði Gylfa Magnússyni. Hennar sonur er Pétur Bjarni Einarsson, f.  2002.

[1]Aðalsteinn Ingólfsson skrifaði um list og æfi Kristínar Jónsdóttur og gerir grein fyrir upphafi, bernskuheimili hennar í Arnarnesi, fjölskyldubrag og heimilislífi, tengslum við Möðruvallaheimilið og síðan menntun Kristínar heima og erlendis. Svo skrifar hann ítarlega um list hennar. Bókin gefur gott samhengi fyrir list og líf Kristínar og tengir vel við bók Jakobs F. Ásgeirssonar um Valtý Stefánsson. Það er mjög ítarleg og vönduð heimildavinna sem Jakob hefur unnið. Ég á Aðalsteini og Jakobi þökk að gjalda fyrir þeirra merku rit sem ríma ágætlega.

[2]Frá þessu segir Jakob F. Ásgeirsson mjög skemmtilega í bókinni um Valtý Stefánsson.