Greinasafn fyrir flokkinn: Mataruppskriftir

Fleiri mataruppskriftir er að finna á sigurdurarni.annall.is

Rauðspretta með kapers, vínberjum, steinselju og graslauk

Fyrir 4

Innihald:
1 kg rauðsprettuflök
salt og nýmalaður pipar
3 msk smjör
20 stk græn vínber langskorin í fjórðunga
2 msk kapers
2 msk graslaukur, saxaður
2 msk steinselja

Ofnsteiktir kartöflubátar sem meðlæti. Svo er auðvitað líka meðmælanlegt að nota hrísgrjón eða bygg í stað kartaflanna og litríkt salat með.

Aðferðin:
Skera vínberin, graslauk og steinselju. Blanda saman við kapers. Rauðsprettuflökin snyrt og beinhreinsuð, krydduð með salti og pipar. Ekki roðfletta heldur steikja á pönnu með roðið niður. Vakta vel og snúa þegar nánast er fullsteikt. Brúna smjörið á pönnu. Setja fiskinn fullseiktan á hvern disk, koma vínberja-graslauks-steinselju og kapers-blöndunni yfir fiskinn og og setja ca 1 msk af smjöri yfir hvern skammt. 

Fagurkerarnir vilja Sancerre með og til heiðurs Vigdísi. Verði ykkur að góðu. 

Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.  Amen. 

Brennivínskjúklingur

Þetta er brennivínskjúklingurinn. Mér leist illa á að sulla grísku ouzo eða líbönsku arak yfir kjúkling. En ég var í góðu samfélagi fagurkera og matargerðarfólks sem var sannfært um að Ottolenghi væri treystandi. Við matreiddum því réttinn. Brennivínsbeygurinn þ.e. ouzo-óttinn hvarf snarlega þegar fulleldað var og bylgjur af ólíkum brögðum fóru um munninn. Brennivínið var horfið en anísvíddin var orðin ein af mörgum bragðvíddum í þessu rétti. Brennivínskjúllinn er bragðundur.

Fyrir fjóra

Hráefni

100 ml ouzo eða arak (lakkrísbrennivín)

4 msk ólífuolía

3 msk nýpressaður appelsínusafi

3 msk límónusafi

2 msk kornótt sinnep t.d. Dijon

3 msk ljós púðursykur

2 fennel (ca 500 gr)

1,3 kg kjúklingur– bútaður í 8 bita (ég nota stundum læri – og hluti þeirra úrbeinaður)

4 klementínur (ca 400 gr) skornar í sneiðar

1 msk tímían

2 ½ tsk fennelfræ – grófmöluð

Steinselja grófskorin til skreytingar

Matseldin

Setjið sex fyrstu hráefnin (ouzo og til og með púðursykur) í stóra skál og blandið og bætið við 2 ½ tsk salt og 1 ½ tsk svörtum pipar. Blandið vel og setjið til hliðar.

Snyrtið fennelboltana og skerið báða langsum í tvennt. Skerið hvern helming í fjóra bita langsum. Bætið fennel í vökvaskálina. Setjið kjúklinginn einnig í vökvann. Þá fara klementínusneiðarnar líka í vökvann, sem og tímían og fennelfræin. Blandið vel saman, setjið lok eða plast yfir. Marínerast í ísskáp einhverja klukkutíma eða yfir nótt. Í stressi tímaskorts má auðvitað sleppa þessum maríneringartíma – rétturinn verður vissulega góður en þó ekki eins bragðdjúpur og annars væri.

Hitið ofninn í 200 og notið viftuna. Setjið allt hráefnið í stórt eldfast mót (ca 30×40 cm), alla vega svo stórt að steikingarlagið verði ekki of þykkt. Húðin á kjúklingnum snúi upp. Steikt í 35-45 mín þar til kjötið er vel brúnað og gegnumsteikt. Takið úr ofninum.

Takið kjúklinginn, fennel og klementínurnar úr fatinu og komið fyrir í heitu fati (eða fallegum potti sem má bera fram) með loki. Tilangurinn er að halda heitu meðan vökvinn úr steikingu er soðinn niður. Sem sé: Takið allan vökvann úr ofnsteikingunni og setjið á pönnu og sjóðið niður, alla vega um þriðjung. Hellið síðan heitum vökvanum yfir kjúklinginn, skreytið með steinselju og berið fram.

Ljómandi að hafa sætar kartöflur með – góð uppskrift með pekanhnetum og hlynsírópi – sjá

Steiktar sætkartöflur með pekanhnetum og hlynsírópi !

Sumir vilja bankabygg með og ef fegurðarskyn og smekkur leyfir er hægt að bæta grænu salati við.

Þessi kjúklingauppskrift er úr Jerúsalem-bók Ottolenghi (179), sem ég fékk einu sinni fyrir skírn í húsi við Hagamel. Uppskriftin er líka á netinu: https://ottolenghi.co.uk/recipes/roasted-chicken-with-clementines-arak

 

 

 

 

 

 

Steiktar sætkartöflur með pekanhnetum og hlynsírópi !

