Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Íkón Íslands

Ég byrja reisu mín,

Jesú, í nafni þín,

höndin þín helg mig leiði,

úr hættu allri greiði.

Jesús mér fylgi í friði

með fögru engla liði. 

Þessa ferðbæn orti Hallgrímur Pétursson. Fólk bað hana í upphafi ferða og þegar farið var  á sjó. Margt af því sem Hallgrímur samdi var á vörum fólks og til stuðnings lífinu. Svo hefur kirkjan á Skólavörðuholti fengið nafn hans og nú er hún orðin tákn. Hallgrímur var íkón þjóðarinnar um aldir og boðskapur hans flæddi um menningu okkar. En nú hefur kirkjan sem við hann er kennd líka orðið tákn. Myndir af kirkjunni hafa verið í auglýsingum í dagblöðum, í sjónvarpi og á samfélagsmiðlum. Kirkjan eða útlínur hennar hafa verið á rútum og strætisvögnum. Kuku-campers var með Hallgrímskirkju á bílum sínum í sumar. Fjöldi íslenskra fyrirtækja hafa notað kirkjuna sem baksvið fyrir auglýsingar s.s. Flugleiðir, Landsbankinn, Toyota og nú síðast líka Arionbanki. Ný púsl með glæsilegum Reykjavíkurmyndum notar Hallgrímskirkju sem meginefni. Kirkjan hefur birst á bókarforsíðum innlendum og erlendum. Þegar sýna á eitthvað stórkostlegt er kirkjan gjarnan í bakgrunni. Bílum er stillt nærri kirkjunni til að baksviðið sé flott. Ofurtrukkar líta jú betur út með Hallgrímskirkju í baksýn en við venjuleg íbúðarhús? Kvikmyndaframleiðendur bíða í röðum að fá að nota kirkjuna, úti og inni. Viðburðastjórar og auglýsendur virða og nýta táknmátt Hallgrímskirkju. Enginn staður landsins er vinsælli fyrir myndatökur en Hallgrímstorg og sjálfurnar sem teknar eru fyrir framan kirkjuna eru risabálkur í myndasafni alheimsins. Hallgrímskirkja rís eins og tákn úr náttúru og menningu Íslands og er orðin stórtákn í menningu heimsins. Hallgrímskirkja teiknar ekki aðeins sjónarrönd borgarlandslagsins heldur eru hún orðin íkón fyrir Ísland.

En fátt benti til þess þegar kirkjan var byggð. Hallgrímssókn er áttræður öldungur. Alþingi stofnaði sóknina árið 1940. Fljótlega eftir lok seinni heimsstyrjaldar var byrjað á byggingu kirkjunnar. Fyrst var gerður safnaðarsalur, sem er nú hluti kórsins. Veggir kirkjuskipsins voru síðan steyptir upp en ákveðið var að bíða með flókna bogahvelfinguna og þakið þar til síðar. Það voru klókindi sóknarnefndar að fullgera ekki kirkjuskipið heldur ljúka turninum fyrst. Ef það hefði ekki verið gert hefði turninn líklega aldrei verið byggður. Árið 1974 var hægt að messa í Suðursal turnvængsins og tólf árum síðar, 1986, var kirkjan svo vígð 26. október. Kirkjan er síðan orðin í hugum útlendinga samnefnari þess sem íslenskt er, tákn fyrir þjóð og land. Íkón Íslands.

En nú eru engir ferðamenn. Coronaveiran hefur gerbreytt samfélagi okkar, stúkað okkur af í heimssamfélaginu. Við prestarnir finnum að kvíði fólks vex. Þráðurinn er styttri hjá fólki og afkomuáhyggjur ógna. Æ fleirum er orðið ljóst að heimurinn er breyttur. Í færslum samfélagsmiðlanna kemur fram að mörgum finnst ástandið orðið biblíulegt, í merkingunni mjög alvarlegt. Ástandið er vissulega skrítið, aðstæður mörgum skelfilegar, já biblíulegar því við þurfum að leita djúpt og skoða gildi okkar. Hvað gerum við gagnvart vá? Saga okkar Íslendinga er litrík saga um hvernig gert var í voða, vanda og þraut eins og segir í ferðabæn Hallgríms Péturssonar. Úr reynslunni var unnið og til varð sjóður visku sem við megum gjarnan nýta okkur. Viska kynslóðanna á undan okkur er menning okkar og eiginlegur viskubrunnur sem við megum ausa af okkur til lífs og gagns.

Um aldir hefur fólk á Íslandi glímt við vá af ýmsum gerðum sem hefur haft áhrif á sjálfsskilning, samfélagsanda og trúarviðhorf. Jarðskjálftar, eldgos, háfísár, uppskerubrestur, barnadauði, sjávarháskar, myrkur og kuldakrumlur langra vetra höfðu áhrif. Íslendingar fengu ofurskammt erfiðleika. Nærri einn þriðji hluti hrauna sem runnið hafa í heiminum síðustu fimm hundruð árin eru íslensk. Á aðeins einum degi í mars árið 1700 létust 165 sjómenn hér á landi. Ef Bandaríkjamenn dæju í sama hlutfalli á einum degi myndu fjöldinn vera hátt í sjö hundruð þúsund Bandaríkjamenn. Blóðtakan var því mikil. Farsóttir gengu yfir þjóðina um allar aldir og fjöldi fólks dó. Samanburður á mannfjöldaþróun á Íslandi og í Noregi skýrir glögglega hve íslensk náttúra var fólki erfið. Í lok 11. aldar voru Íslendingar um 70 þúsund talsins en á sama tíma voru Norðmenn um 250 þúsund. Nærri aldamótunum 1800 hafði Íslendingum fækkað niður í 47 þúsund en á sama tíma hafði Norðmönnum fjölgað í átta hundruð og áttatíu þúsund. Fangbrögðin við líf og land tóku skelfilegan toll en menningin slípaðist, andinn fór á flug og viska þjóðarinnar varð til. Íslensk menning var þríeyki aldanna, almannakerfi andans, hjálp til að lifa. Lífsviskan spratt fram þrátt fyrir kröpp kjör og sorg. Líf þrátt fyrir dauða.

Eftir að ég lauk guðfræðinámi á Íslandi fór ég að læra trúfræði, heimspeki og guðfræðisögu í Nashville í Tennessee í Bandaríkjunum. Það var skemmtilegt að kynnast Suðurríkjunum á níunda áratugnum og hlusta á sögur fólksins úr öllum menningarkimum. Það var skelfilegt að kíkja inn í byssuskápa hinna herskáu, hörmulegt að hlusta á þjáningarsögur hinna jaðarsettu, en hrífandi að hlusta á pólitíkusa framtíðarinnar æfa sig á háskólalóðinni. Í minningunni lifir munur ofurríks yfirstéttarsamfélags og skelfilega fátækrar lágstéttar. Söguljóð kántrítónlistarinnar fengu merkingu í þessu teygða samfélagi misskiptingar.

Allt blandaðist þetta inn í guðfræðina og hugmyndasöguna sem ég var að lesa. Þegar maður fær nýja sjónarhól og fer að sjá menningu sína úr fjarlægð er hægt að endurmeta gildi og gæði. Ég fór að lesa klassísk rit íslenskrar menningar með nýjum hætti, ekki bara fornbókmenntir okkar, goðafræðina, Íslendingasögur og þjóðsögur heldur líka kristnisöguna. Sagnarfurinn og líka klassískir höfundar eins og Jón Vídalín, Hallgrímur Pétursson og síðari höfundar töluðu til mín með nýjum hætti. Mér fannst ég uppgötva hjartslátt landsins í andvörpum menningarhefðar Íslands. Og gerði mér grein fyrir að margt af því sem fólk orkti eða talaði um – lifði í munnmælum eða var sett á blað – voru viðbrögð við vá og dauða. Þetta voru lífstjáningar um hvað væri til gagns í lífsbaráttunni. Þetta var lífsleikniefni fortíðar, speki og almannavarnaefni. Í bland við góðar sögur og dásamlegt skemmtiefni var hægt að greina hvernig uppeldið var, mótun fólks og hvaða gildum var miðlað til að bregðast við náttúruvá, samfélagsmálum, lífi og dauða.

