Greinasafn fyrir merki: Eistland

Syngjandi saga – Tallinn

Ég var svo lánssamur að heimsækja Eistland meðan þjóð og land var hluti Sovét. Söngbyltingin hófst árið 1987 og þegar ég kom árið 1990 stóð hún enn yfir. Eistar sungu sig til frelsis. Engar byssur, hnífar eða sprengjur. Raddir fólks með frelsið í hjarta – besta byltingaraðferð heimsins. Og það var hrífandi að kynnast söngmætti Eista og mikilli tónlistarvisku. Og Arvoo Pärt er uppáhalds.

Á þessum slita- eða lokatíma kommúnismans var hin forna borg Tallinn svört, skítug, lemstruð, í sárum. Hún var flekkótt vegna brútalískra sovéthrúgalda sem byggð höfðu verið til að hýsa nútíma Eistlands. Í þessari fyrstu heimsókn minni bjó ég á Olympíuhótelinu sem var byggt norðan við borgina. Sú bygging var með þeim skári. Leigubílstjórarnir keyrðu Lödurnar hratt inn í borgina. Það var bræla í gömlum bílunum og okkur, útlendingunum, leið illa á ofsahraða sem var umfram getu bílanna. Ég var á guðfræðiþingi sem Lútherska heimssambandið hélt, kynntist þá kraftmiklum ungprestum Eista og norrænum guðfræðingum og háskólakennurum. Mörg þeirra hef síðan hitt á kirkjufundum. Og nú er ég enn með þeim dásamlega Matin Lind, sem dansaði glaður og dreifði óhikað húmor og kraftmikilli guðfræði í kjötlausu Eistlandi sóvéttímans. Hann kenndi sænskum guðfræðinemum og varð svo með merkustu biskupum sænsku kirkjunnar á tuttugustu öld. Nú er hann, á áttræðisaldri biskup lútherana á Bretlandseyjum, alltaf nálægur, líflegur, skapandi guðfræðingur, enda Bonhoeffermaður.

Það var merkilegt að tala við fólk í Eistlandi á þessum breytingatímum. Átök voru í kirkjunni um hversu hratt ætti að fara í frelsissókninni og þar með átökum við Rússa. Eiginlega tókust á reiðir, ungir menn við hrædda, reynslumikla eldri menn (þekkir þú hliðstæðuna ?). Út í sveit, suður af Tallinn, kynntist ég kirkjulífinu sem átti rætur í þykkni aldanna og bar svip lífsreynslunnar. Þar var Jüri Bärg, merkilegur prestur, frægt ljóðskáld, hippi, sem hafði yfirgefið menningarelítuna í Tallinn til að fara út í sveit til að þjóna fólki. Það var hrífandi að sjá hlý samskipti hans við sóknarfólkið – heilagleiki sem maður ímyndaði sér að aðeins væri til í rómantískum biblíumyndum. En svo var þetta raunverulega fólk, sveitasamfélag og alvöru prestsþjónusta. Skáldið Jüri Bärg var dýrlingur. Hann minnti mig á tengsl Sigurbjörns Einarssonar við fólk – en þó þeir væru ólíkir í útliti voru þeir báðir hárprúðir. Kannski hippar Guðs.

Niður við strönd Eystrasalts var okkur, fundarfólki, kynnt hvernig kirkjan hafði verið meðhöndluð af tröllum tuttugustu aldar. Í strandbæ hafði kirkjunni verið breytt í liðsforingjaklúbb en söfnuðinum hafði tekist að forða altaristöflunni áður en tröllin áttuðu sig. En svo þegar fókið fékk kirkjuna sína að nýju kom altaristaflann úr geymslu háalofts í bænum. Og viti menn, þar var ein af mörgum kópíum af mynd Tégners sem er m.a. í dómkirkjunni í Reykjavík. Samsláttur tíma og staða, alda og safnaða. Vegir Guðs eru alls konar.

Gengi Rússaunglinga fór um götur Tallinn árið 1990, eyrði engu og réðust m.a. á okkur útlendinga. Fara varð með einn úr okkar hópi, Englending, á sjúkrahús. Svo illa var hann leikinn af bullum götunnar. Merkilegt þótti mér að verða vitni að því þegar þjóð var mikil af sjálfri sér og magnaðist til sjálfstæðis. Þessi reynsla gaf mér vitund um tilfinningar sem afar mínir og ömmur á Íslandi höfðu borið í brjósti einni öld fyrr. Um haustið prédikaði ég heima, við þingsetningu í dómkirkjunni, út af þessum átökum í Tallinn. Margir þingmenn komu til mín á eftir og vildu heyra meira um Eistland, árásir á götunum og viðhorf heimafólksins.

