Greinasafn fyrir merki: Valdimar Hergeirsson

+ Valdimar Hergeirsson +

Valdimar samdi mörg próf um dagana og var snjall prófamaður. Prófin sem hann samdi voru erfið en réttlát. Þau voru þeirrar gerðar, að nemendur urðu að hafa glímt við námsefnið, þurftu að kunna til að geta svarað flestum spurningunum. Og í prófunum var jafnan einhver undraspurning utan rammans, sem Valdimar lagði oft mikið á sig að búa til. Spurning, sem krefðist kunnáttu í námsefninu en líka skapandi hugsunar. Til að svara reyndi á hvort nemendur gætu gert meira en bara beita reglum. Svarið krafðist ekki bara þekkingar heldur skilnings. Valdimar vildi skapandi huga. Plús-spurningin leiddi í ljós þekkingu, getu og snilld. Hún var gullspurningin.

Er það ekki góð skólastefna að kenna ekki aðeins staðreyndir heldur opna fólki dyr til þroska? Valdimar fór hratt yfir í tímum, en líka djúpt. Hann skerpti skussana, kom mikilli þekkingu til skila á stuttum tíma og vildi koma öllum til nokkurs þroska. Kennarinn miðlaði þekkingu, en vildi að hugur nýttist handverkinu. Valdimar vildi að hans fólk nýtti þekkinguna til lausnar í óséðum dæmum, þyrði að hugsa. Það er gott að læra vel en handan hins venjulega er vonarland snilldar og sköpunar. Greind er ekki aðeins að greina að – heldur greina það sem tengja má saman. Af hverju skyldi fólkið hans Valdimars þora og geta?

Við getum túlkað gullspurninguna sem vott um víddir í persónu og lífi Valdimars. Hann vildi gjarnan læra hið hagnýta, tileinka sér þekkingu en svo vildi hann bæta við, opna fyrir það sem gæti eflt, dýpkað og glatt. Þetta sjáum við í kennslu hans, menntunarafstöðu, skólastefnu og líka í einkalífi. Hann vildi halda því til haga sem væri nýtanlegt og gott, en líka skoða og endurskoða til að leyfa hinu nýja að verða og þroskast.

Það er góð afstaða í þessari samþættingu. Öll þiggjum við fjölmargt í arf en hræðumst stundum eða lokum á það sem gæti orðið til góðs. Við þörfnumst tengingar við það sem gefið er, en megum þora að opna huga, samfélag, vísindi, fræði, fjölskyldur og líf. Hefð og nýung eru góðar systur. Skipan og nýsköpun. Fræði og framtíð líka. Þekking er mikilvæg, en miklu betri er hún í góðri sambúð við viskuna. Og þá erum við komin inn á svið mannsýnar klassískrar kristni sem kennir opnun, beinir til hins háleita, vísar til ljóss, máttar og hins stóra. Á tilbeiðslumáli kristninnar er þetta kallað dauðinn dó en lífið lifir. Þar er plús heimsins og alls lífs. Gullspurning opnar snilldarheima tíma og eilífðar.

Ævi, fjölskylda, nám og störf

Valdimar Þór Hergeirsson fæddist 9. ágúst 1930. Foreldrar hans voru Hergeir Kristján Elíasson, skipstjóri, og Ragnheiður Guðmunda Þórðardóttir, húsmóðir. Pabbinn var ættaður af Vestfjörðum en móðirin úr Borgarfirði. Valdimar er elstur systkina sinna. Hin eru Haukur, Herdís og Elías. Elías lifir systkini sín. Fyrstu árin bjó fjölskyldan á Kjalarnesi – í skjóli Guðmundu hálfsystur Ragnheiðar og Valdimars í Varmadal. Á Kjalarnesi var Valdimar til tíu ára aldurs, gekk í skóla og lærði líka að synda þar sem Pétur á Álafossi var svo framsýnn að stífla læk og koma sveitungum sínum til vitundar um mikilvægi góðrar sundaðstöðu. Valdimar synti alla ævi og við höfum m.a.s. flotta mynd af sundkappanum í sálmakránni og til eru tvö skemmtileg blaðaviðtöl við Valdimar um sundiðkun.