Allt fólk leitar merkingar og skýringa á lífi sínu og sinna. Og það er uppistaðan í vefnaði menningarinnar. Fólk Íslands glímdi við fæðuskort, sjúkdóma, ógnir náttúru og óréttlæti. Mér sýnist að Íslendingar hafi búið til merkilega menningu, sem hjálpaði fólki við að greina mörk, vá og samfélagsskipan. Þessa menningu kalla ég mæramenningu. Þetta reddast-hugsunin á Íslandi er ekki afstaða kjánans heldur á sér dýpri rætur í lífsreynslu kynslóðanna í erfiðum aðstæðum. Það er líka skýr siðfræði í þessari viskumenningu okkar á mærum. Allir skyldu þjóna öðrum. Einstaklingurinn var einn af mörgum og ætti að vera til hags samfélagi sínu. Hinn kristni boðskapur fléttaðist að lífsreynslu fólks og var túlkaður inn í aðstæður. Samábyrgð, kærleikur, hófstilling, trúmennska og auðmjúk ráðsmennska var til stuðnings í almannavarnahugsun fortíðar. Þegar augum látinna barna var lokað í hinsta sinn féllu tár en þá voru líka sögð huggunarorð um elsku himinsins og eilífðarfang Guðs.

Og hvað kemur svo þessi lífsviska íslenskrar menningar okkur við í covid-fári? Jú, við erum allt í einu að lifa biblíulega tíma kreppu, mæranna. Við ættum að staldra við og hugsa um voða vanda og þraut. Æ fleiri íhuga hvort coronaveiran sem nú hefur kvíað veröldina svo skelfilega sé afleiðing röskunar á jafnvægi náttúrunnar. Nútímalandbúnaður hefur skaddað náttúrujafnvægi sem þróast hefur í milljónir ára. Fæðuval hefur breyst og veirur smitast fremur á milli kerfa nú en áður. Víða hafa mörk ekki verið virt. Vatni hefur verið spillt í heiminum. Gengið er á vatnsbirgðir og vatnsstreitan vex. Og átök um vatn hefur og mun leiða til stríða og mannfalls ef fram heldur sem horfir. Lofstslagsvandi hefur á síðustu árum orðið ofurvandi okkar allra. Í viskuhefð okkar Íslendinga eru fyrirmyndir um hvernig á að taka á áföllum og vanda, hvernig eigi eða megi lifa við mæri og lifa af með reisn.

Klassísk menning og heildarhugsun vestrænna þjóða hefur rofnað. Afleiðingar eru siðferðisglundroði og mengaður samfélagsandi. Einstaklingshyggja og sérgæska er á kostnað heildarhyggju og samúðar. Þeir ríku og sterku reyna bara að tryggja hag sinn og er sama um hvort einhverjir líða út af í kjölfarið. Slík afstaða er algerlega þvert á mæramenningu Íslendinga. Sóunarafstaða einstaklingshyggjunar er þvert á visku okkar þjóðar.

Covidtíminn nú opinberar okkur mikilvægi þess að standa saman, verja hvert annað, passa upp á hin veikustu, axla ábyrgð og að við setjum ekki heilsukerfi okkar á hliðina. Við erum vissulega öll almannavarnir. En við þurfum sem samfélag að endurskoða hvernig við lifum og hver gildi okkar eru og lífsafstaða. Við höfum ekki óskertan rétt heldur ber okkur að elska og virða. Okkur eru gefnar miklar gjafir. Okkur er boðið til veislu eins og segir í texta dagsins. En þegar við virðum ekki gjafir lífsins, ríkidæmi náttúrunnar, gæði menningarinnar og velferð heimsins þá segjum við okkur úr lögum við það sem máli skiptir, töpum tengslum, upp, út og niður. Á máli trúleysingjans er það að sinna ekki siðferðisskyldu sinni. En á máli trúmannsins er það að bregðast kalli Guðs til hins góða lífs. Guð kallar okkur til veislu í lífinu, að njóta lífsgæðanna og að virða mörk og þarfir manna og náttúru. Við erum kölluð til að rækta tengslin við hið góða, siðlega, ábyrga og gleðilega. Við erum kölluð öll til veislu – boðið í partí sem er svo gott að það fer ekki úr böndum. En nú læðist kvíðinn um og mörkin færast nær. Æ fleiri upplifa þrengingar og hætt er við að veturinn verði mörgum þungbær. Þá er komið að tíma vitjunar. Við þurfum að þora að endurskoða, að ganga í okkur sjálf, meta gildi okkar og tengsl.

Hallgrímssöfnuður á afmæli. Hallgrímskirkja er ekki bara sjónarrönd eða íkón Íslands og aðalmarkmið ferðamanna, heimshelgidómur. Erindi þessarar kirkju, helgihalds hennar og menningarlífs er að segja góða sögu gegn allri vá heimsins. Það var verkefni Hallgríms Péturssonar með Pássíusálmunum. Hallgrímur hafði meiri áhuga á lífinu en dauðanum. Í eigin lífi hafði hann reynt að vonin lifir í þessum heimi af því Guð elskar og kemur til að veita líf. Að vita í von er að trúa. Meðan byggð helst í þessu landi verða sagðar sögur í helgidómum og á heimilum þessarar þjóðar um að lífið er sterkara en dauðinn. Að dauðin dó en lífið lifir. Meðan byggð helst í landi og heimi teiknar þessi helgidómur himinlínu Reykjavíkurborgar og turnspíran mun benda beint upp í himininn. Boðskapur þessa húss, erindi presta, djákna, organista, kórs og inntakið í hvísli helgidómsins er að Guð stendur með lífinu. Guð kemur og veitir von til lífs. Coronaveirur munu fara um heiminn, heimsbyggðin er við ýmis mörk sem verður að virða. En vonaróður lífsins verður tjáður og sunginn áfram í þessari kirkju meðan lífið lifir. Mæramenning Íslendinga er til lífs. Guð er nærri. Hallgrímur Pétursson segir í öðru erindi ferðabænarinnar sem reyndar verður sungin á eftir:

Í voða, vanda og þraut / vel ég þig förunaut, / yfir mér virstu vaka

og vara á mér taka. / Jesús mér fylgi í friði / með fögru englaliði.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda – Amen.

Hallgrímskirkja, útvarpsguðsþjónusta, 25. október, 2020.

 

Hvenær endar þetta?

Fólk er orðið þreytt á faraldrinum. Bylgjan nú er mörgum þungbærari en í vor. Ekki sér til enda farsóttarinnar. Veiran hemur samfélag manna. Þreyta fólks, ótti og leiði hefur nafn; fararsóttarþreyta. Sú þreyta er jafnvel í veldisvexti. Þegar álag vex og ekki sér út úr kófinu verður styttra í kviku fólks. Samfélagsstreitan vex og ósætti líka. Deilur hafa vaknað um hvert eigi að stefna og hvað og hver eigi að ráða. Hverjum á að þjóna í samfélaginu í aðkrepptum aðstæðum? Það eru djúpu siðferðisspurningarnar sem dynja á okkur þessa daga.

Hvenær dagar?

