Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Trúir þú á Guð? Fyrir skömmu var hópur fólks að ræða um trú og trúariðkun. Nokkur börn voru nærstödd og tóku þátt í umræðunni. Einn drengjanna spurði: „Trúir þú á Guð?“ Svarið var: „Nei, ég trúi bara á sjálfa mig. Ég trúi ekki á neitt sem er meira en ég sjálf.“ Og barnið hugsaði um þessa afstöðu og hafði þörf fyrir – þegar heim var komið – að ræða þessa nálgun. Að trúa bara á sjálfan sig útilokar veruleika Guðs og lífs eftir dauða. Þetta er merkilega skýrt svar þeirrar menningar sem kalla má ég-menningu. Ekkert er einstaklingnum æðra, engin gildi til sem þarf að taka mið af og ekki varða “mig” eða “mitt”. Ég-menning er vefur einstaklingshyggju og er skeytingarlaus um stórgildi sögu eða þarfa annarra. Guð er ég-menningarfólki dauður, trúin óþörf sem og allt hitt sem einstaklingurinn kann ekki við.

<strong>Sjálfurnar</strong>
Fyrir nokkrun áratugun voru þau talin fáfengileg eða vanþroskuð sem voru upptekin af sjálfum sér. Að taka myndir af sér var skrítið. En nú eru selfie-stangirnar að verða staðalbúnaður ferðafólks. Það sjáum við vel í og við Hallgrímskirkju. Sjálfufólkið tekur myndir af sér með kirkju, orgel eða altari í baksýn. Ferð sumra þessara er ferð sjálfsins og umhverfið er fremur bakgrunnur en meginmyndefnið. Myndasmiðurinn er ekki lengur á bak við vélina heldur framan við og fremstur á myndinni. Ljósmyndarinn er í fókus.

Í textagerð er hliðstæð þróun. Þegar fólk skrifaði greinar í blöð eða tjáði sig opinberlega fyrir hálfri öld var sjaldgæft að fólk bæri einkamál á torg. Orðið ég kom mun sjaldnar fyrir en fleirtölumyndin við. En nú er það ég einstaklinganna sem lætur gamminn geysa á samfélagssíðunum, í fjölmiðlum og í opinberri orðræðu. Spegill, spegill herm þú mér – er ég ekki flottur – er ég ekki smart?

Þau sem eru illa haldin af sjálfusóttinni hafa svipuð einkenni og fíklar – þurfa að fá sitt skot hvort sem það varðar aðdáun, föt, dót eða efni. Sjálfusóttin getur verið jafn skefjalaus og fíkn og hefur líka skelfilegar afleiðingar í fjölskyldum þeirra sem eru kengbogin inn í sjálf sig. Engin bót verður nema fólk breytist, fái nýtt líf.

Grikkir sögðu sögu um Narcissus sem tákngerving sjálfsástarfólks heimsins. Örlög hans voru að elska aðeins sjálfan sig og engan annan eða aðra. Hann var svo hrifinn af spegilmynd sinni að hann gat ekki slitið sig frá henni, heldur veslaðist upp og dó. Vissulega hafa egóistarnir alltaf verið til, fólk sem þjónar helst eigin duttlungum og hagsmunum. Hin siðblindu eru verstu fulltrúar sjálfhverfunnar.

Þegar menning Vesturlanda tekur sjálfhverfa u-beygju veiklast samfélagsgildin. Ég-menningin setur viðmið. Aukinn stuðningur við pólitíska öfgaflokka er einn liður þessarar þróunar. Guðstrú og trúarafstaða fólks breytist einnig. Það sem ekki þjónar sjálfinu og uppfyllir einkaþarfir er látið gossa. Trúarstofnanir og menningarstofnanir lenda í svelg og týnast í glatkistu sögunnar.

