Kirkja Quarantine

Í maí hafði dóttir mín samband og sagði við mig: „Vinur minn er að sýna ljósmyndir. Þið verðið að fara á sýninguna hans, Quarantine Iceland. Pabbi, þú ert á sýningunni, eiginlega eina manneskjan, sem sést.“ Svo upplýsti hún föður sinn, að á sýningunni túlkaði ljósmyndarinn borg lokunar og mannleysis. Þetta væri sýning sem ég myndi örugglega hafa áhuga á.

Já, Qurantine Iceland var merkileg sýning og túlkaði dimmasta og átakanlegasta tíma samkomubannins í vor. Þá var kvíði í fólki. Áhyggjur vegna atvinnuleysis, uppsagna og heilsufars þrengdi að fólki á þessum tíma. Þær tilfinningar túlkaði Þórhallur Sævarsson vel með myndum sínum. Hann kom frá Mílanó og fjölskyldan með honum þegar COVID-19-faraldurinn fór af stað. Og þegar heim var komið fannst honum ástæða til að taka myndir í Reykjavík samomubannsins, sem hann sýndi svo í Hafnartorgi, einni af nýbyggingunum í miðbænum.

Ég hlýddi dóttur minni og við röltum niður í bæ, ég og kona mín. „Velkomin“ sagði ljósmyndarinn þegar við komum inn í salinn. Þegar við Þórhallur höfðum heilsast sagði ég við hann: „Ég er maðurinn á myndinni.“ Augun blikkuðu meðan hann var að kveikja, hann var snöggur og brosti út að eyrum. Hann skildi hvað ég átti við enda var eina myndin á allri sýningunni sem sýndi fólk einmitt úr Hallgrímskirkju.

Sýningin var áhrifarík. Í stórum sal voru myndir af húsum, götum og stöðum – en ekkert fólk á ferð. Allar þessar myndir – nema ein – sýndu mannlausa borg. Það var eins og dómur hefði fallið, allt var staðnað, mannleysið yfirþyrmandi. Yfirgefin Reykjavík, borg að stríði loknu eða eftir einhverjar hræðilegar náttúruhamfarir. Einmanleiki og annarleiki borgar og lands seitlaði út úr myndunum og inn í sálir okkar sem komu í Hafnartorg. Við skynjuðum líðan þessa ógnatíma.

Bara á myndinni frá Hallgrímskirkju var fólk. Eina fólkið sem sást var í kirkju. Hvítklæddur prestur í kór að stýra bænastund. Og svo voru þrjú í kirkjunni og það sást bara aftan á höfuð þeirra. Helgidómurinn var hrífandi fagur á myndinni. Og tveir höfðu þegar keypt hana. Það var eins og kirkjan væri eini vettvangurinn sem gegndi hlutverki í þessari borgartæmingu. Tónabíó-bingóstöðin tóm, líka Laugardalsvöllur, verslunarmiðstöðvar og pylsustaðirnir. Göturnar voru bíllausar. Myndirnar segja ekkert um raunlífið í landi og borg á þessum tíma, heldur tjá fremur stemminguna á lokunartíma. Myndirnar túlkuðu líðan, tilfinningar ljósmyndarans og margra annarra. Kaþarsis.

Kirkjan í kófinu

Sýningin rifjaði upp hvað við gerðum í kirkjunni á erfiðasta lokunartímanum. Allt breyttist, allt var í bið. Afar fá prestsverk, útförum var frestað til minningarathafna síðar, skírnum var frestað líka, fáar hjónavígslur, færri komu til sálgæslu en venjulega og tónleikar og aðrir viðburðir féllu niður. Hætta varð hefðbundnu helgihaldi vegna fjöldatakmarkana. En það bannar engum að biðja. Samkomubannið náði ekki yfir Guð, engin bið þar. Ekki heldur nándarmörk – alger nánd leyfileg. Það var heimilt að koma í kirkjuna. Ferðamennirnir voru engir en Íslendingar voru þó á ferð, komu í túristaleysinu niður í bæ og líka í helgidóminn. Við prestarnir stýrðum helgistundum í hádeginu en auglýstum þær ekki. Alltaf voru þó einhver í kirkjunni en aldrei yfir tuttugu sem var hámarkið. Ljósmyndarinn fangaði þessa stemmingu. Borgin var tóm en í kirkjunni var fólk. Eina fólkið á allri þessari sýningu voru þau sem voru að bænagerð í hliði himins. Kannski ítrekaði það einmitt háska tímans. Guð blessi Ísland.