Einu sinni var spekingur í fornöld að kenna nemahóp og spurði spurningarinnar: „Á hvaða augnabliki endar nóttin og dagurinn byrjar?“ Einn neminn svaraði: „Það er þegar nógu bjart er til að hægt sé að greina milli hunds og kindar.“ Annar sagði: „Þegar það er nógu bjart er til að sjá hvað er ólífutré og hvað fíkjutré.“ Meistarinn sagði: „Þetta eru góð svör en þó ekki hin réttu. Svarið er: „Þegar ókunnugur maður kemur og við höldum að hann sé bróðir okkar og allar deilur hætta, þá er nákvæmlega stundin þegar nóttin endar og dagur byrjar.“

Hvað finnst þér um svona svar? Það er ekki svar um birtumagn eða myrkur, ekki um skilgreiningar eða yfirborðsmál heldur er það svar um fólk og lífsgæði. Þegar ókunnugir koma sem við ekki þekkjum og við sjáum í þeim hrífandi fólk, vini, eins og systur og bræður og höfum bara löngun til að gleðjast með þeim þá endar nóttin. Þegar við virðum aðra og metum enda deilurnar og dagurinn getur orðið bjartur.

Þrennan

Textar þessa sunnudags kirkjuársins eru eins og burðarvirki menningar og kristni. Lexían úr gamla testamentinu eru boðorðin. Þau eru eins og umferðarreglur fyrir lífið, forskriftir um hvað gagnist fólki í samskiptum. Í nýjatestamentistextanum segir frá að spekingur í lögfræði lífs og samfélags fór til Jesú Krists til að að spyrja hann hvernig hann fengi botn í lífsreglurnar og lögspekina. Hvað er æðsta boðorðið? spurði hann. Og Jesús svaraði með því að fara með það sem Gyðingar allra alda hafa lært: Shema Yisrael ( Heyr Ísrael… ). Það er æðsta boðorðið um að elska Guð algerlega, með sínu innsta inni, með skilningi og í öllu athæfi og annað fólk eins og sjálft sig. Þessi lífsspeki Gyðingdómsins – Shema – er arfur spekinnar í kristninni líka. Þetta boð er nefnt tvöfalda eða tvíþætta kærleiksboðið en það má líka kalla það þrefalda kærleiksboðið. Það er þrenna: Ást til Guðs, annarra og sjálfs sín. Allt þarf að vera í jafnvægi til að vel sé lifað. Ef fólk elskar bara aðra en ekki sjálft sig verður innra hrun. Ef maður elskar bara sjálfan sig hrynur maður inn í sjálfan sig og hamingjan visnar. Ef sambandið við Guð dofnar er lífi ógnað samkvæmt trú og reynslu þúsunda kynslóða.

Siðferði – líf

Hvenær endar nóttin og hvenær byrjar dagurinn? Lífið flæðir alltaf yfir mörk. Ekkert þolir algerar skorður og kassahugsun. Það er hægt að þjálfa fólk í hlýðni, en allt verður til einskis og óhamingju nema ræktin verði á dýptina í fólki. Það var þessi innsýn sem Jesús tjáði með því að beina sjónum að baki lögum og reglum og inn í fólk. Alla leið.

Jesús hafði enga trú á ytri þjónkun ef innri maður var ósnortinn. Hvaða skoðun hefur þú á því? Við getum lifað við allsnægtir en þó verið frosin, búið við stórkostleg kerfi, þróaða löggjöf og háleitar hugsjónir en ekkert verður þó gott nema fólk sé ræktað til dýpta. Jesús sagði að fólk væri ekki heilt nema innri maður þess væri tengdur hinu góða.

Hvenær endar nóttin og hvenær byrjar dagurinn? Það er þegar við viðurkennum dýrmæti annarra, að aðrir eru djásn Guðs, ómetanleg og undursamleg þá getum við elskað. Og dagur er á lofti þegar við virðum aðra eins og okkur sjálf. Getum við tamið okkur slíka mannsýn, mannrækt, mannelsku? Snilldarviðbót Jesú Krists var að Guð legði ekki aðeins til hugsun, mátt, kraft og anda heldur gerði eitthvað í málum, kæmi sjálfur. Guð sætti sig ekki við myrkur fólks heldur horfir á mennina sem sína bræður og systur. Saga Jesú er saga um dagrenningu heimsins, að Guð ákvað að sjá í mönnum bræður og systur. Okkar er að lifa í þeim anda.

Í farsóttarþreytu er myrkrið svart, kuldinn sækir í sálina, deilurnar magnast. Þegar innlokanir fara illa með fólk, streitan vex, kvíði og reiði er þarfast að opna, rækta hið jákvæða, sækja í það sem eflir fólk og láta ekki myrkrið taka yfir sál og útrýma vitund um gildi annarra. Hvenær byrjaði dagurinn? Það var þegar Guð horfði með vinaraugum á veröldina. Hvenær byrjar þinn dagur? Þegar þú lærir að lifa í elskuþrennunni.

Verkefnið er að elska Guð, elska aðra, elska okkur sjálf. Það er þrennan fyrir lífið. Og hefur mikil áhrif á hvort dagar í lífi þínu og margra annarra. En Guð í elskuþrennu sinni er þér nærri og styður.

Amen.

2020 11. OKT 18. SUNNUDAGUR EFTIR ÞRENNINGARHÁTÍÐ A

Lexía: 2Mós 20.1-17

Drottinn mælti öll þessi orð: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. Þú skalt hvorki gera þér líkneski né neina eftirlíkingu af því sem er á himnum uppi eða því sem er á jörðu niðri eða í hafinu undir jörðinni. Þú skalt hvorki falla fram fyrir þeim né dýrka þau því að ég, Drottinn, Guð þinn, er vandlátur Guð og refsa niðjum í þriðja og fjórða lið fyrir sekt feðra þeirra sem hata mig en sýni kærleika þúsundum þeirra sem elska mig og halda boð mín. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt sem leggur nafn hans við hégóma. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Þú skalt vinna sex daga og sinna öllum verkum þínum. En sjöundi dagurinn er hvíldardagur Drottins, Guðs þíns. Þá skaltu ekkert verk vinna, hvorki þú sjálfur né sonur þinn eða dóttir, þræll þinn né ambátt eða skepnur þínar eða aðkomumaðurinn sem fær að búa innan borgarhliða þinna. Því að á sex dögum gerði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í því er en hvíldist sjöunda daginn. Þess vegna blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann. Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér. Þú skalt ekki morð fremja. Þú skalt ekki drýgja hór. Þú skalt ekki stela. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þræl hans eða ambátt, uxa hans eða asna eða nokkuð það sem náungi þinn á.“

Guðspjall: Mark 12.28-34

Þá kom til Jesú fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: „Hvert er æðst allra boðorða?“Jesús svaraði: „Æðst er þetta: Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.“Fræðimaðurinn sagði þá við Jesú: „Rétt er það, meistari, satt sagðir þú. Einn er Guð og enginn er Guð annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.“Jesús sá að hann svaraði viturlega og sagði við hann: „Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.“

Kirkja Quarantine

Í maí hafði dóttir mín samband og sagði við mig: „Vinur minn er að sýna ljósmyndir. Þið verðið að fara á sýninguna hans, Quarantine Iceland. Pabbi, þú ert á sýningunni, eiginlega eina manneskjan, sem sést.“ Svo upplýsti hún föður sinn, að á sýningunni túlkaði ljósmyndarinn borg lokunar og mannleysis. Þetta væri sýning sem ég myndi örugglega hafa áhuga á.