<strong>Ekki fyrirgefið?</strong>
Guðspjall dagsins varðar sjálfusótt einstaklinga og ég-menninguna. Jesús Kristur segir að allt sé fyrirgefið í þessum heimi og allt geti Guð umborið. Bara eitt er ekki fyrirgefið og það er að mæla gegn Heilögum Anda. Hvað merkir slíkt? Ef fólk er úr tengslum við Guð er hætt við rugli og einstaklingarnir ala með sér ranghugmyndir um sjálfa sig, veröldina og lífið. Að hallmæla Heilögum anda er einfaldlega það að trúa ekki á neitt meira og æðra en eigið sjálf. Það er trúleysi að hafna að Guð sé Guð. Að vera trúlaus er ekki það að efast, vera veikur í trúnni eða reiður Guði, þegar sorgin nístir og allt virðist mótdrægt. Nei, það er afstaðan að maður sé sjálfur nafli heimsins. Broddurinn í ræðu Jesú er: “Hverju trúir þú? Heldur þú framhjá Guði, með því að dýrka þig?”

Guðspjall dagsins varðar eins konar trúarlegt milliuppgjör. Hvar stendur þú og hvert stefnir þú? Trúin er ekki aðeins mál framtíðar eða elliára heldur varðar núið. Guð er hér, innan í þér, í messunni, í náttúrunni, í listinni og í veröldinni. Fyrir framan öll sem horfa í spegla heimsins, dýrka eigið sjálf er Guð sem horfir og elskar fólk. En Guð neyðir engan til gæfuríks lífs, opnar ekki framtíð og eilífð nema fólk virði að lífið er meira en eigin nafli – og opni eigið sjálf. Maður sem er kengboginn inn í sjálfan sig, fókuserar bara sjálfan sig sér ekki samhengi lífsins. Ég-menningin er menning andlegrar fátæktar og samfélagslegrar upplausnar.

<strong>Draumar fermingarungmennanna</strong>
Liðna daga hefur stórkostleg kirkjulistahátíð hefur verið haldin hér í Hallgrímskirkju og svo hafa fermingarungmenni sótt sumarnámskeið á sama tíma. Hópurinn er skemmtilegur og það hefur verið gaman að vinna með þeim. Meðal verkefna þeirra var að skrifa um drauma sína og framtíð. Þessi draumablöð vonanna eru núna á altarinu í kirkjunni og við biðjum fyrir óskum unglinganna. Kirkja er ekki ég-menning heldur við-menning sem axlar ábyrð á einstaklingum. Því eru bænir fermingarungmennanna okkar bænir. Við berum þau sameiginlega fram fyrir Guð.

Í bænum unga fólksins kemur vel í ljós að þau hafa sterkar hugmyndir um framtíðarstörf sín og ég gladdist mjög yfir að þau leita ekki bara síns eigin. Þau eru ekki illa haldin af sjálfusóttinni heldur eru samfélagslega ábyrg. Þau leita jafnvægis sjálfs og samfélags. Þau vilja gjarnan velja sér framtíðarstörf til að verða öðrum til eflingar og gagns í samfélagi manna. Það var hrífandi að lesa hversu þroskaða sýn þau hafa varðandi hamingjuríkt fjölskyldulíf. Flest vilja þau eignast fjölskyldu. Mikill meirihluti vill eignast maka, 1-3 börn. Og á einu draumablaðin stóð: Ég vil eignast strák, stelpu og “æðislegan” eiginmann! Við getum væntanlega verið sammála um að svona ósk er góð!

<strong>Hið góða líf</strong>
Hver er mennskan og hvert er einkenni allra manna? Að þrá hamingju. Við leitum öll hins góða lífs. Þess leita fermingarungmenni, en þau líka sem stara á spegilmynd sína. Þú og ég – við viljum og þráum að fá að njóta lífsins.