Þegar fjölskyldan flutti til Reykjavíkur settist hún fyrst að á Framnesvegi og svo var fjölskylduhúsið á Kaplaskjólsvegi 5 byggt, þar sem nú er Víðimelur 74. Húsið var tilbúið í miðju stríðinu og þar var fjölskyldan síðan. Valdimar sótti skóla í Vesturbænum og fór svo í Verzlunarskólan sem þá var á Grundarstíg. Verzló og Valdimar áttu svo samleið í liðlega hálfa öld. Hann hóf nám árið 1945 og útskrifaðist sem stúdent vorið 1952.

Þá lá leiðin í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og Valdimar lauk þaðan prófi árið 1956. Svo stundaði hann nám vetan hafs og austan. Átta árum eftir að Valdimar lauk námi í Verzló, árið 1960, var hann ráðinn til kennslu þar. Síðan starfaði hann sem kennari, yfirkennari og um tíma skólastjóri. Hann lét af störfum vegna aldurs sem yfirkennari árið 2000 en Verzló-fólkið sleppti honum ekki og Valdimar kenndi til ársins 2004.

Valdimar var stundakennari við viðskiptadeild Háskóla Íslands í tvo áratugi. Hann hafði alla tíð gleði af kennslu og kenndi mikið. Hann skrifaði líka kennslubækur í hagfræði og bókfærslu. Hann var félagslyndur og kunnáttusamur í félagsefnum. Þær gáfur nýttust vel í fararstjórn. Í mörg sumur – á 8. og 9. áratug síðustu aldar – var hann fararstjóri erlendis fyrir ferðaskrifstofurnar Sunnu og Samvinnuferðir.

Valdimar skrifaði margt og m.a. um tengsl sín og Verzlunarskólans. Í upphafi kom hann á reiðhjóli í skólann en var svo óheppinn að lykillinn að hjólinu týndist. Valdimar fór inn og bað um aðstoð. Skólastjórinn sagði spámannlega: „Kannski kemst þú ekkert héðan. Ætli við sitjum ekki bara uppi með þig!“ Svo varð og Valdimar var tengdur skólanum í meira en hálfa öld. En skólinn sat ekki upp með hann því hann lagði ávallt mikið til menntunar, stjórnunar og félagslífs skólans. Og ef einhverjir efast um breiddina í þjónustu hans skal það upplýst að á námsárum sínum sá Valdimar ekki aðeins um skólaskákmót og sat í ritnefnd skólablaðsins, heldur var einn helsti frömuður og kyndilberi bindindishreyfingar skólans. Hann sá til þess að bindindiserindrekar komu og töluðu um áfengisbölið við skólafélaga hans. Og Valdimar þakkaði bindindisafstöðunni að hann var þurr – fram að dimisjón! Þá gerðist eitthvað. Og bindindissemi Valdimars þróaðist svo hann hann vildi engan rudda, aðeins eðalkoníak og þokkalegt rauðvín. En Valdimar ólst við bindindi og bar í sér visku hófstillingarinnar síðan.

Valdimar lét ekki aðeins til sín taka í kennslunni í Verzló, heldur hafði umsjón með endurskoðun námsefnis og kennslu skólans. Valdimar beitti sér fyrir framsækinni skólastefnu og góðum fræðsluháttum og var í ljósi stefnu og árangurs fenginn af menntamálaráðuneyti til að bæta kennslu í framhaldsskólum.

Valdimar var dáður kennari og gerði kröfur til nemenda sinna. Þeir uppgötvuðu snarlega að betra væri að læra fyrir tíma. Vegna yfirferðarhraðans voru þeir óundirbúnum erfiðir en stórkostlegir ef heimalærdómurinn var góður. Sú saga var gjarnan sögð í skólanum að kraftur og hraði Valdimars hefði verið slíkur að hann hefði skrifað á töfluna með hægri hendi og þurrkað út jafnóðum með vinstri. Hann skrifaði af slíkri áfergju að krítin molnaði og brotin sáldruðust yfir gólf og krítarrykið rataði í vit læriföðurins. Og Valdimar varð jafnvel að nota fyrirbyggjandi aðgerðir svo hann missti ekki röddina af krítarkófinu! Hann var virtur og dáður sem skólamaður, bæði af samkennurum og lærisveinunum. Þar sem Valdimar var fljótur að greiða flækjur mannlífsins og hafði lag á samskiptum var hann gjarnan beðinn að vera farstjóri í nemendaferðum. Honum lánaðist gjarnan að slökkva elda og fyrirbyggja vandræði. Þegar stúdentafagnaðir voru haldnir var oft fyrsta spurningin hvort Valdimar mætti ekki. Hann var síðan umsetinn og hrókur fagnaðar.