Já, Qurantine Iceland var merkileg sýning og túlkaði dimmasta og átakanlegasta tíma samkomubannins í vor. Þá var kvíði í fólki. Áhyggjur vegna atvinnuleysis, uppsagna og heilsufars þrengdi að fólki á þessum tíma. Þær tilfinningar túlkaði Þórhallur Sævarsson vel með myndum sínum. Hann kom frá Mílanó og fjölskyldan með honum þegar COVID-19-faraldurinn fór af stað. Og þegar heim var komið fannst honum ástæða til að taka myndir í Reykjavík samomubannsins, sem hann sýndi svo í Hafnartorgi, einni af nýbyggingunum í miðbænum.

Ég hlýddi dóttur minni og við röltum niður í bæ, ég og kona mín. „Velkomin“ sagði ljósmyndarinn þegar við komum inn í salinn. Þegar við Þórhallur höfðum heilsast sagði ég við hann: „Ég er maðurinn á myndinni.“ Augun blikkuðu meðan hann var að kveikja, hann var snöggur og brosti út að eyrum. Hann skildi hvað ég átti við enda var eina myndin á allri sýningunni sem sýndi fólk einmitt úr Hallgrímskirkju.

Sýningin var áhrifarík. Í stórum sal voru myndir af húsum, götum og stöðum – en ekkert fólk á ferð. Allar þessar myndir – nema ein – sýndu mannlausa borg. Það var eins og dómur hefði fallið, allt var staðnað, mannleysið yfirþyrmandi. Yfirgefin Reykjavík, borg að stríði loknu eða eftir einhverjar hræðilegar náttúruhamfarir. Einmanleiki og annarleiki borgar og lands seitlaði út úr myndunum og inn í sálir okkar sem komu í Hafnartorg. Við skynjuðum líðan þessa ógnatíma.

Bara á myndinni frá Hallgrímskirkju var fólk. Eina fólkið sem sást var í kirkju. Hvítklæddur prestur í kór að stýra bænastund. Og svo voru þrjú í kirkjunni og það sást bara aftan á höfuð þeirra. Helgidómurinn var hrífandi fagur á myndinni. Og tveir höfðu þegar keypt hana. Það var eins og kirkjan væri eini vettvangurinn sem gegndi hlutverki í þessari borgartæmingu. Tónabíó-bingóstöðin tóm, líka Laugardalsvöllur, verslunarmiðstöðvar og pylsustaðirnir. Göturnar voru bíllausar. Myndirnar segja ekkert um raunlífið í landi og borg á þessum tíma, heldur tjá fremur stemminguna á lokunartíma. Myndirnar túlkuðu líðan, tilfinningar ljósmyndarans og margra annarra. Kaþarsis.

Kirkjan í kófinu

Sýningin rifjaði upp hvað við gerðum í kirkjunni á erfiðasta lokunartímanum. Allt breyttist, allt var í bið. Afar fá prestsverk, útförum var frestað til minningarathafna síðar, skírnum var frestað líka, fáar hjónavígslur, færri komu til sálgæslu en venjulega og tónleikar og aðrir viðburðir féllu niður. Hætta varð hefðbundnu helgihaldi vegna fjöldatakmarkana. En það bannar engum að biðja. Samkomubannið náði ekki yfir Guð, engin bið þar. Ekki heldur nándarmörk – alger nánd leyfileg. Það var heimilt að koma í kirkjuna. Ferðamennirnir voru engir en Íslendingar voru þó á ferð, komu í túristaleysinu niður í bæ og líka í helgidóminn. Við prestarnir stýrðum helgistundum í hádeginu en auglýstum þær ekki. Alltaf voru þó einhver í kirkjunni en aldrei yfir tuttugu sem var hámarkið. Ljósmyndarinn fangaði þessa stemmingu. Borgin var tóm en í kirkjunni var fólk. Eina fólkið á allri þessari sýningu voru þau sem voru að bænagerð í hliði himins. Kannski ítrekaði það einmitt háska tímans. Guð blessi Ísland.

Hvað er kirkja?

Guðspjall dagsins er um helgidóm, hlið himins, tilbeiðslustað. Jesús hryggðist yfir skammsýni fólks, hvernig það brást rangt við váfréttum. Hann talar um skelfileg örlög Jerúsalem. Borgin féll nokkrum áratugum síðar, og hér upp á Íslandi varð til eyja í Þingvallavatni þegar borgin helga féll og helgidómur þess líka. Alltaf þegar ég fer austur Mosfellsheiði og sé Sandey hugsa ég um þennan texta í Lúkasarguðspjalli og vitjunartímann. „Hús mitt á að vera bænahús,“ sagði Jesús Kristur „en þið hafið gert það að ræningjabæli.“ Bænahús, það er hlutverk kirkju.

Hallgrímskirkja er ekki aðeins fjölsóttasta kirkja landsins heldur fjölsóttasti ferðamannastaðurinn líka. Og þegar margir fara um svona stað þarf stöðugt að íhuga og skerpa hlutverk kirkjunnar. Til hvers kirkja? Ég hef heyrt fólk, sem ekki þekkir vel til starfs Hallgrímskirkju, tala um ferðamennina sem tæki og sjá aðallega í þeim tekjumöguleika. En ferðamennirnir sem hingað koma eru ekki burðarmenn fjármuna. Þeir eru mannverur, lifandi fólk, sálir sem Guð elskar, rétt eins og okkur hin. Þau hafa þarfir sem eru andlegar. Þau koma hingað ekki aðeins til að kíkja upp í turn og yfir litrík þök borgarinnar og til fjallanna, heldur fara þau líka inn í guðshúsið til að að anda að sér himinfriðnum, til að njóta kyrrðar- eða íhugunarstundar, bæna sig, nema guðshvíslið. Þau þrá mörg að fá yfirlit yfir líf sitt og samband við hamingjuna. Enn er minnt á lista the Guardian sem úrskurðaði að Hallgrímskirkja væri eitt af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum heims. Milljónir hafa fundið að hér er dásamlegt samband, upp og inn. Hér er rétt samstillig kraftanna. Hlið himins tengir fólk í allar áttir, inn, út, upp og til dýptar.

Biðjandi söfnuður

Á tíma samkomubannsins, þegar allt féll niður, allir mannfundir, líka listviðburðir, héldum við áfram að biðja hér í kirkjunni, íhuga stóru málin, lesa upphátt úr Biblíunni í kirkjunni og útleggja og biðja fyrir öllum þeim sem hafa beðið um fyrirbænir. Bænastundir voru haldnar í hádeginu hvort sem það voru fjögur í kirkju, sjö, tólf eða nítján. Og hvað er kirkja? Bænastaður segir Jesús Kristur. Það er skilgreiningin. Biðjandi, boðandi, þjónandi. Einu gildir hvort fólk er í þjóðkirkju, fríkirkju eða utan kirkju. Allir voru og eru velkomnir í Hallgrímskirkju til að tengja og njóta næringar hið innra. Hvort sem kirkjan er fólki fjarlæg eða nálæg er þetta guðshús stórt fang sem engum hafnar. Kvíði og óskir mannanna eru leyfilegar. Og hér er staður til að leyfa því sem er dimmast og falið að koma upp og í ljósið.