Öll verðum við að sjá okkur sjálf til að þroskast, ekki bara dást heldur gera okkur grein fyrir kostum og göllum til að við öðlumst heilbrigða sjálfsmynd. Jesús minnir á við erum kölluð til að hugsa um meira en eigin þarfir og hann sýndi sjálfur hvað mennskan merkir og Guðstengslin. Tilveran er stærri en spegilgláp. Því starfar kirkjan, til að gefa okkur öllum tækifæri til að spegla okkur í himinspeglinum. Guð horfir á okkur og vill okkur vel, gefur gildi og samhengi, list og fegurð til að njóta og samfélag til að lifa í og þjóna. Stærstu og glæsilegustu draumarnir eru í vitund Guðs, sem dreymir þessa veröld, dreymir þig án afláts, dreymir ský og regn, hjartslátt þinn, líf þitt, að þú og allur þessi söfnuður fólks verði hamingjusöm og njóti lífsins.

<strong>Guðs-appið</strong>
Ég-menningin hrynur því hún er sjálfhverf fíknarmenning. En veröld trúarinnar varðar sannleika lífsins. Ég-app sjálfusóttarinnar virkar illa. En Guðs-appið virkar frábærlega og veitir heilbrigði. Í veröld trúarinnar færðu að taka þátt í hinum raunverulega draumi Guðs um elskuna, um hamingjuna, vonina og trúna. Þar ertu til.
Amen.

Prédikun í Hallgrímskirkju við lok kirkjulistahátíðar, 23. ágúst 2015. 12. sd. eftir þrenningarhátíð.

<strong>Textaröð: B
Lexía: Slm 40.2-6</strong>
Stöðugt vonaði ég á Drottin
og hann laut niður að mér og heyrði ákall mitt.
Hann dró mig upp úr glötunargröfinni,
upp úr fúafeni,
veitti mér fótfestu á kletti
og gerði mig styrkan í gangi.
Hann lagði mér ný ljóð í munn,
lofsöng til Guðs vors.
Margir sjá það og óttast
og treysta Drottni.
Sæll er sá maður sem gerir Drottin að athvarfi sínu
og snýr sér ekki til dramblátra
eða þeirra sem fylgja falsguðum.
Drottinn, Guð minn, mörg eru máttarverk þín
og áform þín oss til handa,
ekkert jafnast á við þig.
Ég vil segja frá þeim, kunngjöra þau,
en þau eru fleiri en tölu verði á komið.

<strong>Pistill: Jak 3.8-12</strong>
…en tunguna getur enginn maður tamið, þessa óhemju sem er full af banvænu eitri. Með henni vegsömum við Drottin okkar og föður og með henni formælum við mönnum sem skapaðir eru í líkingu Guðs. Af sama munni gengur fram blessun og bölvun. Þetta má ekki svo vera, bræður mínir og systur. Gefur sama lindin bæði ferskt og beiskt vatn? Mun fíkjutré, bræður mínir og systur, geta gefið af sér ólífur eða vínviður fíkjur? Eigi getur heldur saltur brunnur gefið ferskt vatn.

<strong>Guðspjall: Matt 12.31-37</strong>
Þess vegna segi ég yður: Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið. Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum verður það fyrirgefið en þeim sem mælir gegn heilögum anda verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda. Annaðhvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávextinum þekkist tréð. Þér nöðrukyn, hvernig getið þér, sem eruð vond, talað gott? Af gnægð hjartans mælir munnurinn. Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði. En ég segi yður: Á dómsdegi munu menn verða að svara fyrir hvert ónytjuorð sem þeir mæla. Því af orðum þínum muntu sýknaður og af orðum þínum muntu sakfelldur verða.

Ég held ellefta boðorðið

Ríkur maðurSigurður Árni Þórðarson tók nýlega við starfi sóknarprests við Hallgrímskirkju. Áður gegndi hann preststarfi við Neskirkju í rúmlega tíu ár. Sigurður Árni hefur þjónað sem prestur í sveit og borg og starfað við kirkjulega stjórnsýslu. Hann hefur einnig sinnt kennslustörfum. Hann var rektor Skálholtsskóla á þeim tíma sem starfsemi hans var breytt í að verða menningarmiðstöð kirkjunnar. Sigurður Árni er Vesturbæingur og ættaður af Grímsstaðaholtinu en á einnig ættir að rekja norður í Svarfaðardal. Hann ólst upp á Tómasarhaga. Þar býr hann í steinbæ afa síns og ömmu og með konu sinni Elínu Sigrúnu Jónsdóttur, lögfræðingi og framkvæmdastjóra Útfararstofu kirkjugarðanna. Sigurður Árni spjallar við Vesturbæjarblaðið að þessu sinni.