Á að sykra sætuna? Þarf hlynsíróp og rúsínur til að sætkartöflur rísi undir nafni? Kannski ekki, en gómsætt er góðgætið sem einréttur en er einnig glæsilegt meðlæti með alls konar steikum.

Fyrir fjóra

 • 2 sætar kartöflur (850 gr.)
 • 3 msk ólífuolía
 • 35 gr pekanhnetur
 • 4 vorlaukar, gróft skornir
 • 4 msk grófskorin steinselja (venjuleg eða flatblaða)
 • 2 msk grófskorið kóríander
 • ¼ tsk þurrkaðar chiliflögur
 • 35 gr sultana-rúsínur
 • salt and pipar

DRESSING

 • 4 msk ólífuolía
 • 2 msk hlynsíróp
 • 1 msk sherrí-edik  
 • 1 msk sítrónusafi
 • 2 msk appelsínusafi
 • 2 tsk nýraspaður engifer
 • ½ tsk kanill

MATSELDIN

 1. Forhita ofninn í 190°C
 2. Fyrst eru það sætkartöflurnar. Ekki flysja (nema þær séu ólífrænar) heldur skera í kubba 2 cm á kant. Raðað á bökunarplötu og ólífuolíu ýrt yfir auk salts og pipars. Steikt í ofninum í upb hálftíma. Gjarnan snúa kubbunum varlega eftir 15 mínútur.
 3. Steikið pekanhneturnar í ca. 5 mínútur á annarri bökunarplötu. Taka síðan hneturnar úr ofninum og saxa.
 4. Til að gera dressinguna er ráð að hræra allt hráefnið saman í skál og bæta við salti og pipar. Bragðið til.
 5. Þegar sætkartöflurnar eru tilbúnar færið þær strax heitar í stóra skál. Bætið við vorlauknum, steinseljunni, kóríander, chiliflögunum, pekanhnetum og sultana-rúsínunum. Hellið dressingunni yfir og blandið gætilega og kryddið að vild og smekk.  
 6. Rétturinn borinn strax á borð og á að vera vel volgur.

Þökkum Drottni, hann er góður því miskunn hans varir að eilífu. 

Rétturinn frá Ottolenghi.

Graslauksstjörnur

Grauslaukurinn í garðinum blómstrar. Ég skar þessi litmjúku og formkitlandi laukblóm til að setja í vasa á eldhúsborðið. Við Elín mín tókum svo eitt blómanna, skoðuðum og leystum varlega í sundur. Þá birtust smágerðar og fagrar blómstjörnur. Hvað gerir maður við slík dýrmæti? Notar stjörnurnar til skreytingar matarins, gleðst og borðar þær síðan. Stjörnurnar henta vel til slíks og gefa lit. En þær krydda líka og passa vel mat sem tekur laukkryddun, t.d. ýmsum fiskréttum og forréttum. Ég mun líka nota graslauksstjörnurnar á blini! Graslauksstjörnur eru Michelin-efni fyrir augu og munn. Mikill meistari Skaparinn.

Svona varð svo fyrsta blini-útgáfan. 

Kjúklingur, sítróna og rósmarín

Þetta er ein af mínum uppáhaldsuppskriftum fyrir kjúklinagasteikingu. Ég breyti krydduninni í samræmi við hvað til er í ísskápnum eða laukagarðinum, en grunnurinn er góður og þolir ýmis frávik. Fyrir 4.

1 kjúklingur

3 litlar lúkur af ferskum kryddjurtum, t.d. basilíku, steinselju og salvíu, tætt í matvinnsluvél og sletta af maldonsalti út í

4 matskeiðar ólífuolía

1 sítróna, skorin til helminga

4 lárviðarlaufblöð

2-4 greinar af fersku rósmarín

Saltað og kryddað að smekk.

Forhitið ofninn og ofnskúffu í 200 gráður. Skolið kjúklinginn að innan og utan og þerrið vel með eldhúspappír. Nuddið kviðarholið með salti og takið síðan létt í húðina við endann á kjúklingabringunni og togið hana varlega upp. Notið hina höndina til að skilja húðina varlega frá bringunni. Troðið í bilið söxuðu kryddjurtunum. Látið síðan smávegis ólífuolíu drjúpa niður í kviðarholið, setjið síðan skornu sítrónuna, lárviðarlauf og rósmaríngreinar. Dragið húðina fram fyrir kjúklingabringuna svo ekki glitti í bert kjöt. Bindið síðan kjúklinginn þétt svo hann haldist vel saman. Nuddið húðina á kjúklingnum upp úr ólífuolíu og kryddið hana rækilega með salti og pipar.

Smyrjið ofnskúffuna með olíu. Leggið kjúklinginn með bringuna niður í skúffuna og setjið hana í ofninn. Bakið í 5 mínútur og snúið kjúklingnum yfir á hina hliðina, enn með bringuna niður. Bakið í aðrar 5 mínútur og setjið þá kjúklinginn á afturendann. Bakið í 70- 75 mínútur við 200 gráður.

Salat og uppáhaldsmeðlæti, þess vegna venjulegar eða sætar kartöflur – eða bygg eða hrísgrjón. Þessi er ættaður frá JO, kokki án klæða.

Þökkum Drottni því að hann er góður. Og miskunn hans varir að eilífu. Amen.