Já bænahús

Aftast í Hallgrímskirkju, nærri ljósberanum, er borð með miðum og skriffærum. Á hverjum degi koma margir og setjast niður og skrifa bænir sínar á lituð spjöld. Svo höfum við prestarnir tekið þessa bænamiða og beðið fyrir fólki sem tjáir áhyggju- og gleðiefni sín, það sem líf þeirra snýst um, vonir, þrá. Fólk sem er að skilja biður fyrir erfiðum aðstæðum, sjálfu sér og börnum sínum. Fólk sem glímir við fjölskyldukreppur tjáir þær. Sorg yfir barnleysi er líka tjáð með sálarslítandi orðum en borin fram fyrir Guð sem er beðinn um nýtt líf. Þegar veikindi sækja að eru áhyggjur orðaðar og Guð beðinn um nánd og styrk. Margir hafa tjáð kvíða vegna farsóttar COVID-19 og biðja um mátt og leiðsögn. Í bænum síðustu daga er líka beðið fyrir íbúum Hvíta Rússlands, Jersúsalem, Palestínu og forsetakosningum í Bandaríkjunum. Svo situr fjöldi fólks í kirkjunni og tengir við himininn, sjálft sig, tilfinningar og lífsdjúpin. Appelsínugulu bænaspjöldin eru tákn um að hér er raunverulegt fólk á ferð, sálir. Kirkja er opinn staður fyrir lífið. Ferðafólkið, fólk á ferð – eins og við – eru virt. Á okkur öll er horft ástaraugum. Hér erum við virt og metin, megum við vera við sjálf og tengja við allt það mesta, stærsta og besta. Í skírnum, giftingum, viðtölum og útförum er allt opið. Himininn líka. 

COVID-kófið. Já þetta er einkennilegur tími. Quarantine Iceland-myndin úr Hallgrímskirkju leitar stöðugt upp í vitund mína. Hvað er kirkja, hvað er helgistaður? Aldrei ræningjabæli. Kirkja er umferðarmiðstöð, pílagrímastaður, fang lista og viðburða, fegurðar, metnaðar, þjónustustaður fyrir fólk. Viðburðir, allt mannlífið í kirkjunni nýtur að kirkjan er bænahús. Þar er kraftmiðjan sem allt tengir. Þannig veruleiki á Hallgrímskirkja að vera, köllun hennar, hlutverk og framtíð. Guði sé lof. Amen.

Hallgrímskirkja 16. ágúst, 2020. 10. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Meðfylgjandi myndir tók ég á sýningunni Quarantine Iceland. Þetta eru símamyndir af myndum Þórhalls (sem lýtur að einni til að túlka), líka Hallgrímskirkjumyndin og sýnir ekki vel gæði frummyndarinnar. 

Textaröð: A

Lexía: Jer 18.1-10
Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni: Farðu nú niður í hús leirkerasmiðsins. Þar mun ég láta þig heyra orð mín. Ég gekk því niður til húss leirkerasmiðsins einmitt þegar hann var að vinna við hjólið. Mistækist kerið, sem hann var að móta úr leirnum, bjó hann til nýtt ker eftir því sem honum sýndist best. Þá kom orð Drottins til mín: Get ég ekki farið með yður, Ísraelsmenn, eins og þessi leirkerasmiður gerir? segir Drottinn. Þér eruð í hendi minni, Ísraelsmenn, eins og leirinn í hendi leirkerasmiðsins.

Pistill: Róm 9.1-5
Ég tala sannleika í Kristi, ég lýg ekki, samviska mín, upplýst af heilögum anda, vitnar það með mér að ég hef mikla hryggð og sífellda kvöl í hjarta mínu og gæti óskað að mér væri sjálfum útskúfað frá Kristi ef það yrði til heilla fyrir bræður mína og ættmenn, Ísraelsmenn. Þeir eiga frumburðarréttinn, dýrðina, sáttmálana, löggjöfina, helgihaldið og fyrirheitin. Þeirra eru ættfeðurnir og af þeim er Kristur kominn sem maður, hann sem er yfir öllu, Guð, blessaður að eilífu. Amen.

Guðspjall: Lúk 19.41-48
Og er Jesús kom nær og sá borgina grét hann yfir henni og sagði: „Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi hvað til friðar heyrir! En nú er það hulið sjónum þínum. Því að þeir dagar munu koma yfir þig að óvinir þínir munu gera virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu. Þeir munu leggja þig að velli og börn þín sem í þér eru og ekki láta standa stein yfir steini í þér vegna þess að þú þekktir ekki þinn vitjunartíma.“ Þá gekk hann inn í helgidóminn og tók að reka út þá er voru að selja og mælti við þá: „Ritað er: Hús mitt á að vera bænahús en þér hafið gert það að ræningjabæli.“ Daglega var hann að kenna í helgidóminum en æðstu prestarnir og fræðimennirnir, svo og fyrirmenn þjóðarinnar, leituðust við að ráða hann af dögum en fundu eigi hvað gera skyldi því að allt fólkið vildi ákaft hlýða á hann.

Umboðsmaður og ráðherra

Er ekki alveg úrelt að auglýsa eftir ráðsmanni? Hefur þú einhvern tíma lesið eða heyrt í atvinnuauglýsingum: Ráðsmaður óskast! Er auglýst eftir slíku fólki. Er það ekki alveg úrelt? Og veit einhver hvað ráðsmaður gerir? Hvernig skilur þú hugtakið?

Þegar orðið er gúglað koma nokkur dæmi í ljós og gjarnan í tengslum við að setja einhvern stjóra vegna búskipta eða fjármálauppgjörs. Eins og vænta mátti – af því orðið kemur fyrir í dæmisögum Jesú – kann Google að nefna nokkur dæmi í tengslum við trú og Biblíuna.

Siðferðisþreyta

Þegar farið er að skoða nánar notkun orðsins kemur í ljós að starfsheitið ráðsmaður er að hverfa úr máli og lífi fólks og önnur orð að koma í staðinn. Af hverju skyldi svona merkilegt og gott og merkingarþrungið orð vera að hverfa úr málinu? Mig grunar að ein af ástæðum sé hægfara þróun í vestrænum samfélögum í marga áratugi, þróun sem hægt er að kalla siðferðisþreytu. Atvinnubreytingar skákuðu gömlum viðmiðum og siðferði til hliðar. Þegar auglýst var eftir fólki til vinnu var ekki venjan að vísa til Jesú Krists nema ef ráða átti kirkjulega starfsmenn. Og þar sem ráðsmannshlutverkið var tengt siðferði í Biblíunni þá varð hugtakið smátt og smátt óþjált og varla nothæft. Þegar samfélag tuttugustu aldar var orðið þreytt á siðferði þá datt þetta gamla starfsheiti út og önnur starfsheiti komu í staðinn.

Stjórinn

En hver var hin forna merking hugtaksins ráðsmaður? Hvað gerði ráðsmaður? Jú, ráðsmenn stjórnuðu og tóku ákvarðanir um verk, fjárnotkun o.s.frv. Slíkt fólk er nú nefnt stjórnarmaður, forstjóri, framkvæmdastjóri, deildarstjóri, yfirmaður, staðarhaldari, stjórnarformaður, stjórnmálamaður, umboðsmaður og embættismaður – svo nokkur séu nefnd. Og þetta fólk hefur margvíslegum umsýsluhlutverkum að gegna. Það gætir hagsmuna og stýra málum fyrir hönd þeirra sem eiga. Þessu fólki er auðvitað ætlað að axla ábyrgð og skila vel af sér. En höfum við þá tæmt hlutverk ráðsmanna? Eru þau aðeins umsýsluhlutverk vegna fjármuna og eigna?

Hvernig er með fjölskyldumálin þín? Hvað um vinnuna? Hvernig er með tengslin við annað fólk, líka þau sem eru allt öðru vísi og hinsegin? Kemur ráðsmennskan eitthvað þar við sögu? Hvað með pólitík og stóru siðferðisákvarðanir samtímans, náttúrverndarmál og framtíð jarðarkúlunnar? Og hvað um foreldra ungra barna? Hvað um þau sem sinna mannauðsmálum og starfsmannamálum? Gegna þau einhverju hlutverki ráðsmennsku?