Ingi skólastjóri og siðferðið

Það var undursamlegt að alast upp í Vesturbænum, margt brallað og krakkarnir í hverfinu bjuggu við mikið frelsi. Minningarnar um skólaveru og bernsku vöknuðu við að kveðja Inga Kristinsson, skólastjóra Melaskóla, sem lést í janúar. Ingi var dásamlegur skólastjóri, natinn, nálægður, umhyggjusamur en röggsamur skólamaður og leiðtogi. Þegar ég var ellefu ára gekk hark- og púkkæði yfir Reykjavík og við komum í skólann með fimmeyringa til að leggja undir. Ingi hafði veður af að ég væri að verða búinn að græða allan fimmeyringalagerinn í Vesturbænum og kom út á skólalóð þar sem nú er nýi boltavöllurinn. Hann bað alla að fara en mig að ræða við sig. Svo spurði hann mig erfiðra spurninga um fjárhættuspilamennskuna, benti mér á að stundum yrði maður, af tillitssemi við aðra, að takmarka eigið frelsi. Og svo skýrði hann út fyrir mér merkingu gullnu reglu Jesú í Fjallræðunni, að það sem maður væntir af öðrum sé það sem vert sé að gera öðrum. Og í því ljósi fékk Ingi mig til að lofa sér að græða aldrei framar á öðrum. Við það hef ég staðið – og því aðeins stundað venjulega launavinnu sem opinber starfsmaður!

Flugbrautin og sjórinn

Það var ekki aðeins ævintýri að leika sér í götuleikjunum á Tómasarhaganum, sumar sem vetur. Lynghagaróló heillaði og alltaf einhverjir í fótbolta sem ég stundaði stíft. Tómasarhagagengi stóð upp í hárinu á Fálkagötuflokkum og stundum geisuðu stríð milli okkar á Holtinu og krakka í Skerjó eða jafnvel upp í Þingholtum. Við fengum lausan taum til leikja. Einu sinni vorum við félagar teknir af flugvallarlögreglunni þar sem við vorum að leika okkur við að hjóla yfir flugbrautina milli flugferða. Það var æsilegur leikur en löggan hafði engan skilning á eðli þess leiks. Einu sinni fékk ég gamlan dekkjalager frá Landleiðaverkstæðinu þar sem nú eru hjónagarðarnir við Suðurgötu, bætti, pumpaði upp, batt saman stórar slöngur og fór svo á sjó við Bjarnastaðavörina. Ég meira að segja veiddi af flekanum sem ég stýrði með langri bambusstöng. Stundum fórum við í mikla fiskleiðangra til að veiða ufsa út á Granda, en mamma hafði aldrei löngun til að matreiða fisk sem við veiddum úr klóakinu. Ég skildi það seinna!

Gott fólk

Það var mikið af mjög áhugaverðu fólki í hverfinu sem lét sig unga fólkið varða og varð okkur fyrirmyndir. Árni í Árnabúð, sá frábæri verslunarmaður, réð mig í vinnu þegar ég var tólf ára. Hrefna Tynes var skemmtilegur æskulýðsleiðtogi sem m.a. beitti sér í starfi Neskirkju. Þar voru prestarnir öflugir og sr. Frank sem lagði gott til okkar krökkanna. Ég hef alltaf verið honum þakklátur síðan. Magnea Þorkelsdóttir og Sigurbjörn Einarsson, biskupshjónin, bjuggu hinum megin Tómasarhagans og höfðu tíma fyrir okkur smáfólkið við götuna. Dóri, fisksali á Dunhaganum, var elskulegur og hvatti ungviðið til góðs m.a. í Þrótti. Björn Guðjónsson var til í að leyfa mé að fara á sjó með sér. KR varð sem annað heimili og ég sótti Neskirkju og eignaðiset marga félaga þar. Svo var nokkur hópur sem fór niður í KFUM á Amtmannsstíg og í bíó á eftir. Ég varð eiginlega kristilegur KR-ingur og er enn.