Hvað er kirkja?

Guðspjall dagsins er um helgidóm, hlið himins, tilbeiðslustað. Jesús hryggðist yfir skammsýni fólks, hvernig það brást rangt við váfréttum. Hann talar um skelfileg örlög Jerúsalem. Borgin féll nokkrum áratugum síðar, og hér upp á Íslandi varð til eyja í Þingvallavatni þegar borgin helga féll og helgidómur þess líka. Alltaf þegar ég fer austur Mosfellsheiði og sé Sandey hugsa ég um þennan texta í Lúkasarguðspjalli og vitjunartímann. „Hús mitt á að vera bænahús,“ sagði Jesús Kristur „en þið hafið gert það að ræningjabæli.“ Bænahús, það er hlutverk kirkju.

Hallgrímskirkja er ekki aðeins fjölsóttasta kirkja landsins heldur fjölsóttasti ferðamannastaðurinn líka. Og þegar margir fara um svona stað þarf stöðugt að íhuga og skerpa hlutverk kirkjunnar. Til hvers kirkja? Ég hef heyrt fólk, sem ekki þekkir vel til starfs Hallgrímskirkju, tala um ferðamennina sem tæki og sjá aðallega í þeim tekjumöguleika. En ferðamennirnir sem hingað koma eru ekki burðarmenn fjármuna. Þeir eru mannverur, lifandi fólk, sálir sem Guð elskar, rétt eins og okkur hin. Þau hafa þarfir sem eru andlegar. Þau koma hingað ekki aðeins til að kíkja upp í turn og yfir litrík þök borgarinnar og til fjallanna, heldur fara þau líka inn í guðshúsið til að að anda að sér himinfriðnum, til að njóta kyrrðar- eða íhugunarstundar, bæna sig, nema guðshvíslið. Þau þrá mörg að fá yfirlit yfir líf sitt og samband við hamingjuna. Enn er minnt á lista the Guardian sem úrskurðaði að Hallgrímskirkja væri eitt af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum heims. Milljónir hafa fundið að hér er dásamlegt samband, upp og inn. Hér er rétt samstillig kraftanna. Hlið himins tengir fólk í allar áttir, inn, út, upp og til dýptar.

Biðjandi söfnuður

Á tíma samkomubannsins, þegar allt féll niður, allir mannfundir, líka listviðburðir, héldum við áfram að biðja hér í kirkjunni, íhuga stóru málin, lesa upphátt úr Biblíunni í kirkjunni og útleggja og biðja fyrir öllum þeim sem hafa beðið um fyrirbænir. Bænastundir voru haldnar í hádeginu hvort sem það voru fjögur í kirkju, sjö, tólf eða nítján. Og hvað er kirkja? Bænastaður segir Jesús Kristur. Það er skilgreiningin. Biðjandi, boðandi, þjónandi. Einu gildir hvort fólk er í þjóðkirkju, fríkirkju eða utan kirkju. Allir voru og eru velkomnir í Hallgrímskirkju til að tengja og njóta næringar hið innra. Hvort sem kirkjan er fólki fjarlæg eða nálæg er þetta guðshús stórt fang sem engum hafnar. Kvíði og óskir mannanna eru leyfilegar. Og hér er staður til að leyfa því sem er dimmast og falið að koma upp og í ljósið.