Beint frá Jesú Kristi

Á fyrri öldum voru hlutverk yfirmanna alltaf tengd siðferðisábyrgð. Það var einfaldur kristilegur barnalærdómur að tengja völd og gott siðferði – hvort sem furstar, greifar, kóngar og keisarar vildu eða ekki. Það var kristileg skylda þeirra að vera dygðugir í lífi og verkum. Sálmarnir, bækurnar, guðfræðin og prestarnir minntu á að ráðsmaður ætti samkvæmt boðskap Jesú Krists að nota vald sitt með ábyrgð. Vald og siðvit ættu og skyldu fara saman.

Ef orðið ráðsmennska er orðið lítið notað og þar með að hverfa úr máli þjóðarinnar er íhugunarefni hvort siðferðið rýrnar líka. Við getum t.d. spurt okkur hvort fólgin sé einhver siðferðisvídd í orðinu fjármagnseigandi eða orðunum fjárfestir og forstjóri. Flestir skilja og vita að stjórn fólks og fjár verður aldrei farsæl án gilda. Siðlaus stjórn drepur eða veldur þjáningu. Stórfyrirtæki setja sér siðareglur vegna þess að siðsemi í viðskiptum borgar sig þegar til lengri tíma er litið. Siðlaus, siðbrengluð eða siðskert fyrirtæki tapa alltaf á viðskipum. Fyrirtæki eins og Boeing og Volkswagen urðu fyrir gífurlegu tjóni vegna þess að þau fóru í störfum sínum á svig við gott siðferði og siðareglur. Stjórnvöld, hreyfingar og fyrirtæki setja sér orðið reglur um viðmið, ferla og mörk. Ráherrar ríkisstjórnar Íslands eru t.d. bundnir í störfum sínum af siðareglum sem settar voru í árslok 2017. Þar kemur t.d. fram að ráðherra má aldrei láta persónulega hagsmuni rugla opinber störf sín, sem alltaf eiga að vera í þágu almennings fyrst og fremst. Ráðsmennskan er sem sé kjarni þjónustu ráðherrans og á að stýra stefnu, já öllum ákvörðunum.

Ráðsmennskan

Guðspjall dagsins er um eignir og ráðsmennsku. Til hvers eru eignir? Ef menn eiga hundruð milljóna er það ekki bara einkamál þeirra hvað þeir gera við peningana? Eða getur verið að einhver siðleg krafa sé á þeim sem eiga? Börnin, framtíðarkynslóðir, eiga kröfu á hendur okkur um góða meðferð náttúru og eigna. Við þurfum að skila af okkur því sem við höfum að láni, fé, verkefni, náttúru. Það skiptir máli hvernig við lifum og hverju við skilum. Við berum siðferðilega ábyrgð, líka gagnvart framtíðinni.

Jesús segir í guðspjalli dagsins sögu. Hún er ein af 38 dæmi- eða líkingasögum sem hafðar eru eftir Jesú. Í ræðum og fræðslu talaði hann gjarnan um hagnýt mál. Mörgum sem fara að lesa í Biblíunni kemur á óvart hversu oft Jesús talar um peninga. Helmingur smásagna hans varðar notkun á fjármunum. Í texta þessa sunnudags segir Jesús frá peningamanni, sem var nappaður því hann fór illa með. Honum var sagt upp en átti að vinna uppsagnartímann. Ráðsmaðurinn gat ákveðið sjálfur með hvaða móti hann skildi við fyrirtækið. Hann fékk að ráða hvað hann gerði. Og hann ákvað að vinna lítið fyrir vinnuveitandann en nota tímann aðallega fyrir sjálfan sig. Hann var bara sjálfhverfur en sýndi snilldartakta. Það eru jú engin takmörk fyrir því sem fólk gerir fyrir sjálft sig. Karlinn kallaði í alla, sem skulduðu vinnuveitanda hans eitthvað og afskrifaði skuldirnar að nokkru. Tilgangurinn með þessu athæfi var að ávinna sjálfum sér vináttu skuldaranna. Þegar hann væri orðinn atvinnulaus ætti hann greiða inni hjá þeim, hönk upp í bakið á skuldaraliðinu.

Egódólgar eða góð gagnrýni

Hver er nú tilgangur þessarar sögu? Er Jesús að kenna fólki að plata? Kennir Jesús prettavit? Örsaga Jesú er tvíræð, áleitin og umhugsunarverð. Fólk veit ekki hvernig eigi að skilja söguna. Er þetta gamansaga, brandari eða alvörusaga? Á að hlægja að henni eða taka hana alvarlega? Sögur Jesú teygja á og markmið þeirra er að fá fólk til að hugsa, bregðast við, dýpka skilning, rækta lífsleikni og bæta líf fólks. Jesús minnir einfaldlega á að fólk eigi ekki að vera heilagir sakleysingjar heldur með meðvitund gagnvart eigingjörnu fólki. Ljóssins börn eigi að vera raunsæ á sjálf sig, annað fólk og hve lífið er margbreytilegt og tvíbent. Jesús hvetur til að vel sé fylgst með hinum undirförulu. Ekki til að apa eftir þeim heldur til að vera það sem þau eru ekki. Gerið ekki það sem þau gera! Í stað þess að láta peninga fylla huga og líf notið þá í annarra þágu, til að hjápa öðrum. Þá verður til fjársjóður á himnum.

Jesús dregur vel fram, að viðskipti eru oft lituð af sjálfselsku og að embættismenn geta verið lélegir þjónar og uppteknir af eigin völdum, stöðu og fé. Freisting valdamanna er að gerast egódólgar. Prettavitið getur orðið gríðarlegt, en þjónustan léleg og réttlætið fótum troðið. Orð Jesú er því ekki lífsfjarlæg himneska. Kristnum mönnum er vissulega ætlað að tala um það sem vel er gert, benda á framúrskarandi þjónustu, framfarir og samfélagslegar bætur, en hika ekki heldur að ræða hvað fer úrskeiðis og hvað er hugsanlega úr takti við trú, gildi og siðferði í fjármálageiranum, náttúrumeðhöndlun, stríðsrekstri og samfélagi. Trú upplýsir menn um líf og lífsstefnu.

Sögur Jesú Krists og öll kristin fræði eru fyrir fólk, í þágu lífs fólks og til að hjálpa fólki við að gegnumlýsa kerfi og atferli og greina stefnu til góðs. Þó ekki sé rædd flokkspólitík eða dægurpólitík í kirkjunni er alltaf rætt um grunnþættina, hið mikilvæga og þar með einnig um skuggahliðar mannlífsins, einstaklinga og kerfa. Já, Jesús vildi ekki að við værum kjánar og sakleysingjar heldur ábyrg og elskurík og þyldum að horfast í augu við og tala um bresti og slæmt siðferði.

Himnesk glópska eða skerpa?

Trú er tengsl sem gefur sýn og hlutverk manna í heimi og framtíð. Að trúa er að tengja við það mesta, besta og stórkostlegasta í tilverunni. Og trú á aldrei að tapa sér í himinglápi, heldur reynir trúmaðurinn að temja sér – alla vega að æfa sig í – að horfa á heiminn með augum Guðs. Það merkir að vera fulltrúi Guðs í veröldinni, samverkamaður, þjónn lífsins í veröldinni og stuðla að góðu lífi.  

Hvort sem þú notar orðið ráðsmaður eða ekki hefur siðferðisdýptin ekki slaknað. Við erum öll ráðsmenn í lífi okkar, stjórn, peningamálum, kirkju, samfélagi og náttúru. Orðið ráðsmaður er kannski týnt en hlutverkið ekki, það er þitt og okkar svo lengi sem við lifum.

Amen

Hallgrímskirkja 9. ágúst.

Meðfylgjandi mynd tók ég á aðalhóteli Santander á Spáni. Þessi gömlu salt og pipar- staukar voru búnir að þjóna mörgum. Þeirra siðferði var skýrt og klárt. 