Melaskólaárin og Hagaskólaárin voru skemmtileg ár og þetta voru undraverðar menntastofnanir. Ég met eftir á hve kennararnir lögðu sig í líma við að þjóna okkur. Jóna Hansen þreyttist ekki viðað að auka orðaforða í dönskunni. Björn Jónsson, skólastjóri, spilaði við mig borðtennis vikulega. Stórkostlegt fólk, björt bernska, fjölskrúðugt mannlíf. Ég var heppinn að alast upp í Vesturbænum. Ég á fimm börn og þeir yngstu eru níu ára drengir sem eru í Melaskóla. Þeir eru fjórði liður í beinan karllegg sem býr í sama húsinu, Litlabæ, Tómasarhaga 16b. Það er nú dálítið sérstakt í Reykjavík.

Skólarnir

Ég fór í MR eins og margir úr Hagaskóla. Eftir stúdentspróf fór ég til Noregs í eitt ár. Sumarið eftir stúdentspróf var ég í Oslo, veiktist og var skotið inn á krabbameinssjúkrahús, skorinn með hraði. Í þrjár vikur fannst mér ég vera deyjandi en svo fékk ég lífsdóm. En þessi reynsla fjarri heimahögum og heimavarnaliðinu breytti mér. Ég hafði fyrst ætlað í líffræði í háskólanum og sérhæfa mig í vatni. En kynnin af krabbanum varð til að ég gerði upp við Guð og fór í guðfræðina. Ég naut frábærra kennarra sem opnuðu heim fræðanna og tengdu vel við samtímann. Heimspekin heillaði mig líka. Ég var hvattur til að halda áfram námi og fékk styrki beggja megin Atlantshafsins og valdi að lokum að fara í doktorsnám í Vanderbiltháskóla í Nashville. Það var gott því guðfræðideildin þar var meðal þeirra tíu bestu í Ameríku. Mér bauðst kennslustaða vestra en valdi að fara heim. Og núna þegar maður horfir í afturspegilinn sé ég betur hve möguleikarnir eru margir og hvernig eitt leiðir af öðru. Ég held að ég hefði ekki orðið hamingjusamari í fræðaturni í Ameríku.

Presturinn

Svo vígðist ég til þjónustu við Skaftfellinga og upplifði dulmagn náttúru og fjölmargar víddir tilverunnar sem nýja Ófeigsbókin Öræfi tjáir vel. Ég lærði að elska skaftfellska náttúru og menningu, er alltaf með heimþrá austur. Svo fór ég norður og glímdi við þingeyskt kristnilíf sem var mjög skemmtilegt. Þingeyingar voru mjög fyndnir og höfðu gaman af að reyna prestinn. Í Bárðardal gengu nokkrir karlar ekki til altaris en þar sem jafnan var vel í bikarnum í messulok bað ég þá að hjálpa mér að tæma svo ég lenti ekki í vandræðum við akstur á heimleiðinni. Þeir kunnu að meta húmorinn og lærðu að meta gildi altarissakramentisins. En ég var stutt fyrir norðan. Pétur biskup bað mig að taka að mér rektorsstarf við Skálholtsskóla. Þar bjuggum við í fimm ár og síðan á Þingvöllum. Ég er lukkuhrólfur að hafa fengið að búa með börnum mínum og fjölskyldu á eða í þessum helgidómum íslenskrar menningar og börnin mín eru bæði mótuð og þakklát fyrir þessi ár í faðmi Íslands, inni í náttúru og sögu.

Svo fór ég í bæinn, stundaði fræðastörf og þjónaði á biskupsstofu, leysti af um tíma öðlinginn og vitringinn dr. Sigurð Pálsson í Hallgrímskirkju. En svo var ég valinn til prestsstarfs í Neskirkju frá vori 2004.