Fyrir hönd Verzunarskólans eru hér með færðar þakkir fyrir þjónustu Valdimars í þágu nemenda og skóla.  

Og vinir Valdimars sem ekki geta verið við þessa útför hafa beðið fyrir kveðjur. Þau eru Börkur Hrafnsson og Elín Norðmann, einnig Bragi Björnsson og Ragna Björk Ragnarsdóttir. 

Fjölskyldan og ástvinir
Svo var það fjölskyldan og heimilislífið. Í einu af mörgum blaðaviðtölum um ævina var Valdimar spurður hvað skólastjóra Verzló þætti best. Honum þótti best að vera í faðmi fjölskyldunnar. Valdimar dansaði við Kristínu Þórunni Friðriksdóttur í Súlnasal Hótel Sögu. Þau sóttu danskvöldin á fimmtudögunum, voru bæði búsett í Vesturbænum og svo dönsuðu þau sig saman og voru góð í lífstaktinum allt þar til Kristín lést árið 1996. Í Kristínu átti Valdimar öflugan maka, ráðhollan vin og leiftrandi félaga. Vegna skerpunnar opnaði hún bónda sínum ýmsar gáttir skilnings. Og hann dáðist að konu sinni og mat mikils. Veislugetuna höfðu þau bæði og kunnu mörg dansspor við músík lífsins. En krabbinn tók hana – alltof snemma. Eftir voru sár og ör.

Valdimar bjó við barnalán. Stjúpdóttir Valdimars er Brynja Tomer sem Kristín átti áður en þau Valdimar tóku saman. Börn Brynju eru Anna Kristín Cartesegna, Sóley Ragna Ragnarsdóttir og Sæmundur Ragnarsson. Sonur Valdimars og Kirstenar Friðriksdóttur er Örn hagfræðingur. Kona hans er Aðalheiður Ósk Guðbjörnsdóttir, félagsráðgjafi. Börn þeirra eru Guðbjörn, Ársól, Friðrik Kári og Daníel Örn. Valdimar átti með eiginkonu sinni tvö börn: Ragnar Þór og Öldu Björk. Ragnar er tölvunarfræðingur og kona hans er Brynja Baldursdóttir, kennari. Þau eiga tvö börn: Silju Rós og Valdimar Þór. Alda Björk er dósent og maki hennar er Guðni Elísson prófessor. Þau eiga tvær dætur Steinunni Kristínu og Úlfhildi.

Eigindir

Og svo eru allar minningarnar og þær má blessa með ýmsu móti. Hvernig var Valdimar Hergeirsson? Það er gaman að hlusta fólk segja sögur af skólamanninum og fjölskyldumanninum. Valdimar hafði sterkan prófíl í störfum og lífi.

Hann var félagslyndur og skemmtilegur. Og spannaði kynslóðirnar vel, tengdi vel við eldri sem yngri í kennslu og almennum samskiptum. Og svo hafði hann áhuga á fólki, mundi eftir nemendum, lyndiseinkun þeirra og lífsafstöðu og svo auðvitað hvort þau leystu gullspurninguna. Og þar sem Valdimar var stuðlaði hann að jákvæðum tengslum við nágranna sína og samverkafólk.

Manstu hve vinnusamur Valdimar var? Hann vann alla tíð mikið, kenndi mikið og sló ekki slöku við þegar heim var komið. Oft sáu nágrannarnir sem voru að koma af skrallinu að Valdimar var enn að vinnu á skrifstofu sinni, við að undirbúa kennslu eða skrifa verkefni. 