A-textaröð

Lexían: Orðs. 2.1-6

Son minn, ef þú veitir orðum mínum viðtöku
og geymir boðorð mín hjá þér,
svo að þú ljáir spekinni athygli þína,
hneigir hjarta þitt að hyggindum,
já, ef þú kallar á skynsemina
og hrópar á hyggindin,
ef þú leitar að þeim sem að silfri
og grefst eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum,
þá munt þú skilja, hvað ótti Drottins er,
og öðlast þekking á Guði.
Því að Drottinn veitir speki,
af munni hans kemur þekking og hyggindi.

Pistillinn: 1. Pét. 4.7-11

En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætnir og algáðir til bæna. Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda. Verið gestrisnir hver við annan án möglunar. Þjónið hver öðrum með þeirri náðargáfu, sem yður hefur verið gefin, sem góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónustu hefur skal þjóna eftir þeim mætti, sem Guð gefur, til þess að Guð vegsamist í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.

Guðspjallið: Lk. 16.1-9

Enn sagði hann við lærisveina sína: Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann, og var sá sakaður við hann um það, að hann sóaði eigum hans. Hann kallaði hann fyrir sig og sagði við hann: Hvað er þetta, er ég heyri um þig? Gjör reikningsskil ráðsmennsku þinnar, því þú getur ekki verið ráðsmaður lengur. Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: Hvað á ég að gjöra, fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennskunni? Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla. Nú sé ég, hvað ég gjöri, til þess að menn taki við mér í hús sín, þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni. Hann kallaði nú á skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn. Við þann fyrsta sagði hann: Hve mikið skuldar þú húsbónda mínum? Hann svaraði: Hundrað kvartil viðsmjörs. Hann mælti þá við hann: Tak skuldabréf þitt, set þig niður og skrifa sem skjótast fimmtíu. Síðan sagði hann við annan: En hvað skuldar þú? Hann svaraði: Hundrað tunnur hveitis. Og hann sagði honum: Tak þú skuldabréf þitt og skrifa áttatíu. Og húsbóndinn hrósaði rangláta ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega. Því að börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins. Og ég segi yður: Aflið yður vina með hinum rangláta mammón, svo að þeir taki við yður í eilífar tjaldbúðir, þegar honum sleppir.

 

 

Guðlaug

Engin þjóðhátíð, engir sæludagar eða berjadagar þessa helgi. Fával við forsetainnsetningu. Engin altarisganga í messu og engar útihátíðir. Þetta er einkennileg verslunarmannahelgi. Margir hafa líka tjáð sterk vonbrigði með nýjar reglur vegna sóttvarna og tilfinningarnar flæða á samfélagsmiðlunum. Sumt af því sem er látið vaða er talsvert fjarri góðri dómgreind. En það er mikilvægt að staldra við og skoða aðstæður. Við, kristnir menn, megum gjarnan vitja grunngildanna og minna okkur á, að það er meðal hlutverka kristins fólks að standa með lífinu og vernda þau sem þarfnast skjóls. Og við megum sækja í hlið himins og koma til guðsþjónustu. Guð er samur og möguleikarnir á guðsræktinni eru ekki síðri þó samskipti lúti stífari reglum. En samfélagstengslin og reglurnar eru í þágu lífsins.

Þegar hægir á að nýju hefur hugurinn leitað til baka, til vormánaðanna og sumarsins. Og sumt af því, sem við höfum reynt og séð, hefur setið eftir og orðið til íhugunar. Margir landar okkar hafa notað sumarið til ferða um landið. Ég hef fylgst með sumum ykkar og séð myndirnar, sem vinir mínir hafa smellt á facebook. Mínar Íslandsferðir hafa verið gefandi. Ég fór með fjölskyldu og vinum um Suðurland. Ég gekk á nýjar slóðir í Skaftafelli og þaut um áhrifaríkt Fjallsárlón sunnan Vatnajökuls og dáðist að dekurhóteli á Hnappavöllum. Svo fórum við um Snæfellsnes. Þetta voru góðar ferðir og líka ferðirnar, sem við fórum upp á Akranes. Þangað er ég búinn að fara tvisvar og alla leið út að vitunum. Þar eru Skagamenn að skapa dásamlega aðstöðu og ástæða til að hvetja fólk til að fara á Breiðina. En merkilegast fannst mér að fara að Langasandi og í Guðlaugu.

Laugin við Langasand

Hvað er það? Hver er Guðlaug? Það er ný laug, sem búið er að gera í brimgarðinum við Langasand. Glæsilegt mannvirki á þremur pöllum. Fólk kemur um langan veg til að baða sig í þessari dásemdarlaug með himinnafninu.

Guðlaug þessi á sér merkilega sögu, sem hófst í konu sem bjó á Bræðraparti yst á Akranesinunu. Í mörg ár, raunar áratugi, hefur blasað við, að bæta þyrfti aðstöðu og þjónustu við fólk við Langasand. Þessi gullströnd Skagans hefur verið íbúum aðdráttarafl, leiksvæði og útivistarsvæði. Á síðari árum hefur sjósundsfólkið farið þar í sjóinn. Marga hefur því dreymt um, að heitir pottar yrðu settir niður við Langasand. Umræður bárust jafnvel inn í stjórn styrktarsjóðs, sem kona mín stýrði – og til minningar um ömmu hennar og afa. Sjóðsstjórnin ákvað að leggja fé til framkvæmda. Þáverandi bæjarstjóri studdi áætlanir sem og meirihluti bæjarstjórnar Akraness. Frábærir arkitektar voru fengnir til starfa, sem skiluðu frumlegum tillögum að hófstilltri en glæsilegri byggingu. Ferðamálasjóður og Akranesbær lögðu líka til fé til laugarinnar við Langasand.

Bræðrapartshjónin

Styrktarsjóðurinn, sem samþykkti laugarpeningana, var kenndur við hjón sem bjuggu á Bræðraparti nærri vitunum. Þau hétu Guðlaug Gunnlaugsdóttur og Jón Gunnlaugsson. Að þeim látnum var jörð þeirra og eigur gefnar til mikilvægra uppbyggingarmála á Akranesi. Framlag til laugargerðarinnar var það síðasta, sem sjóðsstjórnin greiddi, áður en þessum mikla milljónasjóði var lokað. Minning vitavarðarins og formannsins Jóns Gunnlaugssonar hefur verið vel varðveitt og nýr björgunarbátur slysvarnardeildarinnar ber t.d. nafn hans. En þar sem byggja átti laug fyrir minningarfé úr sjóði um þau hjón lagði ég til að laugin fengi nafn Guðlaugar. Svo varð og allir sem fara í Guðlaugu njóta hennar og þeirra hjóna er minnst.

Guðlaug var tekin í notkun í desmeber 2018 og hefur síðan glatt marga, ekki bara kroppa baðgesta heldur hrífur líka fyrir fegurð og góðan arkitektúr. Guðlaugin byggir á sögu en líka formum, litum, hreyfingu sjávar, grjóts og sands strandarinnar nærri.

Þegar ég kom að Guðlaugu í sumar voru margir á ferð og fjöldi í lauginni. Guðlaug hefur komið Akranesi á kort ferðamennskunnar og orðið sem nýtt og opið hlið að sögu Akraness en líka Skaga nútímans. Fólk nýtur blessunar, líkamlega, félagslega, listrænt og þar með andlega. Þessi laug hefur táknvíddir, sem spanna ekki aðeins steinsteypu og hreinsun, heldur svo margt fleira.