Þorpið okkar

Mér kom svolítið á óvart hvað Vesturbærinn hafði þróast yfir í að vera þorp í borginni. Skólarnir, kirkjan, KR, verslanirnar og sundlaugin hafa mótað þétta og öfluga einingu. Við stöndum saman um að vernda hverfið okkar og það er samhugur og döngun í þessu samfélagi. Fólk lætur sig hvert annað varða og það finnum við t.d. í nágrænnagæslu í mínum hverfishluta. Við þurfum að halda vökunni, gæta að stofnunum okkar, eins og kirkju og skólunum. Og ég aðhyllist þéttingu byggðar í Vesturbænum til að vega á móti umbreytingu margra íbúða í hverfi okkar í orlofsíbúðir Íslendinga erlendis.

 

Lærisveinninn

Já, ég lít nú reyndar svo á að Þingholtin sé systurhverfi, sumir segja úthverfi Vesturbæjarins! Og einhverjir töldu að með því að ég færi í prestsþjónustu á Skólavörðuholti væru Vesturbæingarnir að gera tilraun til að innlima Hallgrímssókn í Nessókn. En ég held að við eigum að auka samvinnu milli Hallgrímssóknar, Dómkirkjusóknar og Nessóknar og líka Seltjarnarnessókn líka. Þetta er eitt svæði og þó við sameinum ekki sóknir er hægt að auka samstarfið og samnýta mannafla og mannauð. Það er margt líkt í kirkjustarfinu í Neskirkju og Hallgrímskirkju en þó margt sem er ólíkt. Ferðamennskan í Hallgrímskirkju er mikil. Nú í febrúar eru jafn margir ferðamenn og í júlímánuði fyrir fimm árum. Það er merkilegt viðfangsefni að þjóna yfir hálfri milljón ferðamanna vel og útvíkka hina kirkjulegu þjónustu við þetta fólk. Hallgrímskirkja er orðin pílagrímakirkja, fólk sækir til hennar vegna þess að hún er fræg sem ein af áhugaverðustu kirkjum í heimi og er á ýmsum “must see” listum ferðamennskunnar. Hún er tákn Reykjavíkur og útlína borgar- og menningarlandslags þjóðarinnar. Kirkjan gegnir hlutverki sem musteri sálmaskáldsins og kirkjulistar, ekki síst tónlistar. Mér hefur verið tekið ótrúlega vel og hefur komið á óvart hin mikla vinsemd sem ég hef mætt. Ég sagði við vin minn í Vegamótafiskbúðinni um daginn að mér hefði ekki verið tekið betur þó ég hefði verið einn af lærisveinum Jesú. Og hann horfði á mig og sagði: „Nú, þú ert lærisveinn Jesú“ sem er rétt. Það er margt nýtt í Hallgrímskirkju. Irma Sjöfn Óskarsdóttir, afar öflugur prestur var ráðin um leið og ég og starfsmannateymið er samstætt og reiðubúið að sækja fram.

Þó ég sé ekki daglega lengur í Neskirkju og fermi ekki í vor, sem ég sé eftir, held ég áfram að þjóna fólki í hverfinu. Ég er ekki farinn úr Vesturbænum, sæki kaffihúsið, sundlaugina, versla í Melabúðinni og Bónus, rölti um hverfið, æpi í KR-stúkunni á leikjum, fylgi strákunum mínum í þeirra skóla- og tómstundastarfi og leiði konuna mína áfram í rómantískum göngum á stígnum inn í Nauthólsvík. Ég held áfram að birta prédikanir og pistla á vefnum eins og áður og margir Vesturbæingar lesa. Svo held ég áfram að rækta minn stóra matjurtagarð og sinna ávaxtatrjánum mínum í garðinum. Ég aðhyllist lífið og held að ellefta boðorðið sé: Þér skuluð ekki vera leiðinleg!