Manstu eftir áhuga Valdimars á þróun skólastarfs og hve mikinn áhuga hann hafði á gæðum? Manstu tækniáhugann, tölvuvæðingu hans og hve hinn opni hugur sigldi á  ölduföldum tækninnar? Manstu metnaðinn og vandvirkni hans í öllu? Manstu örlæti Valdimars og hve veitull og gjöfull hann var? Svo var hann maður jöfnuðar, heiðarlegur og vandvirkur í samskiptum. Meira að segja gamalt hlutabréf sem hann erfði reyndist verðmætara en hann átti von á. Hann seldi það og skipti verðmætum milli systkinanna, sem sem sýndi bróðurþel hans og réttlætiskennd.

Já, Valdimar var skapstillingarmaður. En að baki jafnaðargeðinu var kvika hið innra sem hann varði vel. Hann agaði sig svo að tilfinningar leiddu hann ekki í neinar ógöngur. Og jafnan reyndi Valdimar að velta sér ekki upp úr tilfinningamálum heldur þótti mikilvægara að leyfa málefnum að ráða för. Valdimar var umtalsfrómur og varkár í dómum um menn og málefni. Hann hafði festu í dagsrytma sínum, rútínu sem hélt honum við efni lífsins.

Hann var ferðafrömuður. Í sálmaskránni er heillandi mynd af þeim Kristínu – geislandi – fyrir framan píramída í Egyptalandi. Valdimar þjónaði mörgum á erlendri ferðaslóð og opnaði Íslendingum heiminn. Af því Valdimar vildi þekkja og vita aflaði hann sér gagna og skoðaði til að geta frætt. Hann talaði við innfædda og miðlaði síðan til ferðafélaga sinna. Þekkingin en líka plúsinn sem Valdimar bætti við.

Manstu hve vel Valdimar var vel á sig kominn? Hann var vissulega matmaður, fór alls ekki ekki í sykurbindindi og mat rjómasósur mikils. En hann gætti vel að grömmum, synti og hreyfði sig.

Þegar hinn vinnusami Valdimar lét af störfum í Verzló var hann einn – og þá sneri hann athygli að hugðarefnum. Hann glímdi við gullspurningar lífsins. Og Valdimar opnaði og m.a. vildi hann læra betur tungumál sem honum voru töm en líka bæta við. Hann var maður þekkingarinnar en opnaði svo veru sína – þroskaður og fullorðinn – og leitaðist við að bæta málakunnáttu. Hann hlustaði og horfði á erlendar fréttir – bæði til að fylgjast með þróun heimsmála – en líka til að læra orð, byggja setningar á framandi tungum og nema blæ og hvísl menningarinnar. Valdimar var opinn fyrir plúsunum, gullinu í lífi heimsins.

Gullspurningin

Og nú er hann farinn, kaupir ekki fleiri páskaegg handa fólkinu sínu og tekur ekki blóðþrýstinginn. Hann kætir ekki framar húsvörðinn á Skúlagötunni, semur engar fleiri gullspurningar eða hlær með þér að gleðimálum þessarar veraldar. Valdimar notaði síðustu dagana til að kveðja vel. Svo er þessi útfarardagur á afmælisdegi móður hans sem hann mat svo mikils. Og við megum leyfa honum að fara inn í fagnað himins.

Gagnvart dauða og eilífð er alltaf plússpurning. Hvernig má leysa gátuna um dauða og sorg? Við úrlausn koma saman systurnar tími og eilífð, þekking og viska, skipan og nýung, dauði og líf. Boðskapur fortíðar um Jesú Krist kemur úr framtíð. Dauðinn dó en lífið lifir. Snilldin í prófúrlausn heimsins er að eilífðin er opnuð. Þú mátt sjá í skólamanninum, vini þínum og ástvini, Valdimari Þór Hergeirssyni, getuna til að opna svo lífsgáturnar megi sjá í nýju ljósi. Valdimar er í gullspurningunni – og vegna snilldar himinsins má hann upplifa gleði spurningar og úrlausnarinnar, sem er greindarleg. Guð, skólastjóri alheimsins, er alltaf sanngjarn og hefur gaman af þeim sem þora.

Guð geymi Valdimar og Guð geymi þig.

Minningarorð 10. nóv. 2017. Neskirkja. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði. Erfidrykkja í Neskirkju.