Hið sanna

Þetta er inngangur að texta dagsins og útleggingu. Áhersla guðspjallsins er á sannleika og heilt og gott líf. Silli og Valdi gerðu eitt af versum dagsins úr Fjallræðunni að slagorði. Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá. Og það hefur nú löngum verið kennimark góðrar matvöruverslunar að ávextir séu góðir og grænmetið gott. Svo er líka minnt á, að líferni og gerðir mannanna séu birtingarmynd um hið rétta, góða og gefandi. Á þessum álagstíma COVID-19 blasir við í pólitík heimsins að sannleikurinn er ekki við stjórnvöl alls staðar. Sjálfhverfir lukkuriddarar vekja á sér athygli til að ná sem lengst. Sagt hefur verið að narcisistar leiti inn í stofnanir og kerfi þar sem völd eru og peningar. Í Noregi er reiknað með að narcisistar séu nærri 3% innan stjórnsýslunnar og 4% þeirra sem eru í valdastöðum. Og sjálfhverfungar reyna alltaf að ná völdum, peningum, lofi og dýrð. Þeir hika ekki við, að sveigja sannleikann til að kýla andstæðinga sína niður, koma sjálfum sér á framfæri, hrifsa til sín gæði heimsins – sem er alltaf á kostnað annarra. Falsfréttir eru tæki sannleiksglæpamanna. Í heimsfréttum þennan morguninn er sagt frá falsfréttaveitum sem valdamenn í Brasilíu halda úti. Hæstiréttur landsins varð að beita sér því þetta eru hópar sem vilja valdarán og skert tjáningarfrelsi. En slíkir hópar eru um allan heim, hópar sem halda úti lygafréttum til að seilast eftir völdum og halda þeim.

Hér á Íslandi er þessa mánuðina sérstakt verkefni íslensku fjölmiðlanefndarinnar, að vekja athygli fólks á því að við þurfum að vera á varðbergi, trúa ekki athugunarlaust því sem sagt er á vefmiðlum eða miðlað á netinu, ekki heldur í stóru fjölmiðlunum, því sannleiksspellvirkjarnir reyna alltaf að búa til nýja veruleika – til hliðar við sannleika og gildi – og skapa sér stöðu í stríðinu um áhrif. Þeir eru ekki aðeins úlfar í sauðargæru heldur fótósjoppaðar grímur. Oscar Wilde skrifaði læsilega bók um slíka í ritinu Myndin af Dorian Grey. Fallegir að utan en hroðalegir að innan. Stoppa, hugsa, athuga. Það er nafnið á átaki Fjölmiðlanefndar sem er ætlað að efla almenning til þess að greina falsfréttir frá öðrum.

Guðlaug á Akranesi varð í sumar fyrir mér tákn um andstæðu vitleysu, blekkingar og sannleiksflótta samtíðar. Konan Guðlaug Gunnlaugsdóttir á Bræðraparti var hæfileikakona, mikilvirk í störfum sínum, öflug móðir, sem hvíslaði ekki aðeins ástarorð í eyru barna og bónda, heldur beitti sér fyrir menntun síns fólks og ábyrgð í vinnu og lífi. Hún ól upp barnahópinn sinn vel. Þau urðu til mikils hags og gagns í menntunarmálum og útgerð og lögðu margt til mannlífs á Skaganum og víðar. Guðlaug var engin blekkingarkona, heldur beitti sér gegn vitleysum, lagði gildi í líf ástvina sinna og samfélags. Hún kunni að tala við mannfólk en líka við Guð. Guðlaug var sjálf lauguð guðsástinni og lifði í ljósi trúar sinnar og himintengsla.

Persónan Guðlaug er því til fyrirmyndar. En svo er mannvirkið sem nýtur nafns hennar og gjafa hennar svo vel hannað að það er þrenna og minnir á þrenninguna efra. Vatnið í lauginni tengir við vatnið í skírnarfontum kirknanna. Baðferð í Guðlaugu verður flestum inntaksrík því laugin er svo marglaga listaverk og táknverk. Einföld hressingarstund kallar til dýpta og þess sem er æðra. Svo er ljómandi að baðferðin kostar ekkert, hún er gratís eins og allt það besta í lífinu. Eins og fagnaðarerindið

Samfélag okkar er á ferð. Gildi trosna, siðurinn er sprunginn í lífi margra. Við það rofnar siðferði og lífsstefna margra einstaklinga. Þegar gildin fletjast út heldur merkingar- og menningarvefur samfélagsins ekki. Lukkuriddarar hlaupa af stað og reyna að sannfæra okkur um hliðræna veruleika, nýtt gildismat, ný tilbeiðslugoð í pólitík, lífi og menningu. En hvað svo sem okkur finnst um kirkju eða átrúnað er málefni kristninnar hið slitsterka og mikilvæga í samfélagi okkar. Kristinn siður er til verndar lífi, fólki og sköpunarverki. Við þurfum ekki lukkuriddara sem eru sérfræðingar í spuna hliðrænna veralda heldur gildi og ábyrgð gagnvart lífi, samfélagi, náttúru sem Guð gerði svo góða.

Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá. Hverjir eru þínir ávextir? Hver eru þín hlutverk? Hvað viltu? Og hvað skiptir mestu máli og er kjarni siðarins? Guðlaug minnti mig á grunngildin. Okkar verkefni er að skola vitleysunni burt og verða samfélagi til heilla í lífinu. Stoppa, hugsa, athuga. Guðlaug skolar af okkur og setur okkur í samband. Kristinn siður setur okkur í samhengi lífsins. Ekkert fals, heldur sannleikur í þágu lífsins, sem Guð kallar okkur til.

Í lífsins tæru lindum 

þú laugar mig af syndum 

og nærir sál og sinni

með sælli návist þinni.

(SE sálmur 701 í sálmabók þjóðkirkjunnar)

Amen

2020 Íhugun í Hallgrímskirkju 2. ágúst, 2020.  8 sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Verslunarmannahelgi. Sóttvarreglur voru mjög hertar föstudaginn 31. júlí. 

Um laugina, gerð Guðlaugar og verðlaun eru ýmsar heimilidir á vefnum og hvernig hún hefur opnað Akranes fyrir mörgum. 

https://www.akranes.is/is/frettir/gudlaug-a-langasandi-formlega-opnud-almenningi

Guðlaug fékk umhverfisverðlaun Ferðamálastofu í desember 2019. Sjá grein í Skessuhorni:

https://skessuhorn.is/2019/12/18/gudlaug-saemd-umhverfisverdlaunum-ferdamalastofu/

Minningargrein Péturs Ottesen um Guðlaugu Gunnlaugsdóttur: https://timarit.is/page/1334124#page/n16/mode/2up

Á annað hundrað milljónum veitt til samfélagsmála á Akranesi. Um framlög úr minningarsjóði Guðlaugar og Jóns: http://skessuhorn.rat.nepal.is/frettir/nr/184945/

Björn Ingi Hrafnsson skrifaði um hvernig Guðlaug hefur komið Skaganum á kortið að nýju í grein í Viljanum: https://viljinn.is/dagbok-ritstjora/af-hverju-er-akranes-komid-aftur-i-alfaraleid/

Best geymda leyndarmál Akraness:

https://www.mbl.is/ferdalog/utivist/2020/02/10/best_geymda_leyndarmal_akraness/

Um árvekniátak Fjölmiðlanefndar er hægt að fræðast á slóðinni: https://fjolmidlanefnd.is/stoppa-hugsa-athuga/

Myndirnar af laugarfólki í frumbaðinu í Guðlaugu tók ég á opnunardegi sem og myndina af undirbúningshópnum. Kennimyndin, þ.e. stóra myndin sem og drónamyndin eru af facebookvef Guðlaugar. Kristjana Jónsdóttir fann til mynd af Guðlaugu. Myndina af Bræðrapartshjónunum fékk ég af þeirri stórmerku síðu haraldarhus.is Takk Haraldur Sturlaugsson.