Viðtal sem biritist í Vesturbæjarblaðinu í mars 2015, s. 4-5

Click to access VB-MARS-15.pdf

Þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna

Mér þykir vænt um Bandaríki Norður Ameríku. Ég naut bandarískra styrkja og þeirrar gæfu að nema við bandarískan háskóla. Ég kynntist mörgum og flest eru þau og voru úrvalsfólk. Ég komst að því margt af því besta, sem heimsmenningin hefur alið, varð til í Bandaríkjunum. Ég á frábært venslafólk sem er búsett vestra og hef lært margt af.

Á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna fagna ég. Alltaf hefur mér þótt skemmtilegt, að fáni þeirrar þjóðar skuli hafa sömu liti og hinn íslenski. Svo blakta þeir saman í vindinum, samlitir fánar litla og stóra. Um allan heim blaktir tákn Bandaríkjanna á þessum degi. Frelsisbarátta þjóða litar jafnan hátíðisdaga hennar. 4 júlí er þjóðhátíðardagur vegna þess að þann dag árið 1776 var samþykkt sjálfstæðisyfirlýsing hinna þrettán nýlendna, The Declaration of Independence of the Thirteen Colonies.

Yfirlýsingin á erindi við fólk sem hefur áhuga á gildum samfélaga, stjórnun, réttlæti, já og lífinu. Það er athyglisvert að lesa hina löngu röð ávirðinga og ákæra á hendur breskum stjórnvöldum sem rituð eru í sjálfstæðisyfirlýsingunni. Ef aðeins helmingur var sannur hefði það verið nóg til að réttlæta viðbrögð af hálfu nýlendumanna í Ameríku.

Kraftplagg í þágu heimsbyggðar

Bandarísk áhrif eru gríðarleg um allan heim. Sem heimsveldi hafa Bandaríkin oft beitt styrk sínum til góðs utan eigin landamæra og miðlað mikilvægum gildum sem varða mannréttindi og heilbrigði í stjórnmálum. En oft hefur utanríkispólitík þjóðarinnar verið skeytingarlítil um menningu, tilfinningar og stefnu annarra þjóða og hópa. Bandaríkjamenn fóru t.d. offari í Íraksstríðinu eins og allar helstu kristnar kirkjudeildir Bandaríkjamanna bentu á. Bandarísk stjórnvöld geta jú gert svipuð mistök og fallið í sömu gryfjur og Georg III sem gagnrýndur var í sjálfstæðisyfirlýsingunni. En öllum þeim sem er annt um gildi, góða pólitík og stjórnssýslu geta séð í yfirlýsingunni kraftplagg í þágu heimsbyggðarinnar. Bandaríkjamenn eiga í sögu sinni stöðuga áminningu til heilbrigði í pólitík og menningarlífi.

Lýðræði og mannréttindi

Sjálfstæðiyfirlýsing Bandaríkjanna fjallar um frumrétt fólks til lífs, frelsis og sóknar í hamingju. Rétt eins og siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther en ekki Thomas Jefferson héldi á pennanum segir í yfirlýsingunni, að til að fólk og þjóðir geti notið þessara grunngæða séu stjórnvöld stofnsett. Valdið er frá fólkinu og stjórnvöld stýra í krafti þess valds. Þegar þau bregðast skyldu sinni er rétt og skylt að kollvarpa stjórnvöldum. Hér er grunnhugsun lýðræðis og mannréttinda sett á blað. Fólk á rétt á lífi og lífsgæðum. Hlutverk stjórnvalda og þar með stofnana og einstaklinga er að verja þau gæði.

Mannvirðing er leiðarstjarna yfirlýsingarinnar og er endurómur kristinna grunngilda. Góð og ábyrg stjórn Bandaríkjanna er gæfa allrar heimsbyggðarinnar en vond stjórn á þeim bæ er ólán allra manna. Heimsbyggðin á eiginlega siðferðalega kröfu til að koma að vali forseta þessa stórveldis! Best væri að Sameinuðu þjóðirnar hefðu rétt á afneita vali forystu stærstu ríkja heims – þegar ljóst má vera að valið ógni heimsfriði eða fari á svig við almannahag heimsbyggðarinnar. Stjórnvöld valdamestu ríkja heims eru ekki einkamál þeirra.