Árið 1998, átta árum síðar, kom ég svo til Tallinn að nýju. Þá var ég í fríðum hópi Mótettukórs Hallgrímskirkju. Kórinn var í söngferð um Norðurlönd í sumarbyrjun 2008. Við sungum í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Eistlandi. Meðal þess sem var á efnisskrá voru Óttusöngvar á vori, hið magnaða verk snillinganna Matthíasar Johannesen og Jóns Nordal. Kórinn hélt flotta tónleika 8. júní. Forseti Íslands var í opinberri heimsókn til Eistlands. Því var þjóðsöngurinn fluttur, en upphafið þó oftar en heildin – þ.e. tvisvar. Fyrstu tónarnir voru ómstríðir og Hörður Áskelsson, stjórnandinn, sló af. Svo var byrjað hreint og aldrei hefur lofsöngurinn verið sunginn af meiri innlifun og ákefð en í Karlskirkjunni þennan dag. Þannig var og er aginn og andinn í Mótettukórnum, mistök magna snilld. Hvort er mikilvægara að muna upphafið, eða heildarupplifunina eða hvort tveggja? En ég man dásemdina vegna hins óvænta og skelfandi upphafs. Framhaldið var skemmtilegt í þjóðarbókhlöðunni eftir tónleikana. Forseti Eistlands var hlýr í garð okkar Íslendinga. Baltnesku þjóðirnar gleyma ekki frumkvæði Íslendinga í frelsisbaráttunni. 

Árið 2002 kom ég svo á fund Porvoo-kirknasambandsins í Tallinn. Það var þriðja ferðin til borgarinnar. Anglikanar og Lútheranar eiga með sér samtök og á þessum árum og svo á síðari árum hef ég verið fulltrúi þjóðkirkjunnar í samtökunum. Síðan er fundur sömu samtaka í Tallinn í október 2018. Og aftur gisti ég á sama hóteli og fyrir 16 árum, rétt við gömlu Tallinn, sem er réttilega á menningar- og minjaskrá Unesco.

Borgin hefur breyst mikið á þessum 28 árum síðan ég kom fyrst. Nú er hún hrein, sótið er horfið. Búið er að laga flestar byggingar eftir húsakreppusótt kommúnismans. Meira segja kirkjurnar eru pússaðar og fallegar. Kirkjurnar í miðborginni voru í hræðilegu ástandi árið 1990. Tiit Päddam, arkitekt, var ungur biskupssveinn á þeim tíma og gekk í verkin ásamt vaskri ungsveit kirkjufólks í Eistlandi. Allir sem komu til Eistlands á þessum tíma gerðu sér grein fyrir að þörf var á stuðningi og norrænu kirkjurnar skáru ekki við nögl. Þökk sé þeim. Nú eru flest bráðaverkin unnin, en orgelin eru þó í þörf fyrir stillingu og viðhald. Sum þeirra eru með skerandi bænahljóm. Klukkurnar í turnunum eru sumar skringilegar í hljómi. Þær hafa þörf fyrir athygli og kunnáttuhendur. En það tekur tíma að byggja upp allt það sem illa hafði farið á löngum krepputíma.

Tallinn á sér mikla sögu. Danir komu hér að ströndum og stjórn á þrettándu öld og jafnvel hugsanlegt að Tallinn merki einfaldlega borg Dana – á latínuninni var hún Castrum Danorum. Í Njálssögu er borgin nefnd Rafala, sem er í samræmi við lík heiti borgarinnar á mörgum málum. Reveli hét hún gjarnan á fyrri öldum.  

Tallinn er eftir tæplega þrjátíu ára frelsi orðin alþjóðleg borg. Það er mikill kraftur í atvinnulífinu. Eistar hafa verið dugmiklir í stofnun fyrirtækja. Brautryðjendaandinn lifir. Tölvutækninni var tekið fagnandi og sagt er að Skype eigi sér eistneskt upphaf.

Það er gaman að rölta um gömlu borgina, skoða handverksmuni, fara í kirkjurnar og horfa upp í himininn og skoða alla kirkjuturnana. Já Hallgrímskirkjuturn er flottur en við lok 16. aldar var helmingi hærri turn við Ólafskirkjuna í Tallinn! Hann varð nú reyndar eldi að bráð en er nú 123 metrar sem er fimmtíu metrum hærri en okkar heima. Það er hægt að hlaupa upp allar tröppurnar í þann turn, sem eru á þriðja hundrað ef farið er alla leið. Það er talsvert. Mér er til efs að þéttleiki kirkna sé nokkurs staðar meiri en í miðborg Tallinn. Takk fyrir mig og takk fyrir margra alda og dásamlegu Tallinn.

(Svo mæli ég með hinu frábæru veitingastöðum sem eru í borginni. Ekki fara á þá ódýrustu. Fáið ráð hjá Tripadvisor, Michelin og öðrum góðum ráðgjöfum. Lítið dýrara en mörgum sinnum betri veitingastaðir – sumir stórkostlegar mathallir.)