Já bænahús

Aftast í Hallgrímskirkju, nærri ljósberanum, er borð með miðum og skriffærum. Á hverjum degi koma margir og setjast niður og skrifa bænir sínar á lituð spjöld. Svo höfum við prestarnir tekið þessa bænamiða og beðið fyrir fólki sem tjáir áhyggju- og gleðiefni sín, það sem líf þeirra snýst um, vonir, þrá. Fólk sem er að skilja biður fyrir erfiðum aðstæðum, sjálfu sér og börnum sínum. Fólk sem glímir við fjölskyldukreppur tjáir þær. Sorg yfir barnleysi er líka tjáð með sálarslítandi orðum en borin fram fyrir Guð sem er beðinn um nýtt líf. Þegar veikindi sækja að eru áhyggjur orðaðar og Guð beðinn um nánd og styrk. Margir hafa tjáð kvíða vegna farsóttar COVID-19 og biðja um mátt og leiðsögn. Í bænum síðustu daga er líka beðið fyrir íbúum Hvíta Rússlands, Jersúsalem, Palestínu og forsetakosningum í Bandaríkjunum. Svo situr fjöldi fólks í kirkjunni og tengir við himininn, sjálft sig, tilfinningar og lífsdjúpin. Appelsínugulu bænaspjöldin eru tákn um að hér er raunverulegt fólk á ferð, sálir. Kirkja er opinn staður fyrir lífið. Ferðafólkið, fólk á ferð – eins og við – eru virt. Á okkur öll er horft ástaraugum. Hér erum við virt og metin, megum við vera við sjálf og tengja við allt það mesta, stærsta og besta. Í skírnum, giftingum, viðtölum og útförum er allt opið. Himininn líka. 

COVID-kófið. Já þetta er einkennilegur tími. Quarantine Iceland-myndin úr Hallgrímskirkju leitar stöðugt upp í vitund mína. Hvað er kirkja, hvað er helgistaður? Aldrei ræningjabæli. Kirkja er umferðarmiðstöð, pílagrímastaður, fang lista og viðburða, fegurðar, metnaðar, þjónustustaður fyrir fólk. Viðburðir, allt mannlífið í kirkjunni nýtur að kirkjan er bænahús. Þar er kraftmiðjan sem allt tengir. Þannig veruleiki á Hallgrímskirkja að vera, köllun hennar, hlutverk og framtíð. Guði sé lof. Amen.

Hallgrímskirkja 16. ágúst, 2020. 10. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Meðfylgjandi myndir tók ég á sýningunni Quarantine Iceland. Þetta eru símamyndir af myndum Þórhalls (sem lýtur að einni til að túlka), líka Hallgrímskirkjumyndin og sýnir ekki vel gæði frummyndarinnar. 

Textaröð: A

Lexía: Jer 18.1-10
Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni: Farðu nú niður í hús leirkerasmiðsins. Þar mun ég láta þig heyra orð mín. Ég gekk því niður til húss leirkerasmiðsins einmitt þegar hann var að vinna við hjólið. Mistækist kerið, sem hann var að móta úr leirnum, bjó hann til nýtt ker eftir því sem honum sýndist best. Þá kom orð Drottins til mín: Get ég ekki farið með yður, Ísraelsmenn, eins og þessi leirkerasmiður gerir? segir Drottinn. Þér eruð í hendi minni, Ísraelsmenn, eins og leirinn í hendi leirkerasmiðsins.

Pistill: Róm 9.1-5
Ég tala sannleika í Kristi, ég lýg ekki, samviska mín, upplýst af heilögum anda, vitnar það með mér að ég hef mikla hryggð og sífellda kvöl í hjarta mínu og gæti óskað að mér væri sjálfum útskúfað frá Kristi ef það yrði til heilla fyrir bræður mína og ættmenn, Ísraelsmenn. Þeir eiga frumburðarréttinn, dýrðina, sáttmálana, löggjöfina, helgihaldið og fyrirheitin. Þeirra eru ættfeðurnir og af þeim er Kristur kominn sem maður, hann sem er yfir öllu, Guð, blessaður að eilífu. Amen.

Guðspjall: Lúk 19.41-48
Og er Jesús kom nær og sá borgina grét hann yfir henni og sagði: „Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi hvað til friðar heyrir! En nú er það hulið sjónum þínum. Því að þeir dagar munu koma yfir þig að óvinir þínir munu gera virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu. Þeir munu leggja þig að velli og börn þín sem í þér eru og ekki láta standa stein yfir steini í þér vegna þess að þú þekktir ekki þinn vitjunartíma.“ Þá gekk hann inn í helgidóminn og tók að reka út þá er voru að selja og mælti við þá: „Ritað er: Hús mitt á að vera bænahús en þér hafið gert það að ræningjabæli.“ Daglega var hann að kenna í helgidóminum en æðstu prestarnir og fræðimennirnir, svo og fyrirmenn þjóðarinnar, leituðust við að ráða hann af dögum en fundu eigi hvað gera skyldi því að allt fólkið vildi ákaft hlýða á hann.