Allir ættu að staldra við og lesa sjálfstæðisyfirlýsinguna og velta vöngum yfir tengslum hennar við kristinn boðskap. Sú tvenna veitir ljómandi blöndu af efni fyrir gott mannlíf! Til hamingju heimsbyggð, að Bandaríkjamenn skuli eiga kraftmikla sjálfstæðisyfirlýsingu og einnig góða stjórnarskrá.

Guð söngsins

endurnýjunGef að við mættum syngja þér nýjan söng.
Þú hefur gert dásemdarverk – gef okkur rödd, mál og söng í lífi okkar.
Gef að söngur um ást þína megi hljóma í öllu því sem við iðjum. Þökk fyrir öll þau sem hjálpa okkur að syngja um þig og til eflingar gleði í heimi.

Blessa samfélag okkar Íslendinga.
Legg þú verndarhendi á forseta, ráðherra, þingmenn og dómara.
Gef þeim réttlæti og þjónustuanda og vit til að greina milli eigin hags og almannahags.

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn. Drotinn heyr vora bæn

Guð frelsis og lækningar
Þökk fyrir páska – fyrir að lífið lifir – að þú lifir.
Vitja allra þeirra er þjást og syrgja, sakna og gráta.
Styrk þau öll og veit þeim von.
Gef þeim trú, traust, björg og blessun.

Við biðjum fyrir öllum þeims sem eiga um sárt að binda í Nepal.
Vitja allra þeirra sem eru ofsóttir fyrir trú á þig í þessum heimi.

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn. Drotinn heyr vora bæn

Góði Guð
Blessa þú heimili okkar.
Gef okkur vit til að viðurkenna mistök okkar
og kraft til að biðjast fyrirgefningar þegar við höfum brotið af okkur,
mátt til að styðja heimilisfólk okkar til góðra starfa.

Gef að heimili okkar mættu vera vaxtarreitir til hamingju,
iðkunarstaðir góðra gilda og glaðvær vettvangur fyrir fólk.
Opnir staðir söngsins og faðmar fyrir hina grátandi.

Gef að við mættum lifa með þér og vera farvegir þínir.

Gef að við megum lifa í ástarsögu þinni og miðla henni í lífi okkar.

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn. Drotinn heyr vora bæn

Amen.

Bæn á söngdegi, cantate, 4. sd. eftir páska, 3. maí, 2015

Sr. Birgir Ásgeirsson kveður Hallgrímssöfnuð

BirgirPrestaskipti verða í Hallgrímskirkju á næstunni. Sr. Birgir Ásgeirsson varð sjötugur 9. mars síðastliðinn og kveður Hallgrímssöfnuð í messu 22. mars. Birgir hefur þjónað sem prestur Hallgrímskirkju frá árinu 2006 og verið prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra síðustu fjögur ár. Birgir var vígður til Siglufjarðar árið 1973 og varð sóknarprestur í Mosfellsprestakalli árið 1976. Frá 1990 og í fimm ár var hann sjúkrahúsprestur og frá 1996 prestur Íslendinga í Kaupmannahöfn og þjónaði einnig Íslendingum í Svíþjóð um tíma frá 1997. Birgir var sjúkrahúsprestur frá árinu 2002 þar til hann varð prestur Hallgrímskirkju.

Sr. Birgir á að baki afar farsælan feril sem prestur þjóðkirkjunnar. Að auki hefur hann starfað hjá ýmsum félögum, samtökum og fyrirtækjum og verið kallaður til ábyrgðarstarfa. Birgir er kunnur fyrir sálgæslufærni og nýtur virðingar fyrir lagni í stjórn kirkjumála í Reykjavík. Í Hallgrímskirkju hafa prédikanir hans og hugleiðingar vakið verðskuldaða athygli.

Eftir kveðjumessuna, sem hefst kl. 11 eins og barnastarf kirkjunnar, verður kaffi á könnu og kaka á borði í Suðursal kirkjunnar. Allir eru velkomnir. Hallgrímssöfnuður þakkar sr. Birgi Ásgeirssyni frábæra þjónustu.