Greinasafn fyrir merki: Blini

Besta blini-uppskriftin

Blinis (et. blini) eru smálummur sem hafa verið bakaðar úr ýmsum og mismunandi hveititegundum. Þær voru og eru smurðar eða skreyttar með alls konar áleggi skv. hefðum viðkomandi menningarsvæðisins, t.d. sýrðum rjóma, smjöri, kotasælu, kvarka, kavíar og ýmis konar fiskmeti sbr. reyktum laxi, grænmetis- og ávaxta-mauki og sultu. Blinirúllur eru gjarnan fylltar með kryddi og kjöthakki og eru n.k. frænkur pizzusnúða. Á Íslandi hafa pönnukökur löngum verið bornar fram með þeyttum rjóma og sultu og lummur með sultu. Smálummur – blinis – eru skemmtilegt fingrafæði fyrir veislur. Þær má gjarnan skreyta með ostsmyrju, grænu og fersku kryddi sbr. dilli eða steinselju og reyktum laxi eða öðrum passandi bragðgælum.

Bliniskreyting er heillandi matargerðargjörningur. Graslauksstjörnur nota ég á sumartímanum til að toppa bliniskreytingu. 

Fyrir útgáfuhóf bókarinnar Ástin, trú og tilgangur lífsins steikti ég 250 smálummur og þegar Ísak og Jón Kristján urðu stúdentar steiktum við fjölda af smálummum líka. Smálummur eru sælgæti.

1 bolli hveiti

1 egg

2/3 bolli mjólk

2 msk ólífuolía

1/2 tsk lyftiduft

1/2 tsk salt

Blandið öllu saman og steikið smálummurnar – 3-4 cm á pönnukökupönnu. Látið kólna.

Til eru blinipönnur sem ég hef prufað en mér hefur ekki þótt að þær gefi betri árangur en að baka frítt á pönnukökupönnu eða góðri steikingarpönnu. En um smekk er ósmekklegt að deila. Mér þykir skemmtilegt að blini verði í steikingu mismunandi í laginu og tilbrigði verði í lit líka.